Bloggfærslur mánaðarins, desember 2020

Af árinu 1859

Mikil harðindi gengu yfir árið 1859. Árið er það kaldasta hér á landi frá því mælingar hófust, ásamt 1866 og kannski 1812. Meðalhiti í Stykkishólmi var aðeins 0,9 stig, 2,5 stigum neðan meðallags næstu tíu ára á undan. Áætlaður meðalhiti í Reykjavík er 2,5 stig og -0,8 stig á Akureyri. Sérlega kalt var í mars og apríl og bæði febrúar og desember eru einnig á meðal þeirra köldustu sem vitað er um. Aðeins einn mánuður, júlí, telst hafa verið nærri meðallagi hvað hita varðar - en allir aðrir mánuðir kaldir. Í apríl virðist hafa linað ívið fyrr sunnanlands en annars staðar á landinu. Gríðarlegur hafís var við landið og einnig óvenjulegir lagnaðarísar. Hefur þessi vetur verið nefndur „álftabani“ eða „blóðvetur“ [sjá neðanmálsvísun]. 

ar_1859t

Fjörutíu og einn dagur telst sérlega kaldur þetta ár í Stykkishólmi, 19.apríl kaldastur að tiltölu. Langflestir köldu dagana voru í mars og apríl (sjá lista í viðhengi). Ekki hafa fundist neinar mælingar frá Reykjavík síðari hluta ársins. 

Úrkoma í Stykkishólmi mældist 626 mm. Er það nokkuð neðan meðallags. Úrkomulítið var í apríl og október.

ar_1859p

Loftþrýstingur var óvenjuhár í apríl og október, en óvenjulágur í ágúst. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 20.janúar 953,4 hPa, en hæstur á sama stað þann 13.desember, 1044,8 hPa. Breytingar frá degi til dags voru með minna móti í apríl, september og október og bendir til þess að vindar hafi lengst af verið hægir í þessum mánuðum (þó ekki væru þeir illviðralausir). 

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar. 

Þjóðólfur segir 31.janúar:

Með vermönnum sem nú eru farnir að sækja til útveranna úr ýmsum áttum, fréttist ekki annað en hið æskilegasta og besta vetrarfar og veðrátta bæði fjær og nær, og bestu fjárhöld hvívetna, á þeim fénaði sem til er.

Norðri finnst þorri ískyggilegur í stuttum tíðarpistli þann 31.janúar:

Enn sem komið er má kalla kalla veturinn góðan, þó að þorri hafi byrjað með hríðum og töluverðum snjó, og sé nokkuð ískyggilegur.

Norðri segir af slysförum í pistli þann 28.febrúar:

Fyrir austan hafa menn orðið úti. Erlendur Erlendsson roskinn bóndi i Hafursá í Skógum á Hallormsstaðahálsi, maður úr Norðfirði eða Hellisfirði á Hrafnaskörðum, Sigfús bóndi Einarsson á Stórabakka í Hróarstungu á leið frá Haugsstöðum á Jökuldal og heim;

Þjóðólfur segir líka af slysförum 28.febrúar:

Undir lok [janúar] varð útí bóndi einn í Snæfellsnessýslu, Guðmundur Sumarliðason á Berserkjahrauni, hann var við fjárgæslu með konu sinni, og er hann sá vant nokkurra kinda, sendi hann konuna á næsta bæ til að spyrjast fyrir um þær, en varð sjálfur úti.

Norðri ræðir árferði og veðurfar í pistli 20.mars:

Veðráttuna um þetta leyti má kalla æði harða einlægt síðan vér gátum hennar síðast; seinni hluti þorra og allt fram til þessa tíma nú í góulok hafa hér norðanlands verið harðviðri og jarðbönn mikil. Eyjafjörður er nú lagður langt út, og hafís kominn inn á hann utanverðan. Þessi jarðbönn, áfellið í haust og ill hey frá hinu síðasta óþurrkasumri hafa lagst þungt á fólk, og flestir hér í Eyjafirði eru nú orðnir heylitlir, og sumir svo, að til vandræða horfir. Þó að nú reyndar enginn geti kallað vetur þenna enn sem komið er nema í nokkuð harðara lagi, verður þó allt hið sama ofan á, heyskortur og skepnutap meira og minna hvernig sem í ári lætur. Þetta er farið að liggja hér svo í landi í þessari sýslu, að varla mun af veita þó að vér förum nokkrum orðum um það, til þess að sýna, hve búnaði vorum er mjög áfátt í þessum efnum. Báðir hinir næstliðnu vetur 1856—57 og 1857-58 máttu heita ágæta góðir, og þó hafa menn hér sumir þurft að reka af sér fé og koma því niður sökum heyleysis báða veturna. Yfirvöld og hreppstjórar hafa því reynt til þess allvíða, að fá bændur til að setja skynsamlega á heyafla sinn; en það kemur fyrir ekki.

Slysaför. 21. janúar fóru tveir ungir menn, Indriði Jónasson frá Grund og Ólafur Grímsson frá Lómatjörn í Laufássókn í Þingeyjarsýslu, báðir á 17. ári til rjúpnaveiða, og urðu, kippkorn fyrir utan og ofan Lómatjörn, undir sjóhengju, sem sprakk úr brekku á þá er þeir voru í laut undir; hafði þar aldrei fallið snjóflóð fyrr svo menn myndu. Drengirnir fundust daginn eftir báðir dauðir. Þeir voru hraustir unglingar og líklegir til dugnaðar.

Þjóðólfur ræðir hrakninga, árferði og veðurfar í pistli 29.mars (nokkuð stytt hér):

Í þriðju viku þorra (8—12.[febrúar]) varð úti piltur einn fyrir innan tvítugt frá Illugastöðum á Ytri-Laxárdal (Skagafjarðarsýslu); hann var á skíðum, og fundust þau nál. 30 faðma frá prestssetrinu Hvammi í Laxárdal, en pilturinn var ófundinn þegar síðast spurðist, er haldið að hann hafi orðið undir skafli eða í snjóflóði og týnst svo. Aðfaranóttina hins 7.[mars] varð úti ungur og frískur maður frá Stórafjalli í Mýrasýslu, og daginn eftir (7.[mars]) urðu úti 2 menn aðrir, annar var frá Kolviðarnesi í Mýrasýslu [svo] en hinn var bóndi frá Grímsstóðum í Breiðuvíkurhreppi í Snæfellsnessýslu. — 21.[mars] týndist bátur héðan á suðurleið með 2 mönnum. ... Föstudaginn, 11.[febrúar] um morguninn í einmuna góðu veðri, logni og heiðskírum himni, fóru 6 skip í hákarlalegu frá veiðistöðnum, Hjallasandi, Keflavík og Rifi undir Snæfellsnesjökli. En er degi tók að halla, fór þegar að hranna suðurloftið, svo að 2 skipin fóru þegar af stað og náðu landi um kveldið, en 4 lágu eftir, þar eð nægur hákarl var fyrir; Önnur 2 skipin lentu daginn eftir, með illan leik, eftir mikinn barning og útilegu um nóttina, í einhverju hinu afskaplegasta sunnanveðri ofan af jöklinum, einkum mestallan laugardaginn. Annað hinna 2 skipanna sem þá voru eftir heimtist aftur og lenti með öllu heilu og höldnu eftir 5 daga útivist að Hjallasandi hvaðan það fór. — Fyrir þessu skipi réð Gísli Gunnarsson frá Skarði á Skarðsströnd, sem réttilega mun vera álitinn einhver hinn úrræðabesti og duglegasti sjóferðamaður hér við Breiðafjörð. — Skip þetta komst þannig af, að það gat beðið af sér það allra afskaplegasta ofviðri, mestmegnis með því að liggja fyrir akkeri, þó það ræki yst út í miðjan Breiðafjörð, móts við Öndverðarnes; úr því slotaði veðrið lítið eitt, svo formaður fór að sigla og náði loks hina sömu nótt litlu fyrir dægramót á sunnudaginn, inn í Rauðseyjar á Breiðafirði; ... Hið annað skipið er vantaði, kom aftur fyrst í dag, og hafði það hleypt vestur á Barðaströnd, ... [Undir Jökli 24.febrúar A.B.]

Megn harðindi og víðast hagleysur hafa mátt heita óslítandi síðan um nýár allt fram á þenna dag; í heilbrigðu héruðunum [vísað til fjárkláðans] er víða komið í heyleysi, vetrarmálnyta hvívetna mjög rýr sakir þess hvað öll mjólkurhey voru hrakin og skemmd undan sumrinu. Hafís fyrir gjörvöllu Norðurlandi og Vesturlandi norðan- og vestanvert, er bannar bæði Ísfirðingum og Strandasýslumönnum fiskiafla og hákarlaveiði; og þetta mikla norðangaddsíhlaup sem hefir staðið um næstliðna 4 daga lofar reyndar eigi góðu um að góustraumarnir hafi getað hrakið hafísinn í burtu. — Fram til miðs [febrúar] hafði orðið mest frost á Akureyri 24°R [-30°C], en hér hefir Það mest orðið 14°R [-17,5°C] á þessum vetri.

Þorleifur í Hvammi segir í athugasemdum við veðurathuganir: „Febrúar: Veðráttan hefir verið mjög óstöðug þenna mánuð og fanndýpi komið hér mikið eins og varla hefir fengist neinn dagur einsýnn að útliti. Mars: Rétt sama blika hefir gengið upp þenna mánuð, og hinn fyrri og síðan veðrátta breyttist í vetur og næstliðið sumar, var óþerra- og votviðra-bliku-uppgangur á loft. 

Þjóðólfur segir frá 20.apríl [miðvikudag í dymbilviku]:

Veðurbatinn er horfði til 4.—5.[apríl], eftir því sem viðraði hér syðra, varð eigi til neinna riða hér, en til uppsveita gætti hans lítið, eða þó heldur alls ekki neitt, því þar varð bloti sá að ísing einni, er hleypti snjókynginu sem fyrir var í enn harðara jökul. Fregnirnar víðsvegar úr sveitunum, eru mjög bágar og ískyggilegar; heyleysi er almennt nær og fjær, svo að sumstaðar er farið að skera kýr hrönnum saman. Um byrjun [apríl] var búið að skera 30 kýr í Eyrarsveit vestra, og 20 í Helgafellssveit, og talið víst, í bréfum frá 7.-9.[apríl], að eins mörgum kúm eður fleirum mætti þar til að farga hér á ofan ef sömu harðindi héldist fram til sumarmála; víða að eru líkar fregnir, og þótt eigi sé getið almenns peningsfellis um byrjun þ.mán. í Skaftafellssýslu, þá er skrifað þaðan, að almenningur fyrir austan Mýrdalssand verði í námi fyrir fénað sinn og almennur peningsfellir liggi opinn fyrir, ef eigi yrði kominn bati um miðjan [apríl], en allir vita nú að sömu eru hörkurnar yfir allt, og frost á hverjum degi í forsælu, fram á þenna dag, í heiðskírasta veðri; næstliðna viku var hér í staðnum 7° frost R [-8,8°C]. Yfir höfuð að tala horfist til hins mesta peningsfellis og þar af leiðandi harðæris, ef eigi snýst veður sem bráðast til batnaðar. Niðurskurðarsveitirnar standa nú langbest að með heybirgðir, og um uppsveitirnar í Borgarfirði eru nú fjárlausu bændurnir að kaupa fé, hver um annan þveran af Mýramönnum og Dalamönnum, undan hnífnum, hverja á 5 rd. og lítið minna. Hafís er með öllu Norðurlandi og Vesturlandi og það inn á Breiðafjörð sem er þó, að sögn næsta sjaldgæft; kaupskip komust nú eigi inn á Stykkishólm fyrir ís, og urðu að hafna sig á Grundarfirði.

Þegar gufuskipið lá hér um mánaðamótin, varð hér nú sú nýlunda. að klakinn varð staðarbúum að góðum fjárafla; skipið skorti barlest, Sundin hér inn frá, þar sem helst er barlestargrjót, voru öll undir lagís, þar til voru flestir menn við sjó, og vart auðið að fá neina til að hverfa úr skiprúmi og yfirgefa ræði til þess að vinna að grjótflutningum, síst fjærri veiðistöðvum. Póstskipsmenn tóku þá það ráð, að láta afla klaka til barlestar, og var nægð af honum hér á Tjörninni, er hefir mátt heita botnfrosin fram á þennan dag. Dýralæknir Teitur Finnbogason gekk í samning við skipverja, og skuldbatt sig til að afla og koma út á gufuskip, að minnsta kosti 600 skippundum af klakahnausum, fyrir 6.[apríl], ef hvert skpd. væri borgað 1 rd. 16 sk.; en þeir undirgengust í móti að kaupa 900 skpd. sama verði, ef svo mikils yrði aflað. Teitur Finnbogason aflaði nú alls 900 skpda og flutti út á skip, og tók hann í staðinn 1050 rd. Höfðu mýmargir af þessu hina arðsömustu atvinnu meðan á því stóð, því ótal hendur komust þar að vinnu; fulltíða menn hjuggu upp klakastykkin og komu þeim upp á sleða og vagna, aðrir óku vögnunum ofan til strandar, aftur vógu aðrir klakahnausana og báru á skip og reru út með til gufuskipsins; ekki unnu aðeins fullorðnir menn hér að, og höfðu af því bestu atvinnu í gæftaleysinu, heldur einnig amlóðar og ómagar, því ótal ungsveinar, 7 vetra og eldri, óku tveir og tveir, á smásleðum, hinum smærri klakahnausum ofan til strandar; svo það mátti segja eins og í kvæðum, að „allt sem vettlingi valdið gat, vatt sér á kreik“ til þess að afla sér fjár fyrir klakann.

Norðri segir af harðindum og slysförum í pistli 30.apríl:

Fréttirnar með pósti eru engan veginn ríflegar, því þó veturinn væri góður framan af sunnanlands, var þó nú, þegar póstur fór norður, um mesta fannfergja þar og jafnvel á útnesjum syðra. Allstaðar hér um Norðurland og Austurland hefir vetrarríki og jarðbönn haldist, með grimmustu frostum nú fram yfir páska [24.apríl]. Víða hér nyrðra eru menn búnir að skera fjölda fjár, kýr og hesta, þó mun fellir enn sem komið er mestur hér í Eyjafjarðarsýslu, en víðast þar sem vér höfum til frétt munu menn heylausir hafa verið um sumarmál. Víða er fé orðið mjög framdregið og magurt, og öll líkindi til að fjöldi falli enn, verði vorið ekki því betra. Af Vestfjörðum er oss nýlega skrifað úr Ísafjarðarsýslu að þar líti út fyrir stórkostlegan fellir og vetur hafi verið hinn grimmasti, og bjargræðisskortur hafi verið þar svo mikill, að út leit fyrir að mannfellir yrði í einum hrepp. Ísalög eru hin mestu hér fyrir landi, sem verið hafa nú í langa tíma. Hefir oss verið skrifað og sumt sagt af ferðamönnum, að ís sé fyrir öllum Vestfjörðum suður undir Breiðafjörð, fyrir öllu Norður- og Austurlandi suður að Horni. Ís þessi bannar hér enn sem komið er skipakomur allar og er svo mikill hér fyrir landi, að bið sýnist muni verða á því, að hann losni héðan fyrst um sinn. Þó að því sólbráðir nokkrar hafi verið hér með næturfrostum síðan um páskana, hefir þó enn lítil jörð komið upp, þó það sé undir eins orðin dálítil hjálp. Þessi mikli ís hefur nú enn ekki flutt aðrar bjargir að landi voru en einn hvalreka á Skagaströnd; er sá hvalur sagður fertugur, og hafi allmörgum orðið að björg. Fleiri hvalir er sagt þar liggi í ísvökum á Húnaflóa, er menn þó enn ekki hafa getað banað eða haft not af.

Slysfarir: Úti hefir orðið unglingspiltur frá Kolbeinsá í Strandasýslu 6. mars. Hann var bróðir Jóns Markússonar, er drukknaði í fyrra sumar í Drumbafljóti; annar þaðan úr sýslu varð úti á Steingrímsfjarðarheiði á heimleið úr Ísafirði. Tveir menn duttu ofan um ís norður á Veiðileysufirði fyrir innan Reykjafjörð; þeir voru úr Kaldrananess sókn, og komst annar af, en annar var örendur er hann náðist upp, það var ungur maður nýkvongaður.

Þjóðólfur segir þann 2.maí [í neðanmálsathugasemd við almenna hallærishugvekju]:

Vér vitum til, að þessi hugvekja er skráð nokkru fyrir páskana eða áður en veðurbatinn kom sem síðan hefir haldist hér syðra; sólskin, sólbráð og veðurblíða um daga, en frost um nætur. Veðurlagið og hin stöðuga norðankæla, sem hér er enn, spáir eigi heldur því, að hafíslaust sé enn orðið fyrir Norðurlandi, eða að þar sé enn kominn neinn verulegur bati, hvað sem nú þar um fréttist með pósti; en skrifað er nú að hafísinn sé að reka suður með landi. Svo víða sem fregnir hafa borist að úr sveitum, þá hefir veðurbatinn náð víða yfir hér um allt Suðurland og Mýrar og víst orðið að bestu notum, þar sem fénaður var eigi kominn í því meiri megurð, og heyþrot orðin, en svo er að sögn, mjög víða vestur um Mýrar. Í Skaftafellssýslum er nú von um að fénaður skrimti af.

Norðri segir frá 30.maí:

Vetrarríki og fannfergja hélst hér allt fram að þriðja í páskum [26.apríl] og þó að þá kæmu góðviðri og hægar sólbráðir, fyrst með miklum næturfrostum, þurfti ærið langan tíma til að svo tæki upp, að næg jörð fengist, og enn í dag, 29.maí er hér svo að kalla öldungis gróðurlaust. Ísinn hefir legið hér einlægt fyrir landi og gjört hér mikinn skaða með kulda, er bæði veldur gróðurleysinu og dregur hinn litla merg úr skepnum, er áður voru fullgrannar, þær sem af komust, og er fé hér einlægt að falla til þessa dags, og varla annað sjáanlegt, en margt fleira veslist enn upp. Ísinn hefir einnig til þessa dags varnað öllum skipakomum til Norðurlands, og allri hákarlaveiði, og enn hefir hér engi björg fengist úr sjó, sem neinu sé teljandi. Vorið og sumarið í fyrra og næstliðinn vetur mun að mörgu leyti þykja minnisstæður kafli í harðindafrásögnum lands vors. Eftir góðan vetur[1858] og langvinna árgæsku kom þetta kalda vor með sífelldum snjó og hretviðrum sem hélst langt fram í júnímánuð; og þó að margir ættu þá miklar fyrningar, gáfust þær þó mjög upp, því vortíminn er eins og allir vita hinn mesti heyþjófur, þegar svo viðrar að gefa þarf. Óþurrkarnir í fyrrasumar voru svo miklir, að öll hey stórskemmdust, og það enn meira en menn hafa búist við.

Enn segir Þjóðólfur af árferði og afleiðingum vetrarharkanna þann 10.júní:

Póstar komu að vestan og norðan um síðustu mánaðamót, og með þeim bréf úr mörgum héruðum; ekki úr Múlasýslum hingað, yngri en um 20. apríl, og voru þá hörkurnar þar sem mestar, og allir firðir alþaktir hafís. Bréf úr Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslu, 20.—22.[maí], segja að hafísinn hafi þá dagana verið að leysa frá Norðurlandi, nokkru fyrr fyrir norðan og austan Tjörnes; Eyjafjörður varð íslaus 18.[maí] og Húnaflói norðan til (fyrir framan Skagaströnd) um sama leyti, en allir Vestfirðir fullir enn með ís um síðustu mánaðamót. Lagnaðarísinn hélst og lengi á Breiðafirði; merkur bóndi hefir skrifað, 15.[maí], að Breiðasund, milli Hrappseyjar og Yxneyjar, hafi ekki leyst fyrr en 8. maí, mældi hann þá skömmu síðar þykkt eins jakans, og var 40 álnir [um 15 m], og segir vafalaust, að sumir jakarnir hafi verið þykkari; þetta var lagnarís en ekki hafís; en straumar höfðu spýst yfir ísinn og fannfergið hlaðist í og allt svo orðið samfrosta; enda var á einmánuði oft 16—20° mælistiga frost þar um eyjarnar, og er furða mikil, ef það var eftir R mæli, þar sem frostið náði hér aldrei meira en 14°; um Pálmasunnudag (17.apríl) var frostið 20°R [-25°C] vestan til í Þingeyjarsýslu. Illviðri og fannkoma var hin mesta um öll héruð lands, frá góukomu og til páska, og það svo stöðugt og óslítandi, að menn eigi þykjast muna slíkan illviðrabálk og svo langan og harðan sem þenna. — Af flestum eða öllum norðanbréfum er að ráða, að víðast hafi þar verið hver skepna á gjöf, fram til 1.—10.[maí], að almenningur hafi þar verið orðinn í námi með fóður, að einstöku menn hafi orðið að sæta tilfinnanlegum fjárfelli, jafnvel helst hinir fátækari, en að fjárríkari mennirnir flestir hafi orðið fyrir minni fjármissi að tiltölu eða litlum, og hafi þannig ekki orðið norðanlands almennur né tilfinnanlegur fjárfellir; en út leit fyrir, að sauðburður mundi þar víða misheppnast, því vart var neinstaðar farið að votta til gróðurs um 20. [maí], en mesta illviðrakast gjörði þar 25.—27.[maí] Líkar fréttir þessum, um fjárhöld o.fl., eru austantil úr Strandasýslu, Barðastrandar- og Dalasýslu og vestari hluta Ísafjarðarsýslu; í norðari hluta sýslunnar og vestantil í Strandasýslu er sagður mesti fjárfellir og neyð. — Bréf sem komu til Eyjafjarðar úr Norðurmúlasýslu um 20.[maí] kvað hafa sagt, að einnig þar mundi eigi verða mikill fellir. Úr Suðurmúlasýslu og Austurskaftafellssýslu hafa menn ekki fréttir síðan batinn kom. — Um Síðu og Meðalland horfði eigi til almenns fellis, talsvert meira um Skaftártungu, en almennur hrossa- og fjárfellir sagður um Mýrdalinn; sagði svo maður er hér var á ferð þaðan fyrir skemmstu, að eigi muni þar um sveit nema 2—3 bændur (af nálægt 112 búendum), er enga skepnu hefði misst; undir Eyjafjöllum einkum austantil, er einnig sagður meiri og minni fjárfellir; um Borgarfjörð hafa hross horfallið að mun hjá einstöku mönnum, einkum þeim er flest eiga stóðið.

Norðri segir frá 30.júní:

Veðuráttan hefir allajafna verið köld, nema dag og dag, en fremur úrkomulítil. Það hefir því allt að þessu lítið út fyrir að grasvöxtur mundi verða sárlítill í sumar, enda er jörð einkum þýfi og lautir víða hvar kalin til stórskemmda. Hafísinn hefur líka alljafnt legið ýmist grynnra e&a dýpra hér fyrir Norðurlandi, og sumstaðar allt til skamms tíma verið nær því landfastur og tálmað mjög sjóarútvegum. Hvalir hafa fundist dauðir í ísnum, líklega frá því í vetur meira og minna skertir og skemmdir, en þeirra orðið lítil not vegna fjarlægðar frá landinu og að þeir hafa ekki náðst út úr ísnum. — Hákarlaafli hefir verið en hjá flestum lítill.

Þjóðólfur segir frá 15.október undir fyrirsögninni: „Sumarfar og árferði“.

Þetta sumar hefir verið allstaðar um landið hið kaldasta og óhlýjasta, er hér hefir gengið yfir land um næstliðin 30—40 ár; enda hefir sést til hafíssins víða um norður- og vesturstrendur landsins allt fram til byrjunar [september], þó að hann hvergi hafi verið landfastur; víða var það hér sunnanlands, að snjófannir lágu óuppteknar á túnum fram yfir fardaga, og að eigi var orðið stunguþítt í görðum um Jónsmessu; og sumstaðar hér syðra hefir þess orðið vart nú í haust, þegar borið hefir verið á völl, að klaki hefir eigi verið þiðnaður í fjóshaugum. Um septemberbyrjun gjörði hið mesta norðankólgukast; féll þá svo mikill snjór víðast norðanlands að alhvít var jörð í byggð, en ófærð varð svo mikil á fjallvegum í Þingeyjarsýslu, að menn urðu að ganga af hestum sínum; um 20.[september] var ökklasnjór í byggð norður í Bárðardal. — Grasvöxtur varð hér syðra víðast hvar í meðallagi á túnum eða vel það, en í betra meðallagi á útjörð, svo var og um útjörð víðast norðanlands, en tún lakari; en allt Vesturland var mikill grasbresti, og þar af leiddi, að víðast urðu þar um sveitir ill og lítil heyföng, með því nýting var í þar í mörgum sveitum lakari en hér syðra; svo varð og allur heyskapur af útjörð mjög lítill og endasleppur um Þingeyjar- og Eyjafjarðarsýslu, sakir hinnar illu veðráttu, og fannkomu um byrjun [september]; en svo sagt úr Þingeyjarsýslu að margur búandi þar hafi ráðgjört að gjörfella lömb sin. Allstaðar um land nýttust töður með lakara slag, einkum af því, að víðast voru þær djarfhirtar svo að hjá mörgum hefir legið við bruna, en útheysafli varð að lokum góður víðast hér syðra og um Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu. — Jarðeplaræktin, hefir allstaðar misheppnast, og víðast eftirtekja svo gott sem engin, úr bestu görðum hér í Reykjavík er hún helmingi minni en í meðalári. — Fiskiafli hefir verið góður hér syðra í sumar, en gæftaleysi staðið fyrir, en um Breiðafjörð svo einstakt bjargarleysi af sjó, að lundinn hefir enga björg getað fært kofum sínum, svo hún hefir legið dauð af megurð í holunum, en svartfugl og veiðibjalla lagst þar á jarðeplagarða, sakir skorts á annarri bráð, og skemmt stórum og rifið hinn litla ávöxt.

Þjóðólfur heldu áfram þann 31.október:

Til viðbætis því er vér skýrðum frá um sumarfar og árferði í síðasta blaði, má geta þess að heyafli hefir orðið mjög lítill um gjörvallar Múlasýslur bæði sakir grasbrests og illrar nýtingar; undir lok [september] lágu töður enn óhirtar af túnum um Langanes. — Mest kvað bágindin og neyðin vestra vera í Breiðavíkurhrepp (sunnanundir Jökli), mest sakir aflaleysisins næstliðið vor og sumar; er þar um til merkis að í meðalárum er vanalega flutt út frá Búðum, kaupstaði Breiðvíkinga, nálega 200 skippundum af fiski, en í sumar var skipað út þaðan einum 20 (tuttugu) skippundum af fiski. — 20 búendur sögðu sig þar til sveitar i vor. — Haustveðrátta hefir allstaðar verið einstaklega góð, allan framanverðan þenna mánuð fram undir þetta síðasta norðaníhlaup (19.—26. október); það var víða um Skagafjörð og Húnavatnssýslu að menn stóðu að heyskap fram yfir miðjan mánuðinn. — Hér um Nesin gæftatregt og aflalítið.

Norðri fer yfir veður, búskap og slysfarir þann 19.nóvember (slysfarakaflinn styttur hér):

Veðráttufarið í sumar var hér um sveitir æði bágt og víðast norðanlands framan af sumrinu. Grasvöxturinn hefir víðast hvar verið í minna meðallagi, og hirðing svo að segja allstaðar mjög bág. Seint í ágúst voru enn víða töður úti og í mörgum sveitum skemmdust þær stórlega sökum þess að í þeim hitnaði, þó álíta margir að hey sé betri að gæðum og kraftmeiri en í fyrra. Seinast í ágúst komu góðir þerrar í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum og ætlum vér, að heyskapur hafi orðið þar að lokunum víðast hvar í góðu meðallagi að vöxtunum og úthey með allgóðri hirðingu. Hér í sýslu komu þurrkarnir svo seint, og heyskapur var kominn svo lítið áleiðis, að áfellið sem kom á um göngurnar, kom svo á, að mikið hey var hér úti í Eyjafirði og norður um, og náðist ekki fyrr en löngu seinna og þá mjög hrakið. Enn bágara er sagt af heyskap öllum að austan, og hefur þar verið bæði grasbrestur aftaksmikill víðast hvar á harðvelli og nýting hin versta; hefir frést þaðan, að fólk hafi rekið fjarska margt fé í kaupstaði, og það svo, að kaupmenn hafi eigi getað veitt því öllu viðtökur, og að sama hófi mun þá hafa verið slátrað heima. Hér norðanlands var engin fjártaka á Akureyri og lítil sem engin á Húsavík, enda mun hafa verið langt frá því, að fólk hér í sýslu muni hafa haft fé aflögu frá búi sínu eftir fjárfellirinn næstliðinn vetur og vor, og í Þingeyjarsýslu voru samtök í mörgum sveitum um að farga ekki bjargræði út úr sveitinni. Í Skagafirði var og nokkur fjártaka í Hofsós og vitum vér óglöggt, hve mikið það hefir verið, þó að vér ætlum, að svo muni ekki vera. Síðan um veturnætur lagði hér allstaðar og norður og austur undan að með miklum snjóum og sterkum frostum, svo Eyjafjörð lagði út fyrir Oddeyri og hvervetna varð hin versta ófærð og snjóþyngsli, en nú er aftur um miðju þessa mánaðar [nóvember] komnir sunnanvindar og þíður svo hér er nú orðið snjólítið. Vestur undan í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum mun snjókast þetta hafa orðið vægara.

Nú hafa tvö hákarlaskip farist hér. Annað skipið, sem vér ætlum að nefndist Gustur áttu menn á Sléttu og Raufarhöfn, og voru á því 6 menn ungir og liðgóðir. Stýrimaður á því var Ólafur Þorsteinsson ættaður af Flateyjardal; ... Er sagt að Flandrarar hafi séð það farast í ís, en eigi getað bjargað. Annað skipið var hér úr Eyjafirði með 10 manns og átti það Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni, umboðsmaður og dannibrogsmaður, það hét Leyningur. ... Skipstjóri Jóhann Sigurðsson frá Hrísum, sem lært hafði stýrimennsku erlendis, ... Ætla menn og, að skip þetta hafi farist í ís annan í hvítasunnu [13.júní], og þóttist Gunnlaugur skipstjóri Gunnlaugsson og skipverjar hans, er nýlega höfðu fært þeim vistir frá landi, því þeir lögðu seinna út, sjá rök til þess, að skip færist, en voru of fjærri til að geta veitt nokkra björg. Þegar skip þetta fórst var veður ekki hvasst, en skipið hefir að líkindum lent á ísjaka og orðið svo lekt, að það hefir sokkið, og sýnir það dæmi, að hin mesta nauðsyn er á, að hákarlaskipum fylgi bátar, er skipverjar geti leitað sér lífs á í slíkum viðlögum.

Norðri segir fréttir að sunnan þann 30.nóvember:

Í gær 28.[nóvember] kom pósturinn að sunnan, og var mönnum farið að lengja eftir honum, en hann hefir orðið að bíða eftir póstskipi, sem ekki kom fyrri en 9.[nóvember], svo ferðin má kalla að hafi gengið vel. Fréttir bárust litlar með því, og lítið fréttist tíðinda með pósti, nema góða tíð allstaðar um þetta leyti, og svo varð eins og vér áður gátum til, að snjókast það er kom um byrjun vetrar varð minna hér vestur um, svo að víða hefir ekki lömbum verið kennt át í Húnavatnssýslu. Heyskapur lítill á Vesturlandi og nýting ill. Á Suðurlandi grasvöxtur í betra lagi, en víða stórskemmdir á heyjum af bruna, hinar mestu er menn þykjast muna. Hey loguðu á 5 bæjum í Borgarfirði, Leirá, Leirárgörðum, Árdal, Fosskoti og Heggstöðum en fóru þó ekki alveg. Fiskiafli góður á Akranesi en minni á Suðurnesjunum og gæftalítið, laxveiði með minna móti í Hvítá í Borgarfirði og nokkuð misjafnt en þó allmikil.

Í Norðra 30.nóvember er einnig frásögn af fjárkaupaferð Rangæinga til Norðurlands. Hér sleppum við upphafinu - en þar er greint ítarlega frá ástæðum ferðarinnar (ekki einfalt mál):

Urðum vér þá eins og á tveim áttum, þar sem vér á aðra hlið vorum búnir að vera heilt ár fjárlausir en á hinn bóginn yfir öræfi að sækja, og þegar kominn vetur. Réðum því af, með ráði alþingismanns okkar að leggja norður Sprengisand, hálfum mánuði fyrir vetur, ef ekki til fjárkaupa, þá samt til að búa oss undir þau framvegis, með því að taka hesta til vetrarfóðurs af Þingeyingum. Ferðin norður gekk oss svo vel, að við vorum á 4 dögum komnir norður í Bárðardal; og af því þá var besta tíð norðanlands, réðumst vér í að snúa okkur að fjárkaupunum, - sem fyrir fylgi bestu manna tókst þannig, að vér fengum úr Fnjóskadal, Ljósavatnshrepp, Reykjadal og Mývatnssveit, liðug 300 ær og lömb til samans. En — „ekki var sopið kálið þó í ausuna væri komið“ — því jafnskjótt og féð var saman komið, var veðri brugðið. Þó lögðum vér úr byggð laugardaginn 1. í vetri, [22.október] með 2 duglegum fylgdarmönnum úr Bárðardal, í þeirri von, að vér mundum sleppa með féð suður af Sprengisandi — því veðurstaðan var á eftir okkur; en þegar vér vorum lítið eitt komnir upp á Sprengisand, gekk í stórhríð með brunafrosti, og svo miklu sterkviðri, að fé og hesta sleit frá tjöldunum. Af og til létti þó veðri, svo að vér eftir 16 dægra útivist gátum tínt saman rúmar 90 kindur, sem reknar voru til byggða út í Bárðardal. Gjörðu þá Bárðdælingar 5 menn með 5 hesta fram á öræfi, er fundu eftir viku aðeins 30 kindur. Með þessum leitarmönnum lögðu 4 félagar suður, en 1 varð eftir sökum uppáfallandi heilsubrests, er dveljast skyldi í Bárðardal í vetur. En sjaldan er ein bára stök, því þegar vér komum miðleiðis milli sands og byggða, misstum vér koffortahest okkar með öllum fatnaði og öðrum lífsnauðsynjum, ofan af skör í Skjálfandafljót, en ekki hægt að fara annan veg sökum snjóþyngsla í grófum. Þetta óhapp olli því, að annar af okkur, sem ritum yður þessar línur, settist aftur, en 3 af félögum vorum héldu áfram heimleiðis. Nú er hér komin þíða, og snjór mikið hlánaður, svo vér breytum því högum vorum af nýju, og búum oss héðan til burtfarar í drottins nafni; og felum Norðlendingum meðferð á þeim skepnum, sem fundnar eru og finnast kunna, minnugir þess í þakklátum hjörtum, hvað mannkærleikslega þeir hafa með oss farið í einu og öllu. Þessar línur biðjum vér yður herra ritstjóri að taka í blað yðar, svo raunasaga okkar komi rétt fyrir en ekki rangt, þegar hún færist fjær. Bárðardal 12. nóvember 1859. Þorsteinn Runólfsson. Sigurður Guðbrandsson.

Þjóðólfur segir af skipströndum í frétt þann 28.nóvember:

Í norðanveðrinu sem gekk öndverðan þenna mánuð hér syðra, sleit hér upp 3 hafskip, eitt í Hafnarfirði, það var jagtskipið Meta, eign þeirra feðga Flensborgarreiðaranna, annað í Njarðvíkum, skonnortuskipið Ólafur Rye, stórt skip og nýtt, og hið vandaðasta og besta skip að öllu, Eyrarbakkareiðararnir áttu það; kom það hér í [október] með korn og aðrar nauðsynjar er það átti að færa til Eyrarbakka, en komst þar ekki inn, og sneri því til Hafnarfjarðar með farminn, þar hinir sömu reiðarar eiga verslun Levinsens. Nú átti það að flytja salt suður til Njarðvíka, en fórst svona. Hið 3. skip sleit upp í Keflavík, jagtskip er átti Sveinbjörn, fyrr hreppstjóri, á Þorkötlustöðum í Grindavík.

Norðri birti þann 31.janúar 1860 eftirmæli ársins 1859:

Árið næstliðna hefir mátt vera oss Íslendingum að mörgu minnisstætt. Það gekk svo í garð, að víða voru ærin hey, því haustáfellið 1858 hafði orðið nokkuð þungbært; frá fyrri árum voru gamlar fyrningar hjá aflamönnunum, og allt mátti heita að stæði í blóma, þó að verslunin hefði mátt heita víðast hvar næsta óhæg landsmönnum undanfarið sumar. Byrjun ársins, útmánuðir og vorið breyttu þessu ástandi nú á skömmum tíma, því hin stríðu harðindi frá nýári fram um páska, sem ekki komu fyrr en eftir sumarmál, tæmdu heyforðann um allt land og gjörðu hinn mesta fjárfelli um allt miðbik Norðurlands. Vesturland og víða um sveitir; og hafði ekki annar eins vetur komið hér um land síðan 1802, og þessi þó ef til vill strangari, eftir því sem menn voru þó nokkru betur undir hann búnir. Ofan á þetta bættust nú aftaks ísalög fyrir Norður-, Austur- og Vesturlandi, sem bægði skipum frá landi, svo að þau komu til að mynda ekki hingað til Eyjafjarðar fyrri en 6. júní, og um sama leyti á hinum öðrum höfnum hér norðanlands; og leiddi þar af hinn mesta bjargræðisskort hér víða norðanlands, eins og að líkindum mátti ráða, þar sem bæði voru engar matvörur að fá, enda lítið fyrir að gefa. Vér ætlum það ekki ofsögum sagt, að hér hafi ástandið verið með bágasta móti næstliðið
vor, og sumarið bætti þá lítið úr, því þó að grasvöxtur væri allvíða í meðallagi, þá var hirðing þó víðast hvar hin bágasta, og svo hinn stakasti grasbrestur líka sumstaðar, t.a.m. eystra, svo að þar varð að farga allra mesta fjarska af sauðfé, næstliðið haust, sökum fóðurskorts.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1859. Fáeinar tölur eru í viðhenginu. 

Álftabani og blóðvetur:

Guðmundur Friðjónsson á Sandi notar þessi heiti í ritgerðinni „Fastheldni“ sem birtist í Eimreiðinni 1.hefti 1941, s.30. Hann segir þar að síðara nafnið sé tilkomið vegna þess að þá hafi verið víða „skorið af heyjum“ (fé skorið til að ekki félli allt) á laugardaginn fyrir páska [23.apríl]. Einmitt þá létti af mesta kuldanum. Nafnið „álftabani“ yfir þennan vetur var þegar nefnt á prenti árið 1874 [Víkverji, s.51]. Fleiri vetur hafa reyndar verið kallaðir svo - en þessi oftast. Guðmundur nefnir einnig „blóðvetur“ í pistli sem hann ritaði í Eimreiðina 1916. Þar fjallar hann um föstudaginn langa 1914 - en nefnir 1859 í framhjáhlaupi. Veturinn 1858-59 sést einnig kallaður „skurðarvetur“. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Enn af nóvember

Nóvember í ár var ólíkur almanaksbróður sínum í fyrra - og mjög ólíkur nýliðnum október líka. Rósemdarsvipur var yfir þeim mánuðum. Nú voru bæði vestlægar og suðlægar áttir öllu stríðari heldur en að meðaltali - þó ekki til neinna vandræða.

w-blogg041220a

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í nóvember (heildregnar línur), en einnig hæðarvikin. Jákvæð vik eru rauðbrún, en þau neikvæðu blá. Af vikunum ráðum við að suðvestanáttin var talsvert sterkari en hún er yfirleitt í nóvember. Svona vægt einkenni þess aem við máttum búa við í fyrravetur, frá desember og áfram. 

Samt hefur veðrið verið nokkuð gott í haust - til þessa - frekar lítið um að vera en fáeinir öflugir vestanáttardagar - tvö illviðri setja svip sinn á heildarvik mánaðarins. Ritstjóri hungurdiska var satt best að segja fremur hissa þegar hann sá þetta uppgjör - tíð hefði átt að vera verri um landið sunnan- og vestanvert í nóvember en hún var.

Þegar vestanáttin er sterk - og hæðarvik jákvæð yfir Evrópu er hlýtt þar um slóðir - enda óvenjuleg hlýindi þar á ferð að þessu sinni. Aftur á móti var nóvember heldur kaldur við Vestur-Grænland og Baffinslandi - ekki þó eins kaldur og staðan gæti gefið til kynna. Við á milli þessara tveggja „póla“. 

Þakka BP að vanda fyrir kortagerðina.


Af árinu 1858

Árið 1858 þótti heldur óhagstætt, sérstaklega vorið og hluti haustsins. Sumarið var votviðrasamt og erfitt nyrðra, sennilega skárra syðra. Fjárkláðinn var erfiður. Ársmeðalhiti var þó ekki langt frá langtímameðaltölum, 3,3 stig í Stykkishólmi, nákvæmlega í meðallagi næstu tíu ára á undan. Mælt var í Reykjavík allt árið og meðalhiti þar 4,6 stig. Áætlaður meðalhiti á Akureyri er 2,3 stig. Fremur hlýtt var í febrúar og nóvember, hiti nærri meðallagi í janúar, ágúst og desember, en kalt í öðrum mánuðum, maí kaldastur að tiltölu. Þá gerði afarslæmt hret sem náði hámarki um og eftir miðjan mánuð. Varla er hægt að trúa hitamælingum frá Ofanleiti í Vestmannaeyjum þennan mánuð, en þær segja frost hafa verið þar í morgunsárið dag eftir dag á þessum tíma - en mikið var kveinað undan þessu hreti á öllu landinu, sagt hið versta á þessum tíma í áratugi. 

ar_1858t

Í Stykkishólmi voru mjög kaldir dagar 14 (sjá viðhengi), 21.maí kaldastur að tiltölu.

Úrkoma í Stykkishólmi mældist 810 mm, vel ofan meðallags. Mjög úrkomusamt var í janúar og ágúst, en þurrt í nóvember. 

ar_1858p 

Loftþrýstingur var sérlega lágur í september og desember, en fremur hár í nóvember og mars. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi 9.janúar, 948,9 hPa, en hæstur á sama stað 17.október, 1034,4 hPa. Þrýstifar var órólegt í október - en aftur á móti rólegt í nóvember.

Fjárskaðahríðin mikla í október (sjá nánar í pistlum hér að neðan) virðist vera minnisstæðasti veðurviðburður ársins. Mikil hláka kom í kjölfarið og fylgdu henni skriðuföll nyrðra.

Hér að neðan má finna helstu heimildir um veðurfar ársins. Nokkuð af veðurskýrslum og dagbókum er enn óyfirfarið. Að vanda er stafsetning að mestu færð til nútímavenju. Fleiri slysa er getið í heimildum heldur en nefnd eru hér að neðan. Óljóst er hver þeirra tengdust veðri og dagsetningar vantar.   

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Þíðviðri og milt veður hélst til þrettánda. Þá gjörði storku og hagleysi fyrir fé. Gengu svo köföld og smáblotar til þorra. Um Pálsmessu hláka góð, en 5 daga fyrir kyndilmessu harka mikil, svo mildara, en 4. febr. hríð ytra og enn kafaldasamt í miðþorra 9. febr. Aftur þítt og góðviðri stöðugt til miðgóu, 6.-9 mars norðanhríð allmikil og harðviðri; eftir það fjúkasamt með hægu frosti og aftur viku fyrir páska hríð og harka á eftir.

Norðri segir 31.janúar

Lítið frést með þeim fáu sem komið hafa og fréttirnar þær sem eru heldur bágar, nema hvað tíðarfarið snertir, sem hefur víðast hvar á landi verið hið æskilegasta það sem af er vetri, þó höfum vér fréttir að hart og illviðrasamt hefur verið úti í Siglufirði og þeim héruðum, er þar næst liggja, enda er þar vetrarríki mikið venjulega.

Þjóðólfur segir 27.mars:

Næstliðna Kyndilmessu (2.febrúar) fórst hákarlaskip vestur í Bolungarvík með 6 mönnum og týndust þeir allir. [Þann 14.mars] varð úti í Borgarfirði, i leið frá Reykholtsdal að heimili sínu Stafholtsey, maður á besta aldri, Jón Sveinsson að nafni. Hafís. Í bréfi úr Húnavatnssýslu, 16.[mars] segir: „Hafísinn er farinn að nálgast".

Í viðaukablaði Þjóðólfs 22.maí er dálítil grein um loftvogir og mikilvægi þeirra eftir Jón Hjaltalín (við sleppum auglýsingunni í lokin). Höfundur tekur nokkuð stórt upp í sig:

Um Loftþyngdarmæli eða veðurvita, til að sjá fyrir veður og til að varna slysförum í sjóferðum. Þegar mannskaðar verða í veiðistöðum hér á landi, þá kemur það oftast af því, að menn eigi hafa getað séð fyrir háskaleg og voveifleg veður, er oft detta á upp úr logni eða hægveðursmollum og þoku. Slík veður má oftast eða nærfellt alltént sjá fyrir á loftþyngdarmælinum, ef menn þekkja reglurnar fyrir brúkun hans, en þær eru eigi örðugri en svo, að hver eftirtektasamur og greindur maður hæglega gæti numið þær, og þarf eigi meira en stutta æfingu til að komast niður í þeim. Ég þykist sannfærður um, að það væri hin þarfasta eign fyrir hverja veiðistöðu, að eiga sér loftþyngdarmæli með uppskrifuðum eða prentuðum reglum fyrir brúkun hans, og með því hann er þarflegur öllum formönnum, þá finnst mér, að formennirnir í hverri veiðistöðu ætti að skjóta saman, til að kaupa sér þetta þarflega verkfæri, og koma sér svo saman um, að hafa það á einhverjum þeim stað, þar allir gæti haft gagn af því. Ég þykist sannfærður um, að kostnaðurinn fyrir hverja veiðistöðu yrði sáralítill, jafnvel þó menn í hverri veiðistöðu hefði eina tvo slíka loftþyngdarmælira, þar nú má fá þá góða og áreiðanlega í Kaupmannahöfn, fyrir 8 eða 10 rdl. Hver sá, sem vanur er loftþyngdarmælinum, getur af honum séð, hvernig breytingin verði á veðrinu, einkum hvað storma og hægviðri snertir, og mætti þetta oft verða að miklu gagni fyrir sjómenn, sem með þessum hætti oft geta séð stórviðri fyrir, löngu áður þau á detta, og þar að auki fengið hugmynd um hvað lengi óveðrið mundi vara. ... Reykjavík, 22. febrúar 1858. Jón Hjaltalín.

Séra Þorleifur í Hvammi segir í lok mars: „Hér hafa verið, einstakir veðurblíðudagar með köflum, svo heimilisnjóli var hér í einstöku stað farinn að votta sig til útsprungu, snjóar og svell að kalla þrotnir í byggðinni, en í endirinn á þessum mánuði sést breytingin“. og í lok apríl: „Í þessum mánuði voru öll svell leyst og skaflar hér heima, en allt aftur svellrunnið í enda þessa mánaðar“.

Brandsstaðaannáll [vor]:

Eftir páska, 4. apríl, stillt og gott vorveður og auð jörð, því aldrei gjörði fannir miklar og hross höfðu sífellt snöp til sveita, en ei til heiða og hálsa. Á sumarmálum var grænkað í hlaðvarpa. 27. apríl skipti um með snjógangi og frostum, þó aftur þíðviðri 6.-12. maí, en gróður sást þó ei utan lítið móti sólu í halllendi. Þaðan fram yfir hvítasunnu [23.maí] stöðug harka og landnorðanstormur, þó lengst auð jörð.

Norðri segir frá 31.maí. Athyglisverð er spurningin í lokin. Hún bendir til þess að höfundi hafi ekki þótt nýliðnir vetur harðir.

Af hákarlaveiðunum hér við Eyjafjörð höfum vér þær fréttir, að þær ganga í ár allmisjafnt, en þó flestum allvel. Hefur einkum gæftaleysi og ís tálmað veiðinni en oftast verið nógur hákarl fyrir þegar gefið hefir til að liggja Þó að veturinn hafi hér um Norðurland verið ágæta góður, þá hafa þó kuldarnir og hretin í vor orðið mönnum svo heyfrek, að fjöldi manna er hér heylaus, enda er það mjög haft á orði, að heyin þau í fyrra hafi reynst mjög létt og ódrjúg til gjafa. Hvernig mundi oss ganga Íslendingum, ef vér fengjum mjög harðan vetur?

Þjóðólfur segir 5.júní:

Allstaðar að fréttast þungar afleiðingar þessa einstaklega kalda og gróðurlausa vors; og vart mun jafn illt vor hafa gengið hér yfir land síðan 1835; fjárhöld víða ill bæði sunnan- og norðanlands, en betri fyrir vestan, og fellir nokkur sumstaðar, einkum á gemlingum, kveður talsvert að því í sumum sveitum i Skaftafells-, Mýra- og Rangárvallasýslu; hrossafellir talsverður í Rangárvallasýslu í þeim sveitunum sem votlendar eru, en ekki þar sem þurrlent er, t.d. á Landinu og Rangárvöllum. Víða hafa þrotið hey handa kúm í téðum sýslum, einnig í Flóanum, þar sem þó sauðféð var fellt að mestu í haust, og þær víða orðnar nytlausar og skemmdar.

Á Hvanneyri við Siglufjörð er getið um hafís: 8.mars: Rak inn hafísjaka fáeina. 10. mars: Mikill hafís úti fyrir. 2. apríl: Fullt af hafís. 31.maí: Hafís úti fyrir allan þennan og næstliðinn mánuð.

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Eftir hátíð 26. maí batnaði veður, en þó var kalsasamt fram yfir fardaga, en úr því góð tíð og gróður, nokkuð útsynningasamt. Nægur gróður á fráfærum, sem voru 27. júní. Aldrei stórrignt nema 18. júní. Gott og nokkuð skúrasamt um lestatíma. Varð mikill grasvöxtur. Sláttur byrjaði í miðjum júlí. Þann 17. var þerrir góður, en úr því þokur og votviðri, þó flæsa nokkur 22.-24. júlí, svo þurrka mátti að mestu það til var, en síðan stöðug votviðri, þó ei stórrigning utan 5. ágúst, en aldrei regnlaus dagur og án sudda til 13. ágúst. Var þá óvíða taða innkomin og hjá flestum ónýting orðin meiri og minni. Kom þá viku þurrviðri og nægur þerrir að hirða það laust var orðið. Aftur kom rigningarkafli 19.-27. ágúst og ennþá vikutíma að mestu þurrt og flæsudagar hér til dalanna. Þriðji rigningakaflinn byrjaði 5. sept. Þann 13. rigndi ákaflega, svo mjög flóði um jörð. 16.-20. sept. flæsudagar, svo nokkrir hirtu hey, en göngurnar tálmuðu flestum austan Blöndu. Gengu nú enn rigningar 21. sept, og 27. fannkoma, er að nokkru tók upp neðra og í lágsveitum, svo 29. hirtu festir hey sín, en hjá öllum á hálendi og til afdala varð hey úti meira og minna. Töðufall varð í mesta máta, en almennt skemmdist hún mjög frá mjólkurgæðum. Heyskapur á þurrlendi varð mikill, því gras spratt fram í miðjan ágúst, en fáir fengu óskemmt hey, en mörgum vannst illa að verki, varð mjög tafsamt og almennt urðu miklar slægjur eftir. ...

Þann 4.júlí segir athugunarmaður á Hvanneyri í Siglufirði að gengið hafi í snjóhríð með kvöldinu. 

Norðri segir þann 31.júlí:

Síðan að batna tóku vorharðindin var tíðarfarið lengi hér hið æskilegasta, svo að grasvöxtur á túnum var hér norðanlands víðast hvar orðinn í góðu meðallagi frá sláttarbyrjun. En þurrkar hafa enn ekki verið góðir á töðum manna, því nú í seinni hluta júlímánaðar hafa suma daga verið miklar rigningar með kulda og snjó ofan í mið fjöll. Hákarlaaflinn hefur hér verið góður að öllu samtöldu, en misjafnt hefur hann gefist eins og að undanförnu. Fiskiafli hefur verið nokkur hér út á Eyjafirði, en þó með minna móti, en hér inni einlægt mjög lítið um afla. Hvalreka höfum vér enga frétt þó að vorið væri svo ísamikið nema ef telja skyldi tvítugan hval sem rak á Langanesströndum.

Norðri segir 15.september:

Heyskapartíðin hefur verið hin örðugasta allstaðar þar sem vér höfum til spurt sökum rigninga og óstöðugleika á þurrki, svo að töður allar hafa víða ekki náðst inn fyrr en seinast í ágústmánuði, og allvíða mjög skemmdar.

Þjóðólfur segir af fjárkaupaferðum sunnanmanna í pistli þann 11.október:

Hreppamönnum og Skeiðamönnum, er fóru norður yfir fjöll til fjárkaupa, eins og fyrr er getið, gekk ferðin vel og greiðlega. og náðu aftur heimabyggðum með féð áður en hann skall á með þetta mikla gaddíhlaup er nú er búið að standa á aðra viku, með kafaldsbyljum á fjöllum.

Í Þjóðólfi 29.mars 1859 má lesa skýrslu um fjárkaup Skeiðamanna í Skagafirði 1858. Þar segir m.a.:

Þann 25. september lögðum við af stað heimleiðis úr Skagafirði; en þó þá væri kominn talsverð ófærð af snjó þar fremst í byggðinni og við alla leið á fjöllunum fengum frost og snjógang, gekk okkur þó svo vel, að við þann 30.s.m. náðum til byggða í Árnessýslu.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

Til allra útkjálka varð hey skemmt og ónýtt allmikið. Líka varð það undir snjó, því 30. sept. kom vikuhríð með ofsaveðri lengst og stórfenni ásamt hörku, svo haglítið varð og lömb tekin á gjöf, en lítið varð af því til framdala, því daglega var beitt fé og krafsjörð var góð. Haustverk stönsuðu og kýr alteknar inn 27. sept. Sjórinn varaði, utan í vestursýslunni, hvar hann lítill kom, þar til 18. okt., að smáþiðnaði með suðvestanátt, en blautlent þótti þá yfir jörð að fara. Ekki tók upp til heiða og liðu hross víða hungur og sjálfheldu, því ófærur voru kvikar undir fönninni. Góðviðrið varaði viku, en 24. okt. kom enn hríðarkast. 29.-31. hláka mikil og féllu víða skriður. Þiðnaði þá að mestu jörð og snjór af fjöllum. Þó varð gaddur og svellalög eftir á lágheiðum. Í nóvember stillt og frostalítið, oftar þurrviðri. Með desember fjúkasamt, en frostlítið. 8. des. kom aftur góðviðri stöðugt og smáþíður. 20.-23. des. landnorðan mjög hvasst og hríð ytra, en frostlítið, svo um jólin gott veður og auð jörð.

Norðri segir af illri tíð þann 31.október:

Bágt var vorið hið næstliðna, og bág var heyskapartíðin, en þó tók út yfir, þegar hausta tók. Í enda septembermánaðar tók veðri hér um svæði að bregða; komu þá um mánaðamótin fjarskamiklar hríðar og fannfergjur, og urðu víða stórskaðar á sauðfénaði manna, því hinar seinni göngur voru ekki afstaðnar þegar ótíðin byrjaði, og flest fé laust eins og vant er að vera um þann tíma árs. Víða fennti fé, einkum um Þingeyjarsýslu t.a m. í Höfðahverfi og Bárðardal og við Mývatn, en þó urðu þessir fjárskaðar hvergi eins stórkostlegir og í Múlasýslum, enda voru veðrin hvergi eins grimm og þar eftir því sem sem vér höfum til spurt. Þegar póstur fór af stað að austan varð hann samferða þeim er ráku úrtíningsfé frá Héraði upp úr Reyðarfirði, Gjörði þá snjóhríðina svo grimma og ófærð svo mikla, að rekstrarmenn máttu ganga þar frá 15 hestum og 500 fjár og komust með illan leik aftur til byggða. Hefur það fé að líkindum allt tapast, og sumir hestarnir voru dauðir, þegar seinustu fréttir bárust, en nokkrum varð náð. Mikinn fjölda fjár hefur og fennt víða þar á uppsveitum. Í Fjörðum eystra var og hin mesta óáran; þau litlu hey er náðst höfðu, voru svo mygluð og hrakin, að engu voru nýt, og víða var enn hey úti undir snjó. Sumstaðar brunnu töður, sem rífa varð inn hálfþurrar, til stórskemmda. ótíðin í haust bannaði mönnum og allvíða að fækka fé sínu með því að láta það í kaupstað, því enginn gat komist yfir jörðina sökum ófærðar og illviðra, og sumir Bárðdælingar, sem komnir voru með skurðarfé inn í Fnjóskadal og ætluðu hingað í sláturtíðinni, urðu að skera það niður þar í dalnum, því þeir komust hvorki fram né aftur með það. Eftir miðju þessa mánaðar tók veðráttan smátt og smátt að breytast til batnaðar, og nú um mánaðamótin komu asahlákur og hvass og hlýr sunnanþeyr. Tók hér upp mestallan snjó í byggð en fjarskalegur vöxtur hljóp í ár og læki, og urðu víða mikil skriðuföll, eins og mest verður á vordag. Hér á Brekku í Kaupangssveit hljóp skriða á tún, og tók þar hús, sem fimmtán lömb voru í, og heyið allt með, og gjörði þar að auki stórskemmdir á túni og engjum.

Þann 20.febrúar 1859 segir Norðri nánar frá hausthretinu eystra:

Haustáfellið 1858 eins og það var víðast í Fljótsdalshéraði og norðurfjörðunum. Mánudaginn [27.september] næstan fyrir Mikaelsmessu gjörði á hafaustan bleytusnjóveður og kom æði lausafönn á fjöll. Næsta dag var bjartviðri en heiðríkjan mjög hvít eða gulleit. Á Mikaelsmessu [29.september] var nöpur kuldagola á hafaustan. En nóttina eftir brast á hið mesta fárviðri, með bleytusnjáfalli og svo miklu hvassviðri á norðaustan, að menn muna hér varla jafnhvasst veður af þeirri átt. Hélst þetta veður og dró sjaldan úr 6 daga, og var aldrei fært á fjöllum og oftast illfært bæja á milli. Sjöunda daginn var hið versta dimmviðri á norðan með þvílíkri veðurhæð og snjókonu að slíkt kemur sjaldan á vetri. Eftir þetta vægði veðrunum og voru þó oftast vond alla næstu viku.

Það var tvennt í þessu áfelli sem gjörði það mikilfenglegra en önnur, er menn muna hér svo snemma á hausti, veðurhæðin og hversu það var langvinnt og hvíldarlaust. Sjávargangur varð meiri í þessum veðrum en menn muna áður, þar sem stormur stóð á land; og svo mikil fannfergja kom á fjöllin, að sjaldan hefur sést meira eftir meðalvetur, en í byggðum skelfdi af öllu og þykkur snjór víðast á sléttu. Allar skepnur voru teknar í hús, hestar og sauðfé í sumum sveitum það sem bjargað varð. Þó gjörði eigi jarðbönn nema sumstaðar; því framan af veðrunum var krapaveður svo lamdi af þúfum á láglendi, einkum nærri sjó þar sem veður stóð af hafi. En þegar frysti, reif af hæðum þar sem eigi var brætt yfir.

Í þessu grimma áfelli urðu stórkostlegir fjárskaðar í sumum sveitum og allstaðar nokkrir. Var sumt féð eftir í fjöllunum, því óvíða var búið að ganga nema eina göngu og víða með óreglu, en flest fennti þó í byggð. Hefi ég sannfrétt af skýrslum merkra manna, að í sumum sveitum fórust frá 5—900 fjár, t.a.m. í Eiðaþinghá hér um bil 500, í Vallahrepp 750, í Fellum 900. Og annarstaðar vantaði og fennti frá 2 hundruðum til 500. Sumir bændur misstu yfir 100 fjár og sumstaðar fennti hesta til dauðs. Þegar áfellið dundi á, áttu sumir úti heyleifar, því oft hafði verið bágt með þurrka áður, margir áttu ókastað ofan á seinustu hey og ógjört utan að sumum, en fjárhús lágu niðri óbyggð, og gat enginn starfað neitt að mannvirkjum sínum fyrr en batinn kom eftir veturnætur. Fáir voru farnir í kaupstað, þegar veðrin byrjuðu, og sluppu fæstir heim undan þeim. Hinir, sem veðrin duttu á, urðu að sitja í kaupstöðum eða kringum þá nærri hálfan mánuð eða lengur; því engum var fært á fjöll. Á Seyðisfirði tepptust 30 kaupstaðarmanna með 109 hesta nærri hálfan mánuð, og brutust seinast með hestana berbakaða yfir fjallið og mátti þó heita ófært. Varð síðan aldrei komið hesti í kaupstað fyrr en hjarnaði eftir veturnætur og ónýttist mestöll haustverslun, en búendur stóðu margir í voða af kornmatarleysi.

Fyrir þessa miklu fjárskaða og vandræðin að koma nokkurri kind eða vöru í kaupstað, en skuldir almennt heimtaðar, varð enginn kostur að safna töluverðri hjálp handa Húnvetningum þetta sinn [væntanlega vegna fjárkláðans þar] þó að búendur hefðu besta vilja, gátu þeir engan veginn látið af hendi rakna nema lítið, ellegar ekkert. Skrifað á Austurlandi 20. desember 1858. S.G. [Líklega Sigurður Gunnarsson á Hallormsstað].

Neðanmáls segir SG: Annað óvanalega mikið áfelli kom hér í vor eð var. Það byrjaði nóttina eftir uppstigningardag [13.maí] og hélst fram yfir hvítasunnu [23.maí] með mikilli snjókomu, ísingaraustri og hafstormum, svo hestar og gamlir sauðir urðu jafnan að vera í húsum. Svarf þetta áfelli mjög að öllum skepnum. En það lagðist undarlega misjafnt í, varð lítið inn til dala, nema harðviðri, og snjórinn líka minni út við sjóinn, því þar át heldur af.

Norðri segir 24.desember frá miklum skriðuhlaupum í Kolbeinsdal í Skagafirði:

Það var að morgni hins 31. október 1858, sem var annar sunnudagur í vetri — þá miklu asahlákuna gjörði hér, sem fyrst vann þar á snjókyngjuna, er hlóð niður í byrjun mánaðarins, að bóndinn Jóhann Hallsson á Skriðulandi í Kolbeinsdal kom út, ný staðinn af rekkju; sá hann þá fyrst, að stór skriða tók sig upp í fjallinu langt fyrir norðan bæinn og stefndi á nokkur hross hans; hörfuðu þá sum þeirra undan, en tvö stóðu kyrr, og klauf skriðan sig þar, svo þau sakaði ekki; hljóp hann þegar á stað og hlaut að vaða yfir forarflóa, þar grundirnar sökum skriðuhlaupanna, voru orðnar ófærar, náði hann þessum tveimur hrossum, og að vörmu spori fylltist eyðan, þar sem þau staðið höfðu; reið hann þegar heimleiðis með hin tömdu, en þá féll stór skriða norðan til á túnið. Þegar heim kom, rak hann ærnar út úr fjárhúsunum suður á vallarhornið neðsta, sem varðist um daginn skriðunum. Í sama bili tók sig upp afarmikil skriða sunnan bæjarins, stefndi hún nálægt þremur hrossum sem þar voru; flýtti hann sér þangað og rak hrossin frá; en í sama vetfangi náði rennslið úr skriðunni hælunum á fararskjóta hans; sneri hann þá aftur til bæjarins; hljóp þá fram skriða, sem stefndi á sjálfan bæinn, voru þá börnin og fólkið klætt, og komið út úr bænum suður fyrir hlaðið; færði hann það allt í fjárhús suður og niður á vallargarðinn. Þessi skriða tók helftina af ærhúsaheyinu, skyldi eftir tvö stór björg í tóftinni og hið þriðja í tóftardyrunum, og hratt heyinu sem eftir var ásamt veggnum fram á húsin. Sama skriðan klauf sig um fjósið, sleit upp tvær hurðir og hálffyllti það með aur og leðju, svo með öllu var óaðgengilegt, að ná þaðan nautgripunum. Bóndinn hafði nú snúið inn í bæinn, að ná mjólk handa börnum sínum, því enginn hafði nokkurs neytt; en þegar hann var á leiðinni aftur til hússins, sem fólkið var flúið í, sá hann hvar einhver hin stærsta skriðan tók sig upp í fjallinu, og stefndi á það húsið og fleiri hús er stóðu á túninu; kallaði hann þá, að menn skyldu forða sér lengra suður á grundina, er þó ekki hefði komið að haldi, ef skriðan hefði haldið áfram stefnu sinni; tók hún fyrst tvö hús, sem ofar stóðu með heyinu og 45 sauðkindum sem inni voru, og tvö hesthús með heyinu, sem við þau var, en hallaði sér síðan til norðurs og náði sjálfum bænum; umturnaði hún í einu vetfangi baðstofu nýbyggðri, smiðju sem stóð langt frá, búri, eldhúsi og bæjargöngum; sneri þá Jóhann aftur heimleiðis, og sá þá, að fyrir neðan stóran kálgarð er stóð fram undan bænum, flutu nokkur sængurföt sem hann náði. Fólkið hafði nú leitað sér skýlis sunnan- og norðanvert við grundirnar í litlu grjótbyrgi því bæði var stormur og rigning. Bóndinn fór nú þegar að ná hestum, sem hann var búinn að tína saman, og reyna Kolbeinsdalsá, sem nú var í svo ægilegum vexti, að engum mundi hafa til hugar komið yfir hana að fara, nema í ítrustu dauðans neyð sem hér var þá á ferðum; gat hann náð reiðtygjum úr útiskemmu, sem uppi stóð að hálfu leyti, og tók nú að flytja fólkið yfir ána (er var 11 að öllu með honum sjálfum, þar af 8 börn yngri og eldri), sem með guðs hjálp lukkaðist, þó ólíklegt væri fyrir manna sjónum. Geta má þess, að fyrir því að skriðurnar hlupu beggja megin bæjarins, var ekki hælis að leita þeim megin í dalnum; en á Fjalli sem er næsti bær hinu megin, (hvar manneskjur þær sem fyrst komust yfir ána höfðu leitað sér hælis), tóku skriður að hlaupa fram, þegar áleið daginn, og um kvöldið hljóp ein þeirra, býsna breið ofan á túnið milli fjóss og bæjar, svo konan þar flúði um aftaninn með 5 yngstu börnin að Brekkukoti í Hjaltadal en bóndinn hafðist við heima með elsta sveininn; hér voru því engin önnur úrræði fyrir Jóhann, en að leita Hjaltadalsins og komst hann með allar manneskjurnar lífs og heilar að Víðirnesi sama kvöldið, en þá var Víðirnessáin ófær, svo ekki varð komist til Hóla. Daginn eftir fór Jóhann ásamt fleirum mönnum yfir til Skriðulands að leita nautgripanna; fjósið stóð að sönnu, en næstum því grafið í aurbleytu svo brjóta varð stafninn, til þess gripunum yrði náð; stóðu kýrnar 4 talsins í kvið í aurbleytunni náðust samt óskemmdar ásamt tveimur vetrungs-kvígum og nauti, sem þá höfðu hvorki fengið fóður né vatn í þrjú mál, en það hafði hlíft töðuheyinu, að það var fyrir ofan, svo skriðan hafði þar klofist. Þannig týndist með öllu matur sá, sem í búrinu var, ásamt öllum búsgögnum; úr eldhúsinu fundust að sönnu tveir pottar, en skinn, 2 kistur og með þeim það sem til var af grjónum, rúg, kaffi, sykri o.fl. týndist gjörsamlega, með smiðjunni fórust reipi og reiðskapur allur, orf, ljáir, hrífur, hestajárn, kláfar, krókar og ýmislegt annað, auk áður talinna húsa, svo skaði sá allur sem varð, bæði á dauðu og lifandi nemur ærið miklu, ef metinn yrði, þó þyngst fyrir fjölskyldumann að sviptast hagkvæmu jarðnæði og standa uppi húsvilltur, hver eftirköst, jafnvel húsbruni ekki hefur, nema í bráð. Þessi atburður er ritaður eftir frásögn Jóhanns sjálfs og konu hans, samt margra sjónarvitna, sem bæði störfuðu að leitinni í skriðunum, samt hey- og nautgripaflutningi til Hóla, hvar hjónin ásamt flestum börnunum og barnfóstrunni munu njóta skýlis í vetur. Staddur á Hólum 29.[nóvember] 1858. Th. Thómasson.

Síðan að vér gátum seinast um tíðarfar, hefur það enn mátt heita gott einlægt, þó að jarðskarpt hafi verið í sumum sveitum á jólaföstunni.

Þjóðólfur segir óvenjuleg tíðindi í frétt 15.janúar 1859:

Um miðja jólaföstu, þegar landsynnings- og skrugguveðrin gengu hér syðra, sló eldingum niður hér og hvar austur um Landeyjar, er getið um að skemmdir hafi orðið af á húsum á Kálfstöðum; tveir menn voru þar á ferð austan yfir Affall, milli Skipagerðis og Arnarhóls í Útlandeyjum, er mælt að þriðji maðurinn hafi ætlað að slást í ferð með þeim þann dag, en farist fyrir; eldingin laust þessa tvo menn svo, þar sem þeir voru þarna á reið, að annar maðurinn beið bana þegar í stað, — það var Þorsteinn bóndi Ólafsson á Steinmóðarbæ, ungur og efnilegur maður, — og báðir hestarnir, en hinn maðurinn féll í rot og meiddist, en er þó nú sagður kominn á skrið, og talið að hann muni verða jafngóður.

Norðri segir af slysförum í pistli 27.desember (lítillega stytt hér):

Fimmtudaginn þann 18.[desember] reri skip til fiskjar frá Reykjum á Reykjaströnd; á því voru 5 menn, formaður hét Gísli Andrésson, bóndi á Reykjum, ... Þessir menn voru komnir fram á sjó fyrir dag, hvessti þá bráðum veðrið á austanlandnorðan, svo þegar varð bráða-rok, sneru þeir þá aftur, og ætluðu að sigla sniðhallt undan inn fyrir svo kallaðan Reykjadisk, og í sína réttu lending, en þar eð útsýni var óglöggt, urðu þeir of norðarlega og nærri Stólnum, ætluðu því að nauðbeita innmeð; skipaði formaður að taka til ára, og róa inn fyrir Diskinn, var þá Jóhannes settur til að passa seglið, sem þó var álitinn lítill sjómaður, og þá annars hugar af hræðslu. Hélt hann nú af öllum mætti í seglið, án þess að slaka til eftir þörfum. Hvolfdi þá undir þeim skipinu og komust þrír strax á kjöl, formaður, Jón og Björn, tók þá Jón og Björn af kjölnum aftur, en Björn var syndur. Greip hann því til sunds og komst nauðuglega til lands, vegna brims og stórsjóa. Frá skipinu og til lands er mælt að væri hér um bil 100 faðmar. Þegar nú Björn var kominn í land, sá hann að formaður var enn á kjölnum, fór hann þá af skinnklæðum sínum, sem mjög voru full af sjó, og ætlaði að leggja til sunds fram að skipinu, og reyna að bjarga formanni sínum, en í því bili kom kvika á skipið og sleit formanninn af kjölnum, og kom hann ei upp síðan. Það er mælt, að við þetta manntjón hafi 12 börn orðið föðurlaus.

Norðri segir enn af slysförum í frétt þann 31.desember:

Á Berufjarðarströnd austur fórst bátur með 2 bændum og nokkru seinna annar bátur í Hamarsfirði þar sunnar með 4 karlmönnum og einni konu. Þessir bændur voru: Sigurður Markússon frá Melrakkanesi, Hávarður Guðmundsson á Þvottá, og 2 bændur sunnan úr Lóni. Alls hafa farist í sjó eystra næstliðið sumar og haust 23 menn, og er það mikill hnekkir; þar sem fólksfæðin er svo mikil.

Norðri sagði 20.febrúar 1859 nánar frá fleiri slysum eystra á árinu 1858:

[Þann 1. september] fóru 2 bændur frá Steinaborg á Berufjarðarströnd yfir á Djúpavogsverslunarstað, Guðmundur Ásmundsson og Oddur Jónsson; sneru þeir svo heimleiðis aftur og sigldu snarpan austanvind allt þar til þeir voru komnir meir en miðfjarbar; herti þá svo veðrið að með öllu varð ófært, og sáu menn það seinast til, að báturinn sökk undir seglunum; höfðu þeir til varúðar hlaðið bátinn með grjóti. Bændur þessir voru ungir menn og efnilegir, vel stilltir, mestu dugnaðar- - og greiðamenn, var því að þeim mikill söknuður. Öndverðlega á næstliðnu sumri lagði út frá Djúpavog þiljuskip, Lúðvík að nafni, og ætlaði til hákarlaveiða ásamt 2 öðrum þiljuskipum. Skömmu þar eftir skellti á ofsa austanveðri, hrakti þá annað skipið til Vestmanneyja, en hitt náði höfn í Papós í Lóni, en til Lúðvíks hefur ekki frést síðan, og mun það mega telja víst, að hann hafi farist. Á skipi þessu voru 6 menn, allir ungir og efnilegir, ... 

Þjóðólfur segir 29.mars 1859 frá slysförum seint á árinu 1858:

[Þann 23.desember] varð maður úti fyrir utan Haugstaði á Jökuldal í Norður-Múlasýslu, hann var úr Hróarstungu. — Annar maður varð úti í Austfjörðum um sama leyti eða nokkru fyrr. — Um jólin varð maður úti í Hallormsstaðaheiði, úr „Skógum“. — Nýársnótt drukknaði maður í Lagarfljóti niðrum ís, Hann var frá Eiðum. — Kona á Axarfjarbarheiði fór að gæta fjár, er hana lengdi eftir vinnukonu sinni er hún hafði sent til fjárins, það var skömmu fyrir jólin; konan varð úti og fannst síðan örend skammt frá fjárhúsunum, bóndinn var ekki heima, en sagan segir að að hann hafi komið heim um kvöldið, þetta hið sama, mjög drukkinn, og því hafi eigi orðið úr að fara að gæta konunnar. 

Norðri ritaði eftirmæli ársins 1858 og birti þann 20.febrúar 1859:

Eftirmæli ársins 1858. Árið 1858 er nú um garð gengið, og þó að engar stórsóttir hafi gengið á því, og engin aftaks harðindi verið, þá megum vér Íslendingar eflaust telja það með hinum lakari árum að mörgu leyti, og það hefur orðið alþýðu manna og mörgum öðrum ærið þungt og notalítið. Veturinn frá nýári var reyndar í betra lagi, en vorið hið versta og grimmasta, er vér og margir aðrir munum allt fram yfir miðju júnímánaðar. Umskiptin sem þá urðu og staklegt blíðviðri í þrjár vikur gjörðu nú samt það að verkum að grasvöxtur varð nógur og enda sem í betri árum víðast hvar. En þá varð líka heyskapartíminn svo afleitlega bágur sökum óþurrka, að töður náðust sumstaðar ekki fyrr en í lok ágústmánaðar og víðast hvar svo hraktar, að þær voru lítill og lélegur vetrarforði, og sumstaðar brunnu þær til stórskemmda. Eins gekk útheysskapurinn, að heyið hraktist til skemmda og lá víða undir snjó þegar haustáfellið byrjaði. Þetta áfelli, sem var jafneinstakt í sinni röð, eins og vorharðindin og sumaróþurrkarnir, byrjaði um mánaðamótin september og október og varaði langt fram í októbermánuð. Gjörði þetta áfelli því meiri skaða sem fé var víða enn óhýst og seinni göngur ekki afstaðnar. Fennti því fjölda fjár einkum í Þingeyjar- og Múlasýslum, og hross jafnvel sumstaðar hér norðan- og austanlands, og þegar að hlánaði, varð leysingin svo ógurleg, að varla eru dæmi til, að þvílíkir skaðar hafi orðið af skriðuhlaupum í nokkrum vorleysingum, og höfum vér tilfært einstök dæmi um það í blaði voru. þá að því veturinn hefði verið hinn besti flaut það af vorharðindunum, að fénaður gekk illa undan og að margir komust í heyþrot; líka féll sumstaðar hið sjúka fé sunnanlands í vorhörkunum; og allt fé varð næsta rýrt til frálags að haustinu, og mjög mörlaust, en hrakningar á því í haust um og eftir göngur fjarskalegir, svo enn minni arður varð sökum þess af fé því er slátrað var, og lífsfé allt hrakið, illa búið undir vetur, fóður ónóg og stórskemmd, mygluð og varla neinni skepnu gefandi. Málnyta bænda var í sumar rýr sökum rigninganna og kúabúin ónýt í vetur vegna skemmda á töðum.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1858. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt texta úr Brandsstaðaannál. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kuldavísar

Nú er upplagt að koma að smáatriði um öfgar í hitafari (þó við verðum svosem ekki mjög mikið vör við slíkt nú). Evrópureiknimiðstöðin gefur tvisvar á dag út öfgavísa svonefnda - fyrir hita, úrkomu og vind (og e.t.v. eitthvað fleira). Við höfum fjallað um þá áður hér á hungurdiskum og endurtökum ekki - nema að tvær mismunandi gerðir vísa eru birtar, það sem við höfum hér annars vegar kallað útgildavísi og hins vegar halavísi. Sá síðarnefndi er sérlega gagnlegur þegar fengist er við úrkomu.

Myndin hér að neðan sýnir þessa vísa fyrir hita, sú fyrri sýnir daginn í dag (fimmtudag 3.desember), en hin á við laugardag 5.desember. 

w-blogg031220a

Heildregnu línurnar sýna halavísinn (við skiptum okkur ekki af honum hér) - en litirnir sýna útgildavísinn. Dekkri fjólublái liturinn sýnir óvenjulegan kulda - miðað er við um 20 ára tíma - og hálfan mánuð á þessum tíma árs. Við sjáum að kuldinn í dag er ekkert óvenjulegur yfir landinu - en er það yfir sjónum vestan við land. 

Síðari myndin á við laugardag.

w-blogg031220b

Hér vantar dekkri fjólubláa litinn að vísu alveg (kuldinn ekki eins óvenjulegur) - en nú er kaldast að tiltölu yfir landinu (nema á bletti í Rangárvallasýslu). 

Aðalatriðið er hér að átta sig á því að til þess að óvenjukalt geti orðið yfir sjó þarf mikið og samfellt aðstreymi af köldu lofti. Sjórinn er fljótur að hita upp loft sem liggur nokkurn veginn kyrrt yfir honum - alla vega nægilega mikið til þess að komast út úr öllu mjög óvenjulegu. - En það er samt hlýrra yfir sjónum heldur en yfir landi - líka á fyrra kortinu. Á landi hagar þannig til að ekki er aðeins kalt á þessum árstíma þegar kalt loft streymir að - landið getur sjálft „búið til“ kulda í hægviðri - sé veður bjart. Kaldir dagar eru því miklu fleiri yfir landi heldur en yfir sjó á þessum árstíma - kuldinn í dag er þess vegna alls ekki óvenjulegur yfir landinu - eins og fyrra kortið sýnir greinilega. Hann er það hins vegar yfir sjónum.

Á laugardaginn á vindur að hafa gengið niður - þá fær kalda loftið (sem kom reyndar að norðan) að kólna frekar yfir landinu - og fjólublár litur útgildavísisins kemst að. Sjórinn hefur hins vegar séð til þess að koma hitanum upp í eitthvað venjulegra heldur en er í dag - og mjög hefur dregið úr því sem í dag er óvenjulegt.

Þessir útgildavísar (allir saman) eru ákaflega gagnlegir, en það þarf aðeins að hugsa sig um til að hafa af þeim full not. 

Hvers vegna er ekki blár litur yfir Rangárvallasýslu neðanverðri á kortinu sem gildir á laugardaginn? Það er líklega vegna þess að þar er spáð skýjuðu veðri - og jafnvel úrkomu. Skýin slá á kólnun af völdum útgeislunar - og auk þess blæs vindur e.t.v. af hafi á þessum slóðum. Þetta er þó smáatriði í spánni - og mjög óvíst sem slíkt. 


Svellkalt heimskautaloft

Ekki er annað að sjá en að kalt loft úr norðri muni nú flæða suður yfir landið næstu daga - og það með nokkrum látum. Einhverjir hríðarsinnaðir kunna að gleðjast - en við hin erum hin fúlustu. 

w-blogg011220a

Þetta er alvöru vetrarloft - eins og venjulega á korti sem þessu eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar, en þykktin er sýnd í lit. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs.

Við sjáum af kvarðanum (sem verður skýrari sé kortið stækkað) - eða með því að telja litina - að það er 5040 metra jafnþykktarlínan sem liggur um Vestfirði - alvöruvetrarstaða, hiti er  um tíu stigum neðan meðallags í neðri hluta veðrahvolfs - þó langt frá metum. Spár hafa undanfarna daga heldur linast á kuldanum - eins og oft er. 

Þar sem hvassviðri (eða þaðan af meir) fylgir er hætt við álagi á upphitun í óþéttum húsum (og jafnvel þéttum líka). Fyrir mannfólkið eru þó aðrir kælingarþættir hættulegri heldur en svokölluð vindkæling - en látum vera að þusa um það hér - förum að öllu með gát. 

Af legu hæðarlínanna ráðum við að vindur er líka norðlægur í miðju veðrahvolfi - en ekki sérlega hvass þar (talsvert bil er á milli hæðarlína yfir landinu). Jafnþykktarlínurnar eru hins vegar mjög þéttar (stutt er á milli lita) - þykktarbrattinn er mikill. Hann eykur hér við norðanáttina - sem er mun öflugri neðar. Eftirtektarsömustu lesendur taka eftir því að vestan við þykktardragið (jú, það eru til þykktardrög líkt og lægðardrög) er þessu öfugt farið. Þykktarbratti upphafur háloftavindinn að mestu. Þess vegna lægir væntanlega þegar þykktardragið fer austur af - hæðarhryggurinn (og þykktarhryggurinn sem honum fylgir ýtir ás mesta kuldans austur fyrir land). Að sögn reiknimiðstöðva á það að gerast á föstudaginn - þá fer að lægja - þó ekkert hlýni í mannabyggðum þar til síðar. 

Sem stendur eru reiknimiðstöðvar svo helst á því í framhaldinu taki við fremur rólegur kafli - ekki hlýr - en ekki svo kaldur heldur og það sem meira máli skiptir er að helst er gert ráð fyrir tiltölulega rólegu veðri - hvað sem svo rætist úr því - þó spár séu orðnar ótrúlega góðar eru þær stundum líka alveg ótrúlega vitlausar. En það er samt (langoftast) skynsamlegri vitleysa heldur en sú sem maður býr til sjálfur. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 102
  • Sl. sólarhring: 109
  • Sl. viku: 1851
  • Frá upphafi: 2348729

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 1622
  • Gestir í dag: 85
  • IP-tölur í dag: 85

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband