Krassandi lægðir framundan

Í langtímameðaltölum er tímabilið frá því um jól og fram um 20. febrúar það illviðrasamasta hér á landi. Það er sérlega áberandi hversu suðlæg- og vestlæg illviðri eru algengari einmitt á þessum tíma frekar en öðrum. Norðlæg- og austlæg veður halda betur sínum hlut fram eftir útmánuðum. Ég fjallaði um þetta í bloggpistli í haust, hét hann  Storma- og illviðratalningar.

Spár gera nú ráð fyrir að nokkrar krassandi lægðir berist til okkar á næstunni. Enn skal þó tekið fram að hungurdiskar eru ekki spáblogg. Raunverulegar veðurspár eru gerðar á Veðurstofunni og allir sem eiga eitthvað undir veðri eru hvattir til að fylgjast með spám á vef hennar eða þá í fjölmiðlum sem þær spár birta. En lítum samt á eitt háloftakortið enn.

w-h500-hirlam080211-03

Útlit þess fer vonandi smám saman að verða kunnuglegt þeim sem oft líta við á hungurdiskum.

Kortið sýnir hæð 500 hPa flatarins eins og honum var spáð af HIRLAM-líkaninu 7.2. 2011 kl.18. Gildistími kortsins er kl. 03 aðfaranótt 8. febrúar. Heildregnu, svörtu línurnar eru jafnhæðarlínur (dekametrar) dregnar með 6 dekametra millibili. Rauðu strikalínurnar eru jafnþykktarlínur (500/1000 hPa).

Við Baffinsland er mikil kuldapollur - sá sem tók við ríki af þeim sem ég á dögunum nefndi Stóra-Bola. Hann er enn ekki alveg jafn öflugur ennþá og sá fyrri, en við skulum samt kalla hann Stóra-Bola II í stíl við kónganöfn. Þykktin í miðju kuldapollsins er innan við 4800 metrar (480 dekametrar).

Á kortinu (sem fengið er af brunni Veðurstofunnar) má einnig sjá kröftuga lægðarbylgju suðaustur af suðurodda Grænlands.  Í bylgjunni má sjá mikið misgengi hæðar- og þykktarflata. Rauðu örvarnar sýna að þar liggja þykktarlínur nærri þvert á hæðarlínurnar þannig að vel sést hvernig vindur í 500 hPa ber hlýtt loft til norðurs í átt til Íslands, þar er hlýtt aðstreymi. Mikill bylgjutoppur hlýlofts fer á undan lægðinni í háloftunum.

Nærri bláu örvunum (suður af Grænlandi) eru þykktar- og hæðarlínur líka nærri hornréttar hvor á aðra. Þar ber vindurinn kalt loft til austurs. Mikill fleygur af köldu lofti streymir inn í átt að lægðarmiðjunni. Líta má á lægðina sem er við jörð sem orðna til úr samspili 500 hPa flatarins og þykktarmynstursins.

Þetta mynstur er mjög dæmigert í vaxandi lægðum. Þessi ákveðna lægð hefur þó náð þeim þroska að hún nær að vera lokuð í 500 hPa og þar undir. Því er spáð að lægðin valdi miklu suðaustan- og austanveðri á landinu.

Fyrir þá sem vilja fræðast meira um lægðina og það þykktar- og hæðarmynstur sem fylgir henni hef ég skrifað stutt viðhengi við þessa færslu. Það er á pdf-sniði og vonandi geta þeir sem hafa áhuga opnað það.

Fleiri ámóta lægðir eru í einhverskonar uppsiglingu. Hvort fylgst verður með þeim hér á þessu bloggi verður bara að sýna sig. Stóri-Boli II er afskaplega myndarlegur, en hreyfir sig ekki mikið næstu daga. Hann sendir hins vegar frá sér margar lægðir og lægðabylgjur sem berast norðaustur um Atlantshafið og sömuleiðis á hann eitthvað að slá klónum suður um Bandaríkin með tilheyrandi kulda, hríð og hrellingum þar um slóðir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Mjög forvitnilegt að fylgjast með þessu.

Sumarliði Einar Daðason, 8.2.2011 kl. 22:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 331
  • Sl. viku: 1827
  • Frá upphafi: 2353029

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1637
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband