Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011
30.12.2011 | 22:11
Veðurkortagleði við áramótin 2011 / 2012
Í tilefni áramótanna skulum við fara á dálítið kortafyllerí og líta á nokkrar spár um áramótaveðrið. Þær eru allar frá evrópureiknimiðstöðinni (European Centre for Medium-Range Weather Forecasts ECMWF) og gilda allar á sama tíma áramótin sjálf, 31.12. 2011 kl. 24 eða ef menn vilja frekar 1.1. 2012 kl. 00.
Það skal tekið fram lesendum væntanlega til sárra vonbrigða að skýringar mínar á kortunum eru allt of stuttaralegar (glæpsamlega stuttaralegar) en vonandi endist hungurdiskum þrek til að lauma kortagerðum þessum að síðar og þá með ítarlegri skýringum. Reynið þó að hafa gaman af (og undrast).
Þetta eru 11 kort mörg mjög óvenjuleg og munu fæstir lesendur hungurdiska hafa séð dæmi um þau áður. Þess vegna er hér í bloggpistlinum sjálfum aðeins sýnt eitt þeirra. Allur skammturinn er hins vegar í pdf-viðhengi. Kortin eru fengin í gegnum Veðurstofu Íslands, þau birtast flest reglulega á veðurnördasíðum víða um heim en eru sjaldnast eins skýr og hér. Ítarlegar skýringar má oftast finna á veraldarvefnum sé vel leitað.
Þetta er kort af því tagi sem flestir kannast við. Jafnþrýstilínur eru svartar, úrkomusvæði græn, og blálituð, en jafnhitalínur 850 hPa flatarins eru bláar (frost) og rauðar (hiti ofan frostmarks) strikalínur (0° línan græn). Staðan er hins vegar frekar óvenjuleg því ein risalægð breiðist um nær allt svæðið frá Labrador austur til Eystrasalts og frá Norður-Grænlandi suður fyrir Asóreyjar. Hún er mjög djúp, um 949 hPa í lægðarmiðju, en jafnþrýstilínurnar eru ekki tiltakanlega þéttar nema á fáeinum svæðum.
Furðulítið af lægðardrögum er í lægðinni. Þó má sjá eitt fyrir norðaustan land þar sem gæti verið lokuð lægð. Minniháttar lægðardrag má sjá liggja frá Bretlandseyjum og suðvestur til Asóreyja, því fylgja kuldaskil. Lægðardrag er einnig suðaustur af Hvarfi á Grænlandi, en ekki er að sjá neitt skilakerfi samfara því. Ný lægð sækir inn á svæðið úr suðvestri en það er talsvert verk að breyta stöðunni og alvöruhláka ekki í augsýn á næstunni.
Hér lýkur pistlinum - en áfram er haldið í viðhenginu.
Af sérstökum ástæðum verður nú aftur nokkurra daga hlé á hungurdiskum. Eru fastir lesendur og aðrir velunnarar beðnir forláts á því. Gleðilegt nýtt ár, trj.
29.12.2011 | 21:09
Hökt af stað úr snjóskafli
Nú hökta hungurdiskar aftur af stað eftir viku hlé. Hvenær fullu skriði verður náð aftur er óljóst en hér verður fjallað lítillega um snjóinn sem nú plagar íbúa höfuðborgarsvæðisins og sjálfsagt fleiri.
Snjódýptin mældist 33 cm við Veðurstofuna í morgun (fimmtudaginn 29. desember) og telst það desembermet fyrir Reykjavík. Nákvæmnin er þó ekki með þeim hætti að þetta sé endilega meira heldur en þeir 32 cm sem mældust að morgni 31. desember 1978 og þann 22. desember 1984 - munur upp á 1 cm verður að teljast tilviljun. En ágætt var að losna við tvöfalda metið. Sömuleiðis þurfti sá sem þetta skrifar að yfirgefa Veðurstofuna á keðjum jóladagsmorgun 1982 - þá var litlu minni snjór en nú.
Áðurnefnd snjókoma í árslok 1978 hafði skilað 32 cm að morgni þess 31. en áfram snjóaði og á nýjársdagsmorgun var hún komin upp í 39 cm. Hefði aukahlaupársdegi verið skotið inn árið 1978 hefði þessi nýjársdagur 1979 ekki verið það - heldur gamlársdagur 1978 og snjódýptarmet desembermánaðar hefði þar með verið 39 cm og stæði enn. En þegar þetta er skrifað eru enn tvær snjódýptarmælingar eftir til áramóta - hver veit nema að tala dagsins í dag hækki til morguns?
Það er reyndar afbrigðilegt að snjódýptarmet nóvembermánaðar er hærra en desembermetið. Mesta snjódýpt sem mælst hefur í nóvember í Reykjavík er 38 cm. Það var í miklu snjóakasti 1978. Sá snjór bráðnaði allur á fáeinum dögum í óvenjumiklum hlýindum í desember þannig að gamlársdagssnjórinn mikli féll á auða jörð.
Ritstjóri hungurdiska lét hafa eftir sér í Fréttablaðinu í morgun (- viðtal tekið í gær, 28. desember) að meiriháttar umferðarvandræði hæfust í Reykjavík við 28 til 30 cm snjódýpt. Það virðist staðfestast með snjókomu næturinnar. En snjódýpt ræðst oft af röð tilviljana. Atburður síðastliðinnar nætur var ekki svo stór einn og sér. Ákoma (aukning snjódýptar) frá því deginum áður var 13 cm. Þetta er hóflegur atburður.
Atburðurinn um áramótin 1978 til 1979 var miklu stærri - nærri 40 cm. Svo mikil snjósöfnun í einum atburði er mjög óvenjuleg í Reykjavík - þó ekki dæmalaus. Snjódýptin nú fellst í nokkrum smærri atburðum. Við sem fylgdumst með snjó hér í Reykjavík á snjóatímabilinu mikla fyrir 1995 munum vel vandræðaástand það sem er í umferðarmálum við 30 til 40 cm snjódýpt. Þá fer húsþökum sumum einnig að verða hætt. En dæmi eru um enn meiri snjó í Reykjavík - en ekki nýlega.
Á snjóaárunum lá einhvern veginn í loftinu að tveir stórir atburðir ættu sér stað með það skömmu millibili að sá fyrri væri lítt farinn að sjatna þegar sá síðari skylli yfir. - En það gerðist ekki. Við 45 cm er ástandið við meiriháttar vandræði - hvað þá í 80 cm (tveir stórir)? Hvað ef þeir 80 cm bráðnuðu ekki - en endurfrysu svona fjórum sinnum? Atburðir af þessu tagi liggja auðvitað í leyni í framtíðinni - enginn má verða mjög hissa.
Á vef Veðurstofunnar liggur pistill ritstjórans um snjódýptarmet Íslandsog sagt er frá snjódýptarmeti Reykjavíkur (55 cm frá 1937). Á vef Veðurstofunnar er einnig ritgerð um snjóhulu og snjódýpt á landinu - orðin nærri 10 ára gömul en inniheldur samt mikinn fróðleik.
Í ritgerðinni er kynnt til sögunnar summa snjódýptar alhvítra daga. Hún hefur verið gerð fyrir alla mánuði frá því að snjódýptarmælingar hófust í Reykjavík í janúarlok 1921. Sjá má alla töfluna í sérstöku viðhengi með þessum pistli.
Það er 1984 sem státar af hæstu snjódýptarsummu desembermánaða, 418. Næst kemur desember 1955 með 311. Núlíðandi desember er í dag kominn upp í 353 og skortir því 65 upp á að ná metinu. Verði snjódýpt jafn mikil eða meiri síðustu tvo dagana og er í dag verður metið slegið. Hins vegar hafa alhvítir dagar aldrei verið jafn margir í desember í Reykjavík og nú.
Snjórinn sem nú liggur á jörð þarf afgerandi hláku til að hverfa. Slíkt virðist ekki í augsýn. Sú bleyta sem þó er spáð aðra nótt (aðfaranótt 31.) og á gamlársdag ætti þó að draga úr snjódýptinni - það er að segja ef ekki snjóar meira á morgun (föstudag). Síðan kvu spáð stirðnun og frosti aftur.
Skammvinnar, vægar vetrarhlákur af þessu tagi voru á öldum áður réttilega kallaðir spilliblotar - því það eru þeir svo sannarlega - hvernig sem á málið er litið. Þegar snjór blotnar og frýs aftur verða til svonefndir áfreðar - þeir hafa aldrei verið vinsælir.
23.12.2011 | 00:41
Haldið til hlés
Hungurdiskar halda sig til hlés næstu daga vegna jólahalds og pestarbits ritstjórans.
Gleðileg jól.
22.12.2011 | 00:04
Tvær lægðir til jóla (rétt rúmlega það)
Rétt rúmlega það vísar til lægðarinnar sem er að ganga yfir þegar þetta er skrifað (rétt fyrir miðnætti á miðvikudagskvöldi 21. desember). Mjög mikill suðvestanstrengur fylgir lægðinni á mjóu svæði. Höfuðborgarsvæðið virðist ætla að sleppa en athygli vekur hversu hvasst er uppi á Mýrum (Fíflholt með 24,2 m/s í jafnaðarvind kl. 23) og í Hvalfirði (Þyrill með 25,1 m/s á sama tíma). Enn hvassara er á fjallastöðvum í nágrenninu. Rétt fyrir miðnætti var komið vonskuveður á Holtavörðuheiði og sennilega verður þessa sama strengs líka vart sums staðar á Norðurlandi eða á Vestfjörðum. Vonandi að ekkert fjúki.
Næsta lægð fer hjá síðdegis á morgun (fimmtudag). Hún virðist nú ætla að fara til norðausturs rétt fyrir sunnan land. Lítum á gervihnattarmynd sem tekin var kl. 23 á miðvikudagskvöldi 21.12.
Við sjáum að lægð dagsins er við Vestfirði og verður alveg úr sögunni fyrir hádegi á fimmtudag. Nýja lægðin á að fara í þá stefnu sem örin sýnir. Ætli við verðum ekki að trúa því. Veður samfara lægðinni er langverst fyrir suðvestan og sunnan miðjuna þannig að við ættum að sleppa við það. Kannski hvessir um stund af vestri eða vestnorðvestri allra syðst á landinu annað kvöld.
Aðalspurningin samfara þessari lægð er sú hvort og hvar snjóar - og hversu mikið. Það getur gerst á tveimur svæðum tengdum kerfinu. Annars vegar í aðalúrkomubakkanum norðan og norðvestan við lægðarmiðjuna en hins vegar í éljakerfi sem gæti fallið inn á landið úr vestri annað kvöld eða aðra nótt. Það kerfi eða annað ámóta má sjá sem lítinn sveip á myndinni, vestarlega á Grænlandshafi.
Hungurdiskar geta engu um þetta spáð (frekar en venjulega) en rétt fyrir fólk á ferð að fylgjast vel með fréttum af veðri fimmtudagsins.
Síðan nálgast önnur lægð á Þorláksmessukvöld - örlög hennar eru enn óráðin og illa virðist spám ætla að ganga við að negla þau niður. Flestar gera þó ráð fyrir því að hún dýpki gríðarlega í námunda við landið á aðfaranótt aðfangadags - evrópureiknimiðstöðin nefnir 41 hPa á sólarhring, þar af 14 hPa milli miðnættis og kl. 6 á aðfangadagsmorgunn. En hér verður að leggja varnagla við mikilli óvissu. Lægðin er að vísu orðin til, var um hádegi á miðvikudag yfir Indianafylki í Bandaríkjunum, 1003 hPa djúp, um hádegi á morgun á hún aðeins að hafa dýpkað um 2 hPa á leið sinni. En það verður gaman að fylgjast með þróun hennar á myndum og í spám næstu daga. Kannski verður ekkert úr henni?
21.12.2011 | 00:04
Kuldakastið - hvernig stendur það sig?
Nú er rétt að líta á stöðu desembermánaðar miðað við fyrri kalda mánuði. Síðusta vikan hefur verið mun hlýrri en þær fyrri og ekki svo mjög fjarri meðallagi árstímans. Þetta þýðir að kuldakastið nú er að missa aðra mánuði niður fyrir sig.
Í langa Reykjavíkursamanburðinum (munum að það vantar mörg ár í hann og að nákvæmni skortir) er 1981 við það að ná núverandi kulda og 1973, 1949 og 1936 dottnir niður fyrir (tölur í °C). Síðan koma nítjándualdarmánuðir í langri röð, 1886 kaldastur (til og með 20.).
ár mán hiti 1. til 20.
2011 12 -2,85
1981 12 -2,85
1909 12 -3,12
1973 12 -3,28
1949 12 -3,34
1891 12 -3,41
1936 12 -4,17
1880 12 -4,28
1885 12 -4,55
1887 12 -4,81
1893 12 -4,94
1892 12 -5,35
1886 12 -6,02´
Stykkishólmsröðin er áreiðanlegri þegar horft er langt til baka og hefur þann kost að aðeins vantar einn desembermánuð frá 1845, en það er 1919. Þegar við mátum málið síðast var núverandi desember í 15. sæti. En hvað nú?
ár | meðalh. | ||
1 | 1892 | -5,72 | |
2 | 1917 | -5,48 | |
3 | 1887 | -4,92 | |
4 | 1880 | -4,84 | |
5 | 1893 | -4,70 | |
6 | 1863 | -4,53 | |
7 | 1886 | -4,41 | |
8 | 1847 | -4,35 | |
9 | 1973 | -4,17 | |
10 | 1936 | -4,13 | |
26 | 1974 | -2,45 | |
27 | 2011 | -2,45 |
Kuldakastið nú er komið niður í 26. til 27. sæti. - Hætt að vera nokkuð merkilegt. En mánuðurinn er ekki búinn og engin sérstök hlýindi enn í kortunum. Hitinn í Stykkishólmi það sem af er þessum mánuði er 2,4 stigum undir meðallagi en í Reykjavík er hann 3,2 stigum undir og 3,9 á Akureyri. Ívið hlýrra að tiltölu er á Austfjörðum, Dalatangi er 2,0 stigum undir meðallaginu.
21.12.2011 | 00:04
Þrjár lægðir til jóla (síðari þáttur)
Þegar þetta er skrifað seint á þriðjudagskvöldi 20. desember eru enn þrjár lægðir til jóla. Sú fyrsta fer yfir landið á morgun, miðvikudag, önnur fer hjá rétt suður af landinu (ef spár rætast) á fimmtudag og sú þriðja fer yfir landið eða hjá því á aðfangadag. Óvissa er um það hvar þriðja lægðin fer hjá og hversu djúp hún verður.
Við lítum á háloftaspákort sem gildir kl. 18 á miðvikudag (21. desember). Það sýnir hæð hæð 500 hPa-flatarins (svartar, heildregnar línur) og þykktina (rauðar strikalínur).
Við sjáum gríðarlega stóran kuldapoll (háloftalægð) vestur af Baffinslandi og hæð nærri ströndum Spánar og Portúgal. Á milli þessara stóru kerfa er mikill vindstrengur. Við þekkjum hann á lítilli fjarlægð milli jafnhæðarlína. Þær eru dregnar með 6 dam (= 60 m) bili, en 60 metrar eru nálægt 8 hPa.
Lægðarmiðjurnar eru merktar með tölustöfum. Miðvikudagslægðin (1) er hér nálægt Suðvesturlandi, fimmtudagslægðin (2) er nokkuð langt suðvestur í hafi, en aðfangadagslægðin (3) er við vesturjaðar kortsins. Við sjáum vel hvernig jafnþykktarlínurnar liggja í hæðarbeygju þar sem lægðirnar eru. Lægðarbeygja er hins vegar á jafnhæðarlinunum - þar eru háloftalægðardrög. Á undan og eftir lægðardrögunum er mikið misgengi þykktar- og jafnhæðarlína. Þar fer hlýtt aðstreymi á undan en kalt á eftir. Lægðir sem fylgja þessu mynstri köllum við oftast riðalægðir, jafnhæðar- og jafnþykktarlínur mynda (riðið) net.
Á eftir fyrri lægðinni fylgir kalt aðstreymi eins og vera ber, en það ríkir á frekar þröngu svæði því strax á eftir er komið í hlýtt aðstreymi næstu lægðar. Bilið á milli lægðanna er óþægilega lítið og litlu má muna að sveigjur þykktarlínanna raskist. Gerist það geta lægðirnar ýmist dýpkað eða grynnst snögglega og þar með breytt stefnu. Við skulum líta nánar á mynstrið í fyrri lægðinni (kortið er frekar óskýrt).
Það sem hér fer á eftir er nokkuð tyrfið - nördin ættu að reyna að halda þræði en hinir geta hoppað yfir þrjár málsgreinar - án þess að tapa af neinu nema tormeltu nördafóðrinu.
Yfir landinu sýnir hæðarsviðið suðvestanátt, hún er nokkuð sterk. Við getum slegið á það lauslega vitandi að fjarlægðin á milli Reykjavíkur og ytri hluta Snæfellsness er um 1 breiddargráða. Við vitum líka að 1 hPa á breiddarstig jafngildir um það bil 10 hnúta vindi. Hér er munurinn um hálft hæðarbil, hæðarbilið er 60 metrar, hæðarmunur er því um 30 metrar, 4 hPa. Það gerir um 40 hnúta vind (20 m/s). Í hina áttina (til suðausturs) eru línurnar talsvert þéttari og vindur er 60 til 70 hnútar (30 til 35 m/s).
Nú skulum við taka eftir því að enn meiri munur er á bratta þykktarsviðsins eftir því hvort við lítum til norðvesturs eða suðausturs. Jafnþykktarlínurnar eru mjög þéttar til norðvesturs, sennilega er brattinn þar tvöfaldur á við hæðarbrattann. Til suðausturs er hann hins vegar mun minni og eitt þykktarbil tekur þar yfir tvö og hálft hæðarbil. Þar sem þykktarlínur eru gisnar undir miklum háloftavindi nær hes háloftarasta niður undir yfirborð (hér suðaustan við lægðarmiðjuna). Þar sem þykktarlínur eru þéttar undir miklum háloftaröstum gætir háloftavindsins ekki, vindhámarkið er þá í aðeins 1 til 2 km hæð og stefnan öfug við vindinn uppi (norðaustanátt í þessu tilviki). Hafa verður í huga að þykktar- og hæðarsviðið hafi sömu hallastefnu.
Við sjáum e.t.v. af þessu að mjög litlar hreyfingar á þykktar- eða hæðarsviðinu geta valdið gríðarlegum breytingum á vindátt og vindhraða. Bylgjukerfi sem eru togandi hvort í annað eins og hér um ræðir eru sérlega rokgjörn og stutt á milli hægviðris og ofsa. Þeir sem eitthvað eiga undir veðri eiga því að fylgjast vel með veðurspám næstu daga.
Aðfangadagslægðin hefur verið mjög rokgjörn í spám undanfarna daga og ýmist runnið hjá án teljandi veðurs eða orðið að meiriháttar lægð með tilheyrandi illsku. Við fylgjumst e.t.v. með þróuninni næstu daga.
20.12.2011 | 00:58
Hlýjustu dagar desembermánaðar
Meðan við bíðum eftir lægðunum þremur (miðvikudag 21., fimmtudag 22. og aðfangadag jóla) skulum við líta á hlýjustu daga desembermánaðar - það er að segja þá sem státa hæstum meðalhita, hæsta meðalhámarkshita og hæsta meðallágmarkshita. Miðað er við árin 1949 til 2010. Rétt er samt að geta þess að lægðirnar þrjár eru allar á áætlun - en enn er ekki samkomulag um nákvæma braut þeirra eða dýpt.
En lítum á hlýjustu dagana. Þeir reiknast vera þessir (allar tölur í °C):
ár | mán | dagur | meðalh. | ||
1 | 1997 | 12 | 15 | 9,39 | |
2 | 1997 | 12 | 14 | 9,29 | |
3 | 2006 | 12 | 20 | 8,82 | |
4 | 2001 | 12 | 10 | 8,63 | |
5 | 2001 | 12 | 15 | 8,20 | |
6 | 2001 | 12 | 13 | 7,87 | |
7 | 2001 | 12 | 14 | 7,87 | |
8 | 1995 | 12 | 4 | 7,81 | |
9 | 2006 | 12 | 19 | 7,79 | |
10 | 1989 | 12 | 1 | 7,76 | |
11 | 2009 | 12 | 11 | 7,69 |
Athygli vekur að allir dagarnir eru frá síðari árum viðmiðunartímabilsins. Tveir þeir hlýjustu eru frá 1997, fjórir frá 2001 og tveir frá 2006. Hungurdiskar hafa áður fjallað um dagahámörk í desember og methita desembermánaðar. Margir muna enn dagana hlýju 2006 þegar mikil leysinga- og úrkomuflóð urðu bæði norðanlands og á Suðurlandi.
Listinn yfir þá daga sem eiga hæsta meðalhámarkshitann er svipaður, alla vega eru allir dagarnir nýlegir:
hæsta landsmeðalhámark | |||||
ár | mán | dagur | meðalhám. | ||
1 | 1997 | 12 | 15 | 11,77 | |
2 | 2002 | 12 | 6 | 11,30 | |
3 | 1997 | 12 | 14 | 11,15 | |
4 | 1997 | 12 | 16 | 11,00 | |
5 | 2009 | 12 | 12 | 10,97 | |
6 | 2006 | 12 | 21 | 10,96 | |
7 | 2001 | 12 | 14 | 10,91 | |
8 | 2006 | 12 | 20 | 10,55 | |
9 | 2001 | 12 | 11 | 10,40 | |
10 | 1995 | 12 | 3 | 10,33 | |
11 | 2007 | 12 | 18 | 10,27 |
Dagarnir eru flestir annað hvort þeir sömu eða þá næsti dagur við dagana í fyrri lista. Taka má eftir því að hafi hámarkshiti sólarhringsins orðið að nóttu - sem er algengt í desember - færist hæsta meðalhámarkið gjarnan á daginn eftir þann sem hæstan hafði meðalhitann.
Hæsti meðallágmarkshitinn reiknast eftirtalda daga:
hæsta landsmeðallágmark | |||||
ár | mán | dagur | meðallágm. | ||
1 | 1997 | 12 | 15 | 7,88 | |
2 | 2006 | 12 | 20 | 6,57 | |
3 | 2001 | 12 | 15 | 6,40 | |
4 | 2007 | 12 | 20 | 6,00 | |
5 | 1987 | 12 | 2 | 5,82 | |
6 | 2001 | 12 | 10 | 5,80 | |
7 | 2001 | 12 | 14 | 5,71 | |
8 | 2009 | 12 | 12 | 5,58 | |
9 | 1997 | 12 | 16 | 5,49 | |
10 | 1971 | 12 | 31 | 5,44 | |
11 | 2009 | 12 | 13 | 5,30 |
Hér fær einn eldri dagur náðarsamlegast að komast á listann. Það er gamlársdagur 1971. Mikil og eftirminnileg veðurumskipti urðu nokkrum dögum áður þegar skipti úr illum snjókomuumhleypingum yfir í hlýja sunnanátt sem stóð langt fram eftir janúarmánuði 1972.
19.12.2011 | 01:07
Þrjár lægðir til jóla?
Nú má líta á norðurhvelsmyndina og sjá hvað ber fyrir augu. Hún sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins þriðjudaginn 20. desember kl. 12.
Hér átta kunnugir sig umsvifalaust. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en þynnri rauðar línur sýna 5820 metra og 5100 metra.
Við sjáum að meginkuldapollur norðurhvels hefur aðsetur við Baffinsland - en þar er hans uppáhaldsbæli. Annars er frekar flatneskjulegt yfir heimskautssvæðinu sjálfu - og er það algengt á þessum árstíma, Meginrastir ólmast sunnar og má greina þær á þeim stöðum þar sem línurnar eru þéttar. Í straumnum má sjá allmargar smáar bylgjur - þær eru á leið til austurs. Ein fer yfir landið á mánudag og er að mestu komin hjá þegar kortið gildir.
Beint suður af landinu er myndarlegur, breiður hæðarhryggur og næsta bylgja - sú sem merkt er mi - fyrir miðvikudag - þarf að sækja meðfram honum til að komast til Íslands. Eindregin hæðarbeygja er á jafnhæðarlínum vestan í hæðarhryggnum og eiga bylgjan og lægð hennar töluvert erfitt uppdráttar við að snúa beygjunni yfir í hagstæðari lægðarbeygju. Undanfarna daga hafa tölvuspár átt mjög bágt með að ákveða hvort það tekst eða ekki. Ef það tekst kemur hér myndarleg lægð á miðvikudag - allmikið vestanveður verður sunnan við hana en austanáttin norðan við er meinlausari. Ef ekki tekst að breyta beygjunni - straujast lægðin framhjá án þess að vaxa fyrr en þá austan við meginbeygjuna.
Annað er það sem gerir spár fyrir miðja vikuna óvissar er hversu stutt er á milli miðvikudagsbylgjunnar (mi) og þeirrar sem vill koma hér við sögu á fimmtudag (fi á kortinu). Síðari bylgjan gæti dregið kraft úr þeirri fyrri - eða öfugt. En sem stendur er fimmtudagslægðinni spáð sunnan við land. Þá er spurningin með hana hvort snjókoma verður í austanáttinni - eða ekki.
Laugardagsbylgjan - já, aðfangadagslægðin - er á kortinu við suðvestanverðan Hudsonflóa. Örlög hennar eru alls ekki fullráðin og eins gott að tala sem minnst um þau á þessu stigi málsins. Hungurdiskar gefa málinu e.t.v. gaum næstu daga.
Já - í viðhengi er litaspjald sem sýnir kalda og hlýja mánuði í Reykjavík í tvöhundruð ár - í excel-skjali. Ofurkaldir mánuðir eru merktir með dökkbláu - en kaldir eru ljósari, Allra hlýjustu mánuðirnir eru dökkrauðir - en hlýir eru rauðbrúnir. Litirnir eru reiknaðir út miðað við tímabilið 1871 til 2010 - litir eldri mánaða eru hafðir með til gamans. Ekki er ætlast til þess að þessi leikur sé tekinn of hátíðlega.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.12.2011 | 01:34
Heiðasti desemberdagurinn
Undanfarna mánuði hafa hungurdiskar rifjað upp heiðustu daga í hverjum mánuði frá 1949. Nú er komið að desember. Heiðasti dagurinn sem við finnum í þeim mánuði er sá 30. árið 1995, meðalskýjahula var aðeins 1,2 áttunduhlutar. Myndin er úr safni móttökustöðvarinnar í Dundee í Skotlandi.
Minniháttar skýjabakki er við Vestfirði norðvestanverða og e.t.v. annar við strönd Austur-Skaftafellssýslu. Að öðru leyti er heiðríkt. Við sjáum mikinn skýjagöndul yfir Grænlandi þar er hlýtt loft að ryðjast til norðurs. Háþrýstisvæði er yfir Íslandi. Í textahnotskurn segir um þennan mánuð: Góð tíð. Nokkuð vætusamt var syðra, en lítið var um stórviðri. Eftir miðjan mánuð gerði hörkufrost og mánuðurinn var mjög kaldur um landið norðaustanvert. Þessi dagur kemst þó ekki á lista yfir köldustu desemberdagana.
Næstheiðastur er 26. desember 1962 (man hann vel). Þá um jólin settist hér að einhver mesta fyrirstöðuhæð sem um getur og ríkti nánast einráð til miðs janúar 1963 og síðan aftur langt fram í febrúar. Fádæma kuldar voru þá í Vestur-Evrópu - óvenjulegastir á Bretlandseyjum. Ég er ekki alveg viss - en mig minnir að þarna hafi knattspyrna og knattspyrnugetraunir lent í ódæmilegum vandræðum þegar heilu umferðunum varð að fresta í enska boltanum.
Sá 22. árið 1976 er síðan í þriðja sæti heiðra desemberdaga - fyrirstöðuhæðin sú var líka óvenjuleg - þótt ekki kæmi hún alveg jafnhart niður á Bretum. Skýjaðasti desemberdagurinn telst sá 7. árið 1983 og halarófa daga í næstu sætum.
Við reiknum líka til gamans út á hvaða degi í desember skyggnið var best (trúum því þó ekki um of). Þar er gamlársdagur 1995 talinn bestur og heiðríkjudagurinn 30. og fjallað var um hér að ofan er í ómarktæku öðru sæti - og 29. sama ár er í fjórða sæti. Á milli er 28. 2002.
Verst telst skyggnið hafa verið 12. desember 1971. Þann dag var úrkoma um land allt, snjókoma víðast hvar. Næstverst var skyggnið á jóladag 1963. Þá snjóaði mikið nyrðra og daginn eftir féllu snjóflóð á hús á Siglufirði.
17.12.2011 | 01:44
Bylgjuskipti
Algengast er að stóru bylgjurnar í vestanvindabeltinu hreyfist ákveðið til austurs. Undanfarna daga höfum við verið í bylgjudal, svo breiðum að heimskautaröstin hefur haldið sig langt sunnan við land og gripið þar allar marktækar lægðir og flutt austur til meginlands Evrópu. Nú sækir ný bylgja fram úr vestri og ýtir þeirri gömlu til austurs, úr sögunni hjá okkur. Hæðarhryggur fer á undan nýju bylgjunni eins og sést á myndinni hér að neðan.
Þetta er spá um hæð 300 hPa-flatarins yfir Norður-Atlantshafi og gildir laugardaginn 17. desember kl. 18. Jafnhæðarlínur (svartar) sýna hæð flatarins í dekametrum. Lægst er staðan við kuldapollinn mikla sem er í sínu uppáhaldsbæli við Baffinsland, um 8116 metrar. Hæst er hún rúmir 9,5 km við Asóreyjar. Heimskautaröstin ólmast þarna á milli. Hún er með tætingslegra móti á kortinu en nær sér fljótlega á strik aftur. Litakvarðinn sýnir vindhraða í röstinni.
Hæðarhryggurinn er merktur með rauðum strikalínum. Lengst til vinstri (f - fyrir föstudag) má sjá stöðu hans á föstudag kl. 18. Miðlínan sýnir stöðu hans á kortinu (laugardag) og línan lengst til hægri sýnir hvar honum er spáð á sunndag kl 18. Þá verðum við komin í suðvestanáttina vestan við hrygginn.
Tölvuspár hafa undanfarna viku verið nokkuð sammála um að hryggurinn fari yfir landið á laugardag og virðist það vera að rætast. Afskaplegt ósamkomulag hefur hins vegar verið um veðurlagið sem fylgir á eftir honum. Þar vilja að minnsta kosti fimm styttri bylgjur ryðjast fram hver á fætur annarri. Langt fram eftir liðinni viku var búist við því að bylgja númer tvö yrði að afgerandi lægð sem spáð var til norðausturs fyrir vestan land - en síðan kom sú skoðun fram að númer þrjú myndi trufla hana svo að hún straujaðist fyrir sunnan landið og kæmi lítt við sögu.
Hver spá á fætur annarri segir nú misjafnar sögur og engin leið að gera hér grein fyrir því öllu. Meirihluti spánna er þegar þetta er skrifað efins um að nokkuð marktækt komi út úr þessum bylgjugangi - nema að enn sem fyrr skuli sótt með illviðrum að Vestur-Evrópu. Rætist það heldur kuldinn hér einfaldlega áfram - með smáhléi við fyrstu smábylgju á sunnudag. Jólaveðrið er því enn óráðið.
Kuldapollurinn stóri bíður átekta um sinn en vísast er rétt að gefa honum auga.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 12
- Sl. sólarhring: 183
- Sl. viku: 2459
- Frá upphafi: 2434569
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 2184
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010