Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Fáeinar tölur úr illviðrinu í gær og síðastliðna nótt

Hér fylgir viðhengi þar sem finna má lista yfir mesta 10-mínútna vindhraða og mestu vindhviðu á sjálfvirku stöðvunum frá því 8. febrúar kl. 01 til og með 9. febrúar kl. 16. Raðað er eftir 10-mínútna hámarkshraða, stöðvar vegagerðarinnar eru sér, neðan til í listanum. Athuga ber að þar mælast vindhviður oft ívið meiri heldur en á öðrum stöðvum vegna þess að þar er í flestum tilvikum miðað við 1 til 2 sek hviður, en 3 sek hviður á öðrum stöðvum.

Hæstu 10-mínútna gildin voru í m/s:

dagur klst vindátt maxfx maxfg stöðvarnafn
8         24         99 38,1   43,2    Kolka
8         20         96 37,5   47,5    Stórhöfði sjálfvirk stöð
8         24       111 36,2   41,9    Jökulheimar
8         22       109 35,3   45,5    Vatnsfell

Vindátt er gefin í veðurgráðum. Hér sést að hvassast varð við Kolku, hámarkið var skráð kl. 24, en á við klukkustundina milli 23 og 24. Mesti 10-mínútna vindhraði þar mældist 38.1 m/s, en mesta hviða 43,2 m/s. Mesta hviða á stöðvum Veðurstofunnar og samstarfsaðila mældist í Tindfjöllum 49,6 m/s. Þar náði vindur strax hámarki kl. 15, meðalvindur þó ekki nema 28,1 m/s.

Mesta vindhviða á vegagerðastöð mældist á Hvammi undir Eyjafjöllum, 56,2 m/s. Vindhviður náðu 50 m/s á nokkrum vegagerðarstöðvum til viðbótar, en mesti 10-mínútna meðalvindhraði mældist í Vatnsskarði eystra, 44,0 m/s það var kl. 9 í morgun (þ. 9).

Veðrið náði mestri útbreiðslu um kl. 24 og algengast var að vindátt væri á bilinu 100 til 110 gráður (austur til austsuðausturs). Rétt er að benda á að á nokkrum stöðvum er vindátt ekki í lagi en þær stöðvar eru mjög fáar.

Lítið á viðhengið. Með því að líma það yfir í töflureikni getið þið velt tölunum fyrir ykkur á alla mögulega vegu og t.d. reiknað eins konar hviðustuðul. Góða skemmtun.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Lægð kvöldsins á mynd

Þegar þetta er skrifað hefur suðaustanillviðrið trúlega náð hámarki um landið vestanvert. Lægðarmiðjan er nú komin upp undir suðausturströnd Grænlands þar sem hún er nú hvað dýpst á ferli sínum (innan við 950 hPa í lægðarmiðju). Mjög algengt er að djúpar lægðir deyi á þessum slóðum. Við látum vindauppgjör bíða til morguns þegar vindstrengurinn verður kominn austur af landinu. Að minnsta kosti þrír eða fjórir meginvindstrengir fylgdu lægðinni en aðeins einn þeirra hrellir okkur. En lítum á lægðina á mynd.

w-blogg-080211-1932_dundee

Myndin er úr safni móttökustöðvarinnar í Dundee í Skotlandi og er merkt kl. 19:32 8. febrúar 2011. Ég hef sett lægðarmiðjuna nokkurn veginn á sinn stað. Aðalskýjagöndullinn er yfir Íslandi, yfir stormviðrinu. Sömuleiðis hef ég merkt þrjú svæði á myndinni. Rauði ferningurinn lengst til hægri eru leifar kuldapollsins Stóra-Bola. Kerfi tengt honum náði að valda talsverðu tjóni í Danmörku síðastliðna nótt.

Rauði strikalínuhringurinn er dreginn utan um skýjasúpu austan við lægðarmiðjuna. Þar eru leifar lægða sem aldrei urðu neitt. Stundum verða til margir lægðavísar í samkeppni í sama kerfinu, en eru afétnir af þeirri mestu. Svo virðist stundum sem bestu og flóknustu tölvulíkönin veðji ekki alltaf á rétta vísinn.

Blái hringurinn er dreginn í kring um éljaloftið í vestanáttinni sunnan lægðarinnar. Allra versta veðrið er trúlega þar sem við hálfgegnsær blikuskýjabakki er þar sem hringurinn er næstur lægðarmiðjunni. Þar sunnan við eru síðan él, en enga sérstaka bakka er þar að sjá, éljaskýin eru dreifð um víðáttumikið svæði. Út úr þessu mun verða til fylla af köldu lofti, lítill kuldapollur sem er spáð yfir vestanvert landið annað kvöld, þykkt í kring um 5140 metra, þá er mestur möguleiki á myndarlegum snjóéljum - en ekki þó víst að neitt verði úr því. Nördin gætu þó fengið eitthvað út úr því að fylgjast með þessu leikatriði.

Þótt kuldapollurinn Stóri-Boli II hafi fóðrað lægðina fylgir hann henni ekki eftir eins og Stóri-Boli I gerði um helgina. Enda er hann að fóðra aðra kraftmikla lægð sem fylgir í kjölfarið og veldur trúlega illviðri hér á landi á fimmtudag - tímasetning og styrkur kvu enn vera óviss.

Staðan sem nú er uppi er algeng að vetri, þá skiptast á mjög hvassar suðaustanáttir og hægari sunnan- og suðvestanáttir. Við fáum yfir okkur hlýjar bylgjur úr suðvestri, en þeim fylgir miklu meinlausari útsynningur. Miklu meira þarf að skrifa um þetta veðurlag, e.t.v. gefst tækifæri til þess næstu daga.

Að lokum er hér ein einfölduð kennslubókarmynd af vaxandi lægð eins og þær sjást gjarnan úr innrauðum skynjurum gervihnatta.

w-blogg-090211-mfm417

Þessu lík er næsta lægð nú í dag, stödd suður af Nýfundnalandi (leitið að myndum á netinu). Ísköld blikukápa streymir upp í suðurjaðri heimskautarastarinnar, en hlýrri ský stingast undan röstinni og virðast hringa sig um það bil þar sem lægðarmiðja er við jörð. Þessa mynd og flóknari gerðir hennar getum við vonandi rætt frekar um síðar. Einföld byrjun á langri leið út í flækjurnar.

Hliðarmál:

Ég lendi fljótlega í vandræðum með nöfn á fyrirbrigðin rétt eins og ameríkumenn 1950. Þá var gripið var til þess neyðarúrræðis á fellibyljatímanum að nefna tvo fellibylji sem voru virkir samtímis eftir forsetahjónunum sem þá voru. Þetta, meðal annars, varð til þess að nafngiftir fellibylja voru teknar föstum tökum. Ég þarf að fara að útvega mér nafnabækur eða lista, en mér datt í hug að nota nautgripanöfn á kuldapolla, en hrossanöfn á fyrirstöðuhæðir. - En ég fylgi þessari hugmynd varla eftir, það er sennilega of tímafrekt.   


Krassandi lægðir framundan

Í langtímameðaltölum er tímabilið frá því um jól og fram um 20. febrúar það illviðrasamasta hér á landi. Það er sérlega áberandi hversu suðlæg- og vestlæg illviðri eru algengari einmitt á þessum tíma frekar en öðrum. Norðlæg- og austlæg veður halda betur sínum hlut fram eftir útmánuðum. Ég fjallaði um þetta í bloggpistli í haust, hét hann  Storma- og illviðratalningar.

Spár gera nú ráð fyrir að nokkrar krassandi lægðir berist til okkar á næstunni. Enn skal þó tekið fram að hungurdiskar eru ekki spáblogg. Raunverulegar veðurspár eru gerðar á Veðurstofunni og allir sem eiga eitthvað undir veðri eru hvattir til að fylgjast með spám á vef hennar eða þá í fjölmiðlum sem þær spár birta. En lítum samt á eitt háloftakortið enn.

w-h500-hirlam080211-03

Útlit þess fer vonandi smám saman að verða kunnuglegt þeim sem oft líta við á hungurdiskum.

Kortið sýnir hæð 500 hPa flatarins eins og honum var spáð af HIRLAM-líkaninu 7.2. 2011 kl.18. Gildistími kortsins er kl. 03 aðfaranótt 8. febrúar. Heildregnu, svörtu línurnar eru jafnhæðarlínur (dekametrar) dregnar með 6 dekametra millibili. Rauðu strikalínurnar eru jafnþykktarlínur (500/1000 hPa).

Við Baffinsland er mikil kuldapollur - sá sem tók við ríki af þeim sem ég á dögunum nefndi Stóra-Bola. Hann er enn ekki alveg jafn öflugur ennþá og sá fyrri, en við skulum samt kalla hann Stóra-Bola II í stíl við kónganöfn. Þykktin í miðju kuldapollsins er innan við 4800 metrar (480 dekametrar).

Á kortinu (sem fengið er af brunni Veðurstofunnar) má einnig sjá kröftuga lægðarbylgju suðaustur af suðurodda Grænlands.  Í bylgjunni má sjá mikið misgengi hæðar- og þykktarflata. Rauðu örvarnar sýna að þar liggja þykktarlínur nærri þvert á hæðarlínurnar þannig að vel sést hvernig vindur í 500 hPa ber hlýtt loft til norðurs í átt til Íslands, þar er hlýtt aðstreymi. Mikill bylgjutoppur hlýlofts fer á undan lægðinni í háloftunum.

Nærri bláu örvunum (suður af Grænlandi) eru þykktar- og hæðarlínur líka nærri hornréttar hvor á aðra. Þar ber vindurinn kalt loft til austurs. Mikill fleygur af köldu lofti streymir inn í átt að lægðarmiðjunni. Líta má á lægðina sem er við jörð sem orðna til úr samspili 500 hPa flatarins og þykktarmynstursins.

Þetta mynstur er mjög dæmigert í vaxandi lægðum. Þessi ákveðna lægð hefur þó náð þeim þroska að hún nær að vera lokuð í 500 hPa og þar undir. Því er spáð að lægðin valdi miklu suðaustan- og austanveðri á landinu.

Fyrir þá sem vilja fræðast meira um lægðina og það þykktar- og hæðarmynstur sem fylgir henni hef ég skrifað stutt viðhengi við þessa færslu. Það er á pdf-sniði og vonandi geta þeir sem hafa áhuga opnað það.

Fleiri ámóta lægðir eru í einhverskonar uppsiglingu. Hvort fylgst verður með þeim hér á þessu bloggi verður bara að sýna sig. Stóri-Boli II er afskaplega myndarlegur, en hreyfir sig ekki mikið næstu daga. Hann sendir hins vegar frá sér margar lægðir og lægðabylgjur sem berast norðaustur um Atlantshafið og sömuleiðis á hann eitthvað að slá klónum suður um Bandaríkin með tilheyrandi kulda, hríð og hrellingum þar um slóðir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Frá sjávarseti yfir í ískjarna (söguslef 15)

Við höfum áður horft á myndir sem sýna samsætuvik og þróun þeirra í milljónir ára eins og hún kemur fram í borkjörnum sem teknir eru úr sjávarseti. Fyrstu niðurstöður þessara mælinga ollu straumhvörfum í fornveðurfarsrannsóknum þegar þær fóru að birtast fyrir um 40 árum. Síðan hefur kjörnum stöðugt fjölgað og betri og betri mynd fengist lengra og lengra aftur í tímann.

Um svipað leyti komu fyrstu niðurstöður úr samsætumælingum í jökulískjörnum, fyrst frá Grænlandi og var beinlínis undravert hversu vel þessum ólíku mælingum bar saman um tímasetningu umhverfisbreytinga. Fyrstu ískjarnarnir náðu reyndar tæplega nema yfir síðasta jökulskeið, en þegar farið var að bora á Suðurskautslandinu kom í ljós að mikil samsvörun var milli mælikvarðanna beggja eins langt og Vostok-ískjarninn náði (rúm 400 þúsund ár eða þar um bil).

Nú hafa kjarnar verið sóttir á fleiri staði á Suðurskautslandinu og tekist hefur að ná enn eldri ís. Mikil samsvörun er á milli sjávar- og ískjarna eins langt og séð verður. Þetta er sýnt á myndinni. Ískjarnagögnin eru dregin með rauðri línu, en sjávarsetið með svartri.

Súrefnissamsætugögnin eru sem fyrr fengin úr Zachos (2001) en ískjarnagögnin úr grein Epica-flokksins (2004).

Zachos-epica

Ég hef viljandi klesst línunum saman til þess að sjá megi samsvörunina sem best. Hún virðist í fljótu bragði vera heldur síðri fyrri hluta tímabilsins heldur en þann seinni. Mjög erfitt er að tímasetja kjarna af þessu tagi nákvæmlega. Hugsanlegt er að tímakvarðarnir séu ekki alveg óháðir.

Tölurnar sýna nú samsætuskeið í ískjarnanum, númerin eru látin samsvara sjávarsamsætuskeiðunum. Hlý skeið eru merkt með oddatölum, en köld með sléttum. Undirskeið í sjávarsamsætukjörnunum voru merkt með bókstöfum, en hér eru notaðir talnavísar. Sjávarsamsætuskeið 5e (síðasta hlýskeið) er hér kallað 5.5.

Það vekur enn athygli hve hlýindi ámóta og þau sem við nú búum við eru sjaldgæf á tímabilinu í heild. Fyrsta mjög hlýja hlýskeiðið á myndinni er samsætuskeið 11. Þau sem koma á undan virðast kaldari - en á móti kemur að tiltölulega hlýtt ástand innan jökulskeiða stendur þá lengur en á þeim síðari. Hæstu ískjarnatopparnir rétt ná að teygja sig upp í meðalgildi síðustu 1000 ára.

Hver gæti saga Íslandsjökulsins hafa verið á þessum „köldu“ hlýskeiðum? Við vitum að hann bráðnar alveg á hlýjustu skeiðunum, en hversu kalt þarf að verða til þess að hann hylji allt hálendið? Ef hann nær að hylja allt hálendið gengur hann þá óhjákvæmilega í sjó fram?

Þegar myndir sem þessi eru skoðaðar með tilliti til veðurfars verður að hafa í huga að hvorug röðin mælir hita um alla jörð. Talið er að sjávarsamsæturöðin gefi til kynna heildarrúmmál jökla á jörðinni. Það tekur auðvitað langan tíma að mynda hin risavöxnu jökulhvel jökulskeiðanna. Fyrstu kuldar hvers jökulskeiðs koma því ekki endilega vel fram í sjávarkjörnunum. Ískjarnasamsæturnar eru bæði mælikvarði á hita á uppgufunar- og úrkomumyndunarstað, sömuleiðis hefur komið í ljós að yfirborðshæð jöklanna, bæði þess Grænlenska og þeirra á Suðurskautinu, getur hafa breyst þannig að leiðrétta þurfi samband hita og samsætuhlutfalla. Vostok- og Epicakjörnunum (þeir eru fleiri en einn) ber því ekki alveg saman um hitafar jafnvel þótt þeir séu allir frá Suðurskautslandinu. Úrkoman sem fellur á þessum stöðum á sér mismunandi uppruna - hiti á uppgufunarstöðum getur verið talsvert misjafn.

En þrátt fyrir fjölmörg vandamál varðandi túlkun atriða í gagnaröðunum breytir það ekki því að allir kjarnar sýna ótrúlegar umhverfisbreytingar sem allar eru í stórum dráttum samstíga þótt mismiklar séu. Segja má að einu gildi hvað verið er að mæla, fjölmargar samsætugerðir, magn gróðurhúsalofttegunda, rykmagn, efnasamsetningu ryks auk fjölmargra líffræðilegra veðurvitna.

Næsta slef á undan þessu var númer 14, birt 17. janúar. Haldið verður áfram að slefa síðar. 

Vitnað var í:  

EPICA community members, 2004, Eight glacial cycles from an Antarctic ice core, Nature, Vol, 429, No 6992, pp,623-628, June 10, 2004, doi:10,1038/nature02599

Zachos, J., M. Pagani, L. Sloan, E. Thomas, and K. Billups.  2001. Trends, Rhythms, and Aberrations in Global Climate 65 Ma to Present. Science,  Vol. 292, No. 5517, pp. 686-693.

Dægurútgildi í febrúar

Hér koma dægurútgildi í febrúarmánuði. Listinn er í viðhenginu. Þar má finna hámarkshita hvers dags, lágmarkshita hvers dags í byggð og á landinu öllu og loks er mesta sólarhringsúrkoman.

w-hæstu-dægurhamork-feb

Eina myndin sem við skoðum sýnir dægurhámarkið. Þar er greinilegt að hærri hiti en 15 stig er sárasjaldgæfur í febrúar. Þó hefur það þrisvar gerst að hámarkið hefur farið í 17 stig eða meira. Metið á Dalatangi 17. febrúar 1998, 18,1 stig. Sauðanesviti komst í 17,2 stig þann  21. 2006 og Dalatangi náði 17,0 stigum þann 8., 1960. Elsta metið er frá Fagradal í Vopnafirði þann 6. 1935, en sá mánuður var reyndar óvenjukaldur.

Eins og algengast er að vetri eru það Sauðanesviti (5), Dalatangi (5) og Seyðisfjörður (8) sem eiga flest dægurhámörkin í febrúar. Fleiri stöðvar þar sem svipað hagar til eru einnig á listanum.

Ég vil sérstaklega benda á lélega útkomu hlaupársdagsins, hún stafar fyrst og fremst af því að hann á ekki nema fjórðungsmöguleika á hárri tölu á við aðra daga. Það mun fyrr eða síðar koma að því að hann fái ámóta hita og aðrir dagar þ.e. að minnsta kosti 13. til 15 stig.

Lægsti hiti sem mælst hefur í febrúar á landinu er -30,7 stig þann 4. árið 1980 en þá hreinsaði Möðrudalur upp þrjú dægurmet í röð. Möðrudalur á reyndar hvorki meira né minna en 15 dægurmet í febrúar miðað við allar stöðvar en 19 sé aðeins miðað við stöðvar í byggð. Kaldur staður á vetrum Möðrudalur. Hugsanlegt er að fáeinar líklegar hálendisstöðvar muni í framtíðinni sækja á í kuldaköstum framtíðarinnar, þar er Brúarjökull líklegastur, af stöðvum í byggð eru Svartárkot, Mývatn og Grímsstaðir á Fjöllum auðvitað líka skæðar.

Ein sunnlensk stöð er á byggðarlistanum. Það eru Þingvellir sem eiga lægsta hita í byggð þann 6. 1969. Elsta metið á lágmarkalistunum er frá 1882 en þá mældust -25,1 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 27.

Mesta sólarhringsúrkoma í febrúar er 233,9 mm og mældist hún á Vagnsstöðum í Suðursveit að morgni 28. febrúar 1968 í eftirminnilegu flóðaveðri um mestallt sunnanvert landið. Þessi tala stóð sem íslandsmet í rúm 10 ár. Elsta metið á úrkomulistanum er 110,2 mm sem mældust á Teigarhorni þann 7. 1938.

Mér þætti vænt um að fá að vita ef einhver verður var við villur í listanum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Meltan úr Stóra-Bola

Nú sitjum við í meltunni úr kuldapollinum Stóra-Bola. Vatnið sem gufaði upp þegar hann gekk út yfir Atlantshafið skilar sér aftur sem éljagangur og snjókoma. Einar Sveinbjörnsson fjallar vel um stöðuna á bloggi sínu veðurvaktinni og ætla ég ekki að endurtaka það. Þó kemur hér nærri því sama mynd - gripin úr gervihnettinum aðeins síðar en mynd sú sem Einar birtir, einnig af móttökustöðinni í Dundee, merkt kl. 20:21.

ch5-040211-2030

Kunnugir munu þekkja Ísland og Grænland á myndinni. Bolameltan situr á Grænlandshafi sunnan og vestan við Ísland. Hún hefur þokast til austurs frá í gær og minnkað mikið að umfangi. Enda grynnist Boli um 60 metra á 12 - 15 klukkustundum í 500 hPa.

Í dag og í gær hafa óreglulegir smásveipir sést í meltunni, en mest ber á risavöxnum éljagörðum. Á ratsjármyndum má sjá að uppstreymið (og úrkomumyndunin) á sér mest stað í tiltölulega mjóum einingum innan éljagarðsins en vindur ber nokkra úrkomu út fyrir sjálft úrkomumyndunarsvæðið. Efst í einingunum skefur hvassari vindur ofan af þannig að lítið er af skýjarofi í bakkanum stóra. Núna sjást einingarnar vel á veðursjá Veðurstofunnar Nýjustu myndir eru á brunni Veðurstofunnar, athugið að tengillinn bendir á almenna síðu sem sífellt er endurnýjuð.

Oftast fer það svo að fái kuldapollur sem þessi að grynnast í friði í nokkra daga myndast í honum póllægðir. Það eru smáir en greinilegir sveipir með annað hvort hringlaga mynstri eða þá svokölluð riðalauf en það eru mjög smáar riðalægðir. Hringsveipirnir eru hlýjastir í miðjunni, rétt eins og hitabeltisstormar, en í dæmigerðu laufi eru hæstu skýin austan eða suðaustan í sveipnum. Undirtegundir og sambland má auðvitað einnig greina. Náttúran er sjaldan alveg klippt og skorin.

En eitthvað þarf að koma til svo snúningur geti myndast. Ég ætla ekki að fjalla um það að þessu sinni en hver veit nema tækifæri gefist síðar. Í nótt mun (vonandi) berast miklu skýrari gervihnattarmynd sem nörd hafa væntanlega gaman af að skoða. Hvort snúningsmyndun sést þar vitum við ekki enn.

Ég get ekki látið hjá líða að benda á stóra, hvíta skýjabakkann yfir suðausturhorni myndarinnar. Bakkinn fylgir þeirri gríðarlega skörpu röst (skotvindur í heimskautaröstinni) sem nú liggur um Atlantshafið þvert, frá Bandaríkjunum, austur um til Evrópu. Vindskaðar munu hafa orðið í Skotlandi í dag (föstudag) og verða e.t.v. áfram á morgun. Skýjamyndun af þessu tagi á sér merkilegar skýringar sem við látum líka bíða betri tíma.


Febrúarhiti í Stykkishólmi 1799 til 2010

Myndin sýnir meðalhita í febrúar í Stykkishólmi jafn langt aftur og séð verður. Fyrstu áratugirnir eru þó ógreinilegir og varasamt er að taka allt of mikið mark á mælingunum, sérstaklega fyrir 1830. En fyrsti febrúarmánuðurinn með mælingum í kauptúninu sjálfu er 1846.

w-t178-feb

Við sjáum að langtímaleitnin er söm við sig. Rauða línan sýnir að hlýnað hefur að meðaltali um 0,15 stig á áratug í 200 ár. Ekki er þó allt sem sýnist í þeim efnum. Segja má að hitinn haldist i svipuðu meðaltali fram til 1920, þá kemur þrep um 1 til 1,5 stig (megnið af hlýnuninni allt tímabilið) og síðan helst hiti svipaður síðan. Annað sem vert er að benda á er að enginn febrúar er undir 5 stiga frosti eftir 1892. Segja má með vissum rétti að þá sé annað þrep í hitaþróuninni.

Febrúar 1881 er kaldastur, febrúarmánuðir áranna 1810, 1811 og 1812 eru líka mjög kaldir, en við tökum hóflega mark á því.

Það er athyglisvert að febrúar 1935 er kaldastur eftir 1892 en 1935 er inni í miðju hlýindaskeiðinu mikla. Ómarktækur munur er að vísu á þeim mánuði og febrúarmánuðunum 1902 og 1907. Síðan er febrúar 2002 kaldastur á síðustu áratugum. Sá mánuður er síðasti kaldi mánuðurinn sem við höfum enn upplifað. Ofurhlýindi síðustu ára hafa staðið óslitið síðan.  

Það er líka merkilegt með febrúar að hann var eini mánuður ársins sem var hlýrri 1961 til 1990 heldur en 1931-1960. Hann var þá að meðaltali hlýrri en bæði janúar og mars. Þessi afbrigði komu einnig fram í úrkomu og vindáttatíðni.

Við skulum líka taka eftir því á myndinni að febrúar hlýnaði strax 1921 en aðrir mánuðir komu flestir seinna inn í hlýindasyrpuna. Tveir mánuðir skera sig úr hvað hlýindi snertir, 1932 og 1965. Hitinn 1932 var með miklum ólíkindum, 4,7 stig að meðaltali en það er svipað og algengt er í Stykkishólmi í maí. Við lá að ámóta hlýtt yrði 1965 en hafísárin hófust hér við land í lok þessa febrúarmánaðar - öllum að óvörum held ég.   

Enga langtímaþróun er að sjá í hitamun janúar og febrúar hitasveiflur milli þeirra mánaða sýnast algjörlega tilviljanakenndar eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

w-t178_feb-jan

Það er helst að tímabilið 1975 til 1985 skeri sig aðeins úr.


Lágskreitt vindhámark

Að marggefnu tilefni skal enn tekið fram að hungurdiskar eru ekki spáblogg. Þar er ekki samfelld vakt og engan veginn er hægt að ganga að ákveðnum upplýsingum svo sem aðvörunum og þess háttar. Hungurdiskar fjalla hins vegar stundum um veðurspár - en einnig veðurfar og margt annað tengt veðri - oftast óstaðlað.

Vegna núnings er vindur hægari niður við jörð heldur en ofar. Mjög er hins vegar misjafnt hvort vindur vex samfellt upp í veðrahvörf eða hvort vindhraði nær hámarki neðar.

Vestanstormurinn sem í dag hefur verið fyrir sunnan landið hefur nú náð inn á Reykjanes. Hann er af flokki veðra þar sem vindhámarkið er óvenju neðarlega. Í háloftathugun í Keflavík nú á miðnætti (3.2. 2011 kl. 00) er hámark vindsins (nærri 30 m/s) í innan við 1000 metra hæð. Við veðrahvörfin er nánast logn.

Lægðin sem gekk yfir síðastliðna nótt og í dag (miðvikudag) var það stór að spálíkön voru nokkurn veginn sammála um leið hennar og þróun. Vindstrengurinn lági er hins vegar minni um sig og spálíkön eru óþægilega ósammála um örlög hans og þeirra smálægða sem koma í kjölfarið.

Næstu daga verðum við innan við jaðar kuldapollsins mikla sem ég hef nefnt Stóra-Bola. Kalt loft verður yfir mjög stóru hafsvæði suður- og suðvestur af landinu. Í kalda loftinu munu myndast margar smálægðir (póllægðir) - væntanlega af fleiri en einni undirtegund. Meirihluti póllægða forðast land - en ekki allar.

Í suðurjaðri Stóra-Bola er gríðarlegur vestanstrengur sem stefnir frá Nýfundnalandi austur til Bretlandseyja. Hann er alinn af heimskautaröstinni en undir henni geta myndast mjög öflugar lægðir sem hreyfast með ofsahraða austur á bóginn. Spár eru ekki heldur sammála um þær, en svo virðist þó að veðurstofur nágrannalandanna búist ekki við fárviðrum.

Þess má geta að á mánudag og þriðjudag gekk mikið illviðri yfir miðvesturríki Bandaríkjanna, þegar er farið að kalla bylinn Groundhog Day Blizzard, en 2. febrúar er þar kenndur við múrmeldýrið og muna margir kvikmyndina frægu sem (marggerðist) þann dag. Af einhverjum dularfullum ástæðum er þessi dagur mjög tengdur veðri ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur einnig hér á landi og víða í Evrópu norðan- og vestanverðri. Hann heitir hér Kyndilmessa, Candlemas á Bretlandseyjum, Kyndelmäss í Svíþjóð. Verst er að engum gömlum spám tengdum deginum ber saman. Ég hef nokkuð velt þessu fyrir mér - hvers vegna þessi dagur?

En Kyndilmessubylurinn vestra er „hin hliðin“ á Stóra-Bola. Gríðarleg framrás af köldu lofti vestan kuldapollsins kveikti illviðrislægðina þá. Sagt er að enn séu mikil kuldaköst og byljir í undirbúningi vestra.


Meira af Stóra-Bola og afkomendum hans

Við lítum hér á enn eitt háloftakortið (æ-æ segja sumir sjálfsagt). Það er spá um ástandið við norðanvert Atlantshaf kl. 6 að morgni 2. febrúar 2011. Kortið er fengið úr brunni Veðurstofu Íslands.

w-h500-020211-hirlam06-12

Tvær háloftalægðarmiðjur eru merktar á kortið. Þá sem er við strönd Labrador hef ég til hægðarauka nefnt Stóra-Bola en sú sem er skammt suðvestan Íslands ræður veðri hér á miðvikudag og e.t.v. á fimmtudag líka. Jafnhæðarlínur eru sem fyrr svartar og heildregnar, en rauðu strikalínurnar eru jafnþykktarlínur. Tölurnar eru dekametrar (=10 m).

Stóri-Boli er álíka öflugur og hann var í fyrradag og hefur ekki hreyfst svo mjög. Við nánari athugun kemur í ljós að hann hefur grynnst um 60 til 80 metra, en innsta þykktarlínan sýnir 4680 metra - svipað og var í fyrradag. Ég hef óformlega kallað þykkt sem er minni en 4740 metrar ísaldarþykktina. Svo lítil verður þykktin ekki nema örfáa daga á hverjum vetri á því svæði sem þetta kort nær yfir og þá aðeins á takmörkuðu svæði í senn.

Ef við rýnum í kortið sjáum við að 5280 metra línan á að liggja yfir Íslandi. Sú lína er ekki langt frá því að skilja á milli frosts og þíðu á láglendi hér á landi. Blási hvass vindur af hlýjum sjó þarf þykktin þó að komast niður fyrir 5200 metra til að snjókoma sé nokkuð viss í stað rigningar. Á kortinu er 5220 línan yfir Vestfjörðum.

Á kortið hef ég dregið bláa línu. Þeir sem rýna í kortið ættu að geta séð að hún er sett þar sem snarpt horn er á rauðu línunum. Kaldur loftstraumur liggur frá stað sunnan við miðju Stóra-Bola og austur fyrir lægðina við Ísland. Þarna streymir heimskautaloftið óhindrað yfir opið haf. Undan ísjaðrinum við Labrador er þykktin um 4800 metrar. Þarna á sér stað æðisgengin upphitun á lofti. Ekki get ég sagt nákvæmlega til um það en líklega jafngildir hitunin um 1000-2000 wöttum á fermetra.

Orkan fer ekki öll í að hita upp loftið heldur gufar einnig talsvert upp af vatni úr sjónum og breytist í vatnsgufu. Vatnsgufan ber í sér dulvarma sem losnar í miklum éljaklökkum sem myndast á öllu svæðinu milli Nýfundnalands og Grænlands. Stundum mynda klakkarnir mikla slóða sem liggja reglulega um 1000 kílómetra leið eða meira, stundum verða til póllægðir og sveipir. Af gervihnattamyndum (vísað í mynd á síðu kanadísku veðurstofunnar) má sjá ótrúlega flókna sveipi og slóða á svæðinu. Þar má líka sjá að nærri íslaust er undan Labrador.

Kalda loftið mun um síðir berast til Íslands. Það verður ekki sérlega kalt eftir alla upphitunina en mikil spurning er alltaf í stöðu sem þessari hvers eðlis klakkakerfin verða þegar hingað er komið, stundum snjóar mikið - stundum lítið.

Við sjáum að á eftir lægðinni sem er skammt suðvestur af Íslandi er lítill hæðarhryggur og á eftir honum lítið lægðardrag (það nær á kortinu frá Hvarfi á Grænlandi til austsuðausturs). Lægðardragið stefnir í norðaustur á eftir lægðinni og kemur sennilega að landinu á aðfaranótt fimmtudags (3. febrúar). Gerir þá hríðarbyl?

Lægðardragið er í nokkru kapphlaupi við aðra smábylgju. Hana má með góðum vilja sjá þar sem rauða línan er merkt á kortið. Hún þekkist best á því að sjá má hlýtt aðstreymi af lofti á þessum slóðum. Framtíðarspár eru ekki sammála um örlög þessarar bylgju nema að nú virðist að hún fari alveg fyrir sunnan land og austur um til Noregs. Lægð myndast í bylgjunni og segja sumar spár að lægðin sú valdi ofsaveðri nyrst á Bretlandseyjum, í Vestur-Noregi eða í Danmörku á aðfaranótt föstudags. Bylgjan gæti líka tæst í sundur og ekkert orðið úr því veðri. Um það er of snemmt að segja.

En Stóri-Boli hrekkur nú til suðurodda Grænlands og grynnist um 100 metra næstu tvo sólarhringa. Þykktin í miðjunni vex hins vegar um 300 metra en það samsvarar um 15 stiga hækkun hita í neðri hluta veðrahvolfs. Spurning er síðan hvað gerist. Líklega hlýtur hann hægan dauða á nokkrum dögum til viðbótar. Þá ætti nýr ættliður Stórabolaættarinnar að vera kominn í viðbragðsstöðu yfir kanadísku heimskautaeyjunum.

Einar Sveinbjörnsson fjallar líka um veðraástandið í dag á veðurvaktinni.


Febrúarbyrjun

Nú er lokið einkar mildum janúarmánuði. Hiti er enn í nýja stíl þ.e.a.s. nálægt 2 stigum yfir meðallagi áranna 1961-1990. Ekki varð þó alveg jafnhlýtt og í fyrra. Þrýstingur er ennþá hár, en er að ég held aðeins lægri en í sama mánuði í fyrra.

Febrúarbyrjunin er með nokkuð öðrum hætti. Eins og rætt var um hér á hungurdiskum í gær er háloftavestanáttin fyrirstöðulaus á Atlantshafinu og er það mikil breyting. En við skulum samt hafa í huga að inni í miklum fyrirstöðuvetrum koma stundum ein til þrjár vikur þegar lægðagangur er mikill.

Ég mun vonandi fjalla meira um kuldapollinn mikla Stóra-Bolaog hreyfingar hans næstu daga, en hann verður kyrrstæður þar til næsta lægð er um það bil komin til landsins á miðvikudaginn. Hún er nokkru öflugri en sú sem fór yfir í dag (mánudag). Eftir það tekur við talsvert óvissuástand sem varla er hægt að vera að froðast yfir þar til á morgun eða síðar. Þeir sem fylgjast grannt með lengri spám sjá að reiknimiðstöðvum ber ekki vel saman um afl lægðanna afgang vikunnar eða í byrjun þeirrar næstu.

En febrúar er mánuður sem getur boðið upp á verstu veður vetrarins, en stöku sinnum vorblíðu sem reynist gjarnan svikul. Í fyrra bauð hann upp á hita lítillega undir meðallagi og var kaldasti mánuður ársins í Reykjavík og langkaldastur á Akureyri.

Það er um það bil fjórða hvert ár sem febrúar er kaldasti mánuður ársins í Reykjavík, oftast er það janúar með meira en þriðjung ára. Desember er kaldastur að meðaltali fimmta hvert ár og mars um sjötta hvert ár. Fyrir kemur að nóvember og apríl séu köldustu mánuðir ársins.

Febrúar kemur aðeins mildari út ef við spyrjum um lægsta lágmarkshita ársins á landinu. Það er aðeins sjötta hvert ár sem lágmarkshitinn lendir á febrúar (hann er líka stystur mánaðanna og er ekki leiðrétt fyrir því). Mars er með sama hlutfall en janúar á lágmarkið í nærri 30% tilvika, desember um 25%. Fyrir kemur að lægsti hiti ársins er í nóvember eða apríl. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 48
  • Sl. sólarhring: 147
  • Sl. viku: 1969
  • Frá upphafi: 2412633

Annað

  • Innlit í dag: 48
  • Innlit sl. viku: 1722
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband