Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Molar um nokkur maímet (stagl)

Við lítum hér á nokkur maímet.

Mánaðarmeðalloftþrýstimetin eru orðin ansi gömul - ef trúa skal. Maí 1875 á lægsta meðalþrýstinginn. Ekki hefur rignt meira í maí í Stykkishólmi síðan. Í hnotskurnarlista mínum segir: Sæmileg tíð fram undir miðjan mánuð,en síðan hrakviðri og rigningar, snjóahret nyrðra. Jæja.

Hæstur varð meðalþrýstingurinn í maí 1840. Þetta ár var einkennilega blandað, ýmist í ökkla eða eyra. Af maí sjálfum fara ekki miklar fréttir nema að hiti og úrkoma voru ekki langt frá meðallagi í Reykjavík.

Mér kemur sjálfum á óvart þegar reikningar mínir sýna að maí 1971 sé sá úrkomusamasti á landinu í heild (miðað er við tímann frá og með 1924), 60% allra mælidaga (allra stöðva) voru úrkomudagar. Þá segir í hnotskurn minni: Hagstæð tíð um land allt. Það er einmitt þannig sem menn vilja hafa það á vorin, raka með sæmilegum hlýindum. Maí 2004 telst hins vegar sá úrkomusamasti á Norðausturlandi, þá segir: Fremur kalt framan af, en síðasta vikan var óvenju hlý um mikinn hluta landsins. Sólarlítið var norðanlands.

Maí 1991 er talinn sá úrkomusamasti á Vesturlandi. Hagstæð tíð, en óvenju úrkomusöm um mikinn hluta landsins. Nokkuð þungbúið sv-lands. Hlýtt. Á Suðurlandi hefur maí 1970 vinninginn sem sá úrkomusamasti. Þá er tíð talin óhagstæð, nema austan- og suðaustanlands.

Maí 1931 er talinn sá þurrasti á landinu. Hægviðrasamt, en óvenju þurrt og fór gróðri lítið fram. Sennilega hefðu nútímamenn verið ánægðir með þetta. Úrkoma mældist engin á veðurstöðvunum á Hvanneyri, Hesteyri, Akureyri og í Grímsey (hvernig er með þessar eyrar)? Sami mánuður er talinn þurrastur á Vesturlandi, en á Norðausturlandi er maí 1933 talinn þurrari og á Suðurlandi er maí 1958 talinn þurrastur. Man einhver eftir því?

Mesta 24-stunda úrkoma sem mælst hefur var í mæli á Kvískerjum í Öræfum þann 16. 1973 og þar er sömuleiðis mesta mánaðarúrkoman í maí, 538,4 mm, 1978.

Lægsti loftþrýstingur í maí mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þann 13. árið 1956, 967,3 hPa. Það er merkilegt að lægsti þrýstingur í júní er mun lægri en þetta og bendir til þess að einhvern tíma í framtíðinni bíður lægð óþreyjufull eftir því að komast að með sín 960 hPa eða minna. Hvenær henni verður hleypt að vitum við ekki.

Óvenjulega umhleypingasamt var í maí 1956 og gengu fáeinar mjög krappar lægðir yfir landið. Í tilraun til að setja maíhvassviðri í topptíuveðra lista er vestanveðrið 27. og 28. maí það versta, en norðanveðrið þann 15. 1956 lendir í 2., 3. eða 5. sæti síðustu 60 ára - eftir því hvernig talið er. Það er ekki alveg auðvelt að búa til lista um illviðri sem allir geta sameinast um.

Hæsti þrýstingur sem við vitum um í maí er 1045,0 hPa þann 18. 1894. Lítum að lokum á kort úr tuttugustualdarendurgreiningunni:

w-blogg110511

Veðurkort um hádegi 18. maí 1894. Þá mældist þrýstingur hærri en fyrr eða síðar í maí hér á landi. Tölurnar eru hæð 1000 hPa-flatarins í dekametrum, en hvert hPa samsvarar 0,8 dekametrum. Sá hringur sem merktur er 360 er 1045 hPa jafnþrýstilínan.

Við sjáum að greiningin virðist ofreikna þrýstinginn lítillega. Ég sé ekki á myndinni hvort litli hringurinn yfir Norðausturlandi er 1050 hPa línan eða 1045 hPa. En þetta er gríðarlegt háþrýstisvæði enda segir um mánuðinn í hnotskurnartextanum: Þurrviðrasamt, svo háði gróðri, úrkoma mældist 9 mm í Stykkishólmi, 15 í Reykjavík og 18 á Teigarhorni.


Mikil rigning - hversu mikil er hún?

Ekki er auðvelt að svara þessari spurningu. Flestir miða við það sem þeir eru vanir. Mér er minnisstætt þegar ég dvaldi um hríð á Akureyri á unglingsárunum hversu lítilmótleg rigningin var þar miðað við Borgarnes. (Nóg var hins vegar af öðrum illviðrategundum). Sömuleiðis þótti mér mikið rigna á Laugarvatni er ég dvaldi þar um vetrarskeið, mun meira heldur en ég var vanur.

Það flækir hugsanlegar skilgreiningar að ákefð úrkomunnar skiptir mjög miklu máli, með því er átt við hversu mikil úrkoma fellur á tímaeiningu. Þetta sést strax og farið er að meðhöndla tölurnar, 1 mm af úrkomu er það sama og 1 lítri á fermetra, 10 mm eru þá 10 lítrar á fermetra, það gengur e.t.v að missa niður 1 lítra af vatni á eldhúsgólfið, en heil þvottafata af því skapar hálfgert neyðarástand.

Mikil úrkomuákefð getur skapað stórvandræði í niðurföllum og frárennsliskerfum og millimetrarnir 10 verða fljótt að tugum tonna þurfi þéttir fletir eins og  t.d. þök eða bílastæði að taka við. Gróin svæði jafna hins vegar rennsli.

Úrkoma á Íslandi er mismikil, um 300 mm á ári þar sem minnst er og yfir 3000 þar sem mest fellur í byggð. Til fjalla mun ársúrkoman sumstaðar vera enn meiri.

Þumalfingursregla segir að falli meira en 6 prósent af meðalársúrkomu á einum sólarhring sé hætta á ferðum í bröttu landslagi. Þetta er gróf ágiskun sem má ekki taka allt of hátíðlega Á þurrustu svæðum landsins eru þetta ekki nema 20 mm, en um 200 mm þar sem úrkoma er að jafnaði mest.

Tuttugu millimetrar á sólarhring eru gróflega 1 mm á klukkustund. Ólíklegt er að það sé allt jafndreift. Á úrkomusömustu stöðunum er meðalákefðin því um 10 mm/klst.

Ákefðarmælingar hafa lengi verið gerðar í Reykjavík en sjálfvirkar úrkomumælingar síðustu 10 til 12 árin hafa verið að bæta miklu við þekkingu okkar á því hvað má telja mikla ákefð hér á landi. Úrkomu er gjarnan skipt upp í nokkrar tegundir sem hafa misjöfn ákafamynstur. Úrkoma sem verður til þegar loft er þvingað upp fjallshlíðar er þannig miklu jafnari heldur en sú sem fellur úr skúra- og éljaklökkum. Ég hef hugsað mér að fjalla meira um þetta efni síðar.

En getum við komið okkur upp einhverri reynslutengingu við ákefðina? Fyrir nokkrum árum kom út í Bretlandi ágæt bók sem heitir Great British Weather Disasters. Þessi bók er býsna fróðleg og margt skynsamlegt er þar sagt um veður - meira en algengt er í bókum af þessu tagi. Í bókinni er listi þar sem reynt er að tengja úrkomuákefð reynslu vegfarenda. Ég leyfi mér að þýða listann lauslega:

0,1 mm/klst: Lítilsháttar súld, lítil þörf á regnhlíf. Vegir og gangstígar blotna ekki, ökumenn kveikja endrum og sinnum á rúðuþurrkum - þær þurrka of oft séu þær í gangi.

0,2 mm/klst: Súld eða slitrótt rigning, stöku maður spennir upp regnhlíf, flestir hraða sér heldur á milli húsa þótt þeir blotni ekki að ráði. Rakir fletir á vegum og stígum, ökumenn láta rúðuþurrkur ekki iðja samfellt.

0,5 mm/klst: Ákveðin súld eða lítilsháttar rigning. Flestir bretar nota regnhlífar (varla landinn), skyrtur blotna - þó ekki skyndilega. Pollar byrja að myndast á vegum og stígum. Ökumenn vita varla hvaða stillingu á að hafa á rúðuþurrkum, samfellda eða ósamfellda iðju.

1,0 mm/klst: Rigning - slagrigning ef hvasst er, frakkaklæddir hraða sér, þeir á skyrtunni leita skjóls, pollar á stígum og vegum, rennur í niðurföll við götur og stæði. Rúðuþurrkur stöðugt í gangi.

4 mm/klst Hellirigning, regn slettist af gangstígum þannig að þeir sem ekki eru í stígvélum blotna, frakkaklæddir leita skjóls, stórir pollar myndast. Rúðuþurrkur á fullu, ökumenn hægja á sér (vonandi).

10 mm/klst. Úrfellisrigning, flestir leita skjóls, rúðuþurrkur hafa varla við, ökumenn þurfa að hægja mjög á sér vegna slæmra bremsuskilyrða, illa hreinsuð niðurföll hafa ekki öll við og vatn safnast fyrir í dældum.

25 mm/klst. Meiriháttar úrfelli sem veldur staðbundnum flóðum ef það stendur lengur en í 10 til 30 mínútur. Skyggni minnkar og umferð hægir á sér eða stöðvast tímabundið.

100 mm/klst. Hér á landi stendur úrkomuákefð af þessu tagi í mesta lagi í örfáar mínútur, skyggni fer niður fyrir 50 metra, hallandi vegir verða að fljótum, niðurföll hafa vart undan.

Á Veðurstofutúninu í Reykjavík er mest vitað um 4,7 mm úrkomu á 5 mínútum. Það samsvarar ákefðinni 56 mm/klst. Úrfellið var mjög staðbundið og stóð stutt. Engu að síður flæddi í fjölmarga kjallara þar sem skúrin fór yfir. Um þetta tilvik fjallaði ég í pistli um úrkomumet á vef Veðurstofunnar fyrir nokkrum árum.

Bókin: Philip Eden (2008), Great British Weather Disasters, Continuum, 351s.


Hver var þykktin?

Í dag (sunnudaginn 8. maí) var veður með besta móti hér suðvestanlands, hiti komst í 16,4 stig í Reykjavík, 16,7 stig á sjálfvirku stöðinni á sama túni. Þar er einnig önnur sjálfvirk stöð og á henni fór hitinn í 16,1 stig. Meðaltal þessara þriggja talna er 16,4 stig. Hámarkið á flugvellinum var 16,3 stig, 17,1 stig við Korpúlfsstaði og 17,5 á Hólmsheiði ofan við bæinn. Örugglega hefur mátt finna bæði hlýrri og kaldari staði en þetta á svæðinu.

Hér á hungurdiskum er mikið fjallað um þykktina milli 500 hPa og 1000 hPa-flatanna en hún er því meiri eftir því sem loft er hlýrra. Meðalþykkt í maí hér á landi er 5350 metrar. Gróflega má segja að hiti aukist um 1 stig fyrir hverja tuttugu metra í þykkt. Meðalhiti í Reykjavík er rúm sex stig í maí.  

Þykktin yfir Keflavíkurflugvelli var 5423 metrar á hádegi, en hún var komin upp í 5490 metra á miðnætti (aðfaranótt 9. maí), 140 metrum - eða 7 stigum ofan meðalhita sólarhringsins samkvæmt þeirri subbulegu reiknireglu sem hér var kastað fram.

En málið er auðvitað ekki svona einfalt. Oft er lítið samræmi milli hita nærri jörðu og hita í háloftunum. Langoftast má finna að minnsta kosti ein hitahvörf á bilinu frá jörð og upp í 5 km hæð. Loft neðan hitahvarfa fréttir oftast lítið af hitabylgjum ofar. Svo var málum háttað í dag um landið norðaustanvert. Sama hlýja loftið var þar yfir og yfir Suðvesturlandi. Vindur stóð af vorköldum sjónum útifyrir landinu. Á síðarnefnda landsvæðinu blés vindur hins vegar af landi þannig að kalt sjávarloftið náði ekki að leggjast inn á landið.

Sums staðar á Austfjörðum voru stórar og skemmtilegar hitasveiflur í dag eftir því hvort opið eða lokað var fyrir fréttasamband milli jarðar og hlýja loftsins ofan við. Þannig var það t.d. á Kambanesi. Hámark dagsins var þar 11,6 stig, en hitinn lengst af mun lægri. Ekki þurfti miklar sveiflur í vindátt og styrk til að sjá um þetta.

Þannig er þetta líka í hlýrri suðvestanátt - með öfugum formerkjum. Sunnlendingar sitja þá í þungbúnu sjávarloftinu en austlendingar njóta hlýja loftsins að fullu í vel blandaðri landáttinni.

Óvenjulegt er að þykktin í maí fari yfir 5530 metra og niður fyrir 5100 metra - dæmi eru þó um hvoru tveggja.

Þykktin á heldur að minnka næstu daga - ekki þó mikið til morguns.

w-blogg090511

Kortið sýnir þykktarspá sem gildir mánudaginn 9. maí kl. 18 (heildregnar línur, merktar í dekametrum). Þykkt yfir Suðvesturlandi er spáð 5430 metrum. Litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum (í um 1400 metra hæð), þar er frostlaust samkvæmt spánni. Hlýja tungan sem var yfir landinu á sunnudag hefur hörfað til austurs og kemur ekki meira við sögu hér á landi.


Stærð regn- og skýjadropa

Endrum og sinnum er ég spurður um stærð regndropa og fallhraða þeirra. Ég man þessar staðreyndir nokkurn veginn en svo koma erfiðari spurningar - hvað með stærð þoku- eða skýjadropa? Þá halla ég mér að gamalli mynd úr kennslubók, Physics of Clouds eftir B.J. Mason. Hún hefur reyndar nýlega verið endurútgefin af Oxford-útgáfunni en mér þykir hún dýr (10 þúsund) þótt hún sé mun lengri en fyrsta útgáfan sem ég las. Hvað um það hér er myndin.

w-dropastaerd

Ég vona að einhver geti lesið hana - ef ekki má reyna viðhengið. Myndin sýnir stærð regndropa, skýjadropa og þéttikjarna - en á þeim myndast úrkoman. Hringirnir skýra sig sjálfir, sá stærsti er svo stór að við sjáum aðeins brot af honum, afmarkað sem blár baugur neðst á myndinni.

Í bláu reitunum á myndinni sjást þrjár staðreyndir um hverja gerð dropa. 1. Radíus hans, 2. dæmigerður fjöldi í einum lítra af lofti og að lokum 3. fallhraði í cm/sek. ´

Þarna má sjá að dæmigerður regndropi er um 1000 míkrómetrar í þvermál = 1 millimetri. Í hverjum lítra lofts í rigningu er að meðaltali einn regndropi og dæmigerður fallhraði er um 650 cm/sek = 6,5 m/s, um 20 km/klst. Stundum eru regndropar stærri en þetta - en við erum að ræða um það sem dæmigert er. Í efra horni til vinstri er dropi sem er á mörkum skýja- og regndropa, hann er um 100 míkrómetrar í þvermál = 0,1 millimetri.

Síðan eru þarna stór skýjadropi og dæmigerður skýjadropi. Dæmigerði skýjadropinn er aðeins 10 míkrómetrar í þvermál (0,01 mm), fallhraði hans er um 1 cm/sek og í skýinu eru um milljón dropar í hverjum lítra (einni mjólkurfernu). Þokudropar eru ámóta.

Droparnir myndast langflestir á svonefndum þéttikjörnum en það eru örsmátt ar, ryk- eða saltkorn sem vilja gjarnan leysast upp í vatni. Agnirnar eru ámóta margar í lítranum og regndroparnir (um milljón) en miklu minni - 0,1 míkrómetri í þvermál, eða 10 nanómetrar. Fallhraðinn er afarlítill, 0,0001 cm/sek

Öll þekkjum við rigningu og hún er einhvernvegin sjálfsagt mál og það þótti mönnum líka framan af. En síðan fór að vefjast fyrir mönnum að skýra út hvernig rigningin verður til og enn dularfyllri var sú staðreynd að ekki tekur nema skamma stund að búa til hellirigningu í skúraskýjum. Þar að auki var vitað að örsmáir dropar af hreinu vatni geta ekki lifað nema að loft sé yfirmettað sem kallað er.

En látum hér staðar numið. Vonandi opnast myndin í viðhenginu, hún er talsvert skýrari en afritið hér að ofan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hiti á garðpöllum - hvað er verið að mæla?

Hitamælingar eru víða stundaðar á húsveggjum, í görðum eða á bílum. Það er ýmislegt sem veldur því að þær eru stundum í litlu samræmi við mælingar Veðurstofunnar. Ef fólk mælir hita við hús með gamaldags kvikasilfursmæli er best að koma honum fyrir á norðurvegg - til að hægt sé að lesa af honum inni í húsinu er best að hann sé þar sem inniloft - t.d. úr opnum gluggum kemur lítið við sögu. Við glugga er því best að mælirinn sé sem fjærst frá opnanlegu fagi.

Sé stafrænn mælir notaður er sömuleiðis best að hann sé norðan í móti, snerti ekki húsvegg og helst ætti hann að vera inní í hvítum hólki sem þó er opinn í báða enda. Stundi menn reglulegan samanburð við mælingar Veðurstofunnar lærist fljótt að leiðrétta fyrir þeim óæskilegu áhrifum sem heimamælir verður fyrir.

Haf verður í huga að tilgangur veðurfræðilegra hitamælinga er sá að mæla lofthita, en ekki sá að mæla hita á hitamælinum einum og sér. Mælingar eru tryggastar ef varmaskipti milli mælis og umhverfis hans gerast ekki öðru vísi en við snertingu lofts og yfirborðs mælisins.

Helstu svör við spurningunni í titli pistilsins má finna í mun ítarlegri texta í pdf-viðhengi sem flestir ættu að geta opnað. Hann er dreginn út úr veðurskrifalager mínum sem liggur undir skemmdum. Vonandi er óbragðið ekki yfirþyrmandi.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Maíhiti í Stykkishólmi síðustu 200 ár

Í þann mund sem ég var að útbúa myndina hér að neðan sá ég á veðurfréttavef BBC minnst á hugsanlega hitabylgju og þrumuveður á Bretlandseyjum um helgina, tengt fyrirbrigði sem kallað er spænski strókurinn(e. Spanish Plume). Ég fjalla vonandi um þetta síðar þegar ég hef fundið/gert heppilegar skýringarmyndir. - Aumingjalegur ættingi er til hér á landi. En snúum okkur að maíhitanum.

w-mai_t178_9810

Myndin sýnir mánaðarmeðalhita í Stykkishólmi maí 1798 til 2010 (gráar súlur). Tímaásinn (ár) er láréttur, en lóðrétti ásinn sýnir hita í °C. Græn þunn lína sýnir reiknaða leitni og er hún um 0,7°C á öld. Munum að leitni fortíðar spáir engu um framtíðina. Bláa línan er sett til að draga fram köld og hlý tímabili.

Munur á hlýjasta og kaldasta mánuði er um 7 stig. Þeir sem eru farnir að nálgast miðjan aldur eða meira muna vel eftir kuldanum í maí 1979 og þá hélt maður satt best að segja að kuldatíð 19. aldar væri endanlega að taka við á ný. Ég byrjaði að skrifa veðurspár suður á Keflavíkurflugvelli í lok mánaðarins og mér er minnisstæð viðtalsferð á Veðurstofuna þar nokkrum dögum áður í snjókomubyl á Reykjanesbrautinni, lítið festi þó snjó. Meðalhiti í maí 1979 var 0,9 stig í Stykkishólmi, 2,3 stig í Reykjavík og -0,3 stig á Akureyri. Á tveimur síðarnefndu stöðvunum er þetta líka kaldasti mánuðurinn. Örvar á myndinni benda á nokkra aðra kalda maímánuði.

Hlýjasti mánuðurinn á myndinni er 1830, 8,3 stig - svo mikil óvissa er þó í kringum þessa tölu að varla kemur til greina að gefa honum hitametið með ákveðnum hætti. Það hirðir því 1935 með 8,2 stig. En í lok þessa pistils er vörn fyrir maí 1830.

Ef mið er tekið af bláu línunni má skipta tímabilinu í fáein skeið. Það fyrsta er fyrir 1822, ekki má þó taka tölur þess mjög hátíðlega - vonandi eru þær samt skárri en engar. Næsta skeið stendur gróflega til 1857, en síðan tekur við langt tímabil þar sem kuldar ríkja í flestum maímánuðum - enda var hafís þá lengst af mikill við norður- og austurströndina, jafnvel vestur með Suðurlandi. Maí 1927 var fyrsti mjög hlýi mánuðurinn í mikilli hrinu hlýrra maímánaða sem stóð linnulítið í 20 ár. Þá kom milliskeið sem stóð fram yfir 1960, maímánuður 1963 var kaldur og sömuleiðis maí á hafísárunum svokölluðu 1965 til 1971. 

Maí hefur verið mjög hlýr síðustu þrjú árin - en hvað gerist nú?

Hafísinn er drjúgur áhrifavaldur hitafars í maí, liggi hann við land er þokugjarnt við norður- og austurströndina og komi bjartir dagar sem ættu að verða hlýir í sólskininu fellur ísköld hafgola inn firði og dali strax snemma dags og ekkert verður úr. Sé rýnt í vikakort má greinilega sjá að áhrif kuldans ná vestur á Breiðafjörð, jafnvel suður í Borgarfjörð og að austan vestur með suðurströndinni. Höfuðborgarsvæðið verst hafískuldanum lengst og best. Í köldum maímánuðum þegar hafís er ekki við land er vikamynstrið annað. Kaldast er þá inn til landsins, sérstaklega á Norðurlandi, en áberandi hlýjast syðst á landinu í skjóli jökla. 

En maí 1830 - hvað á að gera við hann? Jón Þorsteinsson landlæknir mældi þá í Nesi við Seltjörn (Seltjarnarnesi) og bjó þar í Nesstofu sem enn stendur og er prýði bæjarfélagsins. Um skeið athugaði Jón aðeins hámarks- og lágmarkshita einu sinni á sólarhring. Það gerði hann í maí 1830. Þá var meðallágmarkshitinn 7,6 stig en meðalhámark 12,4 stig - beint meðaltal er 10,0 stig.

Vitað er að mælir Jóns var óvarinn - ekki í skýli og var nær jörðu en nú er venjulegt. Hvoru tveggja ýkir dægursveifluna. Hún er þó ekkert sérstaklega ýkt í maí 1830. Hár lágmarkshiti bendir til þess að mjög skýjað hafi verið lengst af. Eykur það traust á mælingum í þessum ákveðna mánuði.

Í maí 1935, helsta keppinaut 1830 um maímetið, var meðallágmark ekki nema 6,7 stig, 0,9 stigum undir lámarksmeðaltalinu 1830, en meðalhámark í þeim mánuði var hærra heldur en 1830 eða 12,8 stig - munar hér 0,4 stigum. Nánari mælingar á dægursveiflu í Reykjavík virðast benda til þess að ívið „of hlýtt“ hafi verið á þaki Landsímahússins um hádegið heldur en við staðalaðstæður. Beint meðaltal meðalhámarks og lágmarks í maí 1935 er 9,8 stig - 0,2 stigum lægra en 1830.

En myndin hér að ofan sýnir hita í Stykkishólmi en ekki í Reykjavík. Á tímabilinu maí til ágúst er mjög gott samband á milli lágmarkshitameðaltals í Reykjavík og meðalhita í Stykkishólmi - betra heldur en sambandið milli meðaltals lágmarks og hámarks annars vegar og Stykkishólmshitans hins vegar. Þess vegna var lágmarksmeðaltalið í Reykjavík notað til að áætla Stykkishólmshitann. Miðað var við þann tíma sem mælt var á báðum stöðum samtímis - og eins (1846 til 1851) og borið saman við síðari tíma sambönd. Þeir reikningar gefa meðalhitann 8,3 stig í Stykkishólmi, það hæsta í listanum þar og þar með á myndinni að ofan. Aðrar aðferðir (e.t.v. betri) gæfu aðra niðurstöðu. En framhjá því verður ekki gengið að meðallágmarkshitinn 7,6 stig í maí er mjög óvenjulegur og varla er hægt að fussa við honum.

En - nú var mælt á öðrum stað á landinu í maí 1830. Það gerði Grímur Jónsson amtmaður á Möðruvöllum í Hörgárdal. Því miður er mun minna vitað um þær mælingar heldur en mælingar Jóns í Reykjavík. Þó er vitað að Grímur mældi snemma morguns (kl. 7 til 8 að staðartíma). Meðalhiti í maí 1830 var 6,0 stig. Sé þetta nærri lágmarkshita sólarhringsins telst talan há, meðallágmarkshiti á Akureyri í maí 1935 var 5,0 stig. Ekki hefur hér verið reiknað til enda, en gerist vonandi um síðir.


Þegar lítið er um að vera (má samt mala)

Fyrirsögnin vísar til þess að nú er heldur rólegt á veðursviðinu í kringum okkur. Rólegu veðri má hins vegar lýsa einhvern veginn og verður nokkrum orðum eytt á það hér á eftir. En fyrst er mynd sem fastir lesendur ættu að vera farnir að kannast við. Hún er fengin af brunni Veðurstofunnar og sýnir hirlam-spákort sem gildir kl. 9 að morgni fimmtudagsins 5. maí 2011.

w-blogg040511-1

Hér er ástandið í 500 hPa-þrýstifletinum sýnt. Svörtu heildregnu línurnar eru jafnhæðarlínur í dekametrum og segja til um það hversu hátt yfir jörðu þrýstiflöturinn er á hverjum stað. Rauðu strikalínurnar eru þykktin sem ég hef oft fjallað um áður en hún er mælikvarði á hita í neðri hluta veðrahvolfsins, því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið. Hér er hún mæld í dekametrum, 1 dam = 10 metrar.

Á myndinni er mikil flatneskja við Ísland, en vottar fyrir hæðarhrygg yfir landinu. Talsverð lægð er suður í hafi og önnur meiri vestan Grænlands. Suður af þeirri lægð er lægðardrag (merkt með grænni strikalínu) og hreyfist það eins og bláa örin sýnir og mun lítið gera nema styrkja lægðina suðurundan þannig að hún hreyfist ekki mikið næstu einn til tvo daga.

Lægðin vestan Grænlands er það sem eftir stendur af meginkuldapollum vetrarins. Það er eini staðurinn á kortinu þar sem þykktin (rauðu strikalínurnar) er minni en 5100 metrar. Það er sú tala sem ég nota sem eins konar viðmið á alvöru vetrarveðráttu. Þegar komið er fram á þennan tíma vorsins er mjög sjaldgæft að þessi lína hringist suður fyrir Ísland.

Í maí viljum við helst ekki að þykktin sé mikið undir 5280 metrum, sé hún lægri er eiginlega skítakuldi, ég tala nú ekki um ef vindur blæs. Sumarþykkt er hér á landi ofan við 5460 metra - ekki er sú sæla þó ríkjandi alla daga á sumrin, en núna, snemma í maí, telst bara gott ef þykktin fer yfir það. Vi getum sæmilega við unað við neðri tölur ef þær fara ekki niður fyrir 5340 metra. Á þessu korti er strikalínan yfir landinu einmitt 5340 metrar.

Næstu daga gerist ekki mikið í þykktinni, hún á þó heldur að hækka. Spár eru ekki sammála um helgarþykktina, en þykkara skot gæti gert t.d. á sunnudag - ef bjartsýnar spár rætast.

En þegar maður horfir á svona kort lítur maður ekki aðeins á þykktarlínur heldur einnig á hvernig þær skera jafnhæðarlínurnar (þær svörtu á kortinu) sem segja til um vindátt og vindhraða í veðrahvolfinu miðju. Ýti vindur á þykktarlínu þeim megin sem þykktin er meiri er hlýtt loft í framsókn, talað er um hlýtt aðstreymi, ýti vindur á þykktarlínu kuldamegin er aðstreymið kalt. Ef þykktar- og jafnhæðarlínur mynda þéttmöskvað net eru breytingar í vændum. Slíkt er ekki mjög áberandi á þessu korti - enda lítið um að vera.

Annað atriði til skoðunar er sveigjan á jafnhæðarlínunum. Lengi hefur staðið til á hungurdiskum að gera grein fyrir hæðarbeygjum og lægðarbeygjum og mismunandi þýðingu þeirra. Það er nokkuð stór biti að kyngja - og framreiðsla stendur nokkuð í ritstjóranum en það kemur samt að henni. Í þessu ákveðna samhengi vil ég þó minnast á að spár fyrir næstu daga hallast að því að lægðin suður undan nálgist og færi okkur eindregnari lægðabeygju heldur en verið hefur undanfarna daga. Úrkoma, rigning eða skúrir, fylgir gjarnan lægðabeygjum (rétt eins og lægðum) og þar með minnka líkur á sólríkum, hlýjum dögum.

En lítum nú betur frá okkur. Síðari mynd dagsins er fengin af vef reiknimiðstöðvar evrópuveðurstofa og sýnir 500 hPa-hæðina yfir öllu norðurhveli um hádegi miðvikudaginn 4. maí. Það sem fylgir hér á eftir er ekki léttmeti - ég ætlast varla til þess að margir lesendur endist til enda - en ...

w-blogg040511-2

Nokkuð smátt - en við lítum aðeins á aðalatriðin. Örvar benda á Ísland og Japan. Rauði hringurinn sunnan Íslands er kringum sömu lægð og fyrra kortið sýndi. Lægðin vestan Grænlands er sú sama og við höfum áður á minnst. Við sjáum að í kringum hana eru línur þéttar. Þykka, rauða linan á myndinni er 546 dam línan (5460 metrar) - munum að þetta er hæðin en ekki þykktin. Þynnri rauða línan er 582 dam línan - hana sjáum við sjaldan á okkar slóðum.

Aðalatriði myndarinnar er hvernig þykka, rauða línan hringar sig kringum allt norðurhvelið. Við sjáum að skammt norðan hennar er fjöldi smálægða og er þetta dæmigert ástand þegar vorslaki kemur í heimskautaröstina. Þegar hlýnar á vorin dregst svæðið innan 5460 metra línunnar saman, sömuleiðis innan 5820 metra línunnar, en minna þannig að línurnar fjarlægjast og það dregur úr vindi á milli.

Þykka, rauða línan sveiflast mikið frá degi til dags, miklu hraðar heldur en flatarmálið norðan hennar minnkar. Þeir sem vilja hlýindi hér á landi vilja þá jafnframt að við séum sem lengst og sem mest sunnan línunnar. Til þess að það geti gerst verðum við helst að vera í einhverjum af þeim lykkjum (hæðarhryggjum) sem stinga sér norður í kalda loftið. Á vorin felur slík ósk í sér að einhverir aðrir borgi fyrir með kulda því ekki er nóg af hlýju lofti til að 5460 metra línan geti alls staðar náð norður fyrir 65 gráður. Í heildina séð þokast hún þó norður þar til hún nær sinni nyrstu stöðu seint í júlí.

Það sem gerist á næstu tveimur mánuðum rúmum er að meginlönd Asíu og Norður-Ameríku hlýna meira heldur en Kyrrahaf, Atlantshaf og Íshafið. Norðursókn rauðu línanna gengur því betur þar heldur en annars staðar. Hversu norðarlega fer 5820 metra línan í sumar? Læsist hún í hnykk yfir Rússlandi eins og í fyrra? Verða kannski engir þrálátir hnykkir á henni?

Það er margt um að mala.


Hámarkshiti á veðurstöðvum í maí (aðallega fóður fyrir nördin)

Nördin verða að fá eitthvað að bíta og hér er smáfóður. Háar tölur koma við sögu, en hitaeiningar í bitanum eru fáar og hann er örugglega ekki fitandi.

En í viðhenginu má sjá lista yfir hæsta hita sem mælst hefur á veðurstöðvunum hverri fyrir sig - að minnsta kosti frá 1924. Hann er fjórskiptur eins og fyrirrennarar hans hér á hungurdiskum, fyrstar koma sjálfvirku stöðvarnar og síðan vegagerðarstöðvarnar (hvoru tveggja er nýmeti). Eitthvað ferskt er í listanum yfir mönnuðu stöðvarnar 1961 til 2010 - en flest er þar legið eða kæst. Neðst er síðan tímabilið 1924 til 1960 sömuleiðis mjög legið.

Hér er fyrst tafla yfir hæstu tölurnar í listanum:

árdagurhámarkstöð
19922625,6 Vopnafjörður
19912825,0 Egilsstaðir
19922625,0 Raufarhöfn
19802224,6 Akureyri
19411124,4 Hallormsstaður
19562624,1 Teigarhorn
19922624,0 Garður í  Kelduhverfi
19872624,0 Mánárbakki
19872623,8 Staðarhóll
19872623,5 Húsavík
19872223,5 Birkihlíð í Skriðdal
20001123,5 Hallormsstaður sj.
19872523,3 Reykjahlíð
19872623,1 Lerkihlíð í Fnjóskadal
19872223,0 Hallormsstaður
19922623,0 Sandur í Aðaldal
19872623,0 Sandur í Aðaldal
19912823,0 Kollaleira
19922622,9 Sauðanes

 

Hér má sjá að tölurnar eru allar frá stöðvum á svæðinu frá Eyjafirði austur um til Fljótsdalshéraðs, ein há tala er að vísu frá Teigarhorni við Berufjörð. Sólin hækkar á lofti og snjór bráðnar þannig að innsveitir fara að njóta sín betur í samkeppni um heitasta stað á landinu á hverjum tíma. 

Ég bendi hér á eitt grunsamlegt atriði. Af 19 tölum enda 8 á núlli. Væntigildi er 2.  Þetta bendir til þess að menn rúnni af lesturinn af hámarksmælinum enda eru strikin á honum aðeins á hálfrar gráðu bili. Hvort ætli sé líklegra að núllin séu upphækkun úr ,6 til ,9 eða lækkun úr ,1 til ,4? Ekki veit ég - að meðaltali ætti slík útjöfnun að vera til beggja átta - en er hún það? Tölur sem enda á 2 og 7 koma ekki fyrir.

Við sjáum af listanum að hitabylgjur í maí árin 1987, 1991 og 1992 hafa gefið vel af sér. Yngsta gildið í töflunni hér að ofan er frá árinu 2000. Ætli sé ekki kominn tími á alvöru maíhitabylgju?

Í heildarlistanum eru stöðvarnar flestar ungar og sjálfvirkar og ber þar mest á nýlegri (og minni) hitabylgjum. En fróðlegt er samt að athuga hvaða hitabylgjur hafa gefið vel af sér.

Nýleg er hitabylgja dagana 8. og 9. maí 2006 - kólnaði ekki hræðilega strax á eftir? Sömuleiðis komu góðir dagar í lok maí 2004, sérstaklega sá 30. Fyrir utan þau hlýindi sem birtust í töflunni hér að ofan má nefna 15. maí 1988. Enginn maídagur hefur gert það jafngott á mönnuðu stöðinni í Reykjavík síðan þá, en sjálfvirka stöðin jafnaði þá tölu þann 17. maí 2009. Þann dag fór hiti á Reykjavíkurflugvelli upp í 19,1 stig.

Hlýju dagarnir í maí 1960 lifa enn á nokkrum stöðvum, þar á meðal 20,6 stig í Reykjavík, þótt hæsti hiti í maí þar á bæ hafi mælst 20,7 stig þann 19. árið 1905 (grunsamlegt?).

Hinn 26. maí 1956 hefur verið mjög hlýr, átti háu töluna á Teigarhorni í töflunni hér að ofan. Annars gekk fádæma vestanveður yfir landið þann dag og næstu daga - það versta sem mér er kunnugt um á þessum árstíma. Trjágróður sem rétt var að lifna eftir hryssingslegt vor vikurnar næst á undan stórskaddaðist um mestallt vestanvert landið og sagt var að salt hefði sest á rúður allt austur í Þingeyjarsýslu. Ef menn óku til vesturs í kjarrlendi Borgarfjarðar blasti grænn vorgróður við, en ef ekki var til austurs var allt í augsýn svart og sviðið. Minnir á vestanrokið mikla á þjóðhátíðardaginn 1988 - ekki satt.

Stundum varð hlýtt í maí fyrir 1924. Minnst var á Reykjavíkurmetið hér að ofan og þann 26. maí 1890 fór hiti á Akureyri í 23,8 stig - það nægir til að komast á listann að ofan. Hiti fór líka í 23,0 stig á Akureyri í maí 1901 og 1911.  

En lítið á listann þar er margur fróðleikur - en varist þó stöðvar sem athuga stutt - tölur þar eru oft óeðlilega rýrar í roðinu. Fyrstu árin sem stöð er starfrækt er það stöðugt metaregn en það gisnar smám saman.

Síðan mæli ég með úrvalsmaífærslu hjá nimbus sem fjallar um svipað efni.

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvað hefur orðið hlýtt í maí?

Í dag hlýnaði svo snögglega hér suðvestanlands að dægurhitamet var í hættu í Reykjavík. Ætli það sé ekki vissara að kíkja á dægurhámörk maímánaðar? Þykktarspár næstu daga benda varla til þess að landsdægurmet verði slegin á næstu dögum. En líkur á því eru þó ekki núll.

Lítum á línurit sem sýnir landsdægurhámörkin. Listinn á bakvið línuritið er í viðhenginu.

w-tx-mai-landid

Fastir lesendur hungurdiska kannast við línurit af þessu tagi. Dagar mánaðarins eru á lárétta ásnum, en hiti á þeim lóðrétta í °C. Bláa línan fylgir einstökum dögum en sú rauða sýnir einskonar leitni yfir allan mánuðinn. Sú lína byrjar nærri 21 stigi, en endar í nærri 23,5 stigum. Það hlýnar talsvert í maí.

Hæsta talan á myndinni er maíhitamet fyrir landið allt. Það á stöðin í kauptúninu á Vopnafirði og var það sett þann 26. árið 1992. Næsthæsta talan er þann 28. Það var 1991 sem hitinn mældist svo hár á Egilsstöðum. Tuttugu og sex eða sjö stig bíða í framtíðinni - hvenær það verður veit enginn.

Elsta metið í listanum er frá Núpufelli í Eyjafirði þann 13. maí 1889. Sú tala er undir leitnilínunni á myndinni og telja má ólíklegt að metið lifi önnur 122 ár haldist núverandi þéttni veðurstöðva á landinu.

Eftirtektarvert er að allir dagar mánaðarins hafa náð 20 stiga hita einhvern tíma í fortíðinni. Linast metanna er þó 20,0 stig þann 6., 2001 í Neskaupstað. Dagarnir sem eiga gildi undir 21 stigi liggja best við höggi varðandi met í framtíðinni. Þar á meðal er eini dagurinn á árinu sem Reykjavík á landshámarksmet, sá 14. Þetta var 1960 - sjálfsagt muna einhverjir eftir þeim 20,6 stigum. 

En í dag (mánudaginn 2. maí) lá sum sé við meti hér í Reykjavík, hámarkið varð 14,9 stig. Það hefði dugað í met hefði dagurinn verið 6. maí - þá er metið aðeins 13,8 stig.

Listi yfir hæsta hita einstaka maídaga í Reykjavík er einnig í sama viðhengi og dægurhitametin. Ég hef skipt honum í tvennt. Annars vegar eru árin frá 1949 til 2010, en hins vegar árin 1870 til 1948. Trúlega eru þarna einhver tvöföld hámörk - en það er kallað svo ef hiti dagsins nær hámarki eftir klukkan 18. Þá lekur sá hiti yfir á næsta dag kl. 9 í skrám Veðurstofunnar. Greinilega má sjá að met falla gjarnan nokkra daga í röð.

Sé rýnt í listana kemur í ljós að hiti fór í 20,7 stig þann 19. maí 1905 og í 20,2 stig þann 26. 1901.

Morgundagurinn, þriðji maí, á eldgamalt met, 15,4 stig. Það er frá 1890.

Við kíkjum síðan mjög fljótlega á maíhámörk einstakra stöðva.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Snjódýptarmet í maí (heldur subbulegur listi)

Í tilefni snjókomunnar hér suðvestanlands undanfarna daga hleypi ég að lista um snjódýpt í maí úr mínum fórum. Ekki stóð þó til að birta hann fyrr en á næsta ári sökum vöntunar - en látum slag standa. Aðalgallinn er sá að árin 1957 til 1964 vantar að mestu, en fleiri gallar eru einnig í listanum. Unnið er að endurbótum en ég vona að aðalatriði séu samt rétt.

Til þess að snjódýpt sé mæld þarf snjóhulan að vera 100 %, jörð alþakin snjó. Athugunin er gerð kl. 9 að morgni. Vitað er um tilvik þar sem snjó hefur fest síðla nætur - en hann hefur tekið upp að einhverju eða öllu leyti kl. 9. Sunnanlands festir sjaldan snjó í maí, í Reykjavík um sjötta hvert ár að meðaltali þann tíma sem athugað hefur verið þar (frá og með 1921). Það hefur nokkrum sinnum gerst á þessu tímabili að alhvítt hefur verið tvo morgna eða oftar í maí í Reykjavík, síðast 1993 en þá var alhvítt þrjá maímorgna.

Nú höfðu liðið 18 ár frá því að síðast varð alhvítt í Reykjavík í maí. Lengsta slíka tímabilið í röðinni er frá 1944 til 1963 - 19 ár, einu ári lengra en nú. Snjór var ágengur í maí á árabilinu 1987 til 1993 en þau sjö ár varð fimm sinnum alhvítt í maí. Sjá má alla töfluna í viðhengi í pistli hér á hungurdiskum í nóvember síðastliðnum - notið tengilinn eða leitið að snjóhulu í leitarreit til hliðar við megintextann.  

Tíu hæstu gildin eru sennilega öll flest fyrningar af snjóalögum fyrri mánaða eftir hina óvenjulegu snjóavetur 1989,1990 og 1995. En Gjögur í Árneshreppi trónar efst í töflunni.

       ár               dagur        cm stöð

19901204 Gjögur
19951176 Skeiðsfoss
19951153 Hvannstóð
19951150 Kálfsárkot
19891140 Nesjavellir
19891138 Hornbjargsviti
198313129 Siglufjörður
19901129 Lerkihlíð
19891129 Hveravellir
19901126 Æðey

Á Akureyri er að meðaltali 1 alhvítur dagur í maí, en alhvítur dagur kemur að meðaltali 3 hvert ár þar á bæ. Sjá má af þessum tölum að dagarnir eru gjarnan fleiri en einn þegar þeir á annað borð koma.

Frá 1924 er maí 1949 talinn sá snjóþyngsti á landinu, meðalsnjóhula í byggð talin 48% og var hann snjóþyngstur bæði sunnan- og norðanlands. Norðanlands var snjóhulan talin 68% en 14% á Suðurlandi.

Stöku sinnum snjóar óhemjumikið syðst á landinu í maí. Óvenjulegust er trúlega snjókoman í maíbyrjun 1948, en þann 3. þá mældist snjódýpt 65 cm á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Mikið snjóaði þá líka í Vík í Mýrdal og á Kirkjubæjarklaustri en snjódýptar er ekki getið. Fleiri athyglisverð dæmi um mikla snjókomu sunnanlands í maí má finna í viðhenginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 34
  • Sl. sólarhring: 69
  • Sl. viku: 432
  • Frá upphafi: 2343345

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 388
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband