Hámarkshiti á veðurstöðvum í maí (aðallega fóður fyrir nördin)

Nördin verða að fá eitthvað að bíta og hér er smáfóður. Háar tölur koma við sögu, en hitaeiningar í bitanum eru fáar og hann er örugglega ekki fitandi.

En í viðhenginu má sjá lista yfir hæsta hita sem mælst hefur á veðurstöðvunum hverri fyrir sig - að minnsta kosti frá 1924. Hann er fjórskiptur eins og fyrirrennarar hans hér á hungurdiskum, fyrstar koma sjálfvirku stöðvarnar og síðan vegagerðarstöðvarnar (hvoru tveggja er nýmeti). Eitthvað ferskt er í listanum yfir mönnuðu stöðvarnar 1961 til 2010 - en flest er þar legið eða kæst. Neðst er síðan tímabilið 1924 til 1960 sömuleiðis mjög legið.

Hér er fyrst tafla yfir hæstu tölurnar í listanum:

árdagurhámarkstöð
19922625,6 Vopnafjörður
19912825,0 Egilsstaðir
19922625,0 Raufarhöfn
19802224,6 Akureyri
19411124,4 Hallormsstaður
19562624,1 Teigarhorn
19922624,0 Garður í  Kelduhverfi
19872624,0 Mánárbakki
19872623,8 Staðarhóll
19872623,5 Húsavík
19872223,5 Birkihlíð í Skriðdal
20001123,5 Hallormsstaður sj.
19872523,3 Reykjahlíð
19872623,1 Lerkihlíð í Fnjóskadal
19872223,0 Hallormsstaður
19922623,0 Sandur í Aðaldal
19872623,0 Sandur í Aðaldal
19912823,0 Kollaleira
19922622,9 Sauðanes

 

Hér má sjá að tölurnar eru allar frá stöðvum á svæðinu frá Eyjafirði austur um til Fljótsdalshéraðs, ein há tala er að vísu frá Teigarhorni við Berufjörð. Sólin hækkar á lofti og snjór bráðnar þannig að innsveitir fara að njóta sín betur í samkeppni um heitasta stað á landinu á hverjum tíma. 

Ég bendi hér á eitt grunsamlegt atriði. Af 19 tölum enda 8 á núlli. Væntigildi er 2.  Þetta bendir til þess að menn rúnni af lesturinn af hámarksmælinum enda eru strikin á honum aðeins á hálfrar gráðu bili. Hvort ætli sé líklegra að núllin séu upphækkun úr ,6 til ,9 eða lækkun úr ,1 til ,4? Ekki veit ég - að meðaltali ætti slík útjöfnun að vera til beggja átta - en er hún það? Tölur sem enda á 2 og 7 koma ekki fyrir.

Við sjáum af listanum að hitabylgjur í maí árin 1987, 1991 og 1992 hafa gefið vel af sér. Yngsta gildið í töflunni hér að ofan er frá árinu 2000. Ætli sé ekki kominn tími á alvöru maíhitabylgju?

Í heildarlistanum eru stöðvarnar flestar ungar og sjálfvirkar og ber þar mest á nýlegri (og minni) hitabylgjum. En fróðlegt er samt að athuga hvaða hitabylgjur hafa gefið vel af sér.

Nýleg er hitabylgja dagana 8. og 9. maí 2006 - kólnaði ekki hræðilega strax á eftir? Sömuleiðis komu góðir dagar í lok maí 2004, sérstaklega sá 30. Fyrir utan þau hlýindi sem birtust í töflunni hér að ofan má nefna 15. maí 1988. Enginn maídagur hefur gert það jafngott á mönnuðu stöðinni í Reykjavík síðan þá, en sjálfvirka stöðin jafnaði þá tölu þann 17. maí 2009. Þann dag fór hiti á Reykjavíkurflugvelli upp í 19,1 stig.

Hlýju dagarnir í maí 1960 lifa enn á nokkrum stöðvum, þar á meðal 20,6 stig í Reykjavík, þótt hæsti hiti í maí þar á bæ hafi mælst 20,7 stig þann 19. árið 1905 (grunsamlegt?).

Hinn 26. maí 1956 hefur verið mjög hlýr, átti háu töluna á Teigarhorni í töflunni hér að ofan. Annars gekk fádæma vestanveður yfir landið þann dag og næstu daga - það versta sem mér er kunnugt um á þessum árstíma. Trjágróður sem rétt var að lifna eftir hryssingslegt vor vikurnar næst á undan stórskaddaðist um mestallt vestanvert landið og sagt var að salt hefði sest á rúður allt austur í Þingeyjarsýslu. Ef menn óku til vesturs í kjarrlendi Borgarfjarðar blasti grænn vorgróður við, en ef ekki var til austurs var allt í augsýn svart og sviðið. Minnir á vestanrokið mikla á þjóðhátíðardaginn 1988 - ekki satt.

Stundum varð hlýtt í maí fyrir 1924. Minnst var á Reykjavíkurmetið hér að ofan og þann 26. maí 1890 fór hiti á Akureyri í 23,8 stig - það nægir til að komast á listann að ofan. Hiti fór líka í 23,0 stig á Akureyri í maí 1901 og 1911.  

En lítið á listann þar er margur fróðleikur - en varist þó stöðvar sem athuga stutt - tölur þar eru oft óeðlilega rýrar í roðinu. Fyrstu árin sem stöð er starfrækt er það stöðugt metaregn en það gisnar smám saman.

Síðan mæli ég með úrvalsmaífærslu hjá nimbus sem fjallar um svipað efni.

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 53
  • Sl. sólarhring: 67
  • Sl. viku: 1651
  • Frá upphafi: 2350928

Annað

  • Innlit í dag: 51
  • Innlit sl. viku: 1448
  • Gestir í dag: 48
  • IP-tölur í dag: 48

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband