Skaðar á Reyðarfirði

Í síðustu viku lofaði ég því að fljótlega skyldi litið á skaða sem ég hef fréttir af að hafi orðið á Reyðarfirði síðustu 140 árin eða svo. Ekki get ég með góðu móti greint að tjón sem varð í þéttbýli og dreifbýli á þessum slóðum, leita aðeins að Reyðarfirði í skránum. Þéttbýlið hét lengi Búðareyri en við athugun kemur í ljós að þegar minnst er á það nafn í fornum fréttum af illviðrum og sköðum er í mínum skrám eingöngu átt við Búðareyri á Seyðisfirði. Á Seyðisfirði komu eins og kunnugt er út fréttablöð, fleiri en eitt. Oft minntust þau á Búðareyri, Ölduna og Vestdalseyri sem þrjú aðskilin byggðarlög, Fjarðarströnd jafnvel líka. En yfir til Reyðarfjarðar:

7. janúar 1886: Ofsaveður sem nefnt var Knútsbylur, miklir skaðar víða um Austurland. Norskur síldveiðibátur með 5 fórst á Reyðarfirði. Bræður frá Borgum Reyðarfirði urðu úti og fé fórst.

9. október 1888: Tvö hús og 16 bátar fuku á Seyðisfirði og rauf víða hús eystra. Miklir skaðar urðu á Reyðarfirði og hús fuku í Hellisfirði og allir bátar.

23. október 1893: Á Reyðarfirði fuku 8 bátar og brotnuðu í spón, þak tók af tveimur hlöðum á Sómastöðum.

28. desember 1894: Ofsaveður af vestri og síðar norðri með allmiklum sköðum. Kirkjan á Vestdalseyri við Seyðisfjörð fauk og laskaðist mjög, fleiri skaðar urðu á Seyðisfirði. Kaupskip sleit upp á Eskifirði og Reyðarfirði, en björguðust. 

15. nóvember 1902: Suðaustanofsaveður um nær allt land með miklu tjóni, m.a. á Austfjörðum. Íbúðarhús og hlaða fuku þá í Reyðarfirði.

14. janúar 1903: Ofsaveður á Austfjörðum. Í Reyðarfirði urðu skaðar á bátum og heyjum. 

23. febrúar 1904: Þak braut á útihúsi á Hólmum í Reyðarfirði, geymsluhús ónýttist og kirkjugarður fauk og vatnsmylla. Snjóflóð braut hlöðu og fjárhús og drap kindur á Helgustöðum í Reyðarfirði. Önnur flóð brutu báta við Reyðarfjörð.

22. mars 1906: Maður beið bana á Svínaskálastekk í Reyðarfirði er bátur slóst í hann í illviðri.

7. febrúar 1908: Fokskemmdir urðu á íbúðarhúsi í Mjóafirði og þak tók af hlöðu á Hólmum í Reyðarfirði.

Nú er bloggfærslan orðin fulllöng og ekki komið nema árið 1908. Afgangur listans er í viðhenginu og má þar finna 15 tilvik til viðbótar þeim níu hér að ofan. Tjón hefur örugglega orðið talsvert oftar en hér er nefnt.

Tjón er algengast á Reyðarfirði í illviðrum af vindáttum milli vesturs og norðurs. Svo er víða á Austfjörðum en ekki alls staðar. Greinargóð er lýsing Magnúsar Bergssonar prests á Stöð í Stöðvarfirði 31. desember 1839. Lýsingin birtist í Sýslu- og sóknalýsingum Hins íslenska bókmenntafélags um Múlasýslur (bls. 447 til 448). Þar lýsir hann sunnan- og suðaustanveðrum þar um slóðir:

---en af suðri, eður öllu fremur landsuðri, koma þar veður hin ógurlegustu, þau standa stundum af miðjum fjöllunum sunnan megin fjarðarins og eru þá hörðust út í sveitinni en stundum standa þau fyrir utan andnes sömu fjalla; standa þau þá inn fjörð og eru hörðust á innsveitinni. Harka og afl þessara veðra er framúrskarandi og ógurlegt, þau taka fjörðinn frá ysta til innst í einlægt rok upp á móts við tinda, flytja stundum steina úr stað, sem eru meðalmanns tak, rykkja jafnvel hálffreðnum þökum af húsum, kippa króm og hjöllum frá veggjum og endog rífa naglföst borð af húsaræfrum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir fróðleikinn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.11.2010 kl. 13:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 1376
  • Frá upphafi: 2350960

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1193
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband