Illiviðri í október - nokkrir topp listar

Til að geta ákveðið hver eru verstu októberveðrin þarf fyrst að skilgreina mælikvarða. Þegar minnst er á illviðri er oftast átt við þau sem eru tengd miklum vindhraða. Auðvitað gætu úrkoma eða flóð (ofanflóð eða sjávarflóð) einnig komið við sögu, nú eða þá sérlegir kuldakaflar.

En hvernig á að raða veðrum ef við tökum eingöngu mið af vindhraða? Er það útbreiðsla veðursins eða tímalengd þess? Og svo framvegis. Kannski væri betra að miða við tjónið? Þá væri veður sem gengi yfir höfuðborgarsvæðið áberandi „verra“ heldur en jafnmikið eða sterkara veður sem eingöngu gætti um landið suðaustanvert. Sömuleiðis hefur tjónnæmi mikið breyst í tímans rás.

Á seinni árum eru efnisleg verðmæti sem lenda í veðrum meiri heldur en áður var þannig að heildartjón verður oft tiltölulega mikið í nútímaveðrum. Hins vegar hefur tekist að verja líf og limi mun betur en áður, ekki síst á sjó.

En við skulum nú eingöngu miða við útbreiðslu illviðra á landinu öllu. Tvær meginskilgreiningar eru notaðar. Annars vegar er talið á hversu háu hlutfalli veðurstöðva vindur hefur náð 20,5 m/s (9 vindstigum) á hverjum sólarhring. Töflu af þessu tagi má búa til fyrir veður allt aftur til 1912. Til hagræðis köllum við þennan talningarhátt „t1“. Hins vegar er talið hversu hlutfall þeirra athugana á landinu með vindhraða yfir 17 m/s miðað við allar athuganir sama dag. Við köllum þann háttinn „t2“ til aðgreiningar frá t1.  

Þessir tveir listar verða ekki eins. Mjög snarpt og skammvinnt veður nær auðveldlega inn á t1-listann, en veður sem stendur lengi er líklegra til að ná inn á t2. Í ljós kemur að kerfisbundinn munur kemur fram á vindáttum. Sunnan- og vestanveður eru oftast mun styttri heldur en norðaustanveðrin. Þau fyrrnefndu eiga því auðveldara með að skora hátt á t1, en norðaustanveðrin gera að jafnaði betur á t2.

En lítum nú á listana, fyrst t1. Dálkarnir eru ár, mánuður, dagur og hlutfall stöðva sem ná 9 vindstigum eða meir (í þúsundustuhlutum). Við sleppum 11 veðrum inn á listann því 23. og 24. október 1963 eru í raun sama veðrið. Það varð verst að kvöldi þess 23. og stóð fram á nótt. Hungurdiskar hafa áður fjallað um það og tjón í því, nú síðast í pistli 3. október en þar var fjallað um mesta vindhraða sem mælst hefur á landinu í október.  

ármándagurhlutf
19631023588
1954109558
19951025552
1991103545
19641021536
1996107530
2009109526
19631024500
20041018480
1952105451
19821026444

Efstu tvö veðrin á listanum voru bæði af suðvestri, en í þriðja sæti er veðrið ógurlega sem olli snjóflóðinu á Flateyri (flóðið féll reyndar aðfaranótt þess 26.), það var af norðri og norðaustri. Öll veðrin á listanum ollu talsverðum sköðum. Þau eru fjölbreyttrar gerðar. Gaman væri að fjalla um þau öll en það er vikuvinna - ég vona að lesendur afsaki þrekleysi mitt í þeim efnum.

Mörg sömu veðrin eru á t2-listanum.

ármandagurhlutfall
19951025429
19641021381
1954109350
20041018341
19821026328
1991103315
1952105294
1987109294
19671027292
19951024276
1980107274

En hér er Flateyrarveðrið á toppnum og dagurinn áður kemst líka á blað - í 10. sæti. Hlutfallsdálkurinn (þúsundustuhlutar) sýnir að vindhraði var 17 m/s eða meira í 43% athugana þennan slæma dag. Þarna sést veðrið 1963 ekki (er í 14. sæti). Það eru langvinnu veðrin sem vinna.

Einnig er til t1-listi yfir illviðri á tímabilinu 1912 til 1948.

ármándagur
19131020
19481029
19341027
19251031
19411023

Það er mikið norðan- og norðaustanveður 1913 sem lendir í 1. sæti. Til þess var tekið hversu mikið sjórok gerði í Reykjavík þennan dag. Mikið tjón varð á bátum á höfninni. Veðrið 1948 var einnig sérlega slæmt í Reykjavík og í Hveragerði varð mjög mikið tjón á gróðurhúsum. Veðrið 1934 var talsvert líkt Flateyrarveðrinu 61 ári síðar, m.a. urðu mannskaðar í snjóflóði í Önundarfirði. Í veðrinu 1934 varð gríðarmikið tjón af völdum brims og sjávarflóða norðanlands. Í sjónvarpsþættinum „Landanum“ nú fyrr í kvöld (sunnudaginn 16. október) var minnst á tjón sem veðrið olli í Haganesvík í Fljótum. - Hefur nú verið tvisvar minnst á veðrið sama kvöldið í fjölmiðlum (hungurdiskar eru einskonar fjölmiðill) - enda merkilegt.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 353
  • Sl. sólarhring: 358
  • Sl. viku: 1927
  • Frá upphafi: 2350554

Annað

  • Innlit í dag: 270
  • Innlit sl. viku: 1719
  • Gestir í dag: 256
  • IP-tölur í dag: 255

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband