21.10.2020 | 20:59
Af árinu 1852
Tíð þótti hagstæð árið 1852. Meðalhiti var 4,0 stig í Reykjavík og í Stykkishólmi og 3,1 stig á Akureyri. Apríl var sérlega hlýr, ekki er vitað um nema tvo hlýrri aprílmánuði í Stykkishólmi (1974 og 2019) og þrjá í Reykjavík. Sömuleiðis var hlýtt í mars, maí, júní og júlí. Aftur á móti var óvenjukalt í desember, fremur kalt var einnig í janúar, september og nóvember.
Fjórir dagar voru mjög kaldir í Reykjavík, kaldast að tiltölu 12.ágúst (en þá var lágmarkshiti aðeins 2 stig). Enginn dagur var mjög kaldur í Stykkishólmi - þar voru aftur á móti óvenjuhlýir dagar í apríl.
Úrkoma í Reykjavík mældist 786 mm. Þurrt var í nóvember og desember, en úrkomusamt í febrúar.
Þrýstingur var í hærra lagi í mars, september og október, en fremur lágur í janúar. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík 21.janúar, 937,7 hPa en hæstur í Stykkishólmi 25.febrúar, 1042,6 hPa.
Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar.
Gestur vestfirðingur segir frá tíðarfari ársins 1852 í pistli sem birtist 1855:
Árið 1852 byrjaði enn með góðri veðráttu. Með þorra varð hagaskarpt af blotum, og voru víða vestra hagleysur fram til miðgóu; batnaði þá veðrátta, en þó komu hret, er ollu sumstaðar fjársköðum. Á einmánuði voru góðviðri svo mikil, að gróður var kominn í jörð að liðnum sumarmálum. Allt vorið heldust góð veður, svo í fardögum var gróður kominn jafnvel upp til fjalla; sumarið var og allt hið veðurblíðasta og hagstæðasta sumar um alla Vestfjörðu. Einatt voru á sumri þessu hitar miklir, og kenndu menn það þeim, að víða varð vart við orma vestra, sem venju fremur voru hingað og þangað út um haga; þeir voru að stærð og sköpulagi líkir tólffótungum. Svo voru mikil brögð að þeim sumstaðar, að amboð og reipi og fatnaður sláttumanna og hvað annað skreið kvikt af þeim; ekki urðu menn með neinni vissu þess varir, að ormar þessir yrðu búsmala að tjóni, hvorki í högum að sumrinu, eða af heyjunum að vetrinum. Haustið var fremur vindasamt; landveðrátta var þó fremur góð, þangað til undir lok nóvembermánaðar, að snjóa lagði á upp til sveita, og jók við þá talsvert í desembermánuði með allhörðu frosti, svo að við árslokin voru víða komin jarðbönn. Hafís sást einatt fyrir vestan land þetta ár, en ei varð hann landfastur svo teljandi væri. Það þykir undrum sæta, hve lítil höpp hafa þessi ár fylgt honum, við það sem áður hefur einatt verið; og kalla menn svo, að rekabann hafi verið þessi ár.
Meðalhlutir undir Jökli urðu alltað 5 hundruðum. 14 skip stunduðu þar auk þorskveiða hákarlaveiði, og heppnaðist sumum allvel, en flestum miður, svo mest varð 1 tunna lifrar til hlutar. Um Vestfjörð var bæði þorsk- og hákarlsafli í góu lagi. Einkum eykst þorskaflinn talsvert á Ísafirði og í Strandasýslu; en aftur hnignar selveiðinni mjög við Ísafjörð. Þetta ár var bjarndýr unnið á Ströndum.
[Þann 10.janúar] týndust 9 menn af hákarlaskipi í Önundarfirði; formaðurinn hét Guðmundur Jónsson hreppstjóra Guðmundssonar á Kirkjubóli í Valþjófsdal. 7.desember fórst skip af Hjallasandi undir Jökli á heimleið úr Ólafsvík; týndust þar 6 menn. Formaðurinn var Skúli Jónsson frá Fagurey, sem þá var nýorðinn útvegsbóndi í Hallsbæ. Þá ráku að landi 3.maí 2 útlend skip, galeas og jagt, er lágu á Vatneyrarhöfn. Skip þessi löskuðust svo, að þau voru bæði seld við uppboð; frá skiprekum þessum er greinilega sagt í Nýjum Tíðindum", 7l.blaðsíðu.
Norðri rekur tíðarfar ársins 1852 í pistli í janúar 1853:
Næstliðið vor og sumar má, þegar á allt er litið, telja hér norðanlands eitthvert meðal hinna bestu er komið hafa. þannig munu þess fá dæmi, að ekki hafi komið eitthvert kuldaskot yfir jafnlangan tíma og þessi var, þar sem svo mátti að orði kveða, sem hver dagurinn væri öðrum betri. Að sönnu gengu í vor eð var sífeldir þurrkar fram yfir fráfærur, svo nálega kom enginn deigur dropi úr lofti; olli það sumstaðar nokkrum misferlum á grasvexti, einkum á harðvellis- og hólatúnum, sem brunnu mjög og skemmdust víðahvar af maðki, er kviknaði venju framar bæði í túnum, harðvellisgrundum og afréttum; þó varð grasvöxtur yfir höfuð að tala í betra lagi, og sumstaðar enda upp á hið besta, svo tún urðu hér og hvar meir eða minna tvíslegin. Eftir fráfærur snerist veðráttan upp í óþurrka, er héldust við að öðru hverju fram í 16.viku sumars [kringum 10.ágúst]; átti því margur bágt með töður sínar, er hröktust víða hvar meira eður minna. Eftir þetta kom aftur góður þurrkkafli, er hélst víð það eftir var heyskaparins, svo uppskera og nýting á útheyi varð almennt í besta lagi. Frá heyskaparlokum og fram til messna má og kalla að verið hafi einkar góð tíð. Eftir Þjóðólfi og Nýtíðindunum er og að frétta líkt tíðarfar, heyafla og nýting í hinum fjórðungum landsins, sem hér nyrðra, nema í Skaftafellssýslum voru óþerrar í meira lagi, en þó allgott fóðurhey í garði. En eftir messur breytti veðráttan sér og gekk til norðurs; hófust þá rigningar og krapahríðar miklar; síðan víða hvar, einkum á útsveitum, fádæma miklar snjókomur með hörkum og harðviðrum, svo að bæir fóru í kaf, og við og við spilliblotum, þangað til komnar voru fullkomnar jarðbannir, svo víða kom útigangspeningur algjörlega á gjöf, þá hálfur mánuður var af vetri. Tíðarfar þetta, hefur hvað til hefir frést, haldist einlægt við, að kalla má; því þó síðan áleið, nokkuð hafi linnt hríðum og harðviðrum, þá hefur aldrei svíað svo til, að jörð hafi getað upp komið til gagns, enda er fannfergjan allvíðast svo mikil, að nú til margra ára mun ekki slík hafa komið. Sagt er og að víða muni heybirgðir manna ekki hrökkva, einkum í þeim sveitunum, hvar venjulega er mjög stólað á útiganginn, en peningshöldin þó mest, komi jörð ekki upp, þegar fram á nýárið kemur. Það hefur og frést hingað, að sumir meira og minna hafi skorið af heyjum sínum, t.a.m. í Kelduhverfi, Axarfirði, Vopnafirði og víðar; og í Suðurmúlasýslu hefðu nokkrir haft það í áformi, batnaði ekki því fyrri. Þar á mót tjáist, að í einstökum héruðum, hafi jarðir haldist, svo sem á Fljótsdal, á Efri Jökuldal, við Mývatn.og hér og hvar fremst til dala, en þó einkum á mið- og framsveitum Skagafjarðar, hvar allt að þessu hefur að sögn verið nógur hagi fyrir útigangspening. Eins fréttist að sunnan, að þar hafi hvervetna verið góð tíð og nægar jarðsældir, aðeins venju framar frostasamt. Viðlíkar fréttir hafa og borist af Vesturlandi sunnan Breiðafjörð; aftur á mót af Vestfjörðum, kringum Húnaflóa og öllum útsveitum Skagafjarðarsýslu, sem hér. Á jólaföstunni voru heljurnar stundum svo miklar, að hitamælir Celsiusar féll hér á Akureyri rúm 25 mælistig niður fyrir frostmerki, og mun það þó hafa orðið meira til sveita og dala. Eins og að árgæskan var á landi í vor, sumar og til messna, eins var hún í sjónum allvíðast hér við land, og í besta lagi, einkum hákarlsaflinn á Vestfjörðum, hvar þiljuskip öfluðu hærst undir og yfir 200 og eitt hartnær 250 tunnur lifrar.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Þó jörð væri snjólítil, var storka og farið að gefa fé eftir þrettánda. Viku eftir hann frostamikið, annars mátti kalla, að aldrei hélaði glugga veturinn út. Síðari part janúar blotasamt og óstöðugt, en jörð allnóg til miðþorra. 8. febr. fyrst innistaða, svo hríðarkafli og jarðlítið til mars, með honum blotar og þíður góðar. 8.-19. hláka og heiðarleysing, klakalítið og þurrir melar. 21.-23 norðanhríð, þó snjólítið.
Þjóðólfur segir fréttir 1.mars
Þó vér segjum, að hinn göfugi þorraþræll hafi verið í gær, þá mun það þykja lítil tíðindi; eigi að siður ætlum vér, að flestir sunnlendingar hafi fagnað honum, því hann rak þó þorra úr landinu, er að minnsta kosti á suðurkjálka þess hefur verið æði þungbúinn; hefur snjókoma jafnan verið mikil með óþverra blotum, svo snjóþyngslin og áfreðarnir banna nú allar bjargir. En það höfum vér heyrt, að bæði fyrir norðan og þegar langt kemur austur, muni hafa orðið miklu minna, og lítið sem ekkert, af þessum snjó; og er það merkilegt, að snjórinn skuli ekki eins og regnið ganga jafnt yfir rangláta sem réttláta. En það er líklega eins með þessar fréttir, og hafísinn og bjarndýrið; hamingjan ein má vita, hvað satt er af því!
Ný tíðindi segja þann 10.mars:
Eftir bréfum, sem ritstjóri Tíðindanna" hefur fengið úr Snæfellsness- og Strandasýslum, hefur veturinn þar verið einhver hinn besti og veðurblíðasti fram að þorra, og jafnvel fyrstu viku hans. En þá brá til harðviðra, og gjörði fullkomin jarðbönn, eins á Vesturlandi og víðast hvar annarstaðar, sem frést hefur til. Hafís hefur verið skammt undan landi á Ströndum, en þó ekki borist að landinu, nema jakar á stangli. Snemma í vetur var unninn hvítabjörn einn, sem kom á land, vestur í Stigahlíð. Það þykir undrum gegna hversu lítil höpp fylgja hafísnum vestur um Strandir; því varla kvað þar sjást spýta rekin á nokkurri fjöru. Í ágúst f.á. rak hvalkálf á Krossnesi í Trékyllisvík, og voru á honum 100 vættir af spiki. Í sumar eð var fiskaðist alls ekki sunnan jökuls, en í haust var allgóður afli í Ólafsvík, norðan jökuls. Nú kvað þar og aflast allvel, og eins í Rifi og á Sandi undir Jökli. Í þessum veiðistöðum kvað nú margir vera farnir að stunda hákarlaveiði (14 skip i staðinn fyrir 2 eða 3 árin fyrirfarandi). Sumir af þessum hákarlaveiðendum hafa aflað allvel, en fleiri þó fremur illa. Engra skipskaða er getið að vestan. Það er sagt, að kaupstaðirnir vestra séu nú komnir á þrot með flest.
Ný tíðindi segja af hrakningum og skipskaða í pistli 20.apríl:
[Þann 21. febrúar] voru 6 menn nærri því orðnir úti í byl á Kambsskarði vestra; lágu þeir úti um nótt, grófu sig í fönn og komust til byggða daginn eftir, og þó naumlega einn þeirra. Úr Holtssókn í Önundarfirði vantaði í marsmánuði hákarlaskip með 10 eða 11 manns á.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Aftur með apríl mesta vorblíða, heiðar auðar og vötn þíð og 9. apríl farið að grænka næst bæjum, á sumarmálum sauðgróður og mátti vera búið að breiða tún. Í maí óstöðugt skúraveður. Eftir krossmessu frost og kuldar og svo kalsasamt út mánuðinn.
Ný tíðindi segja af manntjóni í pistli þann 11.maí:
[Þann 17.apríl] barst skipi á suður í Leiru. Formaðurinn hét Árni. Mönnunum varð öllum bjargað, en 1 þjakaðist mjög svo hann lagðist á eftir, og vitum vér ekki hvort hann hefur dáið, eða ekki. Þetta var í norðanstormi og ósjó. 23.[apríl] fórst bátur fyrir framan Kálfatjarnarhverfi, og héldu menn að hann hefði siglt sig um. Formaðurinn hét Kjartan Jónsson frá Svartagili, en hásetinn Björn Halldórsson frá Skarðshömrum í Norðurárdal, og týndust þeir báðir. Snemma í sama mánuði barst á báti í Hraununum; formaðurinn komst af, en hásetinn, vinnumaður að austan, drukknaði. [Þann 1.maí] barst á skipi í Grindavík. Höfðu menn róið alskipa um daginn, og drógu fiskinn mjög ótt. Síðan kippti skip þetta og reyndi á grynnra miði, en er gangurinn fór af, sökk það þegar. Fórust þar, að sögn, 12 menn, þar af 5 bændur úr Grindavík, en 3 varð bjargað. [Nánar segir af þessu slysi í sama blaði 2.júní og takið þar að um ofhleðslu hafi verið að ræða, enda hið besta veður]. 2.maí barst báti á í Viðeyjarsundi; 2 mönnunum varð bjargað, en hinn 3. drukknaði. Var það ungur maður, og hinn efnilegasti, uppeldissonur sekretera Stephensens; hann hét Ólafur Jónsson.
Ný tíðindi segja skaðafréttir frá Patreksfirði í pistli þann 29.júlí:
[Þann 3.maí] um morguninn kom galíasin: De tvende Brödre, sem skipsforingi Hansen var fyrir, og lagðist við akkeri á Patreksfirði. Vindurinn var á sunnan-landsunnan (SSA) og byljóttur mjög. Um hádegisbil fór skipið að reka, og lenti á jagt, er einnig hét De tvende Brödre, og rak hana með. Brandurinn (Sprydet) á jagtinni flæktist í reiðanum á galiasinni, og áður en flækjan yröi greidd stóð jaglin á grunni á bakborða. Stjórborðí jagtarinnar sneri þá galíasinni, svo að Röstbolterne á henni gengu í gegn um borðið á jagtinni, og áður en skipverjar gátu borgið eigum sínum fylltist jagtin af sjó, og af því öldurnar gengu þá og yfir hana alla, fóru þeir burtu af henni. Um flóðið setti galíasin segl upp til þess að komast hærra upp í fjöruna, eða á grunn, til að affermast; náðist og farmurinn mestallur þurrúr henni. Bæði skipin voru síðan seld við uppboð, hinn 24. s.m. og fóru þau með rá og reiða fyrir lítið, nema vara sú, er kaupmaður á Patreksfirði Thomsen átti, sem gekk með hér um bil fullu verði.
Ný tíðindi segja enn af sjóskaða í pistli þann 2.júní:
[Þann 18.maí] barst á báti á Stokkseyrarsundi við Eyrarbakka. Hann kom úr róðri, og var stormur á sunnan-landsunnan, og brim. Á bátnum voru 4 menn, og týndust þeir allir. Formaðurinn var Jóhann bóndi á Stokkseyri.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Í júní blíðviðri, en rigndi lítið. Besti gróður á fráfærum, eftir það rekjur hægar. Sláttur byrjaði 7.-10. júlí. Héldust þá þurrkar og sterkir (s178) hitar. Þann 17. júlí var fífa fallin og berin sortnuð. Seint í júlí hagstæðar rekjur. Í ágúst sömu blíðviðri og hagstætt veður allan sláttinn. Fyrsta hret 19. sept. Þetta var sá lengsti og blíðasti sláttartími, er menn hafa fengið, töðumegn og útheyja allt að því eins og mikla grasárið 1847. Heilbrigði var almenn sem sjaldan er í mestu hitasumrum. Heyskapartími var 11 vikur og heyjanægtir yfir allar sveitir, en minnst við þurrlendar mýraslægjur.
Þorleifur í Hvammi segir af mistri þann 1. til 4.júní. Í Hvammi fór hiti í meir en 20 stig bæði 19. og 20.júní og svo aftur alla dagana 13. til 17.júlí, hæst 24 stig þann 16. Lengi var mælt í Hvammi og eru þetta óvenjuleg hlýindi. Líklega hefur verið hlýtt víðar inn til landsins þessa daga. Jón Austmann í Ofanleiti nefnir jarðhræringu kl.10 að morgni 2. (og) 3.september. Þann 7.september fór hiti í 21,4 stig á Akureyri.
Þjóðólfur segir lauslega af tíð þann 24.júlí:
Nú í langan tíma hefur enginn hlutur frést neinstaðar að úr héruðum landsins, og síðan Páll Eyfirðingur var á ferð í vetur í mikla snjónum. Um blessað árferðið þurfum vér varla að tala, því flestir taka til þess. þó er það ætlun vor, að eigi sé tíðin og veðráttan jafn æskileg um allt land. Heyrst hefur kvartað um of mikla þyrrkinga að norðan, og of miklar vætur sumstaðar í Skaftafellssýslu. En það mun mega fullyrða, að eigi verði kosið á hagstæðari tíð en verið hefur víðast hvar i öllum Sunnlendingafjórðungi; er það eitt til merkis, að búið er að tvíslá blett hér í bænum fyrir byrjun hundadaga [13.júlí].
Ný tíðindi segja þann 29.júlí:
Árferði hér á landi segja menn hvervetna í betra, eða jafnvel besta lagi, nema hvað menn kvarta víða um þerrileysi á töður sínar.
Norðri segir frá í janúarhefti 1853:
Hið mikla útsynningsveður 23 september sem mörgum mun minnilegt, olli hér og hvar meiri og minni skemmdum og tjóni: er þó mest gjört orð á því í Skriðdal í Suðurmúlasýslu, í hvar sagt er að fokið hafi hey á nokkrum bæjum, 50 til 100 hestar; og í hinu sama veðri sleit upp á Seyðisfjarðarhöfn briggskipið Nornin, 65 lesta stór, eign höndlunarhússins Örum og Wulffs, með 300 tunnum af korni, nokkru af timbri og litlu af íslenskri vöru og rak þar að landi, hvar molaðist undan því allur botninn; skipverjum varð bjargað; kornvaran ónýttist að kalla öll, nema einar 50 tunnur; Og var skipskrokkurinn ásamt því er bjargað varð, seldur við uppboð, og fara sögur af því, að þar hafi fengist góð kaup eins og oftar er við slík tækifæri.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Í göngum snjór og frost, svo heiðarvötn lagði, rigning réttardaga og ofsa-vestanveður 23. sept. og snjór á eftir, síðan stillt frostveður til 7. okt., þá gott og frostalítið haustveður og snjólítið til 14. nóv., að gjörði langa hríð og snjó allmikinn til útsveita, en stórfannir norður og austur á landi, er gerði þar mjög harðan vetur. Hér til framsveita var snjólítið. 30. nóv. kom rigningarbloti, er víða gjörði jarðlaust, þó auða jörð á láglendi í Skagafirði og hér vestur í sýslu, en brotajörð til afdala. Á jólaföstu hörkur miklar og kafaldasamt, hríð á jólum og mikið búið að gefa á nýári. Nú var sannkallað mesta veltiár. Skurðarfé í besta máta, en málnyt þótti í lakara lagi. Grasið létt, hitatíð, margt í högum og lítið vönduð hirðing mun hafa valdið því. (s179)
Þjóðólfur segir fréttir þann 5.nóvember:
Síðan Þjóðólfur kom seinast út, vitum vér ekki til að neitt hafi sérlegt til tíðinda orðið, og hafa þó fregnir víða borist að bæði úr héruðum landsins og frá útlöndum. Árgæskan er alltaf hin sama, því þó sumarið sé búið að kveðja oss, svo blessað og blítt sem það var í alla staði, þá sýnist svo sem veturinn ætli að taka víð af því, og vilji ekki verða miður.
Ný tíðindi segja 6.nóvember:
Norðan og vestanpóstarnir komu hingað um mánaðamótin, og heyrist ei annað fréttnæmara með þeim en árgæska og veðurblíða.
Norðri segir frá í janúarblaði 1853
Í svonefndu Bessahlaðnaskarði í Yxnadal, fórst húsmaður nokkur, að nafni Jón Ólafsson í snjóflóði 1 dag nóvember [1852]. Hafði hann verið í kindaleit og ætlað yfir gil eitt, hvar flóðið sprakk á hann og kæfði þegar. [Í sama blaði er frásögn af hrakningum þann 6.nóvember - hún er mjög stytt hér á eftir] Að áliðnum laugardegi hins 6. nóvember lögðu frá Húsavíkurverslunarstað, upp á Reykjaheiði, sem hart nær er þingmannaleið byggða á millum, 3 menn úr Axarfirði og hétu Jón, Hallgrímur og Árni, allir ungir og frískir menn: Jón var og húsasmiður; höfðu þeir 2 hesta meðferðis, sem voru með áburði: þá þeir komu upp á svonefndan Grjótháls, brast á þá krapahríð, með hinu mesta landnorðanveðri, er meir og meir varð í móti þeim þá norðureftir kom; héldu þeir samt áfram að þarnefndum sæluhúsatóttum; voru þeir þá mjög máttfarnir af þreytu og vosi, lögðust þar fyrir og sváfu nokkuð; en er þeir vöknuðu, var komin harka og harðviður, og fötin frosin utan á þeim. Jón var í léreftsskyrtu og klæðistreyju einni; þá hann tók að hreyfa sig og berja sér, sprungu fötin utanaf honum, svo að kuldinn gagntók hann því meir, enda treystist hann þá ekki til að ganga, hafði líka misst annan skóinn af fæti sér, úr hverju Árni bætti, með því að leysa annan skóinn af sér og binda aftur uppá Jón, svo og setja hann upp á annan hestinn; drógust þeir en áfram; dró þá svo af mætti Jóns, að hann treystist ekki lengur til að halda áfram; var því það ráð tekið, að búa um hann í gjá eða gjótu sem nógar eru á Reykjaheiði síðan var tekið reiðverið af öðrum hestinum og þakið yfir með því, og annar hesturinn skilinn þar eftir. [Hallgrímur gafst einnig upp - en Árni komst til byggða eftir nær tveggja sólarhringa útivist, svo að segja berfættur og þó samt ekki stórskemmdur, Jón og Hallgrímur fundust frosnir. Blaðið segir að lokum]: Mat höfðu menn þessir haft í för sinni, og því miður eitthvað af brennivíni. Annar hesturinn hafði sjálfur leitað til byggða, en hinn var ekki fundinn þá seinast fréttist. [Síðan segir blaðið af hrakningi á Flateyjardalsheiði 22.desember, þann mann kól svo illa á fótum að nema varð þá brott á legg].
Norðri segir í janúarhefti 1853:
Sagt var í sumar, að Breiðamerkurjökull, sem liggur sunnanvert í hinum mikla Vatnajökli, hver að er víst 1/10 hluti af stærð landsins, og austan Öræfajökuls, nær því að sjá, hefði hlaupið í sjó fram, og þess jafnframt getið, að jökulhlaupið mundi hafa tekið allan veg af, svo ófært væri, og skipt þannig Skaftafellssýslu í sundur. Líka var þess getið, að Skjaldbreiðarjökull [hér er átt við Dyngjujökul] eða Trölladyngjur, sem liggja í útnorður af téðum Vatnajökli og Kistufelli og syðst að kalla í Ódáðahrauni, hefði þiðnað venju framar, sem merki þess, að honum mundi vera farið að hitna undir hjartarótunum; eins og að þar í grennd vart hefði orðið við jarðskjálfta, og höfðu merki þessi að undanförnu verið undanfari eldsuppkomu. Jöklanám mun annars venju framar hafa verið næstliðið sumar [meira bráðnað en venjulega].
Þjóðólfur segir þann 31.desember:
Þar sem hinni blíðu sumar- og haust veðuráttu sleit, hefir veturinn tekið við og haldið til þessa hér sunnanlands hinni bestu veðuráttu, og varla komið nema lítið föl, sem var ekki nema til bóta bæði fyrir útifénað og jörðina sjálfa. En nokkuð hefir hér verið frosthart á jólaföstunni. Frostið mun hafa orðið mest 13°R [-16,3°C]. Nokkru frostharðara og snjómeira var sagt að vestan um jólaföstu komuna, einkum i Dala- og Barðastrandarsýslum.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1852. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.
21.10.2020 | 02:52
Fyrstu 20 dagar októbermánaðar
Meðalhiti fyrstu 20 daga októbermánaðar er 6,0 stig í Reykjavík. Það er +0,4 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, en -0,2 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu tíu ár og raðast í tíundahlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2016, meðalhiti þá var 9,1 stig, en kaldastir voru þeir 2008, meðalhiti 4,2 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 43.sæti (af 145). Hlýjastir voru dagarnir árið 1959, meðalhiti 9,5 stig, en kaldastir voru þeir 1981, meðalhiti -0,3 stig.
Á Akureyri er meðalhiti í mánuðinum til þessa 4,1 stig, -0,2 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 en -1,0 neðan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Vestfjörðum, hiti er þar í 8.hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast á Suðausturlandi þar sem hitinn er í 14.hlýjasta sæti. Á einstökum veðurstöðvum hefur verið hlýjast að tiltölu á Gagnheiði, þar er hiti +1,0 stigum ofan meðallags sömu daga síðustu tíu ár. Kaldast að tiltölu hefur verið á Kálfhóli á Skeiðum, hiti þar er -1,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 17,5 mm og er það innan við þriðjungur meðalúrkomu og hefur aðeins 9 sinnum mælst minni sömu daga, minnst 10,3 mm 1993. Úrkoma á Akureyri hefur mælst 52,9 mm og er það um fimmtungur umfram meðallag.
Sólskinsstundir hafa mælst 72,2 í Reykjavík það sem af er mánuði og er það í ríflegu meðallagi.
Óvenjuhægviðrasamt hefur verið í mánuðinum það sem af er, meðalvindhraði í byggðum landsins hefur ekki verið jafnlítill sömu daga síðan í október 1960 (en nákvæmur samanburður á vindhraða svo langt aftur er vandasamur).
Spár gefa nú í skyn að breytinga kunni að vera að vænta. Alla vega virðast þær sammála um að lægðir verði ágengari og dýpri heldur en að undanförnu. Skemmtideildir reiknimiðstöðva hafa meira að segja boðið upp á harla óvenjulega djúpar lægðir - jafnvel árstímamet á svæðinu - og jafnvel hér á landi líka. Enn er þó mikið ósamkomulag um þetta - lægsti miðjuþrýstingur sem sést hefur í þessum spám er 888 hPa - en ætli við teljum það ekki hreina dellu - (sýningaratriði) enda langt neðan allra meta. Það mun vera fellibylurinn Epsilon sem veldur mestu um metaóvissuna - hitti hann ekki nákvæmlega í verður minna úr en ella.
Hungurdiskar munu að vanda gefa metum gaum aukist líkur á slíku. - en Veðurstofan gefur út spár.
16.10.2020 | 02:10
Hálfur október
Hálfur október. Meðalhiti í Reykjavík er 6,2 stig, +0,2 ofan meðallags áranna 1991 til 2020, en -0,4 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn raðast í 11 hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2010, meðalhiti þá 9,5 stig, en kaldastir voru þeir 2005, meðalhiti 3,8 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 44.sæti (af 145). Hlýjastir voru sömu dagar 1959, meðalhiti þá 10,2 stig, en kaldast var 1981,meðalhiti -0,7 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú 4,5 stig, -0,3 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -1,1 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið kaldast á Suðurlandi, hiti raðast þar í 15.hlýjasta sæti á öldinni, en hlýjast hefur verið á Vestfjörðum þar eru meðalhiti dagana 15 í 8.hlýjasta sæti aldarinnar.
Á einstökum veðurstöðvum hefur verið hlýjast að tiltölu á Gagnheiði, +1,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára en kaldast hefur verið á Hveravöllum þar sem hiti hefur verið -1,7 stigum neðan meðallags.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 14,4 mm og er það innan við þriðjungur meðalúrkomu. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 50,5 mm og er það um 70 prósent umfram meðallag.
Sólskinsstundir hafa mælst 54 í Reykjavík og er það í ríflegu meðallagi.
Spár virðast gera ráð fyrir því að hiti verði fremur neðan meðallags heldur en ofan þess síðari hluta mánaðarins.
14.10.2020 | 20:07
Af árinu 1851
Tíð var yfirleitt talin hagstæð á árinu 1851 að því undanskildu að mjög slæmt hret gerði um mánaðamótin maí/júní og var óvenjukalt um tíma eftir það. Meðalhiti í Reykjavík var 4,6 stig, 0,1 stigi ofan meðaltals næstu tíu ára á undan. Meðalhiti í Stykkishólmi var 4,1 stig, 0,6 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Meðalhiti á Akureyri var 3,5 stig. Sérlega kalt var langt fram eftir júnímánuði, hiti fór niður í frostmark í Reykjavík þann 14.júní og niður í rúmt 1 stig þann 19. og 20. Þann 5.júní var hámarkshiti þar aðeins 2,5 stig. Júlí og ágúst voru einnig fremur kaldir. Aftur á móti var sérlega hlýtt í desember (enn hlýrra heldur en í sama mánuði árið áður - sem þó var óvenjulegt). Hlýrri desember kom ekki í Hólminum fyrr en 82 árum síðar (1933), sama á við um bæði Reykjavík og Akureyri. Hlýtt var einnig í janúar, apríl, maí, september og nóvember.
Enginn dagur telst mjög hlýr í Reykjavík, en einn í Stykkishólmi, 26.desember. Hiti fór þó þrisvar í 20 stig í Reykjavík, 24., 25. og 26.júlí - en svalt var að nóttu. Einn dagur var mjög kaldur í Stykkishólmi, 24.ágúst, en í Reykjavík voru köldu dagarnir 12, þar af 8 í júní og 4 í ágúst. Kaldastur að tiltölu var 5.júní.
Úrkoma í Reykjavík mældist 816 mm. Frekar þurrt var í mars, júní og júlí, en úrkomusamt í september og desember.
Meðalþrýstingur var sérlega lágur í janúar og sérlega hár í nóvember, hann var einnig nokkuð hár í apríl og í júní til september. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík á nýársdag, 943,5 hPa, en hæstur á Akureyri 26.febrúar, 1040,5 hPa.
Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Þó heimildir um veður frá degi til dags megi teljast allgóðar er óvenjulítið ritað um veður og afleiðingar þess á árinu í heimildum. Blaðaútgáfa var að nokkru lömuð. Þjóðólfur, sem reyndar var allt of upptekinn af stjórnmálaþrasi til að skrifa mikið um veður, var bannaður í kringum Þjóðfundinn og kom ekki út um hríð. Lanztíðindi hættu líka að koma út (eitthvað þras þar líka). Þannig er t.d. litlar upplýsingar að hafa um almyrkva á sólu sem varð norðaustanlands 28.júlí. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar.
Gestur vestfirðingur tekur saman tíð ársins 1851 í pistli sem birtist í blaðinu 1855:
Árið 1851 var ennú árgæska, sem hin fyrri árin. Janúarmánuður var hinn besti vetrarmánuður; því þó vindar væru af ýmsum áttum, og þó hagar spilltust nokkuð af blotum, sem komu milli kyndilmessu og góu, var veðrátta jafnan hagstæð og góð allt fram til sumarmála. Að sönnu komu frost nokkur á einmánuði; varð þá og vart við hafís fyrir norðan land, og um tíma sáu menn hann af fjöllum ofan á hafi úti. Góðviðri voru alla hörpu; en seinustu viku maímánaðar gjörði íkast með ofsaveðrum og fannkomu; linnti því hreti ekki fyrr en komið var fram í miðjan júnímánuð, og hafði ei jafnmikið hret komið allan veturinn áður; var þá ei óvíða, að sauðfé fennti og króknaði af kulda, einkum sauðir, er úr ullu voru komnir [Varð þó miklu minna af fjártjóni þessu hér vestra, en sagt var frá úr Norðurlandi, þar sem fé fennti hundruðum saman, og sumstaðar fennti hesta.] Af þessu kom kyrkingur í gróður þann, sem kominn var að vorinu. Eftir miðjan júnímánuð og júlímánuð út voru sífeldir þurrkar og veðurkyrrur svo miklar, að ei þóttust menn muna jafnmikil logn dag eftir dag. Í ágústmánuði voru vindar og úrkomur tíðari; en mest skipti um til rigningar og sunnanáttar í septembermánuði, og héldust vætur öðruhverju allan októbermánuð út. Nóvembermánuður var fremur skakviðrasamur, en frosta og snjóalítill, og þvílíkur var og desembermánuður. Ár þetta má að öllu aðgættu einnig teljast góðærisár.
Vetrarafli varð góður undir Jökli: minnstur hlutur ... Vestur um fjörðu varð sjáfarafli í meðallagi, enda þótt haustaflinn yrði víða rýr sökum ógæfta.
Þjóðólfur fer lauslega yfir tíðarfar ársins 1851 í pistli sem birtist þann 10.febrúar 1852:
Árið 1851, sem Þjóðólfur á nú yfir að lita, má að líkindum telja með hinum merkari árunum í ævintýri Íslands", ekki svo fyrir þá atburði, sem orðið hafa í landinu af völdum náttúrunnar, heldur hins vegna, sem fram hefur komið í þjóðlífinu vegna þess anda, sem fyrir var í þjóðinni sjálfri. Og munum vér nú fara fáum orðum um hvorttveggja. Veðráttufarið veturinn út frá nýári mátti kalla gott, var það einkum úrkomulítið, og einatt logn og heiðríkjur er út á leið. Vorið var ákaflega kalt og næðingasamt allt fram að Jónsmessu. Þá komu fyrst hlýindi og veðrátta hin besta, hvervetna úrkomulaus, og hélst fram að höfuðdegi. En nú brá svo til rigninga, og hretviðra einkum allan september, að varla kom þurr dagur allt til árslokanna.
Brandsstaðaannáll [um árið í heild]:
Á þessu ári varð einstakleg tilbreyting á veðurlagi. Fyrst 10 vikna þurrviðri um vorið, annað fardagahretið, þriðja 6 vikna breiskjur og sólbruni, fjórða haustfannkyngjan og fimmta jólaföstuþíðan.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Í janúar suðlægt, frostalítið og nær því auð jörð til 20., þá snjóþyngsli til 27., svo bloti og góðviðri til 6. febr., þá landnorðan-hríðarkafli og úr því óstöðugt og jarðlítið; hross tekin inn til dalanna. Grimmir 3 fyrstu góudagar, síðan gott veður, en jarðleysi. 7.-9. mars vestan- og norðanhríð, kýrbylur kölluð. 17.-23 harka mikil.
Lanztíðindi lýsa þann 10.febrúar veðurfari í janúar:
Í þessum mánuði hefur veðurátta verið mjög óstöðug, og umhleypingasöm; lengst af hefur austanáttin haldist við, oft með hvassviðrum, sem stundum fljótlega hafa snúist til útsuðurs, suðurs eða landnorðurs, ýmist með éljum, og snjó lítilfjörlegum, eða, sem oftar verið hefur, með rigningum. Frost var ekki stöðugt nema frá þeim 17. til þess 23., að öðru leyti oftar þíður, einkum um daga, og seinustu 3 dagana var landnyrðingsveður, og þó frostlaust að kalla.
Lanztíðindi lýsa veðurfari í Reykjavík í febrúar þann 23. mars:
Fram eftir þessum mánuði allt til þess 18. var mjög óstöðug veðurátta, og vindasöm, ýmist á austan eða útsunnan, með rigningum eða snjógangi. Þann 18. og 19. var mikið norðan hvassviðri, en upp frá því var hægð, góðviðri, og stundum hæg austangola, og alltaf þurrviðri til mánaðarins enda.
Lanztíðindi segja þann 10.mars almennt af árferði:
Það sem af vetrinum er hefur veðurátta allstaðar þar sem tilspurst hefur hér á landi, verið góð og þó hún sumstaðar hafi verið nokkuð umhleypingasöm, hafa þó frost og hörkur verið með minnsta móti. Með öllu Norðurlandi hefur verið óvenjulegur fiskiafli, einkum á Eyjafirði og er mælt, að þar séu komnir 18 hundraða hlutir frá því á haustnóttum og til þorrakomu. Þar á mót hefur verið lítið um fisk vestra og með þorrakomu var í veiðistöðum undir Jökli mestur 1 hundr. hlutur, en hæglega getur ráðist hót á þessu enn, því þar er oft vant að fiskast vel þegar fram á kemur ef gæftir eru góðar. Sunnanlands hefur og verið fátt um fisk til þessa.
Lanztíðindi lýsa veðri í Reykjavík í mars í pistli þann 15.apríl:
Fyrstu 5 dagana af þessum mánuði var austan og norðan kæla á víxl, og gott veður; þá næstu 4 daga frá 6. til 9. var útsynningur og vestanátt, ýmist með snjóéljum eða regnskúrum, en frá því, til mánaðarins enda var oftast austan landnorðan átt, og frost, einkum á næturnar, þó oft yrði frostlaust um daga; þann 31. var hvasst veður á austan með rigningu.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Á Maríumessu [25.mars] blíðviðrisbati, svo gott og þurrt til páska, 20.apríl. Eftir þá alljafnt frostasamt. 6. maí sást fyrst gróður í úthaga. 9.-12. heiðarleysing. Hey gáfust mjög upp og töðuskortur mikill var í fardögum, ásamt gagnsskortur kúa. Hross gengu af, þar jarðasælast er í Skagafirði. Frá 10. mars til 20. maí kom engin úrkoma, en á uppstigningardag, 29. maí, gerði hið mesta bleytu-fannkomu-ofviðri og um nóttina hljóp á norðanhríð. Fé nýrúnu lá við dauða, áður en næðist inn og króknaði í ofviðra plássum. Enginn mundi slíkt áhlaup á þeim tíma.
Lanztíðindi lýsa veðri í Reykjavík í apríl í pistli þann 15.maí:
Fyrstu 5 dagana af þessum mánuði var austanátt með rigningu, einkum þann 4. og 5., en frá því, og til mánaðarins útgöngu, hefur oftast nær verið hæg landnyrðings- eða vestanútnyrðingskæla, með næturfrosti næstum á hverri nóttu, og hefur hvorki regn né snjór fallið á jörðina, nema lítið snjóföl þann 14., er því engin gróður kominn á jörðina vegna þurrka og næturkulda, en að öðru leyti hefur verið besta veðurátta til sjóróðra, því vindur hefur oftast verið mikið hægur og stundum logn og heiðviðri.
Þjóðólfur segir þann 13.júní:
[Þann] 20. dag maímánaðar var hér rok mikið og hroði á vestan. Þá hleypti Norðmaður, sem lagður var út héðan fyrir fáum dögum, aftur inn í flóann, og náði inn á Skerjafjörð; missti hann fyrir framan Vatnsleysuströnd einn af mönnum sínum og skipsbátinn. En til þess tóku þeir, sem sáu, hve fimlega og kunnuglega Norðmaður stýrði í því veðri og innan um þau sker; enda eru Norðmenn bestu sjómenn. Sama dag kom hér inn á höfnina póstskipsherra Aanensen; hann er Norðmaður líka, og kallar ekki allt ömmu sína, þó loft og lögur leiki saman; en það trúi ég, að honum hefði ekki fundist til þessa sumarveðurs vors.
Þann 30.maí segir Þorleifur í Hvammi frá snjófalli og skaflar séu komnir. 1.júní festi snjó í éljum, 4.júní festi snjó hádag, en birti að kvöldi, 5.júní snjór í sjó niður með sköflum og 25.júní frost og héla að nóttunni. Á Hvanneyri í Siglufirði alsnjóaði aðfaranótt 31.maí og 2.júní.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Aftur kom 1.júní norðan-fannkomuhríð í sífellu um 9 dægur. Ókjör af stórfenni rak niður til fjalla, fyllti hlíðar, gil og stíflaði kvíslar, svo fjöldi sauða og gemlinga fennti á Reynistað, Vík og víðar og hér mest á Höskuldsstöðum, um 100 fjár á þessum 3 bæjum og margt náðist úr fönn. Um 30 hross fórust í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Eftir hretið frostasöm þurrviðri. Ei kom frostlaus nótt til fjalla að sólstöðum. Eftir það grasviðri og góð tíð. ... Í júlí lengst þurrkar. Grasbrestur var á túnunum. Með hundadögum farið að slá. Náðist illa af þeim vegna breiskju og bruna. Gekk illa heyskapur á harðlendi. 25. ágúst skipti um til votviðra. 28. alsnjóaði. Eftir það kom allt hey, en þeim því slepptu varð hey ónýtt allmikið utan í Langadal, sem 16.-17. sept. náðist í vestanstormi að mestu. Eftir það kom enginn þerrir. Nokkuð svældist inn um Mikaelsmessu. Í göngum á þriðjudag vestanhríð [sennilega 23.september], miðvikudag norðanfannkoma og 30. september [líka þriðjudagur] mikil fannkoma, versta veður og færð í öllum göngum.
Þorleifur í Hvammi nefnir sólmyrkvann 28.júlí: Sólmyrkvinn álíka og hálfrokkið inni í húsum, en hálfhúmað úti. Þann 9.júlí segir athugunarmaður í Siglufirði að nógur hafís sé útifyrir og daginn eftir, 10.júlí mikið frost í nótt.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
[Þann] 8.-9 okt. rifu menn hálfblautt hey úr snjóhrafli og létu inn. Það þá var eftir varð úti meira og minna hjá flestum í öllum sveitum og mikið ást upp í svo langri snjóatíð um og eftir göngur. 11.-12. okt. gerði mikla rigningu, en fönn til fjalla, en. 13. snjóhlaðning, 14. stórhríð og 15. enn snjókoma. 16. birti upp hér, en hlóð niður mestu fönn austan Vötn, fram í dali. Varð jarðlaust og ófært yfir af fanndýpt til hálsa og framdala, en augaði í árbakka og með vötnum á litlum rima til lágsveita. Fé varð ei sumstaðar heim komið úr högum á 2 dögum. Hross og fé tók út hungur. Fönnin lá á og rýrnaði lítið, þó frosthægt væri, þar til 27. okt., að jörð nokkur kom upp. Aftur hríð og fönn til, 1. nóv., þann 3. harka mikil. Eftir það frostalítið mánuðinn út, svo ár lagði ei. 4.-9. þíða, svo nóg jörð gafst úr því, oft blotar og slyddusamt og urðu svellalög mikil. Með desember frost og staðviðri 6 daga, 4.-6. hláka og 14.-15. heiðarruðningur og eftir það þíður og leysti vötn í sveitum og flóar urðu þíðir, auð fjöll og heiðar á jólum, en vatnsagi var mikill í jörð og á.
Ný tíðindi segja 20.janúar 1852 frá fjárskaða í Þingvallasveit og víðar:
[Þann 23.nóvember] varð séra Símon Bech á Þingvöllum fyrir fjárskaða miklum. Var það í útnyrðingsbyl og ákafri fannkomu, að sauðirnir hröktust niður í hraungjá eina, sem liggur vestur úr Almannagjá fyrir ofan Öxarárfoss. Voru þó fyrst 2, en síðan 4 menn hjá fénu, en þeir gátu engu við ráðið. Þegar þeir sáu, að féð fór að fjúka niður í gjána, fóru þeir niður í hana, og reistu hverja kind á fætur, sem niður kom; því allt kom féð lifandi niður. Svo reyndu þeir og að koma því fram úr gjánni, en gátu það ei. Hættu þeir þá við, og ætluðu varla að komast heim um kveldið; því svo var veðrið þá illt orðið og fjarskalegt. Daginn eftir var gjáin full orðin af harðfenni. Voru þá fengnir menn til að moka upp gjána, og voru þeir að því 6 daga. Fátt eitt af fénu náðist lifandi, en á milli 70 og 80 dautt. Gjáin kvað vera hér um bil 2 faðma breið, 4 faðma djúp og slétt í botninn. Sama dag heyrist, að nokkrir fjárskaðar hafi orðið bæði á Hæðarenda í Grímsnesi, og í Eyvindartungu í Laugardal, en ekki höfum vér heyrt um þá greinilega sögu, né heldur, hvert þeir hafi víðar orðið.
Þann 10.mars segja Ný tíðindi frá mannskaða í sama byl: Maður varð úti á Hrófá í Steingrímsfirði í hríðinni 23. [nóvember].
Þann 17.desember segir Jón Austmann í Ofanleiti að farið sé að grænka og Þorleifur í Hvammi segir að á jólum hafi jörð verið þíð og snjólaus.
Þjóðólfur birti þann 27.mars 1852 úr bréfi úr Múlasýslu - þar segir:
Með nýári 1851 kom víðast um Austurland talsverður snjór, þó mestur efst til inndala, og tók þar þá víða þegar fyrir jörð, bæði af snjóþyngslum og blotum, sem bræddu allt í svell, kom þar víða ekki upp jörð aftur fyrr en á einmánuði. En allstaðar til útsveita og við sjávarsíðu hlánaði snjór þessi aftur, og héldust víðast nægar jarðir fram úr. Stillingar og veðurblíður voru allstaðar miklar fram á vor, svo, þegar hálfur mánuður var af sumri, var besti stofn kominn á gróður. En eftir það skipti um; komu þá norðansvakar, snjóáfelli og grimm frost, svo jörð kól upp aftur. Héldust kuldar þessir fram að túnaslætti, svo grasbrestur var þá hræðilegur. En seint í júlí kom votviðrakafli svo sem vikutíma, og skánaði þá grasvöxtur nokkuð. Eftir það komu hitar miklir, sem héldust fram í september, og oftast þurrviðri til septemberloka; heyjaðist því víðast öllum vonum framar, því nýtingin varð svo góð. Haustið var líka sérlega gott, og vetur þessi fram til nýjárs, sífellt þurrviðri og veðurhægð og frostleysur; mátti varla heita að föl kæmi nokkurn tíma í byggð, svo það stæði við degi lengur, enda var lömbum ekki kennt át fyrr en nú frá með nýjárinu. Að aflabrögðum til var ár þetta í meðallagi. Fjársýkin, sem verið hefur hér skæð að undanförnu, var þetta árið með vægasta móti.
Þann 2.júní 1852 birtu Ný tíðindi lýsingu á loftsjón sem sást norðanlands 26.október. Við birtum aðeins inngang frásagnarinnar hér. Þann 29.júlí 81852] birtist í blaðinu almenn umfjöllun um loftsteina, líklega eftir Björn Gunnlaugsson. Hann dregur þar saman fróðleik um fyrirbrigðið eins og menn best vissu á þeirri tíð:
Á sunnudaginn fyrstan í vetri [26.október] nær miðjum degi, í heiðríku lofti og glaðasólskini, sáu fáeinar manneskjur mikinn ljóshnött líða frá austri til útvesturs (lágt á lofti) yfir norðurloftið. Hafði sá verið, að sagt var, vel svo mikill fyrirferðar á himni, sem tunglið er, og svo bjartur, sem líkast væri að sjá til sólar gegnum þunna bliku, og engin duna heyrðist til þessa.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1851. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt 17.10.2020 kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2020 | 14:21
Öflug hæð
Nú er öflug hæð fyrir austan land. Hún stíflar nokkuð framrás lægða og skilakerfa til austurs þannig að þau sveigja til suðausturs og gætu grafið þar um sig næstu daga - og smám saman unnið á hæðinni.
Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á morgun (miðvikudaginn 13.október). Jafnhæðarlínur eru heildregnar - af þeim ráðum við vindátt og vindstefnu háloftanna. Þykktin er sýnd í lit. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Hæðin er 5780 metrar í miðju. Það er ekki met, en telst samt fremur óvenjulegt í október á þessum slóðum. Mjög hlýtt loft fylgir hæðinni - við sjáum að þykktin er meiri en 5520 metrar þar sem hún er mest (norðaustur af landinu). Allt landið er þakið meiri þykkt en 5460 metrum - heiðarlegt sumarástand.
Hlýindin ná að minnsta kosti niður í fjallahæð. Spáð er meir en 10 stiga hita í 850 hPa-fletinum yfir Austurlandi síðdegis á morgun (yfir 20 stiga mættishita), og 13 stigum í 800 metra hæð við Austfjarðafjöll. Þetta er óvenjulegt í október. Vindur er hins vegar svo hægur á þessum slóðum að engin spá gerir ráð fyrir því að byggðir muni njóta þessa hita sérstaklega - að vísu fer hiti í meir en 10 stig sem telst nokkuð gott í október. En það er svosem aldrei að vita hvað gerist nærri háum fjöllum eystra. - Happdrættið er alla vega í fullum gangi - þó vinningslíkur séu litlar.
12.10.2020 | 23:35
Af árinu 1850
Árið 1850 var talið hagstætt. Meðalhiti í Reykjavík var 4,1 stig, 0,4 stigum neðan við meðalhita næstu tíu ára á undan. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,2 stig, -0,3 stigum neðan meðalhita þánýliðinna tíu ára. Á Akureyri var meðalhiti 2,6 stig. Hlýtt var í apríl, september og desember, sérlega kalt var í ágúst og fremur kalt var einnig í janúar, febrúar, maí, júní og október.
Hiti fór tvisvar í 20 stig í Reykjavík, mest 23,8 stig þann 25.júlí - og var sá dagur sá eini þar á árinu sem telst mjög hlýr (í langtímasamanburði). Tuttugu dagar voru hins vegar kaldir í Reykjavík, 14 þeirra í ágúst, hinn 19.kaldasti dagur ársins að tiltölu og bæði þann dag og þann 14. fór næturhiti í Reykjavík niður í frostmark, sem er óvenjulegt. Í Stykkishólmi voru köldu dagarnir 11, þar af 8 í ágúst. Þá hrímaði eina nótt við Ofanleiti í Vestmanneyjum (sjá hér neðar) og snjóaði víða norðanlands.
Úrkoma í Reykjavík mældist 833 mm. Þurrt var í apríl, en úrkomusamt í febrúar.
Meðalþrýstingur var fremur hár í mars, og einnig fremur hár í janúar, og júlí til október, en fremur lágur í febrúar, júní og desember. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi síðasta dag ársins, 31.desember, 947,8 hPa en hæstur í Stykkishólmi 23.mars, 1047,3 hPa.
Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar. Áberandi lítið er rætt um veðurlag á Austurlandi - nánari upplýsingar um það kunna að finnast við ítarlegri leit.
Gestur vestfirðingur lýsti tíðarfari ársins 1850 í pistli sem birtist í blaðinu árið 1855:
Árið 1850 hófst vestra með góðviðrum og þíðum, en síðan komu fannalög, hvassviðri og umhleypingar; sjaldan voru þó frost mikil, en haglaust allvíðast frá því viku fyrir þorra allt fram á miðgóu; þá kom hagstæð hláka, er stóð í 10 daga, og var þaðan frá til sumarmála jafnan góð veðrátta. Vorið var fremur kalt, og langt frosthret gjörði með fjúki eftir miðju maí; rak þá hafís víða að landi á Vestfjörðum; ísinn tók að sönnu skjótt frá landinu aftur, en sást þó lengi frameftir sumri af farmönnum í höfum ekki langt undan landi. Miðsumarmánuðurinn (júlíus) var jafnast kaldur og þurrkar miklir; grasvöxtur varð því í lakara lagi vestra, nema á votlendi; aftur varð heynýting einhver hin besta sökum hægviðra og þerra. Septembermánuður var að sönnu vætumeiri, en þó hagstæður til aðdrátta; októbermánuður var fremur skakviðrasamur, en í nóvember og desember var snjókoma lítil og frost að því skapi væg, og veturinn því góður fram á nýár; svo ár þetta mátti kalla árgæskuár eins og hin næstu á undan.
Afli var góður víðast um Vestfjörðu, en þó einna bestur á Ísafirði; því aukist hefur þar afli og haldist, að kalla má, árið um kring. Undir Jökli urðu vetrarhlutir 4 hundruð og þaðan af minni; en vorhlutir í Dritvík urðu að meðaltali um 2 hundruð. Steinbíts- og þorskafli vestur um fjörðu var að sínu leyti þessu líkur. Í Bolungarvík við Ísafjarðardjúp var bestur afli með skipi 50 hundruð þorsks og 90 skötur, sem gjörðu 1 tunnu lifrar. Í Arnarfirði var besti haustafli, hæstur hlutur 800 af þorski og ýsu. Í Steingrímsfirði 4 hundraða hlutir og þaðan af minna; þótti sá afli nýlunda þar. Á Breiðafirði var aflinn rýrari, líkt og árin hér á undan. Hákarlsaflinn varð víðast í góðu meðallagi.
Árið 1850. 9. dag mara urðu 2 kvenmenn úti í áhlaupskafaldi milli bæja í Steingrímsfirði í Strandasýslu. Þá datt og unglingspiltur ofan af ísjaka í Mjóafirði í Ísafjarðarsýslu, og beið þaraf bana. Á vetri þessum týndist maður í Dýrafirði í snjóflóði, og er sagt, að það bæri uppá sama dag, sem stúlka fórst frá sama bæ veturinn áður. Í maímánuði hrapaði maður til bana í Önundarfirði. Þá drukknaði og maður af hesti í Steingrímsfjarðarbotni; hann var úr Saurbæ, og var mælt, að hann hefði drukkinn verð; þá datt maður út af fiskiskútu frá Flatey, og annar af Svaninum" frá Ólafsvík, og varð ei bjargað. Í nóvembermánuði varð kvenmaður í Steingrímsfirði úti í kafaldsbil. Á sumri þessu týndist þilbátur, sá er Tréfótur" hét, úr Önundarfirði; áttu þeir hann Guðmundur Bjarnason og Jón Bjarnason á Sæbóli, bændur, og stýrðu honum synir þeirra, Pálmi Guðmundsson og Kristján Jónsson. Það vissu menn síðast til, að skúta þessi var að hvalskurði á hafi úti í hvassviðri, og halda menn, að þiljur hafi opnar verið, en skútan þrauthlaðin, og muni þetta hafa orðið henni að tjóni. 15. júní týndist skip með 4 mönnum á Ísafirði á leið frá Æðey til Skálavíkur; var þar á bóndinn frá Skálavík og stjúpsonur hans. 18. desember týndust 4 menn af báti á Ísafirði, og bar það svo við, að bátur sá var á heimleið frá Ísafjarðarkaupstað, fyllti þá bátinn af grunnboðum, og hvolfdi örskammt frá landi norður frá Arnardal. Á bátnum voru 6 menn, og varð tveimur þeirra bjargað; meðal hinna, er drukknuðu, var og sóknarpresturinn úr Grunnavík, Hannes Arnórsson prófasts Jónssonar úr Vatnsfirði. Hann var gáfumaður og skáld, enda er haft eftir þeim tveimur mönnum, er bjargað var, að presturinn, sem komst með þeim á kjölinn, hafi þá orkt og mælt fram með sálarstyrk allmiklum vers hjartnæmt mjög; en ekki námu þeir versið.
Þjóðólfur dró stuttlega saman veðurlag ársins 1850 í pistli sem birtist 15.janúar 1851:
Veturinn 1849 og 50 má vist telja með betri vetrum að veðuráttufari til. Eftir stutt en hart íhlaup, sem kom snemma í nóvember [1849] viðraði svo, að ýmist var hæg sunnanátt og mari, eða þá norðankæla og hreinviðri með vægu frosti. Hélst sú veðurreynd fram yfir miðjan vetur. Úr því tók heldur að snasa að með snjógangi og hryssingi, en aldrei var frost til muna, og var veðrátta heldur umhleypingasöm veturinn út. Vorið var venju framar kalt fram eftir öllu, og varð því gróður víða hvar með minnsta móti. Eins var sumarið fremur kalt, en þurrkasamt, og hélst sú veðurreynd til veturnótta, hefur og haldist svo allt fram að árslokunum, að minnsta kosti á Suðurlandi, að varla hafa menn haft af vetri að segja. Vetrarvertíðarafli var þetta ár mikill í flestum útverum, en með minnsta móti allstaðar innan Faxaflóa, og brugðust bændum net enn meir, en árið áður.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Sama góða vetrarfar hélst til þorra, blotasamt og frostlítið; á honum jarðleysi, sumstaðar lítil snöp. 24. febr. kom jörð upp. Aftur með mars köföld og smáblotar, jarðlítið. 11.-12. mars rigning mikil, vatnsgangur og skriðuskemmdir miklar á túni og engjum, þar eftir þíður, svo vel gaf að moka skriður.
Lanztíðindi segja 28.febrúar af veðurlagi í Reykjavík í janúar:
Í þessum mánuði hefur, líkt og i næstundanfarandí verið hin besta og mildasta vetrarveðurátta, austan og landnorðan átt hefir lengst af viðvarið, þó oftast hæg, nema þann 7. var hvassviðri, fyrst á austan landsunnan, þann 8. líka hvasst á útsunnan með éljum, og þann 9. framan af degi, en um kvöldið gjörði ofsaveður af suðri, með stórrigningu og miklum skruggugangi, um miðnætti hægði veðrið og gekk til vesturs. Eftir það þann 12. kom hin hæga austanátt sem áður var, og hélst við til mánaðarins enda; 22 dagar hafa einhverntíma orðið frostlausir, en einar 5 nætur voru þíðar til enda svo, að frost hefur ekki verið stöðugt dag og nótt, nema eina 9 daga, og þó þiðnað oft á milli þeirra. Töluvert vetrarfrost var ekki, nema 5 daga, þ. 25. til 29.
Lanztíðindi segja 20.mars af veðurlagi í Reykjavík í febrúar:
Þá fyrstu 9 daga af þessum mánuði var eins og að undanförnu í vetur góð veðurátta, og hæg, með landnyrðingskælu og litlu frosti; en strax eftir það varð bæði meira frost með köflum, og einkum mikið snjófall með hvassviðri af ýmsum áttum. helst af útsuðri, austri og landsuðri, og tvisvar með mikilli blotarigningu, þ. 24. og 28., svo að seinni hluta mánaðarins, hafa lengst og mest verið köföld og illviðri.
Lanztíðindi segja 6.apríl af veðurlagi í Reykjavík í mars:
Fyrstu 10 dagana af þessum mánuði var sama veðurátta og seinast í febrúar, ýmist landnyrðings hvassviðri með köföldum, og stundum blotum, þegar vindáttin komst í landsuður, eða útsynningsstormi t.a.m. þann 9., með kafaldséljum eða rigningu; upp frá þeim 10. var þíðviðri og hláka, fyrstu 3 dagana með rigningu af suðri og landsuðri, svo allan snjó leysti af láglendi, síðan var hægð og góðviðri í viku, oftast með hægri austanátt, og frostleysu, en þann 22. byrjaði hart norðankuldakast, sem varaði á sjötta dag, var þá frost oft 10° og stundum lítið minna; þó féll enginn snjór þá daga. Seinustu dagana var aftur hægð og gott veður.
Eggert Jónsson athugunarmaður á Akureyri segir að 21. til 29.mars hafi hafís rekið um við Norðurland - en hann hafi horfið dagana 4. til 13.apríl, en síðan snúið aftur 6. til 15.maí.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Eftir 23. [mars] frostasamt og í apríl lengst af þurrt og stillt frostveður. Með maí grænkaði í túni. 6.-12. [maí] hríðarkast mikið og harka á nætur. Bar þá mikið á töðuskorti. Um krossmessu gott, en aftur kuldakast og mikil hríð ytra 23.-29. maí.
Lanztíðindi segja 7.maí af veðurlagi í Reykjavík í apríl:
Strax í byrjun þessa mánaðar minnkaði kuldinn. er var seint í mars, og varð gott veður með austan- og landnyrðingskulda, þó oftar með hægð, en hvassviðri og stundum logn, frost var aldrei heilan dag til enda. en næturfrost við og við, til þess 24.; þann 14. rigndi nokkuð til muna, annars lítið, og eftir þann 15. ekkert til muna, en þurrt veður, hæg austanátt og góðviðri viðhélst til mánaðarins enda.
Lanztíðindi segja 15.júní af veðurlagi í Reykjavík í maí:
Þessi mánuður var að sínu leyti miklu kaldari en apríl, fyrstu 2 vikurnar var oftast nær töluverði næturfrost með köldum landnyrðingi, stundum með kafaldi eða vestan útsynningi með éljum, eða krapaskúrum. Eftir miðjan mánuðinn hlýnaði dálítið og var oft hægð og gott veður, en þó kalt og næturfrost við og við, nema seinustu 3 næturnar, þá var austanátt og rigning, svo jörðin fór að grænka.
Þann 7. maí segir Jón Austmann í Ofanleiti frá norðan bálviðri, kollheiðu veðri, en skarafjúki. Hita segir hann svo: Kl.9: -4, kl.12 -5, kl.15 -6. Ísdringlar yfir gluggum viknuðu ekkert á móti sólu. Þorleifur í Hvammi segir að þann 23.maí hafi verið snjókóf að nóttu og þann 24.maí rak inn hafíshroða á Siglufirði að sögn athugunarmanns.
Þann 15. júní birtist í Lanztíðindum fróðleikspistill um vindhraða og ísrek:
Afl og hraði vindsins. Menn hafa gjört margar athugasemdir um afl vinds hér. Ályktanir segja, dregnar af þessum athugunum: Hægasti vindur (andvari, blær), eða sá vindur, sem menn finna aðeins, fer 5,400 fóta langan veg á klukkustundu hverri, nokkuð meiri vindur (kalda-korn) fer 10.800 fet, golu-vindur 21.600, stinningskaldi 58.800, storm-korn 108.000 til 216.000, stormur eða hvass vindur 313.200 og fellibylur, eða sá vindur, sem þeytir um koll og brýtur bæði hús og tré, 416.000, eða 135 fet á einni sekúndu. Það er alkunnugt, að á sama tíma blása oft vindar úr gagnstæðum áttum. þannig að annar vindur er ofar eða hærra í lofti uppi, en hinn. Sjófarendur hafa þráfaldlega tekið eftir því, að ísar í norðurskautshöfunum hala borist i tvær gagnstæðar áttir, svo að annar jakinn hefur sýnst renna þvert á móti vindi, er annar hefur farið undan vindi og kemur þetta af því, að jakar þeir, sem fara móti vindi, ná dýpra niður í sjóinn og berast af strauminum í djúpinu, sem þá mega sín meira, en vindurinn á þeim hluta jakanna, sem upp úr sjó stendur og minni er fyrirferðar. Af því að nú jakarnir standa mishátt upp og mislangt niður í sjóinn, þó þeir séu hvor hjá öðrum, eða í sömu ísbreiðunni, þá verkar líka vindur og straumur misjafnt.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Í júní allgott. 25. brutust lestamenn suður, en 27.-28. gjörði mikið hret og vatnsaga, svo, stöku kindur króknuðu og fráfærur frestuðust til 30. júní. 4. júlí bati góður og enn þann 12. stórrigning með kalsa. Gras varð lítið fyrir ofvætu og oft kulda. Sláttur byrjaði með hundadögum. Fékkst þá góð rekja og þerrir til 29. júlí til 3. ágúst. Taða varð í minna lagi. Engi spratt lengi. Þó varð rýr heyskapur. 16. og 21. ágúst rigndi mjög og snjóaði. Fennti þá nokkuð af lömbum í norðurfjöllum og fylgdu því kuldar út mánuðinn. Í september góðviðri og nýting góð, 15. [september] flóð í jökulám.
Lanztíðindi segja 1.ágúst af veðurlagi í Reykjavík í júní:
Fyrstu 6 dagana var landsynningur með hægu regni, og gott vorveður, svo þá vikuna spratt vel gras, en frá því voru oftast norðankælur og heldur kalt í veðri, allt til mánaðarins enda, en lítið regn, og skjaldgæft. Þann 28. og 29. var norðan hvassviðri, en annars oftast hægvindi.
Þann 28.júní segir athugunarmaður á Siglufirði að snjóað hafi niðrum byggð.
Lanztíðindi segja 6.september af veðurlagi í Reykjavík í júlí:
Framan af þessum mánuði var oftast hæg norðankæla og heldur kalt á næturnar, og þurrt veður, en frá þeim 6. var stundum þoka með sudda smáskúrum af vestri og útsuðri, og sjaldan vel hlýtt í veðri; frá þeim 16. til þess 21. var gott og bjart veður, og frá því þurr og hæg austan og sunnan átt til þess 28., en seinustu 4 dagana var aftur vestanátt, með þoku og rigningu.
Þorleifur í Hvammi segir að þar hafi verið snjóél í 1° hita aðfaranótt 2.júlí. Þann 24. og 25.júlí fór hiti í yfir 20 stig á Akureyri og þann 23. og 25.júlí á Odda á Rangárvöllum (23,2 stig). Sama dag (25.) fór hiti í 23,8 stig í Reykjavík.
Lanztíðindi segja 6.október af veðurlagi í Reykjavík í ágúst
Fyrstu vikuna af þessum mánuði var hæg vestan átt með þoku og suddaskúrum, en frá því var næstum allan mánuðinn þerrir, með oftast hægri norðanátt, og oft heldur kalt í veðri, einkum frá þeim 18. til 23., því þá var hvass norðanvindur. Seinustu 2 daga mánaðarins voru regnskúrir af útsuðri og þoka.
Jón Austmann í Ofanleiti segir af hrímfalli þar í heiðríkju aðfaranótt 23.ágúst. Þá segir af Siglufirði að þar hafi þann 21.alsnjóað í nótt - bleytuhríð svo alhvítt er. 22. ágúst - alhvítt enn yfir allt. 23. ágúst: Snjókoma í nótt svo alhvítt var í morgun. Eggert á Akureyri segir þann 21. ágúst af Snjókomu og slyddu til kl.15 (hiti 0,8 til 2,3 stig) og daginn eftir að snjóað hafi af og til.
Lanztíðindi segja 1.nóvember af veðurlagi í Reykjavík í september
Fyrstu 12. dagana af þessum mánuði var góð veðurátta með hægri austanlandnyrðingskælu, og jafnan þurrt veður, og nýttist því heyskapur manna vel. Frá þeim 12. til 20. var austan og sunnanátt með rigningum, en þornaði aftur eftir þann 20. með ýmist logni og góðviðri, eða landnyrðingskælu og hægri vestanátt, en rigndi sjaldan að mun, svo góð nýting hefur orðið á heyjum allstaðar hér nálægt.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:
Haust gott og hretalaust til 13. okt., þó sama góðviðri eftir það 27. okt. Lagði þá á mikla fönn og þunga skorpu. 10. nóv. varð jarðlaust fyrir fé í lágsveitum, en betra til dala og fjallabyggða. Veður var oftar frostalítið, óstöðugt og slyddusamt. 17. kom upp snöp og voru mikil svellalög með jólaföstu, en með henni kom stöðug, góð hláka um 12 daga, svo allan gadd tók af heiðum. Eftir það besta tíð til nýárs. (s170)
Lanztíðindi segja 12.nóvember af veðurlagi í Reykjavík í október
Fyrstu 5 dagana af mánuðinum var austanvindur, og þann 5. stórrigning; frá því var oftast hæg veðurátta lengi fram eftir mánuðinum, og stundum logn og besta veður, nema einstaka daga var útsynningur með hvassviðri og rigningu, þann 11., 12. og 13. með vestanvindi og hagléljum, þann 21. með þoku og stórrigningu, og 22. með þurru hvassviðri á vestan; eftir það var austan- og norðanátt til mánaðarins enda. Eftir þann 14. var flestar nætur frost, en ekki viðhélst það allan daginn, fyrri enn þann 28, Snjór féll ekki á láglendi fyrri| enn þann 29, sem þiðnaði aftur eftir 3 daga.
Lanztíðindi segja 10.desember af veðurlagi í Reykjavík í nóvember
Þann 1. dag mánaðarins kom skyndilegt hvassviðri upp úr logni að kalla, litlu fyrir hádegi, sem varð skaðræðisveður fyrir nokkra menn, er á sjó voru; frá því var oftast hægð og gott veður lengi fram eftir mánuðinum ýmist með landnyrðingi, eða útsynningi með þoku og þíðum, til þess 16. Eftir það var frost við og við, og einkum á næturnar, til útgöngu mánaðarins, með austan og norðanátt, nema seinasta daginn var hláka og rigning á austan-landsunnan.
Þjóðólfur segir 1.desember:
Fyrsta dag nóvembermánaðar brast á upp úr logni hastarlegur stormur með hafróti á vestan útsunnan; týndist þá bátur með 4 mönnum ofan úr Andakíl, er lagt höfðu héðan frá Reykjavíkursandi. Hefur báturinn að líkindum farist fram undan Kjalarnesstöngum, því sagan segir, að þar hafi rekið á land 8 brennivínskútar auk stóru ílátanna; og má þá segja út af atviki því, eins og mælt er, að Steingrímur biskup hófsami hafi sagt við prest einn, sem átti dagleið fyrir höndum, og reiddi 2 pottflöskur fyrir aftan sig: ekki ætlið þér þó að fara nestislaus, prestur góður! [Einn mannanna var Jón Pálsson, langa-langa-langafi ritstjóra hungurdiska, þá bóndi á Hvanneyri]. Í þessu sama veðri týndist líka róðrarbátur í Vogum með 2 mönnum; en þriðji maðurinn bjargaðist í land.
Lanztíðindi segja 10.janúar 1851 af veðurlagi í Reykjavík í desember 1850:
Allan fyrri hluta mánaðarins eða til þess 15. var oftast austanvindur, stundum með þoku og rigningu eða hvassviðri, en alltaf þíðviðri; frá þeim 15. til þess 20. var norðankæla, þó oftast hæg, og frost, og féll hrím á jörðu; eftir þann 20. og til mánaðarins enda, var ýmist austanvindur, með rigningu eða snjógangi, eða þegar vindurinn hljóp í útsuður, með útsynningséljum, Ýmist með þíðu eða frosti, svo að seinni hluta mánaðarins hefur verið óstöðug og umhleypingasöm veðurátta.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1850. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt 17.10.2020 kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2020 | 03:12
Fyrstu tíu dagar októbermánaðar
Meðalhiti fyrstu 10 daga októbermánaðar er 5,3 stig í Reykjavík, -0,7 stigum neðan meðaltals sömu daga árin 1991 til 2020, en -1,2 stigum neðan meðaltals síðustu tíu ára og í 13.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2002, meðalhiti þá 9,7 stig, en kaldastir voru þeir 2009, meðalhiti 2,6 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 81.sæti (af 145). Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 1959, 11,0 stig, en kaldastir 1981, þá var meðalhiti aðeins 0,1 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú 3,7 stig, -1,4 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -2,1 stigi neðan meðaltals sömu daga síðustu tíu árin.
Kaldast að tiltölu hefur verið á Suðurlandi, þar raðast hitinn í 15.hlýjasta sæti aldarinnar, en hlýjast hefur verið á Austfjörðum þar sem hitinn er í 9.sæti.
Á einstökum veðurstöðvum er jákvætt vik miðað við síðustu tíu ár mest í Oddsskarði, +1,0 stig og +0,9 stig á Gagnheiði, en neikvætt vik er mest á Hveravöllum, -2,8 stig.
Úrkoma hefur mælst 5,4 mm í Reykjavík, aðeins sjöttihluti meðalúrkomu sömu daga 1991 til 2020 og hefur aðeins 9 sinnum verið minni sömu almanaksdaga, síðast árið 2010. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 48,6 mm og er það um 60 prósent umfram meðallag.
Sólskinsstundir hafa mælst 42,8 í Reykjavík og er það í ríflegu meðallagi.
8.10.2020 | 21:57
Forvitnilegt lágmark
Það vakti athygli ritstjóra hungurdiska að lægsta sólarhringslágmark í byggð á landinu í gær (miðvikudag 7.október) mældist á Önundarhorni undir Eyjafjöllum, -2,2 stig. Aðstæður voru þannig að skýjað var um mestallt land - nema á svæði um landið sunnanvert og þar með undir Eyjafjöllum. Varmageislunarjafnvægi næturinnar var þar því heldur óhagstæðara en annars staðar.
Þá lá auðvitað beint við að spyrja hvort þetta hefði gerst áður. Stöðin í Önundarhorni hefur verið starfrækt frá árinu 2010. Svarið kom um leið og spurt var - þetta hefur gerst átta sinnum áður á þessu tímabili (og nú í 9 sinn). Þrisvar í febrúar, einu sinni í júní, tvisvar í ágúst, tvisvar í október og einu sinni í nóvember. Langt í frá einstakt sum sé.
Stöðvar eru að sjálfsögðu missæknar í lægsta lágmarkshita sólarhringsins á landinu. Sé litið á októbermánuð eingöngu er algengast að Möðrudalur hirði lágmarkið (nokkuð í sérflokki), síðan koma Svartárkot, Þingvellir, Brú á Jökuldal og Mývatn. Sunnanlands má nefna Kálfhól á Skeiðum, Skaftafell, Þykkvabæ og Árnes.
Frá því að sjálfvirku stöðvarnar voru settar upp hafa 68 þeirra náð lægsta sólahringslágmarki dagsins í október - hugsanlega leynast einhverjar villur í listanum.
7.10.2020 | 22:56
Af árinu 1849
Tíðarfar var almennt talið fremur hagstætt. Veturinn var þó nokkuð umhleypingasamur - vorið talið næturfrostasamt. Sumarið var almennt hagstætt og haustið líka. Kalt var í janúar, febrúar, júní og október, en hlýtt í september og desember. Meðalhiti í Reykjavík var 4,1 stig, 0,3 stigum neðan meðalhita næstu tíu ára á undan. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,3 stig og 2,8 stig á Akureyri.
Hiti fór 7 sinnum í 20°C í Reykjavík - höfum þó í huga að nákvæmni var aðeins 1,0°R, en hæsti hitinn 22,5°C þann 11.ágúst. Dagana 28.júlí til 2. ágúst fór hiti í 20 stig alla dagana nema þann 30.júlí. Ekki var sérlega hlýtt á nóttunni þessa daga og þeir komast því ekki á lista yfir hlýja daga (á langtímavísu). Kaldir dagar í Reykjavík teljast hins vegar 9, 6.nóvember kaldastur að tiltölu. Kaldir dagar voru aðeins fjórir í Stykkishólmi, 5.nóvember kaldastur. Sjá má lista yfir dagana í viðhenginu.
Úrkoma mældist 838 mm í Reykjavík, mjög úrkomusamt var í janúar, febrúar, mars og september, en fremur þurrt í júní og júlí.
Meðalloftþrýstingur var óvenjuhár í september og fremur hár í júní, ágúst og desember. Þrýstingur var fremur lágur í janúr og júlí. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi 7.febrúar, 952,6 hPa, en hæstur á sama stað þann 27.desember, 1035,1 hPa.
Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar. Áberandi lítið er rætt um veðurlag á Austurlandi - nánari upplýsingar um það kunna að finnast við ítarlegri leit.
Ársritið Gestur Vestfirðingur 1850 [lýsir veðri ársins 1849] (lítillega stytt hér):
Þegar ég á að bera öldum mönnum og óbornum söguna frá árferð ársins 1849, eins og það hefir reynst Vestfirðingum, ætla ég, að árið megi með sanni telja eitt meðal hinna hagstæðustu árgæsku-ára. Að sönnu byrjaði það með umhleypingum og fannalögum, svo töluverð vetrarharka og hagbann hélst fram undir góulok [seint í mars], en bæði var veturinn snjólaus og mildur til nýárs, og líka gjörleysti fannir aftur á einmánuði, þegar sunnanáttir, regn og leysingar héldust við samfleytta 10 daga. Vorið var oftar blítt og hægviðrasamt, en jafnan nokkuð kalt á næturnar, þó var jörð víða vel gróin i fardögum, svo sóley og fífill skreytti þegar tún og engi; en þaðan í frá og fram yfir miðsumar voru sífeld bjartviðri, sólarhiti á daginn, en stundum frost á nóttunni; gras spratt því mjög seint, einkum á túnum og harðvelli, og náði sumstaðar naumast meðalvexti. En mæta vel vannst að grasinu sökum hinnar hagstæðu veðuráttu um heyanna tímann; nýting varð hin besta, og úthagar spruttu allvel, svo heyaflinn varð í góðu meðallagi, og þaðan af betri; svo var og haustveðráttan líka góð, að margir voru að heyvinnu venju lengur fram eftir, og ekki einungis haustið, heldur og veturinn allt fram að árslokunum var blíðviðrasamur og hagstæður; um veturnætur komu frost venju fremur, um það leyti árs, og náðu þau 1416 mælistigum; en þetta stóð ei nema vikutíma. Í 22. viku sumars [um miðjan september] komu rigningar miklar, svo eigi mundu menn aðrar meiri; ollu þær víða á halllendi miklum skriðum á tún og engjar; sumstaðar skemmdust svo hey í görðum, að draga varð þau í sundur. Leysingar og stórrigningar eftir góulokin ollu og furðumiklum skriðum og snjóflóðum sumstaðar, er skemmdu bæði haglendi og hús. Hvergi ætla ég yrði þó jafnmikil brögð að þessu, og í Stapadal við Arnarfjörð. Er svo sagt, að 11.dag febrúarmánaðar hafi snjóflóð tekið þar og fleygt út á sjó heyhlöðu með heyi í, spelahjalli með töluverðum skipaútbúnaði og veiðarfærum, nýju sexrærings-skipi og fjárhúsi með 40 sauðum og 30 gemlingum (lömbum); nokkuð af sauðkindum þessum náðist dautt út um sjó. Fjárhús og sauðkindur fórust og af snjóflóða-skriðum bæði í Gjörfudal í Ísafirði, og á Geirmundarstöðum í Steingrímsfirði. [Annáll 19.aldar segir að um svipað leyti hafi þrjú hross farist í snjóflóði frá Silfrastöðum í Skagafirði og eitt hrapað til dauðs].
Sjávarafli reyndist vel um Vestfirði eins og víðar; vetrarhlutir undir Jökli urðu minni en í fyrra, og ollu því ógæftir um fiskigengdartímann, hlutir töldust þar 24ra hundraða. Aftur urðu vorhlutir þar í veiðistöðunum hærri en í fyrra, og gáfust nú 3 hundruð til vorhlutar. ... Allt eins voru bestu aflabrögð að vorinu fyrir sunnan Jökulinn, í veiðistöðum öllum, og það inn eftir öllum Faxafirði, ekki einungis eins langt og Snæfellssýsla nær, heldur einnig inni á Mýrum, og var víða landburður síðari hluta vorsins, og er það á orði, að menn, sem voru ekki vanir fiskiveiðum þar heim undan hjá sér, hafi þó með góðu fylgi reynt að hagnýta sér fiskigengd þessa, og aflað töluverðu af þorski. En bæði þar og annarstaðar var fiskur mjög magur, líkt og við hefir gengist þessi seinni árin. Um Breiðafjörð gætti minna þorskaflans, en annarstaðar vestra; þó fiskaðist í betra meðallagi, og vart varð við nýja fiskigengd sumstaðar, þar sem í mörg ár áður fannst ei fiskur á fornum miðum. Héldu menn, að þorskgengd þessi hefði haldið ferð sinni áfram inn á hina mörgu smáfirði, sem liggja inn úr Breiðafirði, þótt enn hafi ekki tekist að veiða fisk inni á þeim, eða finna þar sumarstöðvar hans, og er það þó víðast hvar vestur um fjörðu og í Strandasýslu, allt inn á Hrútafjörð, og hefir þessi innfjarðaafli vel gefist sumstaðar þetta ár, svo þeir, sem gátu vegna annarra búanna sinnt fiskigengdinni, fengu viða 1 hundrað þorska á skip á eitt haldfæri á dag, og sumstaðar talsvert af flyðri og skötu, ... Vorselaafli og hrognkelsaveiði heppnaðist viða ágætlega vel. Þó virtist sem hrognkelsagengdin væri sumstaðar minni nokkuð, en verið hefir að undanförnu.
Þetta ár í Vestfirðingafjórðungi veit ég ei aðra skipskaða en þessa: 1) bátur týndist frá Otrardal í Arnarfirði 22. dag mars í byljóttum útsynningshroða; þar týndist presturinn séra Ólafur Pálsson og ungmenni tvö, sonur hans, Þórarinn og systursonur hans, Árni Vídalín. 2) Róðrarbátur með 6 mönnum týndist við landtöku 8. dag september við Ingjaldssand hjá Dýrafirði, þá er hann í uppgangshvassviðri kom af róðri; formaðurinn hét Eiríkur, og urðu þar að sögn 5 ekkjur. Smiður nokkur, að nafni Jón Guðnason, Einarssonar frá Harastöðum, drukknaði í Rifsós 29. dag desember [1848].
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Lognfönn lá á jörð og frosthægt veður, hríðarbylur 13.-16. jan., og 20. gjörði bloti jarðlaust til dalanna til 12. febr. Eftir það óstöðugt og kafaldasamt. Með góu landnorðanhörkur. Í mars aftur austan og sunnanátt með köföldum, svo að beit urðu lítil not, 14.-18. góð hláka. Var þá farið að bera á heyleysi allvíða austan Blöndu og norður frá.
Reykjavíkurpósturinn segir frá tíð í janúar (s66):
Þennan mánuð hefur hér sunnanlands verið allgóð vetrarveðurátta; framanaf mánuðinum féll mikill snjór á jörðu, svo sumstaðar kvað hafa verið jarðbann fyrir útigangspening vegna snjóþyngsla, og þetta hélst til mánaðarins loka; en frost voru ekki mikil, og þegar á mánuðinn leið oftast hæg veðurátta.
[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á janúarveðráttu í Reykjavík]: Fyrstu 5 dagana af þessum mánuði var gott veður og hægð með hrímfrosti um nætur; þann 6. var snjóþoka með drífu og austanvindi, og þann 7. slydduveður á austan með rigningu og hljóp í suður útsuður um kvöldið í rökkri; voru þá skruggur mjög miklar og reiðarþrumur sem varaði fram á nótt [Reiðarþrumur eru hér sunnanlands mestar nálægt vetrarsólstöðum, en víðast í öðrum löndum eru þær mestar á sumrum; svo gengu og miklar þrumur þann 28. desember seinastliðna, [1848]]. Eftir það var vindur á ýmsum áttum, eða logn, og féll mikill lognsnjór þann 10.; þann 12. var sunnan þíðvindi og rigning. Síðan hefur veðurátta verið oftast óstöðug og umhleypingasöm, oftar frost en þíða, þó mest hafi verið austanvindar, og hlaupið til útsuðurs með snjógangi; eftir þann 12. hefur í 5 daga eina frostlaust orðið, nefnilega þann 16. og 20., og þá 3 daga saman 27.- 29. og þótt vindur hafi hlaupið í norðurátt við og við, hefur aldrei orðið degi lengur stöðugt.
Jón Austmann í Ofanleiti segir í febrúarskýrslu sinni: Nóttina til þess 8. óttalegur orkan frá vestnorðvestri, hús fuku um koll skip brotnuðu, líka varð heyskaði, Ofviðri frá 8. til þess 12. Síðan ég hefi minni til nú 62. ár hefi ég ekki lifað annan eins umhleypingavetur.
Ingibjörg Jónsdóttir segir í bréfi rituðu á Bessastöðum 7.mars (s241): Hér eru mestu harðindi. Enginn fiskur nú. Fjarska stormar hafa brotið fjölda skipa í Rangárvallasýslu.
Reykjavíkurpósturinn í febrúar (s78)
[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á febrúarveðráttu í Reykjavík]: Frá byrjun þessa mánaðar, og til þess 20. dags, hefur verið einhver hin stirðasta veðurátta, með stormvindum, miklum köföldum, slyddublotum, rigningum og umhleypingsvindum frá austri til suðurs, útsuðurs og vesturs; hefur oft verið stórviðri á ýmsum áttum á einu og sama dægri, og ýmist verið frost eða þíða fleirum sinnum á sólarhring, hafa því orðið jarðleysur víða, eða mjög illt í högum: en frá þeim 20. til mánaðarins enda hefur verið stöðug norðanátt með töluverðu frosti og stundum kafaldskófi.
Reykjavíkurpósturinn í mars (s100):
Árferði og fréttir. Framan af þessum mánuði var árferð hér syðra hin sama og vetrarríki engu minna enn áður; en þegar kom fram í mánuðinn, gekk vindur til suðurs og kom þá hagstæð og hæg hláka; leysti þá allan snjó í byggð, og kom þessi bati mjög í þarfir, því peningur hafði þá lengi verið á gjöf, og margir orðnir tæpstaddir með heyforða handa skepnum sínum. Þegar á mánuðinn leið, gekk veður aftur til útsuðurs og norðurs og ókyrrðist mjög, svo aldrei gaf að kalla á sjó, hefur þetta haldist til mánaðarloka.
[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á veðráttu í mars í Reykjavík]: Fyrstu 9 dagana framan af þessum mánuði var oft stormviðri og umhleypingar af landnorðri, suðri og útsuðri með snjógangi og kafaldi, líkt og verið hafði lengst af í febrúarmánuði, en þann 10. brá til batnaðar, með sunnan þíðviðri og rigningu, hélst sú þíða tíð, með hægri leysingu fram yfir þann 20. svo mestallan snjó leysti burt af láglendi hér um kring. Þann 21. var landsynnings stórviðri með ofsarigningu, en með þeim 24. byrjuðu aftur frost og kuldar, með útsunnan vindi, og hljóp stundum í austur landnorður, með kafaldi, og einkum miklu snjófalli í logni þann 30.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Í marslok hríðarkafli, svo gott til 12. apríl, þá kuldakast til sumars. Vorið kalt. Þó kom nokkur gróður með maí. Vegna náttfrosta tók ei gadd af heiðum fyrr en eftir fardaga. Lestir fóru um sólstöður yfir gadd og hagleysu suður fjöll.
Reykjavíkurpósturinn í apríl (s115);
Í þessum mánuði hefur veðrátta hér syðra mátt heita fremur köld, enda hefur vindur sem oftast verið norðlægur. Snjóinn mikla, sem féll um mánaðarmótin, leysti þó upp, og nú er hér lítill eða enginn snjór í byggð. Útigangspeningur er sagður grannholda hjá almenningi, og er það því mjög undir vorinu komið hvernig skepnuhöld verða í vor, því heybirgðir eru hjá allflestum mjög litlar, þar sem margir voru komnir á nástrá með hey, þegar batinn kom í einmánuðinum.
[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á veðráttu í apríl í Reykjavík - birtist í maíblaði Reykjavíkurpóstsins]:
Þessi mánuður var að sínu leyti, líkt og mars; norðan- og landnyrðings kæla, hélst oftast við, fram yfir þann 20. með næturfrostum, þó jafnaðarlega með hægum vindi, en gróður var lítill. Eftir þann 21. voru ei næturfrost, nema 2 nætur, 27. og 28., en þó kuldanyrðings veðurátta.
Reykjavíkurpósturinn í maí (s143):
Vorið, sem nú er liðið, var hér sunnanlands hagstætt, en fremur þurrt og næturfrost, lengi frameftir; greri því seint, og ennþá má gróður ekki kallast nema í meðallagi. Norðanlands er sagt vorið hafi verið kalt og hretviðrasamt, og peningur gengið magur undan, einkum í Skagafirði, en í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum kvað peningshöld hafa verið miklu betri, enda hafði veturinn verið því hagstæðari sem lengra kom norður og austur eftir, og þannig miklu betur fyrir norðan enn fyrir vestan Reykjaheiði.
[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á veðráttu í maí í Reykjavík - birtist í maíblaði Reykjavíkurpóstsins]: Í þessum mánuði voru líka lengi frameftir austan kælur; næturfrost voru að sönnu ekki, en þó oft kalt í veðri, og þegar skúrir komu einstaka sinnum, helst seint í mánuðinum af austri eða suðri, voru það oft krapaél til fjallanna; annars voru vindar oft hægir eins og í næsta mánuði á undan, og því fiskigæftir góðar. Eftir þann 23. voru hlýindi fáeina daga með regnskúrum.
Þorleifur í Hvammi segir af þrumuveðri síðdegis þann 29.maí.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Eftir Jónsmessu góð gróðrartíð, en frá 7. júní þurrkasamt. Spratt vel á deiglendum túnum, hálsum og votengi, en lítið á harðlendi. Þó batnaði það til höfuðdags. Sláttur hófst í miðjum júlí. Breiskjur og vatnsleysi hélst til 19. ágúst, eftir það rekjur og góðviðri með nýting eftir þörfum. Gras dofnaði seint og varð meðalheyskapur. Þar með voru óslegnar engjar í fyrra, er spruttu nú allvel. Almennt hirt um göngur.
[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á veðráttu í júní í Reykjavík - birtist í júlíblaði Reykjavíkurpóstsins]:
Í þessum mánuði hefur veður verið mjög kalt og þurrt, vindur oftast hægur eða logn, en þó lengstum við norður og landnorður. Frá þeim 20. til 26. var við og við austan átt með regnskúrum, sem þó voru helst til muna nálægt fjöllunum, varð því grasvöxtur sárlítill, einkum á harðlendi. Að öðru leyti hefur verið hin besta veðurátta og stöðugasta.
[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á veðráttu í júlí í Reykjavík - birtist líka í júlíblaði Reykjavíkurpóstsins]:
Í þessum mánuði var lík veðurátta og hinum næsta þar á undan, oftast hægð og góðviðri, þó var helst norðanátt, sem ýmist brá til austurs, landnorðurs eða vesturs útsuðurs. Framan af mánuðinum voru einstaka sinnum regnskúrir, og þó ei miklar, nema máski til fjalla, en eftir þann 20. hefur ei mátt heita að deigur dropi hafi fallið, og valla dögg á næturnar, því ýmist hefur verið þykkt loft og þurrt, eða útnyrðingsgola, hefur því grasbresturinn ekki batnað á harðlendi, en nýting verið góð á því, sem náðst hefur af jörðunni.
Þann 5. ágúst mældist hiti í Odda á Rangárvöllum 20°C og 23°C daginn eftir. Þann 31. ágúst er getið um töluverðan jarðskjálfta á Odda á Rangárvöllum. Hiti fór yfir 20 stig á Akureyri 13. og 14.júlí.
[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á veðráttu í ágúst í Reykjavík - birtist í septemberblaði Reykjavíkurpóstsins]:
Í þessum mánuði var eins og framanaf sumrinu mikið þurrt veður, oftast og allt til þess 18. stöðugur þerrir með hægri norðankælu og lognum, frá þeim 18. til 24. var austan landsynningsátt með litlum regnskúrum, og síðan var aftur útnyrðingur og þerrir til þess 29., svo að veðuráttan mátti heita hin besta sumarveðurátta.
[Lýsing Jóns Þorsteinssonar á veðráttu í september í Reykjavík - birtist líka í septemberblaði Reykjavíkurpóstsins]:
Í byrjun þessa mánaðar var austanvindur og rigningar, og hélst það við með köflum fram að þeim 20., þó voru fleiri dagar í einu þurrir, frá 5. til 7. og 9. til 12., en frá þeim 21. til mánaðarins enda, var þerrir og bjartviðri oftast, og logn eða lítil norðankæla, svo að heyannir enduðu með góðum þerri, eins og sumarið hefur verið gott og þurrt, og bætti góð nýting upp grasbrest þann, er víða varð af vorkuldum og miklum þurrk framan af sumrinu.
Í september segir Þorleifur í Hvammi: 20.september stórregn frá kl.1 til þess að kl. var 1 f.m. þann 21. með miklum vatnsgangi.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur til nýárs]:
Haustið gott, en regnasamt og hret. 3.-4. okt., sem oft hittir á ös mikla í Höfða. Lengi var freðin jörð, þó auð væri. 31. okt. hríð og nokkur snjór, en 4., 5. og 6. nóv. allra mesta norðan-ofsahríð og fannkoma mikil, innistöður yfir fleiri sveitir, þar eftir gott veður og jarðlag móti norðri. 20.-24. góð hláka og eftir það góð tíð og auð jörð, ásamt til fjalla, auðar ár og vatnavextir 28. nóv. Þíður 10., 13., 19., 23., 25. des.
Þjóðólfur fer lauslega yfir veðurlag ársins þann 16.nóvember:
Veturinn 1848 og 49 mátti heita í harðara lagi. Eftir því sem vetrarfar hefur verið um mörg undanfarin ár; var einkum snjókoma mikil seinni hluta vetrarins þó sjaldan væru frost til muna. Það mátti varla heita úrkomulaus dagur frá jólum og til pálmasunnudags [1.apríl]; kyngdi og þann dag svo miklum snjó niður, að hann tók í mitt læri á jafnsléttu. En eftir það kom líka batinn, og hann svo góður, að eigi sást snjór á láglendi á páskum [8.apríl], og var það mest fyrir sólbráð, því lítið rigndi alla vikuna. Þannig viðraði svo vorið allt og sumarið; voru rigningar með minnsta móti sem verið hefur, því tíðast var hæg norðankæla, eða logn og heiðríkja. Vertíðarafli var víða hvar í meðallagi, en afbragðsmikill í Höfnum, því þar voru 1200 hæst til hlutar.
Lanztíðindi segja þann 1.desember frá októbertíðarfari í Reykjavík:
Fyrstu 5 dagana af mánuðinum var norðanátt og kæla með næturfrosti; þann 6. og 7. rigndi lítið eitt, en að öðru leyti var gott veður og þurrt til þess 13., þá var hæg sunnanátt 34 daga með þoku og rigningu til þess 16., þá varð aftur þurrt veður til þess 22. með norðankælu; síðan var ýmist austanátt eða útsynningur, oft með skúrum, eða snjóéljum til fjallanna. Snjó festi aldrei dægri lengur á láglendi; en meira varð af honum til fjalla og á hálendi öllu; þann 31. var norðanstormur.
Lanztíðindi segja þann 20. desember frá veðráttufari í Reykjavík í nóvember:
Fyrstu dagana af þessum mánuði var landnyrðings- og norðanátt, fyrstu 3 dagana með hægð og lítilli snjókomu, en þá næstu 3 daga 4. til 7. var mikið harðviðri á norðan, með kafaldi, og nálægt 10° frosti; eftir það lægði veðrið, og gekk til austurs með hægð, var þá eftir þann 10. oft gott veður og stundum þíða, til þess 24., þá varð bjartviðri logn og hrímfrost í 3 daga hvern eftir annan, en seinustu daga mánaðarins var landsynningur með miklum rigningum.
Lanztíðindi segja þann 31.janúar 1850 frá veðráttufari í desember [1849]í Reykjavík:
Í þessum mánuði hefir verið einhver hin besta vetrarveðurátta, svo að meira líktist vorveðri með næturfrosti, en veðurfari um hávetur. Fyrstu vikuna var hæg austanátt, með þíðu nálega hvern dag, og stundum litlu næturfrosti; eftir það var einstaka sinnum nokkuð frost, og rigningar á austan-landsunnan, og hljóp vindur við og við til suðurs-útsuðurs, en stundum var logn heila daga (t.a.m. þann 15. og 16.) og þíðurnar héldust við, allt til þess 26., þá kom norðanátt með frosti, sem varaði þó ei nema rúmlega 2 daga, svo að seinustu 2 dagana var aftur þíðvindi og hægð.
Þann 27.desember segir séra Þorleifur í Hvammi: Þráðbeinn geisli upp af sól í uppgöngu hátt upp á loftið.
Í ritinu Skriðuföll og snjóflóð telur höfundurinn (Ólafur Jónsson) að snjóflóð sem féll á bæinn Víðidal í Lóni (á Lónsöræfum) hafi átt sér stað á þrettándadagskvöld 1849 - þar fórst bóndinn og synir hans, en húsmóðirin og dóttir hennar lifðu af og brutust til byggða. Ólafur segir ítarlegustu frásögnina af þessum atburði í Syrpu II, 1948. Einnig segir Ólafur frá krapahlaupi sem féll á kotbæinn Klofa í Eskifirði 21.nóvember 1849.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1849. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt 14.10.2020 kl. 15:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2020 | 23:50
September enn
Við lítum nú á hálofta- og sjávarhitastöðu í nýliðnum september. Mánuðurinn var í kaldara lagi miðað við það sem algengast hefur verið síðustu árin. Háloftavindar voru ívið stríðari af bæði vestri og suðri heldur en að meðaltali og 500 hPa-flöturinn var lægri en meðaltalið segir til um - það síðasta segir okkur að loftið hafi verið af nokkuð norrænum uppruna þó það hafi hingað komið úr suðvestri.
Fyrsta kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í september (heildregnar línur) en litafletir sýna vik frá meðallagi. Bláu vikin eru neikvæð, en þau brúnleitu eru jákvæð. Af þessu má ráða að háloftavindar hafa verið að mun stríðari en venjulega milli Íslands og Bretlandseyja.
Hér sýna heildregnu línurnar enn hæð 500 hPa-flatarins, þykktin er dregin með daufum strikalínum, en þykktarvik er sýnt í lit. Þykktarvikamynstrið er ekki ósvipað hæðarvikamynstrinu - veður var kaldara en venjulega yfir Grænlandi og Íslandi, en hýrra yfir meginlandinu - sérstaklega við Eystrasalt. Vikið yfir Vestfjörðum er milli 40 og 50 metrar, það samsvarar því að hiti í neðri hluta veðrahvolfs hafi verið rúmlega -2 stigum undir meðallagi. Vik eru minni yfir Austurlandi, rúmir 20 metrar.
Þetta vikamynstur háloftanna er nægilega eindregið til þess að leita má uppi svipuð tilvik í fyrri septembermánuðum. Það líkasta sem finnst við snögga leit er september árið 1989, en eitthvað svipað mun líka hafa verið uppi árið 2009, 1969 og jafnvel 1929. Einhverjir hefðu e.t.v. freistast til að búa til reglu - svona staða kæmi bara upp ef ártalið endaði á 9. En þannig ganga hlutirnir ekki fyrir sig í raunveruleikanum - lofthjúpnum er nákvæmlega sama hvað árið heitir.
Hér má sjá stöðuna í september 1989 - harla lík stöðunni á fyrri mynd, nema hvað mesti kuldinn var aðeins vestar þá heldur en nú - það kom líka fram í þykktarvikamynstrinu. Kaldast var á Vestur-Grænlandi. Um þann mánuð segir í textahnotskurn ritstjóra hungurdiska: Rysjótt tíð nema austanlands. Uppskera úr görðum í rýrara lagi. Hiti var í meðallagi. Já, hiti í meðallagi - hann var það eiginlega líka nú sé miðað við eldri meðaltöl. Meðalhitinn í Reykjavík var nú jafn meðallaginu 1961 til 1990, örlítið hærri en í september 1989. Það er erfitt að eiga við þessar stóru breytingar á langtímameðaltölum.
Til gamans skulum við að lokum líta á sjávarhitavik í þessum tveimur septembermánuðum.
Skýrara eintak myndarinnar má finna í viðhenginu. Hitavik september 2020 eru til vinstri á myndinni, en 1989 til hægri. Efra myndaparið sýnir Norður-Atlantshaf, en það neðra Norðuríshafið. Sjávarhiti er víðast hvar fyrir ofan meðallag nú - nema á litlu svæði fyrir norðan og norðaustan land. Hitavikin í Norðuríshafi eru hreint ótrúleg - enda ísútbreiðsla nú miklu minni en venja hefur verið. Í september 1989 var sjávarhiti víðast lítillega neðan meðallags kringum Íslands, en reyndar ofan meðallags í Barentshafi og þar austur af - rétt eins og nú. En þá þakti ís miklu stærra svæði heldur en nú. Við skulum hafa í huga að meðalsjávarhiti er ekkert sérlega vel skilgreindur á hafísslóðum - á það líka við ísasvæðið við strönd Norðaustur-Grænlands.
En sjávarhitavik á þessum tíma árs (í lok sumars) segja ekki endilega mikið um stöðuna á komandi vetri. Þegar illviðratíðni vex blandast yfirborðssjór betur því sem undir liggur - og önnur vik geta afhjúpast. Rétt að gefa því gaum.
Bestu þakkir til BP fyrir alla kortagerð.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.9.): 63
- Sl. sólarhring: 158
- Sl. viku: 1781
- Frá upphafi: 2499558
Annað
- Innlit í dag: 55
- Innlit sl. viku: 1628
- Gestir í dag: 54
- IP-tölur í dag: 53
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010