Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012
30.6.2012 | 01:54
Fáeinar seigar málsgreinar um þrumuveður
Það hefur alllengi verið ætlan ritstjórans að troða ritgerð um þrumuveður inn í hungurdiska - en ekkert orðið úr því. Þetta er einfaldlega svo langur texti að samantekt hans rúmast ekki innan þeirra tímamarka sem leyfð eru í ritun pistlanna.
Tilefni þess að minnst er á þrumuveður einmitt nú er að undanfarna þrjá daga hefur eldingaskráningarkerfi bresku veðurstofunnar numið slæðing af eldingum yfir Íslandi. Það skráir ekki nærri allar eldingar sem hér verða - en samt. Ekki er algengt að eldingar mælist hér dag eftir dag. - En breska kerfið hefur undanfarna daga mælt tugþúsundir eldinga sama daginn í námunda við Bretlandseyjar og svæðið þar austur af. Heldur verða okkar þrumuveður ómerkileg í samanburði.
Hér að neðan kemur orðið hræðilega, mættishiti, fyrir æ ofan í æ (æ, æ). Mættishiti er sá hiti sem loft hefur eftir að hafa verið flutt úr sinni hæð niður undir sjávarmál (1000 hPa). Hann er stundum (subbulega) kallaður þrýstileiðréttur hiti og leiðir okkur í allan sannleika um það hvort loft er kalt eða hlýtt. Hann gerir mögulegt að bera saman hita í efri loftlögum og niður undir jörð á jafnréttisgrundvelli. Mættishiti vex ætíð upp á við. Geri hann það ekki leiðréttir lofthjúpurinn þá uppákomu snarlega með því að snúa sér við - þannig að hærri mættishitinn snúi upp.
Þrumuveður verða einmitt til þegar veðrahvolfið fer að velta sér, mættishiti í neðri hluti þess verður svipaður og mættishitinn í efri hlutanum. Þau fylgja því óstöðugu lofti og (i) því óstöðugra sem loftið er og (ii) því hærra sem veltingurinn nær og (iii) því meiri raki sem er í loftinu, því öflugri eru veðrin.
Síðdegisskúrir koma helst hér á landi þegar veðrahvolfið er óvenju kalt, þá á loft sem hlýnar við snertingu við hlýtt jarðaryfirborð möguleika á að komast hátt upp. Það lyftist allt þar til það kemst upp undir loft með hærri mættishita.
Þótt Ísland sé lítið er hitamunur oft talsverður milli inn- og útsveita á góðum sumardögum. Stöðugleikinn er þá mun minni yfir landinu en umhverfis það. Ef mættishiti í háloftunum yfir Íslandi lækkar minnkar stöðugleikinn og fyrir kemur að hann verður nægilega lágur til að íslenska meginlandsupphitunin rjúfi múrinn. Sá múr rofnar mun oftar yfir meginlöndunum á sumrin þó mættishiti þar í háloftum sé oftast nokkru hærri en hér vegna þess að þar er hann því hærri í neðstu lögum.
En undanfarna daga hefur mjög kalt háloftaloft ráðist suður um Bretlandseyjar og lent ofan á röku, hlýju lofti úr suðri og suðaustri. Lágúr mættishiti lenti þar með ofan á háum - sem gengur ekki.
Við höfum setið undir svipuðum veðrahvarfakulda og bretar en hlýja raka loftið hefur alveg vantað. Kalda loftið er heldur þurrbrjósta. En samt voru sunnlensku demburnar í dag (föstudag 29. júní) býsna snarpar.
Nú mætti rita langan pistil um hinar mismunandi tegundir þrumuveðra utanlands og innan - en lesendum er vægt að sinni.
29.6.2012 | 01:22
Kuldinn enn óþægilega nærri
Við lítum enn á norðurhvelskort 500 hPa hæðar og þykktar. Þetta er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á laugardag (30. júní) kl. 12 á hádegi.
Ör bendir á Ísland rétt neðan við miðja mynd. Við sjáum annars mestallt norðurhvel norðan við 30. breiddarstig og enn sunnar í neðri hornunum. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar og heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Hvasst er þar sem línurnar eru þéttar og vindur blæs nokkurn veginn samsíða línunum. Hvergi er þó mjög hvasst á þessu korti - helst yfir Vestur-Evrópu þar sem lægðir leika lausum hala eins og að undanförnu.
Kortið skýrist og batnar talsvert við stækkun sem má framkalla með því að smella endurtekið á það.
Litafletirnir marka þykktina, einnig í dekametrum, því meiri sem hún er því hlýrra er loft í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli grænna og gulbrúnna lita eru við 5460 metra. Á sumrin viljum við helst ekki vera neðar. En því er ekki að heilsa á þessu korti, það er 5340 metra jafnþykktarlínan sem strýkst við norðausturströndina. Undir þeirri þykkt er hætt við næturfrosti í björtu veðri. - Það viljum við auðvitað ekki.
En enn kaldara er í miðju kuldapollsins austan Grænlands. Hann reikar þar stefnulítið um - en kemst vonandi ekki nær. Enn snarpari kuldapollur er við austanverða Síberíuströnd - og er sem stendur að fjarlægjast okkur. Mikil og hlý hæð er yfir kanadísku heimskautaeyjunum, þar fréttist í dag af 10 til 15 stiga hita til landsins og þar sem bjart er vinnur sólin á hafísnum.
Við sjáum líka hlýindin yfir Bandaríkjunum, þar er þykktin jafnvel meiri en 5820 metrar. Á þeim slóðum er talsverð dægursveifla í þykktinni. Hún er því enn meiri síðdegis. En mesta þykkt á kortinu er (eins og algengast er) yfir Írak, Íran og Pakistan, yfir 5900 metrar.
Evrópa er tvískipt - vestast er óttalegur kuldi miðað við árstíma og eins í Skandinavíu. Mun hlýrra er í Miðevrópu.
En hvað um framhaldið? Í þessari spásyrpu evrópureiknimiðstöðvarinnar (frá því kl. 12 á fimmtudag 28. júní) á þykktin ekki að fara upp fyrir 5460 metra hér á landi fyrr en eftir viku - en auðvitað er engu að treysta um spár svo langt fram í tímann.
Engar lægðir eiga að koma hér nærri næstu daga - en samspil kalda loftsins og sólarinnar geta e.t.v keyrt upp síðdegisskúrir sums staðar á landinu. Undanfarna daga hafa spár stundum gert talsvert úr úrkomu á mánudag - þriðjudag. Í gær sagði bandaríska gfs líkanið að rigna myndi 60 til 70 mm á tveimur dögum í Reykjavík - en í dag segir sama spá að úrkoman verði aðeins 2 mm. Spásyrpa sú sem kortið að ofan er úr gefur 20 mm á tveimur dögum í Reykjavík u.þ.b. á mánudag.
Svona óskaplega ósammála geta spár orðið - en engin afstaða er hér tekin frekar en venjulega.
28.6.2012 | 00:58
Tvær veðursjár ná yfir stóran hluta landsins
Nú er hægt að fylgjast með mælingum úr tveimur veðursjám Veðurstofu Íslands samtímis. Hér að neðan er dæmi. Suðvesturlandssjáin er staðsett á Miðnesheiði skammt frá Leifsstöð en Austurlandssjáin er á Miðfelli ofan Fljótsdalsstöðvar (mikið mið). Hér er klippt nokkuð utan af upprunalegri mynd til að smáatriðin sjáist ívið betur.
Ljósi bakgrunnurinn sýnir það svæði sem sjárnar ná í sameiningu að fylgjast með. Þær sjá best það sem næst er - en síðan hverfur það sem lágt liggur meira og meira úr sjónlínu eftir því sem lengra dregur frá sjánum. Einnig spilla fjöll víða útsýni þeirra. Eystra skyggja t.d. Vatnajökull og Austfjarðafjöllin á það sem lágt liggur og ýmis fjöll trufla einnig útsýni á Suðvesturlandi, t.d. Snæfellsnesfjallgarðurinn. Sjárnar senda út geisla sem síðan speglast til baka og er endurkastið mælt. Úrkoma sést mun betur heldur en litlir skýjadropar og slydda best allra úrkomutegunda.
Litakvarðinn á myndinni sýnir styrk endurkastsins, blátt er veikast, síðan grænt, gult táknar mikið endurkast og rautt mjög mikið. Sjá má nokkra gula og rauða bletti yfir Suðvesturlandi en þar voru í dag miklar skúradembur með þrumum og eldingum.
Hægt er að láta sjána giska á úrkomuákefð og á þessari mynd giskar Miðnesheiðarsjáin mest á 12 til 25 mm á klukkustund í rauða blettinum á myndinni. Það er mikið.
Þegar margar myndir voru skoðaðar í röð kom í ljós að greina mátti tvenns konar hreyfingu. Annars vegar hreyfðist hvert ský til suðsuðvesturs undan vindi í eins til fjögurra kílómetra hæð. Hins vegar mátti grein að lína á milli bókstafanna A og B, sem á myndunum myndaði eins konar norðurmörk skúrasvæðisins, hreyfðist í suðaustur. Þetta var hreyfistefna háloftalægðardrags í meir en 5 kílómetra hæð.
Staða dagsins var býsna flókin. Hafgola neðst, síðan norðaustanátt ofan við og þar á ofan norðvestanátt. Meira að segja getur verið að rétt ofan á hafgolunni hafi flotið mjög hæg austsuðaustanátt. Stefnumót sem gat af sér miklar dembur og þrumur.
En ritstjórinn er ekki vel að sér um veðurratsjár og afurðir þeirra - eru þeir sem meira vita beðnir forláts.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2012 | 01:39
Óstöðugt loft á miðhæðinni
Megnið af öllu uppstreymi (öðru en því sem fjöll valda með því að flækjast fyrir loftstraumum) á uppruna sinn í yfirborði (lands eða hafs) sem er hlýrra en loftið sem um það leikur. Loft sem ekki snertir jörð getur þó orðið mjög óstöðugt við sérstök skilyrði, sérstaklega þar sem þannig hagar til að hlýtt og rakt loft stingur sér inn á milli annarra loftlaga. Sömuleiðis getur loft orðið óstöðugt við það að loft á efra borði skýja kólnar (með útgeislun) meira heldur en það sem er neðar í skýinu.
Stundum má greinilega sjá þennan óstöðugleika með því að fylgjast með skýjafari. Skýjum er skipt í þrjá meginflokka eftir hæð þeirra, lágský, miðský og háský. Gráblika og netjuský teljast til miðskýja. Gráblikan er nærri því alltaf eins grátt jafndreift þykkildi um himininn, ýmist hluta hans eða hann allan sem sér móta fyrir sól í gegnum án allra rosabauga. Netjuskýin eru hins vegar mjög fjölbreytt. Þau eru oftast flöt, það er að segja meiri á þverveginn heldur en þykktina. Það táknar að þau fylgja tiltölulega stöðugu lofti.
Sé loft hins vegar óstöðugt í netjuskýjahæð myndast þar allt öðru vísi ský, við getum jafnvel kallað þau sérkennileg. Þau eru flokkuð í tvær tegundir, altocumulus castellanus og altocumulus floccus. Skýringarmyndin hér að neðan er tilraun til að lýsingar á skýjunum (fengin úr bókinni góðu, Elementary Meteorology).
Altocumulus castellanus eru til vinstri á myndinni. Þau eru raðir eða garðar bólstra þar sem hver einstakur bólstur er talsvert hærri heldur en hann er breiður. Þeir virðast vera litlir um sig en botnarnir eru miklu hærra á lofti heldur en botnar venjulegra bólstraskýja. Á íslensku köllum við þessa skýjategjund netjuborgir eða turnnetjuský. Stundum má sjá slæður eða stafi (virga) ískristalla falla úr skýjunum.
Hin tegundin, altocumulus floccus er til hægri á myndinni. Þetta eru að sjá stakir litlir brúskar eins og ullarhnoðrar dreifðir óreglulega um allstóran hluta himins. Við megum kalla þetta brúska- eða lagðanetjuský, netjubrúska eða jafnvel hnökranetju.
Nefjuborgir sjást endrum og sinnum hér á landi, en brúskarnir sjaldnar. Erlendis fá þessar skýjategundir sérstaka athygli veðuráhugamanna því þau eru gjarnan forboði þrumuveðra.
Hérlendis eru háskýjabræður netjuskýjanna, cirrocumulus castellanus (blikuturnar eða blikuborgir) og cirrocumulus floccus (blikulagðar), algengari.
Á þessum tíma árs er bjart mestallan sólarhringinn og kjöraðstæður til þess að fylgjast með skýjafari. Prófið að leita að myndum af þessum skýjategundum á netinu með því að setja alþjóðaheitin í leit. Varist þó að í myndasöfnunum eru skýin oft ranglega greind - stöku sinnum mjög gróflega.
26.6.2012 | 01:15
Smávegis hitabylgumetingur
Ekki hefur mikið borið á mjög hlýjum dögum það sem af er júní og víst að mánuðurinn fer varla að skora hátt á hitabylgjulistum úr þessu. Hvað verður síðar í sumar vitum við ekki.
Hér á landi eru ekki gerðar miklar kröfur til veðurs svo farið sé að tala um hitabylgju. Fyrir níu árum (2003) gerði ritstjórinn samantekt um hitabylgjur og hlýja daga og fór þar að telja um leið og hámarkshiti á einhverri veðurstöð landsins fór í 20 stig. Þeir sem vilja geta sótt allan skilgreiningarfróðleikinn í þessa ritgerð, en hún er aðgengileg á vef Veðurstofunnar. Þar eru birtir margskonar listar og annar óþarfur fróðleikur. En síðan þetta var hafa hitabylgjur leikið lausum hala og gott að líta á toppsætin eins og þau eru nú.
En fyrst skulum við líta á mynd sem sýnir tíðni 20 stiga hámarkshita á landinu frá ári til árs 1949 til 2011. Reiknað daglegt hlutfall þeirra skeytastöðva á landinu öllu sem ná 20 stigum í lestri kl. 18 - af heildarfjölda. Síðan eru hlutföll allra daga mánaðarins lögð saman. Hæsta hugsanlega tala væri því 3100 (31x100) í júlí og ágúst, en 3000 í júní. Á línuritinu eru tölurnar miklu lægri og óralangt í mettun þessarar mælitölu.
Lóðrétti ásinn sýnir mælitöluna. Því hærri sem hún er því gæfara hefur árið verið á 20 stigin. Lárétti ásinn nær yfir tímabilið 1949 til 2011. Við sjáum að sumarið í fyrra var óskaplega hitabylgjurýrt miðað við það sem annars hefur verið frá miðjum tíunda áratug 20. aldar. Reyndar var sumarið 2001 enn rýrara. Það vekur einnig eftirtekt hversu miklu meira hefur verið af 20 stiga hita á síðari hluta línuritsins miðað við fyrri hlutann. Þetta er ótrúleg breyting.
En lítum nú á toppdagana. Hér ræður hámarkshiti kl. 18 ræður - hlutfall allra skeytastöðva. Þetta eru þeir 15 dagar sem hæst skora.
röð | ár | mán | dagur | hlutf |
1 | 2004 | 8 | 11 | 61,9 |
2 | 2008 | 7 | 30 | 57,6 |
3 | 1949 | 6 | 20 | 50,0 |
4 | 1980 | 7 | 31 | 46,3 |
5 | 2008 | 7 | 29 | 45,5 |
6 | 1949 | 6 | 22 | 43,8 |
7 | 2004 | 8 | 12 | 40,5 |
8 | 2004 | 8 | 13 | 40,5 |
9 | 2004 | 8 | 10 | 38,1 |
10 | 1949 | 6 | 19 | 37,5 |
11 | 1949 | 6 | 21 | 37,5 |
12 | 2008 | 7 | 28 | 36,4 |
13 | 1955 | 7 | 24 | 36,0 |
14 | 1949 | 7 | 7 | 35,3 |
15 | 1986 | 6 | 28 | 34,9 |
Tvær nýlegar hitabylgjur eru hér mjög áberandi, ágústbylgjan 2004 og júlíbylgjan 2008. Þetta eru áreiðanlega í raun og veru mestu hitabylgjur síðustu 60 ára - og hugsanlega yfir enn lengra tímabil. Hér skorar hitabylgjan mikla í júní 1949 einnig mjög glæsilega. Hinn einstaki 31. júlí 1980 er mjög ofarlega á lista.
Lengri gerð (topp 100) er í viðhenginu.
Erfiðara er að fara lengra aftur í tímann - það verður þó vonandi gert á næstu árum. En þangað til látum við okkur nægja að sjá hvaða mánuðir það eru sem skora best á hlutfallslista (sjá ritgerðina). Talið er saman hversu margar stöðvar á landinu hafa náð 20 stigum í ákveðnum mánuði borið saman við heildarfjölda stöðva. Sá listi nær til 1924.
röð | ár | mán | hlutf |
1 | 2004 | 8 | 90,7 |
2 | 1939 | 7 | 89,3 |
3 | 2008 | 7 | 87,8 |
4 | 1944 | 7 | 84,6 |
5 | 1947 | 7 | 83,3 |
6 | 1929 | 7 | 75,0 |
7 | 1939 | 6 | 75,0 |
8 | 1991 | 7 | 74,3 |
9 | 2002 | 6 | 71,2 |
10 | 1949 | 6 | 71,0 |
11 | 2005 | 7 | 68,9 |
12 | 1946 | 7 | 68,0 |
13 | 1939 | 8 | 64,3 |
14 | 1934 | 6 | 63,2 |
15 | 1980 | 7 | 61,8 |
Hér er ágúst 2004 á toppnum, en júlí 1939 og 2008 eru skammt undan. Júní 1939 er í sjöunda sæti og ágúst sama árs í því 13. Þetta ár virðist eiga samanlagt flestar hitabylgjur. Önnur sumur hafa hitabylgjur þær sem komið hafa yfirleitt einskorðast við einn mánuð. Við sjáum að hitabylgjur í júlí 1944 og 1947 eru mjög ofarlega.
Uppgröftur á eldri heimildum er enn styttra kominn, en þó má til gamans birta lista yfir þá mánuði á tímabilinu 1874 til 1923 sem e.t.v. kæmust á mánaðaskrána hér að ofan.
röð | ár | man | h-hlutfall |
1 | 1908 | 7 | 76,2 |
2 | 1894 | 7 | 75,0 |
3 | 1911 | 7 | 75,0 |
4 | 1876 | 8 | 75,0 |
5 | 1919 | 7 | 73,3 |
6 | 1914 | 8 | 61,1 |
Þetta tímabil hefur greinilega átt sín góðu augnablik. Júlí 1908 á toppnum. Athugið að taka ber listana hóflega alvarlega - mælikvarðar eru ekki einhlítir.
25.6.2012 | 00:40
Enn um hálflæsta stöðu
Fyrir viku fjölluðu hungurdiskar um þráláta stöðu veðurkerfa að undanförnu. Síðustu viku hefur lítið sem ekkert breyst í þeim efnum - en við skulum samt líta á nýja gerð kortsins sem þá var sýnt.
Myndirnar eru sem fyrr fengnar úr síendurgreiningarsafni bandarísku veðurstofunnar. Sú hér að ofan sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins fyrstu 22 dagana í júní. Hún er mjög lík korti sem sýndi stöðuna fyrri helming mánaðarins og birtist hér fyrir viku. Hinn framhallandi hryggur yfir Grænlandi hefur heldur styrkst ef eitthvað er - og enn er lægðasvæði fyrir sunnan land sem beinir úrkomu og jafnvel leiðindaveðri inn yfir norðanverða Evrópu.
Örvarnar þrjár sem stefna til Íslands úr norðri tákna sem fyrr hæðarbeygjuna (rauðgul) - í henni er léttskýjað og þar sem vindur stendur ekki af landi er sólríkt og hlýtt að deginum. Dökkbláa örin táknar lægðarbeygju (eða alla smákuldapollana sem rúllað hafa yfir okkur) og er köld og jafnvel þungbúin. Miðörin táknar eitthvað þar á milli. Fimmhundruð hPa-flöturinn stendur hærra en að meðallagi þannig að þar uppi er út af fyrir sig hlýtt.
En þetta ástand hefur í raun staðið lengur - og fer hvað úr hverju að verða óvenjulegt. Umskiptin urðu um mánaðamótin mars-apríl. Lítum því á meðalkort fyrir allt tímabilið frá 1. apríl til 22. júní.
Hér eru jafnhæðarlínur heldur mýkri - en við sjáum hæðarhrygginn (græn punktalína) mjög vel og sömuleiðis lægðardrag yfir Bretlandseyjum. Gulbrúna örin sýnir ríkjandi vindátt yfir Íslandi á þessu tímabili - norðvestanátt með hæðarbeygju vestan við, en lægðarbeygju fyrir austan land. Flest allt sem kemur beint frá Grænlandi er afskaplega þurrbrjósta. Hér sést því hin stöðulega ástæða þurrkanna. Hvað svo veldur þeirri stöðu er annað mál og erfiðara viðfangs.
Meðalvindátt í 500 hPa í apríl til júní er merkt sem svört ör á kortið. Vestsuðvestanátt er ríkjandi eins og oftast hér á landi. Hún á sér reyndar fleiri en eina birtingarmynd.
Nú virðist sem þessi staða hæðarhryggs í vestri og lægðar yfir Bretlandseyjum muni í aðalatriðum halda sér út mánuðinn (júní) og fer - eins og áður sagði að verða óvenjuleg. Að vísu hefur eitthvað svipað oft verið viðloðandi vor og snemmsumar síðustu ára. Eftir að júnímánuður hefur verið gerður upp má reyna að leita að einhverju ámóta í fortíðinni.
24.6.2012 | 01:34
Óbreytt ástand (samt svalara)
Hæðarhryggurinn yfir Grænlandi og hafinu þar suður af virðist ætla að verða þrálátur. Helsta tilbreytingin er sú hversu nálægt hryggjarmiðjan hefur verið hverju sinni. Þegar hún er nærri ríkir hæðarbeygja á vindi en henni fylgir oftast niðurstreymi og þar með er bjartviðri ríkjandi um talsverðan hluta landsins. Síðan koma stöku dagar þegar hryggjarmiðjan þokast fjær og lægðardrög ganga hjá. Þeim fylgir lægðarbeygja, þyngri skýjahula og meiri líkur á skúrum. Í dag (laugardag) gera allar fáanlegar spár ráð fyrir því að þetta ástand haldi áfram eins langt og séð verður. Sumir fagna því sjálfsagt - en öðrum þykir miður.
Í dag (laugardag) vorum við í hæðarbeygjuástandi - veikur þverhryggur lá úr vestri yfir Ísland. Sólin gat því skinið baki brotnu og víða varð hlýtt inn til landsins - einn besti dagur sumarsins segja margir. En næsta lægðardrag fer hjá á sunnudag og mánudag. Því fylgir heldur kaldara loft úr norðri og skýjabakki. Hann er kominn inn yfir Vesturland þegar þetta er skrifað. Úrkoma gæti fallið - en reikningar gera heldur lítið úr henni. En lítum á 500 hPa spá sem gildir kl. 12 á sunnudag.
Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar og sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Línurnar eru hvergi þéttar nema yfir sunnanverðum Bretlandseyjum og Niðurlöndum - trúlega með leiðindaveðri. Að vanda teygir hæðarhryggurinn sig frá Nýfundnalandi og norður yfir Grænland. Austan í hryggnum er lægðardrag sunnudagsins og hreyfist suðsuðaustur. Því fylgir dálítill kuldapollur.
Það sjáum við af jafnþykktarlínunum en þær eru rauðar og strikaðar - sömuleiðis í dekametrum. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er í neðri hluta veðrahvolfs. Í dag (laugardag) var þykktin yfir landinu um 5480 metrar þannig að kólnunin sem fylgir lægðardraginu er ekki mikil - en ef skýjað verður munar mestu um sólarleysið. Ekki skal um það spáð á þessum vettvangi.
En eftir að lægðardragið fer hjá nálgast hryggjarmiðjan aftur með heldur hlýrra lofti og hæðarbeygju - þar til næsta lægðardrag kemur úr norðri um eða eftir miðja viku. Spurning hvað síðdegisskúrir Suðurlands gera þessa daga.
23.6.2012 | 02:00
Dökkur slóði - eða hvað?
Nú lítum við á tvær gervihnattamyndir og eitt spákort. Fyrst er hefðbundin hitamynd en veðuráhugamenn (ekki bara nördin) vita nokkurn veginn út á hvað slíkar myndir ganga.
Hér má sjá Ísland, myndin tekin laust eftir kl. 20 í kvöld (föstudag 22.júní). Býsna heiðríkt er á landinu. Sennilega eru flákaský yfir stórum hluta hálendisins. Háskýjabreiður eru bæði fyrir suðaustan- og norðvestan land. Undir miðnætti sást jaðar norðvesturbreiðunnar vel frá Vesturlandi. Við sjáum líka að yfirborð landsins (nema jöklarnir og fáeinir fjallatindar) eru dekkri (hlýrri) heldur en sjórinn umhverfis landið. Með góðum vilja getum við séð sveigjur á háskýjabreiðunum. Þetta eru að mestu sömu kerfi og sáust á korti sem fjallað var um hér á hungurdiskum fyrir tveimur dögum.
En lítum nú á næstu mynd. Hún er tekin um fjórum klukkustundum síðar og sýnir stærra svæði heldur en myndin að ofan.
Hér sést mjög einkennilegur dökkur slóði yfir landinu og myndin hefur allt aðra áferð heldur en algengust er á gervihnattamyndum. Með góðum vilja má þó sjá bæði skýjabeltin sem nefnd voru á fyrri mynd. Nútímagervihnettir taka myndir á fjölmörgum bylgjurásum. Þessar rásir sjá misvel til jarðar og sumar þeirra sjá yfirborðið mjög illa. Þessi sér nánast ekki neitt - en mislangt niður þó. Það er vatnsgufa sem byrgir sýn.
Á dökku svæðunum er minna af vatnsgufu heldur en annars. Ástæður geta verið fleiri en ein en sú algengasta er sú að þar er dæld í veðrahvörfum, loft úr heiðhvolfinu þrengir sér niður og býr til eins konar glugga í vatnaþokuna. Hér rekast á loft úr austri og loft úr vestri. Blöndun verður mjög treglega. Við getum ímyndað okkur tvær svampdýnur mætast - hvora úr sinni áttinni. Þegar þær rekast á byrja þær á því að beyglast upp á við, en í lofthjúpnum er auðveldara að beyglast niður. Dýnubeyglurnar geta orðið nokkuð háar - en að lokum lendir önnur dýnan undir hinni - átökum lokið.
Á myndinni sjáum við sennilega léttan árekstur af þessu tagi - austan- og vestanloftið klessist þó ekki saman - rennur frekar á misvíxl - beyglan er því heldur hógvær. Við áreksturinn beyglast veðrahvörfin niður á við og gluggi myndast í vatnsgufuhjúpinn.
Slóðinn yfir landinu breikkar til beggja átta - fyrir norðaustan land er dálítill kuldapollur - einn af mörgum í þessum mánuði. Suður í hafi er miklu stærra kerfi lágra veðrahvarfa. Myndir af vatnsgufurásum sýna sveipi af fjölmörgum tegundum sérlega vel, betur en hefðbundnari myndir.
Við lítum að lokum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar um mættishita í veðrahvörfunum á þeim tíma sem vatnsgufumyndin er tekin. Því lægri sem mættishitinn er því lægri eru veðrahvörfin (að öðru jöfnu). Hungurdiskar hafa alloft birt kort af þessu tagi - síðast á sunnudaginn var (dagsett 17. júní).
Ekki þarf lengi að horfa á þessa mynd til að sjá líkindin með henni og vatnsgufumyndinni. Dökki borðinn er nærri því á sama stað á myndunum tveimur og mikil líkindi eru með kerfunum sunnar á mynd og korti. Við sjáum að um það bil 20 stigum munar á mættishita í slóðanum og í skjöldunum vestan og austan við.
Ritstjórinn treystir sér ekki til þess að giska á hversu mikill munurinn er í metrum. Hann vill einnig að fram komi að hann er ekki sérlega þjálfaður í túlkun vatnsgufumynda og mætti kynna sér þær betur í framtíðinni.
22.6.2012 | 13:35
Skúraský og bólstrar (fróðleikspistill)
Bólstrar myndast einungis í óstöðugu lofti. Það gerist þegar loft kólnar á innrænan hátt í uppstreymi eftir að hafa hitnað að neðan af sólhituðu yfirborði lands eða streymt yfir hlýjan sjó. Yfirborðið getur bæði verið land sem hitað er af sól eða hlýr sjór sem kalt loft streymir yfir.
Til að ský myndist þarf óstöðuga lagið að vera nægilega þykkt (hátt) til þess að kæling að daggarmarki geti átt sér stað í stórum uppstreymisbólum. Geti loftbólurnar lyfst að daggarmarki vegna þeirrar orku sem þær fá frá heitu yfirborði (jörð eða hafi) eru talsverðar líkur á að þær geti lyfst enn meir því rakaþéttingin skilar dulvarma til skýsins sem er að myndast og auðveldar mjög uppstreymið, það er eins og hindrun hafi verið rutt úr vegi um leið og mettun er náð. Hæð skýsins ræðst síðan af almennum stöðugleika á svæðinu.
Rakt og mjög óstöðugt loft einkennist af háum og tiltölulega mjóum bólstraskýjum, en breið og fremur lág bólstraský myndast ef loft er tiltölulega þurrt og stöðugt. Erfitt getur verið að greina á milli flatra og lágra bólstra annars vegar og flákaskýja hins vegar. Lausnin verður gjarnan sú að séu skýin eitt og eitt á stangli kallast þau bólstrar, en séu þau þétt teljast þau flákaský.
Mjög algengt er að þróun til þess að gera efnilegra bólstra endi með því að þeir rekast uppundir mjög stöðugt lag (gjarnan hitahvörf). Þar dreifist þá úr skýinu og skýjabreiða myndast, ýmist flákaský eða netjuský (eftir hæð stöðuga lagsins). Slík ský eru kennd við uppruna sinn og er þá einkennisorðinu cumulogenitus (bólstraafkvæmi) bætt við nafn þeirra. (stratocumulus cumulogenitus, altocumulus cumulogenitus). Oft gerist það að efnilegir bólstrar myndast í sólskini strax að morgni, þeir rekast síðan uppundir stöðugt lag fyrir hádegi. Þetta lag breiðir síðan svo úr sér að það dregur alveg fyrir sól og þar með dregur úr uppstreyminu og allt endar í mjög flatneskjulegri skýjabreiðu sem síðan hverfur þegar kvöldar.
Þegar hallar degi mynda bólstrar oft svokölluð kvöldský sem flokkast sem sérstök gerð flákaskýja (stratocumulus vesperalis) eða netjuský (af bólstrauppruna) áður en þau eyðast. Ef vindur breytist með hæð hallast skýin úr lóðréttri stöðu og geta efstu hlutarnir jafnvel tæst í sundur.
Loft í skýinu blandast gjarnan lofti utan við það því uppstreymið er ætíð óreglulegt, þetta ferli nefnist innblöndun (entrainment). Loftið utan skýsins er ómettað og við það að eitthvað af því lendir inni í skýinu fara skýjadroparnir að gufa upp. Við það kólnar loftið (varminn í uppgufunina er tekinn úr loftinu (skynvarma þess)) og það fer að síga aftur og getur tafið eða hindrað uppstreymið svo að það hættir staðbundið. Innblöndunin er mjög tilviljanakennd en veldur því að bólstraský sem ekki hafa rekist upp undir stöðugt hærra lag verða mjög mishá og hvert ský með sínu lagi. Blöndun af þessu tagi á einnig sök á tætingslegu yfirborði margra bólstraskýja.
Úrkomumyndun hefur áhrif á útlit skýsins, en myndist úrkoma hefur skýið undantekningarlítið breyst úr bólstra í skúra- eða éljaský.
Skúraský eða skúraklakkar (cumulonimbus) byrja yfirleitt tilveru sína sem venjulegir bólstrar. Þeir skipta um nafn þegar úrkoma fer að falla, en þá hafa ískristallar myndast í þeim. Venjulegir bólstrar eru yfirleitt eingöngu úr vatnsdropum. Oft eru þeir undirkældir (fljótandi þó hiti sé neðan frostmarks) og svo smáir að þeir lifa ekki af fall til jarðar. Bæði er það vegna uppstreymisins í skýinu en líka vegna þess að falli þeir niður úr því gufa þeir upp áður en þeir ná til jarðar. Til þess að dropi geti náð til jarðar verður hann að ná ákveðinni lágmarksstærð.
Svo lengi sem skýið inniheldur aðeins vatnsdropa fellur úrkoma ekki úr því. Reiknað hefur verið út að þó dropar í bólstraskýi séu mjög þéttir eru líkur á því að þeir sameinist og verði svo stórir að þeir geti fallið úr skýinu ekki nægilega miklar til að skýra öra úrkomumyndun í því. Þetta breytist um leið og ískristallar fara að myndast því raki á mun auðveldar með að þéttast á þeim heldur en örsmáum skýjadropum.
Þéttingin á kristöllunum gengur mjög hratt fyrir sig fari hiti í efri hluta skýsins niður í -8°C til 10°C. Ískristallarnir aféta dropana á örskammri sund í þeirri hæð í skýinu sem hiti er neðan frostmarks. Skúrin getur hafist aðeins 10-15 mínútum síðar. Oftast má greinilega sjá hvort ískristallamyndun er komin af stað eða ekki. Efsti hluti skýsins verður þá þráðakenndur og missir blómkálsútlitið. Mestu skúraský ná alveg upp í veðrahvörf og fletjast þá út og fá þá velþekkta steðjalögun. Vindur við veðrahvörfin ber steðjann oft til hliðar og geta þar myndast klósigar ef samfellu brestur í skýjalaginu.
Þá er komið að skýringarmynd, þar má sjá alþjóðanöfn stytt á hefðbundinn hátt. Myndirnar tvær í þessum pistli eru fengnar úr hinni ágætu bók: Elementary Meteorology sem Eyðublaðastofnun hennar hátignar bretadrottningar gaf út í fleiri en einni útgáfu. Hér var útgáfan frá 1962 notuð. Ritstjóri hungurdiska hefur breytt myndunum lítillega. Mælt er með þessari bók.
Á efri hluta myndarinnar sést ský stækka í þremur áföngum. (a) Fyrst birtist hóflegur bólstur, cumulus congestus (klakkur), nokkru síðar hefur skýið hækkað og fer að minna nokkuð á blómkál, cumulus congestus breytist í cumulonimbus calvus. Bókstafleg þýðing nafnsins er skallaregnbólstur. Skallinn vísar til þess að enn sjást engir þræðir í skýinu því hefur ekki vaxið hár. En skömmu síðar byrja fyrstu droparnir að falla og þá má sjá greinilegar trefjar koma fram í efsta hluta skýsins (c) og ískristallar koma í stað dropa í skýinu. Tætt þokuský (hrafnar) myndast stundum í úrkomunni séu rakaskilyrði hentug.
Uppstreymi í skúraskýjum á sér stað í uppstreymiseiningum sem hver tekur við af annarri eða eru jafnvel í samkeppni á sama tíma. Á neðri hluta myndarinnar (d) eru merktar þrjár misgamlar uppstreymiseiningar í fullþroska skýi, sú elsta (A) hefur þegar rekist á veðrahvörfin og myndað steðjaklósiga (incus), næsta eining (B) er við það að ná fullum þroska, takið eftir því að uppstreymið er svo öflugt að veðrahvörfin lyftast um stund þar sem það er mest, ný eining er að byrja að myndast við (C). Undir skýinu má sjá hrafna (pannus = tætla, ræma) og hér hefur einnig komið fram svokallað júgur- eða sepaform á neðra borði steðjans (mamma). Sú sérkennilega skýjamyndun markar oftast neðra borð á óstöðugu lofti sem fjarlægst hefur meginuppstreymisrásina. Júgurský eru ekki algeng hérlendis en þau myndast ekki eingöngu samfara skúraklökkum.
Til að skúra- eða éljaský geti myndast þarf óstöðuga loftið að vera þykkt (djúpt). Á vetrum er frost þó oft -10 stig eða meira í 1 til 2 km hæð. Hitaskilyrðum er þá fullnægt, en einnig þarf þá að vera nægilegt uppstreymi til að úrkomumyndun komist vel af stað. Megnið af rakanum sem myndar skúrir (él) hefur lyftst, upphaflegur hiti þess lofts verður að hafa verið það hár að það gæti innihaldið umtalsvert rakamagn. Það er því regla að því hlýrra sem neðsta loftlag er og því kaldara sem efstu lögin eru því öflugra verður skýið og því meiri úrkomu getur það myndað.
Í hitabeltinu er oft 28 til 30°C hiti við jörð þegar skúrir fara á kreik og loft það óstöðugt að skýið getur náð upp í allt að 18 km hæð eða upp að hitabeltisveðrahvörfum. Öll loftsúlan sem tekur þátt í uppstreyminu (fyrst neðan skýsins en síðan inni í því) er þrungin raka og getur skilað miklu úrfelli. Allra voldugustu skúraský geta náð 8 til 10 km hæð hérlendis að sumarlagi.
Ef hiti við jörð er þá t.d. 15°C og fellur fyrst þurrinnrænt (1°C/100 metra) upp í skýjabotn í 1 km hæð en eftir það votinnrænt (milli 5°C og 6°C á km) væri frost í 8 km hæð 35°C, en frost meira en 45° í 10 km.
Stórt skúraský er venjulega samsett úr nokkrum einingum skýja á mismunandi þroskaskeiði. Séu skýin það þétt að lítið sem ekkert bil er á milli er talað um skúraflóka. Stór svæði með skúraskýjum getum við hins vegar kallað skúrafláka.
Þegar uppstreyminu lýkur (t.d. að kvöldlagi eða þegar loftið kemur inn yfir land að vetrarlagi) leysist skýið upp. Þá verða stundum til mörg lög af fláka- netju- eða klósigaskýjum eða litlum bólstrum, allt eftir lagskiptum stöðugleika loftsins hverju sinni.
Síðari myndin sýnir leifar af miklu skúraskýi sem náð hefur upp að veðrahvörfum. Efst hanga þykkir klósigaflókar (cirrus spissatus), neðar lagskipt netjuský (altocumulus cumulogenitus) og undir þeim má oft sjá síðustu bólstarmyndanir dagsins, lágreistar, að gefa frá sér síðustu rigningardropa kerfisins. Einnig má sjá nokkuð bólgin flákaský (stratocumulus vesperalis = kvöldflákar).
Mjög fróðlegt er að fylgjast með dægursveiflu skýjahulu að sumarlagi - hvort sem loft er stöðugt eða óstöðugt.
Þar sem loft við Ísland er sjaldan óstöðugt frá jörð og upp í veðrahvörf er algengast að síðdegisskúrir rekist upp undir stöðugra loft strax í 3 til 5 km hæð en sú hæð dugar sé raki nægilegur.
Að sumarlagi er algengast hér á landi að skýin séu óreglulega dreifð og leggist ekki í skúrabakka. Skúrabakkar eru þó til en óstöðugleiki í þeim stafar stundum ekki eingöngu af upphitun að neðan heldur kemur fleira við sögu. Sögur af því verða að bíða betri tíma.
Textinn hér að ofan er fenginn úr hinni dularfullu Veðurbók ritstjóra hungurdiska - og er nokkuð styttur. Kann styttingana að gæta í flæði textans.
21.6.2012 | 00:13
Flatneskjan
Enn ríkir ótrúleg flatneskja á veðurkortum - langt er á milli jafnþrýstilína og stór þrýstikerfi langt undan. Meira að segja hefur sólfarsvindurinn haldið sér til hlés undir hóflegri skýjahulu. En samt er sitthvað að sjá á veðurkortum. Við skulum fyrst líta á eitt af venjulega taginu. Það sýnir spá um sjávarmálsþrýsting og úrkomu um hádegi á fimmtudag (21. júní) og er úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar.
Á kortinu er einnig spá um hita í 850 hPa-fletinum á sama tíma, rauðar strikalínur þar sem hiti er ofan frostmarks en grænblá strikalína sýnir frostmarkið. Eina almennilega lægðin á kortinu er yfir Írlandi. Hún hringsólar á þeim slóðum næstu daga og síðan fylgja fleiri lægðir í kjölfarið. Hæð er við Norður-Noreg. Hún á að hreyfast til norðausturs og út af kortinu. Þó þessi kerfi nái hvorugt beinlínis til Íslands mynda þau þó til samans hægan suðaustanvind sem beinir heldur hlýrra lofti til landsins en verið hefur síðustu daga.
Við skulum þó taka eftir því að frost er í 850 hPa fletinum (í um 1500 metra hæð) á allstóru svæði í kringum Ísland, en hlýrra og loft bæði austan og vestan við land. Þykka bláa strikalínan sýnir einskonar miðjuás þessa kulda. Það er eins og hlýrra loftið til beggja hliða hafi lítinn áhuga á því að koma yfir landið - en vestanloftið gefur nú aðeins eftir þannig að heldur hlýnar - í bili - eftir fimmtudaginn.
En það er bara í bili því enn eru smálægðardrög með tilheyrandi kuldapollum að skjótast úr norðri og norðvestri yfir landið með nokkurra daga millibili - lítið lát virðist á því. En við þökkum fyrir að fá einn til tvo daga með frostlausu á hæstu fjallatindum.
Á kortinu sést að við verðum að leita suður til Alpafjalla til að finna loft sem er tíu stiga heitt í 850 hPa austan við okkur, en hins vegar er talsvert af tíu stiga lofti við Grænland. En það á ekki að koma hingað þrátt fyrir að við lendum aftur í vestanlofti á sunnudag.
En flatneskjan við jörð leynir heldur meiri átökum í háloftunum. Við skulum aldrei þessu vant líta upp í 400 hPa-flötinn sem er í um 7 kílómetra hæð. Næsta mynd sýnir spá um vind og hita þar á sama tíma og yfirborðskortið hér að ofan.
Breiða, bláa strikalínan sýnir kuldaásinn í 400 hPa. Við sjáum að hann er á svipuðum slóðum og á hinni myndinni. Gríðarlegur vindstrengur er rétt vestan við land, þar er vindhraði um 35 til 40 m/s þar sem mest er og af norðaustri. Suðaustur af landinu er suðvestanátt en ekki nærri því eins hvöss.
Þunnu bláu strikalínurnar sýna hita í fletinum (í 7 km). Í kuldapollinum miðjum er frostið meira en -38 stig. Hitabratti er nokkur til suðausturs í átt til Skotlands en miklu meiri vestan við land. Hlýja loftið við Grænland sést hér enn betur heldur en á fyrra kortinu, það hallar sér til austurs yfir það kalda.
Þótt það nái alls ekki til jarðar bælir það skúramyndun á Vestfjörðum og jafnvel við Breiðafjörð - en skúrirnar eiga auðveldara með að ná sér á strik næst kuldaásnum sem gengur yfir landið. Uppstreymið í dag (miðvikudaginn 20. júní) náði samt ekki nema um 3 til 5 km hæð yfir Suðvesturlandi - en vegna þess hve frostmarkið var neðarlega mynduðust samt skúrir.
Skúrir myndast ekki nema að frjálst uppstreymi nái upp í frostmarkshæð. Í dag var hún um 1200 metrar.
Vindstrengurinn mikli hreyfist að þessu sinni í stefnu sína, það er til suðvesturs. Þegar linast á honum fær austanloftið betra tækifæri og frostmarkið fer ofar, sennilega í um 2 km á laugardag. Síðan kólnar enn á ný - en vonandi ekki mikið. - Svo geta allar spár auðvitað verið rangar.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 120
- Sl. sólarhring: 144
- Sl. viku: 955
- Frá upphafi: 2420770
Annað
- Innlit í dag: 111
- Innlit sl. viku: 843
- Gestir í dag: 106
- IP-tölur í dag: 105
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010