Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Hver er úrkomusamasti mánuður ársins?

Mörg svör eru til við spurningu fyrirsagnarinnar. Hún er satt best að segja ekki mjög skýr. Á höfundurinn við landið allt, einstaka hluta þess eða sérstakar stöðvar? Er hann á höttunum eftir því í hvaða mánuði ársins meðalúrkoma er mest eða jafnvel hvaða mánuður er oftast sá úrkomusamasti á árinu? Þessari spurningafjöld verður auðvitað ekki svarað hér - en svörum einhverjum þeirra.

Þegar litið er á áratugameðaltöl er október ábyggilega úrkomusamasti mánuður ársins á landinu í heild. Til eru mánaðameðaltöl úrkomu fyrir 1971 til 2000 á 134 veðurstöðvum. Þau eru ekki alveg öll áreiðanleg - en látum samt að svo sé. Október er úrkomusamastur á 77 stöðvanna (57%), febrúar er í öðru sæti með 22 stöðvar (16%). Apríl og maí eru hvergi úrkomumestir, desember er með 10 stöðvar, janúar, ágúst og september með 5 hver, nóvember með fjórar, mars þrjár og júní og júlí eina stöð hver.

Þegar farið er í saumana á því hvernig stöðvarnar dreifast á landsvæði og hvaða stöðvar það eru sem skera sig úr kemur ýmislegt í ljós. Febrúarstöðvarnar eru allar á Suðvestanverðu landinu frá Þykkvabæ í austri vestur að Gufuskálum á Snæfellsnesi. Þar á meðal er Reykjavík. Nóvember- og desemberstöðvarnar eru á svipuðum slóðum, en grunsamlega margar þeirra athuguðu ekki allt tímabilið.

Fáeinar stöðvar inn til landsins á Norður- og Austurlandi eru með hámörk í sumarmánuðum, þar með t.d. Grímsstaðir á Fjöllum (júlí), Möðrudalur (ágúst) og Mýri í Bárðardal (ágúst). Þetta er trúverðugt.

Hin túlkunin á spurningunni í fyrirsögninni er sú að verið sé að spyrja um hver sé oftast úrkomusamasti mánuður ársins. Það hafa hungurdiskar athugað fyrir Reykjavík og Akureyri. Í Reykjavík er það janúar með 20% tilvika (ótrúlega mikið - fimmta hvert ár). Október og nóvember eru í öðru til þriðja sæti með 15% hvor mánuður. Apríl og maí hafa aldrei verið úrkomusömustu mánuðir ársins í Reykjavík.

Í Reykjavík var júní 1960 úrkomusamasti mánuður ársins. Gæðasumarið það var nefnilega eins og flestir vilja helst, nægar úrkomur fyrir gróðurinn snemmsumars en síðan þurrt. Harla sjaldgæft. Júlí 1955 var úrkomusamastur allra mánaða það árið - rigningasumarið fræga.

Á Akureyri er október oftast úrkomusamastur, í 25% tilvika (fjórða hvert ár), desember er í öðru sæti með 20% og nóvember 18%. Maí og júní hafa aldrei verið úrkomusömustu mánuðir ársins á Akureyri. Það var apríl 1932 sem náði því að verða úrkomusamasti mánuður þess árs - merkilegt það.


Venjuleg lægð?

Þegar þetta er skrifað (miðvikudagskvöldið 19. október) nálgast úrkomusvæði landið úr suðvestri. Það fer yfir Vesturland undir morgun og síðdegis verður það sennilega komið austur af landinu. Við lítum á spákort sem gildir kl. 18 fimmtudaginn 20. október.

w-blogg201011a

Þetta er „venjulegt“ veðurkort. Jafnþrýstilínur eru svartar heildregnar, úrkomusvæði eru græn (blá þar sem úrkoman er mest). Bláar (frost) og rauðar (hiti yfir frostmarki) línur sýna hita í 850 hPa (um 1300 metrum). Þar má ef vel er að gáð sjá frostmarkslínuna en hún er heildregin og græn.

Lægðin er um 400 km fyrir vestan Ísland og hreyfist þarna enn til norðausturs eða austnorðausturs. Við getum ef við viljum dregið helstu skil á kortið. Þau eru sjaldnast fjarri úrkomusvæðunum og oft er hægt að staðsetja þau þar sem beygjur á þrýstilínum eru hvað krappastar undir  úrkomusvæðunum. Skil hreyfast gjarnan með svipuðum hraða og þrýstivindsstyrkur er þvert á þau aftanverð. Þannig sjáum við að lítil hreyfing er á skilunum fyrir norðan land en fyrir austan landið eru þau á ákveðinni leið til austurs.

Um 1000 km suðsuðvestur af Íslandi má sjá snarpan úrkomublett (í spánni). Mér tókst nú ekki að sjá hann á hitamyndum í kvöld (miðvikudag) en hann ætti að vera komin fram á morgun sem lítið riðalauf, en það eru há- og miðskýjapjötlur. Byrja með greinilegri hæðabeygju (vinstrihandargripi) en þróast síðan oft í lægðarkróka (hægrihandarkommur). Þetta verður skiljanlegt eftir að búið er að nefna nægilega mörg dæmi - það verður vonandi hægt á hungurdiskum í vetur.

En þessi algjörlega venjulega lægð fyrir vestan land fer ekki mikið lengra heldur en að Vestfjörðum. Þá á hún að bakka til suðvesturs. Það sem veldur því er dálítið lægðardrag í háloftunum og verður það við Vestur-Grænland á morgun eins og 500 hPa-spákortið sem gildi kl. 18 sýnir.

w-blogg201011b

Dragið er þar sem bókstafurinn „D“ er settur á kortið. Skýringar á táknfræði kortsins eru þær sömu og venjulega: Svörtu heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum , en rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið. Því þéttari sem svörtu hæðarlínurnar eru því hvassara er í 500 hPa-fletinum en hann er, eins og kortið sýnir í 5 til 6 kílómetra hæð.

Við sjáum að lægðin í 500 hPa fletinum er nokkurn veginn á sama stað og lægðin við jörð (á efra kortinu). Nú skyldi maður halda að háloftalægðin (og þær báðar) héldu áfram sína leið til norðausturs með skilakerfinu en svo verður víst ekki. Lægðardragið vestan Grænlands á að fara yfir jökulinn til suðausturs og áfram nærri því upp undir Bretlandsstrendur (á sunnudag). Lægðardrög sem fara til suðausturs hafa tilhneigingu til að kreppast og mynda sjálfstæðar lægðir, leiðin yfir Grænland ýtir einnig undir þá þróun.

Það er því eins og kippt sé í gömlu lægðina að aftan og hún dregst inn í lægðardragið og snúning þess. Hún styrkir það að lokum.

En svona mikið (og miklu meira) má mala um venjulega kraftlitla lægð - hálfgerða sumarlægð ef styrkurinn einn væri til vitnis. En munum þó að nú er október meir en hálfnaður og þá getur snjóað hvar sem er og hálkan sömuleiðis legið í leyni.


Ofviðrastefnur á Íslandi - áhrif Grænlands

Við lítum nú á einskonar vindrós. Hún á að sýna áttatíðni ofviðra hér á landi. Reikningurinn fór fram þannig að fyrst var ákveðið hverjir ofviðradagarnir eru. Það var gert með því að reikna hlutfall veðurathugana þegar vindur var meiri en 17 m/s og allra veðurathugana sama dags. Ef meir en 14% athugana náðu vindmörkunum var dagurinn talinn með. Eftir að dagarnir voru afhjúpaðir var meðalvindstefna þessara hvössu vinda dagsins reiknuð og flokkuð á 36 vindstefnur (10° nákvæmni). Þá kom út þessi mynd (hér lögð ofan á kort af svæðinu kringum Ísland - kortagrunninn gerði Þórður Arason).

w-blogg191011b

Tíðnin er sett fram í formi vindrósar, sem flestir ættu að kannast við. Tíðni vindáttar er því meiri sem brún vindrósarinnar nær lengra frá miðpunkti. Stefnur eru þannig að tíðni norðanáttar er beint upp á myndinni, sunnanáttar niður, austanáttar til hægri o.s.frv. Kvarðinn er ekki aðalmálið hér en þess skal samt getið að vindáttin 70° (austnorðaustur) er tíðust ofviðraátta með 7,3% ofviðradaga í sínum hlut.

Aðalatriðið á þessari mynd er að vindáttir í stefnu frá Grænlandi eru sárasjaldgæfar. Mjög fá ofviðri eru úr átt sem er vestan við Scoresbysund og norðan við stefnu að Hvarfi á suðurenda Grænlands. Þetta er varla tilviljun. Það kemur e.t.v. meira á óvart að ofvirðri úr stefnum til Grænlands eru líka fátíð, suðsuðaustanáttin er undantekning.

Reyndar er það þannig að stefnur í landslagi á Íslandi eru líka þessar. Ég held ég klæmist ekki mikið á staðreyndum með því að halda því fram að stefnan norðvestur til suðausturs sé sjaldgæfari heldur en aðrar í landslaginu. Mig minnir að ég hafi einhvers staðar séð landslagsrós sem sýnir þetta, en ég man ekki hvar (allmörgum berggangarósum man ég þó óljóst eftir). Kannski að hið góða misminni mitt sé enn að búa til myndir sem eru hvergi til. Ef út í það er farið ráðast strandarstefnur Grænlands mót austri af þeim sömu fyrirbrigðum og búa til landslag á Íslandi. Kannski að hin skarpa beygja við Scoresbysund sé sú sama og beygjan skarpa á gosbeltinu nærri Bárðarbungu og Kverkfjöllum - ekki veit ég um það.

Eftir að menn hafa séð þetta kort - sem byggir á vindáttum í athugunum en ekki lögun þrýstisviðsins sem skapar vindinn er eðlileg næsta spurning hvort það sama eigi við þrýstivindáttir - er líka eyða í þeim af völdum Grænlands? Við svörum því ekki að þessu sinni.

Áhrif Grænlands á stefnu vinds við Ísland eru því meiri eftir því sem vindur er hvassari. Vindrós sem sýnir vigurvindáttir alla daga (ekki aðeins illviðradagana) lítur ekki eins út og þessi. Þar eru norðvestan og suðaustanáttir til, norðvestanáttin þó mun sjaldgæfari heldur en suðaustanátt. Sömuleiðis er tíðni norðaustlægu áttanna áberandi meiri en þeirra suðvestlægu. Vestlægu illviðrin eru því tiltölulega algengari heldur en þau „ættu“ að vera miðað við hina almennu vindrós.

Höfum í huga að niðurstöður úr vigurvindáttatalningu og hefðbundinni áttatalningu eru ekki endilega eins. Kannski að við lítum á hefðbundnar hvassviðravindrósir síðar - .


Heiðasti októberdagurinn (- ekki heldur í dag)

Þessi pistill er úr flokknum „heiðustu dagar“ mánaðanna. Reiknuð er út meðalskýjahula á öllum veðurstöðvum frá 1949 til 2010 og heiðasti dagur fundinn. Í október fær sá 23. árið 1966 þann sess, en meðalskýjahulan var aðeins 1,93 áttunduhlutar. Ekki eru gervihnattamyndir aðgengilegar úr þeirri fortíð. Þá voru aðeins nokkur ár frá því að farið var að taka slíkar myndir. Þær breyttu miklu fyrir veðurspár hér á landi. Gæðatíð var á Suður- og Vesturlandi í október 1966 og ekki óhagstæð heldur norðaustanlands. Talsvert snjóaði norðanlands í upphafi mánaðarins* - en þann snjó tók fljótt upp aftur. Um mánaðamótin október/nóvember 1966 skipti eftirminnilega um tíðarfar.

En við lítum í staðinn á mynd sem tekin var upp úr miðjum næstheiðasta októberdeginum. Hún er úr safni gervihnattamóttökustöðvarinnar í Dundee í Skotlandi. Þessi góði dagur var 16. október 1998.

w-blogg181011a

Hér er Vesturströndin alveg hrein. Mjóir bólstraslóðar liggja frá Suðurlandi og ekki er langt í smálægðaróværu úti af Suðausturlandi. Minniháttar skýjabakkar eru undan Austurlandi norðanverðu og á Húnaflóa. Áttin í háloftum var af norðvestri, frá Grænlandi, eins og algengast er þegar bjart veður er um allt land. Október 1998 var talinn rysjóttur. Milt var framan af mánuðinum en uppúr honum miðjum versnaði tíð og snjóaði þá mikið norðanlands. Mikið norðaustanillviðri gerði dagana 22. og 23. Það var þó ekki nægilega slæmt til að komast á topplistana sem við litum á í gær (17. október).

Skýjaðasti októberdagurinn á þessu sama tímabili var sá 10. árið 2007. Til gamans reiknum við einnig skyggnið - en lítið mark er á þeim reikningum takandi. Best var skyggnið 19. október 1997, en verst 25. október 1995 - enn og aftur kemur Flateyrarveðrið við sögu. Merkilegt veður það.

* Það er minnisstætt að nemendur Menntaskólans á Akureyri voru settir í það að moka snjónum af knattspyrnuvelli skólans. Það var ágæt hreyfing - en tilgangslítil fannst mér. Síðar komst ég að því að samskipti knattspyrnuvalla og veðurs eru mjög áhugaverð, töluverð fræðigrein meira að segja.


Illiviðri í október - nokkrir topp listar

Til að geta ákveðið hver eru verstu októberveðrin þarf fyrst að skilgreina mælikvarða. Þegar minnst er á illviðri er oftast átt við þau sem eru tengd miklum vindhraða. Auðvitað gætu úrkoma eða flóð (ofanflóð eða sjávarflóð) einnig komið við sögu, nú eða þá sérlegir kuldakaflar.

En hvernig á að raða veðrum ef við tökum eingöngu mið af vindhraða? Er það útbreiðsla veðursins eða tímalengd þess? Og svo framvegis. Kannski væri betra að miða við tjónið? Þá væri veður sem gengi yfir höfuðborgarsvæðið áberandi „verra“ heldur en jafnmikið eða sterkara veður sem eingöngu gætti um landið suðaustanvert. Sömuleiðis hefur tjónnæmi mikið breyst í tímans rás.

Á seinni árum eru efnisleg verðmæti sem lenda í veðrum meiri heldur en áður var þannig að heildartjón verður oft tiltölulega mikið í nútímaveðrum. Hins vegar hefur tekist að verja líf og limi mun betur en áður, ekki síst á sjó.

En við skulum nú eingöngu miða við útbreiðslu illviðra á landinu öllu. Tvær meginskilgreiningar eru notaðar. Annars vegar er talið á hversu háu hlutfalli veðurstöðva vindur hefur náð 20,5 m/s (9 vindstigum) á hverjum sólarhring. Töflu af þessu tagi má búa til fyrir veður allt aftur til 1912. Til hagræðis köllum við þennan talningarhátt „t1“. Hins vegar er talið hversu hlutfall þeirra athugana á landinu með vindhraða yfir 17 m/s miðað við allar athuganir sama dag. Við köllum þann háttinn „t2“ til aðgreiningar frá t1.  

Þessir tveir listar verða ekki eins. Mjög snarpt og skammvinnt veður nær auðveldlega inn á t1-listann, en veður sem stendur lengi er líklegra til að ná inn á t2. Í ljós kemur að kerfisbundinn munur kemur fram á vindáttum. Sunnan- og vestanveður eru oftast mun styttri heldur en norðaustanveðrin. Þau fyrrnefndu eiga því auðveldara með að skora hátt á t1, en norðaustanveðrin gera að jafnaði betur á t2.

En lítum nú á listana, fyrst t1. Dálkarnir eru ár, mánuður, dagur og hlutfall stöðva sem ná 9 vindstigum eða meir (í þúsundustuhlutum). Við sleppum 11 veðrum inn á listann því 23. og 24. október 1963 eru í raun sama veðrið. Það varð verst að kvöldi þess 23. og stóð fram á nótt. Hungurdiskar hafa áður fjallað um það og tjón í því, nú síðast í pistli 3. október en þar var fjallað um mesta vindhraða sem mælst hefur á landinu í október.  

ármándagurhlutf
19631023588
1954109558
19951025552
1991103545
19641021536
1996107530
2009109526
19631024500
20041018480
1952105451
19821026444

Efstu tvö veðrin á listanum voru bæði af suðvestri, en í þriðja sæti er veðrið ógurlega sem olli snjóflóðinu á Flateyri (flóðið féll reyndar aðfaranótt þess 26.), það var af norðri og norðaustri. Öll veðrin á listanum ollu talsverðum sköðum. Þau eru fjölbreyttrar gerðar. Gaman væri að fjalla um þau öll en það er vikuvinna - ég vona að lesendur afsaki þrekleysi mitt í þeim efnum.

Mörg sömu veðrin eru á t2-listanum.

ármandagurhlutfall
19951025429
19641021381
1954109350
20041018341
19821026328
1991103315
1952105294
1987109294
19671027292
19951024276
1980107274

En hér er Flateyrarveðrið á toppnum og dagurinn áður kemst líka á blað - í 10. sæti. Hlutfallsdálkurinn (þúsundustuhlutar) sýnir að vindhraði var 17 m/s eða meira í 43% athugana þennan slæma dag. Þarna sést veðrið 1963 ekki (er í 14. sæti). Það eru langvinnu veðrin sem vinna.

Einnig er til t1-listi yfir illviðri á tímabilinu 1912 til 1948.

ármándagur
19131020
19481029
19341027
19251031
19411023

Það er mikið norðan- og norðaustanveður 1913 sem lendir í 1. sæti. Til þess var tekið hversu mikið sjórok gerði í Reykjavík þennan dag. Mikið tjón varð á bátum á höfninni. Veðrið 1948 var einnig sérlega slæmt í Reykjavík og í Hveragerði varð mjög mikið tjón á gróðurhúsum. Veðrið 1934 var talsvert líkt Flateyrarveðrinu 61 ári síðar, m.a. urðu mannskaðar í snjóflóði í Önundarfirði. Í veðrinu 1934 varð gríðarmikið tjón af völdum brims og sjávarflóða norðanlands. Í sjónvarpsþættinum „Landanum“ nú fyrr í kvöld (sunnudaginn 16. október) var minnst á tjón sem veðrið olli í Haganesvík í Fljótum. - Hefur nú verið tvisvar minnst á veðrið sama kvöldið í fjölmiðlum (hungurdiskar eru einskonar fjölmiðill) - enda merkilegt.   


Norðanáhlaup - en hvaða gerðar?

Að sögn spámanna er talsvert norðanáhlaup í vændum, það á að byrja á Vestfjörðum á sunnudag (16. október) en breiðast síðan yfir mestallt landið á mánudaginn - en síðan ganga niður á þriðjudag. Hér þarf enn einu sinni að minna á að hungurdiskar gera ekki veðurspár - en fjalla um þær. Þeir sem eiga eitthvað undir veðri finna raunverulegar spár á vef Veðurstofunnar og víðar.

Norðanáhlaup eru margra gerða og mætti skrifa um þær langt mál - mjög langt mál. En það veður sem nú er spáð er ágætt dæmi um eina gerð þeirra, þá sem óformlega er nefnd Grænlandsstífla. Ef út í það er farið má flokka stíflu þessa í nokkra undirflokka, en við látum þau skemmtifræði liggja milli hluta að mestu.

Grænlandsstífla einkennist annars vegar af miklum norðaustanstreng í jaðarlaginu, neðstu 1 til 3 km lofthjúpsins meðfram Grænlandsströnd. Hins vegar ríkir flatneskja, mun minni vindhraði og oftast önnur vindátt þar fyrir ofan. Spákortin tvö sem við sjáum hér að neðan eru (saman) gott dæmi um þetta. Það fyrra er 500 hPa hæðar- og þykktarkort eins og hér hefur oft sést áður. Það gildir kl. 18 sunnudaginn 16. október.

w-blogg161011a

Svörtu heildregnu línurnar á kortinu sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum , en rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið. Því þéttari sem svörtu hæðarlínurnar eru því hvassara er í 500 hPa-fletinum en hann er, eins og kortið sýnir í 5 til 6 kílómetra hæð.

Lægðin suðaustur af Íslandi hreyfist hægt til austurs. Norðan við hana er langt bil á milli jafnhæðarlína (svartar). Vindur liggur samsíða línunum. Við sjáum vel hvernig hann liggur þvert á jafnþykktarlínurnar (rauðar) og ýtir þeim til norðvesturs, eins og litlu rauðu örvarnar eiga að sýna.

Af legu þykktarlínanna getum við séð hvar kalda loftið er, við Scoresbysund á Norðaustur-Grænlandi má sjá 5160 metra þykktarlínuna. Þar er frost og kuldi. Vön augu sjá af mynstri hæðar- og þykktarlína að talsverð norðan- og norðaustanátt er á því svæði þar sem jafnþykktarlínurnar liggja frá suðvestri til norðausturs. Hægt er að reikna út hversu mikil hún er með því að draga þykktargildin frá hæðargildunum. Það gerðu veðurspámenn oft og iðulega hér á árum áður - en nú nennir því ekki nokkur maður. Því við lítum bara á næsta kort úr tölvuheimum.

w-blogg161011b

Kortið er vinda- og hitaspá hirlam-líkansins fyrir 925 hPa-flötinn. Sá flötur er í um 600 metra hæð frá jörðu. Vindörvar (svartar) eru að hefðbundnum hætti, vindurinn liggur í stefnu langhliða örvanna en vindhraði er gefinn til kynna með þverstrikunum. Þverstrikin liggja ætíð inn að lægri þrýstingi. Þverstrikin eru þriggja gerða, mest áberandi eru fánar, svartir þríhyrningar og tákna þeir 25 m/s. Lengri þverstrikin tákna 5 m/s hvert og stutt eru 2,5 m/s.

Við sjáum vel hvernig gríðarlegur vindstrengur liggur frá Norðaustur-Grænlandi, þar er vindur 25 til 35 m/s á allstóru svæði. Strikin eru jafnhitalínur, bláar (strikaðar) þar sem hiti er undir frostmarki, græna línan sýnir frostmark en rauðar heildregnar línur sýna hita yfir frostmarki. Hitinn er hæstur fyrir austan land, þar er svæði þar sem hann er +4°C. Kaldast er við Norðaustur-Grænland, -14°C.

Í kalda loftinu er ás (merktur með stórri blárri ör), loft hlýnar þaðan til beggja átta. Yfir Vesturlandi má sjá að vindörvarnar liggja ekki samsíða jafnhitalínunum heldur ýtir vindurinn kaldara lofti til suðurs. Fyrir norðaustan land sjáum við vind ýta hlýju lofti til vesturs - og halda við norðaustanstrenginn. Nú á það að gerast að hlýja aðstreymið á að minnka, við það minnkar aðhaldið sem strengurinn hefur til austurs (annar stíflugarðurinn). Hann breiðir þá úr sér og kemst suður um allt Ísland. Aðalstíflan, vestan við kuldastrenginn, hreyfist auðvitað ekki neitt því það er Grænland sjálft.

Vindstrengur sem þessi er mjög algengur, oft þrýstir hlýja loftið honum vestur fyrir miðlínu milli Íslands og Grænlands en stundum nær hann hingað til lands. Á Vestfjarðamiðum er oft eins og veggur milli ofsaveðurs af norðaustri og hægviðris næst landi. Það er auðvitað mjög misjafnt hversu mikið er af köldu lofti á þessum slóðum og hversu ört það er endurnýjað. Aðhald hlýja loftsins er einnig misöflugt - auðvitað. En ættarmótið dylst varla.


Vanmetin hætta?

Þrumuveður eru algeng í íslenskum kvikmyndum, svo algeng að ritstjóri hungurdiska fer stöðugt hjá sér við að horfa á ósköpin. Væri raunveruleg tíðni veðranna eitthvað í átt við það sem er í myndunum, ja - illt væri í efni. En þetta er nú aukaatriði, reyndar er hætta af þrumuveðrum heldur vanmetin hér á landi og ábyggilega til baga. Kannski að kvikmyndirnar séu bara heppileg áminning því eldingar hafa valdið manntjóni og skepnudauða hér á landi auk þess sem allmargir sveitabæir hafa brunnið til kaldra kola af þeirra völdum í áranna rás. Á síðari árum er tjón á raflínum, rafbúnaði og fjarskiptatækjum ómælt. Tjóntölur eru þó sjaldnast birtar - en tjónnæmi er miklu meira í tölvuumhverfi nútímans heldur en áður var. Ekki er vitað til þess að langtímabreytingar hafi orðið á tíðni þrumuveðra hérlendis - en þó gæti það vel verið.

Þrumuveður eru langalgengust yfir háveturinn en einnig er annar tíðnitoppur í fáeinar vikur að sumarlagi. Margar mismunandi tegundir þrumuveðra koma við sögu. Sú saga er allt of löng til að hún verði sögð undir nótt á föstudagskvöldi. Lesendur eiga það bara inni. En ágætt er samt að nefna þrjú tjóntilvik í októbermánuði - til áminningar. Þau eru auðvitað mun fleiri - sérstaklega tjón á rafkerfum.

Þann 25. október 1995 (já, Flateyrarveðrið rétt einu sinni) eyðilagðist fjarskiptastöð á Húsavíkurfjalli af völdum eldingar.

Þann 26. október 1969 gekk mikið þrumuveður yfir landið vestanvert, þess gætti mest í Borgarfirði. Eldingum sló niður í símalínur, símtæki splundruðust og símastaurar brotnuðu. Íbúðarhúsið í Brúsholti í Flókadal skemmdist mikið í bruna eftir að eldingu sló niður í það.

Að morgni 10. október 1890 sló eldingu niður í fjárhús á Bjólu í Rangárvallasýslu, þakið sviptist af húsinu, sem talið var 60 kinda og annar gaflinn hrundi. Skepna var engin inni.

Kannski er hægt að troða þessum atvikum inn í kvikmynd? En kvikmyndaleikstjórar hafa það sér til afsökunar í þessu máli að mjög erfitt er að kvikmynda vond veður á trúverðugan hátt. Venjuleg rigning sést bara ekki - þá þarf að setja leikara undir tilbúið sturtubað til að eitthvað sjáist, vindur er ekki heldur auðveldur - hann sést svo illa. Hávaði og glampar í þrumuveðri komast hins vegar vel til skila.

 


Másað um gervihnattarmynd

Hér verður másað um gervihnattamynd kvöldsins (fimmtudag 13. október 2011 kl. 23). Ekki verður margt skýrt út - en bent á því fleiri atriði sem geta gefið tilefni til frekari umhugsunar. Verst hvað myndin verður léleg hér á blogginu - en ég held samt að eitthvað sjáist.

w-blogg141011b

Lægð dagsins er á Grænlandshafi og kuldaskil yfir landinu á leið austur. Þetta er hitamynd, því kaldara sem svæði er - því hvítara sýnist það. Hvítustu skýin eru mjög hátt á lofti og mjög köld. Þau hæstu jafnvel uppi við veðrahvörfin.

Gulbrúnu örvarnar sýna háloftavindrastir. Þær þekkjum við á skörpum, til þess að gera beinum  háskýjabrúnunum. Ekki fylgja þeim alltaf skil við jörð, ef þau gera það eru þau ekki undir skýjabrúninni sjálfri heldur undir skýjaþykkninu - mislangt þó. Þetta vitum við.

Annað á myndinni er ekki alveg jafn augljóst. Pínulítil lægð (litla L-ið á myndinni) er langt suðvestur í hafi. Þrýstigreining bendir til þess að þarna sé að minnsta kosti ein lokuð þrýstilína. En lægðin á sér litla vaxtarmöguleika, ástæðan er ekki einföld - en þó er ljóst að hún nær ekki í neitt ferskt hlýtt loft. Hún strögglar þó, við sjáum votta fyrir blikuskildi með hæðarbeygju (litla, rauða örin), en skjöldur af þessu tagi (á undan lægðarmiðju og með hæðarbeygju) þýðir að loft er að bólgna og breiða úr sér í hlýju aðstreymi.

Nú kemur að dálítið erfiðum hlut. Lægðakerfi geta verið til og hreyfst án þess að inni í kerfunum séu lokaðar þrýstilínur. Þetta gerist þegar þau liggja í heilu lagi í yfirgripsmiklum vindstrengjum. Hringrásin sýnir sig ekki af því að vindar bera kerfið svo hratt áfram. Sé grannt skoðað kemur þó í ljós að austan við miðju kerfisins er vindhraði meiri en hann ætti að vera, en minni vestan þess (sé kerfið allt á leið norður).

Lægðin litla á þannig (sé að marka tölvuspár) að straujast út, en úrkomubakki tengdur henni á að fara yfir landið annað kvöld (föstudagskvöld) - spennandi að fylgjast með því - eða hvað.

Á myndinni ef ég einnig sett fullt af bókstöfum (a til f). Sé myndin skoðuð í smáatriðum má sjá að hver bókstafur um sig er tengdur ákveðnu útliti skýjanna á svæðinu. Svæðin a, b, c og d mynda öll aflöng belti skýja af svipuðu útliti, aflöng í stefnu vindáttarinnar. Svæði a sýnir risastóra flákaskýjabreiðu. Þar takast á niðurstreymi sem vill bæla skýin og uppstreymi sem myndar þau, toppar þeirra fletjast út. Á svæði b er uppstreymið nægilega mikið til að búa til skúra- eða éljaklakka. Eftir því sem austar dregur hvítnar í toppana og við bókstafinn f - skammt suðvestur af Íslandi eru þeir orðnir alveg hvítir. Hugsanlega ná þeir langleiðina upp í veðrahvörfin (varla þó).

Svæði c, d og e eru undir sterkum áhrifum Grænlands. Svæði c er tiltölulega skýlaust, ekki gott að segja hvort það er vegna þess að það er upprunnið í niðurstreymi yfir suðvestanverðu Grænlandi eða er tengt uppstreymislátum í kringum aðallægðarmiðjuna vestast á Grænlandshafi. Ekki veit ég hvers vegna svæði d er flákaskýjað (en c-skýlaust). Skýringar geta verið ýmsar. Vindhraði er ábyggilega mjög misjafn við Grænlandsströnd og við hafsvæðið þar utan við. 

Svæði e markar mesta niðurstreymið austan Grænlands. Sjá má fleiri smáatriði nærri lægðarmiðjuna á Grænlandshafi. Þegar myndarlegar lægðir eins og þessi grynnast myndast oft litlir sveipir í kringum miðjuna. Ég reyni að skýra það síðar - ef sérstaklega skýrt dæmi um það birtist einhvern tíma í vetur. En nóg að sinni.


Og enn styttist dagurinn

Fyrirsögnin telst varla til tíðinda í október á norðurhveli jarðar. Pistill dagsins er endurtekning á pistli sem hér birtist 20. september síðastliðinn - nema hvað hér er fjallað um október. Myndin sýnir hámarkssólskinsstundafjölda sem mælst hefur á hverjum degi í október í Reykjavík og á Akureyri. Árin sem notuð eru til viðmiðunar eru 88 í Reykjavík, frá 1923 til 2010, en 56 á Akureyri. Þar byrjar röðin sem miðað er við 1951 en síðan vantar tvo októbermánuði inn í.

Nú verður að hafa í huga að engin fjöll eru í almanakssólargangi og því síður húsbyggingar eða aðrir tilviljanakenndir skuggavaldar. Auk þess verða lesendur að vita að ýmislegt miður skemmtilegt getur plagað hefðbundnar sólskinsstundamælingar og úrvinnslu þeirra. Hungurdiskar gefa ekki út heilbrigðisvottorð á þessar mælingar - en við vonum þó að lítið sé um villur.

Þegar mælingar hafa verið gerðar um áratuga skeið eru allmiklar líkur á að einhver nærri því heiðskír dagur sé inni í mælingaröðinni. En lítum á myndina.

w-blogg131011

Lárétti ásinn sýnir daga októbermánaðar, en sá lóðrétti klukkustundir. Fyrstu daga mánaðarins er hámarkssólskinsstundafjöldi milli 10 og 11 klukkustundir í Reykjavík en um 9 stundir á Akureyri. Ætli við verðum ekki að trúa því að þessa daga hafi sólin skinið nánast allan þann tíma sem mögulegur er.

Sólskinsstundum fækkar síðan jafnt og þétt eftir því sem á mánuðinn líður. Í upphafi mánaðarins munar ekki miklu á stjarnfræðilegum sólargangi í Reykjavík og á Akureyri, hann vex hins vegar eftir því sem á mánuðinn líður, en munum að fjöll skyggja mun meira á fyrir norðan heldur en syðra. 

Sé leitnin reiknuð á rauðu Reykjavíkurlínuna kemur í ljós að hámarkssólskinsstundafjöldi minnkar um tæpar 6 mínútur á dag - skyldi því bera saman við almanakið? Á Akureyri lækkar hámarkið um rúma sex og hálfa mínútu á dag.

Og við spyrjum svipaðrar spurningar og við gerðum í september: Hversu margar yrðu sólskinsstundirnar ef heiðskírt væri alla daga októbermánaðar? Í Reykjavík væru þær 282, en 220 á Akureyri. En flestar hafa sólskinsstundirnar orðið 148,1 í október í Reykjavík. Það var í þeim hagstæða október 1966. Við sjáum að sólin hefur þá skinið rúmlega en helming þess tíma sem hún var á lofti. Meðaltalið er mun lægra, 86 stundir. Einhvern tíma í framtíðinni bíða sólríkari októbermánuðir - enn sennilega verður mjög langt í 200 stundirnar.

Fæstar hafa sólskinsstundir í október í Reykjavík orðið 31,7, það var í þeim afbrigðilega hlýja mánuði 1946. Enn færri stundir mældust á Vífilsstöðum í október 1915, aðeins 17,1 stund. Sá október er meðal þeirra allra hlýjustu hér á landi. Það á við um allan veturinn að skýjað veður fylgir hlýindum á Suðurlandi. Sólarrýrustu vetrarmánuðirnir eru gjarnan þeir hlýjustu eða alla vega í einu af efstu sætum hlýindalistanna.

Fæstar mældust sólskinsstundirnar á Akureyri í október 1995, 18,1. Þetta er hinn eftirminnilegi hrakviðraoktóber þegar snjóflóðið mikla varð á Flateyri.

Á Akureyri er október 1974 sá sólríkasti sem vitað er um. Þá skein sólin þar alls í 103,5 klukkustundir.

Mjög sjaldan er heiðskírt í október, sá dagur sem kemst næst því í Reykjavík frá 1949 að telja var sá 21. árið 2007. Þá varð meðalskýjahula sólarhringsins aðeins 0,2 áttunduhlutar.


Hvernig er með blikuna?

Þessi pistill er skrifaður nálægt miðnætti á aðfaranótt miðvikudagsins 12. október. Flestir sem lesa hann munu líklega gera það að morgni eða þegar á miðvikudaginn er liðið. Þá er því spáð að blikan sem fjallað er hér um verði komin vel inn á landið og síðan yfir það. Pistillinn er því að nokkru leyti orðinn úreltur þegar hann er lesinn. En vonandi felast í honum einhver almennari sannindi.

Þeir sem fylgjast náið með veðri vita að nú er í nokkra daga búið að spá sunnanátt með rigningu á miðvikudag og fimmtudag. Ég veit að þegar þetta er skrifað eru sumir þeirra farnir að furða sig á því hversu seint þykknar upp. Um þetta smáatriði er fjallað hér að neðan. Lítum fyrst á innrauða gervihnattarmynd sem tekin er kl. 23 að kvöldi 11. október (þriðjudag).

w-blogg121011a

Við sjáum Ísland og Grænland. Umræddur blikubakki er sá sem merktur er með fjólublárri strikalínu fyrir sunnan land. Hann er afskaplega rýr orðinn, en þokast samt nær. Honum er þó jafnframt kippt til austurs af vindi sem við sjáum betur á næstu mynd. Rauðu örvarnar þrjár marka vindstefnu upp undir veðrahvörfum. Lægðin merkt með L-i og þokast hún norður. Það er varla að það megi nefna það en lægðin er einskonar afkomandi fellibylsins Philippe sem átti mikla þrautagöngu um hafið allt frá svæðinu vestur af Grænhöfðaeyjum og hingað norður - en varð þó öflugur fellibylur um stutt skeið.

Yfir Grænlandi og vestanverðu Grænlandshafi er miklu myndarlegri blikubakki. Í dag hefur við borð legið að hann kæmist hingað á undan bakkanum rýra í suðri.

En lítum á hina myndina. Hún sýnir hæð 300 hPa flatarins i dekametrum eins og hún var samkvæmt áliti hirlam-veðurlíkansins kl. 21 að kvöldi þriðjudags. Sem sagt á svipuðum tíma og myndin var tekin.

w-blogg121011b

Ég hef sett inn sömu merkingar á kortið og voru á myndinni þannig að samanburður sé auðveldari. Svörtu heildregnu línurnar eru jafnhæðarlínur flatarins. Lægsta talan (yfir N-Grænlandi) er 850 dekametrar, 8500 metrar, en sú hæsta 9620 metrar, við norðvestanverðan Spán. Loft leitast við að jafna út brekkuna (renna niður hana), en svigkraftur jarðar grípur það á leið sinni og drífur það til hægri miðað við brekkuna og það fylgir síðan jafnhæðarlínunum í öllum aðalatriðum (en ekki í smáatriðum). Litakvarðinn á við vindhraðann. Hann er mestur yfir Danmörku og er þar meir en 120 hnútar (um 60 m/s).

Við ættum nú að sjá að loftið austan við lægðina (þá sem nær er Íslandi) er gripið til austurs um leið og það nálgast Ísland. Þannig hefur farið fyrir blikunni sem nálgast hefur úr suðri í dag, trosnað hefur úr henni eftir því sem hún hefur nálgast. Blikan úr vestri á hins vegar greiða leið til Íslands. En á endanum (seint í nótt eða í fyrramálið) nær sunnanáttin hingað. Hreyfingin er sem sagt ekki aðeins með vindinum heldur eru lægðir, lægðardrög og hæðarhryggir einnig á hreyfingu.

Í pistlinum næstum á undan þessum var fjallað um sömu stöðu (aðeins 9 klst fyrr). Þar var á það bent að aðalatriði stöðunnar í dag eru tvö lægðardrög vestan Grænlands (nærri því runnin saman á þessu korti). Þau grípa báðar lægðirnar og gera að sínum í öflugri lægð sem verður á Grænlandshafi á fimmtudag. Sú atburðarás er komin í gang með myndun blikubreiðunnar miklu yfir Grænlandi.

Lægðardragið að vestan grípur loks röstina sem nú er suðvestur í hafi og styrkir hana um allan helming, úr 50 m/s í skotvindi hennar upp í 75 m/s þegar hún verður yfir landinu á fimmtudag.

Enn er spáð skammvinnum hlýindum í hesi rastarinnar en svo nefni ég það svæði mikils vindhraða sem hangir neðan í röstinni. Vindhámark í hesinu er því austar eftir því sem neðar dregur. Sunnanhvassviðrið við jörð er þannig ekki mest beint undir skotvindinum heldur aðeins austar.

Þeir sem nenna að liggja yfir mynd og korti mættu hér velta fyrir sér vindáttarbreytingu með hæð. Austanátt niðri, suðvestanátt uppi = hlýtt aðstreymi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg120425b
  • w-blogg120425a
  • w-blogg080425b
  • w-blogg080425a
  • w-blogg060425b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.4.): 55
  • Sl. sólarhring: 80
  • Sl. viku: 1288
  • Frá upphafi: 2460784

Annað

  • Innlit í dag: 47
  • Innlit sl. viku: 1133
  • Gestir í dag: 44
  • IP-tölur í dag: 44

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband