Lægðin afhjúpar sig

Lægðakerfið sem valda mun norðanhreti á sunnudag og áfram er samsett. Fyrst gekk kuldapollur úr vestri inn á Grænlandshaf og myndaði lægð sem olli suðlægri átt lengst af laugardegi. Síðan kom kerfi með mjög hlýju lofti frá svæðinu austan Nýfundnalands. Með aðstoð tölvugreininga hefur mátt sjá að þar fór hálffalin lægð sem dýpkar nú óðfluga suður af landinu.

Þótt hún sé ekki af fullum vetrarstyrk dýpkar hún um 30 hPa frá því klukkan 18 síðdegis á laugardag til sama tíma sunnudags, úr 1005 hPa niður í 975 hPa og telst það mikið. Þaulvanir kortarýnar hafa sjálfsagt séð lægðina fyrr í dag (laugardag) en það er fyrst í kvöld sem hún er farin að sýna sig að hætti ört dýpkandi lægðar.

Við lítum á óskýra hitamynd (hún batnar lítið sem ekkert við meiri stækkun) frá því á miðnætti á laugardagskvöld.

w-blogg130512

Kalda lægðin er vestur af landinu hún hreyfist til suðausturs og eyðist, lægðin suður í hafi étur hana með húð og hári. Við sjáum þrjú einkenni dýpkandi lægða: Hlýja færibandið (rauð ör - sem er óþarflega klaufalega dregin á myndina - nörd eru beðin velvirðingar á því), kalda hausinn (bláleit strikalína) og þurru rifuna (gulleit ör). Ekki er gott að sjá af myndinni einni og sér af hvaða uppruna hausinn er að þessu sinni.

Nyrst á myndinni er stór blá ör. Þar er heimskautaloftið í framrás. Að vissu leyti kemur það lægðinni lítið við (fram til þessa) en veldur því að vindhraði í norðanáttinni að baki lægðarinnar verður mun meiri en ella væri. Síðdegis á sunnudag setur það einnig kraft í dýpkunina.

Við lítum einnig á vindaspá evrópureiknimiðastöðvarinnar sem gildir á sama tíma og gervihnattamyndin, á miðnætti laugardagskvöldið 12. maí. Spáin á við 100 metra hæð yfir jörð þar sem vindur er heldur hvassari en niður við sjó.

w-blogg130512b

Mjög hægur vindur er hér um land allt. Annars eiga lesendur að taka sérstaklega eftir því að varla er hægt að greina lægðarhringrás umhverfis lægðina suður af Vestmanneyjum - því hún er um það bil að afhjúpast. Dýpkunin mikla til morguns bætir auðvitað úr norðanáttarskortinum. Sjá má að norðaustanáttin á Grænlandssundi er býsna ógnandi. Þar er vindhraði yfir 24 m/s á stóru svæði.  

Þegar lægðin vestur af landinu skríður suðaustur og hverfur sígur vindstrengurinn suður á landið en jafnframt dregur eitthvað úr honum og hann verður norðlægari. Annar norðanstrengur myndast síðan vestan við lægðina djúpu og strengirnir sameinast austan við land síðdegis.

Þetta er allt frekar ruglingslegt og hefði verið hið versta mál á árum áður. Líf fjölmargra sjómanna hefði verið í voða og fjárskaðar yfirvofandi. Nú gerist vonandi ekki neitt - þótt kuldi verði ýmsum til ama næstu daga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hér á Siglufirði hefur þetta bara birst sem þéttur þræsingu með sáralítilli úrkomu. Enginn verulegur kuldi heldur.  Ég er enn ekki búinn að skilja fréttir og viðvaranir sem segja að búist sé við miklu hvassviðri hlémegin fjalla. Það hlýtur þá að vera fjandi slæmt handan þeirra. Er þetta einhverskonar veðurfræðingagrín?

Jón Steinar Ragnarsson, 13.5.2012 kl. 15:30

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Samkvæmt þessu erum við líklega bara heppin hér á Sigló að lenda hlémegin á þrjá vegu.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.5.2012 kl. 15:34

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Það er rétt Jón Steinar að það hljómar stundum ankannanlega að tala um hvassviðri hlémegin. Hlémegin er hér frekar andstæða áveðurs heldur en að vera beinlínis í skjólinu. Orðin úrveðurs eða fráveðurs eru hins vegar ekki til (fyrr en nú) - ég held að þeir sem hlusta á veðurspár yrðu þá fyrst forviða við að heyra þau. Algengt er að vindar séu meiri hléveðurs (enn nýtt orð) heldur en áveðurs, sérstaklega hviður. Fjölbreyttar aðstæður valda því.

Trausti Jónsson, 14.5.2012 kl. 00:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 86
  • Sl. sólarhring: 297
  • Sl. viku: 1660
  • Frá upphafi: 2350287

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 1502
  • Gestir í dag: 52
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband