Haustar á norðurhveli - (og fleira)

Fyrirsögnin telst vart til tíðinda 5. september - en hungurdiskar vilja samt gefa því gaum. Og við lítum á norðurhvelskort frá evrópsku reiknimiðstöðinni - spá sem gildir þriðjudaginn 6. september kl. 12.

w-blogg050911a

Fastir lesendur kannast við kortið og táknmál þess - en fyrir aðra er rétt að skýra það aðeins. Höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú þunna sýnir hæðina 5820 metra.

Nú hefur það gerst að 5460 metra jafnhæðarlínan umfaðmar risastórt svæði á norðurslóðum en í sumar skiptist hún upp í marga smáa hringi. Kólnun á norðurslóðum er hafin. Kalt loft er fyrirferðarminna heldur en hlýtt og þess vegna styttist upp í 500 hPa þrýsting. En 5820 metra línan (sú þunna rauða) hefur lítið sem ekkert hörfað til suðurs. Það þýðir að bratti hæðarsviðsins hefur aukist og þar með er vindhraði í háloftum orðin meiri heldur en hann var fyrr í sumar. Gríðarlegur vindstrengur er t.d. yfir Bretlandi og þar gengur yfir hvert lægðakerfið á fætur öðru.

Við sjáum lægðirnar hins vegar fara hjá fyrir sunnan land. Að lægðir fari til austurs fyrir sunnan land þýðir auðvitað austlægar og norðlægar áttir hér á landi - svipað því sem verið hefur lengst af í sumar. Það er hins vegar nokkuð langt í verulega kalt loft norðurundan. Þykktin verður að lóna í kringum 5350 til 5430 metra næstu dagana. Það þýðir að ef vind lægir og hann léttir jafnframt til verður hætta á næturfrosti inn til landsins - en það tilheyrir septembermánuði.

Þykktin yfir Norðuríshafinu er ekki enn komin niður fyrir 5160 metra þannig að þar er vetur varla skollinn á. Á kortum í dag sást hins vegar að -4 til -6 stiga frost er við Norður-Grænland og norðurskautið, marktækt neðar en frostmark sjávar (um -2°C). Ís bráðnar þar trúlega ekki meir og ísflatarmál næstu tvær til þrjár vikur ræðst mest af vindi sem ýmist dreifir úr ísnum eða þjappar honum saman. Eitthvað bráðnar þó áfram við Austur-Grænland. Spennandi er að fylgjast með því hver lágmarksútbreiðslan verður.

Á kortinu má sjá fellibylinn Katiu sem er nú komin framhjá keldunni sem hún hefur verið að berjast í síðustu daga og er nú orðin alvöru fellibylur. Langtímaspár eru enn (auðvitað) mjög óvissar um örlög hans hér á norðurslóðum. Ýmist á honum ekki að takast að stökkva inn á vestanvindabeltið eða þá að verða að afskaplega myndarlegri lægð. Þetta ætti að fara að skýrast undir lok vikunnar. Við fylgjumst með.

Óvenjuleg úrkoma var á Ströndum síðastliðna nótt og segist Jón G. Guðjónsson veðurathugunarmaður í Litlu-Ávík aldrei hafa mælt svo mikla úrkomu eftir 15. klukkustundir (frá kl. 18 þann  3. til kl. 9 þann 4.) Um þetta má lesa á vef hans - Litlahjalla - kíkið á það.

Við notum tilefnið til að birta lista um hámarkssólarhringsúrkomu á öllum veðurstöðvum í september í viðhengi. Listinn er þrískiptur á sama hátt og hámarks- og lágmarkslistarnir sem hér birtust í gær og í fyrradag. Fyrst eru sjálfvirku stöðvarnar. Þar verður að athuga að sjálfvirkar mælingar á úrkomu eru nýtilkomnar og því eru mörg metanna varla marktæk. Neðan við er listi með mönnuðum stöðvum 1961 til 2010 og síðan listi sem nær frá 1857 til 1960.

Úrkoma var mæld á sárafáum stöðvum fyrir 1925 - en þær mælingar eru samt með. Það má t.d. sjá að Grímsey, Teigarhorn, Stykkishólmur og Eyrarbakki eiga allar tölur frá 19. öld í þessum lista. Stykkishólmur og Eyrarbakki meira að segja sama daginn, þann 4. árið 1893. Þann dag varð mikið skipsstrand í Ólafsvík - ég þarf að fletta meira til að finna nákvæmlega hvað það var.

Hæsta talan í listanum eru 197 mm sem mældust á Nesjavöllum þann 17. september 2008, næsthæsta talan, 187 mm var mæld sama dag en gerði gríðarlega úrkomu um sunnan- og vestanvert landið í tengslum við leifar (eða þannig) fellibylsins Ike. Miklir vatnavextir urðu og foktjón einnig. Um þetta veður má lesa í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar. Athugið að vegna annarrar skiptingar milli sólarhringar ber tölum í pistlinum ekki saman við þann lista sem hér fylgir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 223
  • Sl. sólarhring: 294
  • Sl. viku: 1797
  • Frá upphafi: 2350424

Annað

  • Innlit í dag: 151
  • Innlit sl. viku: 1600
  • Gestir í dag: 146
  • IP-tölur í dag: 145

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband