Dökkur slóði - eða hvað?

Nú lítum við á tvær gervihnattamyndir og eitt spákort. Fyrst er hefðbundin hitamynd en veðuráhugamenn (ekki bara nördin) vita nokkurn veginn út á hvað slíkar myndir ganga.

w-blogg230612a

Hér má sjá Ísland, myndin tekin laust eftir kl. 20 í kvöld (föstudag 22.júní). Býsna heiðríkt er á landinu. Sennilega eru flákaský yfir stórum hluta hálendisins. Háskýjabreiður eru bæði fyrir suðaustan- og norðvestan land. Undir miðnætti sást jaðar norðvesturbreiðunnar vel frá Vesturlandi. Við sjáum líka að yfirborð landsins (nema jöklarnir og fáeinir fjallatindar) eru dekkri (hlýrri) heldur en sjórinn umhverfis landið. Með góðum vilja getum við séð sveigjur á háskýjabreiðunum. Þetta eru að mestu sömu kerfi og sáust á korti sem fjallað var um hér á hungurdiskum fyrir tveimur dögum.

En lítum nú á næstu mynd. Hún er tekin um fjórum klukkustundum síðar og sýnir stærra svæði heldur en myndin að ofan.

w-blogg230612b

Hér sést mjög einkennilegur dökkur slóði yfir landinu og myndin hefur allt aðra áferð heldur en algengust er á gervihnattamyndum. Með góðum vilja má þó sjá bæði skýjabeltin sem nefnd voru á fyrri mynd. Nútímagervihnettir taka myndir á fjölmörgum bylgjurásum. Þessar rásir sjá misvel til jarðar og sumar þeirra sjá yfirborðið mjög illa. Þessi sér nánast ekki neitt - en mislangt niður þó. Það er vatnsgufa sem byrgir sýn.

Á dökku svæðunum er minna af vatnsgufu heldur en annars. Ástæður geta verið fleiri en ein en sú algengasta er sú að þar er dæld í veðrahvörfum, loft úr heiðhvolfinu þrengir sér niður og býr til eins konar glugga í vatnaþokuna. Hér rekast á loft úr austri og loft úr vestri. Blöndun verður mjög treglega. Við getum ímyndað okkur tvær svampdýnur mætast - hvora úr sinni áttinni. Þegar þær rekast á byrja þær á því að beyglast upp á við, en í lofthjúpnum er auðveldara að beyglast niður. Dýnubeyglurnar geta orðið nokkuð háar - en að lokum lendir önnur dýnan undir hinni - átökum lokið.

Á myndinni sjáum við sennilega léttan árekstur af þessu tagi - austan- og vestanloftið klessist þó ekki saman - rennur frekar á misvíxl - beyglan er því heldur hógvær. Við áreksturinn beyglast veðrahvörfin niður á við og gluggi myndast í vatnsgufuhjúpinn.

Slóðinn yfir landinu breikkar til beggja átta - fyrir norðaustan land er dálítill kuldapollur - einn af mörgum í þessum mánuði. Suður í hafi er miklu stærra kerfi lágra veðrahvarfa. Myndir af vatnsgufurásum sýna sveipi af fjölmörgum tegundum sérlega vel, betur en hefðbundnari myndir.

Við lítum að lokum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar um mættishita í veðrahvörfunum á þeim tíma sem vatnsgufumyndin er tekin. Því lægri sem mættishitinn er því lægri eru veðrahvörfin (að öðru jöfnu). Hungurdiskar hafa alloft birt kort af þessu tagi - síðast á sunnudaginn var (dagsett 17. júní).

w-blogg230612c

Ekki þarf lengi að horfa á þessa mynd til að sjá líkindin með henni og vatnsgufumyndinni. Dökki borðinn er nærri því á sama stað á myndunum tveimur og mikil líkindi eru með kerfunum sunnar á mynd og korti. Við sjáum að um það bil 20 stigum munar á mættishita í slóðanum og í skjöldunum vestan og austan við.

Ritstjórinn treystir sér ekki til þess að giska á hversu mikill munurinn er í metrum. Hann vill einnig að fram komi að hann er ekki sérlega þjálfaður í túlkun vatnsgufumynda og mætti kynna sér þær betur í framtíðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • w-blogg220724b
  • w-blogg220724a
  • w-blogg210724
  • Slide2
  • Slide1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 17
  • Sl. sólarhring: 438
  • Sl. viku: 2733
  • Frá upphafi: 2378309

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 2421
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband