Af árinu 1812

Mjög kalt var árið 1812. Það er að nafninu til það kaldasta í hitaröð sem sett hefur verið saman fyrir Stykkishólm aftur til ársins 1798, meðalhiti 0,6 stig. Þetta er sjónarmun lægra heldur en meðalhitinn árin 1859 og 1866 (0,9 stig) - en óvissa er meiri en svo að hægt sé að fullyrða að 1812 sé raunverulega kaldasta árið. - Mælt var á Akureyri allt árið - þokkalega áreiðanlegar mælingar gerðar þrisvar á dag (örfáa vantar). 

ar_1812t

Myndin sýnir Akureyrarmælingarnar. Hlákur gerði í janúar og á góunni, en gríðarhart og langvinnt frost var fyrir og um miðjan febrúar og seint í mars og byrjun apríl. Slæm hret gerði snemma í maí og um miðjan júní - en hlýtt var í júníbyrjun. Í maíhretinu snjóaði í Vík í Mýrdal að sögn Sveins Pálssonar héraðslæknis. Mjög slæmt var um tíma í júlí og fór hiti þá niður í frostmark á Akureyri og snjókomu getið í athugunum allmarga daga. Meðalhiti júlímánaðar ekki nema 6 stig, enn lægri en 7,3 stig júnímánaðar - sem ekki voru fagnaðarefni.

Ágúst var hlýjasti mánuður ársins og komu þá allmargir góðir dagar með yfir 15 stiga hita um hádaginn. Sömuleiðis var hlýtt í byrjun septembermánaðar. Rigningar munu þá hafa verið syðra og heldur dauf tíð. Hret gerði þá upp úr miðjum mánuði. Langvinn frost voru síðari hluta nóvember og fram eftir desember. Hláku gerði svo um jólin - og mjög mikla hitasveiflu - rétt eins og í kringum þrettándann í upphafi árs (sjá myndina).

Hitamælingarnar falla einkar vel að þeim fáu veðurlýsingum sem varðveist hafa frá þessu ári.

ar_1812p

Ársmeðalþrýstingur var mjög hár - e.t.v. sá hæsti síðustu 200 árin rúm. Ágætt samband er á milli ársmeðalþrýstings hér á landi og hitafars í Finnlandi. Það var einmitt árið 1812 sem Napóleon fraus í Rússlandi og mannfellir varð víða um Evrópu sökum kulda. En förum ekki nánar út í það hér.

Á þrýstiritinu hér að ofan eru þrýstiumskiptin um miðjan mars sérlega áberandi og þeim fylgdi mikil breyting á veðráttu ef marka má veðurlýsingar. Haustþrýstingurinn var líka sérlega hár eftir miklar lægðir í september. 

Þetta ár er fremur upplýsingarýrt, t.d. er ekki mikið að finna um hafísinn enda siglingar strjálar vegna styrjaldarinnar. Hér að neðan má lesa helstu veðurlýsingar ársins - við reynum að skipta þeim á árstíðir nema yfirlitinu úr Annál 19.aldar. Dagbók Jóns á Möðrufelli er eiginlega handan við leshæfileika ritstjóra hungurdiska - en hann reynir samt að krafsa eftir upplýsingum. Beðist er velvirðingar á mislestri. 

Annáll 19. aldar segir:

Veðrátta batnaði nokkuð eftir nýár, héldust þó víða jarðleysur og harðnaði tíð norðanlands á þorra; gjörðust hin mestu jarðbönn eystra og nyrðra af tíðum spilliblotum og voru menn mjög þrotnir að heyjum á góu. Hélst síðan hin sama ótíð og voru hörkur miklar á páskum, svo hestar frusu til bana vestra. Tók að falla stórum bæði sauðfé og hross fyrir norðan land og hvervetna annarstaðar; voru og kýr margar skornar, áður bati kom. Þótti þessi vetur einna stríðastur orðið hafa um 29 árin næstu. Syðra var þó sögð allgóð tíð til þorrakomu, en þá féll þar lognsnjór mikill og héldust jarðleysur einnig þar lengi við, þó einna minnst í Rangárvallasýslu. Með ágúst batnaði og var hlýtt sumar og gott þangað til um miðjan september, að frost komu að nýju; mýktist þó með jafndægrum. Aftur kom kast um veturnætur og segir Þórarinn prestur í Múla [Tíðarvísur], að viku af vetri hafi orðið að taka hross á gjöf, en undir jólaföstu kom besta tíð, er varaði til ársloka. Víðast var grasvöxtur í minna lagi, en nýting góð. Hafís kom að Norðurlandi á þorra og lá við þangað til í júní.  

Um veturinn: 

Brandstaðaannáll: Gerði fyrst hríð og hörku. Eftir þrettánda bloti, er gerði sumstaðar snöp um 2 vikur. Á þorra blotalaust, hörkur og kafaldasamt og seinast 7 daga yfir- (s63) taks norðanhríð, er rak að landi mikinn hafís. Á góu mildara veður, tvisvar snöp fáeina daga, en fjúkasamt. Versta skorpan var á einmánuði. Mikil skírdags og páska (29.mars) hríð, með mesta frosti. Voru þá allstaðar þiljur af gaddi á landi og langt á haf út. Tók þá að bera á heyskorti. Þó voru sumir aflagsfærir.

Espólín: XLVII. Kap. Eftir nýárið batnaði nokkuð veðrátt, en þó var víða jarðlaust. Á þorra versnaði aftur veðrátt og kom hafís, var ekkert gagn að honum, nema einn hval rak, mikinn og góðan, fyrir Byrgisvík á Ströndum; þar var áður etið upp nálega allt það er skinnkynjað var; hákallar náðust og sumstaðar í vökum. Þá týndust 8 menn af skipi undir Jökli, og urðu fleiri misfarir; gjörði hin hörðustu jarðbönn af blotum hvervetna austan og norðan lands, og voru margir menn þrotnir að heyjum á gói; hélst þessi veðrátt alla stund, og voru hörkur miklar á páskum, svo hestar frusu til bana vestra; tók þá at falla stórum bæði sauðfé og hross fyrir norðan land, og hvervetna annarstaðar, og þótti þessi vetur einna stríðastur orðið hafa um 29 ár hin næstu, en bjargir mjög bannaðar af sjó og öðru. (s54). Syðra var gott til góu, en þá féll mikill lognsnjór og tók fyrir fiskafla, en allgóður var aflinn vestra og jarðasamt (s55).

Jón á Möðrufelli:

Vetur yfir höfuð einn sá allra harðasti af snjóþyngslum og jarðbönnum. Janúar hófst í harðara lagi en gerði bata um tíma, vikan fyrir 25. dágóð að veðráttu. Febrúar allur mjög harður … almennar jarðleysur um alla sveit. Mars misjafn, virðist hafa byrjað illa, en síðan var allsæmileg tíð í hálfan mánuð og kom upp nokkur jörð, en harðindi frá pálmasunnudegi [22.] Sagt af hafís: Allt fullt frá Ströndum til Langaness. Bjarndýr kom á Tjörnesi. Yfir 70 fjár kafnaði í [húsi] af snjó á Möðrudal á Fjöllum … 30 fjár drápust og í einu í húsi á bæ á Sléttu. 

Vor:

Brandstaðaannáll: Eftir miðjan einmánuð mildaðist veður með góðri og stöðugri sólbráð, notalegustu leysing á þann mikla gadd, en góðviðrið varaði út maí. Voru þá sveitir orðnar auðar. Víða varð 20 vikna bjargleysi. Minnst þurfti 13 vikna gjöf. Lengi var jörð á Ströndinni og með sjónum, á Ásum, yst í Víðidal, Björgum, Skaga og Hegranesi. Í maí kuldar miklir og hríð á uppstigningardaginn [7.maí]; eftir krossmessu vikuþíða [krossmessa hér trúlega 13.maí], aftur kuldar í júní og 4 daga hret eftir trínitatis [24.maí], þó allgott fardagavikuna.

Jón á Möðrufelli:

Apríl rétt góður og gjörði hagstæðan bata, með sólbráð og stillingu. Maí allur mjög veðráttuþungur og gróður sárlega lítill kominn í tún, sem eru ákaflega kalin. Snjór í fjöllum ákaflegur bæði nýr og gamall. 

 

Sumar:

Brandstaðaannáll: Fráfærnahret 28.júní, lengst af frost um nætur og gróðurleysi. Lestir fóru 6.júlí. Gaf þeim vel til þess 18.-21. júlí, að langt hret gjörði. Sláttur tók til 24.júlí. Varð töðubrestur mikill og sinumýrar hvítleitar, þokur og óþurrkar, í 16.viku [6.ágúst] kom góður vestanþerrir, eftir oftar rekjur, þó þerrir eftir þörfum. Úthagi spratt lengi og varð sumstaðar allt að meðal-útheysfeng og allt hirt um Mikaelsmessu [29.september]. Í göngum mikið hret um 4 daga, svo ei var heyjað vikutíma.

Espólín: XLIX. Kap. Þá var Júlíus harður, með kuldum og hríðum sem á vetri fyrir norðan, og hið mesta grasleysi og bjargleysi hvervetna, batnaði fyrst veðrátt með Augusto, og kom lítt að haldi, því að peningur var gagnslaus, en vellir þriðjungi verri en hið fyrra árið, og engjar þó enn verri. (s 57). LII. Kap. og þá urðu svo miklir marsvína rekar, at fá eru dæmi til: rak á Kolgrafafirði vestur mikinn fjölda, sögðu menn 16 hundruð hafa verið talin. (s60).

Jón á Möðrufelli:

Júní mikið bágur. Loftkuldar sífellt með næturfrosti, fer gróðri sárlega lítið fram. Fyrstu 3 vikur júlí dauðakaldar og þurrar. Þá gerði skelfilegt áfelli, snjóaði ofan undir bæi, mikill snjór í fjöll og fennti far fé. Ágúst heldur óþurrkasamur. Frost og hríð um miðjan september, en síðan mun betri tíð.

 

Haust:

Brandstaðaannáll: Í október þurrt, frostasamt, snjólítið, nóvember nokkuð kaldara og á jólaföstu frostamikið og snjólítið, góð vetrartíð og hláka á jólunum og ofviðri á þriðja, snjólaust á hálsum og heiðum. Var þá lítið búið að gefa lömbum, þar beit var að gagni. Á þessu ári varð fellir á fé sunnan- og vestanlands í allmörgum sveitum. (s64) [neðanmáls: Hvergi hér varð fellir, en heyþrot hjá mörgum á einmánuði og fé langdregið.] ... Þá urðu 7 skiptapar með 54 mönnum í Önundarfirði miðvikudaginn fyrir uppstigningardag. (s65)

Espólín: LIV. Kap. þá var fiskafli nokkur fyrir Jökli, en lítill á Innnesjum syðra, var sagt að vestan, að fyrir sunnan Jökulinn hefði tekist nokkurt mannfall; hófst veturinn stríðlega, en á öðru tungli gjörði kyrr veður ok góð [tungl var fullt þann 18.], og hélt þeim síðan til miðs vestrar, en stundum voru þeyjar og sunnan veður mikil og mjög umhleypingasamt þaðan af. (s62).

Jón á Möðrufelli:

Október fyrst nokkuð óstilltur, en þann 10. segir Jón að tíð sé úrkomusöm en ei köld og kýr gangi úti. Viku síðar er sagt að bleytusamt hafi verið framan af vikunni, en síðan hafi kólnað og sé orðið heldur vetrarlegt. Vikan þar á eftir var stillt og snjólítið var í sveitinni. Nóvember sæmilegur, þriðja vika hans mikið stillt og hæg og sæmileg jörð. Í desember er aðallega talað um stillta tíð, og hláku um jólin. 

Tíðarfari er lýst í nokkrum prentuðum bréfum. 

Reykjavík 25-8 1812 (Bjarni Thorarensen): Vinteren var stræng, og, som sædvanlig, bleve de der ei i Tide havde nedslagtet haardest medtagne: Foraaret har, især paa Nord- og Österlandet været meget strængt, ... Driviis har i denne Tid omringet alle Nord- og Österlandets Kyster, og skal nu först for nogen Tid siden være borte, hvilket det næsten siden Höeslættens Begyndelse i Sommer grasserende Regnige og Taagede Veir noksom beviser. (s4)

Lausleg þýðing: Veturinn var harður, og eins og venjulega urðu þeir verst úti sem ekki skáru í tíma. Vorið hefur, sérstaklega á Norður- og Austurlandi verið sérlega hart, ... Hafís hefur á þessum tíma legið við alla norður- og austurströndina og er fyrst nú farinn fyrir nokkru, eins og það rigninga- og þokuveður sannar sem grasserað hefur hér frá upphafi sláttar. 

Reykjavík 26-8 1812 (Geir Vídalín biskup): Frá árferðinu er ekki nema illt eitt að segja, grasvöxtur sá allra bágasti, og nýting síðan vika var af slætti sú lakasta, svo töður liggja nærfellt allsstaðar enn á túnum. Norðanlands kom síðast í júní það kafald, að fé fennti í Aðalreykjadal í byggð, og þá varð ekki slegið í Skagafirði fyrir frosti. Ís hefur legið fyrir öllu Norður- og Austurlandi til fyrir hér um hálfum mánuði. Nú sagði síðasta frétt, að hann væri farinn, og sést hefði til tveggja framandi skipa hjá Grímsey. Þar hefur verið aflalaust nema af hákarli, af honum hafa menn veitt töluvert upp um ís. (s109) Í Norður-Múlasýslu voru svo mikil harðindi, að fólk var farið að flosna upp, og fjórir menn í Loðmundarfirði voru dauðir í hungri. (s110)

Reykjavík 27-9 1812 (Geir Vídalín biskup): Sumarið hefur verið óþurrkasamt í meira lagi hér syðra, og heyskapur bágur einkum hér og í Borgarfirði, betri í Árnes- og Rangárvallasýslum, hvar sagt er að flestir muni hafa fengið nærri sanni fyrir sinn pening. Í Norðurlandi var mikill grasbrestur, en þar varð nýting betri. (s112)

(Úr Fru Th.s Erindringer fra Iisland) 1812 „Vinteren var ikke god, og Foraaret værre. [Frúin fór svo aftur út haustið 1812]

Lausleg þýðing: Veturinn var ekki góður og vorið verra. 

Annáll 19.aldar (s158 og áfram) telur upp allmikið af slysum og óhöppum árið 1812, sumt tengt veðri. Við lítum á það sem sett er á ákveðnar dagsetningar - aðalheimildir eru Espólín og annáll Gunnlaugs á Skuggabjörgum (óprentaður):

Þann 25.febrúar er sagt að 8 menn af skipi frá Eyrarbakka hafi drukknað við Þorlákshöfn og fimm komist af. Ekki er samkomulag um þær tölur. 5.maí fórust fimm menn af skipi frá Látrum vestra. Þann 7.maí er sagt að fjögur skip hafi farist á Önundarfirði og þrjú af Ingjaldssandi með 52 mönnum alls, ekki er heldur algjört samkomulag um fjölda þeirra sem fórust. Tveir menn urðu úti þann 25.mars á Gemlufallsheiði. Þann 29.september sleit upp í ofviðri kaupskip á Skagaströnd, en komst þó að lyktum til Kaupmannahafnar. 

Úr tíðavísum Sr. Þórarins í Múla:

Árið það sem út er runnið
ofsa strangt að veðra hvin
hefur skaða vegnan vunnuð
víða langtum meira' en hin

Strax nýbyrjað storð íklæddi
stakki hríða klökuðum
frosthæg yrja fjúka bræddi,
fraus á síðan jafnóðum

Snjóa-mesti vetur víða
var skammdegis undir sól
fé og hesta fólkið þýða
fóðra' á heyi varð um jól

...
Ókljúfandi fyrir fönnum
fólkið skreið oft meir en gekk
rénaði' um landið reisu önnum
ratað leiðir ekki fékk

Fram að góu miðri mundu
megn að þétta harðindin
frost og sjóar fast á dundu
fannst ei léttir nokkurt sinn

Þá kom bloti þótt ei yrði
þjóð til hlítar víða hvar,
eða þrot á baga byrði,
bjargar lítið eftir var

Hauðrið flísað háum klökum
herti fjánum bana sting
Grænlands ísa þykkum þökum
þiljuð ránin allt um kring

Halastjarna´ á hausti´ og vetri
heiðum farva´ um loftið rann
undan farna, Ísa-setri
aftur hvarf þá leið á hann.

Að hún muni - sem að sanna
sumir - slæmra nokkurn veg
olla hruni úrfellanna,
aðrir dæmi heldu en ég.

Sjóndeildar þá sokkin hringum
svo við brá í landi hér,
storma fari´ og stórrigningum
stans varð á en loftin ber.

Þurðaði oftar þoku dimmri
þegar leið á veturinn,
heiðríkt loft með hörku grimmri
herti neyð og jarðbönnin.

Fanna´ ógrynnis feld sambarðan
Fróns- og hrannar vor-sólin,
þótt um rinni´í heiði harðan,
heit ei vann á kulfenginn.

...
Vægð úr páskum veittist engi,
viðraði líkt á sumar kalt;
stóð í háska mestum mengi,
mundi slíkt gjörfella allt.

Á nörður jaðri og austur undir
ísa-klökum mest var láð,
annarstaðar meira mundi
mýkja jökul sólarbráð.

...
Fáar tíðir við þó varði
veður blíðan góð og hlý;
feikna gríðar hamur harði
hörku stríður reis á ný.

...
Um fardaga yfirlysti
aftur hríðum, frosti, snjó,
feikna baga fólkið gisti
fé enn víða niður sló.

Suður geima síðan vindar
sunnu treystir vörmum yl
yfir sveima elju rindar
ísa leystu vetrar þil.

Ofsa flóðum upp þá hleypti
undir slétta landið sökk
saurgar móður særinn gleypti
soltinn skvettu, galt ei þökk.

Frostin stemmdu heljar hörðu
hafin flóð með strauma sköll,
vunnu skemmdir votri jörðu;
vetrar stóðu´ í gaddi fjöll.

...
Keyrðu´ úr hófi köst fardaga,
kjör hin mestu auðnum banns:
hríða kófið hundadaga
hér eitt versta norðanlands.

Við hjálpar annir heftist öldin,
hörkum þróað vinda skvak,
gleyptu fannir grasa tjöldin,
grimmdar snjóa niður rak.

Nokkrir fóru´ af neyð úr tjöldum,
náðu bæjum þeir um síð,
aðrir vóru í þeim köldum
uns að lægja gjörði hríð.

...
Alltaf viðr öllu hægra
annarstaðar tíðin lét;
ekkert syðra, vestra vægra
var til skaða þetta hret.

...
Hefur syðra vor og vetur
verið hryðju-minni þar
einnig viðrað öllu betur
allt á liðið mitt-sumar.

Regnföll þá steyptust stórum
strauma vöktu rennslin hörð;
stund fjöll af ægis órum,
undan hröktu bleytta jörð.

Þaut af storði þoku svæla,
þám óhreina´ úr lofti dró;
hér fyrir norðan sumar sæla
sönn fram skein með ágústó.

...
Veðurfar þá stilltist stríða,
stóran trega sem að jók;
úthagar og engið víða
æskilega við sér tók

Hægðu skammvinnt heilla tíðir,
heyja iðjur tepptu´ á ný;
otuðu fram sér frost og hríðir
frekt í miðjum septembrí.

...
Sælulítið sumar varði
síðan regn og krapar út
veturinn hvítur gekk að garði
gyrtur megnum fanna strút.

...
Bar að sólir betri tíða
batna´ og hlána þjóðin fann
undir jólaföstu fríða
fór að skána veðráttan

Fjær þá rýma fjúk og þoka
fjár og hesta bætti vörð;
úr þeim tíma árs til loka
allra besta tíð og jörð.

Jón Hjaltalín:

Heyskap eigi góðan gaf,
gleði naðurs lóðum af
lítið nýting laga vann
liðinn þjóðar baga þann.

Haust gaf traustum Hindólfsbúk
himinstrauma vind og fjúk,
hægð sem vægðar hylli bjó,
hér og var á milli þó.

Lýkur hér samantekt hungurdiska um árið 1812. Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta úr Árbókum Espólíns. Smávegis af tölulegum upplýsingum er í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 26
  • Sl. sólarhring: 68
  • Sl. viku: 424
  • Frá upphafi: 2343337

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 382
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband