Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Meir af þurrkunum

Ég hef nú kíkt lauslega á stöðuna á þurrkunum á landinu. En það sem hér fer á eftir er samt sem áður ekki vísindaleg úttekt - aðeins gróft mat.

Dagar þar sem engin úrkoma mælist á landinu öllu eru óvenjulegir - en ég fjalla e.t.v. um þá síðar. Á einstökum veðurstöðvum eru þurrar vikur ekki óalgengar, alveg þurrir mánuðir eru hins vegar mjög óvenjulegir og margir mánuðir í röð þar sem úrkoma er undir meðallagi eru líka óvenjulegir. Við lítum fyrst á þurrkana í sumar. Ég hef gert mjög grófa mynd af hlutfalli úrkomu júní og liðins hluta júlímánaðar af meðaltalinu 1971 til 2000. Kortið má þó ekki taka allt of bókstaflega.

w-blogg210711a

Úrkoma 1.júní til 20. júlí 2011 - hlutfall af meðalúrkomu sama tíma. Kortagrunnurinn er eftir Þórð Arason. Við sjáum að úrkoma er um eða yfir meðallagi á svæðinu austan Eyjafjarðar og suður í Hornafjörð. Ekki ná allar stöðvar á svæðinu þó meðallaginu. Á litlu svæði á Austfjörðum er úrkoma langt yfir meðallagi, jafnvel meiri en tvöföld meðalúrkoma. Suðaustanlands er úrkoma um helmingur til 80% af meðallagi.

Á vesturhluta landsins hefur úrkoma verið miklu minni en í meðalagi, víðast hvar á bilinu 15 til 30% meðallagsins, en neðar á nokkrum stöðvum. Minnst að tiltölu á Lambavatni á Rauðasandi og í Hænuvík á svipuðum slóðum. Annað lágmark er við innanvert Ísafjarðardjúp og í Skagafirði og á fáeinum öðrum stöðvum á víð og dreif um svæðið.

Það telst mjög óvenjulegt ef úrkoma tveggja mánaða saman er minni en 20% meðalúrkomu sama tíma. En alvarlegastir eru þurrkar sem eru langvinnir. Ég hef líka búið til ámóta kort fyrir þann tíma sem liðinn er af árinu.

w-blogg210711b

Hér má sjá svipaða skiptingu landsins. Langmest hefur úrkoman verið austast á landinu og austurhlutinn sem heild er ekki langt frá meðallaginu. Svæði við Faxaflóa og í Vestur-Ísafjarðarsýslu eru það líka en annars staðar á vestanverðu landinu er úrkoma innan við meðallag - þrátt fyrir óvenju stríða úrkomu síðla vetrar og fyrst í vor. Í Skagafirði og þar um kring er úrkoman það sem af er árinu ekki nema um 70% meðalúrkomu sama tíma. En hversu óvenjulegt er það?

Ég veit það ekki nákvæmlega fyrir þetta landsvæði, en á allraþurrustu 7-mánaða tímabilum í Reykjavík er úrkoman rétt innan við 50% meðalúrkomu. Mér þykir trúlegt að þetta eigi líka við Skagafjörðinn. Þannig að í fljótu bragði kann að virðast að þurrkurinn þar sé ekki svo mjög afbrigðilegur. En það er ekki þannig, því úrkoman síðasta eitt og hálft ár er ekki nema um 60% af meðalúrkomu - og það er mjög óvenjulegt og úrkoman síðustu tvö og hálft ár er aðeins um 70% af meðalúrkomu og sömu óvenjulegheit blasa við ef litið er á síðustu þrjú og hálft ár (80% meðalúrkomu). 

Þurrkarnir í Skagafirði eru því orðnir mjög óvenjulegir. Svipað virðist eiga við um fáeina aðra staði um landið norðvestanvert - en ástandið er samt misjafnt eftir svæðum. En nú er spáð rigningu á vestara þurrkasvæðinu, því við Breiðafjörð og þar sunnan við, en óljósara er hvort sú gusa gagnast eitthvað í Skagafirði né hversu hún endist á öðrum stöðum.

Í algjöru framhjáhlaupi langar mig að minnast lítillega á hitabylgjuna vestanhafs. Þar rugla fjölmiðlar mjög saman mældum hita og „álagshita“ hins vegar. Í þurru lofti eru hiti og álagshiti ámóta. Í miklum hita kælir líkaminn sig með uppgufun vatns - úr lungum eða svita. Því þurrara sem loftið er því léttari er kælingin (þótt ofþurrkun geti orðið). Í miklum raka gufar minna upp og þá vex álag á lungu, hjarta og æðakerfi líkamans. Álagshitinn er mat á sameiginlegum áhrifum hita og raka. Í 35 stigum á mæli getur reiknaður álagshiti verið yfir 50 stig sé rakastig yfir 75%. Þegar talað er um 50 stiga hita eða meira í fréttum frá Bandaríkjunum er langlangoftast átt við álagshitann. Spáð er um 40 stiga hita næstu daga í Washington og þar um kring.

Við skulum til gamans líta á þykktarspána fyrir þetta landsvæði á föstudaginn.

w-blogg210711c

Á myndinni má þekkja austurströnd Bandaríkjanna frá Norður-Karólínu og norður til Nova-Scotia í Kanada. Hafið er blátt, en landið grátt. Þykku lituðu línurnar eru jafnþrýstilínur en jafnþykktarlínur eru svartar og heildregnar. Við sjáum að 5820 metra jafnþykktarlínan myndar sporöskjulagaðan poka á myndinni. Þar sem örvar benda sker hún 1008 hPa-jafnþrýstilínuna. Þar er 500 hPa hæðin um 5880 metrar.

Samkvæmt gögnum þeim sem ég hef við höndina er metþykkt á þessu svæði ekki fjarri 5850 metrum. Þannig að þetta er óvenjulegt ástand sem við sjáum. Hér á landi erum við að berjast við að slefa upp í 5500 metra og höfum í sumar strögglað við 5400 metra.

 


Hæstu hámörk og lægstu lágmörk veðurstöðva í júlí

Þessi pistill er auðvitað mest fyrir nördin. Óljóst hvað aðrir hafa út úr honum. Við höfum áður fjallað um hæsta og lægsta júlíhita og verður það ekki endurtekið hér, en lítum nú á met einstakra stöðva. Eins og áður í listum af þessu tagi eru töflurnar fjórskiptar og eru því átta töflur í viðhenginu - fjórar lágmarkstöflur og fjórar fyrir hámarkið.

Fyrsta taflan sýnir hæsta hita á sjálfvirkum stöðvum í júlí. Þar kennir margra grasa. Ellefu efstu færslurnar í flokki sjálfvirkra stöðva eru frá sama degi, 30. júlí 2008. Hér eru sjö:

fyrsta árnær til metármetdagurmethitinafn
1996201020083029,7Þingvellir
2004201020083028,8Árnes
2005201020083028,8Hjarðarland sjálfvirk stöð
2006201020083028,4Eyrarbakki sjálfvirk stöð
2002201020083028,4Skrauthólar
2004201020083028,0Þyrill
2004201020083028,0

Kálfhóll

Fyrstu tveir ártaladálkarnir tákna hvaða tímabil liggja til grundvallar. Á Þingvöllum eru það 15 ár, en mun færri á hinum stöðvunum. En þetta er samt mesta hitabylgja sem gengið hefur yfir landið í júlí síðan sjálfvirkar athuganir byrjuðu um 1995, 65 af yrir 170 stöðvum eiga sitt met þennan sama dag og slatti til viðbótar ýmist daginn eftir eða dagana á undan. En fleiri góðar syrpur má sjá í listanum.

Efstu vegagerðarathuganirnar eru:

fyrsta árnær til metármetdagurmethitinafn
1998201020083027,7Skálholt
2002201020083027,6Gullfoss
1998201020083027,5Kjalarnes
2000201020083026,9Sandskeið
1995201020083026,9Víkurskarð
2005201020083026,7Þjórsárbrú
2006201020083026,5Ingólfsfjall

Allar þessar sjö eru frá sama degi - einstakur dagur. Ég skipti listanum yfir mannaðar stöðvar í tvennt, annars vegar frá 1961 til 2010 en hins vegar 1924 til 1960. Við sjáum í fleiri góðar hitabylgjur með þessu móti.

fyrsta árnær til metármetdagurmethitinafn
196120101991229,2Kirkjubæjarklaustur
197720061991428,9Kollaleira
196119971991528,8Egilsstaðir
1990201020083028,8Hjarðarland
196519931991328,2Vopnafjörður
196519931991428,2Vopnafjörður
196419981991428,2Dratthalastaðir
196120011991428,0Seyðisfjörður
196120101991727,9Reykjahlíð

Vopnafjörður er með eina tvöfalda tölu samliggjandi daga, takið eftir því - það er ekki víst að hiti hafi náð 28,2 stigum báða dagana. Hér er aðeins ein stöð með 30. júlí 2008, en allir hinir dagarnir eru úr hitabylgjunni miklu í byrjun júlí 1991. Spurning hvað sú bylgja hefði skilað mörgum metum á sjálfvirku stöðvunum. Ef til vill hefði einhver þeirra náð 30 stigunum - en það er óvíst.

Eldri listinn sýnir meiri dreifingu - enda hámarkshiti ekki mældur lengst af nema á fáum stöðvum.

fyrsta árnær til metármetdagurmethitinafn
1937196019461730,0Hallormsstaður
1924196019242529,9Eyrarbakki
1939196019392528,8Lambavatn
192619601926228,2Húsavík
1937196019372528,0Möðrudalur
1929196019552427,3Fagridalur
1929193419341226,8Hraun í Fljótum
1937196019442126,7Síðumúli

Talan frá Eyrarbakka 1924 er nærri því örugglega röng - en við leyfum henni samt að sýna sig. Neðar í listanum (sjá viðhengið) kemur í ljós að mörg stöðvamet raðast í hneppi í ákveðnum miklum hitabylgjum, t.d. eru met 14 stöðva frá 24. og 25. júlí 1955 og kættu norð- og austlendinga meðan íbúar annarra landshluta sátu í rigningunni.

Síðan koma lágmörkin. Þar er lægsta tala sjálfvirkra stöðva - og lægsta tala landsins vafalítið röng, en þar til að henni hefur verið formlega útrýmt skulum við leyfa henni að fljóta með.

fyrsta árnær til metármetdagurmethitinafn
1996201020109-6,9Skálafell
1994201019988-3,4Gagnheiði
1994201019989-3,4Gagnheiði
1994201019956-3,2Þverfjall
1994201019956-2,9Sandbúðir
19992010200924-2,7Brú á Jökuldal
20042010200925-2,6Möðrudalur sjálfvirk stöð
20062010200924-2,6Brúarjökull B10
19962010200729-2,5Þingvellir

Hitamælingar á Skálafelli hafa síðari árin verið heldur brösóttar þannig að fyrsta alvörutalan á listanum er úr kuldakasti 1998 á Gagnheiði. Í listanum yfir lágmörk sjálfvirku stöðvanna eru 24. og 25. júlí 2009 langmest áberandi - þá skemmdist mikill hluti kartöfluuppskeru í lágsveitum á Suðurlandi. Vegagerðarstöðvarnar hafa ekki enn skráð -2,0 stiga frost í júli.

fyrsta árnær til metármetdagurmethitinafn
19972010200925-1,9Fagridalur
1995200019988-1,7Möðrudalsöræfi I
1995201019988-1,3Fjarðarheiði
19992010200716-1,3Mývatnsöræfi
20062010200729-1,2Gauksmýri
2005200720069-1,1Arnarvatnsheiði - Stórisandur
20052006200610-1,1Eyvindarstaðaheiði
19952010200610-1,1Öxnadalsheiði

En ekki munar miklu. Listi mönnuðu stöðvanna frá og með 1961 sýnir allmörg skæð kuldaköst.

fyrsta árnær til metármetdagurmethitinafn
19612009198621-4,1Möðrudalur
19612010197024-3,3Grímsstaðir
1962201020011-3,0Staðarhóll
19912003200014-3,0Básar á Goðalandi
1963200019891-2,5Garður
19621979196310-2,4Vaglir II
1961200819891-2,3Raufarhöfn
19701998198319-2,1Brú á Jökuldal I
19612002198318-2,0Barkarstaðir

En í efstu sætunum eru aðeins tvær dagsetningar með meira en eina stöð í fanginu. Sé listinn skoðaður í heild kemur í ljós að 20 stöðvar eiga sitt lágmark 25. júlí 1963 - en sá eftirminnilegi dagur hefur áður komið við sögu á hungurdiskum.

fyrsta árnær til metármetdagurmethitinafn
19391945194427-4,0Núpsdalstunga
19361955194427-2,9Skriðuland
1937196019395-2,8Reykjahlíð
19241960194427-2,5Gunnhildargerði
19411960194427-2,1Hlaðhamar
19371960195129-1,6Möðrudalur
19371960195212-1,6Möðrudalur
19521960195720-1,1Barkarstaðir
1924196019395-1,0Grímsstaðir

Á eldri listanum sést vel hversu slæmt kuldakastið 27. júlí 1944 var og síðan 5. júlí 1939, inn á milli sérlegra vænra hitabylgja.

Ég hvet nördin til að líma viðhengið inn í töflureikni og leyfa sér að fara á dálítið gagnafyllerí. Enn hefur ekki verið gerður skotheldur stöðvalisti fyrir tímabilið fyrir 1924. Þar leynast samt fáein stöðvamet, bæði lágmörk og hámörk. Meðal annars 29,9 stigin á Akureyri 1911 sem áður hefur verið minnst á í pistlum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Stuggað við kalda loftinu?

Áður hefur verið hér um það fjallað að þótt besta veður hafi verið á mestöllu Suður- og Vesturlandi síðustu daga hefur loftið samt ekki verið sérlega hlýtt. Enda varla að hiti hafi náð 20 stigum nema á vænstu stöðum. Höfuðborgin fær svo sjaldan 20 stig að hún má mjög vel við una í sínum 16 til 18 stigum. Í dag var þykktin yfir Suðvesturlandi um 5470 metrar - heldur lág. Til morguns á hún heldur að lækka og á síðan að fara niður í 5360 metra norðaustanlands á aðfaranótt miðvikudags. Þá fer enn einn kuldapollurinn þar hjá. Þá er best að skýjað sé. Hér suðvestanlands helst þykktin hærri.

En lítum nú á norðurhvelskort og ræðum það lítillega. Þetta er spá um hæð 500 hPa-flatarins um hádegi miðvikudaginn 20. júlí og er úr smiðju evrópsku reiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg190711

Fastir lesendur kannast við kortið, en aðrir verða að vita að höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú þunna sýnir hæðina 5820 metra.

Nokkuð þröngt er um 5460 metra línuna eins og jafnan á þessum tíma árs. Hún umlykur þó þrjá nokkuð kröftuga kuldapolla. Sá langöflugasti er yfir Norður-Labrador og er innsta jafnhæðarlínan í honum 5280 metrar - ekki á að gefast upp. Annar kuldapollur, minni, er fyrir norðaustan land. Það er hann sem slettir í okkur hala á morgun og miðvikudag eins og nefnt var hér að ofan.

Asóreyjahæðin hefur heldur linast síðustu dagana eftir að hafa komist í 6 kílómetra fyrir nokkrum dögum. Önnur mjög öflug hæð er yfir Norður-Rússlandi og gera spár ráð fyrir mikilli hitabylgju á þeim slóðum næstu daga. En öflugt lægðardrag skransar yfir Ítalíu og síðar Balkanlönd með öflugum þrumuveðrum og úrhelli.

Norður úr Asóreyjahæðinni gengur hæðarhryggur norður yfir Grænland. Kuldapollurinn mikli yfir Labrador á nú að þrýsta honum til austurs og þar með stuggar hann við kuldapollinum fyrir norðaustan land. Við eigum þá að lenda í suðvestanáttinni vestan hæðarhryggjarins. Alla vega tímabundið. Hvað þá gerist veit enginn enn með vissu. Breytingar eru sífelldar eftir því sem nýjar spár verða til. Kemst hlýja loftið nær? Fýkur það hjá án þess að nýtast okkur?

 


Þurrkar

Árið 2010 var þurrt um mestallt land. Sömuleiðis ríktu hlýindi lengst af og loftþrýstingur var mjög hár. Þótt veðrið komi sífellt á óvart var árið úti á mörkum þeirrar líkindadreifingar sem hér ríkir. Ekki er létt að útskýra hvað nákvæmlega er átt við með þessu orðalagi. Langan veg þarf að fara til að skýra það. Vafamál er hvort sú vegferð er farandi í bloggpistlum - en við sjáum til með það.

Þurrkurinn var mestur að tiltölu um vestanvert Norðurland og sums staðar á Vestur- og Suðvesturlandi. Ég hef enn ekki komið því í verk að líta nánar á þessa þurrka nema í Reykjavík. Undanfarin ár hafa haft þá tilhneigingu að snemmsumur hafa verið þurr á vesturhelmingi landsins, en síðan hefur skrúfast frá rigningunni þegar liðið er á sumarið, á tímabilinu frá 20. júlí til ágústloka - og þá sem um munar. Í fyrra var september nokkuð úrkomusamur - en ekki svo að það skipti máli í þurrkaröðinni. Febrúar til maí í ár (2011) skiluðu góðri úrkomu vestanlands - eins og aftur hefði skipt um gír. En nú ber enn svo við að þurrt hefur verið framan af sumri - og til vaxandi vandræða norðanlands.

Á sumarþingi Veðurfræðifélagsins nú í júní flutti ég stutta tölu um þurrkana eins og þeir hafa birst í Reykjavík og nágrenni. Þar kom þetta m.a. fram:

Í Reykjavík mældist ársúrkoman 2010 aðeins 592,3 mm. Ársúrkoma hefur aðeins einu sinni mælst minni en þetta. Það var 1951 þegar hún mældist 560,3 mm. Tvisvar hefur ársúrkoman orðið nærri því jafnlítil og nú. Það var 1891 þegar hún mældist 595,0 mm og 1960 þegar hún mældist
596,6 mm. Næsta ár þar fyrir ofan er 1965 með 610,1 mm.

Í Reykjavík eru samfelldar úrkomumælingar frá 1920 og frá 1884 til 1907, en árin þar á milli vantar. Á því tímabili voru öll árin 1915, 1916 og 1917 mjög þurr um landið vestanvert og trúlegt að að minnsta kosti eitt þeirra hafi verið þurrara í Reykjavík en 2010. Úrkoma í Reykjavík var undir meðallagi í öllum mánuðum nema janúar og september og ársúrkoman aðeins 74% meðalúrkomu.

Nú lítum við á mynd:

w-blogg180711

Lárétti ásinn sýnir árin frá 1921 og fram til maíloka 2011. Lóðrétti ásinn sýnir hlutfall af meðalúrkomu 18 mánaða tímabila 1971-2000.  Búið er að jafna burt árstíðasveiflu úrkomunnar og er teiknuð rauð lína sem nær yfir öll 18-mánaða tímabil frá 1921 til okkar tíma. Við sjáum að það lágmarks sem nýgengið er yfir fór niður í 71% af meðalúrkomu. Svo lág gildi hafa ekki sést nema örfáum sinnum áður - reyndar á 15 til 18 ára fresti eða svo.

Nú er spurning hvernig fer í ár. Kemur úrkomugusa síðla sumars? Við sjáum að úrkomulágmörkin hafa ekki staðið lengi í senn hingað til, úrkoma hefur fljótlega náð hlutfallinu 0,9 aftur. Það er helst upp úr 1960 sem sjá má langt tímabil sem hangir í 0,8 eða svo.


Liðnir júlímánuðir - hæstu hámörk frá 1874

Meðan við bíðum eftir hlýja loftinu skulum við líta á hæsta hita í júlímánuðum frá og með 1874. Ég held að hæsti hiti í júlí í ár hafi ekki enn náð 23 stigum - en þó nærri því. Ég get þó ekki flett því upp héðan úr bloggstóli og biðst forláts ef það er rangt. Þegar þetta er skrifað er liðið á kvöld laugardaginn 16.

w-blogg1707

Lárétti ásinn sýnir ártöl - nútíminn er lengst til hægri, síðasta strikið endar í 2010. Lóðrétti ásinn sýnir hámarkshita júlímánaðar. Ég hef sett leitnina inn sem rauða línu - en bið lesendur um að taka ekki mark á henni - hún ræðst nær eingöngu af lágri stöðu fyrstu áranna - þegar engar stöðvar voru starfræktar inni í landi - þar sem júlíhámörkin mælast yfirleitt. Rauða línan er því eingöngu á myndinni til að minna lesendur á að ekki skuli endilega taka mark á reiknaðri leitni - gagnasafnið verður að vera (sæmilega) einsleitt.

Eftir að fyrstu árunum lýkur og hitavænni stöðvar fara að koma inn fór að verða líklegra að mælingar hafi komist nær um það hver hæsti hiti hvers mánaðar á landinu raunverulega var hverju sinni. En stöðvarnar voru samt fáar og næsta öruggt að hærri hiti hefur verið einhvers staðar - bara ekki mældur. Eftir að sjálfvirku stöðvarnar komu til um miðjan 10. áratug 20. aldar varð líklegra að mælir hitti á met. En útlit myndarinnar hefur samt ekki mikið breyst. Þó má sjá að metin liggja heldur ofar síðustu 25 árin eða svo heldur en þar næst á undan. Sjaldgæft hefur verið að hiti hafi ekki mælst meiri en 24 stig. Núlíðandi mánuður verður að fara að bæta sig.

Við sjáum greinilega á myndinni að 25-stiga mörkin virðast ekki svo mjög erfið. Miðað við allt tímabilið hefur hitinn náð þeim mörkum 63 sinnum af 127 - kannski ættum við ekki að telja fyrstu árin með í því mati. 

Tuttugu og sex stigin eru aðeins erfiðari, 40 sinnum hefur hiti þó náð því marki, 27 stigin hafa aðeins náðst í 20-júlímánuðum og eru því nokkuð feitur biti. Tuttugu og átta stigin eru helmingi sjaldséðari, með 10 júlímánuði og síðustu 60 árin hafa þau aðeins komið tvisvar í júlí, 1991 og 2008. Í bæði þau skipti fór hitinn yfir 29 stig, en hiti hefur mælst 29 stig eða meira fjórum sinnum. Auk tilvikanna áðurnefndu var það á Akureyri 1911 og á Hallormsstað 1946 - en þar með fara hungurdiskar að endurtaka sig. Við tökum eftir röðinni, 26 stig - 40 sinnum, 27 stig - 20 sinnum, 28 stig - 10 sinnum, 29 stig - 4 sinnum og 30 stig - einu sinni. Ekkert fjarri helmingun við hvert stig - kannski er það einhver regla? Ef við trúum þeirri reglu hefðu 30 stigin kannski átt að nást tvisvar - þar af 31 stig einu sinni?

Og enn bíðum við eftir meir en 30 stigum - og óformlega hef ég reiknað að við erum eiginlega að bíða eftir 34 stigum. Um það má lesa á bls. 9 og 10 í hinni sívinsælu greinargerð Hitabylgjur og hlýir dagarsem Veðurstofan gaf út 2003. Sá texti er þó vart fyrir aðra en veðurnördin einu og sönnu.

En fleira athyglisvert má sjá á myndinni. Takið t.d. eftir því að á árunum 1967 til 1974 náði hiti aldrei 25 stigum í júlí (júní og ágúst stóðu sig kannski betur). Sömuleiðis eru júlímánuðir áranna 1960, 1961 og 1962 undir 23 stigum, 1961 lægst með 20,6 stig í júlí. Ástandið var jafnaumt í júlí 1993 - var hann ekki mesti norðanáttarjúlí allra tíma? Núverandi júlí 2011 er þegar búinn að gera betur en það.


Í miðjum júlí 2011

Þurrkurinn á Norðurlandi fer að verða athyglisverður hvað úr hverju. Ekki hefur norðanáttin verið rigningasöm í þar í sumar - og ekki virðist spáð mikilli úrkomu næstu daga. Fyrri helmingur mánaðarins hefur verið hlýr um meginhluta landsins - nema á Austfjörðum og á Suðausturlandi þar sem hiti er enn lítillega neðan meðallags. Veðrabreytingar sjást stöku sinnum í langtímaspám en aðallega í einhverjum móðukenndum fjarska. Enda er hið hefðbundna landslag einnig oftast hulið óljósri móðu. Eldgosið í vor fór fram með öðrum hætti heldur en vænst var - og síðan komu tvö heldur óvænt jökulhlaup - blogg hungurdiska hafa reyndar lítið um þau að segja.´

Síðastliðna nótt (aðfaranótt þess 15. júlí) varð síðan einnig óvæntur smáatburður, silfurský sáust á lofti frá Reykjavík séð rétt um miðnæturbil. Ég hef aldrei séð þau svona snemma - aldrei fyrr en um 25. júlí. Veðurstofur nágrannalandanna hafa einnig minnst á þau á vefsíðum sínum að undanförnu. Silfurský myndast í svokölluðum miðhvörfum lofthjúpsins um hásumarið en þá er kaldasti tími ársins þar uppi, í um 90 km hæð. Miðhvörfin eru efst í miðhvolfinu en það liggur ofan á heiðhvolfinu. Milli mið- og heiðhvolfs eru heiðhvörf, en veðrahvörfin undir heiðhvolfinu - efst í veðrahvolfi.

Silfurskýin sjást nú í flestum árum á tímabilinu 27. júlí til 15. ágúst, um miðnæturbil, þegar norðurloftið er heiðríkt. Í sumum árum sést heiður himinn ekki á þessum tíma vegna ágengra skýja. Sýnarglugginn í kringum miðnættið lengist þegar kemur fram í ágúst - allt þar til skýin hverfa um og fyrir miðjan mánuðinn.

Svo virðist sem tíðni silfurskýja hafi farið að aukast á síðari hluta 20. aldar. Þeirra var fyrst getið eftir eldgosið mikla í Krakatá í Indónesíu 1883. Mjög einkennilegt þykir að þau hafi ekki hlotið athygli fyrr í Norður-Evrópu vegna þess að þar fylgdist fjöldi manns alltaf með stjörnuhimninum og hvert einkennilegt smáatriði á himni var tilkynnt. Nú á tímum eru skýin stundum mjög áberandi, svo áberandi að útilokað má telja að menn hefðu ekki tekið eftir þeim.

Vafalítið er því að skýin hafi verið sjaldséð þar til á síðari áratugum - hvað sem breytingunni veldur.  Birtuskilyrði eru svipuð hér á landi 15. júlí og síðustu dagana í maí. Ég leita eftir 20. maí á hverju ári. Svo langt silfurskýjaskeið hér á landi yrði að teljast órækt vitni um hnattrænar umhverfisbreytingar. Líkur á slíkri lengingu eru þó varla miklar en spennandi er samt að fylgjast með því. Meiri fróðleik um silfurský má lesa í pistli á vef Veðurstofunnar.


Ekki nógu hlýtt

Þrátt fyrir að spáð sé allvænum hlýindum hér suðvestanlands næstu daga (og vel má vera að fleiri landshlutar njóti þess um tíma) er samt ekkert hlýtt loft í nánd. Allt er undir miskunn skýjahulunnar komið. En það er dálítið flókið upplegg að heimta skýjað að nóttu en léttskýjað að deginum þegar lítið ber á hlýju lofti. Slík hegðunarmynstur er eðlilegast þegar hlýtt loft er yfir landinu, en nú er loftið ekkert sérlega hlýtt og andstætt mynstur hefur undirtökin í köldu lofti, skýjað síðdegis, léttskýjað undir morgun. Ef einhver vindátt er ríkjandi trampar hún auðvitað á dægursveiflu skýjahulunnar hvort sem hlýtt er eða kalt. Þá er einfaldlega skýjað þar sem hin ríkjandi átt stefnir á land, en léttskýjað hinumegin hálendisins.

Engir alvarlegir kuldapollar eru þó í ógnandi nánd en meginvindröst vestanvindabeltisins sýnir þó líf sunnan við land. Það sést á mynd dagsins sem fastir lesendur kannast við.

w-blogg150711

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins í spá reiknimiðstöðvar evrópuveðurstofa um hádegi laugardaginn 16. júlí. Höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar eru hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú þunna sýnir hæðina 5820 metra.

Það sem strax vekur athygli á myndinni er að nú sést loks í 6 kílómetra hæðarlínuna (600 dam = 6000 metrar), í hæðinni við Asóreyjar. Hún sést helst á tímanum frá miðjum júlí fram í septemberbyrjun, en ekki nema stundum og oftast þá ekki lengi hverju sinni. Norðan hæðarinnar er mikill og breiður hæðarhryggur fullur af eðalhlýju lofti - sem lítið gagnast okkur.

Þessi ruðningur hlýja loftsins norður á bóginn veldur því að í norðurjaðri þess er býsna mikill vindstrengur. Þið sjáið að þéttar jafnhæðarlínur ná allt frá Manitóba í Kanada og austur um til Bretlands. Í vindstrengnum eru snörp lægðardrög sem fara hvert á fætur annars til austsuðausturs frá Suður-Grænlandi til Bretlandseyja og halda framsókn hlýja loftsins í skefjum.

Eitt þessara lægðardraga fer fyrir sunnan land á morgun (föstudag) og býr til lægðina sem á kortinu er yfir Bretlandseyjum og á að valda verulegu skítaveðri þar (við erum heppin að sleppa við það). Næsta lægðardrag er merkt með svartri þykkri línu við Suður-Grænland - það fer sömu leið og það fyrra og sýnir breskum og frönskum enga miskunn.

Við sitjum hins vegar í hægum vindi, aðallega þó norðlægum, í nokkra daga í lofti sem verður frekar að teljast kalt heldur en hlýtt. En ef sól og land finna rétta taktinn geta komið ágætir gamaldags íslenskir sumardagar - sem maður hefði verið fyllilega ánægður með á níunda og tíunda áratugnum. Nú liggur maður gjörspilltur og heimtar meiri hlýindi - ofalinn af blíðu síðustu ára.


Versta júlíveðrið?

Hvert er versta júlíveðrið? Júlí er hægviðrasamastur mánaða ársins og illviðrarýr. Verstu veðrin eru oftast norðanáhlaup með snjókomu um allt hálendið og víða í byggðum fyrir norðan og á Vestfjörðum. Úrfelli og skriðuföll í framhaldi af þeim eru nokkuð algeng.

Nú er það þannig að líkur á úrhellisrigningu eru heldur meiri í júlí en júní (við getum reiknað það út síðar) en fjallaleysingar eru að því er ég held meiri í júní heldur en júlí. Þegar litið er yfir skriðufallasöguna sést að tjónaskriður eru algengastar í ágúst. Ég hef einhvern veginn á tilfinningunni - án þess að geta rökstutt það með tölum - að á 19. öld hafi vorleysingar stundum verið svo seinar til fjalla að þær hafi oftar lent inni í vaxandi úrkomulíkum júlímánaðar. Þar með hafi líkur á alvarlegum sumarflóðum verið meiri heldur en nú. Ekki er þetta þó víst - en mætti athuga nánar.

En versta júlíveðrið er ábyggilega norðanáhlaupið 23. til 24. júlí 1966 en það kom ofan í óminnilega mikla rigningu suðvestanlands. Rigningin olli skriðuföllum bæði á Kjalarnesi og í Hafnarfjalli við Borgarfjörð. Minnst var á þetta veður hér á hungurdiskum (4. júlí) þegar fjallað var um mestu snjódýpt í júlímánuði. Kannski man einhver eftir þessu. En rifjum upp helstu skaðana:

Gríðarlega mikið fauk af heyi, girðingar skemmdust og kartöflugarðar spilltust mjög, garðagróður varð illa úti. Tjöld fuku á tjaldstæðum og ferðafólk lenti í hrakningum. Trillur sukku á Svalbarðsströnd og á Húsavík, þök tók af húsum í Ólafsfirði, þak tók af bænum í Hólakoti þar í sveit og mikið foktjón varð einnig á Skeggjabrekku, járnplötur fuku af fáeinum húsum í kaupstaðnum.

Útihús fuku í Skaftafells- og Rangárvallasýslum, þrjár heyhlöður fuku í Norðurhvammi í Mýrdal, þurrkhjallur og fleira, fauk ofan af útihúsi í Pétursey og járn fauk á Völlum. Í Eyjarhólum eyðilagðist nýr braggi algjörlega. Heyhlaða fauk á Raufarfelli undir Eyjafjöllum, þak tók af íbúðarhúsi í smíðum á Lambafelli, rúður brotnuðu í íbúðarhúsum og bílar sködduðust. Vegagerðarskúrar fuku og gjöreyðilögðust í Suðursveit. Töluverðar skemmdir á rafmagns- og símalínum. Fuglsungar drápust unnvörpum og fé króknaði. Fjallvegir tepptust af snjó og það snjóaði niður undir sjó norðaustanlands. Mýrdals- og Sólheimasandur lokuðust af sandfoki.


Vindhraði í júlí - hvar er mesta hægviðrið?

Júlí er að jafnaði hægviðrasamasti mánuður ársins. Ekki er þó allt sem sýnist því dægursveifla vindsins er þá mikil - sums staðar.

Við skulum þá svara spurningunni í fyrirsögninni strax með því að líta á töflu sem auðvitað nær aðeins til veðurstöðva. Vindhraðinn er í m/s (í ofbólginni nákvæmni - en þannig verða raðanir til).

röðmeðalvstöð
11,96Hallormsstaður
22,14Skaftafell
32,56Básar á Goðalandi
42,56Bíldudalur
52,74Öræfi
62,74Neskaupsstaður
72,87Kollaleira
82,88Akureyri - lögreglustöð
92,92Húsavík
102,92Seyðisfjörður

Hallormstaður er dæmist vera hægviðrasamasta veðurstöð landsins í júlímánuði, eina stöðin þar sem sólarhringsmeðalvindhraði er undir 2 m/s. Síðan koma tveir mjög vinsælir ferðamannastaðir, Skaftafell og Básar. Vegagerðarstöðin í Öræfum fær að fylgja með í 5. sæti og síðan koma nokkrir hægviðrasamir þéttbýlisstaðir.

Vindasömustu stöðvarnar, það er í merkingunni meðalvindhraði er mestur, eru:

röðmeðalvstöð
17,68Stórhöfði
27,62Sandbúðir
37,26Skálafell
46,93Papey
56,87Skarðsmýrarfjall
66,71Þúfuver
76,59Vatnsfell
86,58Holtavörðuheiði
96,55Fróðárheiði
106,40Fontur

Stórhöfði í Vestmannaeyjum er efstur í röðinni, en síðan koma Sandbúðir á Sprengisandi og Skálafell. Papey birtist síðan og svo Skarðsmýrarfjall við Hellisheiði. Þúfuver og Vatnsfell eru á hálendinu og vindasamar heiðar, Holtavörðuheiði og Fróðárheiði eru ívið ofar en Fontur á Langanesi.

En eins og áður sagði er talsverður munur á vindi dags og nætur í júlí. Hámarksmeðalvindhraði allra stöðva er 5,6 m/s - valið úr hámarki dægursveiflunnar. Lágmarksmeðalvindhraði er hins vegar aðeins 3,6 m/s, hér munar 2,0 m/s. Meðalvindhraði sólarhringsins alls er 4,5 m/s.

Forvitnilegt er að skoða á hvaða stöðvum dægursveiflan er minnst og hvar mest.

meðalmestminnströðmismstöð
5,095,244,9910,25Fontur
4,504,694,2820,41Flatey á Skjálfanda
4,845,084,6630,42Þverfjall
3,013,252,7740,48Hornbjargsviti
6,236,606,0250,58Bjarnarey
5,986,325,6860,64Gagnheiði
4,274,723,9470,78Stykkishólmur
4,474,964,1280,84Vestmannaeyjar - hraun
7,688,127,2290,90Stórhöfði
4,645,204,26100,94Vatnsskarð eystra

Í þessari töflu ræður röðinni dálkur sem merktur er „mism“. Hann sýnir mun dagshámarks og næturlágmarks. Fremri dálkarnir sýna þær tölur. Meðalvindurinn í fremsta dálki en síðan hámarkið og lágmarkið.

Fontur á Langanesi virðist vita minnst af dægursveiflunni, teygir sig langt út í sjó frá áhrifum hafgolunnar. Síðan skiptast á eyjastöðvar og fjöll nærri ströndinni. Þverfjall og Gagnheiði virðast ekki vita mikið dægursveiflunni eins og hún birtist í þessum tölum.

Hvaða stöðvar sýna þá mestan breytileika? Því svarar síðasta tafla dagsins.

meðalmestminnströðmismstöð
4,256,112,6913,42Egilsstaðaflugvöllur
3,956,032,4123,62Végeirsstaðir í Fnjóskadal
4,376,832,6734,16Torfur í Eyjafirði

 

Þær þrjár stöðvar sem birtast á þessum lista eru í dölum þar sem hafgolan á greiða leið.  


Af afbrigðilegum júlímánuðum - annar áfangi

Lítum nú létt á fáeina afbrigðilega júlímánuði til viðbótar. Fyrir nokkrum dögum var fjallað um þá hlýjustu og köldustu, þurrustu og votustu en í þetta sinn höllumst við meir að nördahorninu og horfum á mánaðameðaltöl loftþrýstings og vinda.

Það þarf að grafa djúpt í vasana til að finna hæsta og lægsta mánaðarmeðalloftþrýsting. Háþrýstiúthaldið er mest hjá júlí 1824, 1021,7 hPa. Magnús Stephensen skrifar í Klausturpóstinn um haustið (bls. 164, stafsetningu hnikað til nútímamáls):

Sumarið, þegar útrunnið, reyndist víðast hér á landi hlýtt, frjósamt og indælt, gaf og ríkulegan heyfeng flestum nema hvar votlendi gerðu hann, þá út hallaði, endasleppan af haustrigningum.

Aðrir háþrýstimánuðir eru 1968 og 1832. Lágþrýstingur entist lengst og mest í júlí 1876, 1000,5 hPa - ótrúlega lágt. Um hann segir í hnotskurn:

Rigningasamt nyrðra, snjór til fjalla, lengst af kuldar. Ekki sérlega uppörvandi eða hitt þó heldur. Næstir í röð lágþrýstimánaða eru 1861 og 1935. Síðarnefndi mánuðurinn kom við sögu í afbrigðapistlinum á dögunum sem rigningamánuður á Suðurlandi. - Mikið af lægðum, greinilega.

Þegar meta á tíðni vindátta eru margir röðunarmöguleikar. Fyrir nokkru litum við á mestu norðanþráviðri í júní - en lítum nú á sama fyrir júlí. Inngangstexti er endurtekinn úr fyrri pistli (19. júní).

1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1881. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið. Ákveðin atriði flækja þó málið - en við tökum ekki eftir þeim hér. Samkvæmt þessum mælikvarða er júlí 1993 á toppnum, síðan kemur 1970. 

2. Styrkur norðanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949. Eftir þessum mælikvarða er júlí 1993 líka í fyrsta sæti og 1970 í öðru. 

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindatugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, norðaustan og austanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Samkvæmt þessari mælitölu er júlí 1915 í fyrsta sæti, síðan 1931 og 1993 í því þriðja.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð. Í þessum lista er júlí 1993 enn í fyrsta sæti en 1931 í öðru.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Hér er 1890 í fyrsta sæti en 1993 í öðru. 

Við sjáum að norðanáttin hefur verið sérlega þaulsetin í júlí 1993 enda var mánuðurinn afspyrnuslæmur norðanlands. Það er hins vegar júlí 1955 sem raðast í efstu sæti flestra sunnanáttarraðanna, nær fjórum sætum af fimm. Glæsilegur árangur.

Rólegastur júlímánaða á mælikvarða loftþrýstióróa er 1888. Sá mánuður fékk góða dóma nema í hafsíssveitum norðaustanlands en þar var mjög dauf tíð. Sá órólegasti var júlí 1983 - sumarið þegar mótmælastaðan var við Veðurstofuna. Þetta er versta sumar í mínu minni og fádæma kalt þótt suðvestlægar áttir væru ríkjandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg121124a
  • w-blogg101124c
  • w-blogg101124b
  • w-blogg101124a
  • w-blogg081124d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.11.): 20
  • Sl. sólarhring: 443
  • Sl. viku: 2282
  • Frá upphafi: 2410271

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 2042
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband