Bloggfærslur mánaðarins, desember 2022

Ekki algeng staða

Nú er málum þannig háttað að hlýjasta loftið í námunda við landið (í neðri hluta veðrahvolfs) er í norðvestri, yfir Grænlandi - og það kaldasta suðaustan við land. Algengast er að þetta sé öfugt. Þótt alloft sé hlýrra fyrir vestan landið heldur en austan við (jafnvel heilu mánuðina) er það þó oftast þannig að á sama tíma er kaldara fyrir norðan landið heldur en fyrir sunnan það. Á morgun (laugardaginn 10. desember) munar um 5 stigum í neðri hluta veðrahvolfsins. Meira að segja ef við förum niður í 850 hPa (um 1500 metra) er þessi munur enn til staðar, verður á morgun (séu spár réttar) í kringum -2 stig á Grænlandi, en -10 stig suðaustan við land. Þessi óvenjulegi hitamunur nær þó ekki alveg til sjávarmáls, en þó gera spár ráð fyrir því að á stöku stað verði frostlaust á morgun við strönd Grænlands, norðvestur af Vestfjörðum. 

Sú norðanátt sem verið hefur ríkjandi hér á landi síðustu daga er líka óvenjuhlý - þótt þeirra hlýinda gæti auðvitað lítið í hægum vindi og björtu veðri - um leið og eitthvað hreyfir vind fer hiti upp undir eða jafnvel upp fyrir frostmark. 

w-blogg091222a

Staðan sést vel á spákorti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á hádegi á morgun (laugardag). Jafnhæðarlínur eru heildregnar, þykktin er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Norðaustanátt er í háloftunum - hluti af hringrás kringum hlýja hæð yfir Grænlandi. Þar sem hæðin er nú orðin sambandslaus við hlýjar lindir í suðri dregur úr afli hennar næstu daga (nema ný hlýindi ryðjist fram). Eftir því sem hún dofnar vaxa líkur á því að henni verði líka velt úr sæti - kalt loft úr norðri sparkar í hana og nær undirtökunum. 

Ekki er beinlínis hægt að segja að hæðir sem þessar séu sjaldgæfar á norðurslóðum - mjög oft er einhver svona hæð einhvers staðar norðan við 60. breiddarstig - oftar austan við okkur heldur en vestan við. En þegar leitað er að svipuðu í sögunni kemur í ljós að tilvikin sem við eigum á lager eru ekkert mörg í desember (heldur fleiri að sumarlagi). Við leit finnst þó strax eitt afskaplega svipað - hæðin að vísu enn öflugri heldur en nú.

w-blogg091222b

Kort (japönsku endurgreiningarinnar) gildir um hádegi á Þorláksmessu árið 1978. Þá var ívið öflugri hæð nánast á sama stað og nú. Hélst þar við dögum saman - afskaplega eftirminnileg ritstjóra hungurdiska sem fékk veðurlag hennar í fangið við heimkomu frá Noregi - eftir að hafa lokið embættisprófi (eins og það hét) í veðurfræði nokkrum dögum áður. 

Niðurbrot hæðarinnar, tæpri viku síðar endaði líka á mjög minnisstæðan hátt og er rifjað upp í gömlum pistli hungurdiska, sem nördin hafa auðvitað gott af því að rifja upp. 


Snjóleysi (og fleira).

Snjóleysið í haust fer að verða óvenjulegt, en þó er ekki enn um met að ræða - alla vega um landið sunnanvert. Þetta er í áttunda sinn síðustu 100 árin að ekki verður alhvítt í Reykjavík fyrr en í desember. Síðast gerðist það árið 2000, þá varð fyrst alhvítt þann 16. Lengst dróst það að alhvítt yrði árið 1933, til 18. desember. Ekki hefur orðið alhvítt í Reykjavík síðan 5. apríl eða í 246 daga. Það fer (úr þessu) líka að verða óvenjulegt, en er þó mjög langt frá meti (sjá eldri pistil hungurdiska).

Á Akureyri var snjólaust í nóvember. Staðan er enn óvenjulegri á Akureyri. Þar varð jörð flekkótt 16.október, en hefur ekki orðið alhvít fram að þessu í haust. Haustið 1976 varð fyrst alhvítt á Akureyri 21. nóvember og 17. nóvember árið 2016. Dagleg snjóhulugögn á Akureyri ná hins vegar ekki nema aftur til 1965. Aldrei varð alhvítt á Akureyri í nóvember 1987, en þá voru fáeinir alhvítir dagar í október. Snjóhula hefur þó verið athuguð lengur á Akureyri, en í fljótu bragði virðist sem október og nóvember hafi aldrei verið lausir við alhvítan dag frá því að þær athuganir byrjuðu um 1930 (aðeins vantar þó inn í). 

Það tekur tíma að taka saman snjóhuluupplýsingar allra stöðva og samanburður á landsvísu því ekki aðgengilegur sem stendur. 

Loftþrýstingur er mjög hár um þessar mundir - þótt ekki sé um met að ræða. Loftþrýstimet eru dálítið erfið viðfangs. Samanburður er ætíð gerður við sjávarmál, 45 gráðu breidd og hita við frostmark. Sú regla sem notuð eru til að reikna þrýsting til sjávarmáls er ónákvæm og hér á landi teljum við sjávarmálsþrýsting á stöðum á hálendi vart methæfan. Hæsti þrýstingur sem hefur mælst í þessari syrpu til þessa eru 1049,1 hPa við Kolku um miðnætti í gærkvöldi (5.desember). Á láglendi hefur þrýstingur farið hæst í 1046,9 hPa í Víðidal við Reykjavík og í Grundarfirði, 1046,8 hPa. Báðar þessar stöðvar hafa hins vegar nýlega hafið þrýstimælingar og geta varla talist „útskrifaðar“ sem metbærar. Hæsti þrýstingur í Reykjavík var 1045,5 hPa. Mælingin úr Víðidal er því líklega röng. Öruggari teljum við töluna frá Egilsstaðaflugvelli frá því í gærkveldi, 1046,7 hPa. Fjöldi annarra stöðva skráði nærri því sama þrýsting. 

Trúlega er þrýstingur nú lítillega hærri heldur en hann varð 13. desember 1995. Þá mældist hann hæst 1045,9 hPa á Kirkjubæjarklaustri. Við þurfum síðan að fara aftur til 1926. Þá fór þrýstingur í 1046,4 hPa á Raufarhöfn á jólanótt. Á þeim tíma var þrýstingur aðeins mældur á fáum stöðum á landinu. Ein eldri desembertala er örugglega hærri en það sem hæst hefur orðið nú, 1054,2 hPa. Það gildi er þó nokkuð óvíst, gæti verið 1 hPa lægra. Mörg eru álitamálin. Vafalaust er þetta þó hæsti þrýstingur sem mælst hefur í desember hér á landi. Það er ólíkt með 1917-tilvikinu og því nú að þá reis þrýstingurinn hratt, og fór síðan hratt niður aftur. Um þetta tilvik og fleiri atburði þessa merka desembermánaðar má lesa í sérstökum eldri pistli á hungurdiskum.

Ekki er langt síðan þrýstingur fór síðast í 1050 hPa hér á landi. Það var 28. mars 2020 þegar hann mældist hæst 1050,5 hPa í Hjarðarlandi í Biskupstungum. Finna má pistil um hæsta þrýsting á Íslandi á vef Veðurstofunnar.

Viðbót síðdegis 7.desember:

Athugulir lesendur bentu ritstjóranum annars vegar á að lægsti hiti haustsins í Reykjavík hefði verið -1,4 stig. Þetta er auðvitað óvenjulegt. Í dag er þetta lágmark vetrarins (til þessa) komið niður í -3,5 stig (ámóta staða og 2012 og 1933).

Hins vegar barst sú ábending að ekki hefði mælst frost á Stórhöfða í Vestmannaeyjum fyrr en 5. desember og spurt var hvort slíkt væri ekki óvenjulegt. Jú, það er það. Síðasta dagsetning sem við vitum um fram að þessu sýnist ritstjóranum vera 21. nóvember 1976. Ekki hefur enn frosið í Surtsey. Það er þó ekki alveg dæmalaust, því árið 2016 fraus þar ekki fyrr en 20.desember. 

Þakka þessar ábendingar - vonandi er rétt flett upp.


Óvenjulegur nóvembermánuður

Nóvember varð harla óvenjulegur að þessu sinni. Á landsvísu varð hann sá hlýjasti frá upphafi mælinga - að vísu ómarktækt hlýrri heldur en nóvember 1945. Við þykjumst geta teygt landsmeðalhitaröðina aftur til 1874. Við bíðum lokaniðurstöðu Veðurstofunnar varðandi röðun hita á einstökum veðurstöðvum - keppnin er hörð á toppnum, en á spásvæðunum er mánuðurinn sá hlýjasti á öldinni frá Breiðafirði norður og austur um að og með Austurlandi að Glettingi. Sömuleiðis er hann hlýjastur á miðhálendinu - og þar er meðalvik miðað við síðustu tíu ár mest (nær algjört snjóleysi á veðurstöðvum - en það er óvenjulegt í nóvember). Á spásvæðum frá Austfjörðum og vestur til Faxaflóa er hann næsthlýjastur, lítillega neðar en 2014. 

Við verðum að telja meginástæðu hlýindanna vera stöðuga suðaustanátt sem kemur vel fram á vikakorti 500 hPa-flatarins.

w-blogg011222a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en hæðarvik eru sýnd í lit. Hæðarvik er lítið yfir landinu, en gríðarmikið neikvætt vik sunnan við land (bláir litir) og mjög jákvætt norðaustur í hafi. Austanátt háloftanna hefur aldrei verið jafnstríð í nóvember - og sárasjaldan í öðrum mánuðum. Helst að janúar og febrúar 2014 skáki þessum í háloftaaustanátt. Við finnum ámóta austanátt við sjávarmál í nóvember árið 2002 og sömuleiðis 1960, langminnugir kannast e.t.v. við þá, sérstaklaga 2002, en þá var ódæma rigning á Austfjörðum, enn meiri heldur en nú. Við getum fundið ámóta sjávarmálsaustanátt í fáeinum öðrum almanaksmánuðum, en í þeim öllum var talsvert kaldara fyrir norðan land heldur en nú, og þar með var háloftaaustanáttin slakari. 

w-blogg011222b

Jafnhæðarlínurnar eru þær sömu og á fyrra korti, en jafnþykktarlínur eru strikaðar (mjög mjóslegnar). Þykktarvikin eru sýnd með lit (miðað er við 1981 til 2010). Meðalþykkt yfir landinu miðju var 5345 metrar, svipað og í hinum gríðarhlýja nóvember 2014. 

Fregnir frá norsku veðurstofunni herma að nóvember hafi verið sá hlýjasti sem vitað er um á Jan Mayen og í Ny-Ålesund á Svalbarða. Á Bjarnarey var að sögn jafnhlýtt í nóvember 2009. 

Það kom frekar á óvart að saman fóru sérlega hlýr nóvember og mjög lágur loftþrýstingur (frekar er búist við að hann sé nær meðallagi í slíkum mánuði). Meðalþrýstingur mánaðarins í Reykjavík var aðeins 991,5 hPa, sá lægsti meðal hlýrra nóvembermánaða, sá lægsti í nóvember síðan 1992 og hefur aðeins 11 sinnum verið lægri í nóvember síðustu 200 ár. 

Við þökkum Bolla P. fyrir kortagerðina. 

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 98
  • Sl. sólarhring: 105
  • Sl. viku: 1847
  • Frá upphafi: 2348725

Annað

  • Innlit í dag: 88
  • Innlit sl. viku: 1618
  • Gestir í dag: 82
  • IP-tölur í dag: 82

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband