Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011
31.7.2011 | 01:10
Ágústhiti í Stykkishólmi 1808 til 2010
Við lítum nú á meðalhita í ágúst í Stykkishólmi í áranna rás.
Lárétti ásinn sýnir árin og sá lóðrétti meðalhita ágústmánaðar. Við sjáum að hann hefur verið afskaplega breytilegur. Meðalhitinn 1961 til 1990 er 9,6 stig og meðaltal 19. aldar er 9,4 stig. Ekkert sérlega mikill munur. En samt er marktæk leitni á tímabilinu, 0,6 stig á öld.
Köldustu árin eru flest nærri upphafi raðarinnar. Þær tölur eru mjög óvissar, en fyrir utan þetta upphaf eru árin frá 1880 og fram yfir 1920 einna köldust að jafnaði. Hlýindaskeiðið mikla á 20. öld byrjaði eiginlega ekki fyrr en 1928 hvað ágústmánuð varðar, seinna heldur en í flestum öðrum mánuðum. Ágústhlýindum lauk 1950, en athyglisvert er að enginn verulega kaldur ágústmánuður hefur komið í Stykkishólmi síðan 1958.
Fyrstu ár 21. aldarinnar hafa verið fádæma hlý í ágúst. Meðalhiti fyrstu 10 ára aldarinnar er 10,96 stig. Nærri 1,4 stigum ofan við meðaltalið áðurnefnda, 1961 til 1990. Hægt er að tala um þrep í hitanum með hinum hlýja ágústmánuði 2003. Nú er spurningin hversu lengi hlýindin standa og hvenær við fáum aftur jafnkaldan ágúst og 1958. Almenn hnattræn hlýnun frelsar okkur varla frá því.
Hlýjasti ágúst á myndinni er 1828. Meðalhiti hans er mjög óviss því hvergi var mælt á landinu svo vitað sé nema á Nesi við Seltjörn nærri Reykjavík. Samband sumarhita í Stykkishólmi og í Reykjavík er ekki sérlega gott auk þess sem brot er í mæliaðferðum á Nesi 1829. En sumarið 1828 var eitt hið besta á sinni tíð - ekki er vafi á því.
30.7.2011 | 01:28
Úr júlí yfir í ágúst
Algengast er að júlí sé hlýjasti sumarmánuðurinn. En frá því að mælingar hófust hefur ágúst verið hlýrri en júlí í 29% tilvika og í 11% tilvika til viðbótar var júlí aðeins 0,2 stigum eða minna hlýrri heldur en ágúst.
Myndin sýnir þennan mun og nær yfir tímabilið 1808 til 2010. Rauða línan sýnir reiknaða leitni. Tilhneiging er í þá átt að munur mánaðanna minnki. Meðaltal tímabilsins 1961 til 1990 er -0,3°C, en meðaltal 19. aldar allrar er 0,6 stig (blátt strik). Auk þess er að sjá sem 19. öldin hafi verið órólegri hvað þetta varðar. Ekkert segir þetta um framtíðina - hún er frjálsari en svo. Reyndar verður að telja mjög ólíklegt að ágúst verði nokkurn tíma í framtíðinni til lengdar hlýrri í Stykkishólmi heldur en júlí. Árstíðasveifla sólarhæðar er strangur húsbóndi og miskunnarlaus - hvað sem einstökum árum líður.
Eitt ár sker sig úr á myndinni, það er 1903. Þá varð ágúst 3,7 stigum kaldari heldur en júlí í Stykkishólmi - enginn methiti var þó í júlí. Í Reykjavík munaði 2,4 stigum og 3,6 stigum á Akureyri. Á síðastnefnda staðnum varð september 1,3 stigum hlýrri heldur en ágúst. Ótrúlega vondur rigningamánuður á Norðurlandi, syðra var kalt og þurrt.
Mest hlýnaði milli júlí og ágúst sumarið 1862, þá kom sæmilegur ágúst eftir óvenjukaldan júlí. Annars eru fyrstu 10 dagar ágústmánaðar fullt eins hlýir og síðustu 20 dagarnir í júlí. Síðsumarskólnunin byrjar að meðaltali um miðjan ágúst. Við norðaustur- og austurströndina er hlýjasti dagur ársins að meðaltali 5. til 10. ágúst og á ystu nesjum er ágúst að jafnaði broti úr stigi hlýrri heldur en júlí.
Sumir lesendur muna úr fyrri pistli að ekkert samband er milli hita í júní og júlí. Aftur á móti er samband júlí og ágústhita marktækt. Hlýjum júlí fylgir gjarnan hlýr ágúst og kaldir mánuðir lenda gjarnan saman. Fylgnistuðull er 0,5, það er meira heldur en fylgni annarra mánaðarpara.
29.7.2011 | 00:52
Önnur óvissa - samfara vissunni
Vissan fellst nú í því að háloftalægð (kuldapollur) myndast vestan við land og sömuleiðis virðist líklegt að hann lifi í nokkra daga - jafnvel viku eða meira. Ekki þó víst. Óvissan fellst í því hvernig lægðin slagar um hafið suður af landinu.
Ef hún verður uppi í landsteinum eru skúradembur vísar víða um land. Ef hún er hóflega langt suður undan beinir hún hlýrra lofti úr austri yfir landið, þá myndi rigna eystra en þorna um landið suðvestanvert. Ef hún heldur austlæga slóð austur undir Færeyjar læðist norðaustanáttin að landinu. Ef hún fer langt suður í haf - ætti að gera austanhlýindi. Reiknimiðstöðvar eru auðvitað ekki sammála um niðurstöðu - hver getur spáð fyrir um leið útúrdrukkins manns - hann getur auðvitað dottið - en geta háloftalægðir gert það í einhverri merkingu?
En spáin fyrir annað kvöld (föstudagskvöldið 29. júlí) ætti samt að vera sæmilega trygg. Kortið hér að neðan sýnir þá stöðu. Þar má einnig sjá að lægðin á síðan að hreyfast til suðurs - til að byrja með (bláa örin). Hlýja bylgjan sem merkt er með feitu, rauðu, strikalínunni hreyfist austur.
Svörtu heildregnu línurnar á kortinu sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum, en rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið. Innsta jafnþykktarlínan í kuldapollinum vestur af landinu er 5400 metrar - það er of lágt fyrir smekk hungurdiska - en svosem ekki mjög hættulegt í þessu tilviki.
28.7.2011 | 00:16
Óvissa í helgarspám - annar áfangi?
Nú er helgin sólarhring nær okkur í tíma heldur en í gær. Jú, óvissan hefur því minnkað - en heldur samt áfram. Hér að neðan er fjallað um stöðuna - en enga helgarspá er að hafa frekar en vant er.
Síðastliðna nótt lagði evrópureiknimiðstöðin fram nýja málamiðlunartillögu - en samþykkti samt ekki bandarísku leiðina. Í dag nálgaðist sú bandaríska þessa nýju málamiðlun - en kokgleypti hana auðvitað ekki. Við lítum á spákort frá dönsku veðurstofunni (hirlam-líkanið) og gildir það á nákvæmlega sama tíma og spákortið sem birtist hér í pistli í gær. Enda eru kortin nærri því eins.
Hér sést staðan í 500 hPa-fletinum og þykktin eins og spáð er kl. 12 á morgun, fimmtudag 28. júlí. Svörtu heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum, en rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið.
Blái hringurinn er settur á kortið á sama stað og bláa örin var á kortinu í gær. Hann er dreginn umhverfis vaxandi háloftalægðardrag sem er á leiðinni austur í átt til Íslands. Evrópureiknimiðstöðin hafði þá tillögu í gær að lægðardragið færi tiltölulega fljótt yfir og settist að talsvert fyrir norðan land. Bandaríska reiknimiðstöðin lét lægðardragið hins vegar stranda við Ísland um helgina. Nú er evrópustöðin búin að samþykkja það - það er málamiðlunartilboðið.
Rauði hringurinn er dreginn í kringum riðabylgju. Hún sést vel á kortinu sem sveigja á jafnþykktarlínum (rauðu strikalínurnar eru braggalaga). Hlý tunga (mikil þykkt) teygir sig til norðurs þar sem jafnhæðarlínur (svartar) eru tiltölulega beinar. Þeir sem það vilja geta þarna séð hlýjan lægðargeira.
Tillaga reiknimiðstöðvarinnar frá í gær gerði ráð fyrir því að ekkert yrði úr þessari lægð, en í tillögunni að vestan átti kalda lægðardragið (blái hringurinn) að grípa hlýju bylgjuna föstum tökum og keyra hana til Íslands.
Bláu og rauðu örvarnar sýna hreyfingu fyrirbrigðanna næstu daga. Kalda lægðardragið á að verða að lokaðri háloftalægð sem á síðan að hringsóla í námunda við landið næstu daga (alla næstu viku?). Hún á ekki að ná í hlýju bylgjuna fyrr en að hún hefur farið austur til Írlands. Það ævintýri er nú harla óljóst enn.
Við skulum líta á sömu spá - reiknaða þar til á föstudagskvöld.
Þá á lægðardragið að hafa breyst í háloftalægð (kuldapoll), en riðabylgjan er enn á lífi og á leið til austurs suður undan. Hvað þýðir þetta svo fyrir veðrið? Enn og aftur verður að taka fram að hungurdiskar spá ekki veðri - en ræða hins vegar veðurspár. Helgarörlög nýja kuldapollsins eru auðvitað ekki ljós á þessari stundu - en þeim sem gefa út spár er uppálagt að taka afstöðu.
Hvernig veður er í hægfara kuldapollum og í jaðri þeirra að sumarlagi? Ætli verði ekki bara gaman að læra af þessum?
27.7.2011 | 00:12
Óvissa í helgarspám - hvað er á seyði?
Rétt er að taka fram í upphafi að hungurdiskar spá ekki fyrir veðri um verslunarmannahelgina. Það gera Veðurstofan og fleiri aðilar hins vegar - ég mæli með þeim öllum. Þeir sem fylgst hafa með þessum spám síðustu daga hafa orðið varir við talsverða óvissu í spánum - og jafnvel hringl með spár frá degi til dags. En það er bara eðlilegt því enn eru margir dagar til helgarinnar. Hér lítum við á eina ástæðu óvissunnar. Það er sú ástæða sem er uppi þegar þetta er skrifað - seint á þriðjudagskvöldi, 26. júlí. Spárnar verða e.t.v. óvissar á morgun af einhverri annarri ástæðu.
Við lítum á norðurhvelskort með 500 hPa-spá evrópsku reiknimiðstöðvarinnar og gildir hún á hádegi á fimmtudag, 28. júlí.
Fastir lesendur kannast við kortið, en aðrir verða að vita að höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú þunna sýnir hæðina 5820 metra.
Ég hef merkt helstu lægðarmiðjur (kuldapolla) á kortið. Við sjáum t.d. að allfyrirferðarmikil lægð er yfir Miðevrópu og veldur þar skúrum og hálfgerðu skítaveðri þótt verra gæti það verið. Snarpir kuldapollar eru yfir Síberíu og nærri norðurskautinu. Síðan er kuldapollur yfir Baffinslandi.
Skarpt lægðardrag er skammt norðaustan við Ísland, þetta er lægðardragið sem valdið hefur dimmviðri og vindi um landið sunnan- og vestanvert í dag. Suðvestan- og vestan við Ísland verður flókin staða á fimmtudaginn. Við sjáum fjölmörg smálægðardrög sem vont er að henda reiður á.
Reiknimiðstöðin er viss í sinni sök um framhaldið, en gallinn er sá að framhaldið er ekki það sama og var í næstu spá á undan (12 klst áður) - minnir meira á framhaldið sem miðstöðin reiknaði í gær. Og reiknimiðstöð bandarísku veðurstofunnar er ekki sammála þessu heldur - þótt hún hafi hins vegar verið staðfastari á sínu framhaldi. En út á hvað gengur ágreiningurinn?
Ég reyni að lýsa honum með því að grípa til tveggja stuttra örva sem ég hef sett á kortið og vonandi er að lesendur sjái. Önnur örin er blálituð og er sett framan við grunnt lægðardrag við Suður-Grænland. Allar spár virðast reikna með því að það dýpki allmikið og hreyfist austur eða norðaustur frá föstudegi til mánudags.
Hin örin er rauðlituð og sett þar sem riðabylgja er á ferð. Hvað var svo riðabylgja? Riðabylgja er svæði þar sem misgengi er á milli þykktar- og hæðarlína á veðurkorti. Þær mynda saman riðið net, þar er helst von á að lægðir dýpki. Spárnar eru mjög ósammála um hvað um þessa bylgju verður um helgina. Í spánni sem er í framhaldi af kortinu hér að ofan fletur reiknimiðstöðin hana út og ber til austurs fyrir sunnan land. Jafnframt byggist upp lítill hryggur norðan við hana sem beinir kalda lægðardraginu norður fyrir land þannig að við sleppum að mestu við áhrif þess.
Bandaríska spáin (og sumar fyrri spár reiknimiðstöðvarinnar) láta kalda lægðardragið seilast í riðabylgjuna með þeim afleiðingum að lægðin sem tengist henni dýpkar allmikið og fer einhvers staðar yfir landið um helgina - þá með rigningu um mestallt land. Hverju á svo að spá?
Við gætum litið á málið aftur eftir svosem eins og sólarhring til að athuga hvort málin hafa skýrst. Þá væri líklega lag að líta betur á riðabylgjuna.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.7.2011 | 00:44
Heitir júlídagar - samkvæmt meðaltölum
Fyrir nokkrum dögum var spurt um hæsta meðalhita sólarhringsins í júlí (allar veðurstöðvar) og hæsta meðalhámarkshita júlídags. Þessar spurningar hljóta reyndar að vera nokkuð í jaðri þess sem hinn almenni veðuráhugamaður gefur gaum. En svörin eru góðmeti fyrir nördin - og þau verður að fóðra.
Svörin sem ég á eru reyndar nokkuð takmörkuð, viðmiðunartímabilið nær ekki lengra aftur en til 1949 auk þess sem miklar breytingar hafa orðið á stöðvakerfinu á rúmlega 60 árum. Eftir nokkra umhugsun (erfiða) ákvað ég einhliða að miða aðeins við veðurskeytastöðvarnar í svörunum, ég reiknaði líka fyrir annars konar úrval - og útkoman er ekki nákvæmlega sú sama. En þannig höfum við það - í bili.
Koma svo tíu hlýjustu júlídagarnir frá og með 1949 til og með 2010.
ár | mán | dagur | meðalhiti |
2008 | 7 | 30 | 15,73 |
1980 | 7 | 31 | 15,21 |
2008 | 7 | 28 | 15,04 |
2008 | 7 | 29 | 14,87 |
1955 | 7 | 24 | 14,74 |
1991 | 7 | 5 | 14,72 |
1997 | 7 | 19 | 14,46 |
1991 | 7 | 7 | 14,39 |
2009 | 7 | 2 | 14,36 |
1980 | 7 | 30 | 14,22 |
Hitabylgjan í lok mánaðarins 2008 á hlýjasta daginn og einnig dagana sem eru í 3. og 4. sæti. Hitabylgjur í júlí 1980 og 1991 eiga tvo daga hvor.
Samskonar tafla yfir hæsta meðalhámarkshita er lík - en ekki alveg eins. :
ár | mán | dagur | meðalhám |
2008 | 7 | 30 | 20,83 |
2008 | 7 | 29 | 20,30 |
1980 | 7 | 31 | 20,04 |
2008 | 7 | 31 | 19,31 |
2003 | 7 | 18 | 19,12 |
1955 | 7 | 24 | 19,03 |
1991 | 7 | 7 | 18,88 |
2008 | 7 | 26 | 18,83 |
1991 | 7 | 6 | 18,68 |
1955 | 7 | 25 | 18,54 |
Hér á hitabylgjan 2008 fjóra daga, hitabylgjan 1991 á enn tvo og nú á 1955 einnig tvo daga. Auðvelt er að búa til töflur af þessu tagi fyrir einstaka landshluta eða jafnvel spásvæði. Skyndikönnun af því tagi dregur upp ýmsa góða daga sem ekki eru á landslistunum.
Spurningar vakna auðvitað um köldustu júlídagana - þá má finna í viðhenginu. Í viðhenginu eru einnig listar sem sýna hlýjustu og köldustu daga hvers árs fyrir sig yfir þetta tímabil. Þar geta kunnugir séð sitthvað óvænt - og þar má einnig finna hlýjasta dag tímabilsins - en hann er ekki í júlí. Einnig má sjá hvaða daga hámarkshitinn hefur verið lægstur og hver hefur verið hlýjasta nótt ársins. Virkilega feitt viðhengi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2011 | 01:04
Júlí: Þrálátir austan- og vestanáttamánuðir
Hungurdiskar hafa enn ekki fjallað austan- og vestanáttamánuðina og hér með er bætt úr því. Fimm mismunandi mælitölur eru notaðar til að greina vindáttir.
1. Mismunur á loftþrýstingi sunnanlands og norðan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1881. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri norðanlands heldur en syðra séu austlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi austanáttin verið. Samkvæmt þessum mælikvarða er júlí 1950 mestur austanáttarmánaða. Sumarið 1950 hefur oftast verið nefnt sem rigningasumarIÐ eystra í mín eyru - rétt eins og 1955 um landið sunnan- og vestanvert. Mikil skriðuföll urðu bæði í júlí og ágúst og ollu m.a. manntjóni. Í öðru sæti er 1918 og 1960 í því þriðja
Mestir vestanáttarjúlímánuðir á þessum kvarða eru júlí 1955 og 1983, jafnir í fyrsta til öðru sæti.
2. Styrkur austanáttarinnar eins og hún kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949. Eftir þessum mælikvarða er júlí 1950 líka í fyrsta sæti og síðan er júlí 2003 í öðru sætinu.
Mestur vestanáttarmánuður á þessum kvarða er 1989, 1955 og 1983 koma síðan í öðru til þriðja sæti.
3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðaustan-, austan, suðaustan og sunnanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala austlægra átta. Samkvæmt þessari mælitölu er júlí 1879 í fyrsta sæti, síðan 1950. Strangt tekið er miðið hér aðeins sunnan við austur.
Mestur vestanáttarmánuður er 1898 samkvæmt þessu viðmiði, síðan 1989, 1955 og 1983 eru í 9. og 10. sæti.
4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð. Í þessum lista er júlí 1950 enn í fyrsta sæti, reyndar langefstur í mælingunni, síðan kemur 1988, 1879 er í fjórða sæti, 1960 í sjötta og 1918 í sjöunda til níunda sæti.
Samkvæmt þessum kvarða er júlí 1989 mestur vestanáttarmánaða, en síðan fylgir 1955 mjög stutt á eftir og síðan júlí 1983.
Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Hér er júlí 1950 enn í fyrsta sæti austanáttarmánaða, en 1988 í öðru. Mestur vestanáttarjúlí er hér 1989 og síðan 1955, júlí 1876 stelur þriðja sætinu af 1983 sem er í því fjórða.
Af þessu má ljóst vera að júlí 1950 hlýtur að vera mestur austanáttarjúlímánaða allra tíma. Óljósara er hver er mesti vestanáttarmánuðurinn, 1989, 1983 eða 1955.
24.7.2011 | 00:48
Hlýtt loft loksins yfir landinu - en er gagn að því?
Síðdegis í dag (laugardag) er loksins hlýtt loft yfir landinu. Meginöldufaldur þess berst reyndar hratt yfir á morgun sunnudag, en stutt virðist í næstu öldu. Á milli er loft sem er lítillega kaldara, en aðalkuldapollurinn á hörfa til vesturs meðan hann bíður eftir liðsauka.
Myndin sýnir þykktarspána síðdegis á sunnudag (24. júlí).
Heildregnu, svörtu línurnar sýna þykktina í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Litakvarðinn sýnir hita í 850 hPa-fletinum en hann er í dag í um 1400 metra hæð yfir sjávarmáli. Hiti er undir frostmarki þar sem liturinn er blár.
Við sjáum hlýju ölduna og kuldapollinn mjög vel. Á Austurlandi er þykktinni spáð yfir 5560 m, en í kuldapollinum miðjum er henni spáð um 5360 m. Þrátt fyrir mikla þykkt verður lítið hlýrra sunnan- og vestanlands heldur en verið hefur, dægursveiflan er lítil í skýjuðu veðri. Þá er tiltölulega hlýtt á nóttunni. Norðanlands fer hitinn hins vegar vel yfir 20 stig þar sem vindur blæs af landi. Spurning hvort 25 stigin nást? Það fer eftir því hvort sólin nær að hjálpa til.
Á eftir bylgjufaldinum fer þykktin aftur niður fyrir 5500 metra - en það þykir okkur samt sæmilegt á þessu sumri. Ný bylgja á síðan að koma yfir okkur á þriðjudag - með rigningu. Eftir það eru spár mjög óljósar og best að segja sem minnst um þær.
23.7.2011 | 01:30
Lengi má leita að metum og finna (nörðafærsla)
Hver skyldi hafa verið léttskýjaðasti (?) dagur landsins í júlímánuði? En sá skýjaðasti? Eða skyggnisversti - og besti? Rétt er að upplýsa það strax í upphafi að svo litlu munar á fjölmörgum dögum að svörin geta aldrei orðið nákvæmlega rétt auk þess skiptir máli hvernig reiknað er - en það verður ekki upplýst hér - ef maður galdrar eitthvað upp úr hatti - þá galdrar maður upp úr hatti. En það má þó upplýsa að reikningarnir ná aftur til 1949 - það ár meðtalið.
Koma þá dagarnir:
Dagur lágmarksskýjahulu er 13. júlí 1992 - meðalskýjahula var þá innan við 1/8. Eini júlídagurinn sem nær þeim árangri. Menn geta svo klórað sér í höfðinu og reynt að rifja þennan dag upp.
Svo vill til að gervihnattamynd er til frá þessum degi - og sannarlega má sjá heiðríkjuna yfir landinu. Þoka virðist vera á Húnaflóa og við Austfirði, en nær varla inn á land.
Mjög litlu munar á þessum ágæta degi og skýleysinu 4. júlí 1968 - en þá sólbrann ég mjög eftirminnilega - hef ekki brunnið jafnmikið síðan.
Skýjaðasti júlídagurinn er hins vegar sá 26. árið 1976 - rigningasumarið mikla á Suðurlandi og öndvegissumar nyrðra og eystra. Meðalskýjahula náði nærri því 8/8 hlutum, vantar 0,07 hluta upp á. Fleiri dagar koma í halarófu á eftir með litlu minni skýjahulu - aðeins skeikar hundruðustuhlutum.
Skyggnisbesti júlídagurinn á þessu tímabili er sá 13., árið 2001. Nokkuð var háskýjað sunnanlands þennan dag þótt skyggni væri afbragðsgott. Spurning hvort við munum nokkurn tíma næstu árin ná jafngóðu skyggni.
Verst var júlískyggnið á landinu þann 12. 1984, bæði dagurinn á undan og dagurinn á eftir eru á topp 10 skyggnisleysis, en rigningasumarið mikla á Suðurlandi 1984 byrjaði þá dagana á afskaplega lymskulegan hátt.
22.7.2011 | 00:20
Samkeppni hlýinda og skíts?
Nú virðist hlýtt loft eiga að koma nær okkur heldur en verið hefur um nokkurt skeið, en gallinn er sá að það fer aðallega framhjá. Nokkrar tilraunir verða gerðar næstu daga til að koma hlýindunum hingað - en mikill skítur verður óþægilega nærri - við sleppum þó vonandi við það versta af því tagi.
Kortið er úr smiðju hirlam-líkansins danska og sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum og þykktina eins og spáð er kl. 18 á morgun, föstudag 22. júlí. Svörtu heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum, en rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið.
Á kortinu er hæðarhryggur við Ísland og er hann á leiðinni austur. Milli Labrador og Suður-Grænlands er myndarleg háloftalægð og hreyfist hún til austnorðausturs og kemur inn á Grænlandshaf á laugardag. Annað lægðasvæði er yfir Evrópu og er þar leiðindaveður á stóru svæði og frekar kalt. Við sjáum að 5520 metra þykktarlínan er þar yfir og 5460 pollur er yfir Stóra-Bretlandi. Það er ansi kalsamt á þessum slóðum síðari hluta júlímánaðar.
Aftur á móti er mikill fleygur af mjög hlýju lofti yfir Finnlandi og vestur um Svíþjóð. Í Finnlandi hefur verið 25 til 30 stiga hiti í nokkra daga, en líklega kólnar þar eitthvað þegar kuldapollurinn sækir að.
Eins og fastir lesendur hungurdiska hafa fylgst með hefur þykktin hér við Ísland lengst af verið á bilinu 5400 til 5460 metrar í júlí - og stundum neðar. Þetta er lélegt í júlí, enda hefur daglegur landshámarkshiti verið að sveima um á bilinu 18 til 21 stig og mest komist í 22,7 stig.
Hugsanlegt er að við fáum að sjá ívið hærri tölur næstu daga. Á kortinu er 5520 metra jafnþykktarlínunni (rauð strikalína) spáð við Vesturland annað kvöld. Ég hef sett þrjár rauðar örvar á kortið til að sýna að hlýrra loft er í framrás á mjóu belti milli hæðarhryggjarins og lægðarinnar vestan við. Þar má m.a. sjá 5700 metra línuna í framrás austur af Nýfundnalandi. Eins og staðan er núna megum við þakka fyrir að 5580 línan nái um skamma stund til landsins á laugardag eða sunnudag - en fer fljótt hjá. Verst er að þessu fylgir mikið skýjaþykkni þannig að sólin kemst ekki mikið að til að ná upp hámarkshitanum. En þetta er góð tilraun.
Við sjáum að þykktarlínurnar liggja nokkuð sammiðja í kringum háloftalægðina. Það þýðir að hún krafsar ekki til sín mikið kaldara loft en hún ber nú þegar. Blái hringurinn er ekki fjarri 5400 metra jafnþykktarlínunni og afmarkar kaldasta loftið. Lægðin og kuldinn hreyfast nú sammiðja í átt til okkar. Baráttan næstu daga stendur annars vegar á milli þess hlýja lofts sem lægðarhringrásin skrapar upp í jaðri sínum og blæs síðan til okkar og hinsvegar kalda hringsins sem nálgast.
Þessi barátta hlýja og kalda loftsins nær hámarki upp úr helginni og framan af næstu viku. Ekki er alveg útséð um það hvernig fer. Þegar þetta er skrifað eru fleiri spár á því að kalda loftið nái undirtökunum - eins og alltaf hingað til í sumar. Strögglið við að hrista 5400 metra þykktarlínuna af okkur heldur þá áfram.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 11
- Sl. sólarhring: 271
- Sl. viku: 2390
- Frá upphafi: 2434832
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 2119
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010