Lítið lát á

Eins og hér hefur komið fram áður hefur janúarmánuður verið heldur órólegur. Þó hefur lengst af ekki farið illa með. Mjög slæmir dagar hafa ekki verið margir, veðrakerfi hafa staðið mjög stutt við og flest þeirra hafa lítt náð sér á strik. Þó hafa fjórir dagar mánaðarins komist á óopinberan „ofviðralista hungurdiska“ - jafnmargir og komust á listann allt síðastliðið ár (2021). Árið 2020 var hins vegar illviðraár og þessir dagar voru þá 17 á árinu í heild. Meðaltalið á öldinni er 11 dagar á ári.

Við vitum ekki hversu lengi þessi ákafi háloftavinda yfir landinu heldur áfram. Enga reglu er að finna í því. Sé leitað að ámóta stríðum vestanáttarjanúarmánuðum og athugað hvað síðan gerðist er engin regla í augsýn. Stundum varð umsnúningur, stundum ekki. 

w-blogg270122a

Myndin sýnir norðurhvel jarðar. Smáar vindörvar sýna vindátt og styrk í 300 hPa-fletinum, en litir merkja þau svæði þar sem vindur er stríður. Guli liturinn byrjar þar sem vindhraði er meiri en 60 hnútar (um 30 m(s), grænir og bláir litir sýna enn meiri vindhraða. Við tökum eftir því að vindurinn liggur í strengjum - vindröstum. Fyrirferðarmest er svonefnd hvarfbaugsröst (kallast „sub-tropical jet“ á erlendum málum). Vindhraði í henni er reyndar mestur ofar, uppi í 250 eða jafnvel 200 hPa - þannig að við sjáum aðeins hes hennar á þessari mynd. Svo má heita að hún nái hringinn í kringum norðurhvel (og svo er önnur á suðurhveli). Bylgjur eru á þessari miklu röst, en þó mun minni heldur en á þeirri sem legið hefur nærri okkur mestallan mánuðinn. Hana köllum við ýmist heimskautaröst eða pólröst. Sumir nota orðið „skotvindur“ eða „skotvindurinn“ - ritstjóri hungurdiska hefur í sjálfu sér ekki neitt á móti því orði - nema hversu ógagnsætt það er í þessu samhengi - en það venst sjálfsagt. Gott væri að eiga skotvindinn á lager fyrir eitthvað annað fyrirbrigði - t.d. styttri rastir sem liggja neðar - ótengdar meginröstum. [En þetta er auðvitað þus í gömlum karli].  

Pólröstin liggur almennt neðar heldur en hvarfbaugsröstin, í 8 til 10 km hæð á okkar slóðum og hún sveiflast mun meira til norðurs og suðurs heldur en hin öfluga suðlæga systir hennar. Hún getur beint mjög hlýju lofti langt til norðurs - en köldu langt til suðurs. Loft er þó almennt „lítið hrifið“ af því að skipta um breiddarstig - og mótmælir slíkum flutningum með því að snúa upp á sig. Snúningarnir verða oft það miklir að röstin slitnar í sundur - hlýir hólar verða þá til norðan hennar, en kaldar (afskornar) lægðir sunnan við. 

Í þessum janúar hefur röstin ausið hverjum skammtinum af hlýju lofti á fætur öðrum frá vestanverðu Atlantshafi til norðausturs yfir Ísland og áfram, ýmist til norðausturs, austurs eða suðausturs. Kalt loft hefur hvað eftir annað þurft að hörfa undan til suðurs um Rússland og jafnvel suður á Miðjarðarhaf austanvert þar sem kalt hefur verið í veðri og venju fremur snjóasamt - jafnvel í lágsveitum. Svo er að sjá að það ástand haldi áfram.

Bylgjurnar á röstinni hafa verið mjög stuttar - þar með hraðskreiðar og lítt náð sér á strik sem stórar og miklar lægðir. En þó svo sé má litlu muna - þessir sterku háloftavindar geta teygt sig í átt til jarðar eða styrkt neðri vindrastir, líkt og gerðist hér í fyrradag (þriðjudag) þegar mjög hvasst varð á hluta landsins. Fleiri slík skammvinn áhlaup eru í kortunum næstu daga, þó varla nái þau til landsins alls. 

Kuldapollurinn mikli, sem við höfum stundum til hagræðingar kallað Stóra-Bola, hefur lítt haft sig í frammi hér við land í vetur fram að þessu, við þökkum bara fyrir það afskiptaleysi sem hefur valdið því að hríðarbyljir hafa verið færri en vænta hefði mátt í jafnáköfum umhleypingum um miðjan vetur. Er á meðan er, en rétt að fylgjast vel með hreyfingum kuldans - hann gæti fyrirvaralítið rásað í átt til okkar.

En lægðagangurinn heldur áfram - með ónæði. Mikilvægt er að fólk haldi áfram að hagræða seglum eftir vindi, hafa ferðaáætlanir milli landshluta sveigjanlegar og fylgjast vel með spám Veðurstofunnar og annarra til þess bærra aðila.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 402
  • Sl. viku: 1581
  • Frá upphafi: 2350208

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1454
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband