Bloggfærslur mánaðarins, desember 2020
31.12.2020 | 14:43
Tengt leirskriðunni í Noregi
Leirskriðan í Ask í Noregi rifjar upp að í íslenskum miðaldaannálum er getið um mikið slys sem varð í Þrændalögum haustið 1345.
Í Lögmannsannál segir í texta ársins 1346 (ég breyti stafsetningu nokkurn veginn til nútímahorfs, lesa má frumtextann í annálaútgáfum á netinu - sjá tilvitnun hér neðst):
Þau tíðindi gerðust um haustið áður (1345) að hálfur þriðji tugur bæja sökk niður í jörð í Gaulardal svo að enginn urmull sá eftir byggðarinnar, utan slétt jörð og aur eftir þar sem byggðin hafði staðið.
Ítarlegasta frásögnin er í Skálholtsannál í texta ársins 1345:
Í Gaulardal í Þrándheimi bar svo til að áin Gaul hvarf nokkra [daga] og stemmdi uppi ána Gaul svo að fjöldi manna drukknaði, en yfir flæddi bæina svo að allir voru í kafi og allur fénaður drukknaði. Síðan brast stíflan og hljóp ofan allt saman og áin og tók þá miklu fleiri bæi og fénað, tók þar alls af átta bæi hins fimmta tugar og sumir af þeim höfuðból og nokkrar kirkjur. Var svo til reiknað að nær hálft þriðja hundrað manna hafi þar látist, bændur og konur þeirra og börn og prestar nokkrir og margir klerkar og fjöldi gildis-fólks og margt vinnu manna. Enn menn hyggja að þar muni eigi færra látist hafa vegfarandi manna og fátækt fólk en hinir sem taldir voru. Bar þetta til krossmessudag um haustið. Fannst nokkuð af líkum en fáum einum mönnum varð borgið svo að lifað hafa, því jörðin svalg allt saman mennina og bæina. Eru þar nú síðan sandar og öræfi, en fyrst voru vötn og bleytur svo að eigi máttu menn fram komast.
Fleiri annálar nefna atburðinn, en aðeins í mjög stuttu máli. Svo virðist sem íslensku heimildirnar séu þær einu sem geta hans beinlínis. Árið 1893 varð mikil leirskriða í Værdal í Norður-Þrændalögum þar sem að sögn fórust 112 manns, mannskæðustu náttúruhamfarir í Noregi á seinni öldum (fyrir utan sjóslysaveður). Tveimur árum síðar rituðu þeir Amund Helland og Helge Steen grein Lerfaldet i Guldalen í 1345. Birtist hún í ritinu Archiv for mathematik og naturvidenskap, B, xvii, nr.6 árið 1895, en einnig sem sérprent.
Finna má greinina á netinu, en þar er farið yfir frásagnir annálanna, staðhætti og jarðfræði og leiddar líkur að því hvað hafi gerst og hvar. Niðurstaðan er sú í grófum dráttum að frásögn Skálholtsannáls standist í öllum aðalatriðum. Leirskriða (sömu ættar og sú í Ask á dögunum) hafi stíflað ána Gaul (sem einnig er nefnd Gul). Vatn hafi safnast fyrir ofan stífluna sem að nokkrum dögum liðnum brast og flóð varð neðar í ánni. Tjónið hafi því verið þríþætt, bæir og land sukku og féllu með skriðunni sjálfri, bæir fóru á kaf ofan stíflunnar og tjón varð neðar í dalnum þegar stíflan brast.
Kortið hér að neðan er úr greininni. Þar má sjá að þetta er ekki langt frá Þrándheimi.
Vestari hluti kortsins - Þrándheimur lengst til vinstri. Hér má sjá endann á því svæði þar sem minjar finnast um flóðið neðarlega í dalnum.
Hér má sjá eystri hluta hamfærasvæðisins. Skriðusvæðið sjálft er á miðri mynd (aðeins dekkri brúnn litur), en svæðið sem fór í kaf ofan við er blálitað.
Niðurstaða þeirra Helland og Steen er sú að leirefnið sem á hreyfingu var hafi verið um 55 milljón rúmmetrar (fimm til tífalt rúmmál skriðunnar miklu í Hítardal 2018, og hátt í þúsundfalt rúmmál stærstu skriðunnar á Seyðisfirði nú á dögunum). Lónið hafi verið rúmir 150 milljón rúmmetrar (rúmur þriðjungur Blöndulóns).
Þegar rennt er yfir greinina kemur á óvart hversu algengir atburðir af þessu tagi eru í Noregi og hversu mörg stórslys hafa orðið. Hækkað hefur tímabundið í stórum stöðuvötnum og stíflur brostið, hús hafa sokkið eða hrunið og fólk farist í stórum stíl. En eins og vill verða um fleiri tegundir náttúruhamfara er ekki mikið um þetta rætt (nema meðal sérfræðinga). Margs konar hagsmunir koma við sögu auk ótta og óþæginda.
Þó hamfarirnar 1345 hefi verið miklar voru þær samt algjörir smámunir miðað við það sem yfir Noreg féll aðeins fáum árum síðar. Þá kom svartidauði og drap að minnsta kosti þriðjung landsmanna - kannski meir. Það er því e.t.v. ekki óeðlilegt að skriða - þó stór hafi verið - hafi fallið nokkuð í skuggann og aðeins verið skráð á Íslandi.
Vitnað er lauslega í:
Islandske Annaler indtil 1578. Udgivne for det norske historiske Kildeskriftfond ved Dr. Gustav Storm, Christiania. Grøndahl & Søns Bogtrykkeri, 1888.
29.12.2020 | 21:53
Hitavik 2020
Við getum nú slegið á hitavik ársins 2020. Í ljós kemur að hitinn í byggðum landsins er sjónarmun undir meðaltali síðustu tíu ára (-0,3 stig), en vel yfir eldri meðaltölum. Sé litið á spásvæði hefur verið kaldast á Suðurlandi og við Faxaflóa, þar raðast árið í 17.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Aftur á móti var hlýjast að tiltölu á Austfjörðum. Þar er árið það 9.hlýjasta á öldinni.
Kortið sýnir hitavik miðað við síðustu tíu ár (2010 til 2019). Þó ekki séu nema þrír dagar til loka ársins geta endanlegar tölur hæglega hnikast um 0,1 stig til eða frá. Veðurstofan mun síðar gefa út áreiðanlegra kort - og ritstjóri hungurdiska mun að vanda smjatta eitthvað á ýmsum veðurþáttum.
Tíð var óhagstæð og illviðrasöm fram undir páska - þó skárri í mars heldur en í janúar og febrúar en þeir mánuðir voru óvenjuillviðrasamir. Maí og júní voru hagstæðir, en víða var fremur kalt í júlí sem var víðast hvar kaldari heldur en ágúst. Framan af ágúst rigndi mjög um landið sunnan- og vestanvert en hlý og hagstæð tíð var þá norðaustanlands. Sunnanlands hefði áður fyrr jafnvel verið talað um rigningasumar í heyskap. Fremur svalt var í september en aftur á móti hlýtt að tiltölu í október og vindar oftast hægir. Heldur illviðrasamara var í nóvember, en samgöngur voru greiðar og tíð almennt hagstæð. Desember verður að teljast hagstæður um landið sunnan- og vestanvert og með snjóléttara móti, en mjög úrkomusamt var aftur á móti norðaustan- og austanlands og virðist stefna í úrkomusamasta desembermánuð sem vitað er um á allmörgum veðurstöðvum í þeim landshlutum.
27.12.2020 | 20:38
Af árinu 1832
Vel var talað um veðurlag á árinu 1832. Sumarið var þó kalt um landið sunnanvert, en heyskapur bjargaðist. Meðalhiti í Reykjavík var 3,3 stig og reiknast 2,6 í Stykkishólmi (reiknast trúlega lítillega of lágt). Janúar var fremur hlýr, febrúar svalur og einnig allir mánuðirnir frá og með maí til og með október. Mælingar austur á Ketilsstöðum á Héraði benda þó til þess að þar hafi verið heldur hlýrra að tiltölu, sérstaklaga í júlí.
Þrjátíu dagar voru kaldir í Reykjavík, en enginn mjög hlýr. Það var sérlega kalt að næturlagi um langa hríð í ágúst, sólarhringslágmarkshiti 5 stig eða minna allar nætur eftir þann 8. (nema eina).
Árið var úrkomusamt í Reykjavík, úrkoman mældist alls 926 mm. Október var úrkomusamastur, en ágúst þurrastur.
Loftþrýstingur var mjög lágur í mars og október, en aftur á móti óvenjuhár í maí og júlí. Lægsti þrýstingur ársins mældist 944,1 hPa í Reykjavík þann 12.desember. Er ekki ótrúlegt að þá hafi sjávarflóðið orðið á Álftanesi og lítillega er minnst á í bréfakafla hér að neðan. Hæstur mældist þrýstingurinn 10.maí, 1036,8 hPa. Enn hefur ekki verið farið yfir þrýstimælingar sem gerðar voru á Ketilsstöðum á Héraði og á Möðruvöllum í Hörgárdal né gæði þeirra metin.
Hér að neðan eru helstu rituðu heimildir um árið teknar saman - þær eru ekki miklar. Veðurfarsyfirlit ársins er aðeins fjórar línur í annál 19.aldar. Annállinn getur hins vegar fjölmargra slysa sem ekki eru nema að litlu leyti tíunduð hér að neðan - enda langflest án dagsetninga og erfitt að tengja þau veðri.
Skírnir [VII 1833, s59] lýsir árferði 1832:
Á Íslandi var tíðindaár þetta góð árferð og heilsufar manna í góðu lagi; veturinn 18311832 var allgóður yfirhöfuð og snjólítill, en vorið var kalt og gróðurlítið lengi frameftir hið nyrðra og vestra, rak og hafís að landi, en ei varð hann lengi landfastur né kaupförum til tálma; fjárhöld urðu allgóð norðan- og austanlands, en syðra og vestra gekk peningur magur undan, og sumstaðar var þar nokkur fellir af sauðfé, en hvarvetna notalítið þegar sumraði. Grasvöxtur var næstliðið sumar yfir allt land allgóður og nýting að óskum, en haustið mikið votviðrasamt sunnanlands með gæftaleysi, og varð lítið um fiskiafla; en góðir urðu vetrar- og vorhlutir. Norðanlands gekk vetur snemma í garð, en með jólaföstu breyttist veður aftur til batnaðar, og voru úr því til þorraloka [1833] sunnanvindar og snjóleysur; syðra voru hreggviðri og slyddur fram um jól tíðast, en þá hægði til og þornaði og gjörði gott veður með lognum og hægu frosti; sumstaðar gjörðu skriðuhlaup og vatnsflóð nokkurn baga, einkum á Vesturlandi. Bæjabrunar urðu og nokkrir austanlands á næstliðnu sumri, er sagt 2 manneskjur brynni þar inni eður dæi af þeim menjum, og hafa þó eigi ljósar fréttir affarið.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Í janúar óstöðugt og blotasamt. Hélst þó jörð til lágsveita, en lagði jarðbann á heiðar og fjallabyggðir. Með febrúar norðanhörkur 9 daga, síðan hörkur og köföld með blotum á víxl, með jarðleysi. Í þorralok voru öll hross á gjöf komin. Á góu urðu oft skepnur ei hirtar við gjöf eftir þörfum vegna illviðra. Frá sólstöðum til góuloka urðu 16 blotar. Brutust þá vermenn suður, margir hestslausir. Í marslok lagði ofan á gaddinn mikla fönn, svo kalla mátti, að hús og bæir færi í kaf.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Síðari part einmánaðar var stillt og gott veður og sólbráð, er svo vann á, að autt mátti kalla í lágsveitum á sumarmálum. Eftir sumarpáska mikill kuldakafli, þar til 12. maí, að hláku og heiðarleysing gerði og mikið flóð í vatnsföllum. 22. maí suðaustanhríð og gerði mikla fönn og var vond tíð um sauðburðinn.
Viðeyjarklaustri 6-3 1832 (Magnús Stephensen):
(s103) Vetur er hingað enn þá enginn kominn, aldrei að kalla frost, aldrei varla sést snjór, en aldrei linnt ofsastormviðra geysióveðrum, svo hvergi hefir orðið fært um jörð eða út úr húsum, og aldrei á sjó; er því alls ekkert fiskað, sumarhey allstaðar dáðlaus og mjólkurlaus ...
Bessastöðum 25-3 1832 [Ingibjörg Jónsdóttir]: (s136) Vetur hefur hér verið með þeim verstu illviðrum, svo útigangur er horaður.
Espólín [vor og sumar]:
CLXXIX. Kap. Var vor kalt og síðgróið, og ei mikill grasvöxtur á túnum eða þurrengi, og á votengi góður, og varð hin besta nýting, og ár gott var að spyrja um allt land með þurrviðrum, en allstaðar voru hin sömu vandræði með hjúaleysi og lausingjafjölda, og hrossamergð. (s 189).
Bessastöðum 13-5 1832 [Ingibjörg Jónsdóttir]: (s138) Vorið hefur verið mikið kalt, en nú í þrjá eða fjóra daga hefur veðrið verið blíðara.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Um fardaga kom fljótur og góður gróður, en langt þótti að bíða eftir honum, nokkru síðar kuldar og snjóaði á nætur, seinni helming júní góð tíð. 28. lögðu lestir suður og fengu menn ófærð og rigningar og gróðurleysi á fjöllum. Í júlí besta grasvaxtartíð, svo sláttur byrjaðist þann 16., veður og nýting að óskum allan heyskapartímann. 25.-26. júlí varð skaðaveður víða á heyi, en rekjulítið þótti á harðlendi. 9. sept. byrjuðu göngur, en eftir venju of snemma, mörgum til skaða. Var þá gras lítt dofnað. 16. kom fönn allmikil, síðan gott til 3. okt.
Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum 6. ágúst 1832 - Andvari 98/1973):(bls. 188):
Sumar þetta hefir verið hér fyrst vindasamt og svalt, síðan heitt úr því sláttur byrjaði, en oft hafa stormar feykt heyjum til skaða. Töðunýting hin besta, grasár í betra lagi.
Gufunesi 7-8 1832 (Bjarni Thorarensen): Grasvöxtur hefir hér syðra verið góður og nýting allbærileg. (s203)
Viðeyjarklaustri 8-8 1832 (Magnús Stephensen): (s108) Veðurátt allgóð, grasvöxtur og nýting heyja það af er ...
Gufunesi 18-9 1832 (Bjarni Thorarensen): Veðurátta annars kalsasöm með snjóum ofaní byggð, en heyskapur hefir víðast hvar lukkast uppá það allrabesta. (s205)
Bessastöðum 15-8 1832 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s139): Árferði er nú sæmilega gott hér, hvað þurrka og nýting snertir.
Laufási 30-9 1832 [Gunnar Gunnarsson]:
(s50) ... stakir þurrkar voru hér framanaf sumri allt fram í ágúst mánuð, svo að þurrlend tún brunnu víða og kólu til stórs skaða, svo heyafli varð víða á endanum lítið. Á dögunum framan af þessum mánuði gengu hér stormar, hreggviðri og hríðar, en í viku hefur verið staðviðri og blíða.
Brandsstaðaannáll [haust og vetur út árið]:
Gerði þá hríð mikla og hagleysi í útsveitum, svo kaupstaðarferð varð mörgum hin bágsta, en aðrir snéru aftur. Lítið snjóaði til framsveita. Eftir það rigningasamt, mest. 24. okt. Að vatnsföll urðu ófær og flaut mjög yfir jörðu. Með nóvember mikil fönn vikutíma, eftir það gott vetrarfar til nýárs, með stilltu og frosthægu veðri og oft auð jörð á fjalllendi.
Gufunesi 28-2 1833 (Bjarni Thorarensen): ... nema að veturinn hefir verið sá besti. Nokkuð hrakviðrasamt frameftir honum öllum, rigningar fjarskalegar í haust svo víða féllu þá skriður til stórskemmda einkum í Borgarfirði, meðal annars (s208) hefi ég heyrt að mikið af túnum hafi spillst á Húsafelli. (s209)
Bessastöðum 2-3 1833 (Ingibjörg Jónsdóttir til Magnúsar Eiríkssonar) (s84): Stórflóð, sem kom í desember, gjörði hér stóran skaða á býlum á Nesinu. Grútarkaggar og slorskrínur og allt hvað lauslegt var komst á haf út, svo ég er ekki óhrædd um, að eitthvað af þessu hafi rekið upp hjá ykkur. Þó mun ekkert af þessu með mínu marki. Í þessu kasti fór jörð mín, Bárukílseyri, næstum í sjó, svo ekki get ég sett mig þar niður, þegar ég flæmist héðan. ... Vetur hefur verið frostalítill en vindasamur. Skriður hafa fallið, einkum þó í Borgarfirði. Þó held ég að sýslumaður hafi ekki orðið undir þeim.
Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1832:
Bilar von þá nálgast neyð
nærist víl og rauna skraf,
vindsvals sonur sem nú leið
sannfæringu þar um gaf.
Byrjun þorra frá ófrí,
fram að apríl hörku stór
haga vorra haddinn því
hvítur byrgði ís og snjór.
Sumir misstu seggir fé,
sögðust heyin krafta rýr,
bíða gisti heilla hlé
harkan svelti jarðar dýr.
Vorið gæða-veður gaf,
varmann hlýrnir að oss bar
sól nam bræða ísinn af
aldinn haddi fjörgynar.
Sumarið blíða sendi lóð
sælu-veður holl og þæg
hér því víða hreppti þjóð,
heyin bæði góð og næg.
Haustið nærði hret óspörð,
helli-skúrum með í ár
ofan færði oft á jörð
ýmis vaxin hvarma tár.
Hríða baðið beljandi
bagasamt því mörgum var
tóku skaða teljandi
tún og engi víða hvar.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1832. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
26.12.2020 | 23:50
Dálítið tregt
Lægðin sem kom að landinu á aðfangadag og olli mikilli rigningu um landið vestanvert - og síðan vestanéljagangi í gær, jóladag, hefur verið yfir landinu í dag, annan dag jóla. Eins og títt er í miðju mikilla lægða sem náð hafa fullum þroska hefur vindur nærri miðju hennar verið hægur og niðurstreymi yfir köldu landinu eyðir skýjum. - Nú á lægðin að fara suðaustur um Bretland því öflugur hæðarhryggur leitar á úr vestri og norðanstormi spáð á morgun, sunnudag. Þetta er ekki alveg algengasti gangurinn eftir atburðarás eins og þá sem hér hefur verið lýst.
Spákortið hér að ofan gildir síðdegis á mánudag, 28.desember og sýna heildregnar línur hæð 500 hPa-flatarins. Af þeim ráðum við vindátt og vindstyrk í miðju veðrahvolfi. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Lægðin sem er yfir landinu í dag er hér komin suður á Ermarsund, dælir miklum hlýindum langt norður eftir Skandinavíu, en kulda norðan úr höfum yfir Ísland og suður yfir Bretland og síðar meginland Evrópu. Lægðin á síðan að síga enn sunnar. Hún er mjög víðáttumikil og það mun taka tíma að hreinsa hana og kalda loftið burt - vel má vera að kalt verði um Frakkland, Spán og víðar næstu eina til tvær vikur.
Hlýindin sem fara norður auka á viðloðandi fyrirstöðu á þeim slóðum, fyrirstöðu sem hefur verið viðloðandi í mestallt haust - án þess þó að vera mjög sjáanleg - dálítið einkennilegt mál. Framtíðarspár eru ekki mjög sammála um hvað gerist næst - það hefur einhvern veginn legið í loftinu að ný fyrirstaða rísi upp nærri Grænlandi - það gæti verið bæði hagstætt og óhagstætt fyrir okkur. Ef það gerist nærri okkur myndu lægðir forðast landið á næstunni - oftast yrði fremur svalt - en illviðralítið. Myndist fyrirstaðan vestar er komin ávísun á langvinna norðanátt með kulda og trekki - sumir vilja víst svoleiðis. En síðan er sá möguleiki auðvitað uppi að fyrirstaðan verði fyrir sunnan land - kannski gerir þá hlýindi eða eitthvað svoleiðis.
Það er eftirtektarvert að kuldapollurinn yfir Kanada (sá sem við höfum á þessum vettvangi kallað Stóra-Bola) er ekki öflugur þessa dagana (það getur þó breyst á skammri stundu), miklu rýrari heldur en bróðir hans í austri, Síberíu-Blesi. Það er raunar mjög hlýtt (að tiltölu) um mestallt vesturhvel, kalda loftið er til staðar - en fær óvíða frið á þeim slóðum.
Það er svosem kominn tími á háþrýstivetrarmánuð - eða háþrýstivetur hér á landi, afgerandi slíkur mánuður hefur ekki komið síðan í mars 2013. Loftþrýstingur í desember hefur þó hingað til verið í meðallagi.
21.12.2020 | 03:02
Fyrstu tuttugu dagar desembermánaðar
Meðalhiti fyrstu 20 daga desembermánaðar í Reykjavík er +2,8 stig, +1,8 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, +2,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára og í 5.hlýjasta sæti á öldinni, nokkuð langt þó frá efstu sætum. Hlýjastir voru dagarnir 20 árið 2016, meðalhiti þá 5,6 stig, en kaldastir voru þeir 2011, meðalhiti -2,8 stig. Á langa listanum er hiti nú í 14.hlýjasta sæti (af 145), hlýjast var 2016, en kaldast 1886, meðalhiti þá -5,6 stig.
Á Akureyri er meðalhiti dagana 20 +0,2 stig, 0,6 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, en +1,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Ekki er mjög mikill munur á hitavikum eftir landshlutum, hlýjast hefur verið á Suðurlandi þar sem hitinn er í 6.hlýjasta sæti aldarinnar, en kaldast við Breiðafjörð og á Vestfjörðum þar sem hann er í 11.hlýjasta sæti.
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Þingvöllum, hiti +3,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast hefur verið í Bolungarvík og Ólafsvík þar sem hiti er -0,1 stigi neðan meðallags sömu daga síðustu tíu ára.
Úrkomu hefur verið mjög misskipt á landinu. Í Reykjavík hefur hún mælst 26,3 mm, um helmingur meðalúrkomu og sú næstminnsta í desember á öldinni (var ívið minni sömu daga 2010). Á Akureyri hefur úrkoma mælst 181,3 mm og er það hátt í fjórföld meðalúrkoma áranna 1991 til 2020. Hefur aldrei mælst meiri sömu daga í desember. Metúrkoma hefur líka fallið á allmörgum öðrum stöðvum. Mest úrkoma sem frést hefur af á mannaðri stöð til þessa í mánuðinum er á Hánefsstöðum í Seyðisfirði þar sem hún hefur mælst 601,1 mm. Á sjálfvirku stöðinni í bænum á Seyðisfirði hefur úrkoman mælst 760 mm, en 440 mm á stöðinni í Vestdal. Úrkoma á Dalatanga hefur mælst 190 mm, það fjórðamesta sem vitað er um sömu daga þar á bæ. Af þessu má sjá hversu staðbundin úrkoma getur verið.
Sólskinsstundir í Reykjavík hafa mælst 3,6 og er það með minna móti. Nokkrum sinnum hefur ekkert eða nær ekkert sólskin mælst þessa sömu daga í desember, síðast 2016.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 03:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2020 | 17:11
Skriðuföll á Seyðisfirði
Nú flettum við upp í atburðaskrá ritstjóra hungurdiska og leitum þar að skriðuföllum á Seyðisfirði. Atburðaskráin nær aftur til ársins 1874 og fram til 2011. Nýrri atburðir eru þar ekki. Auðvitað er skráin ófullkomin og fjölmarga atburði vantar - eða þeir hafa hugsanlega verið rangt flokkaðir.
Gamla veðurstöðin á Seyðisfirði 25. júlí 1959 (ljósmynd: Þórir Sigurðsson, úr safni Veðurstofunnar).
Allmikið er um skriðuföll á Seyðisfirði, enda brött fjallshlíð ofan við bæinn. Lítum nú á listann - hver færsla byrjar á dagsetningu: ár - mánuður - dagur, fyrsti atburðurinn er merktur 1882 10 20 -> 20.október árið 1882:
1882 10 20 sk Rigning og krapahríð á Austfjörðum olli skriðum, m.a. úr Bjólfinum á Seyðisfirði, féll þar á hús, en braut ekki.
1892 7 3 sk Skriða úr Strandartindi á Seyðisfirði olli tjóni. Skriðan rann á og í gegnum hús Pöntunarfélags Héraðsmanna, braut húsið og skemmdi vörur.
1897 8 14 sk Mikil skriðuföll á norðanverðum Austfjörðum, tjón á Seyðisfirði, Mesta skriðan féll á Búðareyri og olli miklu tjóni, litlu minni skriða, en skaðalítil, féll úr Strandartindi. Fjölmargar fleiri skriður féllu í firðinum og gerðu sumar þeirra tjón. Skriða skemmdi tún á Úlfsstöðum í Loðmundarfirði og skriður ollu skaða í Mjóafirði.
1903 1 14 sk Skriða féll úr Strandartindi á Seyðisfirði niður á Búðareyri
1905 8 5 sk Stórrigning á Austfjörðum. Mikil skriðuföll úr Strandartindi á Seyðisfirði eyðilagði bræðsluhús.
1912 9 1 sk Skriður gerðu landspjöll á Seyðisfirði.
1921 8 1 sk Mikil skriðuföll urðu á Austfjörðum, sennilega 1. til 3., en engar úrkomumælingar voru á því svæði. Bæjarhús hrundu á Hrjót í Hjaltastaðaþinghá og tún stórspilltist í Skógum í Mjóafirði. Búðaá á Seyðisfirði flæddi yfir bakka sína og skemmdi tún, vegi og garða.
1935 9 14 sk Skriðuföll úr Strandartindi við Seyðisfjörð ollu miklu tjóni, einnig urðu skaðaskriður í Norðfirði (Skorrastað, Skálateigsbæjum og Miðbæ) og Eskifirði.
1950 8 19 sk Mikil skriðuföll urðu á Austfjörðum og ollu verulegu tjóni á Seyðisfirði, Eskifirði og Reyðarfirði, fjárskaðar urðu í Hjaltastaðaþinghá þegar vatn gekk á tún og engjar. Geysileg skriðuföll úr Strandartindi á Seyðisfirði, fimm manns, þar af fjögur börn, fórust og mikið tjón varð á húsum. Á Eskifirði hljóp vatn á hús, en skemmdir urðu ekki miklar. Víðar féllu skriður sama dag, m.a. við utanverðan Eyjafjörð og í Ólafsfirði og tepptu vegi.
1958 9 30 sk Skriða féll úr Strandartindi á Seyðisfirði og skemmdi húsin Hörmung og Skuld og þriðja húsið skemmdist talsvert. Einnig eyðilögðust fjárhús, hlaða og geymsluskúr auk minni háttar spjalla. Innan bæjarmarka féllu 5 skriður, en 16 í nágrenninu.
1960 7 30 sk Minniháttar skriðuföll á Seyðisfirði, vatn rann í hús og vatnsleiðslur fylltust af aur.
1974 8 25 sk Skriðuföll austanlands, við Eskifjörð, Fáskrúðsfjörð og í Mjóafirði. Margar skriður féllu úr Strandartindi á Seyðisfirði og eyðilagðu fjárhús og spilltu lóðum, gróðri og girðingum. Vegaskemmdir í Vopnafirði.
1981 9 25 sk Aurskriður féllu á Seyðisfirði og Eskifirði. Á Eskifirði varð tjón á lóðum og kjallari fylltist. Skriður féllu bæði úr Bjólfi og Strandartindi á Seyðisfirði, en tjón varð lítið.
1989 8 11 sk Allmikil skriðuföll úr Strandartindi á Seyðisfirði, m.a. braut skriða enda á geymsluhúsi.
2001 10 1 sk Allmikil skriðuföll austanlands, aurskriður féllu á Seyðisfirði þ.1., tjón varð lítið.
2002 11 12 sk Aurflóð féll úr Botnum á Seyðisfirði og lenti á hús við Austurveg. Mjög stór skriða féll við Brimnes í Fáskrúðsfirði.
Í annarri skrá (bandaríska endurgreiningin) getum við flett upp meðalvindátt á svæðinu kringum Ísland - og líka í háloftunum þessa daga. Þá kemur í ljós að flest tilvikin eru svipuð - áttin er oftast af austnorðaustri (sitt hvoru megin við 60 gráður á áttavita) - en í fáeinum frekar nær norðaustri. Stefnan í háloftunum er svipuð - þó oftar ívið suðlægari í háloftum (þá hlýtt aðstreymi lofts) - en ekki munar miklu. Vindur er meiri niðri heldur en uppi - og þykktarbratti lítill. [Stöku maður myndi tala um efri hlýjan geira - tengdan samskilum - en við förum ekki út í slíkt].
Það er þó ekki þannig að allir dagar sem eiga svipað vindamynstur séu skriðudagar - langt í frá. Fleira þarf til - langvinnt rakaaðstreymi verður að vera til staðar. Auk þess er viðbúið að máli skipti hvernig aðstæður eru í jarðvegi. Mikil og áköf úrkoma veldur ekki alltaf skriðuföllum.
Gömul þumalfingurregla (erlendis að) segir að fari sólarhringsúrkoma yfir 6 prósent af meðalársúrkomu sé rétt að fara að hugsa um möguleg skriðuföll. Þau mörk eru í kringum 100 mm á Seyðisfirði. Úrkoma mældist nokkrum sinnum meiri en það meðan mannaðar athuganir áttu sér stað í bænum, 23 sinnum á 68 árum tæpum. Við getum sagt þriðja hvert ár. Fimm sinnum mældist hún meiri en 130 mm, gróflega einu sinni á áratug. Mest 140,6 mm þann 12. febrúar 1974 - þá var meiri snjóflóða- heldur en skriðuhætta.
Úrkoma hefur einnig verið mæld á Hánefsstöðum, utar í firðinum. þar hafa séet enn hærri tölur, 20 sinnum á 18 árum yfir 100 mm, sú hæsta 201,1 mm þann 4.júlí 2005.
Sjálfvirkur mælir var fyrst settur upp á Vestdalseyri, hæsta sólarhringtalan sem við höfum enn séð úr honum er 159,7 mm, mæld 11.nóvember 2002 - þetta er atburður á skriðulistanum hér að ofan. Næsthæsta talan er 153,6 mm, mæld 1.október 2001 - líka atburður á skriðulistanum. Sjálfvirka stöðin í bænum á Seyðisfirði hefur aðeins verið starfrækt í nokkur ár. Hæsta tala sem þar hefur enn sést (fram að atburðunum nú) er er 170,2 mm á sólarhring, þann 23.júní 2017 - ritstjóri hungurdiska veit reyndar ekki hvort sú tala hefur hlotið heilbrigðisvottorð.
Nokkurn tíma tekur að gera upp úrkomuna þessa dagana - bæði sólarhringsúrkomu og úrkomu nokkra daga í röð. Svo vill til að vinna er í gangi á tveimur vígstöðvum varðandi aftakaúrkomu á Íslandi almennt - og úrkomu á Seyðisfirði sérstaklega. Ritstjóri hungurdiska er ekki flæktur í þessi verkefni og því alls ekki nægilega fróður um útkomuna. Skýrslur verða væntanlega ritaðar um atburðina nú.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.12.2020 | 01:59
Hálfur desember
Hlýtt hefur verið síðustu daga og meðalhiti mánaðarins það sem af er er kominn í 2,6 stig í Reykjavík, +1,6 stigi ofan meðallags fyrri hluta desember 1991 til 2020, en +2,4 stigum ofan meðallags síðustu 10 ára og í 5.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni, langt þó neðan við þau hlýjustu. Hlýjast var 2016, meðalhiti þá 6,2 stig, kaldastir voru dagarnir 15 árið 2011, meðalhiti þá -3,4 stig. Á langa listanum er hiti nú í 20.sæti (af 145), hlýjast var 2016, en kaldast 1893, meðalhiti þá -5,9 stig.
Á Akureyri stendur meðalhiti nú í -0,3 stigum, í meðallagi áranna 1991 til 2020, en +1,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Tiltölulega hlýjast hefur verið á Suðurlandi, hiti þar í 6.hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast að tiltölu á Vestfjörðum og Austurlandi að Glettingi, hiti í 12.hlýjasta sæti aldarinnar.
Á einstökum veðurstöðvum er að tiltölu hlýjast á Húsafelli, hiti +3,2 stig umfram meðallag síðustu tíu ára. Kaldast, að tiltölu, hefur verið við Upptyppinga. Þar er hiti -0,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Úrkoma hefur mælst 26,1 mm í Reykjavík, um 2/3 hlutar meðalúrkomu, en á Akureyri hefur hún mælst 118,4 mm - um þrefalt meðaltal sömu daga. Enn meiri, hefur úrkoma mælst austanlands, var í morgun (þriðjudag) komin yfir 300 mm á Hánefsstöðum í Seyðisfirði - en þá vantar enn úrkomuna síðasta sólarhringinn, en úrhelli hefur verið víða á Austfjörðum í dag, sýnist vera yfir 170 mm á Seyðisfirði á þeim tíma (óstaðfest).
Sólskinsstundir hafa mælst 2,8 stundir í Reykjavík það sem af er mánuði - um 4 stundum neðan meðallags.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2020 | 21:51
Af árinu 1831
Almennt er vel látið af árinu 1831 að öðru leyti en því að miklar rigningar voru sunnan- og vestanlands þegar kom fram á mitt sumar og spilltu þær heyskap. Ekki er mikið um prentaðar fréttir en mælingar voru gerðar á fáeinum stöðum, og sömuleiðis eru heimildir í dagbókum - gallinn bara sá að mjög erfitt er að lesa þær flestar.
Meðalhiti í Stykkishólmi er áætlaður 3,8 stig [svipaður og t.d. 1999], 4,9 stig í Reykjavík og 3,9 stig á Ketilsstöðum á Völlum. Ágústmánuður var mjög kaldur sunnanlands - í rigningatíð, en mun hlýrri austur á Héraði - minnir dálítið á hin sígildu rigningasumur 8. og 9. áratuga 20.aldar. Júní var hlýr, einkum sunnanlands. en kalt var í maí, september og nóvember.
Myndin sýnir hlýindi um tíma í janúar, kuldaköst á þorra, snemma í maí og seint í október. Sömuleiðis gerði skammvinnt, en snarpt kuldakast um mánaðamótin ágúst og september. Þá var kaldast í Reykjavík á árinu - að tiltölu. Annars voru óvenjukaldir dagar í Reykjavík 9 talsins (sjá viðhengi). Hlýir dagar voru tíu, langflestir í júní, sá 15.hlýjastur. Mjög umhleypinga- og illviðrasamt var um tíma í nóvember og desember. Hiti fór í 20 stig í Reykjavík 5.dagar (sjá viðhengi).
Myndin sýnir lágmarkshita hvers sólarhrings í Reykjavík og lægsta mældan hita á Ketilsstöðum á Völlum (þar var hiti mældur 4 sinnum á dag flesta daga ársins 1831). Það er með vilja að ekki er mikill munur á lit ferlanna - þannig að við sjáum hversu vel þeir falla saman í öllum aðalatriðum. Einna mestur munur er í fáeina daga fyrir miðjan júní - þegar bjart og sæmilega hlýtt er syðra, en svalara í norðaustanátt á Héraði. Svo er töluverður munur síðar um sumarið þegar fjölmargir hlýir dagar eru á Héraði, en dumbungur og svali syðra.
Úrkoma í Nesi mældist 863 mm. Einna þurrast að tiltölu var í janúar og júní, en mjög úrkomusamt í júlí og september.
Þrýstingur var óvenjulágur í júlí. Hann var líka fremur lágur í mars og október, en hár í janúar. Lægsti þrýstingur ársins í Reykjavík mældist 17.desember, 957,4 hPa, en hæstur mældist hann 1036,8 hPa, 2.apríl.
Hér að neðan eru helstu rituðu heimildir um árið teknar saman. Annáll 19.aldar er mjög stuttorður um veðrið á árinu 1831 - aðallega samdráttur úr tíðavísum Jóns Hjaltalín (sjá hér að neðan) sem og úr árbókum Espólíns. Annállinn getur hins vegar fjölmargra slysa sem ekki eru nema að litlu leyti tíunduð hér að neðan - enda langflest án dagsetninga og erfitt að tengja þau veðri.
Skírnir (VI 1832 - s85) segir af árferði 1831:
Á Íslandi var árferði á þessu tímabili nokkuð misjafnt, en yfirhöfuð sem í betra meðalári; vorið reyndist hagstætt, en svalt og þurrt, og sumarið norðanlands æskilega blítt og afli góður; en sunnan- og vestanlands var sumarið vætu- og regnasamt, en fiskiafli var einhver hinn besti, einkum á Vesturlandi; var og grasvöxtur æskilegur, og nýting góð norðanlands; en syðra hröktust hey mjög til skemmda.
Brandsstaðaannáll [vetur]:
Var fjórða gæðaárið. Í janúar gott og stillt veður, snjólítið og stundum þíða, í febrúar snjóameira, en þó víðast hagi nokkur, hláka í fyrstu viku góu; í annarri viku hríð og fönn mikil um 3 vikur. Á góuþræl fjarskarigning um 5 dægur í sífellu. Vatnaruðningur varð mikill og bárust jakar með grjóti miklu á engi allvíða.
Jón Jónsson segir janúar megi telja í meðallagi, en febrúar nokkuð þungan, mars segir hann dágóðan.
Árbækur Espólíns [vetur]:
En veturinn varð þó einkar góður, og nálega því betri sem á leið meira, og engir mundu slíkan einmánuð, kom þó ís, og var sem að engu bagaði; dó þá fátt nafnkenndra manna, og var fátítt lengi allstaðar at spyrja. (s 174). CLXVI. Kap. Á þorra týndust skip á Suðurnesjum og á ellefu menn; var vestan átt, og þá hart vestra. (s 174).
Suðurnesjaannáll (Rauðskinna):
Fjórir skipstapar þ. 9. febrúar í ofsaveðri og byl. Þá fórst eitt fjögramanna-far frá Löndum ... þrír bátar frá Garði með sjö mönnum. Einn bát rak inn á Vatnsleysuströnd.
Hagstæðu vetrarveðri er lýst í nokkrum bréfum:
Jón Þorsteinsson skrifar með sexmánaðaskammti af veðurathugunum þann 1.mars (hér í lauslegri þýðingu):
Veturinn hefur hingað til verið mildur og snjór minni en venjulegt er því að í desember, sem þó var kaldastur, féll næstum enginn snjór og desember er þurrastur síðustu 6 mánaða (frá og með september). Engir jarðskjálftar hafa fundist hér um slóðir þessa mánuði, en hins vegar viðvarir af og til reykur sá sem í fyrra tók að stíga upp úr hafi u.þ.b. 14 til 15 mílur [80 til 90 km] suðvestur frá Reykjanesi, án þess, að því er virðist, að hafa nokkrar afleiðingar.
Viðeyjarklaustri 5-3 1831 (Magnús Stephensen):
(s94) Vetur hér syðra hinn besti, fiskfæð nú lengi, og vulcansk eruption [eldgos], lík þeirri í fyrra, hér á ný byrjuð fyrir mánuði síðan á sama stað í suðvestri frá Fuglaskerjum, en menn segja langt úti í hafi sem í fyrra. Vetur hér syðra hinn allrabesti að kalla snjóa- og frosta laus, góður allstaðar, en þótt höstugri til sveita og nyrðra, og nú hafþök komin allstaðar nyrðra af hafís.
Gufunesi 11-3 1831 (Bjarni Thorarensen):
Veturinn hefir hér ennþá verið uppá það besta og þeim mun þægilegri en hinir að hann hefir verið þurr og nokkuð frostasamur, en í Þingeyjar sýslu og allt vestur að Öxnadals heiði hefir hann harður verið, og er ég hræddur um að þetta verði byrjun óára, því lengi hefir gott gengið og harðindi hafa ætið fyrst byrjað í Þingeyjar- og Múla sýslum og endað þar fyrst. (s189)
Bessastöðum 22-4 1831 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s132)
Veturinn hefur hér verið sá besti og fiskiríið svo fjarskalegt, að elstu menn ekki muna annað eins. ... Seinast í janúar sást reykur fyrir Reykjanesi. Síðan er ekki talað um það.
Brandsstaðaannáll [vor]:
Eftir það vorgæði, svo gróður kom með maí. Litlu síðar gerði hart kuldakast 5 daga, eftir það stöðug vorblíða.
Jón Jónsson segir apríl í meðallagi góðan en nokkuð óstilltan að veðráttu. Fyrri hluta maí segir hann kaldan og bágan, en síðan hlýjan og góðan.
Brandsstaðaannáll [sumar]:
Tún spruttu í besta lagi, líkt og 1828. Bar mest á grasmegni á óræktartúnum. Í sama máta var allt þurrengi ágætt, en mýrar og votengi lakara. Sláttur byrjaði 12.-13. júlí, töðunýting besta, fyrri part ágúst regnasamt. Varð þungur heyskapur á votengi, en ei þurftu skemmdir að verða á heyi, þó aðferð allmargra olli því. Síðari helming engjasláttar besta tíð. Urðu mikil hey og fúlgur stórar við fornu heyin, er margir söfnuðu ár frá ári. Í göngum hlýviðri og jökulleysing mikil.
Ólafur Eyjólfsson á Uppsölum segir frá 7 þrumum þann 17.júlí og miklum skúrum [miklir skúrar]. Býsna oft skúrir í júlí og ágúst. Éljaleiðingar 1.september.
Jón Jónsson segir júní merkilega góðan. Júlí segir hann allan dágóðan og hentugan heyskap. Hann nefnir líka þrumuveðrið þann 17.júlí. Ágúst var mikið góður og hagstæður heyskap. Samantekt fyrir september vantar, en af vikuyfirlitum að ráða virðist veðrátta hafa verið góð.
Árbækur Espólíns [vor og sumar]:
CLXVIII. Kap. Vorið var gott og svo sumarið, nema rigningasamt nokkuð á hundadögum, og varð mikið af því syðra, svo stórum skemmdi hey, voru æ jafnan sunnanáttir, svo að nær þótti undarlegt. Reyk varð og vart við mikinn á öndverðu sumri, og vissi enginn víst hvaðan kom, þó hugðu flestir vera mundi fyrir Reykjanesi, því þar hafði orðit vart elds um veturinn, og sögðu menn að fallit mundi hafa á jörð. (s 177). CLXXII. Kap. Þá var enn sem fyrri gott ár, og heyskapur mikill og góður, helst fyrir norðan Yxnadalsheiði, því sunnanáttir voru jafnan, var mjög vott syðra og spilltust hey. (s 183).
Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum segir fréttir af veðri - en aðallega slysförum í bréfi sem dagsett er 4.ágúst 1831 (Andvari 98/1973 s186):
Héðan er að frétta milda en votviðrasama veðuráttu, svo töður nýtast illa. Heilsufar manna almennt í betra lagi, og fáir nafnkenndir deyja hér nyrðra. En hryllilegt var mörgum manntjónið að vestan, þá P. Thorbergsen [Páll Þorbergsson] nýorðinn Vestfjarðalæknir fórst með 8 mönnum öðrum á leið frá Stykkishólmi til Fellsstrandar þann 10. júní, og daginn eftir fórst skip með 5 merkisbændum úr Hvammssveit á leið til Stykkishólms [aðrar heimildir segja þetta hafa verið í Hraunsfirði og 10.júlí]. Einn eða tveir menn úr Dalasýslu drukknuðu um sömu mundir af báti í Búðaósi, og einn á Lækjarskógsfjörum, svo sýsla sú hefir orðið fyrir miklum mannskaða þar allir þessir áttu heimili í henni, nema Thorbergsen, hér almennt er harmaður sem mikill dugnaðar og dánumaður.
Brandsstaðaannáll [haust]:
Haustið gott til nóvember. Komu þá hríðar og fannir miklar, þó tók óvíða fyrir beit. 21.-23. nóv. mikið sunnanstormveður með frostlini, er bar víða sand á slægjur og eftir það vikuhláka, jólafastan stillt og góð og þíða fyrir nýárið, auðar allar heiðar.
Ólafur á Uppsölum nefnir ofsabylji (hvassviðri) aðfaranótt 22.nóvember og 24. einstakt ólátaveður og bylji.
Október segir Jón Jónsson yfir höfuð dágóðan að veðráttu. Nóvember var líka dágóður nema fyrsta vikan. Desember hvassviðrasamur framan af en síðan stilltari.
Bjarni Thorarensen ritar í Gufunesi 2.mars 1832:
Haustafli var hér rýr. Sumarið [1831] votsamt og örðugt í þessu plássi milli manna. ... Tveir menn urðu úti 4. nóvember á Hellisheiði og í þeim byl urðu fjárskaðar miklir einkum hjá mér ég hefi í allt misst 80 kindur með öllu móti síðan í fyrra, en stend mig ei mikið verr. ... Eldur fyrir utan Reykjanes í vetur [sennilega átt við þann fyrri - nema gosið hafi enn tekið sig upp], sumir segja einnig í Torfajökli. (s198)
Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum segir af hausttíð 1831 (Andvari 98/1973):(bls. 187):
Næstliðið sumar [1831] var í Norðurlandi yfir höfuð í betra lagi með grasvöxt á túnum og valllendi, en votengi brugðust víðast. Nýting heyja almennt góð. Haustið hlýtt, og vetur ei með jafnaði né til lengdar frosta- né snjóasamur, en veðrátta þó óstöðug og stormasöm með jafnaði, einkum gjörðu suðaustanstormar tjón mikið á húsum og heyjum á nokkrum bæjum hér í sýslu síðustu daga kirkjuársins (í lok nóvember?).
Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1831:
Vetur góður víðast hvar
var um rjóður Ísfoldar
gripum fóður fjörgyn bar
fólst ei fóður jarðhaddar.
Vorið gott og var í ár
veitti Drottinn gæðin klár
ofan dottin ýmis-tár
örvuðu sprottin jarðar-hár.
Sólin glansa sendi blíð
sátu bands með kjörin fríð
njótum brands svo nota þýð
norðanlands var besta tíð.
Heyskap besta suma sátt
sagði bresta fólk ókátt
hér því vestra var um slátt
vætu-mesta sunnan-átt.
Haustið síðan hefir sent
hörku tíða merkið tént
snjó um hlíð og flatir fennt
fljót og víðir ísum rennt.
Undir sólar oft nam flóð
elris góla tíkar jóð
fram sem hól og flatir óð
fastan jóla var þó góð.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1831. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólins (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Fáeinar tölur má finna í viðhengi.
11.12.2020 | 03:25
Tíu desemberdagar
Meðalhiti fyrstu tíu daga desembermánaðar er +0,2 stig í Reykjavík, +0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára, en -0,7 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020 og í 12.hlýjasta sæti á öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2016, meðalhiti þá +7,1 stig, en langkaldastir voru þeir 2011, meðalhiti -4,8 stig. Á langa listanum er hiti nú í 82. til 83.sæti (af 145). Á honum er hitinn 2016 í fyrsta sæti, en kaldastir voru þessir sömu dagar árið 1887, meðalhiti þá -7,2 stig.
Meðalhiti dagana tíu er -2,6 stig á Akureyri, -2,2 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020, en -0,8 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Hiti raðast nokkuð misjafnt eftir landshlutum. Hlýjast að tiltölu hefur verið á Suðurlandi, þar er hitinn í 11.hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast hefur verið á Austurlandi að Glettingi, hiti þar í næstkaldasta sæti (19.) aldarinnar.
Á einstökum veðurstöðvum hefur verið hlýjast á Hjarðarlandi í Biskupstungum, hiti +1,0 stig ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast að tiltölu hefur verið á Brú á Jökuldal þar sem hiti er -2,9 stigum neðan meðallags tíu síðustu ára.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 26,0 mm - og er það í meðallagi. Á Akureyri hefur hún hins vegar mælst 88,1 mm og er það meir en þrefalt meðallag.
Sólskinsstundir hafa mælst 2,8 í Reykjavík - um helmingur meðallags.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 03:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2020 | 13:47
Af árinu 1860
Árið 1860 var mjög erfitt um landið norðan- og austanvert. Þar gerði afleitt vorhret seint í maí og síðan þurrkalítið sumar. Syðra var heldur skárra, heyskapur gekk betur og enginn snjór fylgdi vorhretinu. Meðalhiti í Stykkishólmi var 2,5 stig, 0,7 stigum neðan meðallags næstu tíu ára á undan, en 1,6 stigum hærri en árið áður (1859). Áætlaður meðalhiti í Reykjavík er 3,5 stig og 1,3 stig á Akureyri. Mars, maí og júní voru mjög kaldir, júlí í hlýja þriðjungnum, og í apríl og nóvember telst hiti nærri meðallagi, Afgangur mánaðanna var kaldur.
Fimmtán dagar teljast mjög kaldir í Stykkishólmi, 26.mars þeirra kaldastur að tiltölu (sjá lista í viðhengi).
Úrkoma mældist 575 mm í Stykkishólmi - og er það í þurrara lagi. Sérlega þurrt var í júní, heildarúrkoma mánaðarins aðeins 2,8 mm. Einnig var mjög þurrt í maí - einna votviðrasamast var í apríl.
Þrýstingur var sérlega hár í nóvember og var einnig hár í maí, júní og desember. Hann var lágur í október. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 20.janúar, 957,6 hPa, en hæstur á sama stað þann 20.apríl, 1043,0 hPa. Þrýstifar var sérlega stöðugt í júní, og einnig í maí og nóvember.
Katla gaus stuttu gosi í maí - en einhverja ösku og eldglæringar urðu menn varir við um haustið að sögn.
Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar.
Þorleifur í Hvammi segir í athugsemd í febrúar: Mikið snjófall við enda mánaðarins og fanndýpi mikið. Þann 26.maí segir hann: Frosnir lækir og mýrar.
Athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði segir af hafís: 3.janúar: Hafís kominn inn á fjörð; 19.mars: Hafís kominn inn á fjörð; 21. til 26.mars: Sami hafís.
Blöðin minntust ekki á veður ársins 1860 fyrr en í mars. Þjóðólfur segir þann 10.:
Með norðanpóstinum, sem kom hér næstliðinn sunnudag, 4.[mars], bárust engin markverð tíðindi og ekki var það heldur með sendimanni, sem kom hér vestan af Ísafirði, 6.[mars]. Úr öllum áttum spyrst hið besta vetrarfar og bestu skepnuhöld; bráðapestarinnar, sem hefir verið svo skæð um mörg hin undanförnu ár, hefir nú í vetur svo að segja hvergi orðið vart svo að teljandi sé.
Norðri segir þann 31.mars:
Allur þessi mánuður [mars] hefir verið hinn besti og jarðir víðast hvar nógar og góðar, og er víst óhætt að fullyrða, að þorri og góa hafa allsjaldan verið hér jafnblíð á Norðurlandi, Með byrjun einmánaðar [20.mars] hefir breyst veður, og er nú komin norðanátt með snjókomu töluverðri og allsterkum frostum; og með þessum norðanveðrum hefir komið hinn vanalegi vágestur Norðurlands, hafísinn, hingað á Eyjafjörð og alla firði hér austur um til Langaness. Ekki vita menn enn með vissu, hversu mikil hafþök eru fyrir landi, þó ætla vegfarendur, að það sé mest laus íshroði, sem enn er kominn að landinu, og hann hafi komið austan um; reynist það satt, eru menn vonbetri um að ekki verði mikil brögð að honum, og hann liggi skemur.
Þjóðólfur segir þann 28.apríl af slysförum:
Á pálmasunnudag (1. apríl) varð úti & Grindaskörðum bóndi einn að austan, roskinn maður; hann var til sjóróðra í Selvogi og ætlaði snögga ferð hér suðuryfir.
Þjóðólfur segir þann 10.maí:
Úr sveitunum fjær og nær, fréttist ekki annað en góð tíð og bestu skepnuhöld, en víða hefir verið sóttnæmt fram á þenna tíma, og víðast hefir verið mjög hart manna í milli, sakir fjárfæðar og málnytuleysis í fyrra, að töður verkuðust illa víða um austursveitir og nálega allstaðar hér syðra, en þess vegna hafa kýr verið svo víða gagnslitlar í vetur.
Þjóðólfur segir þann 26.maí af eldgosi í Kötlu (lítillega stytt hér):
Nú hófst nýtt gos úr Kötlu miðvikudaginn 9. [maí] einsog þegar er hljóðbært orðið, og merki hafa síðan sést til öðru hverju hér um hinar vestari sveitirnar sunnanfjalls, bæði mökkur mikill, hátt í loft upp og með eldglæringum; eftir því sem enn er komið og frést hefir, virðist þetta gos vera fremur jökulhlaup með fjarskalegu vatnaflóði heldur en eldgos eða sandgos, enda hefir Katla aldrei spúð jarðeldi eða hraunefni, síðan land þetta byggðist, en einatt hafa hin mestu jökulhlaup fylgt gosi úr henni, og valdið miklu tjóni og auðn byggða þar umhverfis, einnig hefir hún einatt spúð miklum sandi, eins og var 1755, því eftir það gos lögðust í eyði um nokkur ár flestallir bæir í Skaftártungu og Álftaveri, sakir öskufalls.
Gosi þessu er nú hófst 9.[maí] hefir eigi fylgt öskufall að neinum mun, svo að vart yrði í byggðum þar í grennd, hina næstu viku á eftir, en veðurstaðan var einnig sú, að öskuna hlaut að leggja alla fram eftir Mýrdalssandi og fram á sjó, því stöðug norðanátt hélst þar eystra fram til 19. þ. mán. A kaupfari einu, er var þar á siglingu framundan, en eigi alldjúpt fyrir, hinn sama morgunn er gosið byrjaði, varð vart öskufalls en eigi mikið. Þar í móti var gosi þessu samfara mesta jökulhlaup og vatnsflóð, en það kom mestallt fram fyrir vestan Hafursey, og fram eftir Múlakvíslaraurum, svo að Álftaverið hafði ekkert sakað enn, um 13.14.[maí], að því er sagt hafði sendimaður austan af Síðu er fór Fjallabaksleið, því Mýrdalssandur er ófær vestur til Fljótshlíðar. Hlaupi þessu fylgdu svo mikil jökulbjörg, að sagt er að sum þeirra standi botn á þrítugu eða fertugu dýpi, og vatnsflóðið svo ógurlegt og með því afli, að þess hali sést merki langt út á sjó; vikur úr gosinu er og rekinn bæði í Vestmannaeyjum og meðfram allri suðurströnd landsins. Reykjar- og gufumökkurinn hefir og staðið hátt í loft upp með eldglæringum, var hann mældur lauslega frá Vestmannaeyjum 14.[maí], og tók fjórfalt hærra í loft upp en jökullinn sjálfur, eður nálega 3 mílur á hæð upp af jöklinum: úr Landeyjunum virtist mökkurinn nokkuð hærri er hann var mældur, og þó eigi nákvæmlega, fám dögum síðar.
Þjóðólfur segir þann 7.júní:
Síðustu fregnir segja, að fyrir öllu Norðurlandi hafi verið hafþök af ís, fram yfir miðjan [maí], og þar með hörkur og gaddar, svo að lagnaðarís hafi verið á fjörðum fyrir innan hafísinn. Fram til þess í gær hefir og veðráttan hér sunnanlands verið næsta hörð, sífeldir þurrkar og norðanátt með kulda og frostum á hverri nóttu; gróðurleysið er einstakt, tún heita varla litkuð, en eigi grænt strá á útjörð; kúahey þrotin nálega allstaðar, kúpeningur megrast því og geldist upp, en þar af leiðir aftur vaxandi skort og harðrétti manna á milli til sveitanna. Á útmánuðunum færði hafísinn með sér allmikil höpp að Norðurlandi, einkum af hnísum og meðfram höfrungum; á Vatnsnesi náðust 60, á Skagaströnd nálægt 6070; á Tjörn á Nesjum, um 150 og í Laufássókn 110; nokkru fyrr öfluðust á Akureyri 900 tunnur hafsíldar.
Gosið úr Kötlu virðist nú hætt að sinni, eftir því sem síðustu fregnir segja; það staðfestist, að engi verulegur skaði eða tjón hafi orðið að því að þessu sinni; reyndar er í lausum fréttum, að nokkurt öskufall hafi komið um miðjan [maí] á austustu bæina í Mýrdalnum, og að eitthvað lítið eitt af hlaupinu hafi komið fram fyrir austan Hafursey og hlaupið austur af sandinum og í engjar tveggja bæja í Álftaveri; en að hvorugu þessu mun nein veruleg spilling. Menn eru og nú farnir að fara yfir Mýrdalssand.
Þjóðólfur segir þann 30.júní:
Að norðan og vestan fréttist sama einstakt gróðurleysi eins og hér; á Norðurlandi og hið efra um Borgarfjörð hefir verið frost í byggð nálega á hverri nóttu fram til 20.[júní]; hér í suðursveitunum hefir stórum lifnað jörð þessa viku; en allstaðar að fréttist af einstaklegu nytleysi kúpenings, og fjárhöld að norðan sögð eigi góð né sauðburður, sakir vorhörku og gróðurleysis; hér syðra hefir sauðburður hvívetna heppnast vel. Vorafli af ýsu hefir orðið hinn besti hér um öll nes, einkum á Akranesi; þiljuskip hér hafa lítið aflað til þessa bæði af þorski og hákarl, um öndverðan [júní] var kominn þorskafli í góðu meðallagi umhverfis Ísafjarðardjúp, en hákarlaafli rýr; en um Eyjafjörð var hákarlaafli góður. Um öndverðan [júní] var hafís fyrir Hornströndum. Katla hefir eigi látið vart við sig síðan 26.[maí], og tjón af þessu gosi hennar eigi talið að neinu.
Norðri segir af vorharðindum í pistli þann 30.júní:
Hér um Norðurland eru fréttirnar og hafa verið mjög báglegar með tíðarfarið þetta vor. Veturinn var góður að kalla mátti, en vorið hefir verið hið kaldasta sem menn muna og sannkölluð vetrartíð. Um hvítasunnu [27.maí] var hér moldviðri og niðurburður af snjókomu, og víðast hvar mátti gefa hér inni ám um allan sauðburð, og fjöldi hefir tapast af lömbum, og þó peningur væri mjög vel framgenginn undan vetrinum hefir hann hrakast svo niður í vor, að lítil von er um bjargræði af skepnum. Kýr hafa orðið svo að kalla alveg gagnslausar, því töður voru hér allar uppgengnar, svo að láta varð nautpening út á gróðurlausa jörðina. Mest og fjarskalegust urðu þessi harðindi um Þingeyjarsýslu, einkum um norðurhlut hennar. Það má nú nærri geta í slíkri tíð, að seint muni gróa; enda er það svo hér um allar sveitir að varla sést lit bregða á úthaga, og tún enn alveg ósprottin í enda júnímánaðar.
Þann 5.nóvember birti Þjóðólfur frásögn af hvítasunnuhretinu mikla í Múlasýslum:
Harðindin í Múlasýslum vorið 1860. Skrásett og aðsent af manni er þá var í Múlasýslu. Það er alkunnugt, hversu kalt og hart var vorið sem leið allstaðar her á landi; en þó mun það hvergi hafa verið eins hart eða ollað eins miklu skepnutjóni, og í Múlasýslum, og þó einkum í Norður-Múlasýslu, að frá teknum Fljótsdal og Jökuldal, og nokkrum hluta Suður-Múlasýslu. Frá sumarmálum, og þangað til mánuð af sumri var að sönnu oftast hægviðri og stillingar, en þó var svo kalt, að gróður var lítill á túnum og engi í úthaga, sem teljandi væri, mánuð af sumri, og uppfrá því fóru kuldar ávallt vaxandi, með frostum í byggð á nóttum og snjóa áleiðingum ofan í fjöllin, en kófrildum á fjöllum uppi, allt til hvítasunnudags [27.maí]; þá gjörði kaföld þau og áfelli, sem héldust við samfleytt í viku (27. maí 2.júní um allar sveitir þær sem áður eru taldar, sem lengi mun verða minnisstæð, því þá var líkara því sem harðast er á vetrardag en sumri. Féll þá svo mikill snjór í öllum norðurfjörðum og út við sjá allt að Fáskrúðsfirði, á öllu Úthéraði og á austanverðu Upphéraði, að slíks eru eindæmi, með svo miklum kuldum og frostum, að ganga varð á skíðum jafnvel í byggð. Töluvert fennti af fénaði, og sumstaðar hestar dregnir úr fönnum, sauðfé eða hrossum var ekki beitandi út alla þessa viku, og í sumum sveitum, svo sem í Borgarfirði, ekki fyrr en mánuði seinna því allan þenna tíma héldust kuldarnir, svo ekki fór að gróa fyrr en 8 vikur af sumri. Hvergi er þó getið um, að meiri snjór hafi fallið en í Njarðvík við Borgarfjörð og er það sögn kunnugra manna, að aldrei hafi þeir séð jafnmikinn snjó á vetrardag, enda urðu þar óttalegustu afleiðingarnar, því engi skepna komst lífs af nema mennirnir og hundarnir. Eins og nærri má geta, einkum þegar haft er tillit til hinna fyrri harðinda, vetur og vorið hið fyrra [1859], og sumarið og haustið næst á undan, urðu mjög slæmar afleiðingar af harðindum þessum hvervetna, en þó einkum í Borgarfirði og Loðmundarfirði, Hjaltastaða- og Eiðaþinghám. Margir felldu gjörsamlega sauðpeninginn, en kvöldu fram kýr á mat og heyleifum þeim, flestum skemmum, sem þeir höfðu eftir, en engi komst hjá að missa nokkuð, og að minnsta kosti töluvert af unglömbum allstaðar þar sem snjóana gjörði mikla, auk þess sem skepnurnar urðu gagnlausar af harðrétti þeim, sem menn neyddust til að beita við þær.
Þjóðólfur segir mannskaðafréttir þann 14.júlí (líklega ótengdar veðri):
Það má álita sannspurt, þótt áreiðanlegar fregnir skorti um smærri atvik, að nálægt 20.25.[júní] hafi týnst 11 manns i sjóinn vestur á Ísafirði, ... Fregnin segir, að þeir hafi allir siglt úr höfn með kaupskipi er norður ætlaði, nokkrir segja að kona [Péturs] Guðmundssonar hafi ætlað í því til Norðurlands, hali kaupstaðarbúar ætlað að fylgja því úr höfn spölkorn, snúið síðan heim með hafnsögumanni og hans liði, en muni hafa kollsiglt sig á heimleiðinni.
Íslendingur segir af tíð í pistli þan 19.júlí:
Síðan um Jónsmessu [24.júní] hefur tíðarfarið verið mjög votviðrasamt hér sunnanlands, einkum voru ákafar rigningar í vikunni frá 8. 15.[júlí]; urðu þá vegir og vötn illfær, og ferðamenn í vandræðum staddir. Nú er heldur farið að þorna um aftur, hvað lengi sem það stendur. Grasvöxtur var lengi tregur, meðan þurrkarnir gengu framan af sumri, en nú má kalla, að komið sé gras í betra meðallagi, og teknir eru sumir menn til sláttar.
Athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði segir 13.júli: Hita- og veðurmistur.
Þjóðólfur segir þann 7.ágúst - fyrst af slysi, en síðan árferði:
[Þann 10.júlí] fórst bátur með 2 mönnum af Hvalfjarðarströnd í hingaðleið fyrir framan Kjalarnestanga, i Músarsundi eða þar í grennd, báðir mennirnir týndust.
Úr Múlasýslum eru nú rituð ill fjárhöld og nokkur fellir, vann mest að því megnt illviðrakast um hvítasunnuna, 27.28. maí, þá fennti fé og hross til dauða, og unglömb varð sumstaðar að skera undan ánum; illviðrið var svo hart að 50 sóknarmenn urðu veðurtepptir að Hofi í Vopnafirði um hátíðina. Dagana 2.6.[ágúst] hefir hér syðra verið blessunarþerrir, og hefir hann komið sér ómetanlega vel við töðuhirðingar. Grasvöxtur hér á Suðurlandi og Vesturlandi, nú sagður orðin nálega í meðallagi, nema tún sumstaðar með kali, einkum til fjalla. ... Hér um innnesin hefir haldist allgóður ýsuafli á grunni fram til loka [júlí]; síðan hefir verið gæftaleysi; ...
Þjóðólfur birti 25.febrúar 1861 eftirfarandi þakkarpistil (styttur hér):
Sunnudaginn í 16. viku sumars í fyrra [5.ágúst 1860] missti ég í ofsaveðri fulla 40 hesta af töðu, á túni mínu, eða meira; urðu þá 6 sveitungar mínir til að bæta mér að nokkru þenna tilfinnanlega skaða, er þeir gáfu mér sinn töðukapalinn ... Grund í Kjalarnesi í jan. 1861. Jón Jónsson.
Íslendingur greinir af tíð þann 14.ágúst:
Tíðarfar hér á Suðurlandi hefur verið æskilegt, það sem af er [ágúst], og töður verið hirtar grænar. Nú er veðurátt brugðið um sinn til vætu. Menn gefa sig nú mest við heyskap, en minna við sjósókn, þó hefur háfur aflast vel á Akra- og Seltjarnarnesi og um tíma suður í Keflavík.
Norðri segir af tíð þann 31.ágúst:
Síðan að sláttur byrjaði hefir hér allstaðar norðanlands verið hin bágasta tíð með þurrkleysum og tíðum rigningum, svo að töður hafa hér óvíða orðið alhirtar fyrr en í enda þessa mánaðar og ósýnt hvort þær hafa náðst allstaðar enn, og víðast hafa þær hrakist töluvert. Úr Skagafirði kvarta menn og yfir töluverðum grasbresti, en víðast hér um sveitir ætlum vér grasvöxt í meðallagi, ef nýting hefði fengist að því skapi. Í Norður-Þingeyjarsýslu virtist oss mikill grasbrestur á túnum, einkum í Núpasveit og Þistilfirði, svo mun og verið hafa á Langanesi og [Langanes-]Ströndum, en í Vopnafirði og á Héraði var grasvöxtur í góðu meðallagi en þurrkleysur allstaðar hinar sömu. Eystra á Vattarnesi var hvalur róinn í land, milli 50 og 60 álnir að lengd. Hann var dauður og lítið eitt skorinn af hvalveiðamönnum útlendum. Eigendur hans eru Skriðuklaustur og Vallaneskirkja.
Íslendingur segir af tíð og afla í pistli þann 5. september:
Síðan blað vort kom seinast út hér á undan, hefur tíðarfar verið hið æskilegasta hér á Suðurlandi. Menn hafa hirt heyið eftir hendinni, og þó grasvöxtur sé sumstaðar í rýrara lagi, þá er aftur á öðrum stöðum allvel sprottin jörð, en nýting hlýtur að vera afbragðsgóð, og er það jafnan fyrir mestu. Vér þykjumst mega fullyrða, að allt hið sama gildi um allan Vestfirðingafjórðung, nema ef vera skyldi á Ströndum, en þaðan höfum vér enga fregn. En að norðan og austan úr Múlasýslum er illa sagt af óþurrkum, og eru það hörmuleg tíðindi ofan á mjög hart vor. Sjávarafli hefur mátt heita góður hér í Faxaflóa, hvenær sem menn hafa getað stundað sjóinn, en það vill nú oft ganga skrykkjótt um sláttinn. Háfur fékkst mikill hér allstaðar syðra um tíma, og fyrir fáum dögum, áður en norðanveður það gekk upp, er nú stendur yfir í gær og í dag (30. ágúst), var besti fiskiafli hér á Innnesjum af ýsu og stútungi (stuttungsþorski).
Norðri gerir upp heyskapinn í pistli þann 16.október:
Vér höfðum áður getið þess að næsta báglega leit út með heyskapinn sökum grasbrests og fjarskalegra óþurrka, sem voru svo miklir að töður náðust víðast hvar ekki fyrri en í 19. og 20. viku sumars [um 25.ágúst]. Hin góða tíð um og eftir höfuðdaginn og mestallan septembermánuð gjörði það þó að lokum að nokkuð rættist úr með heyskapinn; þó ætlum vér að heybjörg manna sé víðast með minnsta móti auk þess sem heyin eru í mörgum stöðum hrakin og skemmd. Það mun því brenna víða við, að menn þurfi venju fremur að farga af bjargræðisstofni sínum, sem þó er framar orðinn lítill og rýr eftir undangengin harðæri. Húnvetningar komu nýlega hér norður og ætluðu að sækja fé til Þingeyinga, en urðu að hverfa aftur svo búnir, því snemma í þessum mánuði [október] lagði hér að með snjóum og illviðri svo ófarandi er með fé, og færð hin versta norður um fyrir hesta.
Íslendingur segir fréttir 25.október:
Það, sem af er október hefur tíðarfar mátt heita allgott hér á Suðurlandi. Þó gjörði mikið sunnanveður hinn fyrsta dag [október] og sleit þá upp fiskiskútu suður í Vogum, rak á land og braut í spón; um sama leyti lestist annað þilskip, er Njarðvíkingar eiga, og þá var uppi í Hvalfirði; rak það þar á land, en skemmdist lítið. Menn sakaði enga. Þ. 15. og 16. [október] var hér ákaflegt norðanveður, þó fjúklítið, svo að ekki festi, og er hér auð jörð í byggð til þessa dags, en fallinn er talsverður snjór á fjöllum. Mælt er, að vestur í Hörðudal sé fénaður kominn á gjöf, og svo mikill snjór kominn á Holtavörðuheiði, að menn hafi snúið þar frá með hesta. Sannspurt er, að sumarið hafi verið svo votviðrasamt í Þingeyjarsýslu, að elstu menn muna ekki annað eins óþurrkasumar. Má þá nærri geta, hvernig heyskapur hafi þar orðið. Úr Múlasýslum höfum vér ekki frétt gjörla, en að líkindum ræður, að í nyrðri hluta þeirra muni líku hafa viðrað, sem norðan til í Þingeyjarsýslu.
Enska herskipið Bulldog, kapt. M. Clintock, sem áður er nefndur í blaði voru, kom 19.[október] hingað aftur frá Labrador og Grænlandi, og segir Clintock hin verstu tíðindi frá Grænlandi. Hann fór frá Juianehaab 3.[október] og þá var aðeins eitt skip komið til Grænlands allt sumarið; höfðu skip þau, er þangað áttu að fara, ekki náð höfnum sökum hafíshrakninga þar umhverfis landið, og eitt, ef ekki fleiri, farist, með mönnum og öllu, er á var, þar við land. Og svo sögðu Grænlendingar, að annað eins óveðrasumar og hafísaár hefði ekki komið yfir þá hin síðustu 40 ár.
[Þjóðólfur segir viðbótar 27.október: Bulldog hreppti og hin mestu illveður og hafvolk á leið sinni, og náði hér höfn brotið og bramlað á marga vegu, en hyggur þó að halda héðan aftur til Bretlands á morgun. Þeir sáu á leið sinni hvar danskt briggskip lenti í ísnum og fórst þar, og gátu þó engu bjargað, hvorki mönnum né öðru.]
Þjóðólfur gerir upp sumarið í pistli þann 27. október:
Þetta liðna sumar hefir verið næsta misjafnt þegar yfir allt land er litið; hér á Suðurlandi og nálega um gjörvallt Vesturland, var sumarið eitthvert hið besta og hagstæðasta að veðráttu sem menn muna, og nýttust því hey hér afbragðsvel og eru víst yfir höfuð að tala í bestu verkun. Um gjörvallt Norðurland var sumarið miklu erfiðara, þokumollur og hafsuddar gengu framan af slætti svo að segja stöðugt og fram í miðjan ágústmánuð; þar urðu því nálega hvergi alhirt tún fyrr en dagana 18.28. ágúst, voru þá töður orðnar kvolaðar og hraktar meira og minna, svo að rýr þykir af þeim málnytuvon í vetur. Grasvöxtur var víðast í lakara meðallagi á túnum og vallendi bæði fyrir norðan og hér syðra, en aftur talinn í meðallagi í sumum sveitum vestanlands; á mýrum mun víðast hafa þótt gras undir það í meðallagi, og hér syðra urðu nú mörg þau forarflóð slegin með bestu eftirtekju, er oftar eru óslæg sakir vatnsfyllinga; úr Vestur-Skaftafellssýslu, milli sanda, fara mestar sögur af sneggjum og grasbresti einkum á túnum og vallendi. Haustveðrátta hefir verið vinda- og hryðjusöm, gæftalítil hér syðra, en talsverður snjór er fallinn nyrðra og það í byggð í Þingeyjarsýslu, um miðjan [september]. Um skurðarfé hér syðra hefir verið lítið að ræða, en hér úr kláðasýslunum hefir féð reynst heldur vel, einkum á hold, bæði af læknuðum stofni og aðkeyptum, og talsvert miður hefur það fé reynst, er vestan af Mýrum hefir komið og að norðan; veldur því sjálfsagt meðfram hið afarharða vor norðanlands og lakara sumar, en hér nú miklu færra fé, hefir því sætt betri meðferð og þrifum. Eftir því sem sögur fara af, horfir afkoma almennings norðanlands heldur erfiðlega við, vöruafli í kaupstað var lítill og fjárskurður rýr sakir fjárfæðarinnar eftir undanfarin harðæri, en víða málnytubrestur í sumar sakir hins afafharða vors og gróðurleysisins fram undir messur; nú þar sem töður náðust nálega hvergi þar nyrðra nema hraktar og skemmdar, þá horfir enn við málnytubrestur þar í vetur, og er því eðlilegt og næsta aðgæsluvert, hve báglega horfir við afkoma manna víða hvar í Norðurlandi; ætti menn eigi að skirrast við um of að farga þegar í haust nokkru af fénaðinum sér til bjargar þó að hann sé orðinn í færra lagi.
Norðri segir frá 10.nóvember:
Síðan um miðjan október hefir veðrátta verið hér hin æskilegasta. Má svo að orði kveða að hér sé sumartíð hin fegursta og alautt er lengst upp í fjöll. Menn urðu eins og vér höfum fyrr getið að hætta við haustverk sökum áfellis og illviðra, sem komu um og eftir haustgöngur, en úr þessu hafa menn nú getað bætt í þessari einmuna tíð sem verið hefir um næstliðin mánaðamót. Einlægir suðlægir þíðvindar hafa gengið svo að frost er að miklu leyti úr jörðu. Fiskiafli hefir verið hér nokkur út í firði, ... Hér inn á pollinn hefir enn enginn fiskur gengið.
Norðri birti þann 20.desember úr bréfi af Austfjörðum:
Hausttíðin var hretasöm og nálega aldrei gæftir, og var þó nógur afli kominn: einu sinni og tvisvar varð róið í viku og fékkst töluverð björg. Um veturnætur komu kyrrðir og blíða eftir skaðaveðrið mikla 22. október, en þá var aflinn flúinn allur undan vatnakorgnum, sem blandaði sjóinn út í reginhaf; öll vötn hlupu yfir og um sléttlendi, þurrir lækir urðu óreiðir og allt þurrlendi flóði í vatni af býsnum þeim sem streymdu úr loftinu nóttina fyrir þenna 22. október. Þessu fylgdi svo mikið ofsaveður, að hey reif sumstaðar að tóftum niður, t.a.m. í Njarðvík og Bárðarstöðum í Loðmundarfirði, og víða urðu skaðar. Bátar fóru sumstaðar og skipin á Seyðisfirði rak upp. Bilaðist annað (Vestdalseyrarskipið), svo ekki varð sjófært og missti stýri; hitt frelsaði tilviljun, að slagbylur kom úr annarri átt og hratt því út. Haustáfellið varð hér vægra en nyrðra, þó gjörði öll fjöll ófær og gefa varð fé í Eiðaþinghá. Mannadauði er enn upp á sveitum, nokkur hér og barnaveikin að stinga sér niður og deyðir flest börn þar sem hún kemur.
Þjóðólfur segir þann 1.desember:
Framan af f. mánuði [ekki er alveg ljóst hvort átt er við október eða nóvember] varð vart talsverðs öskufalls um Rangárvalla- og Árnessýslu, og 6. f.m., og um þá dagana sást mikill mökkur og bjarmi á lofti í þeirri átt sem Katla er, en eigi eftir það á mánuðinn leið;
[Í september] fórst bátur í fiskiróðri vestur í Arnarfirði, voru 4 menn á, og týndust allir; formaður var Gísli í i Lokinhömrum, góður bóndi.
Haustveðráttan hefir mátt heita hin besta, hvívetna hér sunnanlands, heldur rigningasamt fram undir miðjan [nóvember], en síðan mest þyrrkingur og norðanátt, en aldrei frosthart; allmikill snjór féll hér til fjalla öndverðan f.mánuð, og fennti sumstaðar fé. Norðanlands varð hið harðasta íhlaup um miðjan október; snjókoma varð svo mikil um Skagafjörð, að sumstaðar var farið á skíðum milli bæja, fé fennti sumstaðar og Héraðsvötnin allögðu og urðu sumstaðar jafnvel hestheld; þenna snjó tók að mestu upp í byggð aflíðandi 20. október, en með þeim ofsaveðrum, að bæði reif hús og hey í Húnavatnssýslu, og sumstaðar svo, að mikill skaði varð að.
Þann 22.desember megir Þjóðólfur:
Í haust fórst bátur norður á Vatnsnesi með 6 mönnum á, og týndust þeir allir; 7. [desember] fórst bátur með 2 mönnum frá Kolbeinstöðum í Rosmhvalaneshrepp, og týndust báðir mennirnir. ... Með yfirdómara hr. B. Sveinssyni bárust bréf og fregnir að norðan, og er hin æskilegasta tíð þaðan að frétta, síðan kastið gjörði um 20. október, og bestu fjárhöld. Bylurinn hér syðra, undir lok [nóvember] varð sumstaðar að allmiklu tjóni; undir 60 fjár fenntu og fórst að mestu í Mela- og Leirársveit, og nokkurt fé fennti og í Miðdal hér í Mosfellssveit og víðar. Það sem af er þessum mánuði, hefir mátt heita aflalaust hér um öll Innnes, en besti afli syðra, hefir og almenningur sótt þangað mikla og góða björg; héðan af nesinu, og hefir veðurblíðan stutt að því Hins litla öskufalls er fyrr var getið að hefði orðið vart úr Kötlu, um Rangárvalla- og Arnessýslu, gætti eigi að neinu austur í Skaftafellsýslu, og eigi varð þar neinna hlaupa eða vatnavaxta vart á Mýrdalssandi.
Íslendingur segir af tíð þann 7. desember:
Allan nóvember hefur tíðarfar mátt heita hið besta á Suðurlandi; úr öðrum landsfjórðungum höfum vér eigi tilspurt; að sönnu gjörði allhart norðanveður hinn 12. dag mánaðarins, og stóð það um nokkra daga; féll þá talsverður snjór til sveita, og er sagt, að fennt hafi fé til dauðs upp um Borgarfjarðardali. Um þær mundir misstu nokkrir menn sauðkindur á Kjalarnesi, er hrakti í sjóinn, en svo mikið sem af því var látið með fyrstu, þá megum vér fullyrða, að vart munu Kjalnesingar hafa misst yfir 1013 kindur alls. Hinn 18. batnaði veður, og þá fóru þeir af stað héðan, norðan- og vestanpóstur. Síðan hefur veðurátt verið hæg og þurr, vindar við austur og norður, frost ekki teljandi, jörð auð, skepnur í góðum holdum, en vart verður sumstaðar við bráðapestina. Fiskiafli hefur verið allt til þessa mjög lítill um öll Innnes.
Þjóðólfur segir 9.febrúar 1861 frá tíð fyrir áramót:
Lengi mun minnisstæð hin einkar hagstæða veðrátta og má segja veðurblíða, er hefir haldist stöðugt yfir gjörvallt Suður- og Vesturland að kalla má síðan um veturnætur og fram á þenna dag; því íhlaupið er gjörði um jólaleytið (hér með nálega 11°R. frosti (-13,8°C)), varð eigi nema fáa daga;
Þann 23. mars 1861 (s21) birti Norðri löng grein eftir B.A. sem heitir Veðráttan - við styttum hana verulega hér (enda lítið talað um veður). Greinin er dagsett 31.desember 1860:
Árið í fyrra [væntanlega 1859] var eitt af hinum bágustu, sem ég man, því sumartíðin var svo vond og hey manna urðu lítil, margskemmd og ónýt. Þó hefir þetta ár verið miklu bágra. Veturinn í fyrra var reyndar ekki svo harður; ýmist hlánaði eða tók fyrir jörð. En af því heyin voru svo hræðilega ónýt, varð fénaður magur og heyin gengu upp. Þó komst allt bærilega fram í 5.viku sumars. Þá dundi hér á hið versta voráfelli, sem nokkur man á þessari öld, hávetrargrimmdir með fannfergju og hafstormum af norðaustri hvíldarlaust í 16 daga. Engin skepna fékk björg utan húss, og féll fjöldi fjár af hungri og hor í húsunum, því fóðrið þraut víða, Unglömb voru skorin flestöll eða dóu af sulti og óáran. Svona var þetta áfelli víðast hvar við sjó í Norður-Múlasýslu, en miklu snjóminna inn til dala og um syðri sýsluna víða nærri snjólaust, en stormar og grimmdir miklar. Man enginn maður, að slíkur fjöldi fjár hafi fallið í fardögum og eftir þá, þegar engin skepna var áður fallin. þegar batnaði var löng síekja, og ekki kominn gróður fyrr en eftir messur. Í 14. viku sumars brá aftur til votviðra og kom víða enginn þurrkdagur þaðan af fyrr en eftir höfuðdag. Töður hröktust og urðu víða ónýtar, og eins úthey, sem losað hafði verið, eða þó einhverju af því hefði verið haugað saman, þá skemmdist það. Eftir þetta var allgóð tíð fram undir Mikaelsmessu [29.september] og heyjaðist töluvert því mýrar voru orðnar vel sprottnar. Haustið var hretviðrasamt, en batnaði undir veturnætur og var besta tíð 3 vikur. Þá brá til snjóa og hefir síðan verið jarðlaust í harðindasveitunum, en góðar snapir í hinum betri. ... Skrifað á gamlaársdag 1860. B.A.
Íslendingur segir frá þann 12.janúar 1861:
Veðráttan má alltaf heita með betra móti. Um jólin gjörði kulda og norðanveður, og kom þá allvíða hér syðra snjór með meira móti, en síðan um nýár hafa verið útsynningar og þeyvindar og snjóinn tekið upp að mestu.
Nóttina milli 30. og 31. desember [1860] urðu menn hér í Reykjavík varir við jarðskjálfta. Það var aðeins einn kippur og býsna-harður, svo að sumir menn hrukku upp af svefni við kippinn og brakið í húsunum. Hreyfingin virtist ganga frá útsuðri til landnoröurs, og þann veg hafa oss fundist flestar þær hreyfingar ganga, sem vér höfum tekið eftir hér sunnanlands. Jarðskjálftinn í haust, er leið, 20. september, tæpri stundu eftir miðaftan, var viðlíka mikill og þessi, og hafði hina sömu stefnu, frá útsuðri til landnorðurs, og þannig gætum vér tilgreint fleiri.
Íslendingur birti þann 15.nóvember spurningaskrá Jóns Hjaltalín um hafís og hafískomur. Ýmsir urðu á næstu árum til að svara þessum spurningum og birtust svörin í blaðinu - og þau má einnig finna í annálum hungurdiska:
Eftir að ég nú í 2 ár hef gjört mér far um, að safna öllu því, er lýtur að hinni íslensku veðurfrði (Climatologie), leyfi ég mér nú að skora á alla núlifandi landa mína fyrir vestan, norðan og austan, að skýra mér frá öllu því, er þeir vita að segja um hafísinn; einkum eftir því, er þeir sjálfir hafa tekið eftir á þessari öld. Ég sný mér helst að hinum eldri, því þeir muna best fram á öldina, og leyfi ég mér einkum að leggja fyrir þá eftirfylgjandi spurningar, er ég vona þeir sýni mér þá velvild, að svara mér upp á með póstum í vetur, eða svo fljótt sem auðið er. En helstu spurningar þær, er ég vildi fá svar upp á, eru þessar:
- Hvað oft munið þér eftir hafísreki á þessari öld?
- Hvernig er veðurátta jafnaðarlega, áður hafísrekið byrjar?
- Rekur hafísinn jafnaðarlega fljótt eða dræmt inn? og hvað sýnist mest að flýta ferð hans, vindur eða straumar?
- Úr hvaða átt kemur hann vanalega hjá yður (norðri, norðvestri eða norðaustri)?
- Eru þær tvær ístegundir, sem um er talað, sumsé borgarís og flatur ís, samfara, eða hvor fyrir sig? og hvora þessara ber þá fyrst að landi á hverjum stað fyrir sig?
- Koma hvalir hvervetna inn á flóa og firði á undan ísnum? og hvort eru hvalir meira fyrir landi í ísaárum eða þá íslaust er?
- Fer það eftir vöxtum hafíssins, hvað lengi hann liggur við landið? eða eru það vissir straumar, er allajafna fra hann burtu?
- Hvar rekur hafísinn fyrst að á Vestfjörðum? hvar fyrir miðju Norðurlandi? og hvar þegar norðar dregur?
- Kemst hafísinn að nokkrum mun fyrir Horn á Vestfjörðum, nema hafþök séu af honum? og fer hann nokkurn tíma suður fyrir Langanes, nema hafþök séu fyrir Norðurlandi?
- Fer hafísinn, þegar hann kemur fyrir Langanes, þétt með landi, eða fyrst út á við og rekur svo inn?
- Verða oft slík hafþök fyrir Múlasýslunum, að eigi sjáist út yfir af fjöllum?
- Í hvaða átt rekur hafísinn, þegar Múlasýslurnar losast við hann?
- Hafa menn fyrir vestan, norðan eða austan tekið eftir nokkrum breytingum á norðurljósum, meðan hafísinn er landfastur?
- Merkist ekki alla-jafna langtum meiri kuldi í sjónum, meðan hafísinn er við land, en ella?
- Halda menn á Norðurlandi, að sudda- og vætu-sumur standi af hafís?
- Af hverju ætla menn hið gamla máltki sé komið, sem segir, að »sjaldan sé mein að miðsvetrarís»? og hafa menn enn þá trú á því?
- Hvaða kvillar fylgja helst hafís á mönnum og skepnum?
- Þegar tré reka í hafís, eru það þá bæði sívöl og köntuð tré, eða að eins sívöl?
- Hvernig eru þau sumur jafnaðarlega á Norðurlandi, þegar enginn hafís hefur komið eða sést veturinn eða vorið áður?
- Er það almenn reynsla á Vestur-, Norður-og Austurlandi, að eftir mikil ísaár, sem gengið hafa í samfellu, komi gott árferði?
En þó þetta sé hið helsta, er mig fýsir að vita, þá kann að vera margt, er glöggir menn hafa tekið eftir, og vildi ég þá gjarnan, að getið yrði um það. Mér þykir full von, þó menn viti eigi mikið um straumana umhverfis landið, og því hef ég eigi spurt svo mikið um þá; en gæti nokkur gefið mér þar um sérstaklegar upplýsingar, væri mér það mjög kært. Reykjavík, 9. nóvember 1860. J. Hjaltalín.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1860. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 4
- Sl. sólarhring: 266
- Sl. viku: 2383
- Frá upphafi: 2434825
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 2114
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010