Bloggfærslur mánaðarins, september 2020

Sumareinkunn 2020

Ritstjóri hungurdiska hefur nú reiknað „einkunn“ sumarsins í Reykjavík og á Akureyri. Aðferðin hefur verið skýrð áður (og er auðvitað umdeilanleg). Sumarið nær hér til mánaðanna júní til ágúst - aðferðin gæti gengið fyrir maí líka en varla september. Hæsta mögulega einkunn í þessu kerfi er talan 48 - ekkert sumar hefur náð slíkum hæðum - hvorki í Reykjavík né á Akureyri. Lægsta talan er núll, sumarið 1983 komst nærri henni - einkunn þess sumars var einn. Rétt er að taka fram að einkunnin er háð hverjum stað - hún gefur engan tölulegan samanburð milli stöðva (sem sumardagatalningin sem hér var fjallað um fyrir nokkrum dögum gerir frekar).

w-blogg020920a

Sumareinkunn Reykjavíkur 2020 er 21. Það má heita í meðallagi síðustu 99 sumra (meðaltalið er 23), en 7 stigum undir meðallagi aldarinnar til þessa. Súlurnar á myndinni sýna einkunn hvers árs. Þar má greina að þetta er þriðja- til fjórðalakasta einkunn síðustu tíu ára - hún var talsvert lægri en nú bæði 2013 og 2018 og jöfn og nú sumarið 2014. Það var ágústmánuður 2018 sem bjargaði því sem bjargað varð þá því hann skilaði 11 af 13 stigum það árið. Ágúst bjargaði einnig miklu 2014 (13 stig af 20), en árið 2013 voru allir mánuðirnir þrír jafndaufir (3 stig hver). Í ár var líka nokkuð jafnt á komið með mánuðunum þremur (7, 9 og 4 stig, ágúst sístur). 

Það vekur alltaf athygli á sumareinkunnarmyndinni í Reykjavík hversu tímabilaskipting er mikil. Tíuárameðaltal fór lægst niður í 15 stig á árunum 1975 til 1984, en hæst í 32 stig, á árunum 2003 til 2012 - árin 2009 til 2012 skera sig sérstaklega úr fyrir gæði. Eins og áður sagði er meðaltal síðustu tíu ára 27 stig, alveg „á pari“ við bestu tíu ára skeið í kringum 1930 og á sjötta áratugnum. - Hvað síðan verður næstu árin vitum við auðvitað ekki, en 2015, 2016, 2017 og 2019 voru öll í flokki öndvegissumra í Reykjavík.

Þess má geta að maímánaðareinkunnin var í meðallagi í Reykjavík.

w-blogg020920b 

Sumarið var gott fyrir norðan - náði 29 stigum. Það er ámóta og 2013 og 2014, allmiklu lakara en 2012, en talsvert betra en öll sumrin frá 2015 til 2019 (sé eitthvað að marka einkunnargjöfina). Ágúst skilaði flestum stigum og tryggði góða útkomu, fram að því höfðu tölur verið nærri meðallagi. 

Heildaútlit línurits fyrir Akureyri er nokkuð annað en fyrir Reykjavík. Lægsta tíu ára meðaltalið er þannig 19 (1966 til 1975) og það hæsta 29 (2000 til 2009) - munar 10 stigum, en 17 í Reykjavík. Ritstjóri hungurdiska túlkar það svo að meiri þráviðri séu syðra heldur en nyrðra - mánuðirnir „sjálfstæðari“ á Akureyri heldur en í Reykjavík. Þannig eru það 7 sumur í Reykjavík sem ekki ná 10 stigum, en aðeins 1 á Akureyri (1985). Ellefu sumur ná 35 stigum eða meira í Reykjavík - en ekki nema fjögur á Akureyri. Þetta bendir til þess að mánuðir í Reykjavík „vinni“ fremur sem heild heldur en fyrir norðan. Ekki er þó á þessari hegðan byggjandi við langtímaveðurspár. 

Það er nákvæmlega ekkert samband á milli sumareinkunnar nyrðra og syðra. Þó eru fleiri sumur góð á báðum stöðum (samtímis) heldur en vond á báðum. Frábærlega góð á báðum stöðum voru 1931, 1939, 1957, 2004, 2007, 2008 og 2012, en 1959, 1969 og 1992 voru slök á báðum stöðum - 1983 var ekki sérlega gott á Akureyri heldur - á mörkum hins laka. 

Ritstjóri hungurdiska hefur gert tilraunir með aðrar reikniaðferðir. Efnislega verður útkoman nánast sú sama - innbyrðis röð sumra breytist þó auðvitað lítillega. Til dæmis má reyna að bæta vindhraða við. Gallinn er hins vegar sá að vindmæliröð Reykjavíkur er mjög ósamfelld. Mjög mikil breyting varð við mæliskipti í maí árið 2000. En hægt er að nota mælingar síðan þá og gera samanburð á þeim 20 sumrum sem liðin eru síðan. 

Gæðaröðin á línuritinu hér að ofan er þessi: 2009 (efst), 2012, 2010, 2011 og 2019, 2013 neðst. Sé vindur tekinn með verða fimm efstu sætin þessi (í röð að ofan): 2012, 2019, 2010, 2016, 2009, 2013 líka neðst. 

Munum að lokum að þetta er bara ábyrgðarlaus leikur - ekki má nota þessar niðurstöður í neinni alvöru.


Hiti á landsvísu í júní til ágúst

Alþjóðaveðurfræðistofnunin skilgreinir mánuðina júní til ágúst sem sumar á norðurhveli jarðar. Hér á landi viljum við helst telja september með líka. En lítum samt á alþjóðaútgáfuna. 

Meðalhiti reiknast 9,8 stig. Það er nákvæmlega í meðallagi síðustu tíu ára, og 0,1 stigi ofan meðallagsins 1991 til 2020. Aftur á móti 0,9 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 og 0,3 stigum ofan við meðaltalið forna 1931 til 1960. 

w-blogg010920a

Myndin sýnir meðalhita sumarsins nærri 150 ár aftur í tímann - ekki mikið að treysta á landsmeðaltal fyrir þann tíma (þó við vitum um allmikið um hitafar þá). Svo sýnist sem allt sé á uppleið - en munum þó að leitni segir ein og sér nákvæmlega ekkert um framtíðina. Á tímabilinu 1951 til 1991 voru aðeins þrjú sumur jafnhlý eða hlýrri heldur en 2020 - en á þessari öld lendir það í 11.hlýjasta sæti - af því má ráða hversu mikið samkeppnin hefur harðnað. 

Lítum í leiðinni á röðunarstöðu hita í ágústmánuði.

Eftir kalda dumbungsbyrjun á landinu suðvestanverðu snerist til betri vegar og lyftist þá hitinn upp eftir listanum - norðaustan- og austanlands héldust hlýindi lengst af.

w-blogg010920b

Að tiltölu varð hlýjast á Austurlandi að Glettingi, þetta er þriðjihlýjasti ágústmánuður aldarinnar þar og sá fjórðihlýjasti á Norðausturlandi. Kaldast (að tiltölu) varð á Suðausturlandi, hiti þar í 13.hlýjasta sæti. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 913
  • Sl. sólarhring: 1116
  • Sl. viku: 3303
  • Frá upphafi: 2426335

Annað

  • Innlit í dag: 813
  • Innlit sl. viku: 2969
  • Gestir í dag: 795
  • IP-tölur í dag: 732

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband