Bloggfærslur mánaðarins, desember 2022
28.12.2022 | 21:24
Fremur hlýtt ár (kaldur desember)
Þótt nú lifi þrír dagar af árinu reiknar ritstjóri hungurdiska meðalhita ársins í byggðum landsins (sér til hugarhægðar). Hann verður nærri 4,2 stigum, +0,1 stigi ofan meðallags áranna 1991 til 2020 (en +1,0 stigi ofan meðallags 1961-1990).
Myndin sýnir reiknaðan meðalhita frá ári til árs (ásamt 10-ára keðjumeðaltali) aftur til ársins 1874 (en eldri meðaltöl eru harla óviss). Við sjáum að árið í ár getur talist í hlýja hópnum sem tók völdin um aldamótin síðustu - og ekki mjög mörg ár á 20. öldinni voru hlýrri en þetta - og enn færri á 19.öld. Þessi fortíð öll segir ekkert um framtíðina - þótt við reiknum hlýnun upp á +1,1 stig á öld.
Heildardesembermyndin er ekki ósvipuð (leitnin sú sama), en aftur á móti var desember nú óvenjukaldur - við vitum ekki enn hvar hann lendir í röðinni, en alla vega nokkuð ljóst að við þurfum að fara aftur til desember 1973 til að finna kaldari. Mjög litlu munar á desember nú og sama mánuði 1974, og desember 2011 er ekki langt undan (þó ívið hlýrri). Svipað var líka 1936, og síðan eru nokkrir desembermánuðir fyrr á öldinni sem eru kaldari, þar á meðal 1916 og 1917. Hinum fyrrnefnda fylgdi hlýr janúar 1917, en gríðarkaldur janúar 1918 elti hinn kalda desember 1917. Langkaldastur er hins vegar desember 1880 - undanfari kaldasta vetrar sem við vitum um.
24.12.2022 | 15:55
Köld háloftalægð
Nú, á aðfangadag jóla er mjög köld háloftalægð að ganga til suðurs skammt fyrir vestan land. Henni fylgja dimmir snjókomubakkar, orðnir til yfir hlýjum sjó sem kyndir undir djúpri veltu í veðrahvolfinu öllu. Leið lægðarinnar liggur þannig að mestur vindur virðist lítt eiga að ná inn á land.
Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir kl.18 í dag og sýnir hæð 500 hPa-flatarins, hita í honum og vind (hefðbundnar vindörvar). Fjólubláir litir sýna meira en -42 stiga frost og sá dekkri meir en -44 stiga frost. [Ef menn vilja má með góðum vilja sjá jólasvein í mynstrinu] Um hádegi í dag var frostið yfir Keflavíkurflugvelli um -38 stig - og gæti farið niður í -42 til -43 stig í nótt eða á morgun. Desembermetið er -48 stig (frá 1973). Ritstjóranum sýnist að frost hafi síðast farið í meir en -45 stig í 500 hPa-fletinum í desember árið 2010 - þá rétt fyrir jól - og er staðan nú ekki svo ólík stöðunni þá (sjá t.d. hungurdiskapistla frá þeim tíma). Það kuldakast stóð hins vegar ekki í nema rúma viku.
Svo virðist sem spár geri nú ráð fyrir enn einu köldu háloftalægðardragi með snjókomubökkum snemma á þriðjudag. Þeir sem eru á ferð ættu að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar.
Gleðileg jól.
22.12.2022 | 21:33
Ekki lát á kuldatíð
Svo virðist sem ekkert lát sé á kuldatíðinni, staðan nokkuð læst. Norðvestanátt er ríkjandi í háloftum. Með henni berst hvert kuldalægðardragið á fætur öðru yfir Grænland, en þau draga síðan á eftir sér slóða af köldu lofti langt úr norðri meðfram Norðaustur-Grænlandi og í átt til okkar. Ákveðin óvissa er í spám þegar þessi drög fara hjá. Margt kemur þar til. Grænland aflagar vindáttir í mestöllu veðrahvolfinu - en stíflar jafnframt fyrir loft beint úr vestri eða norðvestri. Síðan er birgðastaða kulda við Norðaustur-Grænland nokkuð misjöfn frá degi til dags.
Um síðustu helgi tókst lægðardragi vel upp í úrkomumyndun. Það sauð á kalda loftinu yfir hlýjum sjónum, það drakk í sig raka sem það síðan gat skilað sér aftur niður sem snjókoma á Suðvesturlandi. Úrstreymi í efri lögum varð til þess að uppstreymið gat náð hátt í loft og komist undan til austurs í lofti. Síðan gerðist það að lægð vestur af Bretlandseyjum var að reyna að koma hingað hlýju lofti úr austri á sama tíma (sem olli skriðuföllum og snjóflóðum í Færeyjum). Árekstur varð á milli kalda loftsins (sem þá hafði skilað megninu af úrkomunni aftur frá sér) og þess hlýja - og úr varð mikið norðaustanhvassviðri sem reif upp mestallan þann snjó sem fallið hafði, bjó til ógurlegt kóf og barði hann í skafla - alls staðar þar sem vindur var hægari en annars, t.d. á hringtorgum og við leiðara í vegköntum. Beinlínis undravert hversu mikið efnismagn er hér á hreyfingu. Hættulegar aðstæður.
Í dag (fimmtudaginn 22. desember) hefur slaknað á og morgundagurinn virðist ætla að verða svipaður. Eitthvað snjóar þó í hafáttinni á Norður- og Austurlandi. En nú er annað lægðardrag að koma úr norðri og norðvestri.
Kortið sýnir stöðuna á norðurhveli, eins og evrópureiknimiðstöðin vill hafa hana síðdegis á morgun, Þorláksmessu. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af henni ráðum við vindhraða og stefnu í miðju veðrahvolfi. Litir sýna þykkt, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er, því kaldara er loftið. Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Þykktin yfir miðju landi er um 5100 metrar, um 120 metrum lægri en að meðallagi. Það þýðir að hiti er um 6 stigum neðan meðaltalsins. Talsvert kaldara er norðurundan - og sá kuldi sækir heldur að í kjölfar lægðardragsins - sem þarna er ekki fjarri Scoresbysundi á suðurleið. Örin bendir á lægðardragið. Þegar kalda loftið kemur yfir hlýjan sjó myndast strax éljaklakkar (svipað og skúraklakkar yfir hlýju landi síðdegis að sumarlagi). klakkarnir raða sér oft í samfellda garða - séu vindáttarbreytingar (vindsniði) með hæð hagstæðar verður uppstreymið og úrkomumyndunin auðveldari og skipulegri. Þá vex vindur sem auðveldar uppgufun. Allt þetta er háð ýmsum smáatriðum, t.d. getur kalt, grunnstætt loft yfir landinu - og fjöll þess flækst fyrir. Margar ástæðar til þess að jafnvel hin bestu veðurlíkön eiga ekki alveg létt með að benda á hvar og hvenær úrkoma fellur.
Þegar litið er á kortið í heild má sjá að vestanáttahringrásin um norðurhvelið er talsvert trufluð. Sérstaka athygli vekur mjög hlý hæð norður af Síberíu. Hún tekur talsvert rými - og ekki getur kalda loftið verið þar á meðan. Hæðin fer að vísu minnkandi næstu daga - loftið í henni kólnar, en hún flækist samt fyrir þar til tekst að hreinsa leifarnar burt. Mjög snöggt kuldakast leggst nú suður yfir mestöll Bandaríkin - austan Klettafjalla og veldur ábyggilega miklum vandræðum. Það er víðar en hér sem flugfarþegar lenda í vanda og umferð á vegum lendir í steik - slíkt er þrátt fyrir allt nær óhjákvæmilegur hluti veðráttunnar - gerist endrum og sinnum á hverjum einasta bletti jarðarkringlunnar - þótt ýmislegt sé e.t.v. hægt að gera varðandi afleiðingarnar.
Efnislega virðast ekki eiga að verða miklar breytingar næstu viku til tíu daga í nánd við okkur. Þeir sem leggja í ferðalög eiga auðvitað að fylgjast mjög náið með veðurspám - við skilyrði sem þessi er nákvæmni þeirra marga daga fram í tímann mjög ábótavant. Veðurstofan gerir veðurspár (en ritstjóri hungurdiska ekki). Það skapar svo aukna óvissu að ratsjá Veðurstofunnar á Miðnesheiði virðist í lamasessi - og háloftaathuganir hafa ekki sést frá Keflavíkurflugvelli í meir en viku - hvort tveggja auðvitað algjörlega óviðunandi fyrir þá sem eru að berjast við að gera sem bestar og öruggastar veðurspár. - Ritstjóri hungurdiska hefði einhvern tíma orðið meiriháttarpirraður í þessari stöðu - en hann liggur nú gamall og blauður í sínu fleti og rausar út í loftið - kemur þetta víst ekki við lengur.
En ljúkum þessu með því að líta á úrkomuspá evrópureiknimiðstöðvarinnar kl.18 á aðfangadag jóla.
Svo virðist nú sem háloftalægðardragið ætli að gangsetja tvær smálægðir seint á Þorláksmessu. Aðra úti af Vestfjörðum, en hina fyrir norðaustan land. Úrkomubakkar hrings sig um báðar þessar lægðir. Sú fyrir norðan hreyfist til suðvesturs í stefnu á Vestfirði, en hin til suðaustur rétt fyrir suðvestan land. Auk þessa er úrkomubakkinn sem sést á kortinu yfir Suðurlandi nokkuð sjálfstæð myndun. Hans á að byrja að gæta þar um slóðir seint annað kvöld - spurning síðan hvort lægðin suðvesturundan grípur hann upp. Úrkomuóvissa er mest í kringum þennan sjálfstæða bakka - fylgjast ber vel með honum (en ratsjárbilunin gerir að mun erfiðara). Sé þessi spá rétt verður vindur mestur á miðunum - en minni á landi. Allur er þó varinn góður í þeim efnum, því ekki þarf mikinn vind til að búa til kóf úr nýjum snjó sem fellur í miklu frosti.
22.12.2022 | 11:00
Fyrstu þrjár viku desembermánaðar
20.12.2022 | 21:55
Af hitasveiflum og hitamun
Aðfaranótt 19. desember fór hiti í Víðidal ofan Reykjavíkur niður í -22,8°C. Þetta er óvenjuleg tala á höfuðborgarsvæðinu, sú lægsta sem við vitum um í desember. Á móti kemur að stöðin hefur ekki verið starfrækt nema í nokkur ár, og þar hafa áður sést mjög lágar tölur. Mjög mikið frost mældist líka á nýrri stöð í Fossvogsdal (Kópavogsmegin), -19,7 stig. Lægst fór hiti á Veðurstofutúni -12,3 stig.
Blái ferillinn á línuritinu sýnir meðalhita á höfuðborgarsvæðinu dagana 16. til 20. desember, frá klukkustund til klukkustundar. Mjög kalt var þann 16., um morguninn fór meðalhitinn niður fyrir -10 stig. Það gerði hann aftur að kvöldi þess 18. og aðfaranótt 19. Þá varð meðalhitinn lægstur. Rauði ferillinn (hægri kvarði) sýnir staðalvik hitans, mælikvarða á breytileika hans frá einum stað til annars. Við sjáum vel að lengst af er staðalvikið um eða innan við 1 stig, og í hvassviðrinu undanfarinn sólarhring aðeins um 0,5 stig. Þetta sýnir að loft er vel blandað, litlu máli skiptir hvar við erum stödd.
Köldu kaflarnir þann 16. og 18. til 19. skera sig úr. Þá detta nokkrar stöðvar alveg úr sambandi við annað, þær lifa í eigin heimi. Vindur er mjög hægur, yfirborð jarðar og loftið næst því kólnar mjög ört. Í síðara tilvikinu var kominn snjór. Við vitum ekki hversu langt er upp úr þessum kulda, sennilega ekki nema nokkrir metrar, í mesta lagi fáeinir tugir.
Næsta mynd sýnir hita á 10-mínútna fresti við Veðurstofuna (blár ferill) og í Víðidal (rauður ferill) þann 18. og 19. desember (strik eru á 3 klst fresti). Það kólnar ákveðið á báðum stöðum en undir hádegi fer hiti að falla mun hraðar í Víðidal heldur en við Veðurstofuna. Um kl.18 er munurinn orðinn 5 til 6 stig. Þá hreyfir vind lítillega og hitinn hækkar á báðum stöðum, nærri 2 stig við Veðurstofuna, en 6 stig í Víðidal. Einhver blöndun við hlýrra loft ofan við á sér stað. Við Veðurstofuna kólnaði síðan þar til um kl.21, en kólnunin hélt áfram í Víðidal, allt fram til um kl.3 um nóttina. Fór þá niður í töluna áðurnefndu, -22,8 stig. Við Veðurstofuna fór að hlýna aftur upp úr kl.1, en ekkert hreyfði við kuldapollinum í Víðidal fyrr en kl. rúmlega þrjú. Þá hækkaði hiti um 6,8 stig á 10 mínútum og 13,3 stig á klukkustund. Eftir það fylgjast ferlarnir meira og minna að, munar aðeins ríflegum hæðarmun staðanna tveggja.
En austur í Öræfum átti líka sér stað skrýtinn atburður. Rauði ferillinn á myndinni sýnir hitann við Veðurstofuna, en sá blái hita á veðurstöð Vegagerðarinnar í Öræfum. Eftirtekt vekur hversu órólegur hann er - enda var lengst af ofsaveður eða fárviðri á staðnum. Loft hingað og þangað að - að ofan og til hliðar hefur borist að stöðinni. Rétt eftir miðnætti rýkur hitinn upp í 12,8 stig - og er þó nokkurn tíma eftir það yfir 7 stigum. Getur þetta verið rétt? Það nánast víst að þessi hiti hefði aldrei mælst á kvikasilfursmæli í hefðbundnu skýli, en vel má vera að hér hafi einfaldlega verið loft langt að ofan að kitla mælinn í mikilli vindhviðu. Skemmtilegt alla vega.
19.12.2022 | 21:17
Hugsað til ársins 1972
Tíð var almennt hagstæð fyrri hluta árs, en síðan óhagstæðari. Úrkoma vel yfir meðallagi. Hlýtt var í veðri (að þeirra tíma mælikvarða), töluverð viðbrigði frá kulda hafísáranna svonefndu rétt á undan. Árið byrjaði með óvenjulegum hlýindum sem stóðu óslitið í rúman hálfan mánuð. Þá tók við mikil umhleypingatíð og varð síðari hluti janúar nokkuð erfiður. Allir mánuðirnir febrúar til maí töldust hagstæðir til landsins, en gæftir voru stopular, sérstaklega í febrúar og mars. Mikil vatnsveður gerði í febrúar, sérstaklega kringum þann 20. og fáein illviðri gerði líka í mars, en almennt var þó fremur hlýtt í veðri. Jörð fór að grænka í febrúar, í apríl fór gróðri vel fram og í maí töldu menn gróður með besta móti.
Harla úrkomusamt var í júní, sérstaklega norðanlands og í júlí og ágúst gengu rigningar á Suður- og Vesturlandi, jafnvel illviðri. Nokkurra daga þurrkakafli snemma í ágúst bjargaði sumum. Skárri tíð var þá um landið norðaustanvert. Tíð var talin hagstæð í september þótt nokkuð væri úrkomusamt. Slæmt hret gerði þó snemma í mánuðinum. Október var umhleypingasamur, en tíð talin hagstæð á Norðaustur- og Austurlandi. Undir lok mánaðarins gerði eftirminnilegt ísingarveður. Í nóvember var hins vegar sérlega snjóþungt á Norður- og Austurlandi, en talin sæmilega hagstæð tíð syðra. Þann 23. mældist snjódýpt 155 cm á Sandhaugum í Bárðardal og hefur aldrei mælst jafnmikil eða meiri í nóvember hér á landi. Desember var illviðrasamur og mjög snjóþungt var á Norðaustur- og Austurlandi. Þó var ekki kalt.
Að vanda rennum við í gegnum árið með hjálp blaðafregna, veðurathugana og korta. Pistlar úr dagblaðinu Tímanum verða oftast fyrir valinu. Á þessum árum flutti það blað hvað reglulegastar fréttir af veðri - textar eru sleiktir af timarit.is, lagfærðir eftir því sem þörf var á - og alloft styttir (stundum án þess að þess sé getið), vonandi að höfundar sætti sig við þá meðferð - en þeim er alla vega þakkað. Veðráttan, tímarit Veðurstofu Íslands kemur að sjálfsögðu einnig við sögu - oft án þess að þeirrar heimildar sé getið sérstaklega. Í viðhenginu má (eins og venjulega) finna mikla talnasúpu, meðalhita, heildarúrkomu og fjölmargar aðrar upplýsingar.
Mikil breyting varð í veðri um jólin 1971. Fyrir þann tíma hafði verið nokkuð kalt og snjóþungt, en um jólin gekk til eindreginna suðlægra átta með miklum hlýindum og vatnavöxtum. Fyrstu daga ársins voru nokkrar fréttir af þeim í blöðum.
Tíminn segir af flóðum og fleira 4. janúar 1972:
Vegagerðin var í gær og dag önnum kafin við að lagfæra vegi víða á Vesturlandi og Vestfjörðum, en þeir skemmdust talsvert vegna þess vatnsveðurs sem geisaði í þessum landshlutum aðfaranótt gamlársdags og á gamlársdag. Í Borgarfirði rofnuðu vegir á fimm stöðum, en þar var mikið vatnsflóð. Í kvöld [3. janúar] voru vegir þar aftur orðnir færir, og reiknað var með að bráðabirgðaviðgerðum á vegum annars staðar yrði að mestu lokið í kvöld. Mestu flóðin urðu í neðanverðum Borgarfirði, og munu þau vera þau mestu sem menn þar um slóðir muna eftir. Bjarnardalsá flæddi yfir Vesturlandsveg í Dalsmynni, og kom þar töluvert skarð í veginn. Var ekki búið að gera við þá skemmd í kvöld, en kemur ekki að mikilli sök, þar sem hægt er að fara annan veg. Vesturlandsvegur við Ferjukot lokaðist algjörlega á gamlársdag, svo og á Hvítárvöllum. Mun bráðabirgðaviðgerðum á þessum stöðum hafa lokið í dag. Ennfremur kom mikið skarð í syðri veginn í Lundareykjadal. Þá flæddi Reykjadalsá í Miðdölum yfir bakka sína og myndaði skarð í veginn þar. Sagði Hjörleifur Ólafsson hjá Vegagerðinni, að þar hefði veri0 gert við í gær. Víðar í Dalasýslu urðu einhverjar vegaskemmdir og eins út á Snæfellsnesi en vegirnir urðu færir á ný í dag. Að sjálfssögðu er hér um algjörar bráðabirgðaviðgerðir að ræða. Á Vestfjörðum urðu einnig talsverðar vegaskemmdir vegna vatnsflóða og skriðufalla. Skemmdirnar urðu einkum í Dýrafirði, ... Í dag var verið að moka af veginum til Súgandafjarðar, en hann hefur verið lokaður í hálfan annan mánuð og í dag átti að moka í Önundarfjörð. Hjörleifur Ólafsson sagði, að vegir um Norðurland, Austurland og Suðurland væru með besta móti.
SB-Reykjavik, mánudag. Fjögurra lesta bjarg losnaði úr fjallinu fyrir ofan Bíldudal á fimmtudagsmorguninn [30. desember] og valt með miklum undirgangi um 700800 metra niður snarbratta hlíðina, uns það staðnæmdist uppi í rúmi í einu af efstu húsunum í þorpinu. Eigandi rúmsins, Páll Kristjánsson, vélstjóri, var staddur í eldhúsi sínu ,er hann heyrði undirganginn sem hann vissi ekki strax af hverju stafaði. Kom þá bjargið æðandi inn um útidyrnar, síðan svefnherbergisdyrnar og upp í rúmið, sem brotnaði í spón undan þessum óboðna gesti. Sem dæmi um kastið á bjarginu má geta þess, að skammt fyrir ofan hús Páls, er vegur og eru girðingar beggja vegna vegarins. Bjargið tók undir sig mikið stökk ofan við efri girðinguna og kom síðan aftur niður neðan við neðri girðinguna. Annað minna bjarg losnaði samtímis, en það fór aðra leið niður og staðnæmdist á túni við fjárhús nokkur, án þess að gera nokkurn usla. Hús Páls er hins vegar stórskemmt eftir þessa gestkomu, mikið brotið úr veggjum víð dyrnar og innganginn.
PÞSandhóli, mánudag. Ölfusá var með áramótaglettur við nábúa sína í Ölfusinu um þessi áramót. Í hlýindunum og úrfellinu, sem gengið hefur landið undanfarna daga hefur áin aukist mikið, og á gamlárskvöld sprengdi hún af sér öll klakabönd, en við þær hamfarir myndaðist klakastífla milli Arnarbælishverfis og Kaldaðarness. Við þetta breytti áin um farveg og rann á milli Auðsholts og Arnarbælishverfis. Magnús Gíslason bóndi að Auðsholti sagði, að seint á gamlárskvöld hefði áin stíflast og rann hún fyrst á eftir undir ísinn á Auðsholtsveitunni, sem er engi á milli þessara bæja, og lyfti ísnum upp í heilu lagi, hátt á annan metra. Augnabliki síðar var hún búin að sópa öllum ís burtu svo og nokkrum símastaurum og línum. Brúin á Sandá brotnaði við jakaburðinn og er því vegasambandslaust við Arnarbælishverfið. Þarf vart að taka fram, hverjir erfiðleikar eru því samfara. Ekki fer hjá því, að brúa verður ána strax aftur. Rafmagnslínan hangir enn uppi, sem betur fer, en hún er þó nokkuð löskuð. Á annan í nýári gróf áin sig svo í gegn um klakastífluna og rennur nú í sínum gamla farvegi á ný.
Vísir segir einnig af flóðunum í pistli 3.janúar:
Hundruð þúsunda tjón varð vegna flóða og vegaskemmda á vestanverðu landinu um áramótin. Tjónið varð mest í Borgarfirði. Í neðanverðum Borgarfirði urðu ein mestu flóð, sem menn muna þar um slóðir. Aðfaranótt gamlársdags rigndi mikið og var hlýtt og vatnavextir á öllu landinu. Hvítá flæddi yfir bakka sína og lokaðist Vesturlandsvegur fyrir vestan Ferjukot og á Hvítárvöllum. Urðu bílar að fara upp Borgarfjörðinn til að komast fyrir þann farartálma. Bjarnadalsá flæddi yfir Vesturlandsveg í Dalsmynni í Norðurárdal. Rann fylling frá brúnni þar og er ekki Ljóst enn hvort hún er löskuð. Töluvert skarð kom þar í veginn, sem ekki er farið að eiga við ennþá samkvæmt upplýsingum Hjörleifs Ólafssonar á Vegamálaskrifstofunni. Þá fór fylling á Vesturlandsvegi við Reykjadalsá í Miðdölum, Dalasýslu. Í uppsveitum Borgarfjarðar sópaðist vegurinn burt fyrir neðan Skorradalsvatn og stíflan í vatninu bilaði. Þegar flóðið varð í Hvítá var stórstraumsflæði og fyllur í sjónum þannig að vatnið náði ekki framrás.
Það er ekkert gaman í flóðum, sagði Þórdís Fjeldsted húsfreyjan í Ferjukoti í viðtali við Vísi í morgun. Húsið hér er gamalt og stendur nærri ánni og vatnið rennur inn í kjallarann. Við verðum hér eins og á eyju en vatnið fellur beggja megin við, og maður kemst hvorki fram né aftur. ... SB
Vísir segir þann 4.janúar frá stíflubrotinu við Skorradalsvatn:
Lokið hefur verið til bráðabirgða viðgerðum á meginvegum í Borgarfirði eftir flóðin þar um áramótin, nema þar sem vatnselgurinn hefur rofið stór skörð í vegi. Þannig hafði flóðið brotið skarð í stífluna vestast í Skorradalsvatni, og rifið með sér 50 metra langan vegarspotta á milli brúnna tveggja, þar sem Andakílsá rennur úr vatninu. Það var ekki svo mikið, sem steinn eftir af vegarstæðinu, þegar ljósmyndari Vísis kom að brúnum, þar sem Dragavegur hafði legið yfir Andakílsá. Brúarendarnir sköguðu út í ána eins og bryggjusporðar, og rennandi vatnið á milli. Það er stuðlað að því að lækka vatnsborðið, svo að viðgerðum verði komið við, sögðu tveir starfsmenn Andakílsárvirkjunar, sem þarna voru staddir í gær að hirða nýlegt brak úr ísvörnum stíflugáttarinnar. Þá hafði vatnsborðið lækkað svo mikið, að það var komið 50 cm niður fyrir venjulegt mark á mælikvarða á annarri brúnni.
Veðurlagsbreytingin um jólin og áramótin 1971/72 var ein af þessum afgerandi. Hafísárunum var lokið - og annað veðurlag tók við. Þetta nýja tímabil var auðvitað með ýmsu móti, en veðurreyndin varð allt önnur en á hafísárunum. Skortur varð ekki lengur á vestlægum áttum á vetrum, en norðanáttum fækkaði.
Næstu ár á undan hafði Páll Bergþórsson veðurfræðingur gert spár um hafís við landið. Þessar spár höfðu gengið mjög vel, en nú varð breyting á. Spáin gerði ráð fyrir umtalsverðum ís, en nær enginn kom. Að sjálfsögðu hafði Páll ætíð fyrirvara á spám sínum. Vísir birti þann 4. janúar spá hans um árið 1972 undir fyrirsögninni Ísavetur og svalt sumar - spáir Páll Bergþórsson. Það er fróðleg lesning (en við styttum hana nokkuð).
Hvernig munu veðurguðirnir koma fram við okkur íslendinga á því herrans ári 1972? Það tjóar víst lítið að fara beint framan að þeim merku guðum og spyrja hreint út en við röbbuðum við einn samstarfsmanna guðanna, Pál Bergþórsson, um horfur og útlit, því að hann kann að ráða í táknmál veðurguða. ...
Ég gerði spá um hafís hér við land fyrir 1972 í byrjun desember s.l. sagði Páll, og þá voru horfur á miklum hafís við Norður- og Austurland. Hér sunnanlands þarf ekki að verða eins kalt . . . enn er engin sönnun komin fram um áreiðanleik spárinnar, nema það, að mikill ís er nú við Jan Mayen. Spáin mín fyrir 1972 er fjórða ísspáin sem ég geri, sagði Páll ég spáði því fyrir 1969 að ís yrði við land í 36 mánuði. Mánuðirnir urðu 5, þannig að sú spá stóðst vel. Fyrir 1970 spáði ég ís í 13 mánuði, en þeir urðu rúmir tveir. í fyrra, þ.e. fyrir 1971, bjóst ég við ís í um einn mánuð, en ísinn var við land í rúma tvo mánuði. Ístímabilið öllu lengra en ég spáði, en á móti kom að ísinn var heldur óverulegur, auk þess var búist við að veðrið yrði í mildara lagi sem kom líka fram. Þetta var gott ár, þótt ekki væri hlýtt miðað við góðu árin frá 1931 til 1960. Síðastliðið ár var kaldara en í meðallagi. Þú ert þá kannski vissari nú en áður um áreiðanleik ísspárinnar fyrir 1972? Það er síður en svo að ég sé viss, og vitanlega getur spáin brugðist. Hvenær býstu við að íss fari að gæta við landið núna? Mér þætti líklegt að íss færi að gæta í janúar mér finnst það raunar fjarska líklegt annað ólíklegt. Og ég held að ís verði í ár síst minni við Norðausturlandið en við Vestfirði. Ég býst hins vegar við að við fáum eitthvað nánari mynd af þessu þegar fram í janúar kemur. Hafrannsóknastofnunin ætlar seinna í mánuðinum að senda leiðangur út á hafið milli íslands og Jan Mayen, og kann að vera að nánari upplýsingar fáist að þeim leiðangri loknum. Þær upplýsingar verða þá fengnar af mælingum í sjónum hitastigi sjávarins og seltumagni. Verður kalt fyrir norðan og austan en hlýtt fyrir sunnan? Ef mikill ís verður fyrir norðan og austan þarf það að hafa mjög mikil áhrif á Suður- og Vesturlandi? Nei áhrifin hingað suður eftir þurfa ekki að verða svo mjög mikil. Annars býst ég við að sumarið verði almennt heldur í sólríkara lagi, og þannig ætti sólskinið að bæta fó1ki kuldann töluvert upp, þ.e. þeim sem útivist vilja stunda. Hins vegar mun sólfarið ekki nægja til að bæta upp það tjón sem kuldinn vinnur gróðri, heyöflun o.þ.h. Það er mitt álit að vetrarkuldar séu mjög þýðingarmiklir fyrir heyfenginn. Síðasta sumar var t.d sérlega hagstætt hvað heyfeng snertir, en veturinn á undan var líka mildur Þannig býst ég við minni heyfeng nú í sumar en var í fyrra. Annars er það nú svo með þessa hitaspá að hún er áreiðanlegri fyrir norðan og austan, við hér fyrir sunnan erum ekki eins háðir þessum ísáhrifum, og fyrir heyfenginn á landinu skiptir veðráttan hér fyrir sunnan mestu máli. Hér er mest grasið og umfangsmestur búskapur. - GG
Eins og áður sagði var fyrri hluti janúarmánaðar afskaplega mildur, suðaustlægar og austlægar áttir ríkjandi og oftast meinhægt veður. Þann 19. varð afgerandi breyting. Kalt loft úr vestri náði þá snögglega til landsins. Snemma þennan morgun mætti ritstjóri hungurdiska þessu vestræna lofti á leið til Keflavíkur í flugvallarbílnum. Krapaél skall snögglega á bílinn. Síðan var haldið til Noregs. Þótti ritstjóranum miður að missa af veðurfjörinu næstu daga. Tíminn segir frá 20.janúar:
OÓ-Reykjavík, miðvikudag. Mikið snjóaði á Vestur- og Suðurlandi í dag og urðu víða umferðartafir vegna fannfergis og hríðarveðurs. Annars staðar á landinu var ástandið betra, en lausamjöll lá yfir nær alls staðar og hætta á að vegir lokuðust, ef vind hreyfði og skaflar mynduðust. Í Reykjavík og nágrenni urðu miklar umferðartruflanir, ... Keflavíkurvegurinn var þungfær um tíma. Þar voru margir heflar notaðir til að halda veginum opnum. Það sem einkum bagaði var hve margir bílar lentu þversum á veginum og tafði það mikið fyrir snjóruðningstækjunum.
Hér má sjá suðaustanáttina hlýju hörfa fyrir köldu lofti úr vestri. Einnig er á kortinu vaxandi lægð austan við Nýfundnaland. Hún stefndi í átt til Bretlandseyja, dýpkaði mjög ört og tók síðan krappa beygju til norðurs og fór rétt við Austfirði þann 19. (kort hér fyrir neðan). Þrýstingur fór niður í 943,5 hPa á Dalatanga um hádegið, en gæti hafa farið neðar. Lægðin olli bæði hvassviðri og sjávargangi eystra, einhverjum þeim mesta sem ritstjórinn man eftir að hafa heyrt um á Breiðdalsvík. Mjög athyglisvert veður. Þann 23. fór önnur lægð, ámóta djúp svipaða leið, en þó austar (annað kort hér neðar), þannig að hvassviðri hennar gætti ekki eins mikið hér á landi og Austfirðir sluppu við sjávaráhlaðanda, aftur á móti olli hún hríðarveðri um landið norðaustanvert.
Kortið sýnir lægðina kröppu við Austfirði þann 19. Tíminn segir af tjóni eystra í frétt þann 20. janúar:
ÞÓ-Reykjavík, miðvikudag. Miklar skemmdir urðu víða á Austfjörðum í foráttu brimi, sem þar var í nótt. Hafátt hefur verið ríkjandi fyrir austan alllengi og á stórstraumsflóðinu í nótt þyngdi sjó mikið, og gekk langt á land upp. Ekki fylgdi þessu brimi neitt rok, en sumstaðar var allhvasst. Að sögn kunnugra manna á Austurlandi hefur slíkt brim ekki komið síðan 1930 og sömu menn segja, að ef illviðri hefði geisað með brimrótinu í nótt, hefðu skemmdir af völdum þess vafalaust orðið miklu meiri. Á Höfn í Hornafirði flæddi sjór inn í kjallara fiskverkunarhúsa og trillur og nótabátar, sem stóðu á þurru landi, tók á flot í flóðinu. Á Breiðdalsvík rauf sjórinn 56 metra skarð í nýja hafnarbakkann á staðnum og sjór flæddi inn í síldarverksmiðjuna og hefur hann vafalaust skemmt rafmótora, sem þar voru. Á Stöðvarfirði braut sjórinn rúður og hurðir í frystihúsinu og til að komast um borð um bát, sem lá við bryggju, þurftu menn að nota 9 tonna jarðýtu, öðrum farartækjum hefði skolað burtu vegna sjógangs. Í Neskaupstað hurfu tvær trillur með öllu, ein til brotnaði í spón og aðra tók út en rak á land aftur.
Mikið austan hvassviðri var í Neskaupstað í nótt, og fylgdi því foráttubrim. Brimið mun hafa tekið báða bátana út, sem hurfu og hafa menn ekkert séð af þeim. Þá lögðust nokkrar trillur á hliðina og hafa menn verið að rétta þær við í morgun. Benedikt [Guttormsson] sagði, að ekkert annað tjón hefði hlotist í þessu brimi, en ef rokið hefði verið meira, þá hefði getað farið verr.
Björn Kristjánsson á Stöðvarfirði sagði, að þar hefði verið geysilegt brim í nótt og braut sjórinn 3 hurðir í frystihúsinu og að auki rúður í frystihúsinu og rafstöð, sem stendur á bryggjunni. Tvær hurðanna, sem brotnuðu voru venjulegar útihurðir, en sú þriðja var vængjahurð með slagbröndum fyrir. Sjórinn braut hurðirnar eins og ekkert væri, og þegar menn komu í fiskmóttökuna í morgun var um það bil 1 metra djúpur sjór á gólfinu og hafði sjórinn borið allskonar drasl með sér inn í húsið. Vélskipið Álftafell, sem er um 260 tonn að stærð, lá við bryggjuna á Stöðvarfirði og í sjóganginum fóru landfestarnar að slitna, en brimið var svo mikið að menn gátu ekki komist um borð með góðu móti. Var það tekið til bragðs að gangsetja níu tonna jarðýtu og fara með mannskap af Álftafellinu niður bryggjuna á jarðýtunni. Tókst það með ágætum og mennirnir komust heilu og höldnu um borð, en er mennirnir voru komnir um borð slitnaði önnur taugin af tveim, sem eftir voru og mátti það ekki tæpara standa, að báturinn slitnaði frá og ræki stjórnlaus. Þá braut brimið hurð á fjárhúsi, seim stendur á sjávarbakkanum á Stöðvarfirði og gekk hann inn í húsið. Kindurnar munu allar hafa sloppið heilar út. Björn sagði, að rokið hefði ekki verið mikið, heldur hefði þetta aðallega verið stormbrim, en ef veðurhæð hefði verið meiri, þá hefði getað verr farið.
Ingimar Pétursson, fréttaritari Tímans á Breiðdalsvík, sagði, að þar hefði komið 56 metra skarð í nýja hafnarbakkann og verkfæraskúr í eigu hafnargerðarinnar, sem stóð á bakkanum hvarf með öllum þeim verkfærum, sem í honum var. Þá flæddi mikill sjór inn í Síldarverksmiðjuna á Breiðdalsvík og fóru margir rafmagnsmótorar, sem þar eru í kaf í sjó. Er reiknað með, að allmikið tjón hafi orðið þar, þó svo að það sé ekki fullkannað. 12 tonna bátur, sem hafði verið dreginn á land, brotnaði mjög mikið og er talið að hann sé með öllu ónýtur. Sigmar sagði, að hann teldi, að skemmdir hefðu ekki orðið mjög miklar á hafnargarðinum, þar sem skarðið er ofansjávar. Nokkuð hvasst var á Breiðdalsvík og var hafátt búin að vera lengi. Að sögn Sigmars mun sjórinn hafa gengið 34 metrum hærra á land en í venjulegu stórstraumsflóði og að sögn kunnugra manna hefur brimrót, sem þetta ekki komið á Breiðdalsvík síðan 1930.
Aðalsteinn Aðalsteinsson á Höfn í Hornafirði, sagði að þar hefði orðið mjög mikið flóð í nótt, en aftur á móti var veðrið gott, þannig að ekki hlaust tjón af. Sjórinn stóð 1 metra hærra en í venjulegu stórstraumsflóði og við það flæddi yfir bryggjuna og inn í fiskhúskjallara í eigu Kaupfélagsins. Kjallarar þessir voru tómir, þannig að ekkert tjón hlaust af. Nótabátar og trillur sem stóðu þarna uppi á grandanum tóku á flot í flóðinu og ráku um höfnina, en náðust fljótt aftur, Aðalsteinn sagði, að bátar, sem lágu við bryggjuna hefðu tekið vel í festarnar enda lágu þeir óvanalega hátt. Mikill sjór var úti fyrir Hornafjarðarós og skip, sem ætlaði að koma inn varð að snúa frá.
Þórarinn Pálmason á Djúpavogi sagði, að þar á staðnum hefðu menn átt í mestu erfiðleikum með að hemja báta í höfninni og í fyllingunni og briminu sökk ein trilla og prammi brotnaði í spón þar sem hann stóð í fjörunni. Sjórinn braut upp hurð á rækjuverksmiðjunni og bar hann með sér grjót og möl yfir öll gólf þar, en ekki hlaust neitt annað tjón af í verksmiðjunni. Þá sagði Þórarinn, að vegurinn út í síldarverksmiðjuna væri horfinn á 75 metra kafla, þar bar sjórinn möl og grjót yfir. Þá flaut sjórinn umhverfis íbúðarhúsin, sem standa neðst í þorpinu. Báðar aðalbryggjur staðarins eru eitthvað skemmdar, en talið er að það séu ekki alvarlegar skemmdir. Tvær litlar bryggjur, voru verr útleiknar, brotnaði önnur mikið en hin hvarf algjörlega.
Morgunblaðið segir einnig af tjóni eystra í frétt þann 20.janúar:
Mikil flóð urðu á mörgum stöðum á Austfjörðum í fyrrinótt og ollu þau víða miklum skemmdum. Mikið lágþrýstisvæði var þar og stórstraumur og einnig álandsvindur, en þegar þetta þrennt fer saman hækkar jafnan mjög í sjó. Voru þetta mestu flóð í 40 ár, að sögn kunnugra manna. Veðurhæð var allmikil á sumum stöðum, en minni á öðrum, og var það ekki rokið, sem olli skemmdum, heldur fyrst og fremst flóðin og sjógangurinn. Morgunblaðið hafði samband við fréttaritaxa sína á þessum stöðum og fer frásögn þeirra hér á eftir.
Á Hornafirði varð allmikið tjón og gekk sjór yfir hluta Hafnarbrautar. Ekki urðu þó neinar skemmdir á húsum við götuna. Við höfnina skolaðist ýmislegt til og m.a. týndist nokkurt magn af timbri, sem stóð við höfnina. Sjór flæddi ofan í kjallara gamalla verbúða við gömlu höfnina, en ekki var vitað hversu miklu tjóni hann olli. Vegurinn að radarstöð varnarliðsins á Stokksnesi fór í sundur á kafla á svonefndu Affalli og miklar skemmdir urðu á veginum að auki. Fyrst í gærmorgun var farið yfir það skarð, sem kom í veginn, á gúmmíbáti, en síðan var strengur strengdur þar yfir og gátu menn haft stuðning af honum, er þeir fóru þar um á báti. Vonir standa til, að bráðabirgðaviðgerð verði lokið síðdegis í dag, en fullnaðarviðgerð mun taka langan tíma. Vegur þessi er einkum notaður af starfsmönnum radarstöðvarinnar.
Á Djúpavogi urðu einnig nokkrar vegaskemmdir, en mestan usla gerði flóðið í og við höfnina. Lítil trilla sökk við bryggju, gömul bryggja brotnaði og uppfylling við rækjuverksmiðjuna skemmdist mikið. Engar skemmdir urðu á íbúðarhúsum.
Á Breiðdalsvík urðu miklar skemmdir af völdum flóðs. Í síldarverksmiðju Braga hf. var 90 sentímetra djúpur sjór í gærmorgun og átta vélar og hluti af rafmagnstöflu verksmiðjunnar í kafi, auk ýmissa annarra hluta. Steypuefni til hafnargerðar, sem nota átti á komandi sumri, var geymt örskammt frá húsum verksmiðjunnar og hafði flóðið borið það að þeim, eyðilagt hurð á geymsluskemmu og aur og leðja komist inn, einkum í verksmiðjuhúsið. Nokkrar skemmdir urðu einnig á þaki þess. Ennfremur stórskemmdist grjótgarður, byggður 1970 sem upphaf að hafnarbótum í staðnum, svo og kerslippur, byggður 1971. Ekki er búið að kanna allar skemmdirnar, en tjón nemur vafalaust hundruðum þúsunda króna.
Á Stöðvarfirði gekk brimið á land og olli skemmdum á öllum húsunum á bakkanum. Braut það rúður og hurð frystihússins og færði grjót inn í vinnslusal og vélasal. Vélar frystihússins stöðvuðust, svo að frostlaust varð í klefum, og ekki var hægt að hefja vinnslu. Var unnið að því í gærmorgun að hreinsa og lagfæra húsið, Mikill sjór gekk yfir bryggju og komust menn ekki út í bátana við bryggjuna fyrr en í gærmorgun og fóru þá á jarðýtu út á bryggjuna. Færðu þeir bátana út á fjörðinn og biðu þar, uns veður gekk niður. Vegurinn við síldarverksmiðjuna Saxa eyðilagðist algjörlega af völdum brimsins. Þá braut brimið m.a. hurð á fjárhúsi, sem er á bakkanum, og fór allt féð út, en sakaði ekki. Ýmis önnur hús á bakkanum skemmdust og einnig urðu skemmdir á því, sem þar var innan dyra.
Á Fáskrúðsfirði voru margir bátar í hættu við bryggjuna, en enginn þeirra skemmdist. Nótabát tók út og rak hann yfir fjörðinn og endaði þar uppi í fjöru. Sjórinn bar grjót upp á Hafnarbraut, en engar skemmdir urðu á götunni. Ekki urðu neinar skemmdir á húsum á staðnum af völdum sjógangsins.
Á Reyðarfirði varð ekkert flóð, enda er fjörðurinn dýpstur Austfjarða. Hins vegar lenti einn báturinn frá Reyðarfirði Gunnar SU 139 í hrakningum sunnan við Langanes í fyrrakvöld og hafði fréttaritari Morgunblaðsins á Fáskrúðsfirði tal af stýrimanni bátsins Alfreð Steinari Rafnssyni eftir komuna til hafnar. Sagðist honum svo frá: Við vorum staddir sunnan við Langanes um 1/2 sjómílu frá landi í 67 vindstigum. Klukkan var þá um hálf tíu í fyrrakvöld. Fengum við þá á okkur brotsjó, svo að báturinn hallaðist um 6070 gráður. Við fengum annan sjó á okkur rétt á eftir, þannig að útlitið var ekki sem best. Sjórinn reif i burtu lunninguna og komst niður i lest og einnig í olíutank stjórnborðsmegin. Yfirleitt allt lauslegt á dekki fór í burtu, þar á meðal gúmmíbátur, þó ekki björgunarbáturinn. Ekki urðu nein slys á mönnum við þetta óhapp. Báturinn kom svo til Reyðarfjarðar um þrjú leytið í gær og er tjónið greinilega mikið og þarfnast hann mikillar viðgerðar. Gunnar SU er 250 tonna bátur, smíðaður í Austur-Þýskalandi fyrir 15 árum.
Í Neskaupstað gekk sjór yfir götu og bar á hana stóra steina. Þrír bátar, sem stóðu í vetrarlægi, brotnuðu og eru taldir ónýtir. Stór nótabátur, sem notaður hefur verið sem flutningabátur, tók sig upp og sigldi yfir fjörðinn. Margir aðrir bátar færðust til, en skemmdir urðu engar á þeim.
Veðurstofan veitti okkur upplýsingar um orsakir flóðamma á Austfjörðum. Þar fór þrennt saman, sem hjálpaðist að að gera flóðin svo mikil. Í gær var stórstreymt, vindur stóð af hafi og á land og loftþrýstingur var lágur. Fyrir hvert millibar, sem loftvog lækkar, hækkar yfirborð hafsins um einn sentímetra vegna minnkandi þrýstings, og þar sem loftvog féll allt niður í 940 millibör, sem er 60 millibörum lægra en venjulega á þessum árstíma, hækkaði yfirborð sjávar af þeim orsökum einum um 60 sentímetra. Hinar orsakirnar hækkuðu einnig yfirborð sjávar og þess vegna urðu svo mikil flóð þar fyrir austan, öllum að óvörum.
Enn ræðir Tíminn tjón eystra í pistli þann 22.janúar og fjallar að auki um mikla hríð á Suður- og Vesturlandi:
EB-Reykjavík. Í viðtali er Tíminn átti í gær við Guðmund Björnsson á Stöðvarfirði, sagði hann, að tjón af völdum brimsins aðfaranótt miðvikudags, væri ekki, tilfinnanlegt þar á staðnum. Að vísu þyrfti að rífa upp rafmótora og svo hefði náttúrlega þurft að hreinsa til í frystihúsinu, en sem kunnugt er flæddi sjór inn í það. Lá vinna niðri í frystihúsinu á fimmtudaginn. en hófst að nýju í gær.
Á kortinu er lægðarmiðjan skammt austan við Dalatanga og versta veðrið á Austurlandi gengið hjá. Aftur á móti er slæm vestanhríð á Suðvesturlandi. Það er ekki óalgengt að þegar mjög djúpar og krappar lægðir fara til norðurs við Austfirði að vestanillviðri fylgi í kjölfarið um landið suðvestanvert. Á fyrri tíð gat slíkt komið mjög á óvart, en gerir (vonandi) síður nú á tímum ratsjáa, gervihnattamynda og tölvureikninga.
[Tíminn heldur áfram] OÓEB-Rvík. Á Suður- og Vesturlandi var vont veður í gær. Snjókoma var mikil og tepptust vegir víða og voru lokaðir í nokkrar klukkustundir um miðjan daginn. Hvalfjörður lokaðist alveg og eins vegir í nágrenni Reykjavíkur, en leiðin austur fyrir fjall var opin stórum bílum. Í Reykjavík var umferðaröngþveiti. Snjókoman byrjaði um kl. 10 í gærmorgun, en upp stytti upp úr kl.3. Þá fór að rigna. Þegar leið á kvöldið fór að kólna og spáð var kólnandi veðri og snjókomu inn til landsins og var þá hætt við að færð spillist enn til muna. Umferð í Reykjavík var frekar lítil í gær, en bílar voru stopp víða borginni, aðallega í úthverfunum. ... Um hádegið varð algjört umferðaröngþveiti á mörgum götum, sérstaklega á Kringlumýrarbraut. Strætisvagnar héldu ekki áætlun vegna færðarinnar og bíla, sem voru fastir og stöðvuðu alla umferð. En kl.4, þegar fór að rigna og hætti að skafa. komst ástandið í sæmilegt lag. Vegagerðin upplýsti í gærkvöldi að færðin út frá Reykjavík hefði orðið hvað verst á öllu landinu. Gekk umferð mjög stirðlega, sér í lagi fyrir Hvalfjörð. Þar var mikill skafrenningur og þegar skipti um átt og fór að hlýna, varð vegurinn nær ófær yfirferðar. Farið var að moka veigi á Vestfjörðum í gærmorgun og farið var á Bíldudal, en seinni hluta dags urðu allir vegir ófærir sunnan til á Vestfjörðum. Í gær var mokað út frá Bolungarvík og Súðavík. Stórum bílum var fært innan Önundarfjarðar og yfirleitt á láglendi á Norðurfjörðunum, en allir fjallvegir voru ófærir. Holtavörðuheiði var farin í gær, og eins var fært vestur í Dali fyrir stóra bíla.
Hér gerði vitlaust veður um ellefuleytið í morgun, suðaustanátt og stórhríð og kyngdi niður snjó, sagði Svavar Jóhannsson. fréttaritari Tímans á Patreksfirði í viðtali við blaðið í gær. Sagði Svavar, að bílar á leið milli Patreksfjarðar og Bíldudals hefðu lent í erfiðleikum í hríðinni svo að þurft hefði að aðstoða þá. í Raknadal, skammt frá Patreksfirði, munaði litlu að mjólkurbíll lenti út af veginum í veðurofsanum, en hann komst, sem betur fór, heilu og höldnu til Patreksfjarðar síðdegis í dag. Þá var farið með ýtu upp á Kleifarheiði til að aðstoða mjólkurbíl, sem ætlaði að komast yfir heiðina frá Patreksfirði. Urðu bæði bíllinn og ýtan að snúa við. Á Patreksfirði mátti heita að ófært yrði um göturnar. Þegar líða tók á daginn létti til þar og þíða var komin seinnihluta dagsins.
Óli Halldórsson á Gunnarsstöðum við Þórshöfn sagði Tímanum í gær, að sæmileg færð væri þar nyrðra þessa dagana. Hann sagði að jeppafært væri milli Þórshafnar og Raufarhafnar, og hefðu bílar síðast farið þar á milli aðfaranótt föstudags. Snjólaust á Vopnafirði það sem af er vetri. Hér hefur verið ágætisveður undanfarið, sagði Steingrímur Sæmundsson á Vopnafirði. Það var ófært milli Akureyrar og Vopnafjarðar á tímabili í nóvember, en fært hefur verið á þessari leið síðan. Gat Steingrímur þess, að vöruflutningabíll væri nýkominn til Vopnafjarðar frá Akureyri. og vissi hann ekki betur en sú ferð hefði gengið ágætlega.
Tíminn segir þann 27.janúar af illviðri norðaustanlands dagana 22. og 23. janúar - væntanlega tengt síðari lægðinni kröppu við Austurland:
ÞOReykjavik. Stórhríð var um helgina á Norðausturlandi, og að sögn Barða Þórhallssonar á Kópaskeri þá skall veðrið á seinnihluta sunnudags og stóð fram á mánudag. Í hríðinni þurfti einn maður að gista næturlangt í bíl sinum vegna hríðar. Rétt um það leyti er veðrið skall á, var rússajeppi frá Raufarhöfn lagður á stað frá Kópaskeri til Húsavikur. Er bíllinn var kominn upp fyrir Auðbjargarstaðarbrekkuna skall veðrið á með miklum látum. Ætlaði fólkið i jeppanum, sem var fernt, að snúa við, en er bíllinn kom aftur í brekkuna festist hann og varð fólkið að ganga til byggða, sem er stutt leið. Þegar veðrinu slotaði i gær, og fara átti að ná i jeppann var hann hvergi sjáanlegur, á þeim stað þar sem skilið hafði verið við hann. Fannst jeppinn niður á túni á Auðbjargarstöðum og lá hann þar á hliðinni töluvert skemmdur. Snjóflóð mun hafa hrifið jeppann með sér, en þarna er mjög bratt. Á einum bæ, EfriHólum í Núpasveit, týndust 40 ær í hríðinni og hafa þær ekki komið fram ennþá. Barði sagði, að snjórinn væri ekki mjög mikill, en skafið hefði mjög i skafla, t.d. var maður að koma frá Raufarhöfn til Kópaskers og er hann var kominn i Þrönguskörð var þar mikill skafl og varð maðurinn að sofa i bílnum um nóttina.
Enn greinir Tíminn frá flóðinu eystra í frétt þann 27. janúar - en víkur síðan að hlákuflóði í Reykjavík:
Tjónið, sem varð i flóðinu á Breiðdalsvik á dögunum, er nokkuð mikið. Mestar skemmdir urðu á hafnargarðinum nýja og í síldarverksmiðju Braga hf, en þar skemmdust eða eyðilögðust margir rafmótorar, og t.d. munu allir skilvindumótorarnir vera meira og minna skemmdir. Af þessum orsökum getur verksmiðjan ekki tekið á móti loðnu, og er ekki vitað hvenær hún verður tilbúin til vinnslu.
Vatn mun viða hafa flætt inn i hús [í Reykjavík], einkum kjallara vitanlega, en við fréttum þó af konu vestur á Bræðraborgarstig, sem býr á efri hæð. Svo mikið vatn safnaðist fyrir á svölum íbúðar hennar, að flæddi inn i íbúðina, og varð hún að eyða nóttinni í vatnsaustur. Ástand var viða slæmt. Mikið vatn var t.d. á Hafnarfjarðarvegi, einkum þegar nær dró Hafnarfirði og sátu á tímabili bilar lens á Flatahrauni á móts við Norðurbæjarhverfið. Var þar lögregla til taks, en einnig hjálpsamir vegfarendur, hreystimenni sem höfðu ánægju af að göslast um i vatninu og draga eða ýta bílum i gang. GG
Enn var slagviðri og snjór bráðnaði með leiðindum. Vísir segir frá 28.janúar:
Slagveðrið i nótt olli víða vandræðum. Vatn safnaðist fyrir á götum, þar sem frost var enn ekki farið úr niðurföllum. Við gatnamót Sundlaugavegar og Laugalækjar myndaðist t.d. mikil tjörn um það bil hnédjúp. Fæstir bílstjórar áttuðu sig á dýpt vatnsins og óku þar rakleitt út í. Margur færleikurinn þoldi ekki vatnsganginn yfir kveikjuna og kæfði á sér. Sátu menn svo þar.
Hlákan olli skriðuföllum og snjóflóðum sem tepptu vegi. Tíminn segir frá 30. janúar:
Arnkell Einarsson hjá vegagerð ríkisins sagði okkur frá skriðufjöllum og snjóflóðum. Skriða féll í Þyrilshlið í Hvalfirði, en vegurinn opnaðist aftur fyrir hádegið. Þá féllu smáskriður á vegina undir Ólafsvikurenni og Búlandshöfða á Snæfellsnesi. Skógarstrandarveg tók alveg í sundur um Ós, vestan við Heydalsvegamót og er hann alveg ófær. Í Borgarfirði flæðir Grímsá yfir veginn við Hest og i Lundarreykjadal. Vegir eru mjög viðkvæmir og er hætt við að þeir skerist bráðlega, ef ekki þornar. Vegir á Héraði eru sæmilega færir, en fjallvegir austanlands allir ófærir. Snjóflóð féll yfir veginn i Fáskrúðsfirði aðfaranótt laugardags og tók i leiðinni sundur rafmagnslínu, en búist er við, að viðgerð ljúki i dag. Hjá Páli Bergþórssyni á veðurstofunni fengum við þær upplýsingar, að suðlæg átt yrði á næstunni og ekki von á snjókomu. Í fyrrakvöld og um nóttina var allslæmt veður í Reykjavík, vindur fór upp i 10 stig og úrkoma í borginni var 18 mm., en inn við Hólm komst hún upp i 30 mm. Páll sagði, að ef frost hefði verið i jörðu, myndi vafalaust hafa flætt mikið. en nú hefði bleytan átt greiða leið beint niður í jörðina.
SBReykjavik Rafmagnslaust varð á öllu Reykjavikursvæðinu, Suðurnesjum og sveitum austanfjalls aðfaranótt laugardagsins [29. janúar]. Yfirsláttur á Búrfellslínunni vegna óveðursins olli rafmagnsleysinu. Fyrst fór rafmagn af Suðurnesjum, upp úr kl.1, en í Reykjavik slokknaði kl. 1:34 og fengu fyrstu hverfin ljós aftur eftir 20 mínútur, en 10 mínútum siðar var öll Reykjavík uppljómuð á ný. Eitthvað lengri tíma tók að koma
ljósunum til Suðurnesja og þurftu íbúar þar að sitja i myrkrinu í klukkustund eða svo.
Gífurlegt vatnsveður var í Reykjavík aðfaranótt laugardagsins og á sumum gatnamótum var eins og hafsjór yfir að líta. Eitthvað mun hafa verið um það, að menn óku óvarlega í tjarnirnar, og vélarnar stöðvuðust. Vitað er til þess að vatn fór inn i hús á tveim stöðum. Var það í Blesugróf, og við Bugðulæk, en þar kom vatn upp um niðurföll. Ekki er vitað til þess að stórkostlegar skemmdir hafi orðið á húsum, vegna vatnsflóðsins. Hafnarstjórinn i Þorlákshöfn sagði, að þar hefði verið mikið vatnsveður og ein 10 vindstig. Ekkert mun þó hafa orðið að í Þorlákshöfn i veðrinu. Þar er nú alauð jörð og tók allan snjó upp mjög fljótt. Á Vestfjörðum urðu miklar truflanir á umferð. Miklar skriður féllu i Óshlið sömu nótt, og einnig á milli Hnífsdals og Ísafjarðar, en heldur minni að vöxtum. Á Siglufjarðarvegi hefur verið rutt mikið undanfarið og er vegurinn orðinn fær. Talið er, að ein 10 snjóflóð hafi fallið nýlega á veginn milli Almenningsnafar og Strákaganga. Mokstur á Ólafsfjarðarmúla hófst á laugardagsmorgun, en þar er ekki mjög mikill snjór. Fært er frá Akureyri um Dalsmynni, en Vaðlaheiði er ófær.
Vísir segir þann 31.janúar frá flóðaraunum í fjölbýlishúsi í Breiðholti og víðar:
Það er hreinasta neyð, að verða sér út um einhverja hjálp, þegar svona stendur á, sagði húsvörðurinn í Eyjabakka 16 í gærmorgun. Vatn hafði flætt inn i kjallara hússins um nóttina og náði upp fyrir hurðarhúna í dyrum kjallarans. Íbúarnir hafa orðið þar fyrir, ef til vill hundruð þúsunda tjóni, þegar geymslurnar voru allar undirlagðar undir eins og hálfs meters vatn. Það var svona, þegar ég fór á ról í morgun", sagði Jens Þorvaldsson, smiður, íbúi á fyrstu hæð. Mesta heppni, að vatnið náði ekki í rafmagnstöfluna og kortslúttaði". Heilt lón hafði myndast á planinu ofan við hús nr. 16, en það var allt yfirborðsvatn, sem rann ofan úr Breiðholti i hálkunni. Vatnið ruddi sér braut með húshliðinni og gróf sér djúpan farveg. Síðan komst það í kjallaratröppurnar, fyllti þær og smaug með útidyrunum inn i kjallarann. Við erum búin að hringja um allar trissur, og vélaleigurnar hafa ekki aðrar dælur, en þær, sem þegar eru uppteknar hjá öðru fólki úti i bæ" sagði Vagn Gunnarsson, húsvörður. Manni er allstaðar sagt, að það séu mestu vandræði að ræsa út menn". Blaðamaður Vísis gerði tilraun til þess að ná sambandi við Almannavarnir Reykjavikur, en starfsmaðurinn á frí um helgidaga, formaðurinn náðist ekki i símann. Undir hádegið snéru íbúarnir sér í örvæntingu sinni til slökkviliðsins og slökkvibíll kom til þess að dæla úr kjallaranum. En þeir segjast aðeins geta verið 20 mínútur og verða þá að fara. Þá komum við til með að standa eftir sem áður með hálfan kjallarann af vatni" sögðu íbúarnir, sem höfðu ekki séð fram úr vandræðum sinum kl. 12. á laugardaginn. Það höfðu fleiri lent í svipuðum vandræðum i borginni. Hjón í kjallarabúð i Rauðalæk höfðu vaknað kl.4 um nóttina og stigu fram úr rúmi sinu i ökkladjúpt vatn. Viða annarsstaðar flaut inn í kjallara fólks. GP.
Aðfaranótt 30. varð foktjón í Hnífsdal, Morgunblaðið segir frá 1. febrúar:
Í óveðrinu, sem gekk yfir aðfararnótt sunnudagsins, fuku hlaða, fjárhús og tveir fiskhjallar á Heimabæ í Hnífsdal. Húsin sópuðust í burtu svo ekkert er eftir nema
brak. Hey og kindur voru í húsunum. Tókst að bjarga kindunum út ósködduðum. Páll Pálsson, útvegsbóndi, býr á Heimabæ. Var hann heima þegar rokið tók húsin, en það gerðist kl. 7:30 um morguninn. Þá fauk kvenskátahúsið Dyngja, sem er frammi á Dal, af grunninum og niður í grjótnámu. Var í sumar verið að vinna að því að steypa nýjan grunn undir húsið og átti að flytja það þangað. Mun eitthvað hafa verið farið að losa húsið og það því ekki staðist veðrið. Er húsið alveg ónýtt. Ólafur.
Tíminn 2.febrúar segir frá ofsaveðri í Eyjum:
SK-Vestmannaeyjum Ofsaveður var í Eyjum í fyrrinótt og í gær [1.febrúar]. Veðrið hefur staðið af suðaustan og úrhellisrigning hefur fylgt veðrinu. Herjólfur hefur ekki komist inn i höfnina og hefur legið undir Eiðinu i dag, er það mjög fátitt, að Herjólfur komist ekki inn á höfnina hér. Friðarhöfnin er full af skipum, en allur loðnuflotinn er þar auk heimabáta. Í nótt var hætta á að veðrið snerist til suðvesturs, og voru menn hræddir um að brim gæti þá valdið skemmdum. Veðrið i gær komst upp i 12 vindstig, og er þetta með verstu veðrum, sem hafa komið i Eyjum um langan tíma. Vonskuveður hefur verið i Þorlákshöfn s.l. sólarhring, og fylgdi veðrinu mikil flóðhæð, þó svo að stórstraumur fari minnkandi. Sjórinn gekk yfir bryggjuna, og var erfitt að hemja stærri bátana við hana, sagði Benedikt Thorarensen, fréttaritari Tímans i Þorlákshöfn. Bátar eru nú 12-14 i Þorlákshöfn, en er vertíðin byrjar fyrir alvöru,verða þeir tvöfalt fleiri,og eru menn hræddir um að til vandræða komi, er flotinn liggur við bryggju og álíka veður skellur á. Einn Þorlákshafnarbáta fór frá bryggjunni í nótt, er veðrið var sem verst, var það Friðrik Sigurðsson en báturinn var þá búinn að slita af sér svo til öll bönd.
Næstu vikur var veður lengst af hagstætt og hlýtt. Jörð fór að gróa. Þó var veður órólegt til sjávarins og gæftir ekki góðar. Miðvikudagskvöldið 16. febrúar gerði allmikið sunnanveður. Þá fauk bíll við Berserkseyri á Snæfellsnesi, kona beið bana. Í sama veðri fauk Cessnaflugvél fram yfir sig á Reykjavíkurflugvelli og skemmdist mikið.
Um 20. febrúar gerði afgerandi illviðri. Vísir segir frá því þann 21. febrúar:
Ofsaveðrið sem gekk yfir landið i gærmorgun og gærdag olli nokkrum spjöllum. Girðing sú, er slegið hefur verið upp kringum hótelbyggingu Lúðvigs Hjálmtýssonar við Rauðarárstig lagðist niður undan rokinu. Í rauðabitið i gærmorgun, þegar menn komu að bílum sínum sem stóðu á stæðinu austan megin við væntanlegt hótel, hafði girðingin lagst ofan á bilana og urðu skemmdir á þeim einhverjar, einkum mun einn bíll hafa orðið illa úti. Lögreglan hafði samband við Lúðvig, sem brá við skjótt og lét lappa upp á girðinguna, þannig að hún stóð af sér veðrið það sem eftir var dagsins. Járnplötur eru slæmar með að hefja sig til flugs, ef hvessir að marki. Svo var og i gær, að járnplötur, sem álitnar voru negldar niður á skúrþak yfir stigagangi að Laugavegi 62 fuku út i loftið og höfnuðu úti á götu. Sem betur fór flugu plöturnar af stað svo snemma á sunnudagsmorguninn, að fáir voru á ferli og enginn þar sem plöturnar komu niður. Lögreglan brá við skjótt, safnaði saman plötunum og kom þeim fyrir i skjóli. Skemmdir munu ekki hafa orðið verulegar neins staðar i Reykjavik um helgina vegna veðurofsans. GG
Tíminn segir frá sama veðri þann 22.febrúar:
00Reykjavík. Gífurlegt hvassviðri gekk yfir vestanvert landið á sunnudagsmorgun. Í Eyjum og Reykjanesi var veðurhæðin hvað mest og í Grindavik gekk sjór á land í árdegisflóðinu. Gekk sjórinn yfir varnargarðana við höfnina og upp á götur. Var sjógangurinn slíkur, að mönnum var ekki vært á bryggjunum og flæddi umhverfis fiskvinnsluhús við höfnina. Þrír bilar lentu í flóðinu og var ekki hægt að bjarga þeim á þurrt, fyrr en út flæddi aftur. Náði sjávarborðið allt að 200 metrum lengra á land en fjöruborðið er i stórstraumsflæði. Mestur var sjógangurinn milli kl. 9 og 11 á sunnudagsmorgun. Um 50 bátar voru i höfninni, en skemmdir á þeim urðu ekki verulegar. Á tímabili var hætta talin á að bátana sliti upp, en .menn gátu litið aðhafst meðan ofsinn var hvað mestur. Einnig voru tvö dönsk flutningaskip i höfninni. Var enginn leið að ná þeim út meðan á ósköpunum stóð. Sjávarrótið kastaði miklu af grjóti upp á bryggjur og götur, og var byrjað að hreinsa það í gærmorgun. Menn óttuðust mjög að stórtjón yrði i Grindavikurhöfn á sunnudagsmorguninn, en betur fór en á horfðist. Sérstaklega voru menn hræddir um að bátarnir slitnuðu upp, en litið hefði verið hægt að gera þeim til bjargar, þegar veðurhamurinn var verstur. Í Sandgerði og Keflavík unnu sjómenn við að forða bátum, sem voru að slitna upp, og gekk það vel. Á Vestfjörðum var einnig ofsaveður, en allir bátar voru komnir i höfn þegar það skall á og urðu hvergi verulegir skaðar. Í Reykjavík vann lögreglan að því að koma í veg fyrir að járnplötur og annað rusl fyki. Á húsinu nr. 62 við Laugaveg rifnuðu nokkrar plötur af þakinu og tóku lögreglumenn þær saman og settu inn i húsið, svo að þær yllu ekki skemmdum eða slysum. Járnplötur og vinnupallar voru viða i hættu og var lögregla viða kvödd til að aðstoða, en teljandi skemmdir urðu hvergi nema við Laugarveginn.
Í þessu sama veðri fauk bíll yfir girðingu á Grund í Skorradal og járnplötur fuku þar af húsum og hafrót braut fiskihús á Arnarstapa. Önnur lægð fylgdi í kjölfarið með gríðarlegu úrhelli. Tíminn segir af því þann 24. febrúar:
OÓReykjavik. Gífurlegt úrfelli var á Vesturlandi í fyrradag og fyrrinótt. Flæddi viða yfir vegi, þar sem smásprænur urðu að stórum vatnsföllum, og sums staðar fóru vegir á kaf í vatn og urðu algjörlega ófærir allri umferð. Mest urðu flóðin í Borgarfirði, og um tíma tepptist öll umferð milli Norður- og Suðurlands. Hvítá flæddi yfir veginn bæði við Ferjubakka og Hvítárvelli, og var vegurinn þar lokaður í allan gærdag. Borgarfjarðarbraut lokaðist einnig, en um hádegi í gær var búið að opna hana aftur, og komst þá umferð á aftur milli landshlutanna. Ekki er vitað, hve djúpt vatnið er við Hvítárvelli eða yfir Ferjukotssíki. Í Dölum flæddi Reykjadalsá yfir veginn í gærmorgun, og var þar mittisdjúpt vatn þegar verst var. Þar sjatnaði nokkuð þegar leið á daginn. Á Snæfellsnesi var sæmilegt færi sunnan til, en norðanvert á nesinu var vegurinn í sundur í Kolgrafarfirði. Var unnið að viðgerð þar í gær. Vegurinn í Dýrafirði fór sundur beggja megin fjarðarins. Það var lagfært svo, að jeppafært var í gær. Í Önundarfirði urðu einnig vegaskemmdir, sem búið er að gera við. Í Strandasýslu urðu vegaskemmdir norðan við Hólmavik. Í Hvalfirði urðu smávægileg skriðuföll i fyrrinótt, en vegurinn lokaðist ekki. Var gert við veginn þar i gær. Þingvallavegur hjá Álftavatni lokaðist á tveim stöðum, og var ekkert hægt að gera þar við í gær vegna rigningar og vatnavaxta. Á Norður- og Austurlandi var veðrið betra og færð ágæt.
Morgunblaðið fór í Kjósina eftir rigninguna og birti þá þessa mynd (24. febrúar):
Nokkuð tjón varð á sumarbústaðalöndum og skriður féllu, þar á meðal varð tjón á fjósi á Hurðarbaki þar í sveit.
Tíminn segir þann 29. febrúar aftur af flóðunum nokkrum dögum fyrr:
OÓ-Reykjavik. Óttast er að nokkur hross hafi farist i flóðunum í Borgarfirði í síðustu viku. Tvö hross hafa þegar fundist rekin niðri á Mýrum, en nokkurra er saknað. Eru hestar þessir frá Ferjukoti. Verið er að leita þeirra hesta, sem saknað er og fundust fjórir i dag en sex eða sjö hesta frá Ferjukoti er enn saknað. Hestarnir frá Ferjukoti voru á svonefndum Flóa þegar flóðin skullu yfir. Tilheyrir þetta land Ferjukoti og Ferjubakka. Er slegið þar á sumrin en skepnur ganga þar á veturna. Er þarna mikil flóðahætta þegar mikill og skyndilegur vöxtur hleypur í Norðurá. Ekki er vitað til að hestar frá fleiri bæjum en Ferjukoti hafi verið þarna þegar flóðin hófust. Leitin stóð enn yfir i kvöld og vera má að fleiri hestar hafi fundist lifandi en þeir fjórir sem að framan getur.
Svo bárust fréttir af hlýindum í sjó og miklum viðbrigðum frá því árin á undan. Tíminn segir af því 4.mars:
SB-Reykjavik. Hitastig sjávar fyrir Norðurlandi er nú 3-4° sem er einsdæmi samkvæmt mælingum á þessum árstíma. Þá er ástand sjávar milli Íslands og Jan Mayen mun mildara en undanfarin ár, og getur nýísmyndun ekki átt sér stað þar, þannig að líkindi á hafís eru minni en á síðustu árum. Líkur þykja til þess, að veðráttan í vor hér á landi verði því mildari en undanfarið. Þetta kemur fram i fréttabréfi frá Hafrannsóknastofnuninni um leiðangur Bjarna Sæmundssonar, sem kom heim á hlaupársdag eftir 25 daga útivist. Í leiðangrinum voru gerðar ítarlegar rannsóknir á sjó og svifi á landgrunnssvæðinu fyrir Vestur-, Suður- og Austurlandi. Þá var haldið til Jan Mayen, og hvergi varð vart við ís i leiðangrinum, nema smáhrafl nyrst út af Siglunesi. Rannsóknirnar sýna, að hinn hlýi Irmingerstraumur, sem teygir sig vestur og norður með landinu, er óvenju áhrifamikill. Hitastig sjávar fyrir Norðurlandi er 3-4°, en fyrir Austurlandi 2,5°. Sunnanlands er hitastigið einnig tiltölulega hátt, eða 8*, en litlu kaldara næst ströndinni. Niðurstöður leiðangursins í stórum dráttum eru því þær, að sjávarhiti sé óvenju hár miðað við árstíma og skilin milli hlýs og kalds sjávar lengra norður af en venjulega. Því eru sterkar líkur á því, að veðráttan verði mildari hér á landi í vor en verið hefur á undanförnum árum.
Tíð var áfram hagstæð í mars, en þó gerði nokkur hvassviðri. Mesta furða hvað lítið tjón varð í vestanveðri þann 10. til 11., því það var mjög hart, en talsvert sjávarflóð gerði síðan í Grindavík og Þorlákshöfn nokkrum dögum síðar í sunnanátt.
Tíminn segir frá hvassviðri á Akureyri í pistli þann 11.mars:
SBReykjavik. Mikið hvassviðri var á Akureyri í gær, og mældist meðalvindhraði á 10 mínútum um 38 hnútar þegar verst var. En það munu vera rúm 8 vindstig. Eitthvað fauk af húsum, aðallega i Glerárhverfi og syðri Brekkunni. Þá munu plötur víða hafa losnað á húsum. Átt var á sunnan fyrst í gærmorgun, en snerist síðan til suð-vesturs. Mjög hvasst getur orðið á Akureyri í suðvestanátt.
Í sama veðri, þann 10., gerði mikið hafrót í Grímsey, eitt hið mesta sem komið hafði um fjölda ára. Trillubátur eyðilagðist. Mikil sjávarselta gekk upp á eyna.
Tíminn segir fréttir af tíð 17. mars - og síðan af flóðum í Grindavík og Þorlákshöfn:
JK- Egilsstöðum. Einmuna tíðarfar hefur verið hér á Héraði síðan um áramót þó að all úrkomusamt hafi verið og rignt mikið. Nú síðustu daga hefur verið þurrt og allhvasst. Mikið hefur þornað til. Allir verið eru nú værir og klaki víða farinn úr vegum hér um slóðir. Til Húsavíkur var farið á jeppa um helgina og var bíllinn aðeins fimm tíma frá Egilsstöðum til Húsavikur, og er vegurinn eins og að sumardegi. Möðrudalsfjallgarður mun hafa verið fær í svo til allan vetur. Vekur það furðu manna hér um slóðir, að vegagerðin virðist forðast að geta þess, að þessi fjallvegur sé fær. Virðist vera farið með þetta mál eins og mannsmorð og ekkert ætlast til að það fréttist. Þó að færð sé talin upp á öllum vegum landsins, þá er aldrei minnst á Möðrudalsfjallagarð, sem er nú einu sinni einu fjallvegurinn milli tveggja landshluta. Á Héraði er fært frá innstu dölum til sjávar, og er algjörlega snjólaust, þannig að elstu menn muna ekki annað eins.
ÞÓ-Reykjavik. Gífurleg flóð voru í Grindavík og Þorlákshöfn í gærkvöldi. Allar bryggjur í Grindavik fóru í kaf, og mun sjórinn hafa verið í 1 metra hæð yfir bryggjum í Grindavík, er flóðið var mest. Flóðhæðin náði hámarki á sjötta tímanum og var þá algjörlega ófært eftir bryggjunum og hefði getað farið illa, ef ekki hefði verið frekar lygnt á höfninni. Guðsteinn Einarsson fréttaritari Tímans í Grindavik sagði, að ekki væri vitað um tjón af völdum flóðsins, en menn gerðu ráð fyrir, að það væri eitthvað, en þó ekki eins mikið og varð í flóðinu fyrr í vetur. Netabátarnir hafa ekki komist á sjó í nokkra daga og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Bátarnir eiga allir net í sjó og telja menn víst, að þeir hafi orðið fyrir miklu veiðarfæratjóni. Í Þorlákshöfn fór flóðið að sljákka um kl.7 í gærkvöldi. Þegar það var mest fylgdi sjórinn bryggjuköntunum og mátti því engu muna að flæddi yfir bryggjurnar. Það bjargaði því, að ekki hlaust stórtjón af, að ekki var hvasst. Nokkurt brim var, en þess gætti ekki inni í höfninni. Í Þorlákshöfn hafa ekki komið stærri flóð í manna minnum, en í gær, en einstaka sinnum hafa flóðin náð allt eins hátt upp. Margir bátar voru i höfninni, en ekki er vitað um að tjón hafi orðið á þeim, en þeir slógust talsvert saman, þegar flóðið var hvað mest.
Enn segir Tíminn af sjávarflóðinu i pistli 18. mars:
ÞÓ-Reykjavik. Ljóst er, að allmikið tjón hefur hlotist af völdum brimsins í Grindavík í fyrrakvöld. Flest öll hafnarmannvirkin hafa orðið fyrir einhverjum skemmdum, og að sögn Ólafs Rúnars, fréttaritara Tímans i Grindavik skemmdist varnargarðurinn á rifinu austan við höfnina talsvert. Platan á steinbryggjunni við gamla hafnargarðinn lyftist upp um það bil 1 fet. Einnig hefur grafist undan trébryggjunni. Í briminu fór vélbáturinn Arnfirðingur 2., sem strandaði við innsiglinguna stuttu fyrir jól, á hliðina og þarf nú að hefjast handa við að rétta bátinn við aftur. Ólafur sagði, að á flóðinu i gærmorgun hefðu bryggjurnar aftur farið i kaf, en þar sem brimið var lítið hlaust ekkert tjón af. Í gær var unnið við að kanna skemmdir á hafnarmannvirkjum og er ljóst að þær eru allmiklar, þó að þær séu ekki að fullu kannaðar. Þá var og unnið að því, að hreinsa hafnarsvæðið, en brimið sópaði stórgrýti á land og allskonar drasl flaut einnig upp.
Og flóðsins gætti einnig á Stokkseyri, Tíminn 23. mars:
KJ Reykjavik Við vorum með sex báta við bryggjuna hér, í stærsta flóði sem komið hefur á Stokkseyri síðan 1925, og það er ekki nokkur vafi á því, að bátarnir hefðu allir brotnað í spón, hefðum við ekki verið búnir að fá garðinn, sagði Steingrímur Jónsson sveitarstjóri á Stokkseyri i viðtali við Tímann í gær.
Tíminn segir þann 6. apríl frá óvenjuvatnslítilli Þjórsá:
Eldri menn i Gnúpverjahreppi segja, að ekki hafi verið eins lítið í Þjórsá i 45 ár og í vetur. Enda er það svo að ganga má þurrum fótum yfir farveg árinnar upp við inntaksmannvirkin, því það af ánni, sem ekki fer i inntakslónið, fer í ísskurðinn. Enginn ís er á ánni við inntaksmannvirkin, og heldur enginn grunnstingull í ánni.
Þann 29. apríl gerði skammvinnt norðanillviðri á landinu. Það varð langverst á höfuðborgarsvæðinu. Um það var fjallað sérstaklega í pistli hungurdiska fyrir nokkrum árum. Verður það ekki endurtekið hér, en við lítum samt á frétt Morgunblaðsins 30. apríl:
Í gærmorgun gerði hið versta veður í Reykjavík og nágrenni og olli rokið talsverðum skemmdum á húsum og mannvirkjum. Laust eftir klukkan 8 í gærmorgun komst vindhraðinn upp í 12 vindstig eða 64 hnúta og í einstökum hviðum upp í 80 hnúta, sem er með því almesta, sem gerist í Reykjavík. Eru fárviðri sem þetta mjög sjaldgæf hér á Reykjavíkursvæðinu, ekki síst á þessum árstíma. Þakplötur fuku af þökum viða í Reykjavík og í nágrenni. Meðal þeirra húsa, sem rokið lék þannig, voru hús Tryggingastofnunar ríkisins á mótum Laugavegar og Snorrabrautar, hús vöruafgreiðslu flugfélaganna að Sölvhólsgötu 1, húsið Skipholt 6, og þakplötur á Tónabæ undust upp og losnuðu af þakinu og varð um tíma að loka Miklubrautinni fyrir umferð af þeim sökum. Þá brotnuðu víða rúður, bæði vegna mikils vindþrýstings, og eins er járnplötur fuku á þær, m.a. í Austurbæjarútibúi Landsbankans að Laugavegi 77, og í Bókhlöðunni á Laugavegi 47. Í húsi einu við Skipholt vöknuðu hjón upp við það, að bárujárnsplata fauk á svefnsherbergisgluggann og þeytti honum inn í hjónarúmið, þar sem hann lenti ofan á þeim. Þá má nefna að tjón varð af völdum veðursins á hótelbyggingu Lúðvíks Hjálmtýssonar við Rauðarárstíg og á húsi Silla og Valda að Bergþórugötu 23, reykháfur hrundi á Amtmannsstíg 5 bárujárnsgirðing fauk um koll við Ægisgötu, og laust byggingarefni fauk af vinnupöllum við Hraðfrystistöðina við Mýrargötu og lenti þar á tveimur bílum, sem leið áttu framhjá, og skemmdi þá talsvert, m.a. brotnaði framrúða í öðrum. Ekki er vitað um að slys hafi orðið á mönnum af völdum veðursins en þó munaði ekki miklu hjá lögregluþjóni, sem var að draga bárujárnsplötu af miðri Mýrargötunni, þegar vindhviða kom og lyfti plötunni á flug og manninum með. Honum tókst þó að stýra plötunni til lendingar án þess að slys hlytist af.
Veðurofsinn var mestur í Reykjavík á milli kl. 6 og 9 í gærmorgun og var þá mjög annasamt hjá lögreglunni við að aðstoða húseigendur, sem í erfiðleikum áttu. Var kallaður út vinnuflokkur frá Áhaldahúsi Reykjavíkurborgar og aðstoðaði hann menn eftir föngum. Það bætti ekki úr skálk, að rafmagnið fór af höfuðborgarsvæðinu um líkt leyti og að sögn lögreglunnar voru látlausar hringingar þangað og höfðu sumir í hótunum við lögreglu og önnur yfirvöld, ef þessu yrði ekki hið snarasta kippt í lag. Í Kópavogi gerði veðrið töluverðan usla, járnplötur fuku af þökum og rúður brotnuðu, t.d. á íbúðarhúsinu að Álfhólsvegi 123, þar sem járnplötur fuku á tvær stórar rúður og mölbrutu þær. Einnig losnuðu þakplötur á verkamiðjuhúsi við Auðbrekku og fuku burt, em mömmum tókst að koma í veg fyrir meira tjón þar.
Í Hafnarfirði, á Suðurnesjum, Suðurlandi og í Vestmannaeyjum var mikið rok, en ekki var kunnugt um neinar verulegar skemmdir, nema í Vestmannaeyjum, þar sem mótauppsláttur við Safnhúsið var kominn töluvert á veg, en fauk um koll í veðrinu. Á Reykjavíkurflugvelli varð að færa nokkrar litlar flugvélar í skjól, en engar skemmdir urðu á þeim af völdum veðursins. Í Reykjavíkurhöfn sökk lítil trilla og önnur á Fossvogi. ... Í fyrrakvöld var mikið rok í Hvalfirði og lentu bilar í erfiðleikum af völdum þess. Hafnarfjarðarlögreglunni var tilkynnt um tvö óhöpp þar með fárra mínútna millibili laust fyrir klukkan 8 í fyrrakvöld. Fyrst fauk fólksbíll út af veginum rétt norðan við Kiðafell í Kjós og síðan lenti annar fólksbíll á brúarstólpa við Kiðafellsá. Engin slys urðu á mönnum við þessi óhöpp.
Menn voru sammála um að betur voraði heldur en undanfarin ár. Tíminn segir frá 14.maí:
SB-SJ-KLP, Reykjavík. Elstu menn muna ekki annað eins er gjarna viðkvæðið þessa dagana, þegar rætt er um vorið og sumarið. Tíminn hafði samband við nokkra fréttaritara sína í sveitum landsins fyrir helgina og kvað þar mjög við sama tón, sumarið með eindæmum og lífið virðist brosa við bændum. Farið er að setja niður kartöflur og taka upp rabarbara, vegir eru með besta móti viðast hvar og hiti hefur farið upp i 17 stig. Hjá Þorsteini Sigurðssyni, bónda i Vatnsleysu i Biskupstungum, fengum við þær fréttir, að þaðan væri ekkert nema gott aö segja, því allt væri eins gott og það gæti verið. Túnin væru fagurgræn hvert sem litið væri, sauðburður gengi vel, hvergi væri klaki i jörð og menn væru farnir að undirbúa að setja niður í garða sina. Þorsteinn sagði, að þetta vor væri með bestu vorum, sem hann myndi eftir. Árið 1923 og 1929 hefðu þau verið eins góð en ekkert nú á seinni árum væri nálægt því. Hann sagði, að veðrið væri einstakt,- í morgun hefði verið 10. stiga hiti kl.8 ,um hádegið hefði verið 15 stiga hiti og um kaffið hefði verið kominn 17 stiga hiti.
Friðbjörn Zóphoníasson bóndi á Hóli i Svarfaðardal sagði, að þar myndu elstu menn ekki eftir öðru eins vori eða sumri. Sumarið væri nú einum fimm vikum fyrr á ferðinni en venjulega.- Þetta er alveg dásamlegt, og lifið leikur við okkur hérna núna, sagði Friðbjörn. Nú sést ekki kal á túnum í Svarfaðardal og gömul köl eru sem óðast að gróa upp og lita bara vel út. Sauðburður er byrjaður hjá nokkrum bændum og hefur ekki annað heyrst en allt gangi vel. Veðursins og garðanna vegna, væri hægt að setja strax niður kartöflur, þó enginn sé farinn til þess enn.
Þann 21. maí skemmdist mikið af grasi af seltu á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og 25. maí gerði skammvinnt norðaustanskot. Morgunblaðið segir frá 27.maí:
Flateyri, 25. maí. Í nótt gerði hérna mikið hvassviðri og náði stormurinn hámarki milli kl. 3 og 5 í nótt. Sjö trillubátar voru hér í höfninni af stærðinni tvær til fimm lestir og sukku þrjár af þessum trillum í höfnina og eru þær allar taldar mikið skemmdar. Þó er það ókannað, því að þær liggja á botninum ennþá. Auk þess skemmdust þrjár trillur talsvert mikið, en ein mun hafa sloppið að mestu óskemmd. Þegar eigendur þessara báta komu að þeim í nótt, gátu þeir ekki við neitt ráðið vegna veðurs. Fóru þeir um borð í trillurnar en gátu lítið að gert, og einn þeirra slapp naumlega upp á bryggjuna aftur, er trillan kastaðist utan í bryggjuna og brotnaði og sökk undan honum, Sumar af þessum trillum voru byrjaðar róðra og höfðu aflað ágætlega, en aðrar voru að búast til veiða. Er þetta bagalegt fyrir eigendurna, sem missa af þessum sökum afla og atvinnu, enda þótt þeir fái líklega allir bátana bætta. Ekki urðu neinar skemmdir á öðrum bátum í höfninni, og ekki heldur í landi. Von er á kranabifreið hingað í fyrramálið til að lyfta trillunum upp úr höfninni. Fréttaritari.
Nokkur umskipti urðu í júní þegar brá til votviðra. Þau voru sérlega mikil norðanlands síðasta þriðjung mánaðarins. Tíminn segir frá 27.júní:
Norðlendingum finnst þetta hafa verið undarlegur júnímánuður, að minnsta kosti þeim, sem búa um miðbik þess. Þeir telja sig varla muna svo votviðrasaman júní, og enn frekari nýlunda er, að í fyrradag duttu niður haglél á þrem stöðum i Laxárdal í Þingeyjarsýslu, öll síðari hluta dags, en þó ekki samtímis. Í Eyjafirði hafa votviðrin verið svo mikil, að það er líkast því, er þar getur verið á haustin, þegar úrkomusamt er, og stundum hefur verið slík haugarigning, til dæmis í gær og fyrradag, að engu er líkara en Eyjafjörður hafi verið fluttur suður á land", segja menn fyrir norðan og tæpa á Reykjavik, því arga rigningarbæli. Alla jafna er júnímánuður mjög þurrviðrasamur i Eyjafirði, oft svo, að það bagar sprettu stórlega. Nú er grasið lagst i legu á túnum og liggur undir skemmdum, því að menn urðu að hætta að slá, þótt sláttur væri viða byrjaður, áður en þessi síðasta rigningarhrota hófst. Það hefur stundum verið rétt hægt að skjótast i næsta hús, án þess að verða hundvotur, sagði Erlingur Davíðsson, þegar við töluðum við hann. Haglélin þrjú, sem duttu niður i Laxárdal, eru sögð eindæmi í minni þess fólks, sem þar er. Svo mikið kvað að þeim, að sums staðar varð alhvítt, en annars staðar gránaði. Eitt þessara élja kom niður i Kasthvammi og þar i grennd. Þar gránaði jafnvel kafsprottið túnið, en varð hvítt þar sem gróðurlaust var. Fólk þar horfði forviða á þetta fyrirbæri, en svo hljóp einhver til og safnaði haglkornum á disk, sem settur var i frysti, svo að sjá mætti stundu lengur, hversu stór þau voru.
Fréttabréf úr Borgarfirði eystra 22-6 1972. Það sem af er þessum mánuði, hefur tíðarfar verið fremur rysjótt, umhleypingasöm kuldagjóla með úrhellingsdembum. Vorverkum ætlar því eigi að ljúka hér öllu fyrr en vanalega, þrátt fyrir einmuna góðviðri og stillur, mestan hluta maímánaðar. Þó mun grasspretta meiri og jafnari en oft áður og eigi langt til sláttar hjá þeim, er fyrstir byrja.
Daginn eftir 28. júní segir Tíminn enn af votviðri nyrðra:
SBReykjavik. Ofan af brún Vaðlaheiðar, á móts við Akureyri miðja, fellur nú myndarlegur lækur, sem enginn minnist að hafa séð áður. Eyjafjarðará er kolmórautt fljót og tjarnir standa á túnum Svalbarðsströndunga. Áfram rigndi hann fyrir norðan í gær og muna menn vart jafn blautan júní. Feikilegar dembur komu í fyrrinótt og gærdag á Akureyri og þar beljuðu fljót eftir götunum. Langt út eftir firðinum mátti sjá mórautt belti og var þar Eyjafjarðaráin á ferð. Að sjá yfir i Vaðlaheiði frá Akureyri er lækur við læk og eru bændur þar litt hrifnir, þó að Akureyringum finnist sjónin tilkomumikil. Kjartan Magnússon á Mógili á Svalbarðsströnd, sagði Tímanum i gær, að þar stæðu nú tjarnir á túnum og ekki væri nokkur leið að fara um þau með vélar. Það er langt síðan við hefðum getað byrjað að slá, sagði hann, en nú getum við ekkert, nema beðið. Gras er löngu fullsprottið og farið að leggjast i legur í bleytunni. Mikil kartöflurækt er á Ströndinni og eru bændur farnir að hafa áhyggjur af görðum sinum, þeim sem ekki standa í halla. Bændur frammi í Eyjafirði voru fyrir nokkru byrjaðir að slá, en nú liggur hey þeirra undir skemmdum á túnunum. Björn Brynjólfsson, vegaeftirlitsmaður á Akureyri sagði að vegirnir væru furðu góðir eftir þetta, að vísu blautir og holóttir, en ekki hefði runnið úr þeim og því ekki þurft að gripa til þungatakmarkanna. Hann sagði, að nokkuð bætti úr skák, að kalt væri i veðri og það jafnvel svo að frysti uppi á heiðum um nætur.
Tíminn segir þann 29.júní heldur neikvæðar fréttir úr Árneshreppi:
GVBæ i Trékyllisvík. Ekki horfir vel um það, að vonir okkar hér í Árneshreppi um gott og gagnsamt sumar ætli að rætast. Eftir hlýindin framan af hefur verið hin mesta kalsatíð upp á síðkastið, snjóað hvað eftir annað i fjöll og gróðri ekkert farið fram. Niðri i byggð er allt á floti í vatni.
Tíminn talar 8. júlí um heyskaparhorfur. Spretta er almennt góð, en votviðri tefja sláttarbyrjun:
SB-Reykjavík Viðast hvar á landinu er nú almennt byrjað að slá, en þó draga bændur sláttinn heldur við sig, vegna sífelldrar úrkomu. Á þeim stöðum þar sem Tíminn leitaði heyskapa-frétta á föstudag, kvað við einn tón; gras vel sprottið, talsvert slegið, en liggur flatt í úrkomunni og bændur keyra mikið í votheysgryfjur. Snorri Þorsteinsson á Hvassafelli í Norðurárdal sagði að þar væri úrkoma á hverjum degi, svo að gras væri vel sprottið. Margir hefðu byrjað að slá fyrir viku, en hefðu litið getað hirt. Nú væri bara beðið eftir þurrkinum, en menn væru ekkert að barma sér, því að ekki væri öll nótt úti enn. Venjulega hefði sláttur ekki hafist i Norðurárdal fyrr en í kring um miðjan júlí. Þetta litur ágætlega út, og við erum bara bjartsýnir, sagði Snorri að lokum. Magnús Arnason á Tjaldanesi í Saurbæjarhreppi, Dalasýslu, hafði svipaða sögu að segja. Tíðin hefði verið hálf bág undanfarið. Nokkrir bændur byrjuðu að slá um miðjan júní og gátu hirt dálitið af því en síðan hefði ekkert náðst upp. Allt sem slegið hefur verið síðan um mánaðamót liggur flatt í rigningunni. Á þeim túnum, sem búið var að hirða af, þýtur nú upp háin, og á þeim óslegnu fer gras hvað úr hverju að spretta úr sér. Bændur eru að hugsa um að fara að demba í súrheysverkun, en biða þó enn eftir að veður lagist. Hjörtur Þórarinsson á Tjörn í Svarfaðardal sagði, að veðurfarið i Eyjafjarðarsýslu undanfarið hefði nálgast að vera Nóaflóð, og hefði heyskapur því lítið komist áfram. Gras sprettur úr sér, en það er enginn ástæða til að kvarta, það er ekki það áliðið. Árið hefur verið einstaklega gott og menn verða bara að bjarga grasinu með því að verka vothey. Sagði Hjörtur að síðustu hallærisárin hefði seinni sláttur aflagst, en í ár byggjust bændur við að fá góða há, ef svona héldi áfram. Enginn þurrkur ennþá, sagði Stefán Jasonarson i Vorsabæ i Gaulverjabæjarhreppi. Menn draga við sig að slá, en margir keyra i vothey. Það er hver síðastur að bjarga grasinu óskemmdu. Hér i sveitinni er á ferðinni vinnuflokkur með skriðmót, og steypir hann votheysturna fyrir bændur. Þrír eru risnir og sá fjórði er i byggingu. Turnar þessir eru 5 metrar í þvermál. Votheysverkun virðist ætla að verða þrautalendingin hér i sveit.
Svipaðar fréttir voru í Tímanum þann 16. og 20. júlí, en við sleppum þeim hér.
Tíminn segir af Skaftárhlaupi 22. júlí:
ÞÓ-Reykjavik Ofsavöxtur er nú í Skaftá og Eldvatni og hefur hlaupið haldið áfram að vaxa síðan það hófst í fyrramorgun. Er þetta hlaup orðið eitt hið allra mesta, sem menn vita, að komið hafi í Skaftá.
Undir lok mánaðar eru bændur orðnir órólegir - sérstaklega á Suður- og Vesturlandi. Tíminn segir frá 29.júlí:
JHReykjavfk. Sífelldir óþurrkar hafa allan þennan mánuð um landið norðan frá Húnaflóa og austur undir Eyjafjöll. Á jaðarsvæðunum hefur á ýmsu oltið, en austar og norðar hefur verið indælistíð og allt leikið í lyndi með heyskap, því að nærfellt alls staðar á landinu er grasvöxtur með ágætum. Í fám orðum sagt: Sums staðar er ekki þurrt strá komið í garð, en annars staðar er fyrri slætti svo til lokið. Óvíðast hafa verið ofstoparigningar á óþurrkasvæðinu, en í heilum héruðum hefur tæpast komið dagur, sem væri þurr til enda. Þótt glaðnað hafi til að morgni, hefur skúr fallið áður en kvöld var komið. Sums staðar getur ekki heitið, að ljár hafi verið borinn i gras, en þar sem slegið hefur verið, liggur langhrakið hey úti á vellinum. Best hefur Vestfirðingum tekist að sjá sér farborða í þessari vætutíð, því að þar er votheysverkun mest tíðkuð. En að sjálfsögðu á allmargt bænda i öllum héruðum að votheysturnum að hverfa, og standa þess vegna talsvert betur að vígi en aðrir. Tjónið þegar orðið gífurlegt Á Suðurlandi, um Kjós, Borgarfjörð og Mýrar og viðar, þar sem eru stór kúabú og fóðurþörf geysimikil, eru horfurnar vægt sagt orðnar ískyggilegar, og tjón það, sem bændur hafa orðið fyrir er þegar orðið gífurlegt, hvarvetna á óþurrkasvæðinu, jafnvel þótt senn bregði til hins betra, hvað þá ef svipað veður verður enn til langframa.
Garðyrkjubændur bera sig líka illa í Tímanum 30.júlí:
ÞS-Hveragerði. Það eru ekki aðeins þeir bændur á Suðurlandi, sem stunda búfjárrækt og verða að afla mikilla heyja, er verða hart úti vegna þess, hversu drungalegt veðrið er flesta daga. Þetta bitnar líka á garðyrkjubændum. Vegna sólskinsleysisins seinkar vexti, og jurtirnar verða grennri og daufari i bragði en þeim er eðlilegt, þegar himinn er heiður og sólskin langa daga, að minnsta kosti annað veifið.
Rétt um mánaðamótin virtist vera að breyta til, og þegar vika var af mánuðinum komu fáeinir góðir þurrkdagar. En svo hljóp aftur í vonskuveður. Í minningu ritstjóra hungurdiska var þetta sumar harla dauft, sólardagar fáir, sífelldar rigningar og illviðri. Eina sem lyfti nokkuð undir var skákeinvígið fræga í Laugardalshöll.
Tíminn segir frá 1.ágúst - miklar vonir sem svo brugðust:
Nú er mikill vélagnýr á söguslóðum Njálu, sagði fréttaritari Tímans á Hvolsvelli í gær. Hér er kominn þerrir eins og hann getur bestur orðið, og ég held ég fari ekki með fleipur, þótt ég áætli, að í dag hafi verið ræstar á milli ellefu og tólf hundruð dráttarvélar á svæðinu milli Þjórsár og Jökulsár á Sólheimasandi. Og sama er sagan auðvitað vestan Þjórsár hjá niðjum og erfingjum Haukdæla. Sólin stafar geislum af heiðum himni yfir allt Suðurland og allir sem vettlingi geta valdið, eru önnum kafnir á túnunum. Eins og ráða má af þessum orðum hefur ský dregið frá sólu í huga margra, og svo mun ekki aðeins hafa verið austan fjalls, heldur hvarvetna á óþurrkasvæðinu, því að loks glaðnaði til svo að segja alls staðar, þar sem verst hefur viðrað til heyskapar i júlímánuði.
Það var nokkuð misjafnt, hvenær birti til. Viða austan fjalls fór að létta i lofti upp úr hádegi í fyrradag, og svo var einnig sums staðar i uppsveitum Borgarfjarðar og sjálfsagt víðar. En þerrir mun alls staðar hafa verið daufur í fyrradag og skúrir viða, til dæmis við Faxaflóa og sums staðar i Barðastrandarsýslu. Annars staðar hélst þurrt, þótt ekki væri þerrir að gagni, einsog til dæmis viðast i Dölum. Á Vestfjörðum hefur rignt fram undir þetta, og þar var þoka i fyrrinótt og birti ekki til fyrr en um hádegi í gær. Þar mun þerrir hafa verið daufastur og tvísýnast, hvernig veður réðist.
Tíminn heldur áfram 2.ágúst:
Hinn þreyði þerrir varð aðeins flæsa. Í gærmorgun varð ljóst, að vonir manna um rífandi þurrk i nokkra daga hér sunnanlands og vestan höfðu brugðist. Í gær var yfirleitt dumbungsveður, skýjað en viðast úrkomulitið, en þó skúrir víða í sjávarsveitum við Faxaflóa og viðar. Víða hefur þó þessi flæsa orðið til mikils gagns. Austan fjalls var veður aðgerðalaust, viðast þurrt eða að minnsta kosti svo til. Náðist þar sums staðar upp mikið af heyi, þótt ekki væri jafnþurrt og æskilegt hefði verið. Í uppsveitum vestanlands mun flæsan einnig hafa komið að nokkru gagni. Hvernig svo ræðst um veður næstu daga er enn vandséð, þótt Veðurstofan virðist vænta norðlægrar áttar siðar i vikunni.
Þann 3. ágúst sagði Tíminn af breytingum í Öskju og hlaupi í Köldukvísl:
Þegar ég kom síðast í Öskju 23. júlí, reyndist vatnið í Víti miklu heitara en venjulega, tjáði Eysteinn Þorvaldsson blaðinu nú í vikunni. Ég hef alltaf rekið tærnar í vatnið, þegar ég hef komið þar, og nú reyndist það nær óþolandi heitt. Við mælingu reyndist vatnið 39,4 stig við land, þar sem það var kaldast, en hitnaði óðum, ef vaðið var út i það. Þetta bendir eindregið til þess, að það hafi hitnað i Víti i sumar. Blaðið sneri sér til Guðmundar Sigvaldasonar jarðefnafræðings hjá Raunvísindastofnun háskólans og leitaði álits hans á því, til hvers þetta kynni að benda. Við höfum veitt því athygli undanfarin ár, að vatnsborð Öskjuvatns virðist vera að hitna. Allmikil sprunga sýnist hafa myndast við austurströndina, og þar eru komnar volgrur. Eysteinn Tryggvason segir, að vatnsborðið sé að lækka að austan og landið að hallast til vesturs. Um hitabreytingar í Víti get ég ekkert sagt, hélt Guðmundur áfram, en þessi hiti i vatninu, sem þið nefnið er meiri en vera mun að jafnaði. Torvelt er að segja, hvort þetta kann að boða einhver tíðindi. Ég get sagt það eitt, að það getur gosið hvar sem er á landinu, en sá staður, sem maður myndi nefna öðrum fyrr, ef spá ætti í það, sem órætt er, er Askja. Og undanfari síðasta Öskjugoss, sem varð árið 1961, var aukinn jarðhiti, sem vart varð hálfum mánuði áður en það hófst.
Í fyrrinótt kom hlaup i Köldukvísl, og gróf það skarð i veg við brúna á leiðinni upp að Þórisvatni. Talið er, að vatnsmagn árinnar hafi aukist um tvö hundruð rúmmetra á sekúndu. Líklegt er, að hlaupið réni fljótt og verði um garð gengið innan fárra dægra.
Fáeinir góðir sólardagar komu snemma í águst, þ.2. og 3. og svo aftur 7. til 9. var sólskin nánast allan daginn í Reykjavík. En fljótt brá aftur til verri vegar. Mikla illviðrasyrpu gerði um og upp úr miðjum ágúst. Foktjón varð þó ekki mikið. Ritstjóra hungurdiska eru þessi leiðindi minnisstæð og eins og fleirum fannst honum komið haust. Fremur sjaldgæft er að miklir skúraklakkar komi í hvössum vindi af hafi yfir hásumarið. Þeir myndast fremur yfir landi. En í þessu tilviki varð ágústútsynningurinn óvenjukaldur.
Alþýðublaðið birti 19. ágúst fokfregn úr Grundarfirði, tjón varð einnig á Patreksfirði þar sem flutningaskip rakst á hafnargarðinn í miklu hvassviðri og olli töluverðum skemmdum. Kartöflugras eyðilagðist í veðurofsa í Vestmannaeyjum, hjólhýsi eyðilagðist í Hvalfirði:
Í þrjár vikur hafa smiðir unnið að því að slá upp fyrir nýjum barnaskóla á Grundarfirði, en í gær [föstudag 18. ágúst] varð verk þeirra að engu, þegar uppslátturinn hrundi eins og spilaborg i aftaka suðvestanroki. Búið var að ljúka við að slá upp ytri hring mótanna, sem umkringdu 700 fermetra grunn, og hafði sveitarstjórinn á Grundarfirði það eftir yfirsmiðnum, í viðtali við Alþýðublaðið i gærkvöldi, að mótin hefðu verið allvel stífuð, að minnsta kosti miðað við allar venjulegar kringumstæður.
Þetta er haustveður, haustrigning, haustvindur og kuldi eins og á hausti, og lægðin, sem er yfir Grænlandshafi á leið norðausturyfir er haustlægð. Þetta sagði Páll Bergþórsson veðurfræðingur í samtali við Alþýðublaðið í gærkvöldi, og hann sagði líka, að þetta haustveður mundi haldast fram á sunnudag, og veðrið í dag á að vera suðvestanátt með hvössum skúrum. Það getur glaðnað til á morgun, en líklega fer aftur að rigna á mánudaginn.
Morgunblaðið sagði 22. ágúst frá tjóni á leikmynd í framhjáhlaupi:
[Leikmynd fyrir kvikmyndina Brekkukotsannál stóð um þessar mundir í Gufunesi]. Í hvassviðrinu, sem gekk yfir á laugardag [19.ágúst], féllu svo þrjú smærri hús á Löngustétt. Í gærdag var svo hafist handa um að endurbyggja húsin.
Meðan á ágústillviðrum stóð á Suður- og Vesturlandi var veður mun skaplegra norðaustan- og austanlands. - En það má þó taka eftir því að hitatölurnar sem nefndar eru eru flestar harla lágar, enda lítið um 20 stig þetta sumar.
Tíminn 29.ágúst:
ÞÓ-Reykjavik. Þótt að Reykvíkingar verði að híma í roki og rigningu dag eftir dag, er ekki hægt að segja það sama um Norðlendinga og Austfirðinga. Í gær var t.d. 18 stiga hiti og sól á Akureyri, en þó að hitinn væri mikill þar, þá komst hann hærra á öðrum stað á Norðurlandi þ.e. Máná á Tjörnesi. Þar var heitast 25 stig um nónbilið i gær. Austfirðingar fóru ekki varhluta af sólinni. Hitinn komst t.d. i 19 stig i Neskaupstað eftir hádegið i gær, og um kvöldmatarleytið var þar 13 stiga hiti.
Tíminn fjallar um heyskaparsumarið í pistli 6.september:
StpReykjavik Dæmalausir óþurrkar hafa verið á Suðurlandsundirlendi í sumar. Í fyrrihluta ágústmánaðar kom þó þurrkur, sem stóð á aðra viku. Bændur á svæðinu urðu alls hugar fegnir og ruku upp til handa og fóta. Tókst þeim að ná inn miklum heyfeng þennan skamma tíma, en verkun er viða ábótavant. Í gær virðist aftur vera að heiða sunnan lands, og þess vegna sneri Tíminn sér til nokkurra manna á óþurrkasvæðinu til þess að kanna, hvernig þar væri ástatt. Jón R, Hjálmarsson, skólastjóri á Skógum undir Eyjafjöllum, sagði að þessa tíu daga i ágúst hefði náðst inn geysilegur heyfengur og tiltók sem dæmi Skógarsand, þar sem verið hefði afburðaslægja. Sagði hann bændur almennt vel á vegi stadda, hvað heyfeng snerti. Nokkrir bændur eiga enn eftir dálitið óhirt og biða nú eftir þurrkdögum til að ná því inn. Votheysverkun kvað hann fremur litla meðal bænda undir Eyjafjöllum, og væri sú heyskaparaðferð allt of skammt á veg komin. Kartöfluuppskera virðist ætla að verða góð, og enginn frostnótt hefur komið enn. Magnús Kristjánsson, bóndi í Norðtungu i Þverárhlið, sagði, aðeins og fram hefði komið í fjölmiðlum, hefði grasspretta verið ágæt i Borgarfirði í sumar, og bændur hefðu náð upp mjög miklum heyfeng þessa átta þurrkdaga i ágúst, en síðan hefði verið samfelldur óþurrkur. Verkun þess heys, sem tekið var inn, er góð, en víða er óhemjumikið hey úti i göltum og beðjum, og er það orðið illa hrakið, Nokkrir bændur eiga enn eitthvað óslegið, en annars verður ekki mikið slegið úr þessu, nema einstaka harðlendisbakkar, sagði Magnús. Þeir, sem hafa votheyspláss, hafa fyllt það, en annars er votheysverkun ekki ýkja útbreidd í Borgarfirði. Þórður Gíslason, Ölkeldu í Staðarsveit, kvað bændur á Snæfellsnesi yfirleitt ánægða með sumarið. Þurrkdagarnir í ágúst björguðu öllu, sagði Þórður. Ekki er mikið eftir að slá, en sökum bleytu eftir þetta votviðrasama sumar hefur ekki verið fært um ýms svæði, þar sem slá átti i vothey. Votheysverkun er því ekki mikil. Bændur á Snæfellsnesi eiga ekki mikið hey úti miðað við aðra bændur á Suðvesturlandi, en það er mjög illa farið.
Talsvert hret gerði norðanlands snemma í september (þó ekki jafnslæmt og ágústlokahretið árið áður):
Tíminn segir af því þann 8.september - og svo aftur þann 12.:
[8. september] Krap og snjókoma var á fjallvegum norðanlands og austan í fyrrinótt [aðfaranótt 7.]. Hálka var á mörgum vegum og tvær heiðar tepptust algjörlega. Hjá Vegagerð ríkisins fengum við þær upplýsingar. að Vopnafjarðarheiði og Axarfjarðarheiði hefðu alveg teppst, og sömuleiðis mun Hellisheiði eystri hafa lokast. Á Möðrudalsöræfum var bleytuhríð og hálka en aldrei varð ófært þar um slóðir. Sömuleiðis varð Vaðlaheiði erfið yfirferðar fyrir smábila. sérstaklega ef þeir höfðu ekki keðjur. Búist var við svipuðu veðri í nótt og var í fyrrinótt, og þar af leiðandi má reikna með einhverri snjókomu eða krapahríð á fjallvegum norðanlands. Reyndar snjóaði viða alveg niður i byggð, eins og t.d. á Akureyri og Dalatanga.
[12. september] StpReykjavík. Illskuveður með fannkomu og veðurofsa gekk yfir Norðausturland i vikunni sem leið, og stóð það upp undir 6 daga sums staðar. Fjallvegir lokuðust og tók fyrir jörð að mestu. Menn eru nú sem óðast að fara i göngur, en sums staðar hefur orðið að fresta þeim sökum veðurs. Í gær hafði birt til fyrir norðan og var komin þíða, Unnið er nú að því að opna helstu fjallvegi, en Möðrudalsöræfi voru rudd á sunnudaginn. Um miðjan dag í gær, var enn ekki búið að ryðja Vopnafjarðar- og Hellisheiði, en fært var norður fyrir Strandir. Axarfjarðarheiði var einnig ófær. Í Vopnafirði hafði snjóað alveg niður í byggð og tekið fyrir beit, bæði vegna snjóa og bleytu. Áætlað er, að fara i göngur á miðvikudaginn, og eru bændur mjög uggandi um að fennt hafi fé. Í Reykjahlíð átti að rétta í dag, en því hefur verið frestað, þar sem ekki hafði verið fært í göngur. Í viðtali i gær sagði Pétur Jónsson í Reynihlið, að óvist væri, hvort farið yrði í göngur í dag vegna bleytu og þungrar færðar, en annars væri komið nokkuð gott veður. Sagði hann, að mikil hætta væri á því, að eitthvað hefði fennt af fé. Fé hefur mikið sótt niður í byggð síðustu daga og hefur það verið réttað. Rafmagnið fór af í Mývatnssveit á sunnudagsnótt, er blautur snjórinn, sem hlaðist hafði utan á vírana, sleit þá niður á tveim stöðum. Það sama gerðist i illviðrinu i ágúst i fyrra. Viðgerðarmenn unnu að því í gær að tengja línurnar saman. Á Grímsstöðum á Fjöllum er snjólagið orðið 2030 sm þykkt á jafnsléttu, en mikið hefur blásið í skafla, sem eru allt að því mannhæðarháir. Áhyggjur bænda vegna fjárins á afréttunum eru því miklar sem skiljanlegt er. Auk þeirrar hættu, að féð hafi fennt, hafa hættur við læki og vilpur stóraukist.
Tíminn segir af slysförum 26.september:
SB-Reykjavik. Bóndi að Stafholtsveggjum i Borgarfirði, fannst látinn síðdegis á sunnudaginn i Haukadalsdrögum, norðvestur af Tröllakirkju. Hann hafði týnst í göngum á laugardaginn og höfðu 250 manns leitað hans dauðaleit með aðstoð þyrla og sporhunda í tæpan sólarhring. ... Suðvestan stormur var, úrhellisrigning og þoka.
Eftir hretið var tíð góð fyrir norðan. Tíminn segir frá þann 1. október:
Enn er sama jórsalaveðrið á Norðurlandi, sífelld hlýindi, oftast sem næst sumarhiti og stundum vel það og mesta kyrrð. Fjörðurinn er hvítur af logni, sagði fréttaritari Tímans á Akureyri, og enn hefur ekki komið nein frostnótt þetta sumarið. Kartöflugrös standa algræn, þar sem þau hafa verið látin óhreyfð, og ég fullyrði, að kartöflur hafa vaxið, svo að miklu nemur, siðast liðinn hálfan mánuð. Það er algengt, að góð tíð sé norðanlands í septembermánuði, þegar haustrigningarnar svonefndu eru hvað stríðastar á Suðurlandi. En þessi blíðukafli er orðinn venju fremur langur, auk þess sem hann hefur verið sérlega ljúfur.
Fregnir bárust af framhlaupi í Eyjabakkajökli. Tíminn segir af því 6.október (stytt):
Eyjabakkajökull mun hafa byrjað að skríða fram í endaðan ágústmánuð, sagði Þorfinnur Sigmundsson á Kleif i Fljótsdal í símtali við Tímann í gær. Þá fóru fyrst að sjást litbrigði á Jökulsá. Við vorum að koma úr annarri leit einmitt núna. Sjálfur fór ég ekki alveg fram að jökli, en ég hef af því sannar spurnir, að jökullinn hefur gengið fram um einn kílómetra, þar sem mest hreyfing er á honum. Annars staðar er það minna. Tíminn átti einnig tal við Sigurjón Rist vatnamælingamann. Hann sagði, að jökullinn hefði hlaupið mjög fram fyrir síðustu aldamót en síðan væri ekki hægt að segja, að til neinna stórtíðinda hefði dregið, nema ef það yrði núna.
Viku af október snjóaði nokkuð nyrðra, en ekki til vandræða. Það var ekki fyrr en undir lok mánaðarins að hann gekk í versta veður - fyrst á Suðurlandi, en síðan einnig fyrir norðan og þar varð gríðar mikið tjón vegna ísingar á síma- og rafmagnslínum.
Tíminn segir fyrst frá 28. október:
SB-Reykjavík. Um miðnætti i fyrrakvöld [26. október] skall á norðaustanátt með snjókomu á Suðurlandi og stóð veðrið fram yfir hádegi i gær. Vegir urðu víða illfærir og bílar festust hópum saman. Mjólkurflutningar til Selfoss gengu illa og var lítil mjólk komin í Mjólkurbú Flóamanna um þrjúleytið i gær. Rafmagn fór af Hveragerði um.hádegið og kom ekki aftur fyrr en um kl. fjögur. Pálmi Eyjólfsson á Hvolsvelli sagði blaðinu um tvöleytið í gær, að þar væri veðrið að ganga niður, en ófærðin væri mikil. Til dæmis hefðu mjólkurbílarnir, sem venjulega eru þar um klukkan átta, ekki komið fyrr en undir hádegi. Þetta er illviðri, sagði Sigurbjartur Guðjónsson í Þykkvabæ. En sem betur fer er ekkert frost og snjórinn er blautur. Bændum í grenndinni tókst ekki öllum að ná fé sínu í hús, en það er allt nærri og engin hætta búin. Veðurhæðin er ein átta vindstig og hefur verið síðan í gærkvöldi. Sennilega er allt ófært, því að enginn bíll hefur komið hingað. Annars er líklega ekki gott að aka, því að varla sést út úr augum. Guðbjartur Jónsson í Mjólkurbúi Flóamanna, sem sér um mjólkurflutninga sagði um kl. þrjú í gær, að lítið væri komið af mjólk til búsins, því að flutningar gengju erfiðlega. Hann sagði, að við Brekknaholt utan við Rauðalæk, um 30 km frá Selfossi, sætu allmargir bilar, stórir og smáir, fastir og hefðu verið þar í eina 4-5 tíma. Verið væri að byrja að moka frá þeim. Veðrið sagði Guðbjartur að væri hið versta enn. Í Hveragerði kom ekki mikill snjór, en Þórður Snæbjörnsson sagði, að þetta væri óvanalegt
veður á þessum árstíma. Kennslu var aflýst i skólum þar eftir hádegi í gær, vegna veðurs, en mjög hvasst var og skyggni lélegt. Háspennulinan milli Hveragerðis og Selfoss bilaði laust fyrir hádegi og ljósið kom ekki aftur í Hveragerði fyrr en undir kl. fjögur í gær. Veðrið var tekið að ganga allmikið niður i Hveragerði seinnipartinn í gær og snjórinn farinn að digna.
KipRcykjavik. Síðari hluta dags í gær brast varnargarður við Búrfellsvirkjun og olli það nokkrum erfiðleikum þar efra. Varð að kalla út starfslið og taka í notkun mikinn fjölda stórvirkra vinnutækja, til að fylla upp í skarðið. Átti að vinna við þetta alla síðustu nótt, en talið var að verkinu yrði lokið einhverntíma síðari hluta dags í dag. Í gærkveldi var ekki talið að kæmi til skömmtunar rafmagns, en til að forðast það, átti að auka rafmagn frá Soginu og setja stöðina við Elliðaár á fullan kraft. Stífla þessi er bráðabirgðagarður og er gerður að mestu leyti úr sandi. Hann hefur til þessa haldið hlaupum og svipuðum og gerði i gær, en þau hafa oftast komið eftir langvarandi frost, og þá hefur hann verið það harður, að hann hefur haldið. Mikið krap myndaðist i ánum i gær, þegar skall á með blindbyl, enda árnar opnar upp í jökla, eins og Halldór Eyjólfsson, við Búrfell sagði, er við náðum tali af honum í gærkvöldi. Hafði áin þegar fyllst af snjókrapi, sem safnaðist fyrir á skömmum tíma og hlóðst upp við varnargarðinn, sem ekki þoldi álagið, og brast.
Kortið sýnir stöðuna snemma að morgni laugardagsins 27. október. Allmikil lægð er fyrir sunnan land á hægri leið til norðurs. Mjög hlýtt loft barst til norðurs austan við lægðina og yfir landið, en kaldari austan og norðaustanátt var í neðri lögum. Úrkoman varð einna mest austanlands og þar urðu vatnavextir og skriðuföll. Á Suðurlandsundirlendinu gerði hríðarveður, suðvestanátt var um tíma í háloftum, við slík skilyrði veit úrkoman ekki af fjöllum og þá getur snjóað og rignt á Suðurlandi - þótt hvass sé þar á norðaustan. Norðanlands ýmist rigndi eða snjóaði. Þar sem hiti var nærri frostmarki hlóðst slydduísing á síma- og raflínur.
Tíminn segir af vatnavöxtum og skriðuföllum eystra í pistli 31.október - og síðan af ísingartjóni víða um land:
ErlReykjavik. Mikið úrfelli herjaði á Austurland um og fyrir helgina. Vegir stóðu eftir flakandi í sárum eða á kafi í vatni. Hefði rignt klukkustund lengur, hefði þetta allt endað með ósköpum, sagði Egill Jónsson, vegaverkstjóri á Reyðarfirði, er Tíminn ræddi við hann í gær. En það stytti loks upp um hálffjögurleytið á sunnudag. Í gær var svo austlæg átt með sudda þar eystra, en veðurspáin ekki góð. Menn kviða því mest, ef hann gerir frost og snjó strax ofan á þessa bleytu, því að slíkt hefur hvorki góð áhrif á jörð né vegi, en menn vona hið besta og þar með, að veðurfræðingunum skjátlist í þetta sinn. Skemmdirnar urðu reyndar minni en haldið var i fyrstu. Ljósá i Reyðarfirði olli þó talsverðum skemmdum og lækur hjá Sómastöðum bólgnaði upp og gróf úr vegi. Þegar rigningin hófst var talsverður snjór til fjalla og olli það hinum skyndilegu vöxtum, er hlákurigningin bræddi hann. Að sunnanverðu í Reyðarfirði urðu svo minni háttar skemmdir, en í Vattarnesskriðum grófst allverulega úr veginum á föstudag og laugardaginn og á sama tíma lokaðist vegurinn hjá Brimnesgerði í Fáskrúðsfirði. Þessar skemmdir hafa nú verið lagaðar ásamt flestum hinna, en allan tímann hefur stöðugt verið unnið að viðgerðum. Egill sagðist t.d. hafa verið með flokk á Oddsskarði bæði á laugardag og sunnudag. Byrjuðu þeir á snjómokstri, en stóðu síðan í stöðugum vatnsveituframkvæmdum og björguðu veginum frá því að spillast. Mestar skriður munu þó hafa fallið á veginn suður i Hvalnes- og Kambaskriðum á milli Stöðvarfjarðar og Breiðdals. Þar féllu aurskriður á veginn aðfaranótt laugardags, en þeim var rutt burt strax daginn eftir. Suður i Breiðdal urðu svo minni skemmdir af völdum vatns. Héraðsbúar sluppu betur en þeir niðri á fjörðunum,en þó engan veginn skaðlaust, Yfirborð Skriðuvatns i Skriðdal hækkaði svo mikið, að á veginum hjá Vatnsskógum var metra djúpt vatn. Það sjatnaði þó strax og upp stytti. Vatnið hefur afrennsli í Grímsá, og ætti því ekki að hafa orðið þurrð á vatni á vélar virkjunarinnar þar þessa daga. Grímsá gróf einnig úr veginum hjá brúnni á Völlum, svo að þar varð vart fært. Þar var unnið að viðgerð í gær. Ekki sagði Egill, að rétt væri að þegja yfir góðu tíðindunum i vegamálum Austfirðinga, en um hádegi í gær var lokið við að steypa gólfið á nýju brúna yfir Gilsá á Jökuldal, en að henni verður geysileg samgöngubót. Með henni verður rutt úr vegi næst síðustu aðalhindruninni fyrir stöðugu sambandi Austfirðinga við umheiminn, en hin er Námaskarð.
Eskfirðingar urðu verst úti. Hér rigndi látlaust frá því á föstudagskvöld og fram á sunnudag, sagði Sigmar Hjelm á Eskifirði. Börnin voru farin að óttast, að þetta væri nýtt syndaflóð. Tjónið nemur sjálfsagt nokkrum hundruðum þúsunda, og liggur nær eingöngu i vega- og gatnaskemmdum, en hús sluppu að mestu. Í innri hluta bæjarins liggur nýr vegur uppi í hliðinni. Hann grófst í sundur á nokkrum stöðum, og skolaði vatnið efninu úr honum niður á annan veg og lokaði honum þar með. Víðar í bænum stífluðust svo ræsi og flæddi yfir vegi, en þó munu garðar bæjarbúa hafa sloppið frá skaða. Aurskriða féll á gamalt geymsluhús og olli nokkrum skemmdum, og vatn gróf frá ófrágengnu íbúðarhúsi. Ekki hefir frést af vatni í kjöllurum húsa, a.m.k. ekki svo að tjón hlytist af.
Hafsteinn Jónsson, vegaverkstjóri á Höfn, sagði að skemmdir á sínu svæði hefðu ekki orðið miklar. Þó grófst vegurinn yfir Lónsheiði nokkuð, en hann hafði áður lokast vegna snjóa á föstudag. Þaðan urðu síðan minni háttar skemmdir norður um, allt austur á Breiðadal. Er viðgerðum nú lokið á því svæði. Í Skaftafellssýslu sunnan Almannaskarðs urðu engar umtalsverðar skemmdir, en þar var fyrir töluverður snjór, sem nú er alveg horfinn eftir þessa miklu hláku. Eins er Lónsheiði orðin nær alauð, en Hafsteinn var einmitt að koma þaðan, er til hans náðist.
Kortið sýnir háloftastöðuna um hádegi þann 27. október. Vel má sjá framsókn hlýja loftsins - og hvernig kalda loftið norður undan heldur gegn því. Lægðin vefur smám saman upp á sig og áttin varð austlæg í öllum hæðum. Þá stytti upp að mestu á Suðurlandi.
[Áfram úr Tímanum 31. október] SBReykjavik. Tvö til þrjú hundruð símastaurar brotnuðu á landinu í óveðrinu fyrir helgina,og á þriðja hundrað rafmagnsstaurar brotnuðu eða lögðust niður. Víða er enn rafmagns- og símasambandslaust, og sums staðar getur viðgerð dregist fram eftir vikunni. Einna verst er ástandið í Húnavatnssýslu og Strandasýslu, en þar hefur verið rafmagnslaust síðan á föstudagskvöld. Jón Baldur Helgason hjá Rafmagnsveitum ríkisins, sagði blaðinu í gær, að alls staðar væru viðgerðarflokkar að störfum,og viða væru vararafstöðvar komnar i notkun i bili. Hvammstangabúar hafa farið einna verst út úr rafmagnsleysinu, því viðast er það svo þar, að rafmagn þarf til að knýja olíuhitunartæki húsa og hefur því verið kalt í húsum. Menn hafa notast við kósangas til eldunar, en í gær var allt gas þrotið í kauptúninu. Vararafstöð var í gær send norður og hefur væntanlega verið sett i gang í gærkvöldi. Rétt ofan við þorpið brotnaði 31 rafmagnsstaur. Þá brotnuðu 50 staurar á Skagastrandarlinu og 20 til viðbótar lögðust niður. Ekki var þó rafmagnslaust lengi, því varastöð er á Skagaströnd. Í Kirkjubólshreppi við Hólmavik brotnuðu 40 staurar alls 20 á Selsströnd og 8 í Bjarnarfirði. Varastöð er á Dranganesi, en enn er dimmt í sveitunum, og mun viðgerð taka 3-4 daga enn. Línan milli Hólmavikur og Króksfjarðarness er í lagi.og Króksfjarðarnes hefur rafmagn, en í Geiradal eru 15 staurar brotnir og verður dimmt þar nokkra daga enn. Við Saurbæ í Dölum eru um 20 staurar brotnir. Þar er varastöð en litið gagn er að henni, þar sem línur liggja niðri. Í Miðdölunum liggja 20 staurar niðri og tveir eru brotnir við Kvennabrekku. Í Ólafsfirði brotnuðu 17 staurar í linum heim að sveitabæjum og 20 lögðust niður. Aðallínan var þó í lagi, en rafmagnið var skammtað á Ólafsfirði á tímabili. Búist var við, að rafmagn kæmist aftur á bæina í gærkvöldi. Í Hvalfirði brotnuðu 17 staurar hjá Olíustöðinni, en hægt var að afgreiða olíu með aðstoð varastöðvar. Hjá Hvalstöðinni kom rafmagnsleysið ekki að sök, þar sem hún starfar ekki, en Ferstikla og Botnsskálinn myrkvuðust. Ennfremur urðu rafmagnstruflanir á Snæfellsnesi og viðar. Ekki er ástandið betra í símamálunum. Ársæll Magnússon, yfirdeildarstjóri Pósts og síma, sagði að 30 40 manns ynnu nú að viðgerðum víða um land, en það væri ekki nægur mannskapur, því enginn væri við slíkum hamförum búinn og því gæti viðgerð tekið nokkurn tíma. Bændur vinna víða að viðgerðum með símamönnunum. Á Skagaströnd brotnuðu 86 símastaurar, bæði á landssíma og notendalinum, og er enn ekki komið á samband, nema við kaupstaðinn. Í Strandasýslu er fjöldi símstöðva sambandslaus og eru viðgerðarflokkar frá Blönduósi þar að vinna. Sjö staurar eru brotnir á Stikuhálsi, sjö hjá Gröf í Bitru og í Tungusveit og á Selströnd er mikið brotið og slitið niður, en það er enn ekki fullkannað. Í Dalasýslu eru einnig margar stöðvar sambandslausar og mun taka daga að gera við bilanirnar. Hjá Þorbergsstöðum eru 17 staurar brotnir og á Haukadalslinu er einnig mikið brotið og liggur niðri. Yfir 20 staurar eru brotnir á Fellströnd og verið er að kanna skemmdirnar við Neðri-Brunnaá, en þær munu allmiklar. Ekki kvað Ársæll unnt að skipta um alla þá staura. sem brotnir eru, heldur væru þeir reistir á brotin og styrktir til bráðabirgða.
Hér má sjá veðurkort að morgni 17. október. Mikil hríð er á Suðurlandsundirlendi, en minni úrkoma við Faxaflóa. Haugarigning er á Austurlandi og fyrir norðan ýmist rignir eða snjóar.
Um kvöldið þann 27. var komin rigning á Suðurlandi - og síðan stytti þar upp að mestu. Á Austfjörðum rignir mikið (táknað með þremur eða jafnvel fjórum punktum). Á Norðurlandi er sitt á hvað með úrkomutegund.
[Áfram úr Tímanum 31. október] SB Reykjavik. Fjögur hross fennti í óveðrinu á Suðurlandi fyrir helgina, en ekki er vitað til að fé hafi fennt. Hrossin fjögur voru frá Árbæjarhjáleigu i Holtahreppi í Rangárvallasýslu, og voru þau eign Guðna Ólafssonar, lyfsala. Fundust hrossin í framræsluskurði, sem fennt hafði yfir.
Flosi Hrafn Sigurðsson og Eiríkur Sigurðsson fjölluðu ítarlega um þetta veður í grein sem birtist í tímaritinu Veðrinu (19. 1975, 1.tölublað, s.8. til 19.) og er áhugasömum bent á hana.
Enn eru fréttir af tjóni í illviðrinu mikla í Tímanum þann 3. og 4. nóvember:
[3.nóvember] ÞÓReykjavik. Í vatnsveðrinu, sem lamdi Austfirði um síðustu helgi, rann mikið úr vegum hér i Neskaupstað. Vegir,sem liggja hér í hliðum, voru viða sundurskornir, þegar loksins stytti upp, en alvarlegar vegaskemmdir urðu ekki, sagði Benedikt Guttormsson, fréttaritari Tímans þar eystra, er við ræddum við hann. Í rigningunni komst vatn sums staðar inn í kjallara, en ekki mun vatnselgurinn hafa valdið neinum skemmdum, sem heitir.
[4.nóvember]: SBReykjavik Ljóst er að talsvert hefur fennt af fé í óveðrinu fyrir viku. Á Snæfellsnesi skall veðrið svo snögglega á, að mönnum vannst ekki tími til að huga að fé sinu. Vitað er, að 30 kindur fennti á Hlið í Hnappadal og 20 á Hjarðarfelli í Miklaholtshreppi. Þá vantar fé á mörgum bæjum í Borgarfirði, og eitthvað af því hefur fundist dautt. Er það frá bæjum i Reykholtsdal, Flókadal og Hálsasveit.
Aðfaranótt 6. nóvember gerði enn sjávarflóð í Grindavík og víðar - í þriðja sinn á árinu. Tíminn 7.nóvember:
ÞÓSBReykjavik. Í óveðrinu, sem geisaði í fyrrinótt, var foráttubrim víða við suðurströndina. Á Stokkseyri sökk tíu lesta trillubátur við bryggju, og í Grindavik gekk sjór hátt á land og olli þar talsverðum usla. Þar kastaðist vélbátur upp á bryggjuhaus, en sogaðist svo út aftur, og fiskverkunarhús laskaðist. Í Grindavik var sjógangur mestur frá klukkan sex til átta í gærmorgun, og er hætt við, að verr hefði farið, ef sjóvarnargarðarnir, sem gerðir voru þar í sumar, hefðu ekki verið komnir. Grindvíkingar, sem við hittum að máli þar syðra i gærmorgun, sögðu okkur, að ölduhæðin hefði sennilega verið um tólf metrar, þegar verst lét, og gengu holskeflurnar þá óbrotnar alveg inn á garðana. Röskuðust þeir lítillega og stórgrýti hentist upp á gamla hafnarbakkann. Það var fiskverkunarhús Hóps h.f., sem laskaðist, enda gekk sjórinn alveg upp að því og fiskverkunarhúsi Þorbjarnar h.f. Þarna voru einnig hildarsöltunarplön og lágu tómar síldartunnur á víð og dreif um allt, innan um grjót og þang, sem sjórinn hafði borið á land.
Fyrstan manna í Grindavík hittum við Guðmund Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Hóps, og var hann að vinna við fisk i húsinu, ásamt starfsfólki sinu. Hann sagði að meira en litið hefði gengið á, er sjórinn skall á framhlið hússins á flóðinu um morguninn. Búið var að steypa hluta af framhliðinni, en þar sem bárujárnið var eitt lét allt undan. Á löngum kafla hafði bárujárnið losnað og veggurinn gengið inn. Sem betur fór komst ekki sjór að ráði i húsið því að tréþil, sem var innan undir bárujárninu stóðst átökin. Guðmundur sagði, að sjór hefði nú náð að skella á húsi Hóps vegna þess, að nýi varnargarðurinn vestan við gamla hafnargarðinn, er rétt framan við fiskverkunarstöðina, og þvingar hann sjóinn upp i krikann, þar sem húsið stendur, þegar brimið fer hamförum i slíku aftaka sunnanveðri. Það verður að bæta við varnargarðinn hér fram með húsinu, ef ekki á illa að fara, sagði Guðmundur. Hann gat þess líka, að hann væri hræddur við kvöldflóðið, ef vindur gengi ekki til vesturs, þegar liði á daginn. Að lokum sagði Guðmundur, að flóðið í gærmorgun hefði fyllilega jafnast á við flóðið, sem kom í Grindavík fyrr á þessu ári.
Niðri í fjörukambinum hittum við Tómas Þorvaldsson, framkvæmdastjóra Þorbjarnar h.f. Ekki vildi hann fullyrða, að þetta væri mesta brim, sem hann myndi eftir. Það væri oftast svo, að menn segðu síðasta brimið mest, er komið hefði. Árið 1954 kom gífurlegt brim i Grindavik, sagði Tómas. Þá gekk sjórinn inn í hús Þorbjarnar, og þangað kastaðist keila með einni holskeflunni, er lenti á húsinu. Sennilega hefur fiskurinn rotast hér fyrir utan og hafrótið svo fleygt honum upp. Þegar þetta gerðist átti Tómas ellefu stakka af saltfiski á fjörukambinum, og þegar veðrið, lægði voru þeir allir komnir á kaf i grjót. Einnig sagðist Tómas muna eftir gífurlegu hafróti árið 1924, og lét þá illa fyrir framan Járngerðarstaði, og þar átti Tómas heima. Eins og fyrr segir var ljótt umhorfs á síldarplani Þorbjarnar. Síldartunnur lágu á við og dreif og grjót, þang og spýtnabrak þakti algjörlega síldarplanið. Sagði Tómas, að oft hefðu 5-6 þúsund síldartunnur legið þarna í stöflum, og hefði nú farið illa, ef síldarsöltun hefði verið á þessu hausti. Annars urðu engar verulegar skemmdir hjá Þorbirni.
Ingólfur Karlsson, hafnarstjóri Grindvíkinga, hafði i mörgu að snúast, þegar við hittum hann á nýju hafnaruppfyllingunni, þar sem menn voru í óðaönn að binda báta sina, sem rammlegast fyrir kvöldflóðið og bjarga veiðarfærum, sem lágu á bryggjunum. Ingólfur sagðist aldrei hafa séð annað eins brim i Grindavik. Það hefði illa farið, ef þess hefði ekki notið, sem gert var i sumar nýja garðsins vestan við höfnina og endurbótanna á austurgarðinum, sem skemmdist nokkuð i síðasta stórbrimi. Ingólfur kvaðst hafa verið niðri við höfn frá því klukkan fjögur í fyrrinótt, og mestu lætin hefðu verið um sexleytið og á sjöunda tímanum, þegar Staðarbergið, sjötíu lesta stálbátur, kastaðist upp á bryggjuna. Þetta gerðist allt i einni svipan. Ein báran hratt bátnum, að miklum krafti upp á bryggjuna. Báturinn hélst þar uns útsogið kom, en þá féll hann fram af bryggjunni. Staðarbergið lá vestast í vesturhöfninni, en þegar veðrið fór að lægja á fjörunni, þá var báturinn færður yfir á annan og öruggari stað. Ingólfur sagði, þegar við kvöddum hann, að hann væri mjög hræddur um, að skemmdir myndu hljótast á kvöldflóðinu, það eina, sem gæti bjargað þeim, væri að veðrið lægði og áttin snérist meira i vestur. En annars sagðist hann vera hræddur um að brimið yrði enn meira en í morgun, þar sem straumur væri stækkandi og brimið hefði haldið áfram að grafa sig í allan dag. Sem betur fór gekk hann í vestrið. Um háflóð í gærkvöldi kom þó svo mikill sjór inn á höfnina, að hann jaðraði við bryggjubrúnir. Þá voru fjörutíu bátar þar inni, en ekki var þeim talin hætta búin.
Foráttubrim var i Sandgerði þessa sömu nótt, en síðdegis í gær hafði vind lægt mikið og áttin breyst. Engar skemmdir urðu af veðrinu í Sandgerði. Mjög flóðhátt var i Þorlákshöfn um klukkan sex i gærmorgun og gaf yfir allar bryggjur. Brimið skildi eftir sig mikið af þangi og þara, en engar skemmdir urðu. Hafnarnesið veitir vernd í þessari átt, en hefði áttin verið suðaustlæg, er hætt við að verr hefði farið. Á Eyrarbakka varð brimið eitt það mesta, sem menn hafa séð. Afspyrnurok var og skvettist sjór inn um hlið á sjógarðinum. Enginn bátur var í höfninni og bryggjan er í vari, svo ekkert skemmdist, en þari er á við og dreif um allt. Óveðrið var mikið á Stokkseyri og sökk þar 12 lesta trilla við bryggju. Ekki er vitað um skemmdir á henni, en reynt verður að ná henni upp við fyrsta tækifæri. Hafrótið var geysilegt og gekk sjór upp úr sjógarðshliðum. Er þetta mesta brim, sem komið hefur á Stokkseyri um langan tíma.
Kortið sýnir stöðuna að morgni þess 6. nóvember. Djúp lægð er yfir Grænlandshafi og Reykjanes inn í vindstreng hennar (sem oft er kenndur við snúð). En það kemur samt nokkuð á óvart að staða sem þessi geti valdið svona miklu flóði. En það var um það bil stórstreymt, nýtt tungl þann 5. Margs er að gæta varðandi sjávarflóð. Hér hljóta sjávarföll og vindáhlaðandi að hafa hitt vel saman.
Nokkrum dögum síðar brimaði einnig í Bolungarvík. Tíminn 11.nóvember (stytt):
Krjúl-Bolungarvík. Stórbrim hefur verið hér undanfarna daga, enda veðurhæðin mikil. Ekki er gott að segja um skemmdir af völdum veðursins ennþá.en þó er ljóst að fremsti hluti lengri skjólgarðsins hefur sigið eitthvað. Langt er þó enn til þess að hann hverfi i djúpið, slík hafa stundum orðið örlög hafnargarða. Ófært hefur verið inn til Ísafjarðar, en nú er unnið að snjómokstri á leiðinni.
En illviðri voru ekki aðeins á Íslandi. Tíminn 14. nóvember:
Fárviðri gekk yfir Evrópu í gær: Kirkjuturnar hrundu, húsaþök og strætisvagnar flugu 30 manns fórust og hundruð slösuðust.
Nóvembermánuður varð gríðarlega snjóþungur á Norður- og Norðausturlandi og olli snjórinn alls konar vandræðum.
Tíminn segir frá í allmörgum pistlum:
[15. nóvember] FZHóli, Svarfaðardal. Í Svarfaðardal framanverðum er jafnfallinn snjór nú um einn metri. Stanslaust hefur snjóað í viku og allan tímann hefur varla komið vindgustur. Menn eiga erfitt með að komast leiðar sinnar og standa nú í að moka ofan af húsum, sem ekki þola þennan snjóþunga. Allar skepnur voru teknar i hús þegar er byrjaði að snjóa. Mjólkurbíll hefur komist um dalinn, en verið lengi í ferðum. Eitthvað virðist ganga erfiðlega að fá snjómoksturstæki til að koma fram i dalinn. Annars er þetta allt i lagi meðan ekki gerir hvassviðri og við höldum símanum og rafmagninu.
[17.nóvember] KDAkureyri Hi/11 Meiri snjór er nú kominn víða norðanlands, en nokkru sinni kom í fyrravetur. Er þetta jafnfallinn snjór, allt að metra á dýpt og sums staðar enn dýpri. Ef nokkuð blæs verður allt ófært á svipstundu, því snjórinn er mjög laus í sér. Í gær var opnaður vegurinn til Dalvikur og fram dal og Múlavegur, en hann var ruddur i fyrradag og lokaðist aftur um nóttina. Í Eyjafirði, framan Akureyrar, var mokað í fyrradag. Allir flutningar fara nú fram á tíu hjóla trukkum með framdrifi, en geta má þess að einn mjólkurbílstjóri, Jón Ólafsson úr Öngulsstaðahreppi, hefur tönn á mjólkurbílnum og mokar með sér. Vegagerðin hjálpaði í fyrradag bílalest að sunnan, austur yfir heiðar, til Reynihliðar, og ætlunin var að hjálpa henni áfram yfir Möðrudalsöræfin í gær. Tjörnesið er fært að Auðbjargarstaðabrekku, en þar er geysimikill snjór. Norðurlandsvegur verður opnaður þriðjudaga og föstudaga meðan veður leyfir, og á mánudögum og föstudögum verður Dalvikurleiðinni haldið opinni og Húsavikurleið á mánudögum. Á Akureyri er sífellt unnið að því að ryðja götur og eru ruðningar viða um tveggja metra háir. Innan við ruðningana má viða sjá búlgur á snjónum, en þar undir eru bílar. Fjölmargir bifreiðaeigendur á Akureyri hafa
gefist upp við að halda bílum sínum gangandi í ófærðinni.
[21.nóvember] Gífurleg fannkoma hefur verið á Austfjörðum síðan á laugardagskvöld, og eru þar allar leiðir ófærar, jafnt götur kauptúnanna sem þjóðvegir, og mun við það sitja, þar til rutt verður. Mun langt síðan svo mikinn snjó hefur sett niður jafnsnemma hausts. Blaðamaður frá Tímanum, Þorleifur Ólafsson, símaði til dæmis þær fréttir úr Neskaupstað í gær, að það væri hið mesta fannfergi i bænum. Þar var norðaustanvindur, sex til átta vindstig, og hefur snjóinn skafið úr fjallinu niður i bæinn. Þar voru allar götur ófærar, nema sú neðsta, er rudd var eftir helgina, svo að fiskvinna stöðvaðist ekki. Viða skefldi svo upp að húsum, að moka varð fólk út úr þeim, og bilar festust víðs vegar um bæinn á sunnudagsnóttina. Munu þeir verða til mikils trafala, þegar byrjað verður-að ryðja göturnar. Er snjólagið ofan á þeim sums staðar orðið eins til tveggja metra þykkt, og hafa eigendur gripið til þess ráðs að merkja staðina með stöngum og flöggum, svo að þeir verði siður fyrir hnjaski og skemmdum, þegar göturnar verða ruddar.
Fréttaritari Tímans á Seyðisfirði, Ingimundur Hjálmarsson, sagði, að snjóað hefði sérstaklega mikið í logni í fyrrinótt, og var jafnfallinn snjór i bænum, er fólk kom á fætur. Var þegar hafist handa um að ryðja götur, og er þar akfært um allan bæ, en bílar þó viða á kafi, þar sem þeim hafði verið lagt. Það óhapp varð, er verið var að ýta snjó af götunum, að ýtutönn braut vatnshana, og varð af þeim sökum vatnslaust í einum bæjarhlutanum um tíma í gær.
Á Fljótsdalshéraði er einnig mikill snjór. Þar var fannkoma allan sunnudaginn, en virtist vera að létta til, er leið á daginn í gær. Þar voru allir vegir ófærir, nema hvað tveir bílar með drif á öllum hjólum brutust til Reyðarfjarðar til þess að sækja mjólk. Á Fagradal sjálfum var ekki ýkjamikil fönn, en hafði mjög kæft í Egilsstaðaskóg. Það var fyrst síðari hluta dags í gær, að farið var að koma með mjólk af næstu bæjum i mjólkursamlagið á Egilsstöðum.
[22.nóvember] ÞóHúsavik, þriðjudag. Hríðarbylur er nú hér á Húsavik og hefur sú veðrátta haldist í rúma viku. Áttin er norðaustlæg, ekki verulega hvöss og frostið aðeins 2 til 4 stig. Víða i Þingeyjarsýslum hefur sett niður mikinn snjó og eru vegir illfærir, eða með öllu ófærir. Leiðin til Akureyrar er lokuð og er ekki gert ráð fyrir, að tilraun verði gerð til að opna hana fyrr en veður lagast. Fært er um Aðaldal, og fram í Reykjadal. Ennfremur er fært frá Húsavik upp í Reykjahverfi. Reynt verður að opna Kísilveginn upp í Mývatnssveit i dag. Hann hefur verið lokaður í nokkra daga. Leiðin frá Húsavik til Kópaskers er ófær, svo og leiðin á milli Kópaskers og Raufarhafnar. Í morgun stóð til að hreinsa veginn frá Raufarhöfn til Kópaskers, en við það var hætt vegna stórviðris á Sléttu. Lokun vegarins til Raufarhafnar kemur sér mjög illa, því að Raufarhafnarbúar fá mjólk sína frá Húsavík. Í nótt komu mjólkurflutningabílar úr Bárðardal og Ljósavatnshreppi til Húsavikur, en óvist er að þeir komist til baka aftur í bráð.
Þann 29. nóvember bárust enn fréttir af ísingu á línum og rafmagnsleysi af hennar völdum, Tíminn segir frá:
SB-Reykjavik. Samsláttur varð á háspennulínunni frá Laxá um kl.22:30 á mánudagskvöldið, með þeim afleiðingum, að rafmagn fór af öllu veitusvæðinu, þ.á.m. Akureyri. Mjög slæmt veður var um nóttina og gekk þetta fram til kl.4, en þá tók að lægja. Á sama tíma fréttist af línubilunum i Aðaldal og Köldukinn i Reykjahverfi. Ekki var hægt að fara að gera við fyrr en i gærmorgun.og þá kom i ljós, að bilanir voru meiri en talið hafði verið. Einir fjórir staurar voru brotnir i Aðaldal og einn í Reykjahverfi og lágu linur niðri á köflum. Unnið var að viðgerðum í gær, og var búist við, að Aðaldalurinn fengi rafmagn i gærkvöldi, en Reykjahverfið ekki fyrr en í dag. Þá urðu skemmdir hjá Rafveitu Akureyrar, línur slitnuðu i nágrenni bæjarins og var unnið að viðgerðum.
Ísingarfregnir voru enn í Tímanum þann 1.desember:
Það hefur bæði verið svalt og skuggsýnt hjá mörgum Þingeyingnum undanfarin dægur. Raflínurnar purpuðust [svo] sundur eina nóttina, svo að rafmagnslaust varð á stóru svæði í Þingeyjarsýslu, Ekki hafa menn heldur getað rakið raunir sínar fyrir öðrum, því að hið sama gekk yfir símalínurnar. Það hefur sem sagt gilt hin gamla regla: að duga eða drepast. Það var á miðvikudagsnóttina að ísing hlóðst á línurnar, sagði Kristján Arnljótsson, rafveitustjóri á Húsavik. Hérna í kaupstaðnum mældist glær ís á loftlinum sextán sentímetrar í þvermál, og vafalaust hefur ísingin orðið meiri sums staðar í héraðinu. Við minnumst ekki þvílíkrar ísingar síðan um miðbik fjórða áratugarins, þegar allt kerfið hér á Húsavik hrundi af þessum sökum. Nú urðum við Húsvíkingar aftur á móti fyrir litlum skakkaföllum af þessu, því að rafstrengirnir eru að mestu leyti komnir niður i jörðina.
Áföllin urðu mest i Kinn, Ljósavatnsskarði, Aðaldal og Reykjahverfi hélt Kristján áfram. Að minnsta kosti fjórir rafmagnsstaurar brotnuðu i Reykjahverfi og eitthvað i Aðaldal, en fyrst og fremst voru það línurnar, sem slitnuðu. Tugir símastaura brotnuðu, einkum í grennd við Fosshól, og menn gátu ekki látið frá sér heyra, og fregnir af skemmdum bárust helst með bílstjórum mjólkurbilanna. Unnið hefur verið dag og nótt að viðgerðum, en þó er það til dæmis fyrst í kvöld, að von er til þess, að aftur kvikni á perunum i Hafralækjarskóla i Aðaldal, sagði Kristján. Þeir fengu jarðstreng héðan frá Húsavik til þess að bjarga málum sinum i bili.
Víðast á bæjum er olíukynding, en hún varð óvirk, þegar rafmangsins naut ekki lengur við, því að olíudælurnar eru rafknúnar. Það hefur því fylgst að, myrkrið og kuldinn. Þar sem kúabú eru stór, gripu menn til þess ráðs að setja dráttarvélar í gang og láta þær knýja mjaltavélarnar, því að ekkí er árennilegt verk að handmjólka mikinn fjölda kúa. Sums staðar hafa menn líka orðið að sækja vatn á dráttarvélum handa búfénaðinum. Ég veit til dæmis, að Kristján Benediktsson á Hólmavaði varð að sækja á þann hátt vatn i Laxá, því að hjá honum er vatni annars dælt inn með rafdælu.
Tíminn birti þann 7.desember yfirlit Pósts og síma um bilanir og tjón af völdum ísingar í október og nóvember:
Krl-Reykjavik. Póst- og símamálastjórnin hefur nú sent frá sér skýrslu um bilanir og tjón á símalinum í ísingarveðrunum í október og nóvember. Í óveðrinu 27. og 28. október brotnuðu alls 507 staurar og 360 lögðust á hliðina. Línur slitnuðu niður á ca. 87 km. Bilanirnar urðu einkum í þrem sýslum. Í Strandasýslu urðu bilanirnar mestar í Steingrímsfirði, á Selströnd, og í Bjarnarfirði. Alls brotnuðu þar 156 staurar og 82 lögðust flatir. Í Húnavatnssýslu brotnuðu 139 staurar, en 29 lögðust flatir. Stærstu skemmdirnar urðu í Linakradal og í nágrenni Skagastrandar. 89 staurar brotnuðu og 78 lögðust á hliðina i Dalasýslu, flestir í Saurbænum. Þar var gripið til þess ráðs að leggja 4,5 km langa jarðsímalinu. sem var plægð niður frá sæsímalandtaki við Gilsfjörð að Máskeldu. Áætlaður kostnaður við bráðabirgðaviðgerð og endurbyggingu á þessum linum nemur tæpum 10 milljónum króna. Eftir því sem kostur er á, verður reynt að leggja jarðsíma á þessum bilanasvæðum. t.d. Skagastrandarlinu. Mikið ísingarveður gekk yfir S-Þingeyjarsýslu og Eyjafjörð 25.nóvember og urðu þá miklar bilanir á símalinum. 60 staurar brotnuðu 9 lögðust flatir og linur slitnuðu niður á um 17 km. Aðalbilanirnar urðu i Ljósavatnsskarði, Bárðardal og á Fljótsheiði. Þar sem viðgerð er ekki enn lokið. er ekki ljóst. hvað tjónið er mikið. Aðalkostnaðurinn verður í bráðabirgðaviðgerð. því að loftlinur verða ekki endurbyggðar en á þessu svæði hefur veríð lagður jarðsími. sem verður tengdur í vetur. Þar sem ísingarbilanir voru tíðastar fyrr á árum, t.d. á aðallandsímalínunum milli Brúar og Blönduóss og i A-Barðastrandarsýslu, urðu nú litlar bilanir enda hefur verið lagður jarðsími að mestu af þessum svæðum.
Tíminn 12.desember
KlpReykjavik. Þegar Reykvíkingar risu úr rekkju á sunnudagsmorguninn, brá þeim eldri heldur betur í brún er þeir litu út um gluggann. Snjór lá yfir öllu og sumstaðar hafði fokið í all myndarlega skafla, a.m.k. á sunnlenskan mælikvarða, þó svo að þeir sem koma úr sveitunum og frá snjóasvæðum fyrir norðan og austan, hafi þótt þetta heldur litill snjór og varla um hann talandi. Á sunnudagsmorguninn voru allar götur í Reykjavik og næsta nágrenni ófærar og bilar stóðu fastir viða um bæ. Flugvellirnir í Keflavík og Reykjavík lokuðust um tíma og strætisvagnaferðir gengu erfiðlega. Þeir sem helst fögnuðu snjókomunni, fyrir utan börnin, voru sendibilstjórar og leigubilstjórar, en fyrir þá er snjókoma sem þessi góð vertíð. Flugvellirnir í Reykjavik og Keflavík lokuðust báðir um tíma. Innanlandsflug lagðist niður allan sunnudaginn, en um kvöldið var flogið til Akureyrar og Egilsstaða. Keflavikurflugvöllurinn lokaðist einnig um tíma.
Tíminn enn af fannfergi og ísingu í pistli 13.desember - við styttum hann mikið hér:
JJSkagaströnd 12.12. Enn urðu einhverjar skemmdir á rafmagnslinum i norðaustanhvassviðri, sem hér gekk yfir í fyrrinótt. Ekki er fullljóst, hversu miklar skemmdirnar hafa orðið, en hlutar af þorpinu voru rafmagnslausir í gærmorgun, og eitthvað af sveitabæjum. Skemmdirnar munu hvergi hafa orðið á aðallínum. Veðrið var geysihvasst, en lítil úrkoma fylgdi því. Á mánudag lokaðist leiðin inn til Blönduóss af völdum skafrennings, en hún var opnuð aftur i dag, enda var þá þítt, en seinni partinn fór að frysta. Enn er hvasst, en svo mikill bloti komst i snjó, að ekki rennir, og ættu því vegir að haldast opnir á meðan ekki bætir á.
AJSkógum Í fyrrinótt gerði hér norðaustan rok, og varð sumstaðar ofsaveður hér undir [Eyja-]fjöllunum, þar sem vindstrokurnar stóðu niður um skörð, og varð þar mjög byljótt. Á Steinabæjunum olli veðrið miklu tjóni. Þar fuku plötur af íbúðarhúsi og þak af nýlegri fjárhúshlöðu, auk þess sem rúður brotnuðu. Mannlaus bíll, sem stóð hjá verslun Jóhanns i Steinum varð illa úti, en hann fauk um 40 m vegalengd, fór margar veltur og hafnaði loks á hjólunum, mjög mikið skemmdur. Þetta var nýr bíll frá Selfossi, sem þar var skilinn eftir er færð spilltist um daginn, en á sunnudagsnótt snjóaði allmikið, og er það fyrsti snjórinn hér i vetur. Annars hefur tíð hér verið mjög góð fram til þessa, og ekki klakavottur í jörð. Þegar versta veðrið geisaði fyrir norðan um daginn var hér allt upp i 11 stiga hiti og unnið i steypuvinnu.
Hungurdiskar hafa áður fjallað um illviðrasyrpuna miklu fyrir jólin 1972 í sérstökum pistli. Umfjöllun um árið 1972 endar því hér. Margvíslegar tölulegar upplýsingar má finna í viðhenginu.
17.12.2022 | 16:03
Fyrsti snjór vetrarins í Reykjavík
Í morgun (laugardaginn 17.desember) varð alhvítt í Reykjavík í fyrsta sinn á þessum vetri. Snjódýpt á Veðurstofutúni var mæld 14 cm. Það er ekki oft sem fyrsti alhvíti dagur vetrarins er svo seint. Frá því að samfelldar snjóathuganir hófust í Reykjavík 1921 hefur það aðeins gerst 7 sinnum áður að fyrst verði alhvítt í desember. Litlu munaði að met alls tímabilsins væri slegið nú, ekki munaði nema einum degi að eldra met væri jafnað. Haustið 1933 varð fyrst alhvítt 18. desember - þá mældist snjódýptin hins vegar aðeins 1 cm. Varð það eini alhvíti dagur þess hlýindafræga desembermánaðar. Janúar 1934 varð hins vegar snjóþungur.
Árið 2000 varð fyrst alhvítt þann 16. desember (hefði kallast 17. hefði ekki verið hlaupár). Síðdegis þann 15. gengu kuldaskil yfir og í kjölfar þeirra snjóaði mikið. Umferð varð erfið um tíma, enda föstudagssíðdegi. Þetta gekk fljótt yfir. Þann 16. mældist snjódýptin þó 22 cm. Tveimur dögum síðar var aftur orðið alautt og alautt var um jólin. Árin 1997 og 1995 varð fyrst alhvítt í Reykjavík 8. desember, og 10. desember 1976 og 1973. Desember 1973 er meðal þeirra köldustu í okkar minni. Árið 1960 dróst til 3. desember að alhvítt yrði í Reykjavík. Þá fór lægð hratt til austurs skammt fyrir sunnan land.
16.12.2022 | 12:29
Fyrri hluti desembermánaðar
12.12.2022 | 20:04
Kólnandi veður
Undanfarna daga hefur verið tiltölulega hlýtt loft yfir landinu, jafnvel frostlaust eða frostlítið á fjallatindum. Himinninn hefur hins vegar verið nánast heiður og vindur mjög hægur þannig að talsvert hefur náð að kólna í allra neðstu lögum, sérstaklega á flatlendi inn til landsins og í dældum í landslagi. Um leið og vind hefur hreyft lítillega hefur þetta kalda loft náð að blandast upp og hiti farið upp undir eða yfir frostmarkið. Þar sem ofanloftið hefur náð niður - eins og á stöku stað við fjöll hefur hiti jafnvel farið í 6-8 stig. Í veðurlagi sem þessu má hafa talsverða skemmtan af því að fylgjast með bílhitamælum. Geta menn ekið úr 4 til 7 stiga hita inn í talsvert frost á aðeins fáeinum kílómetrum (eða enn styttri vegalengd).
En hið raunverulega kalda norðanloft sækir nú að fyrir alvöru. Fram á miðvikudag á hiti í neðri hluta veðrahvolfs að falla um á að giska 5 stig og síðan jafnvel önnur fimm fram á föstudag. Þar sem vindur vex jafnframt eitthvað mun þessa hitafalls gæta í mjög mismiklum mæli - og það jafnvel snúast við sums staðar þar sem frostið hefur verið hvað mest undanfarna daga.
Hér má sjá kort sem sýnir stöðuna (að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar) síðdegis á miðvikudag. Jafnhæðarlínur eru heildregnar. Af þeim má ráða vindstefnu og styrk í rúmlega 5 km hæð. Í stað hægviðrisins sem ríkt hefur yfir landinu að undanförnu er farið að blása ákveðið af norðvestri í háloftum og ber norðvestanáttin grunn lægðardrög með sér að vestan til suðausturs yfir Grænland (rauðar punktalínur). Jafnframt læðist mjög kalt loft úr norðri til suðurs með Grænlandi austanverðu og í átt til okkar með norðlægari átt í neðri lögum. Í dag (mánudag 12. desember) var þykktin yfir landinu 5280 metrar (um 30 metrum yfir meðalagi árstímans), en við sjáum af kortinu (litirnir) að síðdegis á miðvikudaginn er búist við að þykktin verði komin niður í um 5140 metra yfir miðju landi. Það hefur kólnað um 140 metra, eða um 7 stig. Eins og áður sagði kólnar sums staðar svo mikið, en annars staðar nærri því ekki neitt - vegna betra sambands milli þess lofts sem hefur fengið að kólna í friði yfir landinu undanfarna daga og þess sem ofar liggur.
Eins og sjá má á kortinu eru þessi norðvestanlægðardrög heldur veigalítil að sjá þarna á miðvikudaginn. Gagnvart þeim eiga reiknilíkön í ákveðnum erfiðleikum. Grænland truflar framrás þeirra mismikið eftir hæð - og síðan eru samskipti þeirra við sjóinn og loftið að norðan vandamál - þar sem einhver smáatriði kunna að skipta höfuðmáli fyrir frekari þróun.
Svo virðist sem fyrra lægðardragið geri ekki mikið. Éljabakkar myndast þó ábyggilega á Grænlandshafi. Fram á föstudag á síðan að kólna ennþá meira. Spáruna dagsins gerir ráð fyrir því að kaldast verði á föstudagamorgunn, þá verði þykktin yfir miðju landi ekki nema 5040 metrar. Sé þetta rétt hefur kólnunin frá í dag og fram á föstudag orðið 12 stig. Það er verulegt.
Hvað síðan gerist á föstudaginn vitum við ekki gjörla. Nái þetta síðara lægðardrag - eða fylgja þess að grafa um sig á Grænlandshafi getur í raun allt gerst - allt frá því að þetta renni hjá tiltölulega tíðindalítið - yfir í verulega lægðarmyndun með illviðri og úrkomu. Færi þá eftir því hvar og hvenær sú myndun ætti sér stað hvort hann hrykki í hríðargír eða hláku. Við veltum ekki frekari vöngum yfir því hér í dag, en ætli sé samt ekki betra að gera ráð fyrir einhverju veseni frá og með föstudegi - það vesen gæti staðið í nokkra daga. Fylgist alla vega vel með spám Veðurstofunnar.
11.12.2022 | 13:02
Fyrstu tíu dagar desembermánaðar
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 12
- Sl. sólarhring: 183
- Sl. viku: 2459
- Frá upphafi: 2434569
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 2184
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010