Af afbrigðilegum maímánuðum - fyrri hluti

Við lítum á fastan lið, þá mánuði þar sem höfuðvindáttir hafa verið hvað þrálátastar. Byrjað var á þessari yfirferð í júní í fyrra þannig að maí er eini mánuðurinn sem er eftir. Í þessum pistli er litið á norðan- og sunnanáttir. Notaðir eru sömu fimm flokkunarhættir og áður.

1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1873. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið.

Þessi háttur segir norðanáttina hafi verið þrálátasta í maí 1923. Þá gerði mikið hret að sumu leyti líkt krossmessuhretinu á dögunum nema að þá snjóaði víðar um land heldur en nú. Þrátt fyrir norðanáttina var maí 1923 ekki nálægt neinum kuldametum. Í næstu sætum í norðanátt eru 1883 og 1884. Þessir mánuðir hlutu báðir ill eftirmæli fyrir snjó- og kulda um landið norðanvert. Þar á eftir koma 1949, 1958 og 1979. Margir minnast þeirra enn, sérstaklega maí 1979.

Sunnanáttin var hins vegar mest í maí 1918 - það kemur heldur á óvart. Góð og hlý tíð mun hafa verið mestallan mánuðinn, m.a. komst hiti í 22,9 stig á Möðruvöllum þann 24. - það er gott maíhámark. Maí 1978 og 1988 koma næst á eftir í sunnanáttartöflunni. Talsverð illviðri gerði í maí 1978, e.t.v. muna einhverjir eftir að þá fauk rúta með 34 farþegum út af vegi nærri Akranesi og undir lok mánaðarins gerði mikið særok í Mýrdal þannig að stórsá á trjágróðri.

2. Styrkur norðanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949.

Hér tekur maí 1979 efsta norðanáttarsætið, ekki er það óvænt. Maí í fyrra, 2011 er í öðru sætinu, og maí 1949 í því þriðja. Sunnanáttin var mest í maí 1978 og þarnæst í maí 1991, en þá var mjög hlýtt. Báðir þessir mánuðir voru mjög úrkomusamir.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, og norðaustanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874. Ósamfellur eru í röðinni en við þykjumst ekki sjá þær.

Maí 1979 vinnur þennan hluta norðanáttakeppninnar. Síðan koma 1958, 1883 og 2011, allir nefndir áður. Sunnanáttin var mest 1978 og 1991.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð.

Norðanáttin var mest í maí 1979 og 1923 er í öðru sæti. Síðan kemur 1923. Sunnanáttin var mest 1895. Þá var talin góð en úrkomusöm tíð. Maí 1947 skýst hér upp í annað sætið á undan 1978.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Hér er maí 1923 með mestu norðanáttina, síðan koma ár sem ekki hefur verið minnst á áður, 1891 og 2010. Maí 1979 er í fimmta sæti. Sunnanáttin var mest í 500 hPa í maí 1978 og síðan 1947. Maí 1947 er líka minnst fyrir jarðskjálftana sem þá urðu í Hveragerði með skemmdum á húsum og breytingum á hverasvæði.

Við lítum á vestan- og austanáttirnar fljótlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.5.): 23
 • Sl. sólarhring: 79
 • Sl. viku: 1491
 • Frá upphafi: 2356096

Annað

 • Innlit í dag: 23
 • Innlit sl. viku: 1396
 • Gestir í dag: 23
 • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband