Fyrri hluti janúarmánaðar

Nú má segja að hálfur janúar sé liðinn (eða nærri því). Meðalhiti í Reykjavík er +3,6 stig, +4,1 stigi ofan meðallags sömu daga 1961-1990, en +2,7 ofan meðallags síðustu tíu ára og eru dagarnir 15 þeir þriðjuhlýjustu á öldinni (af 19), lítillega hlýrra var 2003, en nokkru hlýrra 2002 (+4,2 stig). Kaldastir á öldinni voru sömu dagar 2005. Á langa, 144-ára listanum, er mánuðurinn í 9. til 10. hlýjasta sæti. Hlýjast var 1972, meðalhiti +5,9 stig, en kaldastur var fyrri hluti janúarmánaðar árið 1918, meðalhiti -9,5 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana 15 +2,7 stig, +4,9 stigum ofan meðallags 1961-1990, en +3,4 stig ofan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára um land allt, mest er jákvæða vikið við Upptyppinga, +4,1 stig, en lægst í Seley, +0,7 stig.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 47,4 mm, það er í ríflegu meðallagi, en á Akureyri hefur hún mælst 19,8 mm, rétt undir meðallagi fyrri hluta janúar.

Sólskinsstundir hafa aðeins mælst 2,9 í Reykjavík. Það er lítið, en hefur verið minna sömu daga meir en 30 sinnum síðustu 100 árin rúm.


Fyrstu tíu dagar janúarmánaðar

Enn er alvarleg bilun í tölvukerfi Veðurstofunnar - en þó tókst að kreista út einhverjar upplýsingar um stöðu fyrstu tíu daga mánaðarins:

Þetta er hlýjasta janúarbyrjun það sem af er öldinni. Meðalhiti í Reykjavík 4,9 stig, 5,5 stigum ofan meðallags áranna 1961-1990 og 3,8 ofan ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldastir á öldinni voru dagarnir tíu árið 2001, meðalhiti þá -4,7 stig. Sé litið til lengri tíma (144 ár) er hiti daganna tíu nú í 3. til 4. hlýjasta sæti, hlýrri voru þeir 1972 [6,8 stig] og 1973 [5,5], en jafnhlýir 1964. Kaldastir voru þeir 1903, meðalhiti -7,7 stig.

Á Akureyri er meðalhiti daganna tíu 5,1 stig, 7,5 stigum ofan meðallags 1961-1990, en 5,4 stig ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin.

Á landinu hefur að tiltölu verið hlýjast við Upptyppinga, hiti þar +6,1 stigi ofan meðallag síðustu tíu ára, og vikið í Torfum í Eyjafirði er 5,1 stig. Minnst er vikið í Seley, +2,0 stig.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst um 30 mm, og er það nærri meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoma aðeins mælst um 1 mm.

Sólskinsstundir í Reykjavík hafa mælst 5,7, fjórum undir meðallagi.

Trúlega fellur hiti mánaðarins eitthvað á samanburðarlistum næsta þriðjung mánaðarins - bæði er útlit fyrir kólnandi veður og samkeppni við aðra hlýja janúarmánuði mjög ströng.


Af árinu 1812

Mjög kalt var árið 1812. Það er að nafninu til það kaldasta í hitaröð sem sett hefur verið saman fyrir Stykkishólm aftur til ársins 1798, meðalhiti 0,6 stig. Þetta er sjónarmun lægra heldur en meðalhitinn árin 1859 og 1866 (0,9 stig) - en óvissa er meiri en svo að hægt sé að fullyrða að 1812 sé raunverulega kaldasta árið. - Mælt var á Akureyri allt árið - þokkalega áreiðanlegar mælingar gerðar þrisvar á dag (örfáa vantar). 

ar_1812t

Myndin sýnir Akureyrarmælingarnar. Hlákur gerði í janúar og á góunni, en gríðarhart og langvinnt frost var fyrir og um miðjan febrúar og seint í mars og byrjun apríl. Slæm hret gerði snemma í maí og um miðjan júní - en hlýtt var í júníbyrjun. Í maíhretinu snjóaði í Vík í Mýrdal að sögn Sveins Pálssonar héraðslæknis. Mjög slæmt var um tíma í júlí og fór hiti þá niður í frostmark á Akureyri og snjókomu getið í athugunum allmarga daga. Meðalhiti júlímánaðar ekki nema 6 stig, enn lægri en 7,3 stig júnímánaðar - sem ekki voru fagnaðarefni.

Ágúst var hlýjasti mánuður ársins og komu þá allmargir góðir dagar með yfir 15 stiga hita um hádaginn. Sömuleiðis var hlýtt í byrjun septembermánaðar. Rigningar munu þá hafa verið syðra og heldur dauf tíð. Hret gerði þá upp úr miðjum mánuði. Langvinn frost voru síðari hluta nóvember og fram eftir desember. Hláku gerði svo um jólin - og mjög mikla hitasveiflu - rétt eins og í kringum þrettándann í upphafi árs (sjá myndina).

Hitamælingarnar falla einkar vel að þeim fáu veðurlýsingum sem varðveist hafa frá þessu ári.

ar_1812p

Ársmeðalþrýstingur var mjög hár - e.t.v. sá hæsti síðustu 200 árin rúm. Ágætt samband er á milli ársmeðalþrýstings hér á landi og hitafars í Finnlandi. Það var einmitt árið 1812 sem Napóleon fraus í Rússlandi og mannfellir varð víða um Evrópu sökum kulda. En förum ekki nánar út í það hér.

Á þrýstiritinu hér að ofan eru þrýstiumskiptin um miðjan mars sérlega áberandi og þeim fylgdi mikil breyting á veðráttu ef marka má veðurlýsingar. Haustþrýstingurinn var líka sérlega hár eftir miklar lægðir í september. 

Þetta ár er fremur upplýsingarýrt, t.d. er ekki mikið að finna um hafísinn enda siglingar strjálar vegna styrjaldarinnar. Hér að neðan má lesa helstu veðurlýsingar ársins - við reynum að skipta þeim á árstíðir nema yfirlitinu úr Annál 19.aldar. Dagbók Jóns á Möðrufelli er eiginlega handan við leshæfileika ritstjóra hungurdiska - en hann reynir samt að krafsa eftir upplýsingum. Beðist er velvirðingar á mislestri. 

Annáll 19. aldar segir:

Veðrátta batnaði nokkuð eftir nýár, héldust þó víða jarðleysur og harðnaði tíð norðanlands á þorra; gjörðust hin mestu jarðbönn eystra og nyrðra af tíðum spilliblotum og voru menn mjög þrotnir að heyjum á góu. Hélst síðan hin sama ótíð og voru hörkur miklar á páskum, svo hestar frusu til bana vestra. Tók að falla stórum bæði sauðfé og hross fyrir norðan land og hvervetna annarstaðar; voru og kýr margar skornar, áður bati kom. Þótti þessi vetur einna stríðastur orðið hafa um 29 árin næstu. Syðra var þó sögð allgóð tíð til þorrakomu, en þá féll þar lognsnjór mikill og héldust jarðleysur einnig þar lengi við, þó einna minnst í Rangárvallasýslu. Með ágúst batnaði og var hlýtt sumar og gott þangað til um miðjan september, að frost komu að nýju; mýktist þó með jafndægrum. Aftur kom kast um veturnætur og segir Þórarinn prestur í Múla [Tíðarvísur], að viku af vetri hafi orðið að taka hross á gjöf, en undir jólaföstu kom besta tíð, er varaði til ársloka. Víðast var grasvöxtur í minna lagi, en nýting góð. Hafís kom að Norðurlandi á þorra og lá við þangað til í júní.  

Um veturinn: 

Brandstaðaannáll: Gerði fyrst hríð og hörku. Eftir þrettánda bloti, er gerði sumstaðar snöp um 2 vikur. Á þorra blotalaust, hörkur og kafaldasamt og seinast 7 daga yfir- (s63) taks norðanhríð, er rak að landi mikinn hafís. Á góu mildara veður, tvisvar snöp fáeina daga, en fjúkasamt. Versta skorpan var á einmánuði. Mikil skírdags og páska (29.mars) hríð, með mesta frosti. Voru þá allstaðar þiljur af gaddi á landi og langt á haf út. Tók þá að bera á heyskorti. Þó voru sumir aflagsfærir.

Espólín: XLVII. Kap. Eftir nýárið batnaði nokkuð veðrátt, en þó var víða jarðlaust. Á þorra versnaði aftur veðrátt og kom hafís, var ekkert gagn að honum, nema einn hval rak, mikinn og góðan, fyrir Byrgisvík á Ströndum; þar var áður etið upp nálega allt það er skinnkynjað var; hákallar náðust og sumstaðar í vökum. Þá týndust 8 menn af skipi undir Jökli, og urðu fleiri misfarir; gjörði hin hörðustu jarðbönn af blotum hvervetna austan og norðan lands, og voru margir menn þrotnir að heyjum á gói; hélst þessi veðrátt alla stund, og voru hörkur miklar á páskum, svo hestar frusu til bana vestra; tók þá at falla stórum bæði sauðfé og hross fyrir norðan land, og hvervetna annarstaðar, og þótti þessi vetur einna stríðastur orðið hafa um 29 ár hin næstu, en bjargir mjög bannaðar af sjó og öðru. (s54). Syðra var gott til góu, en þá féll mikill lognsnjór og tók fyrir fiskafla, en allgóður var aflinn vestra og jarðasamt (s55).

Jón á Möðrufelli:

Vetur yfir höfuð einn sá allra harðasti af snjóþyngslum og jarðbönnum. Janúar hófst í harðara lagi en gerði bata um tíma, vikan fyrir 25. dágóð að veðráttu. Febrúar allur mjög harður … almennar jarðleysur um alla sveit. Mars misjafn, virðist hafa byrjað illa, en síðan var allsæmileg tíð í hálfan mánuð og kom upp nokkur jörð, en harðindi frá pálmasunnudegi [22.] Sagt af hafís: Allt fullt frá Ströndum til Langaness. Bjarndýr kom á Tjörnesi. Yfir 70 fjár kafnaði í [húsi] af snjó á Möðrudal á Fjöllum … 30 fjár drápust og í einu í húsi á bæ á Sléttu. 

Vor:

Brandstaðaannáll: Eftir miðjan einmánuð mildaðist veður með góðri og stöðugri sólbráð, notalegustu leysing á þann mikla gadd, en góðviðrið varaði út maí. Voru þá sveitir orðnar auðar. Víða varð 20 vikna bjargleysi. Minnst þurfti 13 vikna gjöf. Lengi var jörð á Ströndinni og með sjónum, á Ásum, yst í Víðidal, Björgum, Skaga og Hegranesi. Í maí kuldar miklir og hríð á uppstigningardaginn [7.maí]; eftir krossmessu vikuþíða [krossmessa hér trúlega 13.maí], aftur kuldar í júní og 4 daga hret eftir trínitatis [24.maí], þó allgott fardagavikuna.

Jón á Möðrufelli:

Apríl rétt góður og gjörði hagstæðan bata, með sólbráð og stillingu. Maí allur mjög veðráttuþungur og gróður sárlega lítill kominn í tún, sem eru ákaflega kalin. Snjór í fjöllum ákaflegur bæði nýr og gamall. 

 

Sumar:

Brandstaðaannáll: Fráfærnahret 28.júní, lengst af frost um nætur og gróðurleysi. Lestir fóru 6.júlí. Gaf þeim vel til þess 18.-21. júlí, að langt hret gjörði. Sláttur tók til 24.júlí. Varð töðubrestur mikill og sinumýrar hvítleitar, þokur og óþurrkar, í 16.viku [6.ágúst] kom góður vestanþerrir, eftir oftar rekjur, þó þerrir eftir þörfum. Úthagi spratt lengi og varð sumstaðar allt að meðal-útheysfeng og allt hirt um Mikaelsmessu [29.september]. Í göngum mikið hret um 4 daga, svo ei var heyjað vikutíma.

Espólín: XLIX. Kap. Þá var Júlíus harður, með kuldum og hríðum sem á vetri fyrir norðan, og hið mesta grasleysi og bjargleysi hvervetna, batnaði fyrst veðrátt með Augusto, og kom lítt að haldi, því að peningur var gagnslaus, en vellir þriðjungi verri en hið fyrra árið, og engjar þó enn verri. (s 57). LII. Kap. og þá urðu svo miklir marsvína rekar, at fá eru dæmi til: rak á Kolgrafafirði vestur mikinn fjölda, sögðu menn 16 hundruð hafa verið talin. (s60).

Jón á Möðrufelli:

Júní mikið bágur. Loftkuldar sífellt með næturfrosti, fer gróðri sárlega lítið fram. Fyrstu 3 vikur júlí dauðakaldar og þurrar. Þá gerði skelfilegt áfelli, snjóaði ofan undir bæi, mikill snjór í fjöll og fennti far fé. Ágúst heldur óþurrkasamur. Frost og hríð um miðjan september, en síðan mun betri tíð.

 

Haust:

Brandstaðaannáll: Í október þurrt, frostasamt, snjólítið, nóvember nokkuð kaldara og á jólaföstu frostamikið og snjólítið, góð vetrartíð og hláka á jólunum og ofviðri á þriðja, snjólaust á hálsum og heiðum. Var þá lítið búið að gefa lömbum, þar beit var að gagni. Á þessu ári varð fellir á fé sunnan- og vestanlands í allmörgum sveitum. (s64) [neðanmáls: Hvergi hér varð fellir, en heyþrot hjá mörgum á einmánuði og fé langdregið.] ... Þá urðu 7 skiptapar með 54 mönnum í Önundarfirði miðvikudaginn fyrir uppstigningardag. (s65)

Espólín: LIV. Kap. þá var fiskafli nokkur fyrir Jökli, en lítill á Innnesjum syðra, var sagt að vestan, að fyrir sunnan Jökulinn hefði tekist nokkurt mannfall; hófst veturinn stríðlega, en á öðru tungli gjörði kyrr veður ok góð [tungl var fullt þann 18.], og hélt þeim síðan til miðs vestrar, en stundum voru þeyjar og sunnan veður mikil og mjög umhleypingasamt þaðan af. (s62).

Jón á Möðrufelli:

Október fyrst nokkuð óstilltur, en þann 10. segir Jón að tíð sé úrkomusöm en ei köld og kýr gangi úti. Viku síðar er sagt að bleytusamt hafi verið framan af vikunni, en síðan hafi kólnað og sé orðið heldur vetrarlegt. Vikan þar á eftir var stillt og snjólítið var í sveitinni. Nóvember sæmilegur, þriðja vika hans mikið stillt og hæg og sæmileg jörð. Í desember er aðallega talað um stillta tíð, og hláku um jólin. 

Tíðarfari er lýst í nokkrum prentuðum bréfum. 

Reykjavík 25-8 1812 (Bjarni Thorarensen): Vinteren var stræng, og, som sædvanlig, bleve de der ei i Tide havde nedslagtet haardest medtagne: Foraaret har, især paa Nord- og Österlandet været meget strængt, ... Driviis har i denne Tid omringet alle Nord- og Österlandets Kyster, og skal nu först for nogen Tid siden være borte, hvilket det næsten siden Höeslættens Begyndelse i Sommer grasserende Regnige og Taagede Veir noksom beviser. (s4)

Lausleg þýðing: Veturinn var harður, og eins og venjulega urðu þeir verst úti sem ekki skáru í tíma. Vorið hefur, sérstaklega á Norður- og Austurlandi verið sérlega hart, ... Hafís hefur á þessum tíma legið við alla norður- og austurströndina og er fyrst nú farinn fyrir nokkru, eins og það rigninga- og þokuveður sannar sem grasserað hefur hér frá upphafi sláttar. 

Reykjavík 26-8 1812 (Geir Vídalín biskup): Frá árferðinu er ekki nema illt eitt að segja, grasvöxtur sá allra bágasti, og nýting síðan vika var af slætti sú lakasta, svo töður liggja nærfellt allsstaðar enn á túnum. Norðanlands kom síðast í júní það kafald, að fé fennti í Aðalreykjadal í byggð, og þá varð ekki slegið í Skagafirði fyrir frosti. Ís hefur legið fyrir öllu Norður- og Austurlandi til fyrir hér um hálfum mánuði. Nú sagði síðasta frétt, að hann væri farinn, og sést hefði til tveggja framandi skipa hjá Grímsey. Þar hefur verið aflalaust nema af hákarli, af honum hafa menn veitt töluvert upp um ís. (s109) Í Norður-Múlasýslu voru svo mikil harðindi, að fólk var farið að flosna upp, og fjórir menn í Loðmundarfirði voru dauðir í hungri. (s110)

Reykjavík 27-9 1812 (Geir Vídalín biskup): Sumarið hefur verið óþurrkasamt í meira lagi hér syðra, og heyskapur bágur einkum hér og í Borgarfirði, betri í Árnes- og Rangárvallasýslum, hvar sagt er að flestir muni hafa fengið nærri sanni fyrir sinn pening. Í Norðurlandi var mikill grasbrestur, en þar varð nýting betri. (s112)

(Úr Fru Th.s Erindringer fra Iisland) 1812 „Vinteren var ikke god, og Foraaret værre. [Frúin fór svo aftur út haustið 1812]

Lausleg þýðing: Veturinn var ekki góður og vorið verra. 

Annáll 19.aldar (s158 og áfram) telur upp allmikið af slysum og óhöppum árið 1812, sumt tengt veðri. Við lítum á það sem sett er á ákveðnar dagsetningar - aðalheimildir eru Espólín og annáll Gunnlaugs á Skuggabjörgum (óprentaður):

Þann 25.febrúar er sagt að 8 menn af skipi frá Eyrarbakka hafi drukknað við Þorlákshöfn og fimm komist af. Ekki er samkomulag um þær tölur. 5.maí fórust fimm menn af skipi frá Látrum vestra. Þann 7.maí er sagt að fjögur skip hafi farist á Önundarfirði og þrjú af Ingjaldssandi með 52 mönnum alls, ekki er heldur algjört samkomulag um fjölda þeirra sem fórust. Tveir menn urðu úti þann 25.mars á Gemlufallsheiði. Þann 29.september sleit upp í ofviðri kaupskip á Skagaströnd, en komst þó að lyktum til Kaupmannahafnar. 

Úr tíðavísum Sr. Þórarins í Múla:

Árið það sem út er runnið
ofsa strangt að veðra hvin
hefur skaða vegnan vunnuð
víða langtum meira' en hin

Strax nýbyrjað storð íklæddi
stakki hríða klökuðum
frosthæg yrja fjúka bræddi,
fraus á síðan jafnóðum

Snjóa-mesti vetur víða
var skammdegis undir sól
fé og hesta fólkið þýða
fóðra' á heyi varð um jól

...
Ókljúfandi fyrir fönnum
fólkið skreið oft meir en gekk
rénaði' um landið reisu önnum
ratað leiðir ekki fékk

Fram að góu miðri mundu
megn að þétta harðindin
frost og sjóar fast á dundu
fannst ei léttir nokkurt sinn

Þá kom bloti þótt ei yrði
þjóð til hlítar víða hvar,
eða þrot á baga byrði,
bjargar lítið eftir var

Hauðrið flísað háum klökum
herti fjánum bana sting
Grænlands ísa þykkum þökum
þiljuð ránin allt um kring

Halastjarna´ á hausti´ og vetri
heiðum farva´ um loftið rann
undan farna, Ísa-setri
aftur hvarf þá leið á hann.

Að hún muni - sem að sanna
sumir - slæmra nokkurn veg
olla hruni úrfellanna,
aðrir dæmi heldu en ég.

Sjóndeildar þá sokkin hringum
svo við brá í landi hér,
storma fari´ og stórrigningum
stans varð á en loftin ber.

Þurðaði oftar þoku dimmri
þegar leið á veturinn,
heiðríkt loft með hörku grimmri
herti neyð og jarðbönnin.

Fanna´ ógrynnis feld sambarðan
Fróns- og hrannar vor-sólin,
þótt um rinni´í heiði harðan,
heit ei vann á kulfenginn.

...
Vægð úr páskum veittist engi,
viðraði líkt á sumar kalt;
stóð í háska mestum mengi,
mundi slíkt gjörfella allt.

Á nörður jaðri og austur undir
ísa-klökum mest var láð,
annarstaðar meira mundi
mýkja jökul sólarbráð.

...
Fáar tíðir við þó varði
veður blíðan góð og hlý;
feikna gríðar hamur harði
hörku stríður reis á ný.

...
Um fardaga yfirlysti
aftur hríðum, frosti, snjó,
feikna baga fólkið gisti
fé enn víða niður sló.

Suður geima síðan vindar
sunnu treystir vörmum yl
yfir sveima elju rindar
ísa leystu vetrar þil.

Ofsa flóðum upp þá hleypti
undir slétta landið sökk
saurgar móður særinn gleypti
soltinn skvettu, galt ei þökk.

Frostin stemmdu heljar hörðu
hafin flóð með strauma sköll,
vunnu skemmdir votri jörðu;
vetrar stóðu´ í gaddi fjöll.

...
Keyrðu´ úr hófi köst fardaga,
kjör hin mestu auðnum banns:
hríða kófið hundadaga
hér eitt versta norðanlands.

Við hjálpar annir heftist öldin,
hörkum þróað vinda skvak,
gleyptu fannir grasa tjöldin,
grimmdar snjóa niður rak.

Nokkrir fóru´ af neyð úr tjöldum,
náðu bæjum þeir um síð,
aðrir vóru í þeim köldum
uns að lægja gjörði hríð.

...
Alltaf viðr öllu hægra
annarstaðar tíðin lét;
ekkert syðra, vestra vægra
var til skaða þetta hret.

...
Hefur syðra vor og vetur
verið hryðju-minni þar
einnig viðrað öllu betur
allt á liðið mitt-sumar.

Regnföll þá steyptust stórum
strauma vöktu rennslin hörð;
stund fjöll af ægis órum,
undan hröktu bleytta jörð.

Þaut af storði þoku svæla,
þám óhreina´ úr lofti dró;
hér fyrir norðan sumar sæla
sönn fram skein með ágústó.

...
Veðurfar þá stilltist stríða,
stóran trega sem að jók;
úthagar og engið víða
æskilega við sér tók

Hægðu skammvinnt heilla tíðir,
heyja iðjur tepptu´ á ný;
otuðu fram sér frost og hríðir
frekt í miðjum septembrí.

...
Sælulítið sumar varði
síðan regn og krapar út
veturinn hvítur gekk að garði
gyrtur megnum fanna strút.

...
Bar að sólir betri tíða
batna´ og hlána þjóðin fann
undir jólaföstu fríða
fór að skána veðráttan

Fjær þá rýma fjúk og þoka
fjár og hesta bætti vörð;
úr þeim tíma árs til loka
allra besta tíð og jörð.

Jón Hjaltalín:

Heyskap eigi góðan gaf,
gleði naðurs lóðum af
lítið nýting laga vann
liðinn þjóðar baga þann.

Haust gaf traustum Hindólfsbúk
himinstrauma vind og fjúk,
hægð sem vægðar hylli bjó,
hér og var á milli þó.

Lýkur hér samantekt hungurdiska um árið 1812. Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta úr Árbókum Espólíns. Smávegis af tölulegum upplýsingum er í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smávegis um illviðrið

Mikill vestanstrengur er nú yfir landinu norðanverðu og verður í nótt og fram undir morgun. Það er sjálfsagt nokkuð tilviljanakennt hvar hann kemur niður - helst þó við fjöll og á fjallatindum og í skörðum er nú þegar fárviðri, mest hefur enn frést af 50 m/s á Gagnheiði og 35 m/s á Bjarnarfjarðarhálsi. Svo virðist sem allrasnarpasti strengurinn lendi að mestu fyrir norðan land. Við sjáum hann vel á spákorti harmonie-líkansins sem gildir kl.3 í nótt og sýnir 10-mínútna meðalvind í 100 metra hæð yfir landslagi líkansins.

w-blogg090119a

Fárviðri er á brúnu svæðunum. Eins og sjá má er vindurinn stríðastur nokkuð fyrir norðan land en landslag æsir vind á landi upp staðbundið. Það eru ýmsir hlutir sem þarf að hafa í huga varðandi svona veður - fyrir utan vindinn sjálfan má nefna sjávarstöðu og brim. Loftþrýstingur er ekki sérlega lágur þannig að sjávarstaða verður ekki mjög há þess vegna - en aftur á móti getur sjór æst sig mjög - leið vinds yfir opið haf er lengri en oft er á þessum árstíma á þessum slóðum - hafís með minna móti - brim getur því sótt að ströndinni og áhlaðandi sem strengurinn býr til gæti orðið töluverður þegar áttin snýr sér úr suðvestri í vestur og vestnorðvestur. Og haugasjór verður auðvitað á djúpmiðum.

Eins og sagði er loftþrýstingur fremur hár samfara þessu veðri. Lægðin er í óðadýpkun við strönd Grænlands norður af Scoresbysundi og hreyfist allhratt austur til Norður-Noregs.

w-blogg090119b

Kortið sýnir stöðuna eins og evrópureiknimiðstöðin metur að hún verði kl.6 í fyrramálið. Hér eru þrýstilínur dregnar á 2 hPa bili og sýnast því þéttari en á hefðbundnum kortum þar sem 4 eða 5 hPa eru á milli þeirra. En ískyggilegt er línuhneppið undan Norðausturgrænlandi og lægðin sjálf komin niður í 949 hPa í miðju. Mjög hvasst er enn í lofti hér við land á þeim tíma sem kortið gildir - en fer að ganga niður upp úr því. Spáin fyrir Norður-Noreg og Svíþjóð norðanverða er mjög slæm - og eins og hér verður veðrið verst til fjalla - en mikil sjávargangsgusa mun koma upp að ströndum Noregs allt suður undir Mæri og víða mun sjóða á boðum og ólga verða í sundum. 

Við sjáum í næstu lægð í suðvesturjaðri kortsins. Hún á að koma hingað á föstudag. Svo virðist samt sem hún verði ekki mjög afgerandi - því hún er með eina enn lægð í bakið sem kemur á laugardaginn. En þetta er samt viðkvæm staða og ekki rétt að vera allt of kærulaus gagnvart henni. 

w-blogg090119c

Norðurhvelskortið sýnir stöðuna í 500 hPa síðdegis á föstudag. Þá er bylgjan sem tilheyrir föstudagslægðinni yfir landinu - við sjáum að ekki er hún mjög stór. Hlýtt loft er enn í framrás sunnan Grænlands þó spár virðist sammála um að því gangi ekki alveg jafn greitt til landsins og því sem nú er yfir okkur. 

Kalda loftið yfir Evrópu austanverðri teygir sig allt til Afríkustranda - en gefur eftir í bili undan framrás hlýrri strauma úr norðvestri. Áframhald verður á óróa þar um slóðir. Kuldapollarnir miklu Stóri-Boli og Síberíu-Blesi eru vel þroskaðir þessa dagana - en aðskildir að mestu af dálítilli hæð í námunda við norðurskautið. Staða Stóra-Bola er nokkuð óráðin - flestar langtímaspár hafa verið að gera ráð fyrir hryggjarmyndun og jafnvel fyrirstöðu í námunda við Grænland á næstunni - en einhvern veginn hefur slíkt ekki látið sjá sig í þeim spám sem mesta upplausn hafa - en lengi er þó von á einum.

Hitinn í dag var óvenjulegur, tölurnar einhverjar þær hæstu sem sést hafa á landinu í janúar (hæst þegar þetta er ritað eru 18,9 stig á Dalatanga). Janúarmetið á Dalatanga 19,6 stig frá þeim 15. árið 2000 situr þó enn þegar þetta er ritað (þó litlu muni), en landsdægurhámarksmet þess 10.er fallið - þrátt fyrir það að hafa verið 17,0 stig, sett á Dalatanga 1949. Reyndar er þetta „gamla janúarmetið“ í huga ritstjóra hungurdiska (og sjálfsagt sumra annarra veðurnörda líka) - það stóð allt fram til 1992 að Dalatangi gerði betur og fór í 18,8 stig. 

Ýmiskonar leiðindi hrjá nú tölvukerfi Veðurstofunnar og hafa m.a. áhrif á aðgengi ritstjóra hungurdiska að gögnum (það er þó minnsta áhyggjuefnið) - og þar með skrif hans. Vonandi veður komist fyrir þessa alvarlegu pest sem fyrst. 


Nokkur órói

Nokkur órói virðist framundan í veðrinu - vonandi samt að við sleppum bærilega þrátt fyrir allþéttan lægðagang. Næstu lægðar fer að gæta strax á morgun - þriðjudag 8.janúar. Svo virðist sem landsynningurinn á undan henni verði þó ekki mjög skæður heldur lendum við svo til samstundis yfir í hlýjum geira kerfisins. 

w-blogg070119b

Evrópureiknimiðstöðin stingur upp á þessari stöðu snemma á miðvikudagsmorgunn. Mjög hlýtt loft verður þá yfir landinu, komið langt sunnan úr höfum vestan við hæðina miklu við Bretlandseyjar en hún hefur ráðið veðri hér að undanförnu. Hér er lægðarmiðjan klesst upp við austurströnd Grænlands og hreyfist norðaustur með henni. Þegar hún kemur fyrir hornið sunnan við Scoresbysund (Brewsterhöfða) sækir mjög kalt loft úr vestri yfir Grænlandsjökul. 

Þrjú spennandi atriði fylgja lægðinni. Í fyrsta lagi er sunnanloftið sérlega hlýtt. 

w-blogg070119a

Það sést best á þessu korti. Það sýnir mættishita í 850 hPa-fletinum á miðvikudagskvöld. Ef okkur tækist að ná þessu lofti niður að Dalatanga (óblönduðu) færi hiti þar í 24 stig. Ólíklegt er reyndar að það takist - en miði er möguleiki - segir í fornum kveðskap. Það er mjög hvasst í lofti - og að auki er snjór ekki mikill (ef nokkur). 

Annað atrið sem er mjög spennandi er hvernig fer með kalda loftið sem steypist yfir Grænland. Spár eru nokkuð misvísandi hvað það varðar. Líklega gætir þess mest norðan Scoresbysunds, en sumar spár gera ráð fyrir þeim möguleika að eitthvað nái hingað til lands. Það verður alla vega ekki langt undan. Fallvindar sem þessir geta orðið gríðaröflugir, 50 til 60 m/s (10-mínútna meðalvindur) við fallið ofan af jöklinum. Dæmi eru um að ofsaveður eða fárviðri verði staðbundið nærri fjöllum hér á landi þegar strengirnir ganga hjá. Slíkt er að vísu sjaldgæft - en eins og áður - möguleiki er möguleiki.  

Þriðja atriði er rétt að nefna. Áður en kalda loftið kemur (komi það) teygir hes heimskautarastarinnar sig niður í átt til landsins - gæti líka valdið verulegum vindi á landinu (síst þó suðvestanlands). 

Sem stendur er evrópureiknimiðstöðin heldur linari í vindaspá sinni heldur en bandaríska veðurstofan - og hefur árangurshlutfall með sér. Þetta er þó staða sem rétt er að fylgjast náið með - hvað sem svo úr verður. Veðurstofan sér um spár og viðvaranir. 


Þrettándalægðin (lægðirnar)

Á morgun, sunnudaginn 6.janúar fer kröpp lægð til austurs fyrir sunnan land. Lægðin er ekki mjög stór um sig en foráttuveður er sunnan við hana og „hagsmunaaðilar“ (eins og það heitir á nútímaslangri) á norðanverðum Bretlandseyjum og við Norðursjó ættu að gefa henni gaum - þá á mánudag og þriðjudag. Við sleppum hins vegar mun betur hér á landi vegna þess að fyrir norðan hana er önnur lægð - eða lægðarvísir að ströggla. Við sjáum stöðuna vel á korti sem gildir kl.21 að kvöldi.

w-blogg060119a

Lægðin er hér um 500 km fyrir sunnan Vestmannaeyjar, úrkomusvæði norðan við hana sleikir landið sunnanvert. Hin „lægðin“ er á kortinu rétt vestur af Snæfellsnesi - en gæti reyndar verið hvar sem er á línu sem fylgir nyrðra úrkomusvæðinu - svo óljós er miðjan. Ef spáin reynist rétt er talsverð úrkoma í kerfinu - danska igb líkanið segir hana verða tugi mm sums staðar við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Hvað verður úr því vitum við ekki - en trauðla verður um verulegan vind að ræða hér á landi.

Lægðin fylgir háloftalægðardragi - sem sjá má á kortinu hér að neðan.

w-blogg060119b

Við förum í þetta sinn upp í 300 hPa-flötinn - í tæplega 9 km hæð. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindur sýndur með hefðbundnum vindörvum, en hiti með litum. Kortið sýnir sama svæði og kortið að ofan. Lægðin krappa er þar undir sem L-ið er á myndinni. Við sjáum vel hið mikla niðurstreymi að ofan suðvestan við hana - það kemur fram sem hlýr blettur (loft hlýnar við að lækka) - trúlega er 300 hPa-flöturinn hér ofan veðrahvarfanna. Yfir Íslandi er hins vegar kaldur blettur þar sem loft leitar upp og kólnar - trúlega upp undir veðrahvörfum - en samt neðan þeirra. 

Þetta er ekki einföld staða fyrir „veðurpármanneskjur“ (afsakið) - enda gætir ritstjóri hungurdiska tungu sinnar. 


Óvæntast á árinu 2018

Ritstjórinn var spurður að því á dögunum hvert væri „veður ársins“ 2018. Ef til vill ætti að hafa um það almenna atkvæðagreiðslu á samfélagsmiðlum að undangengnum tilnefningum helstu veðurnörda (æ). Hungurdiskar eru með síður á fjasinu og sömuleiðis „reikning“ á twittertísti þar sem hægt væri að setja upp slíkt kjör. En þó ritstjórinn sé svosem ekki alveg ósjálfbjarga í tækninni er hann ekki með hana „í mænunni“ eins og margt yngra fólk og þar að auki haldinn töluverðri leti nennir hann ekki að leggja í slíkar tilnefningar og atkvæðagreiðslu. Hefur samt ekkert á móti tilnefningum vilji einhver nefna eitthvað veður sem sá sami telur verðskulda titilinn „veður ársins“. 

Það sem kemur ritstjóranum mest á óvart í uppgjöri ársins 2018 er sú staðreynd að hæsti hiti þess skuli hafa mælst á Patreksfirði. Slíku hefði hann aldrei spáð. En lærir svo lengi sem lifir. Hæsti hiti ársins á landinu mældist á Patreksfirði 29.júlí, 24,7 stig. Hitabylgjan á landinu þennan dag er hér útnefnd sem „veður ársins“. Um hana var fjallað í tveimur pistlum hungurdiska (27.júlí og 30.júlí). Í síðari pistlinum var m.a. sagt frá fjölmörgum daggarmarksmetum sem einnig voru slegin þennan dag. 

Eins og fram kom í pistlinum 30.júlí hefur það tvisvar gerst áður að hæsti hiti ársins á landinu hefur mælst á Vestfjörðum, 1943 og 1962. Fyrra tilvikið, 1943, er nær örugglega rangt - hitt (1962) gæti staðist en er samt með nokkrum ólíkindum. Patreksfjarðarmetið nú er hins vegar ekki vafa undirorpið - næsthæsti hiti ársins (24,5 stig) mældist sama dag í Tálknafirði og á Hafnarmelum. 

Fleiri met voru slegin 29.júlí, hiti mældist 17.8 stig í 925 hPa yfir Keflavíkurflugvelli - það er nýtt júlímet. Í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004 mældist hiti 18,6 stig í fletinum. Hitamælingar í 925 hPa eru ekki aðgengilegar í gagnagrunni Veðurstofunnar nema aftur til 1993. Hiti í 850 hPa-fletinum mældist 13,6 stig þann 29.júlí, það næstmesta í júlí frá upphafi samfelldra mælinga 1952. Hærri tala, 13,9 stig mældist þann 23.júlí 1952 en hefur verið talin vafasöm (og er það) - en kannski var þá um „flís“ af hlýju lofti að ræða - rétt eins og nú. 

Hér er rétt að geta þess að annað mánaðarhitamet var slegið í 850 hPa-fletinum á árinu. Á jóladag mældist hiti 8,0 stig - 0,6 stigum meira en gamla metið frá 12.desember 1990. Tvær mælingar í 500 hPa í júlí 2018 komust inn á topp-tíu (í 5. og 8.sæti). Febrúarhitamet var slegið uppi í 70 hPa (18 km) og 50 hPa (20 km) - nærri 5 stigum hærra en eldri met.

Annars hefur ritstjóri hungurdiska ekki alveg lokið yfirferð um háloftamet ársins 2018 - meiri fréttir síðar ef eitthvað markvert finnst. 


Hlýindi

Undanfarna þrjá daga hefur verið mjög hlýtt á landinu, gærdagurinn (fimmtudagur 3.janúar) og dagurinn í dag (föstudagur 4.) eru meðal allra hlýjustu janúardaga sem vitað er um á landsvísu. Meðalhiti í byggð var báða dagana yfir 8 stig - og hefur ekki orðið jafn hár áður sé miðað við sjálfvirka stöðvakerfið - en munur á fyrri hæstu gildum og hitanum nú þó varla marktækur. Meðaltal mönnuðu stöðvanna hefur þrisvar verið svipaður og nú síðustu 70 árin, 4.janúar 2006 og 9. og 10.janúar 1973. Meðalhámarkshiti nú var 10,7 stig (þ.3.) og 10,3 stig (þ.4.). Hann var líka 10,7 stig þann 25.janúar 2010. Meðallágmarkshiti nú var í dag (þ.4.) 5,4 stig, var sjónarmun hærri 22.janúar 2011, en ívið hærri dagana ofurhlýju í janúar 1973, (9. og 10.) og sömuleiðis 14.janúar 1992. 

Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í janúar eru 19,6 stig sem mældust á Dalatanga þann 15. árið 2000. Hæsti hiti sem frést hefur af í þessari syrpu nú eru 15,8 stig sem mældust í Héðinsfirði í gær (þ.3.) - en sú stöð hefur ekki enn fengið fullt „heilbrigðisvottorð“ - kannski er mælingin alveg í lagi. Hámarkshiti fór í 15,7 stig á Sauðanesvita í gær (þ.3) og telst það nýtt dægurhámark fyrir landið - eldra met var orðið gamalt, 15,2 stig sem mældust á Dalatanga 1956. 

Fjöldi af janúarstöðvametum hefur fallið. Á Hvanneyri fór hiti í 12,3 stig - það hæsta sem þar hefur mælst í janúar (sjálfvirkt og mannað). Hiti fór í 10,9 stig í Stykkishólmi - ein hærri tala, 11,0 stig, er til þaðan í janúar - orðin mjög forn, frá 1871 - við þurfum að fletta upp frumhandriti til að staðfesta hana. Í viðhenginu er listi yfir ný mánaðarhitamet einstakra stöðva.

Ógrynni af dægurhitametum stöðva féll í gær og dag. 

Slæðingur féll af sólarhringslágmarkshitametum janúarmánaðar á stöðvunum - það er að segja ekki hinu venjulega lágmarki heldur að lágmarkshiti sólarhringsins var nú hærri en áður hefur mælst í janúar - en við látum vera að fjalla um þau að sinni. 

Í Reykjavík féllu met einstakra athugunartíma, kl.3 aðfaranótt þess 3. mældist hiti í Reykjavík 9,4 stig - og hefur ekki mælst svo hár áður í janúar á þeim tíma sólarhrings, met var einnig sett kl.9, en þá mældist hiti í Reykjavík 9,7 stig. Met var ekki sett kl.6, hæsti hiti sem mælst hefur í janúar á þeim tíma stendur enn, 9,4 stig sem mældust þann 7. árið 1964.  

En svo er spurningin hvað hlýindi endast - helgin á að verða talsvert kaldari en þessir þrír síðustu dagar - hlýindin haldast að vísu fram eftir laugardagsmorgni austanlands - þannig að þessi „hitabylgja“ gæti enn skilað metum. Síðan á að hlýna verulega um stund á þriðjudag og/eða miðvikudag - kannski með metafréttum - en eftir það þarf væntanlega að bíða eitthvað eftir stórtíðindum af háum hita. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Úr heiðhvolfinu

Á samfélagsmiðlum þar sem fjallað er um veður hafa fregnir af heiðhvolfinu verið nokkuð áberandi upp á síðkastið. Það er að sjálfsögðu hið besta mál - því það er ekki svo oft sem heiðhvolfið ber á góma. Það er svo annað - að stundum er dálítið óbragð af þessum fréttum - rétt eins og eitthvað sé að gerast sem telja má mjög óvenjulegt og válegt. Hungurdiskar hafa alloft fjallað um heiðhvolfið - pistlarnir sem minnast á það og veðurlag þess skipta einhverjum tugum. Fjallað hefur verið um árstíðirnar í heiðhvolfinu og vindafar þar uppi og alloft minnst á sérstaka atburði. 

Hitafar i heiðhvolfinu á norðurslóðum ræðst einkum af þremur þáttum, geislunarjafnvægi, lóðréttum hreyfingum og aðstreymi lofts að sunnan. Um fjögurra mánaða skeið á sumrum - þegar sól er hæst á lofti - frá 20.apríl til 20.ágúst eða þar um bil hlýnar svo mjög að vestanáttin sem ríkir afgang ársins gufar upp og breytist í austanátt. Eftir 20.ágúst bætir smám saman í vestanáttina - og þá sérstaklega seint að hausti þegar sól hverfur alveg eða nær alveg. Meðalvindhraði í 30 hPa yfir Íslandi er um 14 m/s í október, 30 m/s í desember og 38 m/s í janúar. 

Á erlendum málum er vetrarhámark heiðhvolfsvindsins nefnt „polar night jet“ - við köllum það „skammdegisröstina“. Röstin liggur umhverfis mikla háloftalægð - það sem kallast á ensku „polar vortex“ - og er (af eðlilegum ástæðum) oft ruglað saman við neðri háloftalægðir sem líka kallast „polar vortex“. Þessi ruglingur er hálfgert vandræðamál fyrir þá sem nota ensku - en þarf ekki að vera það fyrir okkur. Við getum nefnilega talað um „heiðhvolfslægðina“ eða „heiðhvolfslægðir“ séu þær fleiri en ein - algjörlega án nokkurs ruglings. 

Á þessum tíma árs er heiðhvolfslægðin oftast „í góðum gír“ - fyrsta myndin hér að neðan sýnir stöðuna þann 4. janúar í fyrra (2018).

w-blogg030119b

Jafnhæðarlínur 30 hPa-flatarins (í um 23 km hæð) eru heildregnar, hiti er sýndur með litum. Það er sjaldan sem lægðin er alveg samhverf umhverfis norðurskautið - hún leggst fremur austurhvelsmegin heldur en vestan við - en breytileiki er samt allmikill. Á þessu korti er ástæða hlýindanna yfir austasta hluta Asíu sú að þar sunnan við og undir er mjög öflugur hluti heimskautarastar veðrahvolfsins - nokkur niðurdráttur er ætíð á norðurhlið öflugra vestanrasta og gætir hans greinilega í 30 hPa - loft hlýnar við niðurdrátt. 

Það er sólarleysið sem „búið hefur til“ kuldann í lægðinni og á svæðinu í kringum hana. Þegar við fylgjumst með hringrás vestanáttarinnar á norðurhveli er þægilegt að nota hugtak sem nefnist „bylgjutala“. Eins og nafnið gæti bent til segir hún til um það hversu mörg lægðardrög (bylgjur) við sjáum í hringum. Sé hringrásin sammiðja um norðurskautið er bylgjutalan skilgreind sem núll. Liggi hún meira til annarrar hliðar við skautið er bylgjutala „einn“ ríkjandi. Á þessu korti teygist lægðin greinilega til tveggja átta - bylgjutala „tveir“. Þeir sem eru stærðfræðilega sinnaðir vilja nú skrifa upp hringinn sem vegið samspil fjölmargra bylgjuþátta - allt frá tölunni núll - og upp í hvað sem verkast vill, vægi hverrar tölu misjafnt eftir breiddarstigum - og verður fljótt flókið.

Við sjáum vel af „hlýindunum“ yfir Austur-Asíu að það sem er að gerast neðar getur haft mikil áhrif á stöðuna uppi í 30 hPa - og enn frekar enn ofar. Séu hreyfingar veðrahvolfsrastanna mjög bylgjukenndar - eða þá að mikill órói er í stóru kuldapollunum (Stóra-Bola og Síberíu-Blesa) getur bylgjumynstur í heiðhvolfinu miðju raskast mjög. Auk þess koma stundum orkumiklir pústrar úr hitabeltinu sem ryðjast fram við veðrahvörfin og sparka í heiðhvolfslægðina. Á síðustu árum eru slíkir pústrar gjarnan tengdir við það sem heitir Madden-Julian-hringurinn - (Madden-Julian oscillation) - og er eins konar „veðurbylgja“ sem gengur hringinn í kringum hnöttinn nærri miðbaug á um það bil 40 dögum. Við gætum litið á þetta fyrirbrigði síðar. 

Eitt það merkilegra sem gerst hefur í þróun veðurspáa á síðustu árum er að stóru reiknilíkönin eru stundum farin að sjá breytingar í heiðhvolfinu með alllöngum fyrirvara. Vegna þess að bylgjumynstur heiðhvolfsins er einfaldara heldur en það sem neðar er geta vísbendingar um breytingar þar uppi jafnframt verið vísbendingar um að breytingar (ekki jafn auðséðar) séu að eiga sér stað í veðrahvolfinu. 

Takist ólgu veðrahvolfsins að hræra upp í heiðhvolfinu og drepa skammdegisröstina hefur það gjarnan þær afleiðingar að það dregur úr afli heimskautarastarinnar (sem er öflugust við veðrahvörfin - en oftast ótengd skammdegisröstinni). Þá er tækifæri fyrir breytingar á bylgjumynstri veðrahvolfsins. Stundum nær hin „nýja“ hringrás heiðhvolfsins og breytingar niðri einhverju sambandi og festu - en alls ekki alltaf. 

Þessa dagana hefur einmitt orðið mikil röskun í heiðhvolfinu - skammdegisröstin er ekki svipur hjá sjón. 

w-blogg030119a

Þetta kort er mjög ólíkt kortinu sama dag í fyrra - jú, við sjáum enn áhrif niðurdráttar yfir Austur-Asíu - en þar kemur víst fleira við sögu - niðurstreymi vegna bylgjubrots enn ofar. Heiðhvolfslægðin hefur alveg skipst í tvennt - kannski erum við að tala um bylgjutöluna „þrír“ - vestari lægðin er þó e.t.v „fjórir“ eða „fimm“. 

En segir þetta eitthvað um veðráttuna afgang vetrar? Ólíklegt er að heiðhvolfslægðin jafni sig alveg eða verði aftur jafnköld og hún var - en ekki vill ritstjóri hungurdiska þó neitt fullyrða um það. En atburðir sem þessir eru ekki mjög sjaldgæfir - þó ekki séu þeir árlegir - og stöku sinnum líða nokkur ár á milli. Þeir eru algengari í febrúar heldur en í janúar. Fræðimenn hafa búið til nokkuð áreiðanlegar atburðaskrár sem ná 60 til 70 ár aftur í tímann. Ekki er algjört samkomulag um hvað skuli telja með og hvað ekki - en á listunum má oftast finna meir en 40 atburði á þessu tímabili. 

Ekki er auðvelt að tengja þá veðurfari hér á landi - allur gangur virðist á „afleiðingunum“ - en samt er tilfinning ritstjóra hungurdiska sú að breytingar í kjölfar þeirra hafi oftar verið til landnyrðingsþræsinga fremur en útsynningsumhleypinga - en könnun á því verður að bíða betri tíma - eða að eilífu. 

Öll æsifréttamennska varðandi vetraratburði í heiðhvolfinu fer þó í fínu taugarnar á ritstjóranum - séu þær einhverjar eftir. 


Brot af uppgjöri árins 2018

Hér eru dálitlar viðbótarupplýsingar um veðurlag ársins 2018. Ársuppgjörs Veðurstofunnar er varla að vænta fyrr en eftir nokkra daga.

Árið 2018 var úrkomusamt og nokkuð hlýtt. Hiti á landsvísu var nærri meðallagi síðustu tíu ára en þau ár voru sérlega hlý miðað við það sem algengast er hér á landi. Meðalhiti í Reykjavík var 5,1 stig og er árið eitt þeirra 30 hlýjustu (af 148) frá upphafi mælinga. Meðalhiti á Akureyri var 4,6 stig og það 14.hlýjasta frá upphafi mælinga. Austur á Dalatanga var ársmeðalhitinn 5,2 stig og hefur aðeins 3 sinnum verið hærri.

Úrkoma í Reykjavík mældist 1059,2 mm og hefur ársúrkoma aðeins 7 sinnum mælst meiri frá upphafi samfelldra mælinga 1921, síðast 2007. Þetta er tæpum þriðjungi umfram meðallag. Úrkomudagar voru óvenjumargir, 261 og hafa aldrei verið fleiri. Næstflestir voru úrkomudagarnir árið 1953 og 1989, 255 talsins. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða fleiri voru 183 og hafa aðeins tvisvar verið fleiri, 1953 og 1921. Á Akureyri mældist úrkoman 687,2 mm eða um 40 prósent umfram meðallag og hefur aðeins tvisvar mælst meiri á einu ári, 2014 og 1989. Úrkomudagar voru einnig óvenjumargir á Akureyri, 209, og hafa aðeins þrisvar verið fleiri á einu ári, flestir 224 árið 2014.

Sólskinsstundir mældust 1163 í Reykjavík á árinu, rúmlega 100 færri en í meðalári og þær fæstu á einu ári síðan 1992. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1016 og er það í tæpu meðallagi. Alhvítir dagar voru 38 á árinu í Reykjavík og hafa ekki verið jafnfáir frá 2010. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 98, um 20 færri en í meðalári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg220925a
  • w-blogg170925b
  • w-blogg170925a
  • w-blogg130925-ak-a
  • w-blogg130925a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.9.): 46
  • Sl. sólarhring: 153
  • Sl. viku: 1396
  • Frá upphafi: 2500553

Annað

  • Innlit í dag: 41
  • Innlit sl. viku: 1217
  • Gestir í dag: 40
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband