Hvernig er með blikuna?

Þessi pistill er skrifaður nálægt miðnætti á aðfaranótt miðvikudagsins 12. október. Flestir sem lesa hann munu líklega gera það að morgni eða þegar á miðvikudaginn er liðið. Þá er því spáð að blikan sem fjallað er hér um verði komin vel inn á landið og síðan yfir það. Pistillinn er því að nokkru leyti orðinn úreltur þegar hann er lesinn. En vonandi felast í honum einhver almennari sannindi.

Þeir sem fylgjast náið með veðri vita að nú er í nokkra daga búið að spá sunnanátt með rigningu á miðvikudag og fimmtudag. Ég veit að þegar þetta er skrifað eru sumir þeirra farnir að furða sig á því hversu seint þykknar upp. Um þetta smáatriði er fjallað hér að neðan. Lítum fyrst á innrauða gervihnattarmynd sem tekin er kl. 23 að kvöldi 11. október (þriðjudag).

w-blogg121011a

Við sjáum Ísland og Grænland. Umræddur blikubakki er sá sem merktur er með fjólublárri strikalínu fyrir sunnan land. Hann er afskaplega rýr orðinn, en þokast samt nær. Honum er þó jafnframt kippt til austurs af vindi sem við sjáum betur á næstu mynd. Rauðu örvarnar þrjár marka vindstefnu upp undir veðrahvörfum. Lægðin merkt með L-i og þokast hún norður. Það er varla að það megi nefna það en lægðin er einskonar afkomandi fellibylsins Philippe sem átti mikla þrautagöngu um hafið allt frá svæðinu vestur af Grænhöfðaeyjum og hingað norður - en varð þó öflugur fellibylur um stutt skeið.

Yfir Grænlandi og vestanverðu Grænlandshafi er miklu myndarlegri blikubakki. Í dag hefur við borð legið að hann kæmist hingað á undan bakkanum rýra í suðri.

En lítum á hina myndina. Hún sýnir hæð 300 hPa flatarins i dekametrum eins og hún var samkvæmt áliti hirlam-veðurlíkansins kl. 21 að kvöldi þriðjudags. Sem sagt á svipuðum tíma og myndin var tekin.

w-blogg121011b

Ég hef sett inn sömu merkingar á kortið og voru á myndinni þannig að samanburður sé auðveldari. Svörtu heildregnu línurnar eru jafnhæðarlínur flatarins. Lægsta talan (yfir N-Grænlandi) er 850 dekametrar, 8500 metrar, en sú hæsta 9620 metrar, við norðvestanverðan Spán. Loft leitast við að jafna út brekkuna (renna niður hana), en svigkraftur jarðar grípur það á leið sinni og drífur það til hægri miðað við brekkuna og það fylgir síðan jafnhæðarlínunum í öllum aðalatriðum (en ekki í smáatriðum). Litakvarðinn á við vindhraðann. Hann er mestur yfir Danmörku og er þar meir en 120 hnútar (um 60 m/s).

Við ættum nú að sjá að loftið austan við lægðina (þá sem nær er Íslandi) er gripið til austurs um leið og það nálgast Ísland. Þannig hefur farið fyrir blikunni sem nálgast hefur úr suðri í dag, trosnað hefur úr henni eftir því sem hún hefur nálgast. Blikan úr vestri á hins vegar greiða leið til Íslands. En á endanum (seint í nótt eða í fyrramálið) nær sunnanáttin hingað. Hreyfingin er sem sagt ekki aðeins með vindinum heldur eru lægðir, lægðardrög og hæðarhryggir einnig á hreyfingu.

Í pistlinum næstum á undan þessum var fjallað um sömu stöðu (aðeins 9 klst fyrr). Þar var á það bent að aðalatriði stöðunnar í dag eru tvö lægðardrög vestan Grænlands (nærri því runnin saman á þessu korti). Þau grípa báðar lægðirnar og gera að sínum í öflugri lægð sem verður á Grænlandshafi á fimmtudag. Sú atburðarás er komin í gang með myndun blikubreiðunnar miklu yfir Grænlandi.

Lægðardragið að vestan grípur loks röstina sem nú er suðvestur í hafi og styrkir hana um allan helming, úr 50 m/s í skotvindi hennar upp í 75 m/s þegar hún verður yfir landinu á fimmtudag.

Enn er spáð skammvinnum hlýindum í hesi rastarinnar en svo nefni ég það svæði mikils vindhraða sem hangir neðan í röstinni. Vindhámark í hesinu er því austar eftir því sem neðar dregur. Sunnanhvassviðrið við jörð er þannig ekki mest beint undir skotvindinum heldur aðeins austar.

Þeir sem nenna að liggja yfir mynd og korti mættu hér velta fyrir sér vindáttarbreytingu með hæð. Austanátt niðri, suðvestanátt uppi = hlýtt aðstreymi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 49
  • Sl. sólarhring: 102
  • Sl. viku: 1540
  • Frá upphafi: 2348785

Annað

  • Innlit í dag: 45
  • Innlit sl. viku: 1343
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband