Það kemur fyrir

Það kemur fyrir að hlýtt loft berst yfir landið úr norðvestri. Venjulega er loftið þá hlýtt eftir að hálendi Grænlands hefur dregið það niður úr mikilli hæð. Loftið hlýnar um 1°C á hverja 100 metra lækkun þar til það fer að blandast kaldara lofti sem liggur í neðri lögum austan Grænlands - og ekki nær blöndunin alltaf alveg niður að veðurstöðvum þar sem hitans verður vart.

Þótt hitabylgjur af þessu tagi séu ekki beinlínis algengar eru þær engu að síður framlag Grænlands til að halda uppi hita hér á landi. Rétt eins og það stíflar oftast kulda að vestan eða beinir suðurfyrir þar sem hann hlýnar að neðan yfir sjó sem á enn varmabirgðir frá liðnu sumri. Stöku sinnum nær kuldinn upp fyrir stíflugarðinn og Grænlandsjökull dugir ekki til og Grænland tekur líka þátt í illviðramyndun og norðanáhlaupum hér á landi - en það er önnur saga.

En hungurdiskar mæla gjarnan hita með þykktarmælinum góða sem sýnir vel hita í neðri hluta veðrahvolfsins. Mesta þykkt sem vitað er um í mars yfir Íslandi varð til í norðvestanátt frá Grænlandi, 18. mars 1979. Þetta var kaldasta ár sem allir Íslendingar á aldrinum frá 33 til 94 ára hafa lifað. Ekki síst þess vegna er þessi dagur svo merkilegur. Hann er gott dæmi um að lítið samband er á milli einstakra veðuratburða og veðurfars lengri tíma. Meira að segja var þessi mánuður, mars 1979, óvenju kaldur.

En þykktin yfir Suðvesturlandi fór í 5520 metra þennan merkilega dag. Hlýindanna gætti ekki svo mjög á veðurstöðvunum, þó komst hiti í 12,4 stig á Torfufelli í Eyjafirði - 215 metra yfir sjó. Því miður var engin stöð á fjallatindum eins og Gagnheiði. Mikið kuldakast fylgdi í kjölfarið.

En nú (aðfaranótt sunnudags 11. mars) er mjög hlýtt loft á leið yfir landið. Þegar þetta er skrifað, skömmu eftir miðnætti, hefur mest frést af 14,3 stigum á Eskifirði, það er mjög nærri dægurmeti 10. mars. Hæsta tala sem er færð á þann dag er 14,5 stig á Haugi í Miðfirði 2004 - en þar mun vera um svokallað tvöfalt hámark að ræða, leifar frá hlýjum gærdegi - en þann dag fór hiti í 15,2 stig á Siglunesi. Mestur hiti sem skráður er á þann 11. er líka 14,5 stig. Það var á Akureyri 1953.

Ljóst er því að mjög litlu munaði að dægurmet þess 10. væri slegið nú, og enn er ekki útséð með þann 11. Möguleikar eru fyrir hendi fram undir morgun - en þá nær heldur kaldara loft undirtökunum. Það hefur undirtökin í bókstaflegri merkingu því það fleygast inn undir hlýindin sem halda velli í efri hluta veðrahvolfs. Það þýðir að vestanéljagangur sunnudagsins verður heldur tætingslegur - en einhver samt, kannski nægilegur til dimmviðris á fjallvegum og hálku í byggð. Hér skal ekki spáð um það. Svo hlýnar fljótt á ný og lægðagangurinn heldur áfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a
  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 55
  • Sl. sólarhring: 149
  • Sl. viku: 564
  • Frá upphafi: 2351355

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 485
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband