Rakamet - hvað er það?

Um leið og minnst er á mettunarrakaþrýsting ganga menn út eða sveigja frá. Reynslan segir svo vera. Sé því bætt við að mettunarakaþrýstingur yfir ís sé lægri heldur en yfir vatni taka flestir til fótanna. Nei, nei, hér stendur ekki til að minnast frekar á þennan ógnvald allrar athygli. Réttur er samt áskilinn til að nefna hann síðar.

Hugtakið loftraki er ekki auðvelt viðfangs. Um hann eru notuð mörg hugtök, öll nauðsynleg hvert á sinn hátt. Aðgæslu þarf í umgengni við þau. Hér minnumst við á tvö. Annars vegar rakastig og hins vegar daggarmark.

Varðandi skilgreiningar er hér vísað til nokkurra fróðleikspistla á vef Veðurstofunnar. Rakastig er tilgreint í prósentum, sé rakastigið 100 prósent er sagt að loft sé mettað raka. Það er til ákveðinna óþæginda þegar rætt er um rakastig að mettun er mjög háð hita loftsins. [Strangt tekið er mettunin háð hita vatnsgufunnar í loftinu en langoftast er hiti hennar og loftsins sá sami - þó með athyglisverðum undantekningum.] Sama loftið úti (við lágan hita) og inni (við háan hita) hefur því gjörólíkt rakastig. En - rakastigið er samt hagkvæmt hugtak því það gefur ágæta hugmynd um það hversu vel raki gufar upp þar sem mælt er og þannig séð hvort þurrt er eða rakt. Skiptar skoðanir eru um æskilegt rakastig í húsum - við gætum rætt þar síðar en ekki nú.

Málið hér er að rakastig (útivið) hér á landi er oftast á bilinu 60 til 100%. Rakastig er oft 100% - þannig að við höfum ekki áhuga á metum í þann endann. Metadeild hungurdiska hefur hins vegar áhuga á því hversu lágt það getur orðið. 

Lægsta gildi á sjálfvirkum stöðvum í september er 6%. Talan er frá ótrúlegum stað, Stórhöfða í Vestmannaeyjum og er nærri því örugglega röng. Það getur varla verið rétt. Hins vegar mældist rakastigið aðeins 15% í Vestmannaeyjabæ þann sama dag, 14. september 2007 og 10 stöðvar aðrar eiga sín þurrkmet sama dag.

Lægsta tala á mannaðri stöð í september er 13%, mæling frá Sauðanesvita þann 17. árið 1998. Nokkrar stöðvar eiga minna en 20% raka þann 2. september 1976. Ef nógu margir tyggja það sama hallast maður að því að trúa því. Ég held að við verðum að gera ráð fyrir því að rakastig hafi komist niður fyrir 20% í september hér á landi. En - ef við lítum á þetta í hverjum mánuði næsta árið ættum við að læra smám saman hverju er trúandi og hverju ekki.

Daggarmarkið látum við bíða - en máli skiptir að vita hversu hátt það fer. - Hvaða máli? - það er nú það.

Fellibylurinn Katia hefur staðið undir nafni í dag. Fellibyljamiðstöðin í Miami segir miðjuþrýsting nú 959 hPa og vindhraða (1-mínútu meðaltal) 100 hnúta, hviður í 115 hnútum. Það er þriðja stigs fellibylur. Búist er við að styrkur haldist svipaður eða litlu minni næstu tvo sólarhringa en síðan dragi úr - þegar kólnar undir Katiu. Eftir 5 daga á bylurinn að vera kominn í útjaðar veðurkorta af Norður-Atlantshafi. Þá hefur vonandi skýrst hvort hann verður að hrelli eða ekki. Spár eru enn mjög misvísandi hvað það varðar - það misvísandi að ekki þýðir að ræða það til gagns.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Sæll Trausti.

Ég athugaði þetta betur og mér sýnist að sjálfvirki rakamælirinn hér á Stórhöfða hefur verið bilaður í nokkra daga/vikur. Enn hann var lagaður 14. september 2007 rétt eftir að hann syndi 7%. Tölvufræðingar V.Í. virðist hafa loka fyrir villuna LENGSTUM, enn samt náust þær að læðast inn á tölvukerfið stöku sinnum.

Minnsta rakastigið á sjálfvirka mælinum hér á Stórhöfða held ég sé einhvað á  milli 25-30%.

Pálmi Freyr Óskarsson, 6.9.2011 kl. 07:02

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka þér fyrir Pálmi - það var líka líklegast að þetta væri vitlaust. Lægsta rakastig sem mælst hefur á mönnuðu stöðinni á Stórhöfða í september (eftir 1948) er 30% - sem er líka lágt. Það var þann 14. árið 1957.

Trausti Jónsson, 6.9.2011 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 50
  • Sl. sólarhring: 57
  • Sl. viku: 541
  • Frá upphafi: 2343303

Annað

  • Innlit í dag: 46
  • Innlit sl. viku: 492
  • Gestir í dag: 39
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband