Bloggfærslur mánaðarins, maí 2020
25.5.2020 | 22:05
Skortur á hlýindum?
Þó hiti í maí hafi til þessa verið nærri meðallagi á landinu (rétt ofan þess suðvestanlands, en rétt neðan í öðrum landshlutum) hafa hlýir dagar varla látið sjá sig - og ekki á landsvísu. Hlýindum hefur svæðisbundið rétt brugðið fyrir dag og dag - t.d. var meðalhiti í Reykjavík föstudaginn 22. sá hæsti sem sést hefur þann almanaksdag (þó hámarkshitinn næði ekki meti). Laugardagurinn var aftur á móti næsthlýjasti 23.maí sem vitað er um (hann var hlýrri 1988).
Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu á árinu til þessa er 18,3 stig - svo hátt fór hitinn á Korpu og í Skaftafelli á laugardaginn (23.). Hæsti hiti sem mælst hefur á mannaðri stöð á árinu til þessa er 17,0 stig, þau mældust á Akureyri þann 21. Spurt hefur verið hvor það sé óvenjulegt að hæsti hámarkshiti ársins fram til 26.maí sé á þessu róli. Við skulum líta á málið.Smáflettingar í gögnum sem ritstjórinn hefur unnið upp úr skrám Veðurstofunnar sýna að bæði 2013 og 2014 var hæsti hámarkshiti á landinu til 26.maí 18,1 stig - nánast sá sami og nú (örlítið lægri samt).
Þegar við förum lengra aftur í tímann koma upp samfelluvandamál af ýmsu tagi. Mannaða stöðvakerfið þynntist mjög eftir 2012 og líkur á því að það veiddi hæsta hita dagsins á landinu minnkuðu mjög. Sjálfvirka kerfið var aftur á móti nokkuð gisið fyrir 2004 þannig að fyrir þann tíma eru veiðar þess að jafnaði síðri en mannaða kerfisins.
Auðvelt er að ná í dagleg landshámarksgildi mannaða kerfisins aftur til 1960 - en í gagnagrunni Veðurstofunnar eru aðeins dagleg gildi frá skeytastöðvum á tímabilinu 1949 til 1960 - en þær voru til þess að gera fleiri í útsveitum heldur en inni í landi - og veiddu ekki alltaf hæstu tölur dagsins. Minni upplýsingar um dagleg hámörk eru rýrari fyrir þann tíma.
En það er langt liðið á maí þannig að við getum e.t.v. bjargast með því að líta á hæsta hita fyrstu fimm mánaða ársins lengra aftur í tímann. Nú - en þá kemur aftur að því að hámarkshitamælingar voru harla rýrar fyrir 1930.
Lítum nú á mynd - það þarf þó að gera með athygli. Tölur ársins í ár (og til og með 25.maí) eru lengst til hægri á myndinni, 18,3 stig fyrir sjálfvirku stöðvarnar (bleikur ferill aftur til 1996), en 17,0 stig fyrir þær mönnuðu (grænn ferill aftur til 1960). Við sjáum að tölur ársins í ár eru með lægra móti (miðað við þau gögn sem við höfum) - þó ekkert út úr myndinni. Á hafísárunum svonefndu og þar um kring hefðu 18,3 stig ársins í ár hins vegar talist nokkuð há. Allralægsta talan er frá árinu 1979 - þá hafði hitinn á árinu ekki komist nema í 13,4 stig fram til 26.maí.
Á myndinni má einnig sjá rauða punktalínu. Hún segir frá hæsta hita fyrstu 5 mánaða ársins á mönnuðu stöðvunum. Hún er mjög oft nokkru hærri en græna línan - sem þýðir auðvitað að hæsti hiti í maí er oft síðast í mánuðinum, reyndar 64 sinnum af 146 tilvikum alls (44 prósent tilvika - en 19 prósent daga alls). Almennt er því líklegt að við eigum eftir að sjá hærri tölu en 18,3 stig í þessum maímánuði. - En - en enn og aftur verður að benda á að framtíðin er samt frjáls og lætur svona talningar ekki kúga sig.
Við skulum til gamans líta lengra aftur. Sá hluti þessarar myndar sem nær til áranna eftir 1960 er nákvæmlega sá sami og á fyrri mynd. Blái ferillinn á þessari nær hins vegar allt aftur til 1874 - en segir frá hæsta hita ársins - til maíloka. Þar sjáum við að á tímabilinu hlýja 1928 til 1948 var algengt að hiti hefði náð 20 stigum á einhverri veðurstöð fyrir maílok. Fyrir þann tíma var það sjaldgæfara - en höfum í huga að stöðvar voru mjög fáar og líkur eru á að stöðvakerfi nútímans hefði veitt betur en þetta gisna kerfi gerði. En því miður verður líka að hafa í huga að mælar voru ekki vel varðir á þessum tíma og sýndu gjarnan of hátt í hádegissólinni - þó réttir væru á öðrum tímum dags. Hiti um miðjan dag er ekki notaður við meðaltalsreikninga hér á landi nema þar sem athugunarfjöldi nær að minnsta kosti 8 á dag - og nútímaskýli eða hólkar séu í notkun.
Svo er spurning um fyrstu 20 stig ársins 2020 - hvenær koma þau? Við vitum (og sjáum af myndinni að ofan) að þau eru nú þegar síðbúnar en algengast hefur verið á síðari árum. Hungurdiskar hafa áður fjallað um tuttugustigakomuna og geta fróðleiksfúsir lesið þar um í pistli sem birtist 23.júní 2014. Þar er líka tengill á enn eldra uppgjör.
Vísindi og fræði | Breytt 26.5.2020 kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2020 | 21:47
Langt í hlýtt loft
Þó kuldapollar norðurhvels sýnist með allraaumasta móti miðað við árstíma er það samt svo að langt er í mjög hlýtt loft frá okkur séð - og ef marka má spár virðist það ástand ætla að halda áfram.
Hér má sjá spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina síðdegis á þriðjudag, 26.maí. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - af þeim má ráða vindátt og vindstyrk í miðju veðrahvolfi. Þykktin er sýnd í litum. Mörkin milli bláu og grænu litanna er við 5280 metra þykkt - við viljum helst ekki sjá neitt blátt yfir okkur frá vori fram á haust.
En blái liturinn er orðinn rýr á kortinu - og ekkert sést í það sem kalla má vetrarloft. Ef vel er að gáð má sjá örsmáan bláan blett norðaustur af Íslandi - það er hann sem fer hér yfir í kvöld og í nótt (aðfaranótt mánudags) og veldur snjókomu á hærri fjöll - þessi þykkt getur reyndar valdið snjókomu alveg niður undir sjávarmál blási vindur ekki af hafi og/eða sé úrkomuákefð nægilega mikil.
Hið raunverulega sumar byrjar í gula litnum. Þar er þykktin meiri en 5460 metrar. Á þessum tíma árs og vel fram eftir júnímánuði getum við samt verið sæmilega ánægð ef við erum laus við dekksta græna þykktarlitinn. En við eigum að fá hann yfir okkur hvað eftir annað næstu vikuna - og jafnvel blátt líka. Guli liturinn á rétt að fá að strjúka austurland stutta stund á fimmtudaginn (en það er langt þangað til).
Lægðir eiga að renna hjá - berast til austurs ótt og títt og skiptist þá á annars vegar suðlæg átt með rigningu sunnanlands og vestan og þá sæmilegu eystra og hins vegar vestlæg - eða jafnvel norðlæg átt með skúrum og mjög svölu veðri. Sé að marka spár er helst að nokkuð hvasst og blautt verði á miðvikudaginn.
Það er þó kostur að rigningarinnar er raunverulega þörf. Jörð orðin mjög þurr og gróðureldahætta var því orðin umtalsverð. Þó ekki verði um veruleg hlýindi að ræða ætti gróður samt að taka eitthvað við sér og varla verður alveg sólarlaust alla daga vikunnar. Gróðurinn nýtir sér sólina vel - sömuleiðis þeir sem sitja í skjóli undir vegg.
Vísindi og fræði | Breytt 25.5.2020 kl. 02:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2020 | 02:47
Tuttugu maídagar
Tuttugu dagar liðnir af maí - blessunarlega tíðindalitlir í veðri - slatti þó af fallegum sólarlögum (og nú er maður farinn að sjá upprásina líka). Mikið mistur og rykfall gekk yfir suðvesturhornið - sennilega mest innlend framleiðsla - en svo hittist reyndar á að erlendar greiningar sáu eitthvað fleira á ferð. - En meðalhiti dagana 20 er 6,0 stig í Reykjavík, nákvæmlega í meðallagi 1991 til 2020 og -0,1 stigi neðan við meðalhita sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn raðast í 10.sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru dagarnir 20 árið 2008, meðalhiti þá 8,1 stig, en kaldastir voru þeir 2015, meðalhiti 3,7 stig. Á langa listanum er meðalhitinn nú í 62.sæti (af 144). Hlýjastir voru dagarnir 20 árið 1960, meðalhiti 9,3 stig, en kaldastir 1979, +0,5 stig.
Meðalhiti á Akureyri er nú 4,8 stig, -0,6 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -0,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Við Faxaflóa, Breiðafjörð og á Suðurlandi raðast hitinn nú í 10.sæti á öldinni, en öllu kaldara hefur verið austanlands, hitinn raðast í 17.sæti á Austurlandi að Glettingi og á Austfjörðum. Hiti er rétt ofan meðallags síðustu tíu ára á fáeinum stöðvum suðvestanlands, mest +0,2 stig í Grindavík og við Reykjanesbraut, en kaldast að tiltölu hefur verið á Gagnheiði, hiti þar -2,2 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
Úrkoma er neðan meðallags. hefur mælst 14,6 mm í Reykjavík og er það tæplega helmingur meðallags. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 4,5 mm, rúmur fjórðungur meðalúrkomu. Úrkoma hefur þó oft mælst minni sömu daga.
Sólskinsstundir hafa mælst 155,9 í Reykjavík, um 20 stundum umfram meðallag 1991 til 2020. Á Akureyri hafa mælst um 107 stundir.
Svo virðist sem hvorki stórhlýindi né teljandi áföll séu í kortunum á næstunni.
16.5.2020 | 03:07
Fyrri hluti maímánaðar
Maímánuður hefur verið stórtíðindalítill hvað hitafar varðar. Meðalhiti fyrstu 15 dagana í Reykjavík er 5,7 stig, það er -0,2 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -0,3 neðan meðallags síðustu tíu ára og raðast í 11. hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2008, meðalhiti þá +8,3 stig, en kaldastir voru þeir 2015, +2,8 stig. Á langa listanum er hitinn í 63.sæti (af 144). Hlýjastir voru sömu dagar 1960, meðalhiti 9,4 stig, en kaldastir 1979, meðalhiti 0,3 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 15 daga mánaðarins 4,5 stig, -0,7 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og síðustu tíu ára.
Kaldast að tiltölu hefur verið á Austfjörðum, þar sem hitinn er í 16.sæti (af 20) á öldinni, en um sunnan- og vestanvert landið er hann í 12.sæti.
Hiti er rétt ofan meðallags síðustu tíu ára á fáeinum stöðvum suðvestanlands. Mest er jákvæða vikið í Surtsey og við Reykjanesbraut, +0,2 stig. Neikvætt vik er mest á Gagnheiði, -2,3 stig.
Mánuðurinn hefur það sem af er verið í þurrara lagi víðast hvar á landinu. Úrkoma í Reykjavík er nú 10,7 mm, rétt innan við helmingur meðalúrkomu, en hefur oft verið minni. Á Akureyri hafa aðeins mælst 4,5 mm - en hefur oft mælst minni. Það er um helmingur meðalúrkomu - eins og í Reykjavík.
Sólskinsstundir hafa það sem af er mánuði mælst 118,4 í Reykjavík, 17 stundum ofan meðallags 1991 til 2020.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 03:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2020 | 00:33
Óvenjudjúp lægð við Svalbarða
Nú er óvenjudjúp lægð við Svalbarða. Evrópureiknimiðstöðin segir þrýsting í lægðarmiðju vera um 958 hPa. Þetta er ekki algengt í maí. Lágþrýstimet maímánaðar hér á landi er 967,3 hPa, sett á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þann 13. árið 1956.
Að auki er mikil hæð yfir vestanverðu Norðuríshafi, 1042 hPa - ekki nærri því eins sjaldséð og lægðarþrýstingurinn - en samt. Lægðin grynnist á morgun og hreyfist til vesturs og síðar suðvesturs. Norðvestanvinds frá henni á að verða vart við Norðausturland á fimmtudagskvöld eða föstudag - en verður ekki sérlega mikill.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.5.2020 | 02:03
Fyrstu tíu dagar maímánaðar
Hiti fyrstu tíu daga maímánaðar er ekki fjarri meðallagi. Meðaltalið í Reykjavík nú er +5,4 stig, -0,1 stigi neðan meðallags áranna 1991 til 2020, en -0,3 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin og raðast í 11.hlýjasta sæti (af 20) það sem af er aldar. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2011, meðalhiti þá +8,6 stig, en kaldastir voru þeir árið 2015, meðalhiti +1,7 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 66.sæti af 144. Hlýjastir voru sömu dagar 1939, meðalhiti +9,1 stig, en kaldastir voru þeir 1979, meðalhiti þá -1,0 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga maímánaðar 4,6 stig, -0,3 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020, en -0,2 neðan meðallags síðustu tíu ára.
Hiti er yfirleitt rétt neðan meðallags síðustu tíu ára á landinu, raðast í 10.hlýjasta sæti á Ströndum og Norðurlandi vestra, en í 15.hlýjasta sæti á miðhálendinu - á öðrum svæðum lendir hann í sætum þarna á milli.
Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast á Teigarhorni, hiti þar +0,8 stigum ofan meðallags, en kaldast að tiltölu hefur verið á Gagnheiði, hiti þar -1,6 stig neðan meðallags.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 1,6 mm - það er aðeins tíundihluti meðalúrkomu - en hefur alloft verið enn minni sömu daga. Á Akureyri hefur hún mælst 3,7 mm sem er líka allnokkuð undir meðallagi.
Sólskinsstundir hafa mælst 96,5 í Reykjavík og er það 32,1 stund fleiri en að meðallagi 1991 til 2020 - en hafa 14 sinnum mælst fleiri sömu daga síðustu 100 árin rúm, flestar 1958, 129,3.
10.5.2020 | 02:03
Met - en þó ekki samanburðarhæft við annað
Síðastliðna nótt [9.maí] mældist -22,2 stiga frost á veðurstöðinni á Dyngjujökli, stöðin er í nærri 1700 metra hæð yfir sjávarmáli, sú langhæsta á landinu og í allt öðru veðurfari en allar aðrar stöðvar. Þann 2.maí 2013 mældist frostið á Brúarjökli -21,7 stig (í um 850 m hæð). Mesta frost sem mælst hefur í byggð í maí er -17,6 stig. Það mældist á Grímsstöðum á Fjöllum sama dag og metið var sett á Brúarjökli (2.maí 2013).
Athugað hefur verið á Dyngjujökli frá 2016, en mikið vantar í mæliröðina. Fjöldi meta mun því falla þar næstu árin verði athugunum haldið áfram. Hitamælir stöðvarinnar er ekki í staðalhæð (lægri en á öðrum stöðvum) - og því ekki um staðalaðstæður að ræða. - En út af fyrir sig er þetta lægsti hiti sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð í maímánuði.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.5.2020 | 20:49
Af sólskinsstundum (og lúmsku meti)
Tilefni þessara skrifa er lúmskt met sem sett var í Reykjavík í gær (föstudag 8.maí). Sólskinstundir mældust þá 16,2 og hafa aldrei mælst fleiri þennan sama almanaksdag. Þetta er reyndar í annað sinn á árinu sem sólskinsstundadægurmet fellur í Reykjavík. Mælt hefur verið í um 100 ár og því má búast við því að 3 til 4 slík met falli á hverju ári - að jafnaði. Að dægurmet sé slegið er því ekki svo sérlega merkilegt - gerðist líka 8.mars. En metið í gær er örlítið merkilegra - 16,2 stunda sólskin hefur nefnilega aldrei mælst áður svo snemma vors.
En sólskinsstundir eru nú mældar með tveimur mælum í Reykjavík. Annars vegar svokölluðum Campbell-Stokes glerkúlumæli - og hins vegar með sjálfvirkum geislunarskynjara. Þegar sólin skín í gegnum kúluna brennir hún svartan blett (ræmu sé sólskinið samfellt) í pappír sem liggur í sæti bakvið kúluna. Margt getur farið úrskeiðis í mælingum sem þessum, en þær eru samt býsna öruggar þegar á heildina er litið, því margt getur líka farið úrskeiðis í geislunarskynjurum nútímans - þar er reyndar fleira sem getur beinlínis bilað heldur en í eldri mælum.
En mælagerðirnar tvær sýna ekki alltaf nákvæmlega sömu tölu. Einn af megingöllum eldri gerðarinnar er að hér á norðurslóðum er sólargangur svo langur á sumrum að pappírssætið vill skyggja á sólina seint á kvöldin - og eldsnemma morguns. Mælt er með því að á norðurslóðum séu mælt með tveimur mælum - annar snýr þá til suðurs, en hinn til norðurs. Það hefur reyndar aldrei verið gert hér á landi. Þó mælarnir eigi ekkert að hafa breyst í meir en 100 ár er það samt þannig að svo virðist sem sá mælir sem notaður var fyrir 90 til 100 árum hafi ekki skyggt alveg jafnmikið á og sá sem nú er í notkun.
Þannig er það að sjálfvirki mælirinn í Reykjavík geti mælt aðeins fleiri sólarstundir heldur en hinn þá daga sem sól er hæst á lofti í Reykjavík.
Þetta var þannig í gær, gamli mælirinn mældi þá 16,2 stundir, en sá nýi 16,7. Það er líka dægurmet í þeirri mæliröð - og líka það mesta sem mælst hefur svo snemma vors.
En lítum á mynd sem sýnir samanburð dægurmeta mæligerðanna tveggja. Mælingar þess sjálfvirka hafa staðið samfellt (næstum því) frá og með árinu 2006, en í hinni röðinni notum við mælingar allt aftur til 1911 - fyrstu 13 árin vantar að vísu dálítið í mælingarnar.
Rauða linan sýnir mesta sólskinsstundafjölda hvers almanaksdags eins og hann hefur mælst með gamla mælinum, en bláa þreparitið það mesta sem sjálfvirki mælirinn hefur skráð sömu daga. Við sjáum strax að sjálfvirka röðin er mun styttri en hin - allir almanaksdagar ársins hafa á 100 árum einhvern tíma verið sannir sólskinsdagar, en ekki á þeim stutta tíma sem sjálfvirki mælirinn hefur verið í notkun - það mun þó smám saman gerast. Með reiknikúnstum mætti e.t.v. giska á meðalskýjahulu með samanburði á þessum tveimur röðum.
Það er líka eftirtektarvert að frá því um miðjan maí og fram yfir miðjan júlí eru allmargir dagar þar sem sjálfvirki mælirinn hefur mælt fleiri sólskinsstundir en nokkru sinni hafa mælst á gamla mælinn sama almanaksdag. Þetta er einmitt sá tími sem rætt var um hér að ofan - armar pappírssætisins skyggja á sólina þegar sólargangur er hvað lengstur.
Nú styttist væntanlega í að gamla mælinum verði alveg lagt - ritstjóri hungurdiska er reyndar alveg á móti því - en verður væntanlega að beygja sig fyrir nýjum tímum rétt eins og elli kerlingu - og að því mun koma að pappír verður ófáanlegur í gamla mælinn. Vonandi verður mælingum þessum þó haldið áfram að minnsta kosti til næstu áramóta, en þá lýkur meðaltalstímabilinu 1991 til 2020. Ljóst er að mælingar nýja mælisins eru ekki alveg sambærilegar við þær gömlu. Eins og sjá má hér að ofan er líklegt að sólskinsstundir að sumarlagi verði ívið fleiri en áður á næstu árum - séu tölur nýja mælisins bornar saman við eldri tölur - án einhverra leiðréttinga. Veðurfræðingar framtíðarinnar munu þó varla falla í þá gildru - leiðréttingar verða gerðar - eins og þörf er á í öllum löngum mæliröðum hverju nafni sem þær nefnast.
6.5.2020 | 16:08
Að mestu framhjá - þó ekki alveg
Talvert kuldakast er í uppsiglingu við Norður-Grænland. Það á að skjóta sér til suðurs næstu daga en fer að mestu framhjá fyrir austan land. Ekki sleppum við þó alveg og sé eitthvað að marka spár má gera ráð fyrir töluverðu næturfrosti víða um land um helgina.
Hér er háloftastaðan eins og evrópureiknimiðstöðin telur hana verða síðdegis á föstudag (8.maí). Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og má af þeim ráða vindátt og vindstyrk í rúmlega 5 km hæð yfir sjávarmáli. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið.
Kuldinn er hér hvað mestur vestur af Jan Mayen, þykktin þar á að verða um 5000 metrar, en sjórinn, þó hann sé ekki sérlega hlýr, 1 til 2 stig á þeim slóðum, dregur samt úr kuldanum. Sólarhring síðar á kjarni kuldapollsins að vera kominn suður á 65 gráður norðlægrar breiddar - miðja vegu milli Íslands og Noregs - um 3 stigum hlýrri en á kortinu hér að ofan. Á sunnudag verður kjarni kuldans við Mæri í Noregi, og þykktin þá þá um 5140 metrar - og hefur hlýnað um 7 stig.
Séu þessar spár réttar er líklegt að það snjói langt niður í byggðir í Noregi og vel niður í fjöll í Skotlandi. Norðmenn eru svosem ekki óvanir snjó í maí, ritstjórinn man töluverðan snjó í Bergen um miðjan maí þegar hann dvaldist við nám þar. Sá snjór stóð reyndar afskaplega stutt við.
Þó meginkuldinn virðist fara framhjá Íslandi að þessu sinni má kannski muna að svona kuldapollar á ferð hallast oftast. Mestur kuldi í neðstu lögum lofthjúpsins er því vestar í þessum kuldapolli heldur en háloftakuldinn - að auki er meginhluti landsins enn snævi þakinn - þó autt sé í byggðum. Meðan varmi frá sjónum vinnur við að brjóta kulda í lofti á bak aftur allan sólarhringinn er því öðru vísi farið yfir landi. Sól og autt land sjá um að eyða honum að deginum - en nótt og snjór styðja við kuldann. Drjúgmikið næturfrost getur því orðið í kuldakasti sem þessu - þótt þykktin yfir landinu hafi oft orðið lægri í maí. Eitthvað tefur þetta gróður.
Þó þetta kuldakast verði vonandi ekki teljandi og gangi fljótt hjá er ekki mikil hlýindi að sjá í framhaldinu - vorið hefur sinn hæga gang.
3.5.2020 | 14:30
Enn af apríl
Aprílmánuður 2020 var hlýr í háloftunum yfir landinu - þrátt fyrir kuldalega byrjun.Hér að neðan má sjá meðalhæð 500 hPa-flatarins, þykktarinnar og þykktarvik í mánuðinum.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar - við sjáum að veikur hæðarhryggur var yfir landinu. Daufar strikalínur sýna meðalþykktina - hún var 5322 metrar yfir miðju landinu, um 40 metrum meiri en að meðallagi 1981 til 2010. Hiti í neðri hluta veðrahvolfs því um 2 stigum ofan meðallags þessara ára. Meðalhiti í byggðum landsins í apríl var 2,8 stig og er það um +1,0 stigum ofan meðallags sömu ára. Háloftahlýindin hafa ekki notið sín til fulls (þau gera það sjaldan alveg).
Eins og oft hefur verið minnst á á þessum vettvangi áður styttist í að meðaltalinu 1961 til 1990 verði lagt endanlega og nýtt tekið upp sem þá nær til áranna 1991 til 2020. Athyglisvert verður að bera þessi tvö tímabil saman. Við sjáum í mánaðauppgjörum norsku og dönsku veðurstofanna að þær eru þegar farnar að gera það hvað hita varðar og úrkomu líka (að hluta til). Svo vill til að mesta vetrarhlýnunarþrepið var stigið í þessum löndum rétt fyrir 1990, en ekki fyrr en rúmum áratug síðar hér á landi. Þannig er hlýnun milli aprílmánaða tímabilanna tveggja talsvert meiri í bæði Noregi og Danmörku heldur en hér (um +1,5 stig þar, en +0,8 stig hér). Tölur hér (fyrir byggðir landsins) eru nú +1,4 stig fyrir janúar, +1,2 stig fyrir febrúar, +1,0 stig fyrir mars og +0,8 stig fyrir apríl (eins og áður sagði). Ætli maíhlýnunin verði ekki um +0,6 stig. Þetta eru allt stórar tölur á 30 árum - en segja að sjálfsögðu ekkert um framtíðina. Við lítum vonandi betur á þær síðar.
Bolli Pálmason bjó til kortið.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 11
- Sl. sólarhring: 184
- Sl. viku: 2458
- Frá upphafi: 2434568
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 2183
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010