Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Vetur og sumar takast á

Á þessum tíma árs fara átök veðrakerfa vaxandi á Atlantshafi og gera spár ráð fyrir talsverðum hitasveiflum hér á landi næstu daga. Við skulum líta á stöðuna eins og henni er spáð á morgun (þriðjudag 11. október).

w-blogg111011a

Þetta er kort sem sýnir spá hirlam-líkansins um hæð 500 hPa-flatarins og þykktarinnar á hádegi 11. október. Svörtu heildregnu línurnar á kortinu sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum , en rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið. Því þéttari sem svörtu hæðarlínurnar eru því hvassara er í 500 hPa-fletinum en hann er, eins og kortið sýnir í 5 til 6 kílómetra hæð.

Mikill munur er á hæð 500 hPa flatarins syðst og nyrst á kortinu (rúmir 700 metrar). Þessi bratti á milli skapar mikinn vind. Hann er langmestur þar sem línurnar eru þéttastar yfir Norðursjó og Danmörku. Enn meiri munur er á þykktinni þar sem hún er mest og minnst, um 800 metrar. Það jafngildir um 40 stiga hitamun. Mest er þykktin við norðvestanverðan Pýreneaskaga, yfir 5700 metrar. Það er meira en mælst hefur hér á landi - rúmlega sumarblíða.

Minnst er þykktin aftur á móti yfir Norður-Grænlandi. Þar sjáum við í 4920 metra jafnþykktarlínuna. Minnsta þykkt sem vitað er um hérlendis er um 4900 metrar. Þar er veturinn mættur af fullum þunga. Þeir sem fylgst hafa vel með hjali hungurdiska um þykktina kannast við að alvöruvetur telst kominn á Íslandi þegar 5100 metra línan gerist nærgöngul við landið. Meðalþykkt á vetri er þó talsvert hærri - eða um 5240 metrar. En venjulegur vetur á Íslandi einkennist af eilífum sveiflum á milli 5100 og 5400 metra þykktar. En við getum vonandi fylgst með því öðru hvoru næstu mánuði.

En á korti dagsins má sjá leifar fellibylsins Philippe sem þröngan hring 5580 metra jafnþykktarlínunnar. Leifarnar hreyfast til norðnorðausturs fyrir vestan Ísland. Við Nýfundnaland er allöflug háloftalægð. Hún þokast austur í bili. Lokaðar háloftalægðir eiga alltaf í erfiðleikum að komast til norðurs og þessi getur það ekki á eigin spýtur. Það þarf tvö lægðardrög úr vestri til að hífa hana úr bælinu.

Við sjáum þau sem bláar línur sem merktar eru með tölustöfunum 1 og 2. Þau munu í sameiningu skafa lægðina upp úr farinu, grípa hana til norðnorðausturs, strauja úr henni mestu krumpuna og útkoman verður öflug háloftalægð á Grænlandshafi á fimmtudagskvöld eða þar um bil.

Við þessar aðgerðir berst mjög hlýtt loft úr suðri norður yfir landið. Bjartsýnustu þykktarspár nefna töluna 5580 metra sem möguleika í niðurstreyminu yfir Norðaustur- og Austurlandi um hádegi á fimmtudag. Ætli það sé ekki fullmikið í lagt - en alla vega góð skyndihlýindi þar um slóðir. Aðrir landshlutar mega sjálfsagt þurfa að þola hvassviðri og úrhellisrigningu í hlýja loftinu.

Svo tekur nokkra daga að hreinsa háloftalægðina frá landinu - framtíðarspám ber ekki alveg saman um það hvernig það fer fram. En á þessum tíma árs enda svona átök oftast með því að veturinn stykrkir stöðu sína. Ætli það kólni ekki fljótt aftur eftir skyndihlýindin.


Af afbrigðilegum októbermánuðum

Við leitum nú að mestu norðan- og sunnanáttaoktóbermánuðum á sama hátt og við höfum gert áður fyrir mánuðina júní til september. Ekki er ætlast til þess að lesendur muni þá mælikvarða sem notaðir eru þannig að rétt er að rifja þá upp jafnóðum. Skýringarnar eru því endurtekning en ártölin auðvitað önnur. Nú ber svo við að lítið hefur verið um afbrigðilega októbermánuði á síðustu árum - hvað sem veldur.

1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1881. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið. Ákveðin atriði flækja þó málið - en við tökum ekki eftir þeim hér.

Mestur norðanáttaroktóbermánaða telst 1896. Ekki man neinn eftir honum lengur en minnisstæður varð hann austlendingum. Meir en 2000 fjár fórst á Austurlandi í hríðarbyl og krapa í miklu norðanveðri, einn maður varð úti. Hross fennti á Héraði. Veðrið stóð í marga daga.

Margir muna enn næstmesta norðanáttarmánuðinn, október 1981. Þá bar helst til tíðinda að fannfergi var mikið norðanlands og snjódýpt mældist 50 cm á Akureyri þann 12. Þessi mánuður varð einn af köldustu októbermánuðum allra tíma og ól á ísaldarótta sem var talsverður um þær mundir.

Í þriðja norðanáttarsætinu er október 1934 en hann er frægur fyrir gríðarlegt brim sem varð norðanlands undir lok mánaðarins. Meðal annars gekk flóðbylgja yfir eyrina á Siglufirði og fólk varð að flýja hús.

Mest varð sunnanáttin hins vegar í október 1915. Sá mánuður er einhver hlýjasti október sem vitað er um. Október 1920 er í öðru sunnanáttarsætinu og síðan 1908 í því þriðja. Allir þessir mánuðir voru óvenjuhlýir

2. Styrkur norðanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949.

Samkvæmt þessu máli er október 1995 með þrálátustu norðanáttina. Þá varð snjóflóðið mikla á Flateyri, Október 1981 er í öðru sæti og 2004 í því þriðja. Fyrir nokkrum dögum rifjuðum við upp norðanveðrin miklu í síðastnefnda mánuðinum (í pistli um mesta vindhraða októbermánaðar).

Sunnanáttaríkastir á tímabilinu 1949 til 2010 samkvæmt þessari reiknireglu eru 1965 og 1985 jafnir í fyrsta og öðru sæti, báðir hlýir og síðan hitamánuðurinn október 1959 í því þriðja.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, norðaustan og austanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874. Sunnanáttin er metin á sama hátt.

Hér er október 1968 mestur norðanáttarmánaða (með sína hrikalega köldu daga - sjá pistilinn frá því í gær (9. október)). Október 1981 er í öðru sæti og október 1967 í því þriðja.

Sunnanáttin er mest í október 1946 (hlýjasti október í Stykkishólmi) en október 1908 er í öðru sæti.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð. Hér er stungið upp á október 1930 sem mesta norðanáttarmánuðinum. Október 1878 er í öðru sæti og 1981 í því þriðja. Sunnanáttin er mest í október 1915 og síðan koma 1908 og 1946.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum.  Það er október 1896 sem fær fyrsta sæti í norðanáttakeppninni eins og efst hér að ofan, 1880 er í öðru. Þessir mánuðir eru í sérflokki. Sunnanáttin er mest 1908, október 1959 er í öðru sæti.

Alltaf ánægjulegt að sjá flokkunum bera saman að miklu leyti. Aðferðirnar eru að stinga upp á sömu mánuðunum sem þeim afbrigðilegu. Það eykur trú okkar á að metingurinn sé ekki út í hött.


Köldustu dagar í október (nördafóður)

Hungurdiskar halda áfram að fóðra nördin. Aðrir lesendur eru að vanda beðnir forláts. En köldustu dagar októbermánaðar mega ekki gleymast. Hér er átt við köldustu daga þess mánaðar frá og með 1949 til 2010. Við lítum á lægsta landsmeðalhita, lægsta meðallágmark og lægsta meðalhámark. Listarnir þrír bjóða að sjálfsögðu upp á endurtekningar.

ármándagur m-lágmark
19681030 -7,82
19681031 -6,21
19701027 -5,67
19961031 -5,58
19701026 -5,03
19671016 -4,66
19701028 -4,64
19711011 -4,36
19621028 -4,29
20051026 -4,20

Hér sést ekki mikið af dögum nýrrar aldar. Einn þeirra nær þó upp í 10. sætið, 26. október 2005. Dagurinn í 9. sæti er frá 1962 og í 5. sæti er dagur frá 1996. Afgangur daganna er frá hafísárunum svonefndu. Enginn hafís var þó í október þau ár. Þrítugasti október 1968 er langkaldastur allra októberdaga í 62 ár og dagurinn eftir, sá 31. er næstkaldastur.

ármándagur m-lágmark
19671017 -9,85
19681030 -9,76
19681031 -8,82
19701027 -8,65
20051026 -7,83
19701028 -7,28
19491025 -7,19
19711013 -7,05
20021028 -6,88
20081028 -6,83

Listinn yfir daga lægsta meðallágmarkshita er ekki eins. Sautjándi október 1967 nær toppsætinu en var í 6. sæti á fyrri listanum. Ég held að hvassara hafi verið dagana köldu 1968 heldur en 1967 en lágmarkshiti er oftast lægstur í hægum vindi. Dagurinn kaldi 2005 er hér kominn upp í 5. sæti. Þá mældist líka lægsti hiti sem mælst hefur á landinu í október, -23,4 stig, það var á Brúarjökli. Athuganir byrjuðu þar skömmu áður. Kaldir dagar 2002 og 2008 komast líka á listann. Þann 28. árið 2002 mældist lægsti hiti sem vitað er um í byggð hér á landi í október, -22.3 stig á sjálfvirku stöðinni við Mývatn.

ármándagur m-lágmark
19681031 -4,55
19701027 -3,22
19681030 -2,95
19961031 -2,63
19701028 -2,11
19701026 -2,07
19711011 -1,91
19811013 -1,82
19621031 -1,71
19711012 -1,65

Að lokum er listi yfir þá 10 daga sem hámarkshiti hefur verið lægstur. Þar er enginn köldu daga 21. aldarinnar. Þarna eru þrír dagar í röð í október 1970 og tveir frá 1971. 

Þótt dagar á 21. öldinni séu fáir á listunum er fjöldi þeirra ekki undir almennum tilviljunarvæntingum. Á algjörlega tilviljanakenndum topp tíu lista ætti síðasti áratugur að eiga 1 til 2 sæti á hverjum listanna, sjötti áratugurinn þar á engan fulltrúa, það er undir væntingum. Hafísárin hirða hins vegar fleiri sæti en góðu hófi gegnir enda var veðurlag þá með öðrum hætti heldur en fyrr og síðar (af 62 árum úrtaksins).


Hlýjustu dagar í október

Við lítum nú á hlýjustu daga októbermánaðar 1949 til 2010 á landsvísu - rétt eins og við nýlega litum á ágúst og september. Í síðarnefndu mánuðunum voru hlýindi nýhafinnar aldar mjög áberandi en í október er meira jafnræði með fyrri tímum. Hér hefur áður verið bent á að þótt október hafi rétt eins og aðrir mánuðir hlýnað frá 19. öld hafa methitar á þessum tíma árs látið bíða eftir sér. En lítum á töflu sem sýnir hlýjustu dagana - landsmeðalhita. Allar tölur eru °C.

ármándagurm-hiti
195910612,68
200210211,80
200210611,63
195910911,34
1985101411,26
1962102010,93
1965102210,82
197310210,80
2003102610,75
1959101010,71

Á toppnum er 6. október 1959 og tveir aðrir dagar í þeim ágæta mánuði, 9. er í 4. sæti og sá 10. er í 10. sætinu. Í öðru og þriðja sæti eru tveir frábærir dagar haustið 2002. Margar stöðvar eiga októberhitamet 2002 - en þó er eins og það hafi verið jafn hiti um land allt sem gerir útslagið. Stöðvametin mörg eru hins vegar frá dögum sem hafa verið mjög hlýir í einstökum landshlutum en ekki alls staðar í senn.

Það vekur athygli að fjórir daganna eru eftir miðjan mánuð. Má segja að t.d. 26. slagi hátt í hlýindi þess 6. sé tillit tekið til þess að meðalhiti er á húrrandi niðurleið í október. Metið þann 6. hefði dugað í 13. sæti á septemberlistanum enda er það um 0,9 stigum hærra heldur en næsthæsti hitinn á listanum.

En litum líka á meðalhámarkshitann,

ármándagurm-hámarki
200210214,68
195910614,48
195910913,84
195910713,75
200210613,75
1985101413,64
2007101913,44
200210513,33
200210113,29
1985101513,24

Hér hafa 2. október 2002 og sá 6. árið 159 skipt um sæti, 2002 á fjóra daga í listanum og 1959 þrjá.

Að lokum er listi yfir hæsta meðallágmarkshitann - hlýjustu októbernæturnar.

ármándagurm-lágmark
19591069,82
20021069,34
20021029,14
19591099,08
196510239,05
19591078,81
196510228,78
195910108,72
196210208,71
199310258,40
 Það eru enn sömu dagar sem bítast um efstu sætin. Hvað annað? Það er nú ekki amalegt að meðallágmark landsins skuli hafa verið tæp 10 stig og komið fram í október.

Mesta þykkt við Suðvesturland sem endurgreiningin ameríska kannast við er 5608 metrar. Þessi ótrúlega háa tala fylgir 4. október 1944. Þá varð óvenjuhlýtt norðaustanlands og hiti fór yfir 19 stig. Suðvesturland var falið í skýjum og mikilli úrkomu.

Um októberhitamet og fleira rituðu hungurdiskar í pistlum fyrir ári síðan, 2. október  og 3. október  2010.


Af ástandinu á norðurhveli rúma viku af október

Við lítum á kort sem sýnir hæð 500 hPa-flatarins yfir norðurhveli jarðar eins og henni er spáð á laugardaginn. Það er reiknimiðstöð evrópuveðurstofa sem sér um að upplýsa okkur um það.

w-blogg071011

Fastir lesendur eru vonandi farnir að venjast kortinu, en það sýnir norðurhvel jarðar suður fyrir 30. breiddargráðu. Höfin eru blá og löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú mjóa sýnir hæðina 5820 metra.

Hin mjóa rauða línan (sú nærri norðurpólnum) markar 5100 metra hæð 500 hPa flatarins. Hún umlykur nú snarpan kuldapoll. Innsta bláa línan er alveg niðri í 4860 metrum - það er alvöruvetur. Þykktin við kuldapollinn er líka mjög lítil, aðeins 4920 metrar. Það rétt hefur borið við að þykktin yfir Íslandi hafi orðið lægri en það - en þá er frost á Fróni (eða afskapaveður). Spár sýna þennan litla kuldapoll þokast til Síberíu. Þar á hann að grynnast.

Við sjáum að vestanvindabeltið, meginrastir og skotvindar þess eru í miklu fjöri í kringum 5460 metra jafnhæðarlínuna (þykka rauða línan). Þar eru ótal stuttar bylgjur. Stuttar bylgjur hreyfast venjulega hratt til austurs með tilheyrandi lægðum. Skiptast gjarnan dagar á með úrkomu austan við bylgjurnar en björtu veðri í þeim vestanverðum. Þar er lægðardragið vestan Íslands einna öflugast og hæðarlínurnar sýnast þar hvað þéttastar í draginu suðaustanverðu. Enda er spáð úrkomu og hvassviðri þegar dragið nálgast með skila- og færibandasúpu sinni.

Sunnar, við 5820 metra línuna (þá mjóu rauðu) eru bylgjurnar mun færri en ná hins vegar yfir mörg breiddarstig. Þessar bylgjur eru hægfara og þokast botnar þeirra jafnvel vestur á bóginn á móti vindi. Ég þarf að láta tölvur segja mér hvað þær gera af sér, ekki veit ég það af hyggjuviti einu. Svo virðist sem einhverjir hryggjanna á milli lægðardraganna eigi að brotna fram fyrir sig og þar með myndi 5820 metra línan lokaða hringi, það sem við köllum afskornar lægðir.

Við sjáum votta fyrir tveimur fyrirstöðuhæðum (afskornum). Önnur þeirra er suðvestur af Bretlandseyjum. Þar nær óvenjuhlýtt loft langt norður á bóginn og mun Írland næstu daga verða á milli 5580 og 5640 metra þykktarlínanna. Það verður varla betra á svo norðlægu breiddarstigi - sé það í kantinum á hægfara háþrýstisvæði. Hin fyrirstöðuhæðin er yfir Bandaríkjunum austanverðum. Suður af hæðinni er áttin austlæg - sú átt beinir mjög röku lofti inn yfir Flórída og fleiri ríki. Nefnt hefur verið að þar gæti rignt úr hófi.

Norðan við meginvinda vestanvindabeltisins er talsverð flatneskja. Það er hið venjulega ástand, það er einnig venjulegt að í því séu stakir krappir kuldapollar, rétt eins og við sjáum í dag þann sem minnst var á hér að ofan. Þeir reika um sléttunnar slóð og alltaf er rétt að gefa þeim gætur.

Fellibylurinn Philippe er við góða heilsu en fer nú að slappast. Hann á að hoppa á vestanvindabeltið á laugardaginn - en spár eru ekki alveg sammála um það hvernig til tekst. Líklegast er að hann kremjist til bana upp úr helginni áður en hingað er komið.


Hvenær fyrst er alhvítt í Reykjavík og á Akureyri (að jafnaði)

Snjóhuluathuganir hafa verið gerðar í Reykjavík síðan árið 1921 og á Akureyri síðan 1924. Því miður vantar nokkuð upp á að athuganir á síðarnefnda staðnum séu alveg samfelldar. Daglegum upplýsingum um snjóhulu hefur enn ekki verið komið fyrir í aðgengilegum gagnagrunni Veðurstofunnar nema aftur til áranna upp úr 1960. Upplýsingar frá Reykjavík eru þar aðgengilegar frá 1961, en frá 1965 á Akureyri. Í þessum pistli eru þessi ár rannsökuð nánar.

Hér er miðað við að jörð sé alhvít kl. 9 að morgni. Oft snjóar þótt snjó festi illa eða ekki - við þykjumst ekkert vita af því.

Alhvítt varð á Akureyri í morgun (miðvikudaginn 5. október) og snjódýpt talin 3 cm. Samkvæmt athugunum hefur ekki orðið alhvítt þar síðan 26. mars. Flekkótt jú, en ekki alhvítt. Auða tímabilið í ár varð því 193 dagar. Í fyrra varð það 194 dagar því ekki varð þá alhvítt á Akureyri fyrr en 21. október. Frá 1965 að telja varð tímabilið milli alhvítra daga lengst 2007, 228 dagar. Þá varð ekki alhvítt fyrr en 1. nóvember - ekki varð alhvítt eftir 16. apríl.

Á tímabilinu 1965 til 2011 varð fyrst alhvítt 18. september 2003, hið ofurhlýja ár. Ekki segja einstakir atburðir neitt um veðurlag heils árs - hvað þá lengri tímabila. Af árunum 47 varð 5 sinnum fyrst alhvítt í september, 36 sinnum í október og 6 sinnum í nóvember. Lengst beið snjórinn til 21. nóvember, það var haustið 1976. Meðaldagsetning fyrsta alhvíta dags á Akureyri er 16. október, en miðgildi 14. október. Hinn fyrsti alhvíti dagur á Akureyri í ár er því 8 eða 10 dögum á undan því sem er meðalári.

Fyrsti snjórinn var mestur 22. október 1983. Þá var snjódýpt 25 cm. Fyrsti snjórinn hefur aðeins þrisvar verið meiri en 10 cm á Akureyri (níu ár vantar í þeim samanburði).

Hvað með Reykjavík? Þar er talið frá og með 1961 til og með 2010 - því ekki hefur orðið alhvítt enn þetta haustið. Síðast var jörð alhvít í vor þann 2. maí - eftir minnisstæða snjókomu daginn áður. Við vitum að nú hafa ekki liðið nema 159 dagar frá því að síðast var alhvítt í Reykjavík. Ef alhvítt yrði í fyrramálið (fimmtudaginn 6. október) teldist tíminn milli síðasta alhvíta dags vorsins og þess fyrsta að hausti næststystur sé aðeins miðað við árin frá 1961. Stystur varð tíminn hingað til á árinu 1990 en þá snjóaði fyrst 10. október en síðast 4. maí (158 dagar).

Á tímabilinu 1961 til 2011 varð fyrst alhvítt í Reykjavík 30. september 1969 en síðast 16. desember árið 2000. Lengstur varð tíminn milli alhvítra daga árið 1965 (eins og á Akureyri), þá liðu 305 dagar, frá 21. janúar til 23. nóvember.

Árin frá og með 1961 til og með 2010 eru 50. Aðeins einu sinni varð fyrst alhvítt í september, 18 sinnum í október, 26 sinnum í nóvember og 5 sinnum í desember. Meðaldagsetning fyrsta alhvíta dags er 6. nóvember og miðgildi (jafnmörg tilvik fyrr og síðar) er líka 6. nóvember.

Mestur varð fyrsti snjórinn árið 2000 - þegar hann kom síðast, 22 cm. Fyrsti snjórinn hefur fjórum sinnum verið meiri en 10 cm.

Frá því að mælingar hófust í Reykjavík 1921 varð fyrst alhvítt þann 9. september (1926), en líklega þann 10. september (1940) á Akureyri. Einnig snjóaði á Akureyri þann 7. september 1940 - en líklega varð ekki alhvítt.


Sumarhiti í samhengi

Hungurdiskar hafa áður fjallað um samanburð sumarhita á landinu (sjá pistil sem birtist 10. ágúst   síðastliðinn). Það sem hér fer á eftir er því að sumu leyti endurtekning á því - en sjónarhornið er samt ekki alveg það sama. Auk þess höfum við nú endanlegar hitatölur nýliðins sumars.

Við lítum fyrst á línurit sem sýnir sumarhita í Reykjavík. Elsti hluti listans telst þó varla raunverulegur í hörðum samanburði en er samt hafður með til gamans. Við ímyndum okkur að við þekkjum sumarhita í Reykjavík í rétt rúm 200 ár.

w-blogg051011a-sumarhiti

Hér má sjá talsverðar tímabilasveiflur, það skiptast á tímabil hlýrra og kaldra sumra. Hin afbrigðilegu hlýindi síðustu ára sjást vel. Af 10 hlýjustu sumrum tímabilsins alls eru fjögur eftir 2000. Munurinn á 2011 (sem er í efsta sæti), 1939 og 1941 er þó ekki marktækur. Þrjú ofurhlý sumur eru í röð á 19. öld, 1828, 1829 og 1830 og eru þau öll á topp 10 listanum. Mælingarnar í Reykjavík voru þær einu sem vitað er um á landinu þau árin og vitnisburður um hitana því ekki sérlega góður. En á tímabilinu fram til 1846 virðast hafa komið mörg góð sumur.

Þá tekur við mjög slakt tímabil og fór meðalsumarhiti aldrei yfir 10 stig frá og með 1847 til og með 1879. Það eru 1874 og 1886 sem skrapa botninn og hið illræmda sumar 1983 er ómarktækt hlýrra. Það muna þó margir vel og vita að engin ástæða er til að efast um töluna.

Nýliðið sumar er í 22. sæti hlýinda og ef við rýnum í myndina sjáum við að það hefði meira að segja talist hlýtt á hlýindaskeiðinu 1927 til 1960. Okkur bregður við þegar næsta raunverulega kalda sumar hrellir okkur.

Þótt sumarhlýindi síðustu ára hafi einnig verið eindregin á Akureyri má sjá að lítillega skortir á að við höfum upplifað það besta sem komið hefur. Það má sjá á næstu mynd.

w-blogg051011b-Sumarhiti

Sumarið 2010 er hér í 5. sæti. Þó eru þrjú sumur eftir 2000 á topp-10 lista Akureyrar (sjá töflu í °C; ekki skal taka mark á tveggja aukastafa nákvæmni töflunnar).

árAkureyri
193311,79
193911,49
194110,96
189410,92
201010,87
200410,86
200310,82
197610,73
194710,72
199610,70

Engin sérsök ástæða er til þess að efast um það að sumrin 1933 og 1939 hafi verið marktækt hlýrri á Akureyri heldur en 2010. Munurinn á 1941 og 2010 er hins vegar ekki marktækur. Sé rýnt í myndina sést að nýliðið sumar fellur vel inn í hlýindi 21. aldarinnar og hefði talist hlýtt á árunum 1961 til 1970.

Norðlendingar (og fleiri landsmenn) muna vel kuldana 1979. Það var kaldasta sumar frá 1907. Sumarið 1882 er síðan í sérflokki með 4,9 stig. Það er raunveruleg tala þótt ótrúleg sé. Eldri mælingar eru ekki jafnáreiðanlegar.

Og að lokum lítum við á mismun stöðvanna. Mínustölur tákna að sumarið hafi verið hlýrra á Akureyri heldur en í Reykjavík.

w-blogg051011c_Mismunur

Miklar sveiflur voru á 19. öld. Þar sem við vitum að hinn mikli munur 1882 er raunverulegur gæti munurinn 1866 verið það líka. Raunverulega var mælt á Akureyri á tímabilinu 1848 til 1854. Það var sumarið 1853 sem virðist hafa verið tiltölulega hlýjast á Akureyri miðað við Reykjavík (þar voru einnig mælingar þetta sumar).

Munur á sumarhita stöðvanna hefur verið tiltölulega mikill (Reykjavík í hag) í langtimasamhengi undanfarin ár og mestur í sumar alveg frá 1998.


Staðan í 12-, 60- og 360-mánaða hitameðaltölum (2011 - gerð)

Fyrir ári síðan (30. september 2010) birtist pistill með sama nafni á hungurdiskum. Þá stefndi jafnvel í árshitamet. Nú hefur heldur kólnað. Þrátt fyrir það eru hlýindin miklu sem einkennt hafa veðurlag hér á landi síðustu 15 árin eða svo ekkert á undanhaldi. Fyrstu 9 mánuðir ársins 2011 eru á landsvísu ekki fjarri því að vera 1 stigi hlýrri en meðallag sömu mánaða áranna 1961 til 1990. Þessir mánuðir eru þó 0,2 stigum kaldari heldur en meðaltalið 2001 til 2010.

Við miðum hér við meðalhitatölur úr Stykkishólmi, en meðalhitinn þar er oftast nærri landsmeðalhita. Við leyfum okkur til gamans að skarta 2 aukastöfum - en varlega skal tekið mark á þeirri nákvæmni.

Meðalhiti síðustu 12 mánaða í Stykkishólmi er 4,58 stig, á sama tíma í fyrra var talan 5,34 stig. Það hefur kólnað um 0,76 stig og er nýja talan sú lægsta á 12-mánaða listanum síðan á tímabilinu í maí 2007 til og með apríl 2008 - í tæp þrjú og hálft ár.

Meðalhiti síðustu sextíu mánaða (5 ár) stendur nú í 4,81 stigi en á sama tíma í fyrra var hann 4,80 stig eða sá sami. Þetta táknar auðvitað að í stað síðustu 12 mánaða hafa 12 álíka hlýir mánuðir í upphafi tímabilsins dottið út.

Meðalhiti síðustu 120 mánaða (10 ár) stendur nú í 4,80 stigum (nákvæmlega sama og 5-ára meðaltalið). Á sama tíma í fyrra var 10-ára meðalhitinn 4,73 stig. Hitanum hefur semsagt miðað upp á við síðasta áratuginn og tíu ára meðaltalið einmitt núna er það hæsta sem vitað er um síðan mælingar hófust.

Mjög kalt var í febrúar 2002 og var hann eini verulega kaldi mánuðurinn allan áratuginn 2001 til 2010. Hlýindin miklu hófust svo í apríl 2002 - (ég hef ekki myndað mér skoðun á því hvaða dag það gerðist). En frá og með næsta vori verður mjög á brattann að sækja varðandi ný 10-ára met því þá fara gríðarlega hlýir mánuðir áranna 2002 og 2003 að detta út. Mjög óvíst er að 2012 og 2013 geri eins vel.

Það var í lok apríl 2008 sem 120-mánaða hitinn fór í fyrsta sinn yfir hæsta gildið á hlýindaskeiðinu fyrir miðja 20. öld (4,45 stig) og er nú 0,35 stigum hærri en sú  tala.

Á sama tíma í fyrra stóð 360-mánaða (30-ára) meðalhitinn í 4,00 stigum. Nú hefur hann þokast upp í 4,06 stig. Kaldir mánuðir ársins 1981 hafa verið að detta út og hlýir mánuðir 2011 komið í staðinn. Árið 1982 var kalt og 1983 sérlega kalt. Árin 2012 og 2013 mega verða óvenju skítleg til að 30-ára meðaltali hækki ekki enn frá því sem nú er. Fyrir því er auðvitað engin trygging.

Þó hlýindin nú séu orðin langvinn hafa þau ekki staðið nema hálfan annan áratug. Við erum því ekki enn komin upp í mestu 30-ára hlýindi fyrra hlýskeiðs. Hæsta 360-mánaða meðaltal þess er 4,20 stig. Það var frá og með mars 1931 til og með febrúar 1961. Fyrir ári vorum við 0,20 stig frá því að jafna það - nú erum við 0,12 stig. Spurningin er hvort núverandi hlýskeiði endist þrekið til að slá því gamla við. Það verður spennandi að fylgjast með því á næstu árum.

Nú ættu menn að fara að huga að meðalhita ársins 2011. Hver verður hann? Líklegt er að hungurdiskar haldi sig til hlés í því máli en gaman væri að heyra ágiskanir. Hér að ofan kom fram að meðalhiti síðustu 12 mánaða í Stykkishólmi er 4,58 stig. Óhætt er að upplýsa að hann er 5,37 stig í Reykjavík. Síðustu 3 mánuðir ársins 2010 voru um 1 stigi ofan meðallags 1961-1990.

Stafrófsstormurinn Ófelía er nú að taka stökkið yfir á vestanvindabeltið og fer með því til Skotlands næstu 1 til 2 daga. Philippe er enn að ströggla í riðanum en er talinn eiga von í fellibylsstyrk á miðvikudag eða fimmtudag.


Mesti vindhraði í október

Nú skal litið á mesta vindhraða sem mælst hefur í októbermánuði. Með tilkomu sjálfvirku stöðvanna fjölgaði mjög athugunum á vindi. Margar stöðvanna hafa nú athugað í 12 til 15 ár. Við lítum fyrst á topp 10 lista yfir mesta 10-mínútna meðalvindhraða sjálfvirku stöðvanna. Allar tölur eru í metrum á sekúndu. Taka skal fram að hér er einungis listi yfir mesta vindhraða á hverri stöð um sig. Víst er að háfjallastöðvarnar eiga fleiri gildi hærri heldur en 36.6 m/s. En listi þar sem Skálafell og Gagnheiði eru í flestum sætum er ekki eins skemmtilegur.

byrjarsíðastmetármetdagurmetnafn
199620101996652,1Skálafell
1994201019952548,8Þverfjall
1994201020091045,6Gagnheiði
200420102009944,6Stórhöfði sjálfvirk stöð
1997201020082441,3Rauðinúpur
1999201020021138,2Vatnsskarð eystra
199320102009937,4Jökulheimar
1993201020061437,4Sandbúðir
200220102009937,1Botnsheiði
2004201020041936,6Bláfeldur sjálfvirk stöð

Skálafell er hér sem oftar á toppnum, í þetta sinn með 52,1 m/s þann 6. október 1996. Þá fór ört dýpkandi lægð yfir landið og foktjón varð víða. Hið illræmda veður sem olli snjóflóðinu mikla á Flateyri 1995 skipar annað sæti á listanum. Mælingin er frá Þverfjalli vestra. Næstu tölur þar fyrir neðan eru einnig frá stöðvum sem þekktar eru fyrir mikinn vindhraða, Gagnheiði, Stórhöfði, Rauðinúpur og Vatnsskarð eystra.

Bláfeldur í Staðarsveit er fyrsti fulltrúi sveita landsins. Veðrið 17. til 19. október 2004 er sérlega minnisstætt fyrir bruna á Knerri í Breiðuvík á Snæfellsnesi þegar nokkur hundruð lömb brunnu inni. Eldur og ofsaveður er skelfileg blanda. Hús hérlendis hafa oft brunnið við slíkar aðstæður.

Annað illvígt norðanveður gerði 5. til 7. október 2004. Gervihnattamynd sem sýnir sandfok af Suðurlandi þann 5. prýðir forsíðu tímaritsins Náttúrufræðingsins, 72. árgangs, 3-4 hefti 2004. Í blaðinu er fjallað um veðrið í tveimur stuttum en fróðlegum greinum.

Þeir sem þekkja til veðurstöðva taka eftir því að aðeins ein stöð Vegagerðarinnar á fulltrúa á listanum, Vatnsskarð eystra, á veginum milli Héraðs og Borgarfjarðar eystra. Minna má á að á flestum stöðvum Vegagerðarinnar er vindmælir í 6 en ekki 10 metra hæð frá jörðu.

En lítum næst á hviðurnar. Vegagerðarstöðvarnar mæla 1 til 2 sekúndna hviður, en aðrar stöðvar eru taldar miða við 3 sek.

byrjarsíðastmetármetdagurmetnafn
1994201019952573,7Þverfjall
199620101996762,6Skálafell
1999201020041961,9Hraunsmúli
199420101996759,6Gagnheiði
1999201020002758,4Lómagnúpur
200120102009958,1Skrauthólar
1995201019952456,9Siglufjörður
200520102009956,3Tindfjöll
1999201020002754,2Vatnsskarð eystra
199820101999153,6Papey

Þar er Flateyrarveðrið í fyrsta sæti með mælingu á Þverfjalli, ótrúleg tala ekki satt. Og Hraunsmúli í Staðarsveit nær 3. sætinu - í sama veðri og mælingin frá Bláfeldi í fyrri listanum. Gagnheiðartölurnar eru úr sitt hvoru veðrinu, sömuleiðis þær á Vatnsskarði eystra. Veðrið sem á metin á Skrauthólum á Kjalarnesi og í Tindfjöllum var minnisstætt fyrir heyrúllufok á Kjalarnesi auk skaða á húsum. Það er eitthvað við vind sem ekur stórum heyrúllum til langar leiðir. Kannski hafa þær þurft að lyftast til að hreyfing gæti farið af stað - ekki veit ég.

Talan frá Siglufirði er einnig úr Flateyrarveðrinu, en þá var vindur austlægari - en það er einhver ákveðin gerð af austnorðaustanátt sem er skæð á Siglufirði. Ég er ekki nægilega kunnugur þar til að vita hvort hviðurnar myndast þegar hornið á hlíðinni inn af Siglunesi rífur iðulakið eða hvort þær koma að ofan vegna rofs þess á fjallabrúnum innar í firðinum. [Rífur eða rýfur - rökstyðja má hvorn ritháttinn sem menn vilja heldur.]

En 10-mínútna listinn að ofan inniheldur ekki Íslandsmet októbervindhraða. Það er 55,6 m/s og var sett á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 23. október 1963 í ógurlegu veðri sem þá gerði. Vindhraðamælirinn sem þá var notaður er allt annarrar tegundar heldur en síðar urðu algengastir og óvissa meiri í mælingunni, sérstaklega ef vindhraði var mikill.

Miklir skaðar urðu í þessu veðri og læt ég fylgja hér lista yfir það sem ég fann um tjónið í dagblöðum og veðurskýrslum. Listinn er í belgogbiðustíl. 

Öll útihús fuku á Höfðabrekku í Mýrdal og 6 gripir drápust, íbúðarhúsið eitt stóð af sér veðrið. Miðjan úr þaki íbúðarhúss fauk í Kerlingardal og á Litlu-Heiði eyðilagðist fjárhúsum tjón varð á fleiri bæjum í Mýrdal. Þak fauk af íbúðarhúsi í Hraunsbæ í Álftaveri og eyðilagði bifreið. Í Skaftártungu fuku fjárhús og hlaða á Borgarfelli, fjárhús í Svínadal, í Snæbýli fauk hlaða og járn af nýju íbúðarhúsi á Ljótarstöðum. Tvö útihús og hlaða fuku á Loftsölum í Mýrdal. Grjótflug skemmdi bíl í Mýrdal.

Veðrið varð óvenju hart í Vestmannaeyjum þar fauk þak af fiskvinnsluhúsi, einnig bílar og bátar, tveir menn meiddust. Í Mykjunesi í Holtum fauk gamalt fjós, hálft þak fór af hlöðu á Syðri-Rauðalæk og nýlega fjárhúshlöðu tók upp í Ási. Á Hamrahóli slasaðist kona af glerbrotum. Talsvert foktjón varð bæði á Hellu og Hvolsvelli er járn fauk og rúður brotnuðu í nokkrum húsum. Á Ármótum fauk gömul hlaða upp á fjósið. Bílskúr tók í heilu lagi á Stokkseyri og hvarf hann í sortann. Þakplötur fuku í Reykjavík. Salthús fauk í Hafnarfirði

Tveir menn meiddust á Akureyri þegar þeir urðu fyrir braki, þar fuku járnplötur og fleira af allmörgum húsum og bátar slitnuðu upp. Tvö fjós hrundu á Barká í Hörgárdal. Þriðjungur þaks á nýrri heyhlöðu á Draflastöðum í Sölvadal fauk og heyhlaða skemmdist á Eyvindarstöðum. Járnplötur fuku á Sauðárkróki. Allmikið tjón varð á Akureyri, en einkum voru það þakplötur og mótauppsláttur sem fauk. Steyptur hlöðuveggur sprakk á Heiðarbraut í Þingeyjarsýslu, þak fauk af vélageymslu á Ingjaldsstöðum, raflínustaur brotnaði og víða fuku járnplötur og fleira lauslegt. Þak tók af hlöðu í Vogum í Mývatnssveit og af fjárhúsi í Syðri-Neslöndum, fjárhús skaddaðist á Arnarvatni, nýbyggð fjárhús á Hofsstöðum eyðilögðust, töluverðar skemmdir urðu á fjárhúsþaki á Skútustöðum  minna tjón varð á fleiri bæjum þar um slóðir. Bátur brotnaði á Grenivík. Síma- og rafmagnslínur slitnuðu í Höfðahverfi og minniháttar foktjón varð þar á bæjum.

Járnplötur fuku á allmörgum bæjum í Kelduhverfi og Öxarfirði. Járnplötur fuku af nokkrum húsum á Raufarhöfn, þar á meðal alveg af einu íbúðarhúsi. Þak fauk af skemmu og veggir gliðnuðu á Þórshöfn, þar brotnuðu skreiðarhjallar og fleiri skemmur sködduðust. Þak fauk af nýju íbúðarhúsi á Flögu í Þistilfirði og hlöður í Hvammi og á Gunnarsstöðum sködduðust. Verkfærageymsluhús fuku á Óslandi og Tunguseli. Þrjú hundruð járnplötur fuku af síldarbræðslunni á Vopnafirði.

Járn tók af barnaskólahúsi á Eiðum og járn fauk á Seyðisfirði. Járnplötur tók af allmörgum húsum á Stöðvarfirði og þrír bátar eyðilögðust í höfninni. Breskur togari strandaði í Ísafjarðardjúpi. Fólk lenti í hrakningum á Barðaströnd. Síma- og rafmagnsbilanir urðu víða.

Nóg um það.


Flókin veðurstaða við árstíðaskipti

Nú ryðjast lægðabylgjur hálofanna austur og norðaustur Atlantshaf svo ótt og títt að þær ná varla andanum. Það má að nokkru leyti sjá á gervihnattarhitamynd frá miðnætti (laugardagskvöld).

w-blogg021011a

Á myndinni eru afskaplega flókin skýjakerfi og sjálfsagt óráð að ræða þau á þessum vettvangi. Lesendur eru beðnir velvirðingar. Lægðin við Jan Mayen er sú sem plagaði landsmenn með illviðri í gær og á Grænlandshafi er sunnudagslægðin. Tvær lægðarbylgjur eru rétt vestan við myndina.

Fyrst vil ég benda á svæðið inni í bláa hringnum - austan við nýju lægðina. Þar er greinilega niðurstreymi sem leysir upp öll háský. Þetta er ekki mjög venjulegt austan við lægðir. Þetta er einhvers konar hlýr geiri. Kuldaskilin suðvestanvið eru svo bæld að þau sjást varla.

Rauðu bogalínurnar eru sveigðum skýjabökkum til áhersluauka. Hæðarsveigja er á öllum línunum. Líka þeim sem eru vestan lægðarinnar á Grænlandshafi. Norðaustanáttin sem fylgir lægðinni er svo grunnstæð að hún nær ekki upp í skýin sem við sjáum.

Skýjaboginn við Ísland markar jaðar hitaskila í 5 km hæð og ofar. Þrjátíu stiga frost er í 5 km hæð yfir Norðausturlandi en ekki nema 18 stig yfir landinu suðvestanverðu. Þessara skila gætir lítið við jörð. Bogarnir lengra suður og suðvestur í hafi eru svipaðs eðlis. Þar er hlýtt loft að ryðjast fram undir veðrahvörfunum.

Lærdómurinn sem ætlast er til að lesendur (þeir sem enn fylgjast með) dragi af myndinni er sá að miklu erfiðara er að lesa í gervihnattamyndir þar sem hlýtt loft sullast um stór svæði heldur en þær myndir sem sýna kalt loft og kuldapolla.

Fellibylurinn Ófelía er enn við góða heilsu og lendir inni svæðinu sem myndin sýnir á mánudagskvöld - óvíst er um framhald stefnumóts hans við vestanvindabeltið.

Merkileg voru hin nýju októberhitamet Bretlandseyja og Danmerkur í dag. Sértaklega danska metið því að það var 1,8 stigum ofan við eldra met. En gagnahirðar dönsku veðurstofunnar eiga þó eftir að stimpla þá tölu. Það mun gerast eftir helgi. Aðeins munaði 0,6 stigum á Íslandsmeti októbermánaðar og gamla metinu danska - en nú munar allt í einu 2,4 stigum. Breska metið var aðeins slegið um 0,5 stig.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 210
  • Sl. sólarhring: 320
  • Sl. viku: 2035
  • Frá upphafi: 2350771

Annað

  • Innlit í dag: 193
  • Innlit sl. viku: 1821
  • Gestir í dag: 188
  • IP-tölur í dag: 188

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband