Úr júlí yfir í ágúst

Algengast er að júlí sé hlýjasti sumarmánuðurinn. En frá því að mælingar hófust hefur ágúst verið hlýrri en júlí í 29% tilvika og í 11% tilvika til viðbótar var júlí aðeins 0,2 stigum eða minna hlýrri heldur en ágúst.

w-blogg3007a

Myndin sýnir þennan mun og nær yfir tímabilið 1808 til 2010. Rauða línan sýnir reiknaða leitni. Tilhneiging er í þá átt að munur mánaðanna minnki. Meðaltal tímabilsins 1961 til 1990 er -0,3°C, en meðaltal 19. aldar allrar er 0,6 stig (blátt strik). Auk þess er að sjá sem 19. öldin hafi verið órólegri hvað þetta varðar. Ekkert segir þetta um framtíðina - hún er frjálsari en svo. Reyndar verður að telja mjög ólíklegt að ágúst verði nokkurn tíma í framtíðinni til lengdar hlýrri í Stykkishólmi heldur en júlí. Árstíðasveifla sólarhæðar er strangur húsbóndi og miskunnarlaus - hvað sem einstökum árum líður.

Eitt ár sker sig úr á myndinni, það er 1903. Þá varð ágúst 3,7 stigum kaldari heldur en júlí í Stykkishólmi - enginn methiti var þó í júlí. Í Reykjavík munaði 2,4 stigum og 3,6 stigum á Akureyri. Á síðastnefnda staðnum varð september 1,3 stigum hlýrri heldur en ágúst. Ótrúlega vondur rigningamánuður á Norðurlandi, syðra var kalt og þurrt.

Mest hlýnaði milli júlí og ágúst sumarið 1862, þá kom sæmilegur ágúst eftir óvenjukaldan júlí. Annars eru fyrstu 10 dagar ágústmánaðar fullt eins hlýir og síðustu 20 dagarnir í júlí. Síðsumarskólnunin byrjar að meðaltali um miðjan ágúst. Við norðaustur- og austurströndina er hlýjasti dagur ársins að meðaltali 5. til 10. ágúst og á ystu nesjum er ágúst að jafnaði broti úr stigi hlýrri heldur en júlí.

Sumir lesendur muna úr fyrri pistli að ekkert samband er milli hita í júní og júlí. Aftur á móti er samband júlí og ágústhita marktækt. Hlýjum júlí fylgir gjarnan hlýr ágúst og kaldir mánuðir lenda gjarnan saman. Fylgnistuðull er 0,5, það er meira heldur en fylgni annarra mánaðarpara.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hef verið í stopulu tölvusambandi að undanförnu, en þakka fyrir svar við kommenti fyrir stuttu. Þú minnist þar á grunnvatnsstöðu hér um slóðir. Ég held ég rjúfi engan trúnað við starfsmenn Skagafjarðarveitna þótt ég beri þá fyrir því að grunnvatnsstaða hér hafi oft verið miklu lakari en núna, þrátt fyrir þurrkana. Þeir nefna því til staðfestingar, að ekki hafi þurft að grípa til þess að uppfylla vatnsþörf rækjuverksmiðjunnar Dögunar með því að dæla úr sjóveituholu, sem þeir gera þegar þeim finnst neysluvatn orðið takmarkað. Því  telja þeir að ástæða þess að vatn er enn nægilegt sé einfaldlega kuldarnir í vor og fyrri hluta sumars. Ég rengi þetta ágæta fólk ekki um þetta.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 30.7.2011 kl. 16:30

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þorkell: Ekki ætlaði ég að hræða neinn með grunnvatnstalinu, meginhluti Skagafjarðar þrífst sjálfsagt lengi á snjófyrningum og flatlendið af vatni jöklafljótanna beggja.

Trausti Jónsson, 31.7.2011 kl. 01:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b
  • w-blogg031124a
  • w-blogg311024a
  • w-blogg311024b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.11.): 113
  • Sl. sólarhring: 122
  • Sl. viku: 1539
  • Frá upphafi: 2407544

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 1365
  • Gestir í dag: 82
  • IP-tölur í dag: 82

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband