Fyrri hluti nóvember

Meðalhiti fyrri hluta nóvember er 3,9 stig í Reykjavík. Það er +1,0 stigi ofan meðallags áranna 1991 til 2020 og +0,6 stigum ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Raðast hitinn í 10.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2011, meðalhiti þá 6,7 stig, en kaldastir voru þeir 2010, meðalhiti -0,5 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 29.hlýjasta sæti (af 145). Hlýjastur var fyrri hluti nóvember árið 1945, meðalhiti þá 8,2 stig. Kaldastur var hann hins vegar 1969, meðalhiti -2,6 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta nóvember 3,4 stig, það er +2,0 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +1,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur fyrri hluti nóvember verið hlýjastur á Austfjörðum, þar er hann sá þriðjihlýjasti það sem af er öldinni, en kaldast að tiltölu hefur verið við Faxaflóa, þar er hitinn í 11.hlýjasta sæti aldarinnar. Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á flestum veðurstöðvum landsins. Mest er jákvæða vikið á Þórdalsheiði og á Egilsstaðaflugvelli, +2,0 stig, en neikvætt vik er mest í Hvammi undir Eyjafjöllum, -0,3 stig.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 42,3 mm og er það í tæpu meðallagi síðustu 30 ára. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 27,7 mm eða um 80 prósent meðallags.

Sólskinsstundir hafa mælst 21,7 í Reykjavík og má það heita í meðallagi.


Af árinu 1855

Árið 1855 var heldur óhagstætt. Óvenjuharðan frostakafla gerði í febrúar en vorið var skárra. Sumarið var blautt á Suðurlandi, en skárra annars staðar. Haustið var hagstætt. Veðurstöðvum hafði nú fækkað, þó voru nokkuð ítarlegar mælingar á hita- og loftþrýstingi í Stykkishólmi og einnig var mælt allt árið í Hvammi í Dölum og á Hvanneyri í Siglufirði. 

Meðalhiti í Stykkishólmi var 2,6 stig, 0,9 stigum neðan meðallags næstu tíu ára á undan. Áætlaður meðalhiti í Reykjavík er 3,4 stig, en 1,9 á Akureyri. Sérlega kalt var í febrúar og í október. Sömuleiðis var kalt í janúar, mars, maí og ágúst, en aftur á móti óvenjuhlýtt í júlí - en það var eini hlýi mánuður ársins. Svo virðist sem hlýrra hafi verið norðanlands heldur en sunnan í þeim mánuði.

ar_1855t

Nítján dagar ársins voru óvenjukaldir í Stykkishólmi, 7 í febrúar, 4 í mars, 3 í maí, 3 í júní og 2 í október. Kaldast var síðast í febrúar. Sólarhringsmeðalhiti þann 24. var -21,6 stig í Hólminum og lágmarkshiti fjögurra daga í röð neðan við -20°C, mestur -24,5°C þann 24. Meðalhiti var undir -10°C í nærri því hálfan mánuð. Ekki hefur verið lokið við að fara yfir allar hitamælingar á landinu þessa daga en víða var mjög mikið frost. Séra Jón Austmann segir í athugasemdum um febrúarmánuð (sem ekki eru alveg skýrt orðaðar): „Himinblíða 1. til 14. feb. [frost fór í -20 stig um þ.20]. Þar eð termometrið tók eigi nema 20- varð eigi með vissu ágiskað hvað frostið steig hátt, svo tók ég það inní hús er vissi að 2-3° herti frostið eftir það. Þurrt mest allan mánuðinn“. Að frost fari í meir en -20° í Vestmannaeyjum er vægast sagt óvenjulegt. Meðalhiti í Ofanleiti reiknast -6,6 stig í febrúar. Við vitum ekki fyrir víst hversu vel má treysta þessari tölu en hún er mun lægri en öll síðari tíma mánaðameðaltöl hita á stöðvum í Eyjum. Óvenjuleg ísalög voru á fjörðum, t.d. á Breiðafirði og Eyjafirði. Sömuleiðis er getið um óvenjulega ísa á Þjórsá og Hvítá fram eftir. (Sjá fregnirnar hér að neðan). 

ar_1855p

Loftþrýstingur var óvenjuhár í bæði janúar og febrúar. Þá var þrýstiórói einnig með minnsta móti í febrúar og mars. Veður var lengst af stillt, þurrt og bjart. Norðurljósanætur mjög margar í Stykkishólmi. Greinilegt er að miklar fyrirstöðuhæðir hafa haldið sig nærri landinu - en svo fór að lokum að þær fóru vestur fyrir og sérlega kalt loft komst til landsins - trúlega alla leið úr Norður-Íshafi. Mikill hafís var fyrir norðan land þannig að ekki var um neina sjávarhitun lofts að ræða þar til komið var suður fyrir Ísland. Febrúar var líka sérlega kaldur á Bretlandseyjum, sá þriðjikaldasti í meir en 300 ára sögu veðurathugana þar - og frost hljóp í jörð á Norður-Írlandi.

Þrýstingur var einnig vel ofan meðallags í maí, en vel undir því í apríl. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 9.apríl, 968,6 hPa, en hæstur á sama stað þann 28.janúar, 1043,7 hPa. Árið virðist ekki hafa verið sérlega illviðrasamt, þrýstiórói þó með meira móti í september.

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar. Óvenjumargir virðast hafa orðið úti. Fregnir voru greinilega mjög óljósar af mörgum slysum og óhöppum og ber heimildum ekki alltaf saman.   

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Hagleysi yfir allar sveitir og hross mjög hrökuð orðin og komin flest á gjöf, Var nú miklu lógað af folöldum og gömlum hrossum. Þótti búlaust fólk eiga of margt af þeim, með lítilli fyrirhyggju, utan hvað sumir kostuðu upp á óþarft eldi þeirra, sem fór nú af. 13. jan. kom snöp í lágsveitum, en 21. gerði mikla lognfönn ofan á gaddinn. Skeljaði hana og hélst svo bjargleysið, utan í Tungusveit og yst á Ásum og jarðsældarplássum, þar nokkuð reif af, svo léttir var lengi. Allan þorra var veður stillt og bjart, frosthart og ófærð af brotafönn. 3 fyrstu góudaga milt veður, en 21.-26. febr. mesta grimmdarharka. 27. hlóð enn niður lognfönn svo bæir voru í kafi og ófært með skepnur milli þeirra. Var þá ís kominn að öllu Norðurlandi, hey farin mjög að minnka og útlit fyrir felli, kæmi ei jörð upp fyrir sumar. 8. mars blotaði og komu upp rindar í Hlíðar- og Holtastaðafjalli og brátt voru hross og sauðir rekin þar á. Hjarnaði svo í lágsveitum. Um góulokin lagði ísinn frá landi, þá menn síst væntu þess, án þess veður ræki hann. Um það bil kom snöp mót vestri. 27. mars kom þíða, er varði vikutíma. Kom þá upp jörð í flestum sveitum, svo fé lifði af gjafarlítið.

Þann 14.febrúar segir athugunarmaður á Siglufirði frá hafís svo langt sem tilsjáist. Þar fannst jarðskjálfti 11.mars. 

Norðri fer yfir tíð og slysfarir í pistli þann 14.febrúar (lítillega stytt hér):

Veðuráttufarið var fyrst eftir nýárið svipað því og fyrir það, en eftir þrettándann blotaði, kom þá upp nokkur jörð; þó lagði aftur að með hríðum, svo í sumum sveitum tókst nær því af öll jörð. Það af er þorranum hafa fádæma stillingar og heiðríkjur gengið. Hafís er nú hér mikill úti fyrir. Þessir menn höfum vér heyrt að hafi orðið úti eða dáið voveiflega: 2. des. f.á. varð vinnumaður Kristján Sigfússon frá Höfða á Völlum í Suðurmúlasýslu, á leið úr Eskjufjarðarkaupstað, úti í svo nefndum Tungudal. Annar 17. [desember] á Seyðisfjarðarheiði, hét sá Halldór og var mállaus. Þriðji frá Ytra-Álandi í Þistilfirði, Marteinn Sigurðsson bóndi þar, fimmtudaginn næsta eftir nýár og hefur hann ekki fundist og er haldið að hann muni hafa i stórhríðinni og náttmyrkrinu, er þá var, hrapað þar fram af sjávarhömrum. Maður, Bergvin að nafni, var sendur frá Fossvöllum á Jökuldal norður að Grjótnesi á Sléttu, og þegar hann fór til baka hafði hann seinast verið á ferð með bræðrum 2, Sakkaríasí og Eiríki frá Ormalóni á Sléttu, en var þó skilinn við þá og kominn á undan þeim, en síðan ekki til hans spurst, og eru ýmsar getur um hvarf hans. Tveir menn lentu í snjóflóði í svonefndu Sauðárgili nálægt Gönguskörðum £ Skagafirði, og komst annar þeirra úr því en hinu lést og var þó sá meiri maður fyrir sér. Unglingsmaður frá Skatastöðum £ Skagafirði hefur týnst, og er haldið að hann hafi hrapað þar og lent í hinni svonefndu Jökulsá eða þá, að ískörin hafi bilað undan honum við ána. Maður hafði orðið úti um jólaleytið úr Miðfirði, sem var þá á ferð um Víðidal, og annar er sagt að hafi í [janúar] orðið úti á Vatnsnesi. Tveir menn er sagt að hafi orðið úti á Mýrum, er áttu heima á Búðum eða þar £ grennd, og sýndist þegar fundust sem einhverjum áverka hefðu sætt, og frá þeim horfið nokkuð af því, er þeir áttu að hafa meðferðis. ... Kvenmaður hafði orðið úti í Álftanesi. ... Á jóladagskvöldið lögðu 4 kvenmenn frá Reynistaðarkirkju, er áttu heima þar á næstu bæjum, en þá brast á stórhríð, svo þær villtust, tóku því til bragðs að grafa sig í fönn og lágu þar úti í full 3 dægur. Ein þeirra var allan þann t£ma á flakki og ýmist vann að því, að hlúa að hinum eða þá bjástra eitthvað sér til hita. Loksins þegar hríðina birti upp, fundust þær þá skammt frá bæjum,var þá ein, er gróf sig í snjónum, kalin til stórskemmda, svo að fætur mun missa upp að ökklum, en hinar lítið sem ekkert, og sú sem úti var, alls ekkert. Og er tekið til þess sem vert er, hvílíkur kjarkur hennar, harka og þol sé. Með sendimanni séra Jóns Kristjánssonar á Ystafelli, er hann á jólaföstunni sendi suður í Reykjavík og kom aftur hingað úr þeirri ferð 18. [janúar], fréttist að miklir útsynningar með snjókomu hefðu þá lengi verið syðra og ógæftir miklar, Maður sá, sem héðan var sendur suður fyrir nýárið eftir bréfum og fréttum, et kæmu með Liverpúlsferð póstskipsins, kom hingað aftur 8.[febrúar] og barst með honum sú frétt, meðal annarra, að í hlákunni, sem gjörði eftir þrettándann hefði víða orðið öríst um Suðurland, og hefðu því þar verið góðir hagar allt norður undir Holtavörðuheiði, en úr því mikil fönn og jarðbannir. Allt fram í næstliðinn mánuð fréttist, að eystra suður í Lón og allt vestur að Rangárvallasýslu hefði og verið lítið um haga vegna áfreða og glerungs, nema í Öræfum góð jörð.

Þjóðólfur segir af tíð og slysförum þann 22.febrúar:

Það vill einatt verða hér, að ýmsir menn fara hörðum förum, þegar slík langvinn illviðri og harðindi ganga almennt yfir, eins og hefir verið á þessum vetri; illviðrin og hörkurnar lögðu víðast að um land fyrir og um jólaföstu, og jafnvel fyrr í Múlasýslum; og með þeim stöðugu byljum og fannfergi, sem upp frá því gengu, fram undir miðjan janúar, þá mun sjaldgæft, að jafnfáir menn hafi kalið og orðið úti sem þó hefir orðið, eftir því sem spurst hefir getað. Hingað hafa ekki spurst aðrar harðar farir i þeim illviðrakafla, — Auk stúlkunnar sem varð úti á Álftanesi, en um þær 4 stúlkur, sem gengu frá Reynistaðarkirkju í Skagafirði, á jóladaginn, og áttu allar mikið til samleið, en villtust, og fundust ekki fyrr en á 3. degi, allar með lífi en meira og minna kaldar; þó er haldið, að þrjár þeirra verði jafngóðar að mestu, en ein, — og sú hafði verið langverst útbúin, — var svo skemmd, að læknirinn varð að kubba af henni báða fætur um mjóalegg,og var þó talið tvísýnt, hvort hún myndi lífi halda. Í hlákunni, sem gerði um miðjan janúar, komu víða upp nokkrir hagar, ekki aðeins hér sunnanlands, heldur einnig fyrir norðan og vestan. En bæði nyrðra og vestra tók svo að segja algjörlega fyrir þenna bata, eftir hinn mannskæða byl, sem þar varð hvívetna 1. sunnudag í þorra, (21. janúar); þá varð úti maður milli bæja á Vatnsnesi; og fullhermt er að vestan, að þann sama dag hafi orðið úti: 2 menn á Fróðárheiði, 2 á Kerlingarskarði, 2 á Skálmardalsheiði og einn á Kleifum i Gilsfirði.

Norðri segir af veðri þann 28.febrúar:

Síðari hluta mánaðar þessa hefur veðuráttan verið mjög frostasöm og hörð, einkum næstliðna viku, svo frostið varð 22 gr. á Reaumur [-27,5°C], enda eru nú sögð hafísþök norðan fyrir öllu landi, allt austur á Héraðsflóa. Eyjafjörður er nú gengur út á Kljáströnd að austan, en Hjalteyri að vestan, og er það héðan á 3. viku sjávar [20 til 25 km], en þaðan er stappað fullt með hafís. Um aflabrögð er nú ekki að tala. Víðast eru jarðbannir, og margir í voða með skepnuhöld sín, batni ekki þyí bráðara og betur. ... Unglingspiltur nokkur frá Gunnarstöðum í Langanesströndum hafði verið á leið til Vopnafjarðar, sem eftir 6 dægra útilegu, komst fyrst til byggða; var hann þá mjög kalinn á fótum, er leiddi hann til bana að tæpri viku liðinni.

Norðri segir fréttir af hörkum í pistli þann 8.mars:

Í 6 daga af mánuði þessum, hafa verið sömu gaddhörkurnar og næst er getið á undan 10—25 gr. í Reaumur [-12 til -31°C]. Sagt er nú að ganga megi yfir Eyjafjörð þvert og endilangt, hvar sem vilji. Ferfættu gestirnir frá Grænlandi hafa og látið heyra sönglist sína hér undir landi. Hreindýr hafa venju framar sótt ofan í byggð einkum við Mývatn og ekki allfá þeirra þar lögð að velli, og nokkur orðið bráðdauð fyrir hungurs sakir. 3 höfrungar voru drepnir í vök við Hjalteyri hér á firðinum, um það leyti hafísinn var að reka inn og frjósa saman. 2 hnísur höfðu hlaupið í land í Upsakrók. Nokkrir ern nú farnir að koma fyrir skepnum sínum, og margir eru sagðir á flugstig að skera niður meira og minna af peningi sínum. Fæstir munu birgari en svo af heyjum, að þeir komist lengra með skepnur sínar en í páska [8.apríl] eða sumarmál, ef ekkert svíar þangað til. Þegar á fætur var komið á Hvanneyri í Siglufirði um morguninn 24. janúar brá mönnum heldur en ekki mjög í brún, að sjá kirkjuna þar komna af stæði sínu og í hliðina suðaustur á kirkjugarðinn, sem numdi upp undir gluggana. Presturinn séra Jón Sveinsson hafði verið um nóttina út í Siglunesi, og þótti þá heim kom aðkoma þessi ekki góð, sem ekki var von, og því heldur, sem þá var ekki annað sýnna en hann kæmist ekki hjá, að láta draga kirkjuna þar í sundur. Samt réði hann það af að safna saman mönnum úr sókn sinni, nefnilega þar úr firðinum, utan af Siglunesi, vestan af Úlfsdölum og líka innan frá Hraunum í Fljótum, og urðu þeir yfir 40 saman. Menn þessir komu með mikinn útbúnað, blakkir sumar þríhjólaðar, kapla, akkeri, stórviðu og smærri tré, og skorti þar ekkert af því, er hafa þurfti og heldur ekki góð ráð né dugnað og fylgi. Fyrst fengu þeir reist kirkjuna við og jafnframt komið undir hana stórtrjánum og ekið henni á þeim þar til hún komst að öllu rétt og óskökk á grundvöll sinn og fengu þeir þessu að mestu leyti komið í verk á 2 klukkustundum. Kirkjan hafði ekki framar bifast til en eíntrjáningur og það fáa, sem raskast hafði í gripum, varð komið í samt lag sem áður; og sýnir þetta meðal annars, hve vönduð hún er að smíði, jafnframt sem það lofar meistarann, yfirsmið hennar timburmeistara og stórbónda herra Ólaf Briem á Grund í Eyjafirði. 5 borð höfðu aðeins rifnað til skemmda í vestara, en eitt í austara gafli kirkjunnar, sem voru þegar burtu tekin og önnur ný sett í staðinn. Engin rúða hafði brotnað í gluggunum. 15 tunnur af kornvöru höfðu verið í stokkum á kirkjuloftinu, og fullvissa menn að þyngsli þessi hafi meðfram hamlað því, að kirkjan ekki tókst á loft út yfir kirkjugarðinn. Fellibylurinn hafði komið af vesturútnorðri eða ofan úr þarnefndri Hvanneyrarskál, en aðalvindstaðan var af landnorðri.

Aðfaranóttina hins 28.[febrúar] varð unglingsmaður úti innst á Svalbarðsströnd, rétt á móti Akureyri, sem átti heima í Grenivík á Látraströnd, en þá til veru um tíma á Brekku í Kaupangssveit, hann hét Friðrik Guðmundsson, og er haldið að honum hafi orðið snögglega illt, eða að hann hafi verið kenndur, og var hann þó á réttum vegi og varla nema fjárhúsvegur til næstu bæja, þótt þá væri dimmt af nokkurri hríð og náttmyrkri og frostgaddurinn mikill.

Norðri segir af tíð - bjarndýrum og slysförum í pistli þann 24.mars:

Mánudagsmorguninn þann 12.[mars] urðu nokkrir hér um sveitir varir við jarðskjálfta. Í Fjörðum í Suðar-Þingeyjarsýslu urðu menn varir þar við land tveggja bjarndýra og var annað þeirra lítið en hitt stórt, sem bæði voru að veiða fugla í vökum. Og líka sást eitt utar við svonefndan Sjávarsand, sem liggur fyrir botninum á Skjálfandaflóa, var það og að æðarfuglaveiði — varð einum manni, sem þetta heyrði, að orði, að bangsa mundi þykja álíka vænt um veiðilögin og sér, þá segir enn annar að bangsi mundi varla heldur borga þrjú mörk fyrir fuglinn og því síður, að hann bætti við sekt þessa að tiltölu við það hann fækkaði fleirum — . Maður einn gekk þar hjá, hér um 20 faðma, austur sandinn, og gaf dýrið sig ekkert að honum. 12. [mars] kl. 9 e.m. ætluðu 5 menn úr Húsavík fram að lagvaðavökum, en þá þeir voru komnir skammt fram fyrir svo nefnda Böku, sáu þeir hvar stórt Bjarndýr kemur mjög mjúkgengt að þeim. Mennirnir voru verjulausir, þorðu því ekki annað en hverfa til baka og í land, og fylgdi bangsi þeim af kurteisi sinni eitthvað á veg. Sagt er að slóðir eftir Bjarndýr hafi sést á Reykjaheiði framan Kelduhverfis og víðar. Hljóð eða öskur þeirra er sagt líkast því, þá blásið er í lúður. — Hvergi heyrist getið um að hvalir hafi fundist dauðir eða lifandi í vökum, nema á Skagafirði utan Hofós 12 eða 13 barðerar eða höfrungar, og náðust aðeins 3 af þeim, því þá um þær mundir var blotinn og landsunnan- og austanveðrin, er leystu ísinn víða frá landi, svo nú er hann horfinn úr augsýn, en fullir eru hér allir eða flestir firðir og víkur, svo hvergi gætu nú hafskip náð höfnum. Mjög báglega er nú farið að láta af heybirgðum margra, og ekki allfáir farnir að reka af sér, og enn nokkrir farnir að skera niður af skepnum sínum, enda hross farin að hrökkva af. Víðast til sveita eru þó nokkrar snapir og óvíða sögð aftaka fönn. Fjárpestin hefur hér og hvar verið skæð og fækkað töluverðu. Nýlega hafa oss borist bréf af Vesturlandi, og segja þau þetta hið helsta í fréttum: Hafís kvað vera eins og hér fyrir öllum Vestfjörðum og Breiðafjörður víða þakinn lagísum, svo bæði sé gengur og reiður, og segjast elstu menn þar ekki muna dæmi til slíks. ... Margir vita, að Gjögur norðan við Reykjafjörð og vestan Húnaflóa, er hin mesta veiðistaða til hákarls sem Siglunes hér í sýslu, enda voru á leiðinni þangað á dögunum þegar ísinn var að reka inn og frjósa saman 50 manna á stórskipum, er öll frusu inni í Eyjum í Kaldranasesshrepp, er komust hvorki fram né aftur.

Slysfarir: 21. janúar höfðu 5 menn orðið úti í hríðarbyl vestra, af hverjum 2 á Skálmardalsheiði, milli Ísafjarðar og Barðastrandar, 1 í Gilsfirði og 2 á Kerlingarskarði milli Snæfells- - og Mýrasýslna. Í Kelduhverfi í Þingeyjarsýslu hafði sonur prestsins þar, séra Bjarnar Arnórssonar, Eiríkur að nafni, farið þar ásamt öðrum manni í fjárhús á túninu föstudaginn þann 23. [febrúar], er mestur var frostgaddurinn og víða stórhríð. Mennirnir skiptu sér í húsunum og þá hinn var búinn í húsum sínum og kominn heim, var og von á Eiríki á hverri stundu, það dróst því nokkuð þangað til menn freistuðu til að leita hans en fundu ekki fyrr en morguninn eftir, þá kominn eitthvað afleiðis, þó skammt frá og aðeins með lífsmarki, og dó þegar. Hann hafði þó verið vel út búinn.

Ingólfur segir af árferði þann 18.apríl (heldur bjartsýnni en aðrir):

Þegar vér seinast drápum á árferði, sem var rétt eftir nýárið, þá var hljóðið í oss heldur dauflegt, er vér virtum fyrir oss með hverjum svip árið gamla kvaddi oss, og með hvaða útliti hið nýja gekk í garð. Oss þótti þá bæði loft og láð lýsa fremur ískyggilegu útliti. En það sannaðist þá sem oftar, „að ekki er veður lengi að breytast". Sú hin hryðjusama veðurátta, sem gengið hafði frá því fyrir Jólaföstu, hélst aðeins rúma viku framan af árinu; þá gjörði hláku og hægviðri, sem hélst til hins 20. dags janúar; þó leysti ekki svo upp snjó og klaka, að jörð kæmi upp að nokkrum munum, því þegar með þorra komu gekk veðurátta til hægrar kælu með vægu frosti og heiðríkju. Munu færri menn muna jafn bjartan og heiðskíran þorra, því svo mátti kalla að eigi sæist ský á lofti í 5 vikur, nema hvað einstaka sinnum brá yfir hrímþoku, er mun hafa verið undanfari hafíss þess, sem þá var að reka að landinu. Nú þegar góa gekk í garð, gjörðist veðurátta kaldari, þó veðurreynd væri hin sama; var hún tíðast með norðanstormum, nokkru kafaldi og einstaklegri frosthörku um tíma; fylltist þá allt með hafís fyrir norðan og austan, svo að hann rak vestur með landi. En þegar góa var á enda, kom batinn fyrst með heiðríkju og sólbráð, og svo með landsynningum og hláku og hægu skúraveðri; svo vér gjörum ráð fyrir að í miðjan einmánuð hafi jörð víðast hvar komið upp að nokkrum notum. Af því sem nú er sagt af veðuráttufarinu vetur þennan ræður að líkindum, að hann hafi verið allþungur og heyfrekur í flestum sveitum; þó ætlum vér að óvíða hafi orðið tjón að harðindunum bæði fyrir þá sök að flestir, sem heytæpir voru, munu hafa fargað af sér í tíma, og svo þeir, sem birgastir voru, hafa hjálpað hinum, sem í þrot komust, og svo loksins fyrir þá sök, að þegar neyðin var stærst, var hjálpin næst, það er að segja, guð gaf batann, þegar nauðin var bráðust. Þegar litið er nú til aflabragða af sjó vetur þennan, þá má það með sanni segja, að vetrarvertíðin hefir allt til þessa verið einhver hin fiskisælasta; á þorranum var hinn besti afli fyrir sunnan land, sér í lagi í Höfnunum; þá sóttu menn og af Innnesjum góðan afla af haustfiski suður í Garðsjó. Þegar með einmánaðarkomu fór að fiskast innan Faxaflóa í veiðistöðunum kringum Vogastapa, svo eigi hefur í nokkur ár undanfarin aflast eins vel á því sviði; hefur þar verið kallaður landburður til þessa. Fyrst í miðjan einmánuð fór að fiskast hér á Innnesjum, og hefur þar hvervetna gefist hinn besti afli. Þegar vér þá lítum aftur fyrir oss og fram undan, að því leyti sem út litur fyrir bæði til sjós og lands, þá getum vér ekki annað sagt, en að vetur þessi kveðji oss vel, og að vér eigum að horfa fram á gott árferði eftir því sem ráðið verður af aðgjörðum þess oss til handa, sem sendir skúrirnar niður í dalina og stefnir fiskinum inn á miðin.

Norðri segir fréttir þann 16.apríl:

Norðanpósturinn, Vigfús Gíslason, sem byrjaði héðan suðurgöngu sína 8. dag febrúar, kom til Reykjavíkur árdegis 21.[febrúar] og fór aftur þaðan um morguninn 7. mars, og kom hingað fyrir miðmunda 23. [mars] Hann hefur þá verið ekki fulla 11 daga á leiðinni suður, og tæpa 18 hingað norður. Það var fátt merkilegra tíðinda, sem með honum fréttist, annað en veðuráttufar og jarðbannir líkt og áður er hér að framan sagt seinast frá í blaði þessu, og flestir mjög tæpt staddir með skepnuhöld sín. Peningur sumstaðar, sér í lagi hross, orðinn dreginn og vonarpeningur. Fiskilaust hafði lengi verið á Innnesjum og austur með öllum söndum og í Vestmannaeyjum, 12. febr. Þar á mót góður afli í Þorlákshöfn, og suður í Höfnum 700 hlutir. Nokkur afli þá póstur fór verið kominn á Innnesjum. Póstskipið hafði létt akkerum sínum af Reykjavíkurhöfn 1.mars. ... Austanpósturinn, Níels Sigurðsson, hafði lagt af stað til (frá) Eskjufirði mánudaginn 2. [apríl], og kom hingað um miðjan dag þann 10. [apríl]; hafði hann þó víða á leiðinni fengið illa færð, og er þaðan að frétta líkt og hér um veðráttufar, jarðir, heybirgðir og skepnuhöld; einnig að hafísinn hefði verið kominn frá landi eitthvað til hafs. 27. [mars] kom hér, og hvað spurst hefur, góð hláka og gott veður, sem hélst til hins 7. þ.m.; gekk þá veður til norðurs og spilltist, kom þá töluverður snjór, helst um uppsveitir.

[Þann 7. apríl] bar svo til, að Baldvin nokkur Kristjánsson(?) á 5. ári um tvítugt, efnilegur og ágætt formannsefni, til heimilis á Krossum í Árskógsströnd, rak ásamt 6 mönnum öðrum sauðahóp, er komast átti úr Hrísey í land; en þegar skammt var komið leiðar þessarar kom sprunga í ísinn; þar hann var glær, voru sauðirnir tregir að ganga og sumir festu fæturna í sprungunni; fór þá Baldvin að koma þeim úr henni og áfram lengra; dældaði þá ísinn undan honum og sauðunum, og brast niður, svo Baldvin fór í kaf ásamt nokkrum sauðunum, er þá bar fleiri að og lentu í vökinni; en sagt er, að honum hafi í svipan skotið upp aftur, og jafnframt, að annar Baldvin og Þorvaldur faðir hans hafi freistað til að bjarga manninum, og þá við sjálft legið, að þeir mundu farast líka. Sauðirnir náðust allir lifandi og líkami Baldvins heitins morguninn eftir. Í vökinni höfðu tæpir 3 faðmar verið til botns.

Þjóðólfur fer yfir tíðarfarið þann 28.apríl:

Það sýnist sem vetrarhörkunum ætli nú um síðir að linna, enda hefir þessi afliðni vetur verið einhver hinn lang-harðasti sem hér hefir komið síðan um næstliðin aldamót; hann lagðist að víðast um land um jólaföstukomu, og má kalla, að hörkunum hafi ekki linnt fyrr en ef nú er komið hlé; snjókyngið hefir verið dæmafátt, og þar af leiðandi almennar hagleysur og langur gjafatími, — víðast fram undir þessi sumarmál hér sunnan— og vestanlands. Frostgrimmdin hefir og verið mikil öðru hverju, — hér sunnanfjalls 17—18°R [-21 til -22°C]; í Dalasýslu eins (-24°C); austanfjalls, á Eyrarbakka, 22°R [-27,5°C]; að norðan og lengra að vestan höfum vér ekki sanna frétt; — það er og fádæmi, að Þjórsá og einkum Hvítá í Árnessýslu skuli hafa verið með hestís fram yfir sumarmál, eins og nú. — Það er sannfrétt að norðan, að hafísinn hafi farið af Húnaflóa um pálmasunnudag [1.apríl], og að gott veður var þar nyrðra um páskana; en ísinn kom þar aftur eftir hátíðina, þó segir nú ný frétt, að hann sé nú farinn í annað sinn og frá öllum Vestfjörðum. Fyrir suðausturströndum landsins varð hafísinn hvorki mikill né langvinnur. — Það gefur að skilja, að fénaðarhöld eru mjög misjöfn og hæpin, eftir slíkan víkingsvetur, og að mest er komið undir vorinu, hvernig þau reynast yfir höfuð að tala; en sé þegar farinn að stökkva af fénaður einnig hjá þeim, sem hafa verið vel birgir af heyjum, — eins og frétt hefir um einstöku menn í Rangárvallasýslu, — þá eru það hin verstu sjálfskaparviti fyrir þá hina sömu; — fréttir segja, að um miðjan [apríl] hafi einstöku hross verið farin að falla um Austur-Landeyjar, og sauðfé bæði þar og í Holtunum.

Frétt að norðan, þó munnleg, segir að þegar hafísinn kom aftur á Húnaflóa eftir páskana, þá hafi 3 menn farið út í hann til að tína rekavið, en einn þeirra farið lengst út, en þá hafi ísinn leyst frá, og farið til hafs og þessi eini maður orðið til á ísnum og tekið út með honum.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Seinni part einmánaðar kafalda- og frostasamt, svo þeir hey höfðu létu ei út og gáfu hrossum. Með sumri kom stöðug og hæg þíða með næturfrostum 12 daga. 5.-6. maí mikil áhlaupshríð ytra. Aftur 12. bati, en gróðurlítið til 26., að heiðarleysing gjörði.

Norðri segir fréttir 5.maí - af hafís, vetrarhörkum og fleira:

Þess er getið í 9. og 10. blaði þessa árs, að veður hafi spillst og mikill snjór komið, helst um uppsveitir; en seinna fréttum vér, að snjófallið hafi nær því hvervetna orðið mikið, einkum hér norður undan. En eftir þann 20.[apríl] hófst aftur þíðviðri og besta tíð og hefur, að kalla, síðan verið hverjum degi blíðara og betra; það eru því horfur á, að þótt báglega líti út með skepnuhöld margra, þá muni rætast úr því flestra von betur. Það er sjálfsagt, að sumstaðar mun peningur vera orðinn sármagur og langdreginn. Svo var orðið hæpið með heybirgðir, að nokkrir höfðu við orð, og enda gjörðu það til vonar og vara, að taka korn í kaupstöðum, til þess að gefa peningi sínum, og höfum vér helst heyrt til þess tekið í Húnavatnssýslu, að hversu miklar kornbirgðir sem voru á Skagaströnd og Hólanesi, hafi þær þó að mestu gengið upp á hálfum mánuði, og þykir varla dæmi til, enda ekki á sumartíma í kauptíð, að jafnmiklar birgðir skyldu á jafnskömmum tíma þegar vera uppi. ... Í seinasta hríðarskotinu hafði töluvert komið inn aftur að landinu af hafís, og nú nýskeð hafa borist hingað fréttir, að hafþök muni hér fyrir öllu landi að norðan, frá Rauðanúpi eða jafnvel Langanesi allt til Hornstranda. Vér höfum og fyrir skömmu síðan haft sannar fregnir af Vesturlandi, og að frostið hafi þar orðið í vetur 25—26° á Reaumur [að -32,5°C]. Það hafði líka svo verið þakið lagísum á Breiðafirði í vetur, að fara mátti á hestum úr Skáleyjum að Fagradal á Skarðsströnd og þaðan stórskipaleið í Stykkishólm; þá þvert og endilangt eftir öllum Hvamms- og Gilsfirði; einnig hafði lagt alla firði, er liggja norður úr Breiðafirði, og hvergi orðið komist að landi við Barðaströnd fyrir rekís. Svo nefnda Akureyjaröst, sem er millum Akureyja og Reykhólaeyja, hafði lagt, og vita menn ekki dæmi til þess í næstliðin 200 ár. Hafísinn hafði lengst komist suður með landi að vestan, að Látraröst, og ekki til muna inn á Vestfirði, en hafþök voru hvervetna úti fyrir. Á pálmasunnudag voru 10 hndr. (12 ræðra) hlutir orðnir af fiski við Ísafjarðardjúp, en í 10. hndr. undir Jökli. Hákarlsafli lítill. Það hefur venju framar verið lítið um veiði á Eyjafirði síðan hann í vetur lagði allan, og varð nú fyrst 27.[apríl] að kalla auður; og munu allir, sem lífsbjargar sinnar eiga von úr þessu nægtabúri, hafa glaðst við. Í dag og í gær hefur verið austan-landnorðan-stormur með snjókomu.

[Þann 8. mars], þá hafísinn leysti aftur frá útkjálkum landsins, hafði Jón nokkur Bergsson, frá Hvalsnesi á Skaga, verið ásamt fleirum við hákarlaveiði upp um ís austur af Skaganum, 1/2 til 1 mílu undan landi, og seinast verið að flutningi á veiði eða veiðarfærum; en þá tók ísinn sundur, svo Jón komst ekki til lands aftur, og varð heldur ekki bjargað, vegna ofviðurs og ísreks; sást hann þó meðan ljóst var af degi, og seinast í kíki, hlaupa aftur og fram um ísinn til þess að ná landi, en fékk hvergi að gjört. Hundur hafði fylgt honum, sem 6 dægrum seinna hafði komið í land upp að Víkum á Skaga; en til Jóns hefur ekkert spurst síðan; hann hafði verið lítt klæddur. Það er haldið, að hann varla muni hafa getað lengi lifað á ísnum, sem rak til hafs, þar hvassviðrin og heljurnar fóru þá aftur í hönd.

Það er sagt, að Erlingur nokkur Einarsson vinnumaður frá prestsetrinu Hvammi í Laxárdal, er séra Ólafur Þorvaldsson á Hjaltastöðum hafði í heljunum í vetur fundið á leið sinni inn yfir Skörðin nær því frosinn til dauðs, eftir nokkurra dægra útilegu, og flutt til bæjar og sýnt og útvegað alla mögulega hjálp og aðhjúkrun, hafi dáið eftir 14 daga harmkvæli. Stúlka hafði og orðið úti frá Herjólfsstöðum í ytri Laxárdal og var hún ekki fundin þá seinast fréttist.

Norðri segir af tíð, hafís og óhöppum í maípistlum:

[22.] Í norðanveðrinu, sem var á kóngsbænadaginn 4. [maí] hafði um kvöldið orðið skiptapi á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu með 3 mönnum, er haldið er að farist hafi þar í lendingu, því 2 mönnum hafði skolað þar upp. Nú tjáist lítill sem enginn hafís hér fyrir landi svo langt sem eygt verður.

[26.] Veðráttufarið hefur oftar, það liðið er af mánuði þessum, verið stillt, en heldur kalt, nema dag og dag, og enn er gróðurlítið; enda hefur hafísinn alltaf verið ýmist grynnra eða dýpra fyrir, og með Grímseyingum, sem komu í land 23.[maí] fréttist, að ekki væri nema vika liðin, síðan hann hvarf þaðan úr augsýn. Grafarósskipið hafði lent í svo miklum hafís undir Austurlandinu og við Langanes, að skipverjum þótti tvísýnt, hvort þeir mundu geta komist úr honum eða í gegnum hann, þó það tækist. Leguskipin [hákarlalegu-] hafa líka hitt meiri og minni ís, og stundum orðið að leysa frá honum. — Hákarlsaflinn er mikill hjá sumum, og hefur Baldvin á Siglunesi t.a.m. fengið yfir 100 kúta í 3 róðrum. Það er líka sagt, að jagtir á Ísafirði hafi fengið mikinn afla í fyrstu ferð sinni. Eins er talað um, að nokkrir hafi aflað vel á Gjögri. — Selaflinn varð hvervetna lítill hér norður undan. — Aflalítið í Grímsey, og lítið af fugli þar enn sest í björg, og bágt um bjargræði. Einnig er mjög látið af bjargarskorti í einstökum héruðum, einkum hér og hvar £ Þingeyjarþingi, hvar sagt er, að nokkrir hafi soðið hákarl sér til matar, og haft lýsi til viðbits. Í vetur var og sagt mikið bjargskart á Barðaströnd og víðar vestra og syðra, þar fiskiaflinn hefur brugðist, og fátæklingar, vegna dýrtíðarinnar, ekki klofið að kaupa matvöru í kaupstaðnum eftir þörfum — Mælt er, að peningur sé víða sármagur, og farinn að hrökkva af.

Þjóðólfur greinir frá harðindum í maípistlum:

[12.] Þetta harða íhlaup, sem gengið hefir næstliðna viku, hlýtur að hafa haft hinar þyngstu afleiðingar á fénað sveitabænda, þar sem gjafatíminn hefir verið staklega langur, og fénaður viða sármagur.

[26.] Bréf og fréttir hafa nú borist hingað úr flestum héruðum landsins, og er að frétta alstaðar að, að þessi vetur hafi reynst einhver hinn harðasti og langsamlegasti, sem lengi hefir hér komið; eðlilegur vorbati heitir og fyrst að vera kominn þessa viku, og harðviðrið og gaddarnir, sem gengu fyrstu 10 dagana framan af þessum maí, munu lengi minnisstæðir; frískleikamann kól hér í Mosfellssveit 5. [maí] á báðum fótum. Afleiðingarnar af þessum langsömu harðindum eru þó sagðar hvorki nærri eins illar af Norður- og Vesturlandi yfir höfuð að tala, eins og við mátti búast, og talið víst, að lítið muni verða um almennan fjárfelli; úr Snæfellsnessýslu er hordauðinn sagður meiri, og Mýra- og Hnappadalssýslu að vestanverðu, einkum úr Hraunhrepp og Kolbeinsstaðahrepp, að vér ekki nefnum Borgarfjarðarsýslu sunnanverða: Akranes, Skilmannahrepp, Leirársveit, Melasveit og að nokkru leyti bæjarsveit og Andakíl; um þessar sveitir hefir og verið hrossafellir meiri og minni, og er sagt að skipt jafnvel tugum á sumum bæjum; — enda getur ekki öðruvísi farið, né nein guðsblessan fylgt því ráðlagi, að eiga hvorki hús né hey handa mörgum skepnum sinum.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Eftir það [maílok] vorgæði og varð þá en snjóleysing að flæði á hentugasta tíma í dölum móti austri og öllu flæðiengi, sem síðar gaf mikið gras og öllum fjallslægjum og flóum eða hálsum. Sláttur byrjaði 16. júlí. Þó spruttu tún mánuðinn út og við tvíslægju hefði orðið mesta töðufall. Veður gafst vel, rekjur og þurrviðri til. 17. ágúst, að stórrigning gjörði slægjur fljótandi, aftur 24. frostnætur og þerrir, svo hey náðist, þó víða hrakið. Aftur 30. [ágúst] vestan- og norðan-ofsarigning. Eftir það stormasamt til skemmda og erfiður heyskapur. Þó varð að mestu hirt fyrir göngur; í þeim gaf stirt. Krapahryðja (s189) kom hastarleg á fimmtudag í réttum, en varði ei yfir 5 tíma. Aftur 29. sept. mikið regn og vatnsagi í mesta lagi.

Á Hvanneyri í Siglufirði alsnjóaði aðfaranótt 8.júní, aðfaranótt 15.júní alsnjóaði og frysti, 21.ágúst alsnjóaði niður í byggð og sömuleiðis 11.september. 

Þjóðólfur segir stuttlega frá þann 6.júlí:

Tún eru að vísu víða kalin hér sunnanlands, einkum nýjar sléttur, en sakir hinna langvinnu votviðra sem nú hafa gengið nærfellt 1/2 mánuð, þá lítur hér út fyrir grasvöxt í góðu meðallagi á túnum og valllendi þar sem jörð er óskemmd; — en nýtingin er fyrir öllu og nálega öll velferð sveitabóndans undir henni komin, og svo aðsækni manna og fylgi við heyskapinn, einkum hinn fyrra part sláttarins; í harðærum, eins og nú lítur helst út fyrir, reynast sumrin einatt endaslepp.

Norðri greinir frá þrumuveðrum í frétt þann 14.júlí:

[Þann 1.júlí] að áliðnum degi kom hér dæmafá rigning, sem þó hélst aðeins á aðra klukkustund; heyrðust þá jafnframt yfir 30 reiðarþrumur, sem hér er sjaldgæft. Og aftur 9.[júlí] kom önnur regnsteypan, sem hélst nokkuð lengur en hin; heyrðust þá og 34 reiðarþrumur, eða fleiri, og með mörgum þeirra brá eldingum fyrir.

Norðri greinir frá heyskap í ódagsettu septemberblaði:

Grasvöxtur víða hvar í meðallagi og sumstaðar í túnum í besta lagi. Óþerrar hafa verið nokkrir, sem tálmað hafa heyskapnum að sumu. Heyskaðar hafa og hér og hvar orðið af stórviðrum sunnan útsunnan. ... Frönsk eða flandrenísk fiskiskúta, 14 lesta stór, hafði nú seint á engjaslættinum strandað í svonefndum Bakkakrók á Langanesströndum, var hún fermd fiski og búin til heimferðar, en norðanveður brast á, svo önnur festin, sem áveðurs var, hrökk í sundur, bar hana þá þegar á land og braut. Skútan var síðan með rá, reiða og farmi seld við opinbert uppboð. 

Þjóðólfur gerir sumarið upp í pistli þann 29.september:

Sumarið, sem þegar er liðið, hefir verið í mörgu tilliti erfitt og minnisstætt, einkum fyrir sunnlendinga; grasbrestur hefir verið almennur á túnum, svo að hér sunnanlands hefir taða almennt verið rúmum þriðjungi minni en vanalega; vallendi hefir verið þeim mun verr sprottið; og þó að mýrar hafi verið með meðalgrasi eður vel svo það, þá hefir vatnsfylling víðast meinað slátt á þeim, enda hafa hinar stöðugu rigningar og óveður, sem gengið hafa síðan fyrir höfuðdag, verið til hins mesta hnekkis fyrir allan engjaheyskap. Sóttin, sem gekk hér almennt bæði sunnanlands og norðan um aðalheyskapartímann, bagaði menn og mjög frá heyskap. Norðanlands hefir grasvöxtur verið betri, og veðráttan miklu hagstæðari yfir höfuð að tala, einkum fyrir norðan Skagafjörð, en þar og i Húnavatnssýslu hefir og verið rosasamt nokkuð, þó þerriflæsudagar hafi verið innan um. Vestanlands hefir þar i móti verið hið besta árferði með allt slag víst fram til ágústloka.

Jón Austmann segir þann 15.september: „Suðaustan stórstormur, gekk í útsuður e.m. [síðdegir] með einstakasta óveður“.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Í október frostamikið og snjólítið. 16. okt. skipti um með fönn og 21. (sunnudag í aukaviku) mikil hríð og fönn til útsveita og á láglendi, en minni til dalaanna og varð haustskorpa. Með nóvember linaði. Þíður hægar unnu seint á snjóinn, en gott veður á milli. 15.nóv.  byrjaði stöðug þíða, nótt og dag, með þurrviðri um 18 daga. Aftur vikuþíða fyrir jólin og snjólaust, frost og staðviðri á milli. Allri furðu gegndi, að með sunnanátt og þíðu rak hafís inn í sanda hér á Flóanum um miðja jólaföstu. Réðu honum straumar á þeim tíma, sem aldrei ber ís að landi. Hann lagði líka út um þorralokin, þá síst er von hann fari. Engin höpp fylgdu honum, en allt að þeim tíma var afli um veturinn.

Norðri segir í ódagsettu októberblaði:

Veðuráttufarið var hér nyrðra og eystra, hvað til hefur spurst, framan af mánuði þessum mikið stormasamt, helst sunnan útsunnan, en þaðan af til þessa norðanátt með snjókomu og hríðum svo ókleyf fönn er nú nær því um allar sveitir, og eins vestra, og ekki óvíða allur peningur, nema hross, kominn í hús og á hey. Fiskiafli hefur verið nokkur, en vegna stakra ógæfta, einkum á útkjálkum, sjaldróið. Hlutir eru því hæstir 1—4 hndr. Síld hefur heldur ekki aflast til beitu. Hákarlsafli svo að kalla enginn síðan í sumar. Að sunnan hefur frést, að í Skaftafells- og Rangárvallasýslum hafi í sumar grasvöxtur verið í betra lagi, einkum á deiglendri jörðu, en miklu miður á túnum og harðvelli, sér í lagi í Árnes-, Gullbringu- og Mýrasýslum, og nýting yfir höfuð mikið bág, víða hitnað til skemmda í heyjum og á stöku stað brunnið. Á Vesturlandi hefur grasvöxtur og nýting verið góð. Fiskilítið hafði verið austan með öllum söndum og eins um Suður- og Innnes, svo til vandræða horfði með bjargræði margra, af því líka að kornvörulaust var þar á flestum verslunarstöðum. Það hafði líka kaupskip eitt, nefnt „Waldimar", er fara átti til Eyrarbakka, nær því 70 lesta stórt, fermt 6—800 tunnum af mat og öðru, strandað þar á innsiglingu 14.[september] á skeri utan við höfnina og brotnað í spón, og mikið af farminum farist eða ónýst. Það sem náðist, var selt við uppboð. ... Í september hafði hvalbrot (miðpart) rekið í Mýrdal.

[Þann 20.október] voru meðal annarra staddir hér í bænum 4 menn handan úr Kaupangssveit, fyrrum hreppstjóri Jón Jónsson bóndi á Lórustöðum ... , Jón sonur hans um tvítugt, Stefán Kristjánsson frá Skálpagerði á 19. ári og Sæmundur Sæmundsson frá Gröf á 20. ári, höfðu 3 af þeim verið í fiskiróðri um daginn og ætluðu að flytja heim afla sinn hérum 100 af fiski á lítilli byttu. Hálfrökkvað var orðið og nokkur sunnangola; en þá þeir komu austur undir miðjan pollinn, skammt utan við leiruna, fór að hvessa og gefa á byttuna, ætluðu þeir þá að ausa, en þá var ekkert austurtrogið, tók þá Jón yngri vextan hatt af höfði sér og jós með honum. Jón bóndinn og Stefán sátu undir árum en Sæmundur aftur á. Ágjöfin varð þá svo mikil, að Jón hrökk ekki við að ausa, var þá farið að ryðja út fiskinum, en þá var byttan orðin svo full af sjó, að hún sökk þegar, komst Jón yngri, sem nokkuð er syndur, þrisvar eða oftar á kjöl, en hinir aldrei, og hafði þó Stefán verið miklu sundfærari en Jón, mikill fyrir sér og efnilegur. Loks fékk Jón byttunni komið á kjöl og bjargað sér upp í hana, kallaði hann þá sér hjálp, því svo var orðið myrkt, að ekkert sást til atburðar þessa úr landi; varð honum þá þegar manhjálp af kaupskipi, er lá hér á höfninni, og öðrum hér úr bænum. Sannast hér sem oftar: „Margur drukknar nærri landi“ -. Menn þessir eru enn ekki fundnir. Nýskeð hefur frést hingað, að 4 skip úr Landeyjum hafi farið kaupstaðarferð til Vestmannaeyja og þaðan aftur 29.[september] í land og fórust þar af tvö í lendingunni með 17 manna. Einum kvenmanni varð bjargað. [Frá þessu er líka sagt í Þjóðólfi 20.október]. Fyrsta skipið hafði hleypt upp og tók vel af, en hið seinasta sneri aftur fram til eyjanna, og er haldið að það hafi komist af. Í haust hafði skiptapi orðið með 5 mönnum, á eða frá Ólafsvík undir Jökli.

Norðri segir í ódagsettu nóvemberblaði:

Frá því á Allraheilagramessu hefir veðuráttan oftast verið sunnan og hagstæð með hlákum einkum síðan 16. [nóvember], svo kalla má að öríst sé orðið um flestar sveitir. Áður var orðið mjög hagskart vegna snjóþyngsla og spilliblota. ... Skiptapi hafði orðið í haust á Berufjarðarströnd með 2 mönnum sem voru í fiskiróðri, ... 9.[nóvember] hafði maður látist í snjóflóði, er var að ganga til fjár og hét Eiríkur Einarsson, merkisbóndi frá Þorgrímsstöðum í Breiðdal. [Í þessu sama blaði eru einnig minningarorð um Eggert Jónsson lækni og veðurathugunarmann á Akureyri, en hann lést eftir slæma byltu á hesti]. 

Þjóðólfur segir af veðurblíðu í pistli þann 8.desember:

Þó að næstliðið sumar og haust væri eitthvert hið erfiðasta með flest slag, þá bætir mikið úr því veðurblíða sú sem gengið hefir nú um rúmar 3 vikur og hefir náð svo langt sem frést hefir, bæði fyrir norðan og austan; er þetta mikil líkn fyrir sveitabændur, einkum hér sunnanlands, því hjá mörgum vilja nú reynast lítil hey, og þar til drepin og skemmd hjá mörgum, eftir hinar langvinnu sumar- og haustrigningar. Bæði skurðartíð og heimtur reyndust víðast með lakasta móti, einkum hér sunnanlands. — Fiskiafli hefir í haust verið lítill og tregur, það sem af er vertíð, um öll suður og innnes, nema á Akranesi; þar eru komnir að sögn um 800 hlutir af haustfiski.

Norðri segir í ódagsettu desemberblaði:

[Þann 4. desember] kom hingað í Akureyri norðanpóstur Vigfús Gíslason úr suðurgöngu sinni, hafði hann verið 48 daga í ferð þessari, veikst og legið rúmfastur á leiðinni suður, verið 10 daga um kyrrt í Reykjavík og farið þaðan 16. [nóvember] — Veðuráttufarið hafði verið líkt syðra og hér, nema ákafar rigningar, hvassveður og ógæftir. ... Matvælaskortur er sagður á öllum verslunarstöðum syðra, og það líka í sjálfri höfuðborg landsins. Í lausum fréttum hafði borist til Reykjavíkur að eldsumbrot eða eldsuppkoma væri í Kötlu, sem er einn hluti Eyjafjallajökuls, og nú hefur haldið kyrru fyrir í full 100 ár. — Á Vesturlandi hafði vel heyjast í sumar, og nýting verið góð. Fjárheimtur af fjöllum ekki góðar. Skurðarfé þar eins og allstaðar annarsstaðar um landið, hvaðan vér höfum frétt, reynst mjög rýrt, einkum á mör.

Hér norðanlands hefur verið allan þenna mánuð að kalla hagstæðasta veðurátt og rauð jörð um flestar sveitir svo sauðfé og hross hefur verið létt á fóðrum, þar sem ekki hefur gengið sjálfala.

Þann 5.desember kom hafís í Siglufjörð. 

Þjóðólfur segir þann 29.janúar 1856 frá tíð síðustu mánuði ársins 1855:

Árferðið hefir hina síðustu 3 mánuði ársins 1855 verið allstaðar um land hið æskilegasta og hagstæðasta sem menn til muna á þeim tímum árs, — yfir höfuð að tala frost- og snjólítil spakveður með auðri jörð; þessi kafli ársins varð því öllum sveitabændum hinn besti sumarauki, einkum hér á Suðurlandi, þar sem kalsa- og gróðurleysisvor tók við þegar vetrarhörkunum linnti, en sífelld votviðra- og rigningatíð oftar frá Jónsmessu og það fram í öndverðan október; þessi ótíð hér syðra,— fyrir norðan og austan og einkum fyrir vestan viðraði svo miklu betur — leiddi með sér grasbrest á túnum og harðvelli, víða mjög illa nýtingu, töluverðar heyskemmdir í görðum, og einstaklega illa nýtingu og þar af leiðandi almennan skort á eldivið.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1855. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrstu tíu dagar nóvembermánaðar

Meðalhiti fyrstu tíu daga nóvembermánaðar er 4,7 stig í Reykjavík, +1,7 stigum ofan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2020, en +1,5 ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 6. til 7. hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar árið 2004, meðalhiti þá 6,1 stig, en kaldastir voru þeir 2010, meðalhiti 0,1 stig. Á langa listanum er hiti nú í 23. til 24. hlýjasta sæti (af 145). Hlýjast var 1945, meðalhiti 8,2 stig, en kaldast 1899, meðalhiti -4,0 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana tíu nú 4,9 stig, 3,4 stigum ofan meðallags 1991 til 2020, en 3,8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á Austfjörðum, þar er hiti þessa daga í þriðjahlýjasta sæti á öldinni, en kaldast að tiltölu er við Faxaflóa og á Suðaustur- og Suðurlandi, hiti í 7.hlýjasta sæti. Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, mest +3,9 stig á Torfum og við Upptyppinga, en minnst er vikið á Sámsstöðum, +0,6 stig.

Úrkoma hefur mælst 34,2 mm í Reykjavík, og er það í rúmu meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 7,8 mm og er það rúmur þriðjungur meðalúrkomu sömu daga.

Sólskinsstundir hafa mælst 11,2 í Reykjavík og er það um 5 stundum neðan meðallags.


Kaldir dagar - (froða)

Eins og þrautseigir lesendur hungurdiska hafa óhjákvæmilega orðið varir við dundar ritstjóri þeirra við að taka saman heimildir um veðurfar á árunum 1749 til 1924 - ár fyrir ár. Miðar þessu verki nokkuð (mætti auðvitað ganga hraðar). Þessa dagana er árið 1855 undir - og birtist samantektin um það vonandi fljótlega. Meðal merkustu viðburða þess árs er gríðarlegt kuldakast sem gerði síðari hluta febrúarmánaðar (og fyrstu dagana í mars). Fraus þá flest sem frosið gat. - Meir um það í samantektinni.  

Hitamælingar hófust í Stykkishólmi 10 árum áður og hafa verið gerðar linnulítið síðan - en hins vegar var ekki mælt þetta ár í Reykjavík. Jón Þorsteinsson landlæknir og veðurathugunarmaður hafði árið áður orðið fyrir alvarlegu slysi þegar hann féll um 3 metra niður um kjallaraop í húsi þar sem hann vitjaði. Jón lést síðan 1855, náði sér aldrei eftir slysið. Athuganir á Akureyri höfðu einnig lagst af á árinu 1854. Eggert Jónsson læknir og veðurathugunarmaður þar lenti líka í slæmu slysi - reyndar ekki fyrr en 1855. Hestur hans hrasaði og Eggert fékk byltu - lítið virtist hafa gerst - en um kvöldið veiktist hann illa - trúlega vegna innvortis blæðinga - og lést. Fyrir utan hinn persónulega harm varð íslenskri veðurathugunarsögu mikill skaði búinn við lát þessara manna. 

En sú spurning vaknaði þegar horft var á þetta kuldakast og köldustu daga þess hversu margir dagar síðan hafa verið jafnkaldir eða kaldari. Við getum reyndar varla svarað því nákvæmlega - en við gerum samt tilraun. Sláum á meðalhita sólarhringsins í Stykkishólmi (frekar en lágmarkshitann) og reiknum vik hans frá meðalhita sama almanaksdags á árunum 1931 til 2010 (80 ár) - og breytum í staðalvik (svona til að gefa öðrum árstímum möguleika).

Hinn 22.febrúar var kaldastur daganna í kastinu 1855 (að þessu máli), -5,6 staðalvik undir meðallagi. Lægsti lámarkshitinn mældist hins vegar að morgni þess 25., -24,5°C - þá var hitinn í loftvogarherberginu (innandyra) í Norska húsinu -14°C. Lágmarkshitinn var lægri en -20 stig 4 daga í röð. 

Á öllu tímabilinu síðan hafa komið aðeins 9 kaldari dagar í Hólminum, tveir í janúar 1918 (frostaveturinn mikla) og sjö frostaveturinn 1880 til 1881. Kaldast varð 21.janúar 1918. Önnur ár sem eiga fulltrúa á lista 20 köldustu daga eru 1859 (19.apríl), 1888 (27.mars) og 1892 (8.mars). 

Kuldinn varð ekki alveg jafn óvenjulegur 1855 í Hvammi í Dölum eins og í Stykkishólmi (en engar lágmarksmælingar voru þó gerðar þar). Aftur á móti var staðan mjög óvenjuleg í Vestmannaeyjum, þar fór frostið á mæli séra Jóns Austmann í -20 stig - hann segir að mælikvarðinn hafi ekki náð neðar en kvaðst viss um að frostið hafi orðið meira.  


Enn af október

Eins og um var getið hér á dögunum var nýliðinn október óvenjulegur að því leyti að austlæg átt var ríkjandi í háloftunum yfir landinu - að meðaltali. Slíkt gerist ekki oft - aðeins vitað um þrjú önnur tilvik síðustu 70 árin rúm (og ágiskanir benda til þess að ekkert tilvik sé að finna næstu 50 árin þar á undan heldur. Aðeins einu sinni hefur háloftaaustanáttin verið áberandi meiri í október heldur en nú - það var 1976. Í október 2002 var hún svipuð og nú, og árið 1961 var hún rétt merkjanleg (hvorki úr vestri eða austri). Sterkust var háloftavestanáttin í október í okkar minni árið 1972 - og kannski jafnsterk 1921. Þetta segir víst harla lítið um komandi vetur. - Veturnir 1961-62, 1976-77 og 2002-03 voru að vísu allir hver á sinn hátt eftirminnilegir í huga ritstjóra hungurdiska fyrir miklar fyrirstöður í háloftunum - en það kann að vera fullkomin tilviljun.

w-blogg041120a

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), en hæðarvik eru sýnd í lit. Neikvæð vik blá, en þau jákvæðu eru rauðbrún. Jafnvikalínur eru þéttar yfir landinu - og gefur lega þeirra mikinn austanáttarauka til kynna. - En það má taka eftir því að ekki er austanáttin sterk (við metum hana af legu jafnhæðarlínanna) - hún er það nær aldrei. Lægðir gengu til austurs fyrir sunnan land og til Bretlands, en hæð þar þaulsetin fyrir norðan.

Við jörð var austanáttin líka í sterkara lagi - en hún er reyndar ríkjandi - ekki þó alveg jafn óvenjuleg og ofar í lofthjúpnum. 

w-blogg041120b

Hér má sjá meðalsjávarmálsþrýstinginn (heildregnar línur) og hitavik í 850 hPa-fletinum (í um 1500 metra hæð). Gríðarlega hlýtt var við Norðaustur-Grænland, en kalt yfir Frakklandi. Við getum auðveldlega reiknað þykktarbratta líka - hann segir okkur til um það hversu miklu munar á hita fyrir norðan og sunnan land. [Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs]. Hann var óvenjulítill nú - hefur síðustu 70 árin aðeins fjórum sinnum verið lítillega minni í október heldur en nú (1976, 1959, 2002 og 2016) og 1961 var hann jafnlítill og nú. Veðurnörd, sum hver, muna þessa mánuði. Mestur var hann 1994, þrisvar sinnum meiri heldur en nú. 

w-blogg041120c

Hér má sjá stöðuna í október 1976, eina mánuðinn sem alveg slær út núverandi mánuð í austanáttakeppni októbermánaða. Afskaplega eftirminnilegt haust og vetur eftir mikið rigningasumar - og reyndar margra ára nær stöðuga umhleypinga (sem smáhlé varð þó vor og sumar 1974). Man ritstjóri hungurdiska varla jafngagnger og langvinn umskipti í veðurlagi á einum degi, höfuðdaginn sjálfan 29.ágúst. 

Þökkum BP fyrir öll kortin.


Af árinu 1854

Samtímaheimildir greinir nokkuð á um það hversu óhagstæð tíðin var árið 1854 - en eru sammála um óvenjulega umhleypinga vetur, vor og haust - og þá útsynningstíð. Það þýðir að væntanlega hefur verið skárra veðurlag austanlands heldur en t.d. á Vestfjörðum. Matið virðist líka fara eftir því hvernig snjóalög voru. Óvenjusnjóasamt var víða haustið 1853, þar sem þann snjó tók ekki upp var hart um haga allan veturinn. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,0 stig og er það -0,6 stigum neðan meðallags næstu tíu ára á undan. Mælingar lögðust af í Reykjavík í lok febrúar og á Akureyri í lok september. Fyrir utan Stykkishólm var þó athugað áfram í Hvammi í Dölum og á Hvanneyri í Siglufirði - og mælingar eru til frá fleiri stöðum en hafa ekki verið yfirfarnar. Meðalhiti í Reykjavík er áætlaður 3,8 stig og 3,2 stig á Akureyri. 

Einn mánuður ársins, desember var mjög kaldur og einnig var kalt í maí og október. Hlýtt var í mars og júlí. 

ar_1854t

Einn dagur var óvenjuhlýr í Stykkishólmi (16.ágúst), en fimm kaldir, 30.nóvember kaldastur. 

Úrkomumælingar lögðust af í Reykjavík í febrúarlok og engar úrkomumælingar voru gerðar á landinu þar til að byrjað var að mæla hana í Stykkishólmi í október 1856. Úrkoma var mikil í janúar og febrúar í Reykjavík. 

ar_1854p

Þrýstingur var hár í nóvember og fremur hár í júlí. En fremur lágur í janúar, mars, maí, ágúst, september, október og desember. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 14.mars, 942,1 hPa og hæstur á Akureyri þann 25.mars, 1041,1 hPa. Þrýstiórói var óvenjumikill í mars, október og desember - og bendir til illviðra. 

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar. Fregnir voru greinilega mjög óljósar af mörgum slysum og óhöppum og ber heimildum ekki alltaf saman. Seint í maí féll Jón Þorsteinsson landlæknir og veðurathugunarmaður í Reykjavík niður um kjallaraop, 5 álnir (um 3 m) og lemstraðist. Var sagt að hann hefði ekki orðið samur. Hann lést 1855.   

Gestur vestfirðingur lýsir árferði 1854 í blaðinu 1855:

Þegar á það er litið, hvað títt er að kalla hörð ár á landi hér, þá verður ár þetta, eftir því sem það reyndist í Vestfirðingafjórðungi, að teljast harðæri í fullkomnu meðallagi. Eins og það byrjaði með hretviðrum og hagleysum, sem héldust í janúar, febrúar og mars, eins skildi það við með líku veðráttufari um hina tvo síðustu mánuði þess: nóvember og desember. Vorið var allt fram á messudaga bæði kalt, skakviðra- og úrfellasamt. Þess eru og ekki dæmi nú í 40 ár, að jafnlengi hafi svo úrsvalt verið og á þessu ári, enda má ei á því telja fleiri daga heiðbjarta frá morgni til kvölds, en svo sem svari einni viku. Fyrst um Jónsmessu komu hlýindi náttúrleg; spratt gras þá furðufljótt, fyrir því að fyrir löngu var öríst og jörð öll klakalaus; því þó veturinn hefði verið harður sökum fannfergju og áfreða, var hann þó með minnstu frostavetrum. Grasvöxtur varð því í betra lagi, einkum á öllu harðvelli, en nýting að sínu leyti langtum lakari, því allvíða hröktust hey og skemmdust, einkum þá á leið á sumarið, og talsvert af heyi varð undir fönnum sumstaðar upp til sveita og norðantil í fjórðungnum. Sjógæftir voru jafnan mjög bágar og urðu fyrir þá skuld aflabrögð í flestum veiðistöðum miklum mun lakari en undanfarin ár. Það má fáheyrt þykja, að í Dritvík gekk á þessu vori ekki nema eitt skip, og náði það 2 hundr. hlut. Afli undir Jökli varð fremur rýr frá byrjun jólaföstu til miðs einmánaðar, og ollu því ógæftir; ... Svo er að sjá, sem fiskigengdir að landinu hafi venju fremur lagst norður með landi, því aflabrögð reyndust að því skapi betri, sem norðar dró. Haustafli í Strandasýslu, einkum á Steingrímsfirði, varð enn góður, og hélst við fram að jólum, og ætlum vér, að hlutarhæð þar hafi alltað því jafnast við vetrarhlutina undir Jökli. Hákarlsafli á Gjögri mun hafa orðið í meðallagi; róa þeir þar nú til hákarlaveiða á tíræðíngum, taka svo lifrina uppá skip sín, en sleppa hákarlsskrokkunum, og þykir sú reyndin á verða, að veiðiaðferð þessi spilli þar veiðinni, eins og hvervetna annarstaðar. Víðast annarstaðar varð hákarlsaflinn í rýrara lagi, eins var og hrognkelsaveiði mjög svo lítil. Vöðuselaafli í nótum tókst nú miður en áður. Önnur selveiði mun víðast hafa náð meðallagi, en útselakópaveiði á Reykhólum var furðu mikil þetta haust. Þetta sumar rak hval upp í Rekavík fyrir norðan Ísafjörð, og annan í Trékyllisvík, og hinn þriðji var róinn dauður á land í Steingrímsfirði.

Í ofanverðum janúarmánuði týndist maður ofan um ís í Tunguósi í Skutulsfirði; var það Jóhannes bóndi úr Vatnsdal í Súgandafirði; en vinnumaður hans, sem með honum var, komst af. Seinast í mars löskuðust tvö hin stærstu hákarlaskip í Strandasýslu; annað þeirra kom með vörufarm frá Skagaströnd, og átti að flytja hann í Kúvíkur; þá braut og hið þriðja hákarlaskip í Patreksfirði; en ekki varð manntjón af. [Þann 30. apríl] reru 7 skip úr Bolungarvík til hákarlaveiða; en sem á daginn leið skall á sterkviðri mikið af norðri með frosthríð allmikilli; komust þó 4 af skipum þessum að landi, en hin 3 fórust og týndust þar 24 menn. Eitt þeirra skipa, er týndust, var frá Seljalandi; formaðurinn hét Benedikt Gíslason úr Jökulfjörðum, ... annað skipið var frá Skutulsfjarðareyri, og réði því Guðmundur Jónsson frá Arnardal; hið þriðja var frá Vatnsfirði, og stýrði því Engilbert, son Ólafs og Bergljótar, Hjalta dóttur prests Thorbergs; hann var frá Vatnsfirði. Þá týndust og í sama veðri 3 þiljuskip úr Ísafjarðarsýslu, og létust þar 18 manns. Ein af fiskiskútum þessum var nýkeypt frá Suðurlandi og var nefnd „Katrín"; formaðurinn hét Jóhann Árnason frá Valþjófsdal. Á því skipi lést og Jón hreppstjóri Indriðason frá Kaldá í Önundarfirði; átti hann hlut í skipi þessu. Önnur skútan var nefnd „Lovisa", hana átti Ásgeir borgari Ásgeirsson á Ísafirði, en formaðurinn hét Guðmundur Bjarnason af Ísafirði. Þriðja skútan var þilbátur einn úr Dýrafirði, er „Hákallinn" hét; formaðurinn hét Gísli Jónsson smiðs Gíslasonar á Lækjarósi, og áttu þeir feðgar saman skútu þessa; einn af hásetum á skipi þessu hét Friðrik, hann var frá Haukadal, Árnason, Geirssonar biskups Vídalíns. Í júní rak á land í Steingrímsfirði frakkneskt fiskiskip; bar það að landi við sléttan sand hjá Skeljavík, og var lítið skemmt. Skipverjar komust af allir; en skipið og það er á því var af útbúnaði öllum og veiðarfærum var selt á uppboðsþingi; þar var og seldur af skipi þessu fiskur saltaður í tunnum, einnig salt það er skipverjar höfðu, og var það í tunnum, hver tunna með saltinu í fekkst fyrir 36 til 40 sk. — Skip þetta var frá Dunkirkju.

Í október hlekktist á 2 skipum við Ísafjörð, og drukknaði þar þó eigi nema einn maður, er Þorbergur Hjaltason hét. Í þessum mánuði drukknaði Guðundur Jónsson bóndi í Mávahlíð við 5. mann í lendingu; hann var talinn merkisbóndi, góður búhöldur og ötull sjófaramaður. Þá drukknuðu og í þessum sama mánuði kvenmenn tveir af báti á Mýrum, sem kom úr Reykjavík, og lenti í logni á Mýrum um nótt. [Þann 21. desember] var hér ofsaveður mikið af vestri, hafrót og sjávargangur; þá brotnuðu 14 skip og bátar í kringum Breiðafjörð; þá gekk líka sjór svo langt á land upp, að verið mun hafa allt að því 6 fetum hærra að þverhníptu máli, en með alstórstraumsflóð og spillti það hér víða grasveg á eyjum úti og á sjávarjörðum. Fiskiskútu eina tók út í Dýrafirði og brotnaði og sökk síðan; átti hana Guðmundur Bjarnarson í Lokinhömrum og fleiri bændur.

Ingólfur gerir upp árið 1854 þann 6.janúar 1855:

Þegar vér rennum augum yfir þetta ár, til að skoða huga vorn um hversu það hefur gefist oss, þá verður reyndin á því sú, að það hafi verið eitt af vorum meðalárum, eða jafnvel í lakara meðallagi. Árið hefur haft mikla annmarka í för með sér fremur mörgum öðrum árum, en það hefur líka gjörst á því það, sem gefur oss von um góðar heillir. Þegar vér lítum til veðráttufarsins, undir hverju eigi er alllítið komin hagsæld hvers ársins, sér í lagi fyrir oss, sem eigum undir högg að sækja við höfuðskepnurnar allt bjargræði vort, þegar vér í þessu tilliti virðum fyrir oss umliðið ár, þá getum vér eigi annað sagt, enn að það hafi verið yfrið stirt, úrkomumikið og umhleypingasamt, og fullkomin harðindi með köflum. Árið byrjaði að sönnu blíðlega, en áður en fyrsti mánuðurinn var á enda, gekk í garð hinn þráláti útsynningur með snjókomu og hroða, og hélst hann við allt fram á vor, en aldrei voru frosthörkur að munum. Það má telja svo til, að eigi hafi komið veruleg breyting á þetta veðurlag fyrr enn undir enda maímánaðar; þá gjörðist veðrátta stilltari, en nöpur og köld eftir því sem orðið var áliðið; hélst sú veðurreynd allt til sólstaða. Með þeim byrjaði hjá oss sannkölluð sumarveðrátta, og hélst hún allt fram í septembermánuð. Skiptust um þurrkar og rigningar allhaganlega fyrir heyannir manna, að minnsta kosti hér á Suðurlandi. Kaflinn, sem þá var eftir af sumrinu, var heldur rosafenginn og rigningasamur, og sumarið endaði með fullum vetrarbrag. En þegar vetur gekk í garð, batnaði veðrátta aftur, og mátti heita öndvegistíð til jólaföstu. Með henni byrjuðu aftur snjókomur og hroðar af útsuðri, með blotum og frostum á víxl; og þannig kveður nú árið oss með harðindalegu lofti, með mikilli snjókyngju og jökli á jörðu. Þannig höfum vér lýst veðráttufari um næstliðið ár, eftir því sem oss rekur réttast minni til, og eftir því sem það reyndist hér á Suðurlandi. Má vel vera að þessi lýsing þyki eigi alls kostar við eiga í sumum öðrum fjarlægari héruðum landsins, því það vitum vér, að eins og skipst veður á skammri stundu, svo skiptist veður á skömmum vegi. ... Þó veðrátta væri lengi fram eftir mjög óvorleg, varð þó grasvöxtur á endanum í góðu lagi, og nýting að minnsta kosti framan af slætti allhaganleg; en það ræður að líkindum, eftir því sem haustveðráttan var, að heyannir muni víða hafa orðið heldur endasleppar. ... en aftur hefur ár þetta verið einkennilegt fyrir slysfarir manna á sjó; og víst eigum vér á fá ár að minnast, er fleiri menn hafa drukknað, en á þessu ári gjörðu. Kvað mest að þeim slysförum í Faxaflóa og á Ísafirði.

Brandsstaðaannáll [vetur]: 

Í janúar frostalítið, jörð til lágsveita, en lítil snöp til dalanna. Með þorra þítt 3 daga, en sífellt jarðbann vestanvert í dölum. Blotar gengu margir til 13. febr. Þá lagði að verstu vetrarskorpu. Voru þá öll hross á gjöf komin. Héldust þá hríðar og blotar á víxl, svo bágt varð að hirða um skepnur og tóftir tæmdust. Með einmánuði komu upp rindar. 29. mars var mikið vestanhlákuveður, en um miðjan dag brast á mesta bleytuhríð, er hélst um nóttina og herti frostið. Urðu þá miklir fjárskaðar, mest á Guðrúnarstöðum og Gili, þá minni á Fljótum, Selhaga, Vatnshlíð og Mjóadal. Allvíða hrakti [fé] og náði öðrum bæjum. Eftir það var jörð, þá út gaf. Í Blönduhlíð og Hólmi gengu hross nokkur af. Á Efribyggð varð allra versti vetur. Þar voru líka flestir komnir í heyþrot, hross gefin út á hagagöngu og sauðum komið á hús og haga án gjafar.

Norðri segir af tíð í ódagsettu janúarblaði:

Veðráttufarið hefur yfir mánuð þenna, það til hefur frést, verið gott og frostalítið, og víðast hvar nóg jörð fyrir útigangspening, einkum við sjávarsíðuna.

Ingólfur segir lauslega frá 3.febrúar:

Nú er þá liðinn fyrsti mánuðurinn af ári þessu, og hefur lengst af honum verið æskileg tíð hér syðra, nema hvað heldur hefur brugðið til umhleypinga síðan leið undir enda hans. Lítið lætur hér enn af aflabrögðum.

Norðri segir frá í ódagsettu febrúarblaði:

Veðuráttufarið hefur síðan um næstliðið nýár verið oftast gott og frostalítið; snjókomur mjög sjaldan, en fremur umhleypingasamt. Aðfaranóttina hins 17.[febrúar] og fram á dag, gjörði hér og víða um sveitir hina mestu landnorðan stórhríð, með snjókomu, sem komið hefur á þessum vetri. Jörð hefur víðast hvar verið næg fyrir útigangspening, þó hafði, þá er seinast fréttist hingað enn verið hart á Jökuldal, Fjöllum og í Mývatnssveit, og nokkrir þegar á nástrái, sem og þar sem við hefur staðið síðan í haust að fyrst lagði að með hríðum og jarðbönnum. — Þó nú svona sé hart í sumum sveitum, þá er að vona, að þeir, þar sem betur hefur viðrað og verið jarðsælla, geti hjálpað hinum, eftir þörfum.

Jón Þorsteinsson segir í lok veðurskýrslu sem dagsett er 28.febrúar: 

„Ellers har Vejrlighed i denne Vinter, skjöndt mildt hvad Frosten angaar, dog været ofte yderst ustadigt og omlöbende, med stærke endog orkanagtige Stormer, men dog ret godt imellem, som fra midt i December til midt i Januar derimod var i det sidste af Sept fra 23de og enda meget af October usædvanlig slemt og ubehagelig Vejrig og saa usædvanlig meget Snee i Höjlandet, paa den Tid, at den har siælden været mere midt om Vinteren“.

Í lauslegri þýðingu: Annars hefur veðurlag í vetur, þó frostalítið hafi verið, oft verið sérlega óstöðugt með sterkum stormum, jafnvel fárviðriskenndum, en þó nokkuð gott á milli, eins og frá miðjum desember til miðs janúar. Þar á móti var síðasti hluti september (1853), frá þeim 23. og megnið af október óvenju slæm tíð og svo óvenjulega mikill snjór á fjöllum miðað við árstíma að sjaldan hefur verið meiri á miðjum vetri.

Séra Jón Austmann í Ofanleiti segir í athugsemd þann 9.mars:

Er sá eini blíði dagur sem komið hefur á þessari vetrarvertíð. Athgrein: Ber sjálft með sér og útvísar að ég ekki tali um þessa seinustu 3ja mánuði þá mönnum minnisstæðu umhleypinga er verið hafa þetta haust. 

Norðri segir frá 31.mars:

Fyrra hluta mánaðar þessa var, sem að undanförnu, mjög stormasamt og stundum snjókoma. Víða hvar var orðið skart um jörð vegna áfreða og sumstaðar gamalla og nýrra snjóþyngsla. En einkum 21. og 22. [mars] var þíðvindi mikið og fjarska veður seinni daginn, svo víða kom upp mikil jörð. Það er haft fyrir satt, að í sumum sveitum muni vera farið að sneyðast um heybirgðir og það enda í góðsveitunum, hvað þá þar, sem peningur hefur verið að mestu á gjöf síðan í haust, t.a m. í Mývatnssveit. Þar eru og sagðir einstakir farnir að reka af sér sauði og hross.

Skipbrot: Sú fregn hefur borist hingað, að þeir verslunarfulltrúi J. Hólm á Skagaströnd og presturinn séra Björn Þorláksson á Höskuldsstöðum hafi sent hákarlaskip sitt, nýtt og vandað mjög að öllum útbúnaði, til hákarlaveiða yfir á Gjögur, sumir segja eftir korni á Reykjarfjörð. Á skipi þessu er sagt að hafi verið 15 manna, en þá þeir komu undir land að vestan, eða voru að fara þaðan, vissu þeir ekki fyrri til, enn að skipið reið fast á skeri nokkru frá landi. Skipverjar fengu bjargað lífi sínu með því að einn þeirra, sem syndur var, komst að landi með streng, og á þessum svo hver af öðrum. Það er mælt, að skipið hafi liðast í sundur og brotnað, og mikið af útbúnaði þess og farmi með öllu farist.

Húsfok: Það hefur frést hingað, að nú á þorranum hafi tekið upp af veðri lítið timburhús á Seyðisfirði, og fleygst fram í sjó, með einum manni í, Þorsteini Halldórssyni bókbindara, sem daginn eftir rak dauður að landi.

Þjóðólfur segir af skipsköðum í pistli þann 30.mars:

Almenningur reri hér um Nesin árdegis 14. [mars] í góðu veðri en ótryggu útliti, en aflíðanda miðjum-morgni gekk hann upp með éljagang og storm af suðri útsuðri, og veitti mjög torsótt að ná landi, einkum á Álftanesi, og urðu allflestir þeirra að láta berast undan fyrir ofveðrinu og hingað inneftir; þá fórust fjögur skip af Álftanesi og einn bátur, en tveir bátar héðan af nesinu; einstöku mönnum varð samt bjargað af skipshöfnunum, þar á meðal 2 af öðum bátnum héðan; 27 týndust alls af Álftanesi, en margt af þeim var utansveitar, og 6 hér af nesinu, flestir einnig útlendir. 

Ingólfur segir af tíð og slysförum þann 8.apríl:

Vér gátum þess seinast, er vér minntumst á árferði hér syðra, að brugðið hefði til umhleypinga, þá er leið undir enda janúarmánaðar. Þeir hafa og haldist síðan næsta miklir allan febrúar- og marsmánuð. Mátti veðrátta á þorra og góu heita mjög stirð, eftir því sem menn nú um langan tíma hafa átt að venjast hér á Suðurlandi; því þó að eigi væru frost að munum, þá voru oft og tíðum allákafir byljir af útsuðri; og hefir sú áttin oftast ráðið mestu og ræður enn í dag, þó að heldur mætti heita mari fyrstu vikuna af einmánuði. Þegar veðráttan var nú svona með sífelldum hroða og hafátt, þá fóru að vonum gæftir og aflabrögð eftir því; var hvorttveggja með lakasta móti þangað til með byrjun einmánaðar, að víða að úr veiðistöðum hafa borist nokkrar fiskifregnir, bæði úr útverum og eins úr syðstu veiðistöðum innan Faxaflóa, en mjög eru þær þó misjafnar enn sem komið er; og ollu því meðfram hinar stöðugu ógæftir. Það eru nú 20 ár síðan að vér eigum að minnast á annan eins mannskaða, og varð hér á Innnesjum þriðjudaginn seinastan í góu [14.mars]. Að meðtöldu skipi sem vantaði daginn áður af Álftanesi, fórust þar á nesinu 27 menn; af þeim 10 innlendir og 7 bændur. Að meðtöldum 1 bát, sem nokkru fyrir mannskaðaveðrið hafði farist inn á Sundum, og öðrum báti, sem nokkru eftir það týndist af Seltjarnarnesi, hafa alls farist héðan af nesinu 12 menn. Það segja margir, sem voru á sjó þennan mannskaðadag, að veðrið hafi hvorki komið svo brátt né verið svo ákaft, að menn skyldu hugsa, að slíkt manntjón mundi af hljótast; enda höfum vér og heyrt það af mönnum, sem bjargað var, að það hafi orðið sumum skipunum að minnsta kosti að tjóni, að áhöldin biluðu; og ættu þá slíkar slysfarir að gjöra menn vandari framvegis um útbúnað allan á skipum þeirra.

Þjóðólfur segir lauslega af tíð þann 8.apríl:

Það var hvort tveggja, að þessi vetur, sem nú telst bráðum liðinn, lagði snemma að, enda sýnist svo, sem hann ætli að reynast einhver hinn þyngsti bæði til sjós og sveita. Þessi langvinnu skakveður með éljagangi og blotum á mis, og víða með lélegum högum eða hagleysum, eins og hefir verið til þessa í sumum sveitum, kreppir mjög að öllum útigangsfénaði og tálgar af honum hold, en hey ganga til þurrða, sem von er, þegar gjafatíminn er svo þrauta-langur. — Vér höfum bréf norðan úr Miðfirði frá 20. [mars] og segir þar, að til almennra vandræða horfi með fénaðarhöld og heyskort, ef ekki komi bráður bati þá þegar, og sé líkt að frétta úr sveitunum þar næst fyrir norðan. Hér i nærsveitunum er og víða sagt heyskart hjá sumum, og útifénaður magur. Í Árnessýslu ofanverðri hefir verið hagskart og illviðrasamt allt þetta útsynningskast, og snjókyngið verið þar mikið, en miklu minna í sunnanverðri sýslunni og i Rangárvallasýslu; austar að hefir engin fregn komið.

Bátur með 2 mönnum fórst hér enn, frá Mýrarhúsum þriðjudaginn 28.[mars]; menn héldu fyrst að hann hefði máski hleypt undan inn í Sund; en báturinn er nú rekinn, og formaðurinn.  

Enn er stutt frétt í Þjóðólfi 15.apríl:

Hið sama veðráttufar og hrakviðri, eins og hér hafa gengið, er að frétta af öllu Austurlandi; víða haglítið en illt ástöðuveður allstaðar, og útifénaður magur. — Fyrir öllum Landeyjum og Eyjafjöllum var aldrei á sjó komið þegar síðast spurðist, ekki heldur í Mýrdal eður Meðallandi, nema einu sinni sitt skipið í hverjum stað.

Norðri segir í ódagsettu aprílblaði:

Veðráttufarið hefur um land allt verið mjög stormasamt og óstillt. Vetur þessi, síðan fyrir jól, er nær því hvervetna við sjávarsíðuna og í sumum sveitum talinn með hinum betri og bestu vetrum, sér í lagi með snjóleysur; aftur í nokkrum sveitum, efst til dala og fjalla og á stöku útkjálkum, einhver hinn harðasti með snjóþyngsli, áfreða og jarðbannir, og það sumstaðar síðan í haust, mánuði fyrir vetur. Það er því engin furða, þótt margir þar séu tæpir með hey, og sumir komnir á nástrá. Einstakir höfðu skorið af heyjum í Árnessýslu fyrir jólin, og hefði þá ekki batnað, ætluðu Skaftfellingar að gjöra slíkt hið sama. Vegna skakviðranna hefir peningur verið þyngri á fóðrum en ella, heyin víða að miklu upp gengin, og minna um fyrningar, en vænta hefði mátt í svo snjólitlum vetri og oft góðviðrasömum.

Hinn 29. [mars] var víða um land, að því leyti frést hefir, það ofsaveður, útsunnan, að elstu menn muna varla þvílíkt. Það urðu því hér og hvar skaðar og skemmdir í skepnum, húsum og skipum. Á Aðalbóli í Miðfjarðardölum, Guðrúnarstöðum í Vatnsdal, Gili, Fjósum og Botnastöðum í Svartárdal og í Vatnshlíð á Vatnsskarði er sagt, að samtals hafi hrakið víðsvegar, slengt niður, og fennt í giljum til dauðs hátt á 3. hundrað fjár; en þó varð fjárskaðinn stórkostlegastur á Gili; því þar er sagt, að farist hafi 70 ær og 24 sauðir. Einnig er sagt, að 12 sauði hafi hrakið á Siglunesi í sjó út. Í sama veðri fauk timburkirkjan á Fagranesi á Reykjaströnd um, og brotnaði mjög. Kirkjan í Flatey í Skjálfandaflóa ýttist hálf út af stæði sínu, og víða lá við sjálft, að hús færu um; þó varð mest tjón á Vopnafirði á kaupskipinu Hermóði, sem, eins og áður er getið, var komið þangað; það sleit upp í veðrinu, og rak að landi, og brotnaði, svo það fylltist þegar með sjó, og voru í því á sjötta hundrað tunnur af kornmat, steinkol og drykkjuvara öll, sem komið hafði með því. [Í Þjóðólfi 6.maí er sagt að þetta veður hafi verið 14.til 15.mars, en Brandsstaðaannáll tekur af vafa, það var 29. - sem og Þjóðólfur leiðréttir síðar].

Skiptapar höfðu orðið margir á Suðurlandi 14. [mars] í útsunnanverðri, og er sagt, að farist hafi um 40 manns, eða fleiri. Þeir voru í fiskiróðri. 3 menn höfðu og áður, [3.mars], drukknað af báti á leið úr Reykjavík inn í Mosfellssveit, og er sagt, að formaðurinn hafi verið drukkinn af brennivíni.

Brandsstaðaannáll [vor]:

[Þann] 26. apríl kom fyrst fjallleysing. Allan veturinn kom sjaldan meðalfrost, en þar á móti 50 blotar, en þó fleiri kafaldsdagar. 30. apríl kom snögglega mikill kafaldsbylur af norðri. Fór þá í maí að verða almennur töðuskortur. Héldust þá frost og gróðurleysi. 20-23. [maí] mikil hríð og fannkyngja á útsveitum. Þar hafði kringum allan Skaga og Skagafjörð verið lengst snöp og fjara. 24. kom góður bati og fljótur gróður. Flóði þá leysingarvatn yfir jörð mót austri og gjörði þar mikinn grasvöxt, en mót vestri í meðallagi.

Norðri segir af tíð og tjóni í tveimur pistlum í maí:

[16.] Það sem af er mánuði þessum, hefir veðuráttan oftast verið köld, og afleiðingar áfellisins, sem varð 30.[apríl] mjög stórkostlegar, ekki aðeins á fjöllum uppi, heldur og víða um byggðir, þar sem fé er sagt að fennt hafi bæði vestra, hér um sveitir og nyrðra, svo að samtals nemur mörgum hundruðum. Peningur er sagður víða orðinn magur og dreginn, og sumstaðar farið að hrökkva af; margir líka komnir á nástrá með töður og úthey. Fiskilaust hefir nú verið um tíma hér fyrir Norðurlandi; þar á mót hákarlsafli góður hjá þeim, er hann sækja. Yfir 300 selir höfðu fengist á Sléttu, þá seinast fréttist, en lítið í öðrum veiðistöðum.

[31.] Síðari hluta mánaðar þessa hefir veðráttan verið stilltari og blíðari, en áður, og furðanlegur gróður kominn. Eins og áður er getið, urðu um næstliðin mánaðamót dæmafáir fjárskaðar í hinni miklu landnorðan stórhríð; hraktist þá fé víðsvegar í vötn, gil eða ófærur, eða fennti, sumstaðar 20—50 frá bæ, og frá einum bæ 90, og í Möðrudal á Fjöllum 120.

Þjóðólfur segir af sköðum í pistli þann 6.júlí:

Svo fréttist úr hinum fjarlægari héruðum, að víða hafi króknað og fennt fénaður í illveðrunum, sem gerði vikuna eftir hvítasunnu [4.júní], og einkum á trinitatis [11.júní], bæði norðan- og austanlands; í Mývatnssveit fennti þá margt fé, í Öræfum samtals rúml. 120, og á einum bæ á Möðrudal á Fjöllum yfir 100 fjár. [Hér er óvissa um dagsetningar - líklega er átt við veðrið 30.apríl].  — Í hinum miklu veðrum í vor hafa enn farist þrjár hákarlajagtir af Ísafirði: „Litla-Katrín", sem héðan var keypt. „Lovísa", og einn „Dekksbátur"; á þessum jögtum öllum drukknuðu 18 manns. — Litill hákarlaafli er sagður þar að vestan, og mjög hart í ári.

Þjóðólfur segir 17.júní:

Satt er um skipskaðann úr Bolungarvík, þar fórust alls 24 manns, og var mannval þar úr sveitum. Oss er skrifað vestan úr Barðastrandasýslu 23.[maí] að þá sé þar kominn litill afli bæði af fiski og hákarli; að hinn vanalegi hrognkelsaafli þar um firðina hafi brugðist; að flestir kaupstaðirnir hafi verið matvælalausir í allan vetur, en talsverður fjárfellir hafi verið orðinn um Dýrafjörð, Arnarfjörð, Tálknafjörð og Patreksfjörð, og svo, að mörg heimili væru orðin sauðlaus. Besta vetrarfar er að frétta úr Múlasýslum og Austurskaftafellssýslu; þar var mjög aflalítið vetrarvertíðina, en ... mikill fiskur hljóp á land i Hornafirði, ...

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Á heiðum var jörð svört og fúin, en sein til gróðurs, þó klakalaus væri í kafi frá 19. sept. [haustið áður], 36 vikur. Í júní og júlí blíðviðri stöðugt. Sláttur hófst þann. 17. [júlí]. Var þá lengi hagstæð norðanátt. Töðufall var mikið, þar ei bagaði áburðarleysi haustið áður, sem víða var í Skagafirði. 8.-15. ágúst votviðri, aftur 19. stórrignt og votviðri á eftir, 2.-3. sept, flæsa og 12. þerrir. Hey hraktist víða mikið, þó mátti ná því fyrir göngur. Voru fjöll auð og gott veður. Út á Skaga var ónýting og heyskortur fyrir þokur og votviðri, en heyfyrningar urðu þar góðar. Frá júlíbyrjun var stöðug jöklaleysing til 26. sept. Gjörði þá vestankafald mikið.

Eggert Jónsson á Akureyri mældi 20 stiga hita eða meira fjórum sinnum þetta sumar (en hafði þó ekki hámarksmæli): 9.júlí (22,8°C), 10.júlí (22,0°C), 12.júlí (20,7°C) og 4.ágúst (20,0°C). 

Norðri segir í ódagsettu júníblaði:

Fyrra hluta mánaðar þessa var veðuráttan á landnorðan, köld og hretasöm, en síðan kyrrari og hlýrri með sunnanátt. Gróður er kominn víða hvar allt að því í meðallagi, þar sem jörð ekki hefur kalið, sem sumstaðar kvað vera til stórskemmda. Ennþá er víða hvar mikill jökull á fjöllum uppi og í afréttum. Í [maí] kom töluverður hafís hér undir land, og varð sumstaðar landfastur, og hroði af honum er enn sagður yst á Húnaflóa, en austar er hann sagður horfinn úr augsýn. Peningshöld voru víða hvar orðin á veikum fótum, og hjá nokkrum til muna hrokkið af.

Norðri segir í ódagsettu júlíblaði:

Grasvöxtur er sagður víðast hvar, einkum á harðvelli vel í meðallagi og jafnvel betur sumstaðar. Nýting á heyafla að þessu góð, enda hefur veðráttan verið oftast úrkomulítil og fágætlega stillt og kyrrviðrasöm allan þenna mánuð út nema dag og dag. Hákarlsafli varð hjá mörgum í vor og sumar með besta móti, og einkum hjá nokkrum dæmalaust mikill, allt að um og yfir 100 tunnur lifrar á skip, ... Fiskiafli var sagður allstaðar kominn fyrir sláttinn þar til var reynt, hér fyrir norðan land, en nú er svo sem ekkert talað um hann.

Skiptapar og skipbrot. Satt er það, að 2 fórust jagtirnar og 1 dekkbátur frá Ísafirði í vor, með 18 manna. Og einnig er satt sagt um skiptapana frá Bolungarvík með 24 menn. Franskt fiskiskip frá Dynkirken, hér um 60 lesta stórt, hefir nýlega strandað í Steingrímsfirði, vestanvert við Húnaflóa; skipverjar 16 að tölu, komust allir af, en skipskrokkurinn með seglum, reiða og áhöfn, selt við opinbert uppboð.

Norðri segir í ódagsettu ágústblaði:

Veðuráttan hefur fremur verið óperrasöm yfir mánuð þenna, og víða erfitt að verja hey fyrir skemmdum, einkum á útsveitum.

Þjóðólfur segir af loftsjón þann 26.ágúst:

[Þann 17.ágúst] varð vart við loftsjón bæði að Hraungerði í Flóa, að Fellsenda í Þingvallasveit og hér í Reykjavík; það var um kvöldið um náttmálabil, og var loft blikað og skýjað; miklum bjarma sló niður á jörðina og lagði með henni sem af eldingu, niðurganga bjarmans var um hánorður (héðan úr Vík að sjá um norður-landnorður); skömmu eður nálægt l 1/2 til 2 mínútum síðar, heyrðist úr sömu átt svo miklar drunur, að líkast var sem fallbyssuskot riði af, og heyrðist ómurinn lengi eftir jörðunni. Á þessa leið hafa þeir lýst loftsjón þessari, séra S.G Thorarensen í Hraungerði og Árni hreppstjóri á Fellsenda, og kemur það heim við það, sem staðarbúar hér, sem þá voru á gangi, veittu eftirtekt. Telja menn víst, að þetta hafi verið vígahnöttur.

Norðri segir í ódagsettu septemberblaði:

Fyrri hluta mánaðar þessa var mjög rigninga- og hretasamt, og einkum dagana 10. og 11. þ.m. dæmafá rigning, en seinni hlutann þurrviðri og sunnanátt. Víða voru mikil hey úti, sem nú flest munu að mestu, ef ekki öllu, komin í garð, og það með allgóðri verkun. Annars hefur grasvöxtur verið yfir land allt, þaðan vér höfum haft fréttir af, í betra lagi, einkum í harðvelli, og nýting í heyjum sæmileg, nema miður í sumum útsveitum. Fiskiafli mikill, þar honum hefur orðið sætt, og eystra í suðurfjörðum, helst ýsa og skata.

Þjóðólfur segir frá 14.október:

Grasvöxtur hefir á þessu sumri verið í betra lagi víðast um land, en nýting á mörgum stöðum í lakara lagi, og hin versta í sumum héruðum t.d. í Húnavatns- og Strandasýslu og víðar vestra, og svo austur um Fljótshlíð, Eyjafjöll, Mýrdal og Meðalland; svo þó að heyafli sé víða í meira lagi að vöxtum, þá óttast menn að hann gefist illa, einkum til mjólkur, því víða hefir mjög hitnað í görðum manna, og hjá báðum bændunum í Bræðratungu í Biskupstungum brunnu upp fyrir skemmstu mestöll hey þeirra ný og gömul; segja sumir að það hafi verið nálægt 3000 hestum alls. 

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Eftir það [frá 26.september] slæmt haust með rigningum, mest 12. okt., upp á mikið stormveður. Drap þá víða hey, sem rifið hafði. 6. okt. norðanhríð og þar eftir rigning mikil. 15. okt. fannkyngja og tók fljótt af, svo óstöðugt og frostasamt. Í nóvember góð tíð til 27., að mikinn snjó og storku gerði til lágsveitanna og hagleysi, svo sauðir komu á gjöf. Jólafasta varð sú versta, með hríðum og rigningarblotum. Lagði mikinn svellgadd yfir jörð. 7.-8. des, tók fyrir hrossbeit. Lengst var frostlítið og vestanátt. Á jólum brast á mikil norðanhríð um 3 dægur. Aftur á þriðja sunnanbylur. Voru þá komnir 11 blotar síðan með vetri.

Þjóðólfur segir af slysförum í pistli þann 6.janúar 1855 (stytt hér):

Eggert Jónsson sem lengi hafði búið í Grímstungu, hóf ferð sína að heiman 26.sept.[1854], og ætlaði „fyrir gafl", sem kallað er, vestur í Víðidal eður Miðfjörð; hríðaveður var, en hann vildi ekki þiggja, að fylgdarmaður færi með sér til bæja; villtist svo Eggert, og fannst hann eftir mikla leit örendur undir steini hjá ánni „Kornsá" vesturundan Ási í Vatnsdal; Eggert heitinn var 82 ára þegar hann dó. ... Nálægt 17. október fórst skip undir Jökli með 5 manns; fyrir því var Guðmundur bóndi Jónsson í Mávahlíð.

Norðri birtir tíðarfarspistla í október:

[14.] Í byrjun þessa mánaðar, og einkum þann 4. og 5. dag hans, keyrði víða niður, með norðanátt og hvassviðrum, mikla fönn, svo nær því var ókleyft í giljum og varla vegfært. Innistaða varð sumstaðar fyrir sauðpeningi í 1 og 2 daga. En þann 7.—10. gekk veðráttan til suðurs með þíðum og hvassviðrum, svo um fleiri sveitir varð öríst. — Flestir, ef ekki allir, hafa náð heyjum sínum. Það er sagt, að víða á útsveitum; og til sumra dala, séu hey, sem í garð eru komin, meira og minna hrakin og soðin niður. — Þar sem afréttir eru landþröngir og hagaléttir, hefur skurðarfé reynst að sögn í lakara meðallagi á mör.

[31.] Veðuráttan hefur verið þenna síðari hluta mánaðarins lík því að undanförnu, óstillt og hvassviðrasöm og stundum með snjókomu.

Norðri birti fréttir af tíð í nóvemberblöðum:

[16.]Hér um 12. október hafði í Húnavatnssýslu, og víðar vestra, gjört fjarska veður, svo hey tók niður að veggjum á Stóru-Giljá í Þingeyrasókn, og víðar hafði svipt meira og minna þökum af húsum og heyjum, og á einum bæ hafði veðrið klofið sundur gildingarvegg [veggur sem verið var að hlaða?] að endilöngu.

[30.] Það til hefur frést um land allt, hefur, það af er vetri, viðrað líkt og hér norðanlands. — Fiskiafli hafði verið góður á Suðurlandi þá sjaldan gaf að róa.

Norðri segir af tíð í ódagsettu desemberblaði:

[Þann 3.desember] kom austanpósturinn Níels Sigurðsson hér á Akureyri, og lét hann illa af hríðum og snjóum á leið sinni, sér í lagi frá Jökulsá i Axarfirði og hingað, enda hefur sjaldan viðrað annað þennan mánuð. Enda eru nú jarðbannir af áfreðum og snjóþyngslum yfir allar sveitir hvað til hefur frést. Vopnafjarðarskipið kom loks þangað 12. [nóvember] eftir 10 vikna hrakning landa á millum.

Norðri gerir upp árið 1854 í ódagsettu janúarblaði 1855:

... Veturinn í fyrra var og víðast við sjávarsíðuna svo góður, að útigangspeningur gekk að mestu sjálfala. Aftur á móti lagði að í sumum sveitum, mánuði fyrir vetur og með vetri [haustið 1853], og hélst við fram á vor. Sumir lentu því í heyþroti, peningur varð magur og það víða, því mjög oft var skakviðrasamt, og enda mun sumstaðar hafa hrokkið af. Vorið var framan af heldur kalt og hretasamt, en þá á leið, eða eftir miðjan júní, hlýnaði veðurátta og gjörðist hagstæð, greri þá vel svo grasvöxtur varð góður, einkum á harðvelli. Heyföng urðu víða í sumar mikil og hirtust allvel í meginsveitum, en miklu mun miður til sumra dala og á útkjálkum, og enda svo illa, að mikið mein varð að, því þegar á leið sumarið varð veðurátta votviðrasöm og með hretum, óstillt og gjóstug; og í byrjun október keyrði niður mikla fönn í byggðum, svo fé fennti, auk heldur á fjöllum uppi. Batnaði þá veðuráttan aftur með köflum svo heita mátti góð tíð og jarðsælt til nóvembermánaðarloka, að lagði algjörlega að með frosti og snjókomum og dag og dag spilliblotum. Fór þá að þrengjast um haga, vegna snjóþyngsla og áfreða, og við árslokin heyrðist, að hvervetna um allar sveitir væri miklar jarðbannir orðnar.

Sláturfé reyndist víðast hvar í haust í meðallagi á hold en síður á mör. Málnyta varð víða hvar næstliðið sumar í betra lagi. Fjárskaðar urðu á nokkrum bæjum í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum 29. mars í útsunnanbyl, er allt í einu brast á og hrakti fé víðvegar, sem sumt fennti í giljum eða sló niður til dauðs. Og aftur 30. dag apríl gjörði hina mestu landnorðanstórhríð, svo fádæma fjárskaðar urðu, helst eystra, frá 10—120 fjár á bæ. Í maímánuði rak hér norðan að landinu töluverðan hafís, og sumstaðar varð hann landfastur.

Húsfok: Á þorranum tók lítið timburhús á Seyðisfirði upp í veðri og fleygðist fram á sjó með 1 manni í, sem rak dauður að landi daginn eftir. 29. mars fauk timburkirkjan á Fagranesi á Reykjaströnd um koll og brotnaði mjög. Í sama veðri ýttist kirkjan á Flatey á Skjálfandaflóa hálf út af stæði sínu. — Hey fuku 12.(?) október á Stóru-Giljá í Húnavatnssýslu og víðar; og 6. nóvember 60 hestar af heyi á 2 bæjum, og 1 hús á öðrum, í Borgarfirði eystra.

Skiptapar og mannskaðar hafa orðið þetta ár á Álfta-, Seltjarnar- og Akranesjum, suður í Garði eða Vogum, á Ísafirði, Bolungarvík, Siglufirði og undir Jökli. Telst svo til að alls muni hafa farist á skipum þessum yfir 100 manna. Auk þessa hafa 6 orðið að kalla bráðkvaddir, 3 orðið úti og 3 hrapað, 2 fyrir björg og 1 ofan af húsþaki; 1 brann inni og 1 stytti daga sína. Hafskip hafa strandað, Hermóður á Vopnafirði 29. mars, franskt fiskiskip á Steingrímsfirði í ágúst og frakkneskt herskip laskaðist við Austfjörðu en varð bætt. Allir menn á skipum þessum komust af.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1854. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.  

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smávegis um október

Það fór mjög vel með veður í október og hik kom á framsókn haustsins. Fyrri hluti mánaðarins var þannig að tiltölu kaldari en síðari hlutinn. Við látum að vanda Veðurstofuna um að gera grein fyrir mánaðarmeðalhita einstakra Veðurstöðva (sú greinargerð birtist vonandi fljótlega upp úr helginni), en lítum á stöðuna á landsvísu og á einstökum spásvæðum. 

Í byggðum landsins var hitinn nú +0,7 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020 og +0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. 

w-blogg011120a

Hér má sjá röðun meðalhitans á einstökum spásvæðum meðal annarra októbermánaða aldarinnar. Við Breiðafjörð og og Vestfjörðum er þetta fjórðihlýjasti októbermánuður hennar, og um allt vestan- og norðanvert landið var hitinn í efsta þriðjungi. Að tiltölu var kaldast á Suðausturlandi - þar raðast mánuðurinn í 10.sæti.

Fyrstu 10-mánuðir ársins hafa verið hlýir líka - sé miðað við langtímameðaltöl, en samkeppnin er hörð á þessari hlýju öld þannig að meðalhiti á landsvísu raðast í 16.hlýjasta sæti (af 20) - og ljóst að árið verður ekki meðal þeirra allrahlýjustu. 

w-blogg011120b

Myndin sýnir landsmeðalhita fyrstu 10-mánuði ársins (mikil óvissa er með meðalhita landsins fyrir 1874 - þó við vitum meira fyrir einstakar stöðvar á því tímabili). Árið 2020 er greinilega hlýtt - mun hlýrra en flest ár tímabilsins 1965 til 2000 og á hlýskeiðinu 1925 til 1964 hefði það líka verið í hópi þeirra hlýrri.

Á myndinni má líka sjá 10- og 30-árahitakeðjur. Við lítum nánar á þær á mynd hér fyrir neðan.

w-blogg011120c

Við sjáum að báðar hitaraðirnar eru nú í hæstu hæðum, 10-árahitinn hefur ekki mikið breyst síðustu 10 árin - enda hefði áframhald hlýnunar með þeim hraða sem var talist til óhugnaðar. Þrjátíu ára meðaltalið hefur aldrei verið hærra en er nú - og líklegt að það haldi áfram upp á við í fáein ár í viðbót (aldrei hægt að fullyrða neitt um slíkt að vísu) - spurning hvernig 2021 kemur út í samanburði við 1991 - sem var fremur hlýtt en árin 1992 til 1995 hins vegar köld. Ekki er ólíklegt að heldur slái á 30-ára hlýnunina þegar kemur fram undir 2030 - þegar alvörusamkeppni hefst við hlýju árin. Það ræðst auðvitað af hlýnun á heimsvísu líka.

Hægviðrasamt var í október - þó ekki methægviðrasamt því nokkuð blés síðasta þriðjung mánaðarins. Austanátt var með tíðasta móti - sérstaklega í háloftunum og er aðeins vitað um meiri austanátt í miðju veðrahvolfi einu sinni áður síðustu 70 árin - það var í október 1976, háloftaaustanáttin var svipuð og nú í október 2002.

Það gerðist einnig að október varð lítillega hlýrri í neðri hluta veðrahvolfs heldur en september. Það er ekki algengt, gerðist síðast 1985. Ritstjórinn hefur ekki enn farið í saumana á mismuni hita mánaðanna á veðurstöðvunum - en gerir það fljótlega.  


Af árinu 1853

Árið 1853 hlaut nokkuð misjöfn eftirmæli, flestum þótti tíð þó hagstæð þegar á heildina er litið, oft hafi litið illa út en ræst úr áður en illa fór. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,1 stig, -0,4 stigum neðan meðallags næstu tíu ára á undan. Í Reykjavík var meðalhiti 3,9 stig, -0,5 stigum neðan meðalhita næstu tíu ára á undan. Á Akureyri var meðalhiti 2,8 stig. Allir mánuðirnir júní til september teljast hlýir, ekki þó sérlega. Þeim hlýindum virðist þó hafa verið nokkuð misskipt, hlýrra var að tiltölu fyrir norðan heldur en syðra, sumarið var fremur kalt í Reykjavík (um hita á Austurlandi vitum við ekki að svo stöddu). Desember var einnig hlýr. Október var sérlega kaldur og sömuleiðis var einnig kalt í janúar og febrúar.

ar_1853t

Einn dagur var sérlega kaldur í Reykjavík, 29.júní, en enginn dagur sérlega hlýr. Í Stykkishólmi voru köldu dagarnir fimm, allir í röð, 17. til 21.janúar. Þrír dagar voru sérlega hlýir í Stykkishólmi, 13.júní og 6. og 7.september. Síðastnefnda daginn mældist 19,8 stiga hiti á Akureyri (engin hámarksmæling þó). 

Úrkoma í Reykjavík mældist 956 mm. Hún var óvenjumikil í janúar, september, nóvember og desember, en fremur þurrt var í febrúar og október.

ar_1853p

Loftþrýstingur var að meðaltali sérlega hár í febrúar og desember og einnig hár í ágúst. Aftur á móti var hann sérlega lágur í nóvember og janúar. Ágúst var rólegur mánuður. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi 956,7 hPa þann 21.október en sá hæsti á Akureyri 10.febrúar, 1043,9 hPa.

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar.  

Gestur vestfirðingur segir frá tíðarfari ársins 1853 í pistli sem birtist í blaðinu 1855:

Árið 1853 var enn góð árferð, eins og að undanförnu. Árið gekk að sönnu nokkuð harðindalega í garð með frosti og fannkomu. Fyrir haga tók fyrir þorra og sumstaðar fyrri, og hélst jarðbann það víða fram undir góulok; breytti þá til þíðviðra, svo að hagar komu upp; kólnaði þó aftur með einmánuði, og héldust kuldar þeir fram yfir hvítasunnu. Eftir það voru þurrkar tíðir, en sjaldan vætur. Eftir Jónsmessu gjörði norðanhret mikið með snjó, sem olli því, að búsmali nytkaðist mjög illa, og allvíða týndust unglömb að mun, því hretið dundi á um fráfærutímann. Eftir þingmaríumessu [2.júlí] komu hlý staðviðri og hélst þaðan af jafnan góð veðrátta fram yfir höfuðdag. Sökum vorkuldanna og Jónsmessuhretsins spruttu tún ei betur en í meðallagi; aftur urðu úthagar betri. Það bætti og líka mikið um, að tún tóku þá hvað best að spretta er búið var að slá þau, svo nokkuð þeirra var allvíða tvíslegið, og sumstaðar þríslegið. Þó óþerrar væru nokkrir framanaf slættinum, urðu þeir óvíða vestra að miklum baga, svo heyafli bænda varð í góðu lagi, og urðu þó heyannirnar fremur afsleppar, því þau hey, er seinast voru slegin, hröktust mjög, og fóru sumstaðar undir snjóa, sem ei leystu upp af þeim aftur. Haustið var fremur harðviðrasamt og ógæftir miklar til sjóar. Fjárskurður varð nú laklegur mjög, einkum á mör, svo menn mundu ei jafnrýran. Þegar um veturnætur komu fannalög mikil, og var veðrátta ill framyfir miðja jólaföstu, svo allvíða lagðist vetur á þegar eftir allraheilagramessu með köfuldum og hagaskorti; en frost voru varla teljandi. Hálfum mánuði fyrir árslokin kom bati góður, svo víða komu upp hagar aftur.

Afli varð víða allgóður; en í Dritvík hálfu minni en best hafði verið hin árin. Steinbítsafli vestur um fjörð varð og mjög rýr; aftur á móti fiskaðist vel bæði þorskur og hákarl. Þá aflaðist og vel í Strandasýslu allt sumarið, haustið og frameftir vetrinum, einkum í Steingrímsfirði. Undir Jökli urðu bestu hlutir ...

[Þann 15.janúar] fórst bátur á leið úr Fagurey undir Jökul með 4 mönnum, sem týndust allir; formaðurinn hét Jón Jóhannsson. ... [Þann 24.júlí] týndust 4 menn af báti á heimleið úr Svefneyjum til Bjarneyja. Maður, er Gunnar hét, týndist af báti í Jökulfjörðum. Það var og í Skálavík, að börn léku sér í fjöru niðri, brotnaði þar þá hafísjaki, og varð eitt barnanna undir honum og beið bana af. Í ofsaveðri því, er gjörði 22. september, rak kaupskip 50 lesta á land á Reykjarfirði, og brotnaði svo, að við uppboð var selt skipið og farmurinn, sem á því var. Miklu af farminum varð bjargað, en ýmsar fóru sögur af uppboðsþingi þessu, að eigi hefði því sem skipulegast hagað verið; er svo sagt, að skiphróið með öllu, nema seglunum, en með miklu í af trjáviði, 50 tunnum brennivíns, sykri og öðru, sem dulið var fyrir þingheyendum, hefði verið selt fyrir 270 rdl., en þótti þó, þá er aðgætt var, allt að 4000 rdl. virði. Í ofviðri því, er hér var getið, týndust og 2 fiskiskútur Ísfirðinga; var önnur þeirra nýlega keypt frá Hafnarfirði, og áttu þeir hana saman Paulsen kaupmaður í Hafnarfirði, Ásgeir, borgari á Ísafirði, Ásgeirsson prófasts Jónssonar í Holti, og formaðurinn Bjarni Össurarson, er drukknaði á henni. Hin skútan var þilbátur, er „Jóhannes" hét; áttu þeir hann Dýrfirðingarnir, formaðurinn hét Guðmundur Guðmundsson úr Dýrafirði. Á skútum þessum drukknuðu alls 12 menn.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Til þorra stillt frostveður, fannkomulítið og jarðbann fyrir fé. Með þorra gerði 4 smáblota. Komu þá hross á gjöf hér um sveitir, en jörð hélst í lágsveitum norðan Skarð. Fyrri part vetrar kom einn bloti um 13 vikur, 30. nóv. Jarðleysi hélst enn lengi; oftar stillt veður og gaddlítið. Í þriðju viku góu sólhlýindi, tók vel í mót sólu. Aftur 16.-25. mars frostamikið; þá á föstudag langa [25.mars] lognsnjór.

Þann 21.febrúar segir athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði frá hafís útifyrir. 

Norðri segir í ódagsettu febrúarblaði:

Veðurátta hafði verið allgóð um Suðurland, nema nokkuð frostasöm. ... Í Skaftafellssýslu varð sumstaðar haglaust með jólaföstu og á Síðunni með nýári, og víða fyrir austan fjall á jólum. Blota hafði gjört í miðjum næstliðnum mánuði (janúar), og hafði þá komið upp jörð undir Eyjafjöllum og Mýrdal. En aftur á móti hafði hann hleypt öllu í gadd um Mýrar og Borgarfjörð og í Kjósar- og Gullbringusýslu. Fannfergja er sögð og jarðbönn á Vesturlandi. Í miðjum janúar, hafði komið nokkur afli suður í Höfnum og Vogum.

Ingólfur segir frá þann 12.febrúar - og lýsir fyrst janúarmánuði:

[Janúar] Þennan mánuð hefur hér á vesturkjálka Sunnlendingafjórðungs verið vetrarfar meira, en menn hafa átt að venjast um mörg undanfarin ár; hefur snjókoma verið töluverð, og þess á milli frosthörkur og spilliblotar. Líkt þessu er að heyra um vetrarfar úr öðrum fjórðungum, nema hvað harðindin hafa byrjað þar miklu fyrr á vetrinum, en hér sunnanlands, því þar komu þau ekki að kalla má fyrr enn með nýári. Það mun þó mega fullyrða, að eigi hefur vetrarfarið gengið jafnt yfir allar sveitir, því þær eru sumar, sem til þessa tíma hafa fyrir litlum, eða engum harðindum orðið, að minnsta kosti hafa þær fréttir borist úr vesturhluta Borgarfjarðar. Vér höfum fengið fréttir nýlega bæði að norðan og úr austursveitum, og tala þær helst um harðindi þessi.

Enn má heita að vetrarfar sé allt hið sama og verið hefur að undanförnu. Hér eru nú helst á orði hafðar slysfarir þær, sem orðið hafa austan fjalls: hefur einn maður orðið úti á Rangárvöllum, 2 menn i Flóanum, og maður í Ölvesi dó í höndum samferðamanna sinna, áður þeir gátu komið honum til byggða. Þar að auki hefur nokkra skammkalið svo, að sumir hafa þegar dáið, en sumum er varla talið lífvænt.

Ingólfur lýsir þann 26.febrúar tíðarfari í mánuðinum til þessa:

Þessi mánuður fer yfir höfuð að tala líkan vitnisburð hjá oss, og fyrirrennari hans; því þó veðrátta hafi verið miklu mildari seinni hluta hans, þá hefur hún samt eigi getað unnið neina bót á jarðbönnunum, sem víðast voru komin um allt land og haldast við enn í dag. — Nú eru póstarnir komnir að norðan og vestan, og menn og bréf koma að úr öllum áttum. Harðindin eru hin helstu tíðindi; byrjuðu þau sumstaðar þegar með vetri, víðast hvar bæði nyrðra og vestra þegar hálfur mánuður var af vetri. — Slysfarir heyrast og nokkrar auk þeirra, sem áður er getið. Skip fórst með 4 mönnum undir Jökli í þessum mánuði. Kvenmaður varð úti í Skagafirði; hún var á ferð með manni; þau villtust bæði, fór hann þá að leita fyrir sér og bjó áður um stúlkuna, en gat eigi fundið hana aftur. Unglingspiltur varð og úti milli bæja í Vatnsdal i Húnavatnssýslu. ... Fiskiafli er í veiðistöðunum hér fyrir sunnan, og sækja Nesjamenn þangað fisk enn að nýju.

Þjóðólfur segir almennar tíðarfréttir í pistli 2.mars:

Þegar seinast spurðist (um 20. febrúar) voru svo að segja allstaðar jarðbönn eystra, austur að Skeiðarársandi. Eins er að frétta vestan- og norðanlands. Úr Mýra- Og Borgarfjarðarsýslum er sagt að alltaf hafi haldist hagar að nokkru, einkum fyrir hross. En nú virðist æskilegur bati að vera kominn.

Ingólfur segir 18.mars:

Þá er komið í seinustu viku góu, og verður ekki annað um veðráttufar hennar sagt, enn að það hafi verið að minnsta kosti hér á Suðurlandi allmjúkt og blítt. Þó eru varla líkur til, að harðindunum sé farið að létta af í þeim héruðum landsins, þar er jarðbönnin hafa verið mest og staðið lengst; en vér fögnum nú bót á þeim úr þessu, því veðurbatinn sýnist verða æ eðlilegri. — Frá sjónum getur nú Ingólfur borið góðar fréttir upp í sveitirnar, og glatt konur og kærustur útróðrarmannanna, því út lítur fyrir góðan afla á Suðurlandi.

Í marsblaði Norðra (ódagsett) eru fréttir af tíð, aflabrögðum og slysförum (við styttum þær nokkuð hér):

Veðráttufarið hafði, frá því er seinast fréttist af Suðurlandi, ... undan, verið allgott, einkum síðan á leið og linnti hvass- og harðviðrum, og víða verið þar jörð fyrir útigangspening, einkum í Mýra- og Borgarfjarðar sýslum. Þegar seinast fréttist að austan, hafði víða verið jarðbönn, og þá sjaldan gaf að róa, hafði varla orðið fiskvart um Innnes; þar á móti hafði ætíð fiskast nokkuð, þá róið varð frá Suðurnesjum, ... Af öllum útkjálkum landsins vestra, nyrðra og eystra, er að frétta fannfergju og jarðbannir; aftur víða til sveita komin upp nokkur jörð, einkum í Fljótsdal, á Jökuldal, í Uppsveit, í Kelduhverfi, við Mývatn, vestanvert í Eyjafirði, og í Hörgárdal, þó best í Skagafirði, og nokkur jörð hér og hvar um Húnavatnssýslu. Margir eru sagðir komnir að þrotum með heyföng sín, og skepnur orðnar dregnar og farnar að megrast. Sumir hafa og gefið peningi sínum korn og önnur matvæli. Það vofir því yfir, batni ekki því betur og fyrr, minni og meiri fellir á peningi. Hreindýr hafa sótt venju framar í vetur til byggða, helst út á Sléttu og að Mývatni; það hafa því á Sléttunni verið unnin 100 hreindýr, og við Mývatn 50; og þar að auki er mælt, að þau hafi fyrir hungurs sakir fækkað mjög. Hafís rak hér að Norðurlandi, seinast í næstliðnum mánuði (febrúar), einkum fyrir Sléttu, og með landi fram til Sigluness, allt vestur um Skaga, svo að víða varð ekki eygt yfir hann af fjöllum. Engin höpp fluttust með honum, hvorki hvalur né viður. Nokkru síðar hvarf ís þessi allur úr augsýn.

Mann hafði kalið í vetur á Mýrdalssandi, svo að af varð að taka fyrir víst aðra höndina. Í Flóanum er sagt, að hafi farist 2 menn, og 2 úr Ölvesi, og aðra kalið til stórskemmda. Í Haga á Barðaströnd, er sagt, að bændurnir þar misst hafi allt fé sitt í sjóinn, en hvernig, hefur enn ekki frést, og höfðu nokkrir þar í sýslunni bætt þeim skaðann. ... Skiptapi hafði orðið með 6 mönnum á Barðaströnd um miðsvetrarleytið. Unglingsmaður hafði orðið úti á Fjarðarheiði, hér á deginum; hann hafði verið í mjög skjóllitlum klæðum. Annar handleggsbrotnaði í sama mund og á sömu heiði; en honum varð bjargað. Í haust sem leið, fóru 2 menn yfir svonefnt Hestskarð, sem er millum Siglufjarðar og Héðinsfjarðar, með kindur; vildi þá svo til, þegar upp á skarðið komu, að 1 eða fleiri af kindunum hlupu út úr rekstrinum; það hljóp því annar maðurinn fyrir þær; en í sama bili verður honum litið við, hvar hann sér dauðan mann liggja; hann kallar til samferðamanns síns; þeir fara svo að hreyfa við líkinu; var það þá sem fölskvi eða hismi, þá á því var tekið; en þó voru ýmsir partar úr fötunum lítt fúnir. Þegar menn þessir komu til bæja, sögðu þeir hvað til tíðinda hafði orðið í ferð þeirra; uppgötvaðist þá, að unglingsmaður hefði í október 1833 orðið úti á leið þessari, en aldrei fundist.

Þjóðólfur segir þann 16.apríl:

Með mönnum, sem nýkomnir eru að vestan og norðan úr Húnavatnssýslu hafa litlar fréttir borist. Hagasnöp nokkur eru nú komin víðast fyrir vestan, og hefir þar verið mjög misskipt vetrarfari, svo að allt að 20 vikna gjöf á fé hefir verið sumstaðar, en aftur á öðrum stöðum aldrei gefið fullorðnu fé, t.d. í kringum Patreksfjörð. Á 3. í páskum [29.mars] var engi hláka né verulegur bati kominn í Húnavatnssýslu, og þá því síður lengra norður, eftir því sem að líkindum ræður. Er í munnmælum, að margir búendur í Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslu hafi verið teknir að skera niður nautpening sinn og fénað, sakir heyjaþrota. Fyrir austan fjall eru alstaðar komnir upp góðir hagar, allt austur að Mýrdalssandi.

Ingólfur segir af árferði í pistli þann 12.apríl:

Það er nú næstum mánuður síðan vér drápum á þetta atriði í Ingólfi, þá er 3 vikur voru af góu. Veðurreyndin hefur haldist lík því, sem þá var sagt, allgóð hér á Suðurlandi; hafa oftast verið kælur, þó hægar, með töluverðu næturfrosti; hefur nú viðrað svo fram í miðjan einmánuð. þess vegna er hætt við, að seint hafi orðið um bata í þeim sveitum, þar sem jökullinn var mestur; en vér höfum engar vissar fregnir þaðan fengið, og getum því ekki að svo komnu sagt, hversu úr hefur ráðist. Af Vesturlandi höfum vér fregnað svo mikið, að flestir hafa staðist harðindin, og eigi mun vetrarríkið hafa unnið þar neitt verulegt tjón velmegun manna. Bestu aflabrögð hafa verið undir Jökli, eru þar taldir hlutir almennt 500 til 800 frá nýári til páska. Á Suðurlandi má árferði heita yfir höfuð að tala æskilegt bæði til sjós og sveita. Harðindin voru þar aldrei nema svo sem 6 vikna skorpa, þar sem þau voru ríkust; og svo munu víðast hvar nægar jarðir hafa verið upp komnar þegar á páskum [27.mars]. Þegar litið er hér á aflabrögð um þessa vertíð, mega þan víða heita góð, sumstaðar í betra lagi, en sumstaðar líka sáralítil, svo næst gengur fiskileysi, eins og verið hefur til þessa í Njarðvíkum og Vogum. ... Frá Norðurlandi getum vér ekkert sagt með vissu; en ískyggilegar fregnir berast þaðan um harðindi og felli í sumum sveitum.

Norðri segir í ódagsettu aprílblaði:

Veðráttufarið hefur um næstliðna 3 mánuði, fremur mátt heita kyrrt og úrkomulítið, en aftur mjög frostasamt og kalt; enda er enn víðast mikill jökull á jörðu, og í sumum byggðum baldjökull yfir allt. Margir höfðu á útsveitunum í Norðurmúlasýslu verið búnir öndverðlega í þessum mánuði, að reka af sér sauðfé sitt og hross, bæði frammi í Fljótsdal og eins í Jökuldal, svo að þúsundum skipti af sauðfé og tugum af hrossum. Einnig hefur verið sagt, að nokkrir útsveitamenn í Skagafjarðarsýslu hafi rekið fram í miðsveitirnar þar sauði sína og hross. Í almælum er nú að fleiri en færri muni þegar komnir á nástrá með pening sinn, og hjá einstökum farið að hrökkva af. Á Vesturlandi kvað jörð vera að nokkru uppkomin hér og hvar; ... Á Barðaströnd aflaðist næstliðið haust 280 tunnur af jarðeplum; og í Skriðuhrepp í Eyjafjarðarsýslu 150 tunnur. Víðar höfum vér enn ekki fengið að vita um jarðeplatekju hið næstliðna sumar ...

Í sama tölublaði Norðra er alllöng grein eftir Jón Hjaltalín: „Fáeinar nýtar athugasemdir um barómetrið (loftþyngdarmælirinn) sem veðurspá“. Þar eru raktar reglur kenndar við Fitzroy aðmírál sem síðar varð fyrsti forstjóri bresku veðurstofunnar. Minnst er á þessar reglur í pistli hungurdiska: Spár með hjálp loftvogar og hitamælis.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Eftir páska tók upp. 8.-16. apríl altók upp í sveitum, án þess hláku gerði. Eftir sumarmál mikil næturfrost. 4. maí sást litka tún. 13. maí kom fyrst fjallbyggða- og heiðarleysing og varð langur og þungur gjafatími. Vorið var þurrt, hretalaust, oftar næturfrost.

Þann 2.maí greinir Þorleifur í Hvammi frá jarðskjálfta kl. 3 1/2. Aðfaranótt 11.apríl er getið um jarðskjálfta á Hvanneyri í Siglufirði. 

Ingólfur segir þann 10.maí:

Til þessa hefur hér á Suðurlandi haldist hin sama kuldaveðrátta, sem verið hefur, og út lítur fyrir að eftir sumarmálin hafi gjört illt kast fyrir norðan, sem enn eigi er til spurt hvern enda haft hefur.

Norðri segir í ódagsettu maítölublaði:

Framan af mánuði þessum gengu hér nyrðra, og hvað til fréttist, hörkur og hríðar, og voru þá flestir komnir að þrotum með heyföng sín, og ekki annað sýnna, en skepnur mundu horfalla hrönnum saman. Fannfergjan var enn víða hvar dæmafá, og margir höfðu rekið sauðfé sitt og hross þangað, er jörð var helst upp komin. Allri venju framar var og bjargarskortur meðal fólks, og einkum smjörekla, svo að fáir muna slíka, og mun því ekki aðeins valda gagnsemisbrestur af kúm næstliðinn vetur, heldur og það ekki minna, hvað eyðist af rjóma til kaffidrykkjunnar. Flestir verslunarstaðir hér nyrðra, munu og hafa verið matvörulitlir og lausir, og olli því nokkuð það, að sumstaðar hafði kornið verið tekið til að gefa það skepnunum, auk hins sem margír, er fiskráð höfðu, gáfu hann peningi sínum. Og hefði ekki forsjóninni þóknast að veita oss hina blíðustu og hagstæðustu veðuráttu, gróður og grasvöxt síðan fyrir næstliðna hvítasunnu [15.maí] og allt fram á þenna dag, mundi skepnudauði og hallæri, flestra von fyrri, geisað hafa víða yfir landið. ... Það er mjög kvörtun um það, einkum í Eyjafirði, að grasmaðkur (tólffótungur) sé kominn svo mikill hér og hvar í tún og úthaga þar sem vatn ekki kemst að, að gróður allur og enda grasvöxtur sé í burtu numinn, og peningur flýi pláss þessi.

Norðri segir í ódagsettu nóvemberblaði:

Þess hefur og gleymst að geta, að hinn 21. dag maímánaðar seinast féllu skriður úr fjallinu ofan Garðsvík og Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd, sem liggur austanvert við innri hluta Eyjafjarðar, og vita menn ekki til, að þar hafi nokkru sinni áður fallið skriður; þær tóku töluvert af bithaga; ein þeirra var og nær 50 föðmum á breidd, og spilltu mjög engi á Sveinbjarnargerði; aðeins eitt trippi fórst undir skriðuföllum þessum.

Ingólfur segir fréttir af árferði þann 16.júní:

Vér drápum seinast á árferði hér sunnanlands rétt fyrir [vertíðar]lokin, og gátum vér þess þá, að til þess tíma hefði haldist hin sama kuldaveðrátta, sem verið hafði að undanförnu, með sífelldri norðanátt og næturfrosti. En strax eftir lokin sneri veðrátta sér til gagnstæðrar áttar, svo viðrað hefur nú kalsa af suðri og krapaskúrum síðan á hvítasunnu [15.maí] og allt fram á þennan dag. — Aflabrögð hafa hér á Innnesjum verið með minnsta móti þessa vorvertíð; en vel hefur fiskast á lóðir í veiðistöðunum undir Vogastapa, og má það verða nokkur bót fyrir fiskileysið, sem þar var í vetur. — Bréf úr Snæfellsnessýslu frá 12. maí segir: „Vorið frá sumarmálum og hingað að hefur verið kalt, skakviðrasamt og gróðurlaust, skepnuhöld slæm og pest í fénu, aflalaust að kalla við Hellna, á Stapa og fyrir allri Staðarsveit". — Bréf úr Múlasýslu syðri frá 21.apríl segir: „Tíðarfar hefur verið svo, að einstök harðindi hafa verið síðan fyrir jólaföstu og það til páska [27.mars]; þá fór að batna hér í sumum sveitum, en sumstaðar er lítil eða engin jörð enn þá upp komin, því það setti hér niður svo mikið snjókyngi, að menn muna eigi slíkt, og lítur nú helst út fyrir fénaðarfellir nokkurn, einkum ef illa vorar, því almennt heyleysi er hér um sýslu, svo enginn má heita hjálplegur, en einstaka menn sér bjargandi; litt er að frétta yfir höfuð úr Norðurlandi".

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Í miðjum júní voru fjöll fær. Eftir Jónsmessu norðanstormur og kuldi. Með júlí þurrkar, en 8.-14. gott grasveður og varð snemmgróið, en þó í minna lagi. Sláttur byrjaði í miðjum júlí. Gafst þá hagstætt veður, þó þótti þoku og óþerrasamt til fjallbyggða. Frá 9. ágúst til 13. sept. sífelldir þurrkar og gekk seint sláttur á þurrlendi, með því graslítið var, en vel heyjaðist á flóum og votengi, sem nú var allt að kalla þurrt. Í september, einkum 3., 4., 6., 8., og 9., mjög hvasst af suðri, þar eftir rekjur. Útsynningur 17. sept., mátti ná heyi inn, en ekki að skaðlitlu síðar. Á mánudag 19. sept. í göngum rak niður lognfönn mikla á útheiðum og fimmtudag [22.september] eitthvert mesta norðan-ofsaveður með stórrigning. Nóttina og daginn eftir sama ofviðri með slettingshríð, svo fannir lagði miklar. Lögðu Svínvetningar þá með Vatnsdalssafn út fyrir og náðu með miklum mannafla og besta fylgi daglangt á vatnsbakkann hjá Mosfelli, sem þá var auður. Heiðar og fjöll urðu ófær. Nokkrar kindur fórust af norðansöfnum frá Stafnsrétt, sem yfirgefin voru á fjallinu. Enginn mundi slíkt illviðri og ófærð á fjallbyggðum á þeim tíma, ásamt hungur og hrakning á réttafé. Sauðfjárrekstrar tepptust að öllu frá Stafns- og Kúluréttum, en kaupafólk var komið suður áður. Úr vestursýslu komst sumt af því í mesta fár, en fjárrekstrar komu seinna. Hey, er úti var, fórst að mestu og ást upp yfir allar sveitir, því aldrei tók snjóinn upp, en aðeins kom snöp til fjallbyggða, Sæmundarhlíð og Efribyggð. Í lágsveitum var hey nokkuð upp kraflað 5.-8. okt. Á Vatnsnesi og fram Miðfjörð, á Ströndinni, kring Skaga, Reykjaströnd og Hegranesi kom lítil fönn, en veðurofsinn sami. Engum torfverkum varð við komið.

Norðri segir í ódagsettu júníblaði:

Veðráttufarið hefur dag eftir dag, þenna mánuð til hins 25. verið hverjum degi blíðara og betra, og úrkomur endrum og sinnum, svo að grasvöxtur mun víðast hvar vera orðinn um þenna tíma með besta móti; en nú seinustu dagana af mánuði þessum, gekk veðráttufarið til landnorðurs, með hvassviðrum, kulda, éljagangi og hríð til fjalla, svo þar gjörði nokkurn snjó. Yfir mánuð þenna hefur mjög lítið fiskast, nema á Húnaflóa var sagður fyrir skemmstu mikill afli. ... Fuglatekja er sögð mikil við Drangey, einkum hjá nokkrum þar.

Ingólfur segir 2.júlí:

Kalsa- og vætuveðrátta sú, sem vér síðast gátum um að verið hefði hér á Suðurlandi fram yfir miðjan júnímánuð, hélst til sólstaða. Með þeim komu eðlileg hlýindi og þurrviðri. — Vér höfum nú úr flestum héruðum landsins fengið þær fregnir, sem segja léttari og betri afleiðingar vetrarins, enn í raun og veru leit út fyrir. Eftir því sem menn segja, þá hefir veðrátta á Norðurlandi verið betri síðan á hvítasunnu en hér á Suðurlandi; kalsi og vætur hafa þar verið minni, enda er gróður sagður þaðan betri en hér.

Norðri segir frá í júlí:

[16.] Sunnanlands hafði veðráttufarið í vor og allt fram í júnímánuð verið rosa- og óþerrasamt, sem tálmaði góðri verkun á fiski og ull, og eins því, að eldiviður hirtist vel. Fiskiafli varð víða hvar allgóður; og nokkrir höfðu fengið full 12 hundruð, en yfir höfuð var meiri hluti fiskjarins smár og ýsa. Skepnuhöldin urðu þar allvíðast góð og heilbrigði var manna á meðal. Á Vesturlandi voru harðindin víta hvar hin sömu og hér nyrðra og eystra, en heybirgðir og skepnuhöld betri; fiskiafli hinn besti í vetur og allt til páska, ... Á Austurlandi hafði harðindunum algjörlega linnt um hvítasunnu, og hefðu þau staðið þar viku lengur, er mælt að þar hefðu víða orðið skepnur aldauða, og búið var að reka af útsveitum nær því 4000 fjár, og hátt á annað hundrað hross fram í Fljótsdal, Fellin og upp á Jökuldal, sem flest, ef ekki allt, var hýst og gefið hey. Það var og í ráði að reka millum 30 og 40 kýr upp í Fljótsdal utan úr Hjaltastaðaþinghá, og ætlaði stúdent og alþingismaður G. Vigfússon að taka 12, en vegna snjókyngjunnar varð þeim ekki komið, því ekki varð farið bæja á millum nema á skíðum. — Frá Reyðarfirði með sjó fram og allt suður í Hornafjörð, er sagt að hafi orðið ærinn fellir af sauðfé, bæði af því, hvað féð var orðið magurt og langdregið, en þó einkum vegna fjársýkinnar er þar eins og víðar, nemur ár hvert meira og minna burtu af fjárstofni manna. Horfur á grasvexti í besta lagi, einkum á deiglendri jörðu; en í móum og harðvelli grasmaðkur, ýmist meiri eða minni, og víða hvar mjög mikið mein að honum, eins og hér á Norðurlandi, hvar hann ollað hefur stórskemmdum í gróðri og grasvexti, og sumstaðar málnytubresti.

[31.] Veðráttufarið hefir seinni hluta mánaðar þessa verið gott, en fremur óþerrasamt, og nokkra daga landnyrðingur með ákafri rigningu.

Ingólfur segir 5.ágúst:

Til júlímánaðarloka hefur hér á Suðurlandi haldist sú hin góða og hagstæða veðurátta, sem vér áður gátum um að byrjað hefði með sólstöðum. Viða heyrast kvartanir um það, að grasvöxtur sé með minna, og sumstaðar jafnvel með minnsta móti; og er það eðlileg afleiðing kalsa þess, sem hélst fram eftir öllu vori, og svo þurrviðranna og sólarbakstursins, sem þá tók við. Aftur hefur nýting verið hin æskilegasta það sem af er.

Þjóðólfur segir 20.ágúst:

Úr héruðunum fjær og nær er sagður grasvöxtur í lakara lagi, helst til allra uppsveita og á valllendi. Þerrilint hefir og verið allstaðar hér sunnanlands, einkum í Skaftafellssýslu, það sem af er slættinum, og eru því víða sagðar hirðingar ekki sem bestar, og að hitna taki í görðum.

Norðri lýsir tíð í ágúst þann 31.:

Aðeins fyrstu dagana af mánuði þessum rigndi nokkuð; voru þá töður orðnar sumstaðar til muna hraktar; en hinn 4. þ.m. hófst sunnanátt með sólskini og þerri allt til hins 12.; nýttust þá töður vel og flestir hirtu tún sín. Síðan, og allt til þessa, hefur jafnast verið hæg norðanátt og stundum kyrrur, og yfir höfuð hagstæðasta heyskapartíð, að svo miklu vér til vitum, yfir allt á Norðurlandi. Grasvöxtur í betra lagi, einkum á deiglendri jörðu. Heyföng munu og víðast hvar um þetta leyti vera orðin meiri en oftar að undanförnu. Þar á móti er sagt að sunnan, að grasvöxtur sé þar í rýrara lagi, og enda sumstaðar með minnsta móti og þá áleið, nýtingin heldur ekki góð. Annars hafði þó veðráttan þar verið hagstæð frá sólstöðum og til júlímánaðarloka.

Ingólfur segir af veðri í septembertölublöðum:

[7.] Allan ágústmánuð hélst hér á Suðurlandi besta og hagstæðasta veðurátta. Það var að sönnu nokkuð vætusamt framan af honum, svo heldur leit út fyrir, að nýting og heyföng manna yfir höfuð mundi verða með lakara móti. En þegar leið á mánuðinn rættist blessunarlega úr þessu, með því að þá kom þurrviðri og stöðugir þerrisdagar. Þannig geta menn vænt þess, ef tíðin breytist ekki því meir, að heygarðar bænda verði í haust þrátt fyrir grasbrestinn allt eins búlegir og í fyrra, að minnsta kosti hér á Suðurlandi, þar sem fyrningarnar voru víðast hvar svo miklar.

[23.] Þegar með byrjun þessa mánaðar breyttist veðrátta hér á Suðurlandi til hins lakara, því til þessa hafa oftast verið þennan mánuð rigningar og rosar með krapaskúrum, svo að snjóað hefur undir húsum. Þó höfum vér heyrt að minna hafi orðið af rigningum víða til sveita, en hér á kjálkanum við sjóinn. Eftir því sem oss berast nú fréttir úr sveitunum bæði fjær og nær, þá láta þær allar vel af árferðinu í sumar yfir höfuð að tala.

Ingólfur birti þann 28.október bréf ísfirðings ritað 15. og 16.september:

Annars hefur hér verið góð tíð og mikið ár í sumar, svo menn muna varla annað eins. Að vísu hefir verið umhleypingasamt síðan um höfuðdag, en varla má heita, að skúr hafi komið úr lofti fyrr enn í gær og í dag — það er 16. núna — það gjörir hafísinn, sem hér hefir verið við vesturlandið, eða skammt frá því síðan með slætti. Er hér þá oft þokufýla úr hafi og sjaldan skarpur þerrir, en aldrei heldur regn. Hér hefur því heyjast í besta lagi og nýst vel. Hákarlaafli er og í mesta lagi, 300 tunnur mest.

Þjóðólfur segir af tíð þann 24.september:

Að norðan hvívetna er sögð og skrifuð góð sumarveðrátta, allgóður heyafli og besta nýting. En hér sunnanlands hafa þessar, nær því 3 vikna, rigningar og stormar gjört heyskapinn næsta endaslepptan, jafnvel ollað heyskemmdum í görðum sumstaðar, og meinað sjóarbændum alla róðra, enda var mjög fiskilítið áður, hér um öll nes.

Norðri segir í ódagsettu septembertölublaði:

Fyrri hluta mánaðar þessa mátti kalla, að enn héldist hin sama blíða og hagstæða veðurátta; en úr því hófust hvassviður á sunnan, einkum hinn 15. og 16. svo að hér um sveitir gjörði óttalegt útsunnan veður. Hinn 19. var hér mesta stórrigning, og síðan bleytuhríð, meiri og minni, allt til hins 24., svo talsverðan snjó gjörði, einkum til fjalla, hvar menn enda halda að fé hafi ekki óvíða fennt. Aðfaranóttina hins 22. kom svo mikið landnorðanveður, að fáir þóttust muna þvílíkt hér innfjarðar. — Heyföng eru víðast hvar orðin mikil, og nýting á þeim hin besta, þó mun hey allvíða enn úti. 6. [september] logaði upp í töðuheyi Hrólfs bónda á Öngulsstöðum í Eyjafirði; sagt var, að þar hefðu brunnið 30 hestar, sem súldað var saman í óþerrunum í sumar, og hefði ekki vindstaðan á sömu stundu breytt sér, þá mundu fleiri hey og bærinn hafa verið í voða.

Þann 31.mars birti Norðri pistil um skipskaða sem líklega varð í september:

Þilskipaskaðar: Þess var getið í janúar [tölublaði Norðra bls.7] að 2 jagtir [úr Hafnarfirði og frá Ísafirði] hafi brotnað við Vesturland [í októberveðrunum], en síðan hefur verið ritað, að þetta hafi ekki verið þann veg, heldur svo, að jagtirnar hafi lagt út fyrir hin miklu veður í september og ekkert til þeirra spurst. Það er því meining manna, að þær muni með öl!u týndar. Þilskip þessi höfðu verið góð og skipverjar ungir og duglegir.

Þann 22.september segir Jón Austmann í Ofanleiti: „Ofsaveður, fjúkkrapi“ og þann 29. segir Þorleifur í Hvammi frá ökklasnjó sem féll um nóttina í sjó niður. 

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Stillt og frost var lengst um haustið, að mestu autt í lágsveitum eftir 6. okt. Urðu þá seinni göngur en miðréttir gjörðar í septemberlok. Eldiviður skemmdist og aldrei tók klakann norðan úr hlöðunum. Eftir áfellið var stillt frostveður, þíðulaust og fjúkalítið til 18. og 20. okt., fimmtudaginn síðasta í sumri, að mikla hríð og fönn gjörði. Föstudag mesta harka og strax á eftir norðanrigning, er skeljaði fönn, svo jarðlaust varð á Skagafirði. Var þá lítt fært yfir jörð utan á skíðum, er nú fjölgaði óðum hjá heiðargöngumönnum. Með nóvember skipti um til óstöðvunar með blotum, snjókomum og oft bleytifjúki. Var oftar snöp og hér vestra nóg jörð til 22. nóv., þá svellgaddur byrgði þá. Voru þá hross og fé orðið magurt og illa undirbúið að taka á móti hörðum vetri. Blotar og köföld gengu á víxl til 12. des., Tók allvel upp til lágsveita fyrir jólin. Var þá mikill hrossafjöldi kominn þar á hagagöngu. Gömul hross og folöld voru nú mörg drepin, því mörgum þótti hross of mörg.

Norðri segir fréttir í ódagsettu októberblaði:

Veðráttan yfir þenna mánuð hefur oftar verið hæg, og logn hér innfjarðar, en norðlæg og sjaldan frostlaust. Snjófallið er því enn víða hvar, að kalla, hið sama og það varð á dögunum, og meiri og minni jarðbannir á sumum útsveitum, síðan i næstliðnum mánuði, svo peningar lenti hér og hvar, að nokkru og sumstaðar að öllu, á gjöf. Heyskapur manna varð því víðast mjög endasleppur. Hey urðu allvíða meira og minna úti, og eldiviður margra var ekki kominn í hús fyrir ótíð þessa. Skepnur gátu því ekki, sem venjulegt er, tekið neinum haustbata. Skurðarfé reyndist í rýrara lagi, einkum á mör. Fjárheimtur urðu og víða ekki góðar, auk hins, sem menn vissu til, að ekki allfátt hafði fennt, sem sumt fannst dautt eða lifandi. Í hinum miklu veðrum, hinn 16. og 21.—22. [september], urðu ýmsir fyrir tjóni á heyjum sínum og skepnum, og enda hér og hvar á húsum, því t.d. er sagt, að 2 timburkirkjur nýbyggðar fokið hafi um koll á Vesturlandi, að Gufudal 16.[september], og aftur að Reykhólum á Reykjanesi 21. s.m. Um sama leyti fuku og brotnuðu 7 skip í Fljótum, Siglufirði og Héðinsfirði og sum þeirra í spón. Þá var og sagt, að fokið hefðu 40 hestar af töðu í Höfn í Siglufirði, og á Hvanneyri tekið 1 eða jafnvel 2 hey ofan að fyrirhlöðuveggjum, og 1 á Myrká í Hörgárdal. Veðrið hafði og á nokkrum stöðum slengt kindum svo hart til jarðar, að fundust dauðar. Það er og sagt, að heyskaðar hafi orðið bæði vestra og syðra, t.a.m. í Kjalarnesi, um Borgarfjörð og fyrir austan Hellisheiði. Þá hafði og flætt 60 fjár í Hvanneyrarsókn í Borgarfirði, og er mælt að Teitur nokkur bóndi á Hvanneyrarskála hafi átt af því fé helminginn. Í téðu landnorðanveðri [16.september] var kaupskip eitt, er fara átti til Skagastrandar og Grafaróss verslunarstaða, fermt korni og annarri vöru, komið inn á Húnaflóa þá veðrið brast á, jafnframt og þar var kominn að skipinu verslunarfulltrúi J. Holm, til þess sjálfur að geta náð til þess, og fylgt því inn á höfn; en nú hlaut skipið að láta berast undan veðrinu og stórsjónum, inn á Reykjafjörð eða Kúvíkur, hvar það lagðist við akkeri, en sleit upp, og bar þar að landi, og brotnaði mjög, samt varð mönnum og hinu mesta af farminum bjargað, er síðan var selt við opinbert uppboð, og er sagt að þar hafi, sem venja er til við slík tækifæri, fengist góð kaup. Skipverjum er sagt að hafi verið fylgt til Reykjavíkur.

Ingólfur segir af árferði í pistli þann 28.október:

Ingólfur gat þess seinast, að veðráttufarið hefði verið fremur stirt í september, og hélst það við fram yfir réttir, svo að heita mátti rétt fullkomið vetrarfar um tíma. En þegar leið undir enda mánaðarins batnaði aftur veðráttan, svo að hver dagurinn hefur mátt heita öðrum betri sumarið út.

Norðri segir frá sköðum í októberveðrum þann 31.desember:

Hinn 21. október létti briggskipið Þingeyri, eign Örum og Wúlffs, akkerum sínum af Vopnafjarbarhöfn, og var komin skammt á leið út eftir firðinum, þá landnorðanveður brast á, svo hún hlaut að láta berast til baka undan veðrinu inn að hólmum þar utan við höfnina, hvar hún varpað 3 akkerum, og lá við þau um nóttina í ofviðrinu, í sjó og brimi; en morgninum eftir hafði veðrinu nokkuð slotað, svo skipverjar freistuðu þá að komast inn á höfnina; en vegna hvassviðris, er allt í einu rauk á, straums og brimólgu, fleygði skipinu þar að skerjum og grynningum við hinn svonefnda Varphólma, hvar það festist og þegar kom gat á það, og sjór þar inn í sömu svipan; en fyrir stakan dugnað skipverja og annarra, varð farminum að mestu bjargað óskemmdum.

Aðfaranótt hins ofannefnda 22. október brotnuðu 2 bátar eða för í veðri og brimi á Látraströnd. Það er og sagt, að hákarlaskip og 3 bátar hafi brotnað í Ólafsfirði, og nokkur róðrarskip á Skagaströnd.

Ingólfur segir af árferði þann 30.nóvember:

Síðan veturinn byrjaði hefur veðrátta hér á Suðurlandi mátt heita mjög stirð; veður hefur verið næsta umhleypingasamt, ýmist með snjógangi af útsuðri, eða blotum af landsuðri og frosti þess á milli. Eftir veðráttufarinu hafa gæftirnar verið stirðar; en þá sjaldan sem gefið hefur á sjó, hefur þó aflast til matar hér á innnesjum; aftur hefur til þessa verið fiskilaust í veiðistöðunum syðra, ...

Norðri segir frá sköðum í nóvemberveðri þann 31.desember:

Nóttina hinn 17. nóvember hafði gjört fjarska veður á útsunnan á Suðurlandi, sér í lagi í Innnesjum, svo að 2 kaupskip sem lágu á Reykjavíkurhöfn, og sagt er að tilheyrt hafi kaupmanni Siemsen, krakaði út fyrir rif nokkurt, er liggur utan við höfnina, svo að undan öðru gekk strákjölurinn, en af hinu brotnaði bugspjótið. ...  Um þær mundir að Norðanpósturinn fór úr Reykjavík, (17. nóvember) hafði gjört mikla fönn, allt upp í Borgarfjörð og um Mýrar, sem líklegast hefur bráðum tekið upp aftur.

Norðri segir í ódagsettu nóvemberblaði:

Fyrir tæpum 3 vikum síðan fréttist að sunnan, að þá hefði þar verið góð tíð og snjólaust að mestu, allt norður undir Holtavörðuheiði, en aflalaust að kalla á Innnesjum; matvælabrestur í kaupstöðum, og horfur á að hart mundi manna á millum. Í framsveitum og helst til dala í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum var sögð allt að þessu nokkur jörð, og ekki farið að gefa fullorðnu fé til muna; þar á móti harðindi á öllum útsveitum. 4. og 11.[nóvember] gjörði hér blota, svo að nokkur jörð kom upp, þar áður hafði verið snjólítið, en að líkindum hleypt í meiri gadd þar snjóþyngsli eru. Fyrir skömmu síðan er sagt, að millum 30 og 40 sauða hafi orðið í snjóflóði á Lundi í Fnjóskadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Á Bæjarklettum fyrir utan Hofsóskauptún er sagt, að þar hafi brotið tvö skip í spón.

Þjóðólfur segir lítillega af tíð þann 17.desember:

Vér höfum fengið fréttir að vestan og norðan og austan yfir fjall. Eftir þeim hefir vetrarfarið verið hvað þyngst hér sunnanfjalls og orðið hvað mest úr blotum og jarðbanni; því víða var hér orðið hagskart; en úr því bætti hlákan í byrjun þ. mán., svo nú eru hér víðast syðra allgóðir hagar. Vestra hafði víðast orðið mesta snjókyngi, og eins upp til dala í Húnavatnssýslu, en hagar voru þar víðast miðsveita um mánaðamótin.

Norðri segir tíð í tveimur pistlum í desember:

[16.] Hið helsta, er vér frétt höfum, með austan- og norðanpóstunum sem komu hingað á Akureyri 2. og 6. [desember] er þetta: Að í Múlasýslum hefði næstliðið sumar viðrað svipað því og hér nyrðra; eins verið með grasvöxt, heyafla og nýtingu, og áfellið, sem kom í september, orðið þar víða stórkostlegt, og fé fennt; sumstaðar orðið hagskart fyrir áfreða í byggð, en á fjöllum uppi vegna snjóþyngsla. Aftur hafði hlánað þar í næstliðnum mánuði [nóvember], svo að víða varð örís, og hvervetna við sjávarsíðuna, norðan með, allt inn fyrir Húsavík, gott til haga. Þar á móti á Jökuldal og Hólsfjöllum snjómeira, og hart í Mývatnssveit, svo og víðar til framsveita og dala í Þingeyjarsýslu. Hér um sveitir er víða nokkur jörð, óvíða góð, og á útsveitum sumum jarðbannir. Í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum er sögð víða hvar góð jörð, en þá aftur harðara í sumum sveitum. Af Vesturlandi höfum vér ekki nýskeð greinilega frétt; en syðra tjáist hafa við sjávarsíðuna verið góð tíð með snjóleysur; í seinustu sumarvikunni lagði þar svo mikinn snjó til fjalla, að stóðhross fenntu og nokkur þeirra til dauðs; og svo lagði mikla fönn um allar uppsveitir í Árnessýslu, að fá dæmi þóttu svo snemma í tíma; aftur fölvaði varla í sveitum þar er liggja með sjó fram. Það hafa menn fyrir satt, að fé hafi víða fennt, enda eru heimtur hér og hvar ekki góðar. Yfir höfuð hefur skurðarfé reynst í lakara lagi, einkum á mör.

[31.] Seinni hluti mánabar þessa hefur hér og þar, sem til frést, verið miklu veðurstilltari en lengi að undanförnu, og besta hláka um sólstöðurnar, svo nú er víða komin upp næg jörð fyrir útigangspening, enda mun það allstaðar hafa komið sér vel í þarfir, og ekki síst þar, sem mjög hafði sorfið að með jarðbannir síðan í haust, er áfellið dundi yfir. Hey og eldiviður varð víða úti, auk heyskaðanna í hinum mikla veðrum 16. og 21. september. Fiskiaflinn er hér enn innfjarðar hinn sami og áður, og eins fyrir Tjörnesi þá róið hefur verið og beita góð.

Ingólfur ræðir árferði 6.janúar 1854:

Vér gátum þess í seinasta blaði voru, að vetur hefði allt að nóvembermánaðarlokum mátt heita næsta umhleypingasamur hér á Suðurlandi, og verulega harður til allra sveita, þó að frost væri alltaf væg. Sama veðurreyndin hélst og til miðju desembermánaðar; en þá skipti um með sæluvikunni til mesta bata; snjó og klaka hefur leyst upp hér syðra, því þíðviðri hefur oftast verið með hægri rigningu, eða þá einstöku kæludagar með litlu frosti; og þannig skilur nú árið við oss blítt og blessað. Síðan batnaði hefur verið róið hér á Seltjarnarnesi og alfast allvel; minna er oss kunnugt um aflabrögð í öðrum veiðistöðum; en þó höfum vér heyrt, að nokkur afli væri farinn að gefast i veiðistöðunum syðra og fer það að vonum, að enn sannist sem fyrr, að þá er hjálpin næst, þegar neyðin er stærst. — Þegar þá á allt er litið, má með sanni telja þetta hið liðna ár 1853 meðal hinna mörgu góðu áranna, sem nítjánda öldin hefur leitt yfir land vort, og vér getum ekki annað sagt enn að það sé áframhald undanfarinnar árgæsku. Raunar hefur á ári þessu brytt á ýmsum annmörkum og erfiðleikum venju framar nú um langan tíma; teljum vér til þess vetrarríki í sumum sveitum, fiskileysi í sumum veiðistöðum, matarskort í sumum kaupstöðum og sóttferli, sem hefur stungið sér niður í sumum héruðum, þó ekki hafi mikil brögð að því orðið. En af því að þetta hefur ekki gengið almennt yfir, og öllum nauðum hefur til þessa af létt áður vandræði yrðu úr, þá getum vér ekki talið þetta annað en eins og smákálfa, sem eiga að minna oss á magrar kýr, svo að vér ekki innan um glaðværðir góðu áranna gleymum forsjálni og fyrirhyggju Jósefs hins egypska.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1853. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ekki alveg - en samt

Fellibylurinn Epsilon hitti ekki jafnvel í vestanbylgju og margar spár á dögunum höfðu gert ráð fyrir - þannig að ekkert verður úr metum. En lægðin sem nú (mánudagskvöld 26.október) er fyrir sunnan land er samt óvenjudjúp miðað við árstíma, fer að sögn reiknimiðstöðva niður í um 940 hPa í fyrramálið.

w-blogg261020a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir kl.6 á þriðjudagsmorgni. Lægðin á síðan að hringsóla fyrir sunnan land næstu daga og valda nokkrum vindi hér á landi þegar miðjan færist smám saman nær - en hún grynnist jafnframt. Lægðin sér til þess að hiti verður líklega ofan meðallags á landinu næstu daga. Nokkur úrkoma fylgir - sérstaklega suðaustanlands. 

Það er ekki oft sem þrýstingur fer niður fyrir 940 hPa í október. Hér á landi er aðeins vitað um eitt tilvik - þrýstimælingar hafa þó staðið í 200 ár. Það var þegar þrýstingur á Stórhöfða í Vestmannaeyjum fór niður í 938,4 hPa þann 19.október 1963 kl.17. Endurgreiningar giska á að þrýstingur í þeirri lægðarmiðju hafi farið niður í um 935 hPa. Þrýstingur fór þá niður í 939,8 hPa í Reykjavík kl.24 og 940,0 hPa á Eyrarbakka og Keflavíkurflugvelli. Þetta var þá lægsti þrýstingur sem mælst hafði á landinu (í nokkrum mánuði) allt frá 1942 og því mikill viðburður fyrir ung veðurnörd eins og ritstjóra hungudiska. Hefur hann fjallað um þennan viðburð áður á þessum vettvangi, sem og mun verra veður sem gerði nokkrum dögum síðar. Þurfti svo að bíða í meir en 18 ár eftir enn lægri tölu (8.febrúar 1982). 

Næstlægsta (mælingarnar 1963 eru sama lægðin) októbertalan hér á landi er 945,5 hPa, sem mældist á Raufarhöfn 26.október 1957. Við sjáum af þessu bili á milli lægstu tölunnar og þeirrar næstlægstu [rúm 7 hPa] hversu sjaldséð það er í raun að þrýstingur fari svona neðarlega í október. Lægsti þrýstingur sem við vitum um í október hér á landi á þessari öld er 945,9 hPa og mældist á Gjögurflugvelli þann 23. árið 2008. 

Þétting þrýstimælinetsins hefur þær afleiðingar að minni líkur eru á að metdjúpar lægðir fari hjá í skjóli nætur - eða á svo miklum hraða að hefðbundnar mælingar missi af þeim. Allt frá því um 1925 hafa þrýstiritar þó verið í notkun, lægsti þrýstingur sést að jafnaði á þeim þó ekki sé lesið á loftvog á venjulegan hátt. Gallinn er hins vegar sá að í allradýpstu lægðunum fer penni þrýstiritanna gjarnan niður fyrir blaðið - gæti athugunarmaður þess ekki að skrúfa hann upp. Þannig höfum við ábyggilega misst af einhverjum metum í tímanna rás. Fyrir 1925 var yfirleitt aðeins lesið af loftvogum þrisvar á dag og jafnvel aðeins einu sinni. Líkur á að missa af metum voru því mun meiri þá heldur en nú. Við þurfum því ekkert að verða sérstaklega hissa á aukinni tíðni sérlega lágra þrýstimælinga. Sömuleiðis sjá reiknilíkön til þess að við missum mun síður af miðjuþrýstingi í mjög djúpum lægðum á okkar slóðum - svo lágum að gisnar athuganir á sjó á fyrri tímum misstu alveg af lægstu tölunum. 


Íslenska sumarið 2020 (hiti)

Fyrsti vetrardagur er á morgun (24.október). Við lítum hér á hita sumarsins í Reykjavík og á Akureyri - síðustu 184 daga. Daglegur meðalhiti er ekki til á lager á Akureyri nema aftur til 1936 - þar hefur þó verið mælt linnulítið síðan 1881. Við eigum daglegan meðalhita í Reykjavík frá 1920 og slatta frá tímanum þar á undan. 

w-blogg231020a

Meðalhiti sumarmisserisins í ár í Reykjavík var 8,8 stig, nákvæmlega í meðallagi 1991 til 2020, en -0,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Á myndinni sjáum við að hitinn í sumar var hærri en hann varð nokkru sinni á þrjátíu ára tímabilinu 1966 til 1995 - og hlýskeiðið sem byrjaði í kringum aldamót stendur greinilega enn. Hlýjast var í Reykjavík 2010 og ámóta hlýtt bæði 1939 og 1941. Kaldasta sumarmisseri sem við vitum um í Reykjavík var 1886, en á síðari áratugum 1979 og 1983. 

w-blogg231020

Meðalhiti nú á Akureyri var 8,5 stig, 0,1 stigi ofan meðallags síðustu 10 sumarmissera og 0,2 ofan meðallags 1991 til 2020. Á síðari árum varð hlýjast á Akureyri 2014, og hlýrra 1939. Reyndar varð enn hlýrra 1933 - en það er utan þessarar myndar. Kaldast var 1979 - rétt eins og í Reykjavík. Fáein hlý sumur komu á Akureyri á árum 30-árakuldans í Reykjavík, t.d. sker 1976 sig nokkuð úr - en á þessari öld hafa þó komið 5 hlýrri sumur en það á Akureyri. 

Ritstjóri hungurdiskar þakkar lesendum fyrir sumarið og óskar þeim ánægjulegs vetrar. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg170925b
  • w-blogg170925a
  • w-blogg130925-ak-a
  • w-blogg130925a
  • w-blogg130925b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 46
  • Sl. sólarhring: 205
  • Sl. viku: 1764
  • Frá upphafi: 2499541

Annað

  • Innlit í dag: 40
  • Innlit sl. viku: 1613
  • Gestir í dag: 39
  • IP-tölur í dag: 39

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband