Flatneskjan

Enn ríkir ótrúleg flatneskja á veðurkortum - langt er á milli jafnþrýstilína og stór þrýstikerfi langt undan. Meira að segja hefur sólfarsvindurinn haldið sér til hlés undir hóflegri skýjahulu. En samt er sitthvað að sjá á veðurkortum. Við skulum fyrst líta á eitt af venjulega taginu. Það sýnir spá um sjávarmálsþrýsting og úrkomu um hádegi á fimmtudag (21. júní) og er úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg210612a

Á kortinu er einnig spá um hita í 850 hPa-fletinum á sama tíma, rauðar strikalínur þar sem hiti er ofan frostmarks en grænblá strikalína sýnir frostmarkið. Eina almennilega lægðin á kortinu er yfir Írlandi. Hún hringsólar á þeim slóðum næstu daga og síðan fylgja fleiri lægðir í kjölfarið. Hæð er við Norður-Noreg. Hún á að hreyfast til norðausturs og út af kortinu. Þó þessi kerfi nái hvorugt beinlínis til Íslands mynda þau þó til samans hægan suðaustanvind sem beinir heldur hlýrra lofti til landsins en verið hefur síðustu daga.

Við skulum þó taka eftir því að frost er í 850 hPa fletinum (í um 1500 metra hæð) á allstóru svæði í kringum Ísland, en hlýrra og loft bæði austan og vestan við land. Þykka bláa strikalínan sýnir einskonar miðjuás þessa kulda. Það er eins og hlýrra loftið til beggja hliða hafi lítinn áhuga á því að koma yfir landið - en vestanloftið gefur nú aðeins eftir þannig að heldur hlýnar - í bili - eftir fimmtudaginn.

En það er bara í bili því enn eru smálægðardrög með tilheyrandi kuldapollum að skjótast úr norðri og norðvestri yfir landið með nokkurra daga millibili - lítið lát virðist á því. En við þökkum fyrir að fá einn til tvo daga með frostlausu á hæstu fjallatindum.

Á kortinu sést að við verðum að leita suður til Alpafjalla til að finna loft sem er tíu stiga heitt í 850 hPa austan við okkur, en hins vegar er talsvert af tíu stiga lofti við Grænland. En það á ekki að koma hingað þrátt fyrir að við lendum aftur í vestanlofti á sunnudag.

En flatneskjan við jörð leynir heldur meiri átökum í háloftunum. Við skulum aldrei þessu vant líta upp í 400 hPa-flötinn sem er í um 7 kílómetra hæð. Næsta mynd sýnir spá um vind og hita þar á sama tíma og yfirborðskortið hér að ofan.

w-blogg210612b

Breiða, bláa strikalínan sýnir kuldaásinn í 400 hPa. Við sjáum að hann er á svipuðum slóðum og á hinni myndinni. Gríðarlegur vindstrengur er rétt vestan við land, þar er vindhraði um 35 til 40 m/s þar sem mest er og af norðaustri. Suðaustur af landinu er suðvestanátt en ekki nærri því eins hvöss.

Þunnu bláu strikalínurnar sýna hita í fletinum (í 7 km). Í kuldapollinum miðjum er frostið meira en -38 stig. Hitabratti er nokkur til suðausturs í átt til Skotlands en miklu meiri vestan við land. Hlýja loftið við Grænland sést hér enn betur heldur en á fyrra kortinu, það hallar sér til austurs yfir það kalda.

Þótt það nái alls ekki til jarðar bælir það skúramyndun á Vestfjörðum og jafnvel við Breiðafjörð - en skúrirnar eiga auðveldara með að ná sér á strik næst kuldaásnum sem gengur yfir landið. Uppstreymið í dag (miðvikudaginn 20. júní) náði samt ekki nema um 3 til 5 km hæð yfir Suðvesturlandi - en vegna þess hve frostmarkið var neðarlega mynduðust samt skúrir.

Skúrir myndast ekki nema að frjálst uppstreymi nái upp í frostmarkshæð. Í dag var hún um 1200 metrar.

Vindstrengurinn mikli hreyfist að þessu sinni í stefnu sína, það er til suðvesturs. Þegar linast á honum fær austanloftið betra tækifæri og frostmarkið fer ofar, sennilega í um 2 km á laugardag. Síðan kólnar enn á ný - en vonandi ekki mikið. - Svo geta allar spár auðvitað verið rangar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg141124ii
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124b
  • w-blogg141124a
  • w-blogg141124i

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.11.): 36
  • Sl. sólarhring: 429
  • Sl. viku: 2398
  • Frá upphafi: 2410700

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 2112
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband