Bloggfærslur mánaðarins, mars 2019
30.3.2019 | 15:43
Meðalvetrarhitinn
Nú getum við með sæmilegri samvisku bætt vetrinum 2018 til 2019 inn á línuritið sem birtist hér fyrir nokkrum dögum.
Meðalhiti hans - á landsvísu - verður annað hvort +0,3 eða +0,4 stig. Hann er því langt inni í flokki þeirra hlýju. Á myndinni sjáum við að hann sómir sér vel meðal hlýindanna miklu á þessari öld - þó nokkuð skorti hann upp á allra hæstu hitahæðir.
Einnig mun óhætt að segja að vel hafi farið með veður í vetur. Illviðri með færra móti og snjór - það litla sem var - lagðist ekki illa. Jörð er víðast hvar þíð.
En nú er spurning hvernig fer með í apríl. Við treystum mánaðarveðurspám ekki vel - en þær segja nú að fyrsta vikan verði í kaldara lagi - en síðan komi tvær fremur hlýjar - lítið sem ekkert er sagt um fjórðu vikuna.
28.3.2019 | 21:40
Apríl - sem vetrarmánuður
Eins og oft hefur verið minnst á hér á hungurdiskum er meðalhiti á Íslandi svipaður allan tímann frá miðjum desember og til marsloka. Eftir það fer hann ört hækkandi - við getum sagt að það fari að sjást betur til vorsins. En þetta er auðvitað allt að meðaltali og meðaltöl fela margt og mikið. Stöku sinnum heldur veturinn áfram fram í apríl - eins og ekkert (eða lítið) hafi í skorist og apríl getur jafnvel verið kaldasti vetrarmánuðurinn - og jafnvel kaldasti mánuður ársins alls. Hér skulum við aðeins velta okkur upp úr apríl sem vetramánuði - leita slíkra mánaða.
Það truflar leitina nokkuð að apríl hefur hlýnað mikið á mælitímabilinu, hlýnunin er að jafnaði rúmt 1 stig á öld - þannig að það sem okkur þykir kaldur apríl taldist e.t.v. ekki óskaplega kaldur á 19.öld. Við beitum því dálitlum brögðum við leitina - og notum myndina hér að neðan til að hjálpa okkur.
Það sem við sjáum á myndinni er þetta: Lárétti ásinn vísar til síðustu 200 ára (tæpra), en sá lóðrétti er hitakvarði. Græna feita línan sýnir 30-árakeðjumeðalhita vetra, til vetrarins teljast mánuðirnir desember til mars (ártalið við síðara árið). Vetur áranna 1989 til 2018 eru því lengst til vinstri - en línan hefst við árabilið 1824 til 1853. Vel sést hvernig línan hefur færst ofar og ofar (ekki þó samfellt).
Rauða þykka línan sýnir það sama - en á við apríl. Þessi lína hefur þokast upp á við líka - hlýja tímabilið um miðja 20.öld er þó ekki eins áberandi og í vetrarferlinum.
Þreparitið sýnir hins vegar landsmeðalhita einstakra aprílmánaða - mjög breytilegur greinilega. Allt frá hinum illræmda apríl 1859 (svokallaður álftabani) til hlýindanna miklu 1974.
Við merkjum sérstaklega þá aprílmánuði þegar meðalhiti er neðar en meðalhiti vetra næstu þrjátíu ára á undan. Sannir vetrarmánuðir (þó að vori séu). Það sem má vekja sérstaka athygli er klasinn kaldi frá 1948 til 1953. Þá komu 3 vetraraprílmánuðir, 1949, 1951 og 1953, sá síðastnefndi var reyndar líka kaldasti mánuður ársins. Aprílmánuðir áranna 1948, 1950 og 1952 voru líka kaldir. Ekki var teljandi ís hér við land þessi ár - þó hans yrði aðeins vart - en norðlægar áttir sérlega þrálátar. Umhugsunarvert inni á miðju löngu hlýskeiði - jú - við getum víst alltaf búist við svona nokkru þó almenn hlýindi ríki.
Við borð lá að ámóta klasi herji á árin í kringum 1990, en það er þó ekki nema apríl 1988 sem nær því að teljast vetrarmánuður samkvæmt þessu tali. Áður var apríl 1983 reyndar kominn í flokkinn.
Á síðustu árum hafa mjög kaldir aprílmánuðir ekki sýnt sig - litlu munar þó að apríl 2013 komist í flokkinn - vegna þess hversu aðrir aprílmánuðir þriggja síðustu áratuga hafa verið hlýir - í langtímasamhengi var sá mánuður samt ekki sérlega kaldur.
En - í framhjáhlaupi lítum við líka á spurninguna á hvolfi. Hversu oft hefur veturinn í heild verið sem apríl?
Rauða línan á þessari mynd er sú sama og á þeirri fyrri, en þrepaferillinn sýnir vetrarhita. Við merkjum sérstaklega vetur þegar meðalhiti (allra vetrarmánaðanna saman) hefur farið upp fyrir meðalhita aprílmánaða (síðustu 30 ára). Þeir eru ekki margir - en samt. Fyrstan skal telja ofurveturinn 1846-1847 - einstakur á 19.öld, veturinn 1879 til 1880 komst nærri mörkunum. Við sjáum vel hversu óvenjulegur veturinn 1922 til 1923 var á sínum tíma - hefði orðið minnisstæðari ef veturinn 1928 til 1929 hefði ekki farið langt framúr. Eldri veðurnörd muna hinn einstaka vetur 1963 til 1964 mjög vel - vor allan veturinn (nærri því).
Síðast fór 2002 til 2003 yfir mörkin sem við höfum sett, en allir vetur þessarar aldar hafa verið hlýir.
Ritstjóri hungurdiska hefur hugsað sér að leita líka að vetrardögum í apríl - en veit ekki alveg enn hvernig hann á að skilgreina slíkt.
Allt telst þetta til skemmtiatriða fremur en strangra fræða - höfum það í huga.
26.3.2019 | 02:02
Af árinu 1813
Árið 1813 var hagstæðara en næstu ár á undan - alla vega hvað veðurfar snerti. Verslunarkreppa kom hins vegar illa við - enda mikið hrun hjá danska ríkinu. Peningaseðlar urðu meira og minna verðlausir. Heimildamenn bera sig misvel - finnst veðrið kannski ekki sem verst, en um leið og víkur að fiskafla og höndlun snýst álit á mun verri veg.
Veðurathuganir voru gerðar af dönskum strandmælingamönnum allt árið á Akureyri. Þær gefa allgóða mynd af tíðinni nyrðra. Meðalhiti ársins þar reiknast 2,2 stig, sá hæsti þeirra sex heilu ára sem mæliröðin nær yfir. Giskað er á að ársmeðalhiti í Stykkishólmi hafi verið 2,7 stig og 3,7 í Reykjavík. Tölur einstakra mánaða má sjá í viðhenginu.
Hlákur voru allmiklar í janúar, en heldur frostharðara í febrúar og mars. Snörp kuldaköst gerði fram eftir vorinu. Frost fór t.d. í að minnsta kosti -9,4 stig á Akureyri 13.maí. Sama dag mældist frost í Reykjavík -5,6 stig. Svo heppilega vill til að slæðingur af mælingum er til úr Reykjavík frá vori og fram á haust þetta ár. Þær voru prentaðar í Annals of Philosophy, júníhefti 1818.
Hlýtt var frá því fyrir miðjan júlí og fram í miðjan ágúst, en þá kólnaði nokkuð. Snemma í september gerði mjög slæmt kuldakast með hríðarveðri - meira að segja í Reykjavík, þó við vitum ekki hvort snjó hefur fest í bænum - en gerði það í nágrenninu. Eftir að kuldakastinu lauk gerði hins vegar hlýindi, og þá mældist hæsti hiti ársins á Akureyri þann 25.september - harla óvenjulegt að hiti þar fari yfir 20 stig svo seint sumars. Þó kalt hafi verið lengst af í október virðast veður ekki hafa verið mjög slæm. Talsvert snjóaði þegar leið á nóvember og í desember og kvartað var um áfreða - enda sjáum við merki um hlákur innan um frostin.
Til gamans sjáum við hér samanburð á kvöldhita á Akureyri og Reykjavík frá því um miðjan ágúst fram til 20.nóvember. Ánægjulegt er hversu vel ber saman. Kuldakastið snemma í september er mjög eindregið á báðum stöðum og um haustið fylgjast hlákur og frostakaflar vel að á stöðunum tveimur.
Myndin sýnir þrýstimælingar frá Akureyri árið 1813. Þar vekur helst athygli heldur lágur þrýstingur í júlí og framan af ágúst og háþrýstikaflar síðari hluta september og í október.
Annáll 19.aldar lýsir tíð og veðri svo:
Vetur var víðast um land góður frá nýári fram á þorra, síðan umhleypingasamur og harður. Vorið gott fyrir utan kuldakast um hvítasunnu. Sumarið heitt og grasár hið besta. Heyjafengur víðast í betra lagi, en nýting syðra sumstaðar slæm vegna rigninga. Haust og vetur fram að nýári var tíð mjög óstöðug, skiptust þá á regnhryðjur og bleytuhríðar. Var þó harðast um Norðausturland og þar jarðleysur tíðar. Ís kom eigi þetta ár.
Fiskafli var lítill þangað til um haustið að nokkuð rættist úr í sumum veiðistöðvum, þó var aflalaust fyrir Austurlandi. Hrognkelsafengur svo mikill á Skaga að elstu menn mundu eigi slíkan.
Á föstudaginn fyrsta í einmánuði [26.mars] fór skip af Langadalsströnd út til fiskikaupa í Bolungarvík, fórst það á heimleið með 6 mönnum. 21.apríl fórust tveir bátar af Vatnsleysuströnd með fjórum mönnum, og þriðji báturinn með þremur (óvíst hvenær). Sama dag drukknaði maður af bát í Innri-Njarðvík. ... Þetta vor er sagt að hafi orðið mannskaði mikill vestra deginum fyrir uppstigningardag [sem var 27.maí] (Þjóðviljinn 1899, 54. tölublað).
Björn bóndi í Rugludal í Húnavatnssýslu varð fyrir snjóflóði, komst til húsa um nóttina að bæ nokkrum, en dó skömmu síðar. ... Skriða hljóp á Svarfhól í Sökkólfsdal, drap þrjá hesta, kú og kálf. Veður braut Setbergskirkju.
Annállinn telur fjölda annarra mannskæðra slysa, bæði á sjó og landi, m.a. urðu margir úti. Engra dagsetninga er getið við þessa atburði og er þeim því sleppt hér. Geta má þó langrar hrakningasögu (s178 og áfram) á Breiðafirði þriðja miðvikudag í góu [10.mars].
Við reynum að rekja okkur í gegnum árstíðirnar með hjálp samtímaheimilda. Tíðarvísur Þórarins í Múla og Jóns Hjaltalín eru þó aftan við. Greinilegt er að annáll 19.aldar sækir mikið í þær - og sömuleiðis Þorvaldur Thoroddsen (sem við reynum að halda utan við yfirferð hungurdiska - að mestu).
Vetur:
Brandstaðaannáll: Í janúar góð tíð, frostalítið sunnan- og vestanlands, þíður oft og stundum hvasst með rosa, en snjólítið. Í febrúar stillt, meðalfrost. Eftir kyndilmessu [2.febrúar] þriggja daga norðanhríð, þó jörð í lágsveitum. Með mars vestanéljagangur og mjög óstöðugt. Lagði miklar fannir mót austri. Með einmánuði [hófst 23.mars] jarðlítið 2 vikur, en 7 vikna skorpa til afdala og að vestanverðu.
Espólín: LVII. Kap. Harðindi voru þá mikil, nema á Suðausturlandi, lá við mannfalli hvervetna, og hófst nokkuð við sjóinn; voru þá ærin vandræði, og dýrtíðin svo mikil, að aldrei hafði slík verið. (s 65).
Þó dagbækur Jóns á Möðrufelli séu raunar skýrari þetta ár heldur en mörg önnur (betur farnar) á ritsjórinn heldur bágt með lestur þeirra - reynir þó:
Janúar dágóður yfir höfuð [sífelldar þíður og hlákur, en æði stormasamt (snjóleysur) [vikan fyrir þann 9.] ogso góð og allhagstæð. [vikan fyrir þann 16.] óstillt framan af, síðan aftur stillt, [vikan fyrir þann 23.] nokkuð stormasöm og óstillt. Febrúar yfirhöfuð rétt góður. Mars sæmilegur fyrri part en harður heldur (síðan).
Vor:
Brandstaðaannáll: Góður bati um sumarmál. Í maí meðalvortíð og kuldar 5. sumarviku.
Jón Jónsson: Apríl að telja í meðallagi yfirhöfuð í sveitinni ... harður þó til dala[?]
Sumar:
Brandstaðaannáll: Fardagaflóð [snemma í júní] og greri þá vel í byggð, en seint til fjalla. Grasafengur varð mikill. Með júlí fóru lestir suður og var um lestartímann mjög rekjusamt. Grasvöxtur varð góður á túni og harðlendi, er spratt fram í miðjan ágúst. Sláttur byrjaði 19.júlí. Gafst besta veður og nýting, nægar rekjur og þerrir eftir þörfum. Fyrir göngur mikið hret, er sumum varð að heyskaði, sem geyma hey sætt eða illa hirt úti. Samt varð allt inn látið um seinni göngur.
Espólín: LVIII. Kap. Um sumarið var grasvöxtur góður, helst á túnum, en nýting bág. (s 67). - og svo mikil nauð var, þó góður væri heyfengurinn, að margir voru að þrotum komnir, en engar nauðsynjar að fá. Knudsen kom út fyrir sunnan, og margir er utan höfðu farið; þar var grasvöxtur ákaflega mikill, og svo austur um landið, en nýting hin versta af rigningum. (Bls .68). LX. Kap. Þá var enginn fiskifengur fyrir norðan land, en lítill syðra, kom þar skip frá Færeyjum ok falaði fisk, því að þar var þröng mikil. Kýr höfðust og höfnuðust illa, og voru létt heyin. (s 69).
Reykjavík 21-8 1813 (Bjarni Thorarensen): ... veturinn alt framyfir nýár var sá besti en nokkuð harðari þegar áleið, vorið ekki hart, enginn hafís kom, en það sem verst var heldur enginn fiskur ... grasvöxtur hefir verið í betra lagi í sumar, og nýting ekki fjarska slæm. (s67)
Reykjavík 9-9 1813 (Bjarni Thorarensen): ... á allri vetrarvertíðinni fiskaðist næstum því ekkert, upp til sveita mestu harðindi manna á milli svo í Flóanum dóu í vetur 13 manneskjur af harðrétti, í sumar hafa engar matvörur hingað komið, og hart er milli fólks allareiðu við sjóinn, en gott grasár hefir verið því engin hafís kom í vor. (s3)
Geir Vídalín virðist hér greina á milli veðurfars og árferðis af mannavöldum. Veðrið fremur hagstætt - en annað kannski ekki.
Reykjavík 22-8 1813 (Geir Vídalín biskup): Frá oss er sem vant er fátt merkilegt að segja, þó sýnist sem flestir þeir hlutir, sem ekki standa í sjálfræði manna, leiki nærfellt í lyndi. Með þeim tel eg gott heilsufar, grasvöxt allsstaðar í betra og víða í besta lagi, og nýtingu allgóðar allt til þessa. Þó hefur sumarið verið heldur votsamt. (s114)
Reykjavík 6-9 1813 (Geir Vídalín biskup): Sumarið hefur verið heldur votsamt, þó sjaldan stórrigningar, en vegna þess að góður þurrkur kom nokkra daga samfellt seint á túnaslætti, náðu flestir töðum sínum lítið hröktum. Nú hefur í nokkra daga verið norðanveður, svo eg held að margir hafi náð útheyjum sínum, en óttast er að þau hafi sumstaðar fokið til skemmda. Annars held eg að flestir hafi allareiðu fengið nærfellt hey fyrir pening sinn, því grasvöxturinn var víðast ágætur ... (s120)
Ekki er dagsetning á eftirfarandi bréfi frá Bessastöðum - en vafalítið er það ritað snemma í september, í kuldakastinu mikla sem þá gerði. Guðrún hefur leitað skjóls upp í rúmi.
Bessastöðum xx-09 1813 (Guðrún Skúladóttir til Gríms Jónssonar) (s44) Veturinn var góður að því leyti að hann var sá frostaminnsti, sem ég man, en jarðbönn voru við og við af áfreðum. Margir urðu heylausir í vor, en missirinn á skepnum varð ei mjög mikill, því vorið var gott, og mikið gott grasár í sumar og gott veður, ýmist vott eða þurrt um sláttinn, þar til í gær, að kom norðan kuldi og snjóaði á (s45) öll fjöll og ofan í byggð sumstaðar, og nú er norðan stormur. Sit ég nú að klóra þetta í mínum vetrarbúning uppi í rúmi mínu. Hvernig sem fer hér eftir, hefur heyskapur gengið vel hingað til í sumar.
Mr. Park lýsir veðri í Reykjavík svo dagana 4. til 7.september (lausleg þýðing - enskur texti í viðhenginu):
4. september: Mjög þykkt og dimmt veður, harður blástur. Svo virðist sem snjór sé í fjöllum. Esjan ekki sýnileg allan daginn. Síðdegis stormur og regn, stundum lítilsháttar snjókoma.
5. Stormurinn heldur áfram. Veðrið öllu bjartara, fjöll snævi þakin að rótum. Stormurinn ofsafenginn að næturlagi.
6. Stormurinn heldur hægari. Mikil snjókoma, sem hætti kl.5 síðdegis, veðrið þá betra. Hart næturfrost.
7. Gola. Mjög gott veður, hart næturfrost.
Ritstjóri hungurdiska leitar heimildar sem hann sá sem ungur maður. Þar var þess getið að tekið hefði fyrir nautajörð á Álftanesi í kafaldi þann 6.september 1813. Líklega hefur þá líka fest snjó í Reykjavík - hið fyrsta sem vitað er um að hausti.
Jón Jónsson: Júlí allur góður, og hlýr grasvöxtur hér í besta lagi. Afli nokkuð þó stopull. Ágúst allur dágóður að veðráttu og heyskap ... hagstæður. September yfirhöfuð rétt góður.
Haust og afgangur árs:
Brandstaðaannáll: Á Mikaelsmessu [29.september] kom stórrigning, svo þurrt og stillt, en 13.október mikil hríð og fönn, er varaði 2 vikur og var lömbum þá kennt át. Eftir það blotasamt og óstöðugt. Í miðjum nóvember frostakafli vikutíma; aftur milt og meðaltíð til 16.desember, að lagði niður mikla fönn til framdala; síðan bloti á 3. í jólum, er því nær gjörði jarðlaust til dala og uppsveita, en nóg autt til lágsveita. (s66) ... Heyjanægtir voru almennt og mikið sett á af ungfénaði. (s67)
Jón Jónsson: Október ogso dágóður að veðráttu. Nóvember allur ... stilltur og jörð nóg En nú síðast er kominn æði snjór. Desember allur nokkuð stilltur að veðráttu.
Um árið í heild segir Jón síðan: Þetta ár var gott ár uppá landið. Veðrátta oftast í betra lagi.
Gytha Thorlacius: (Úr Fru Th.s Erindringer fra Iisland) Vinteren 18131814 var temmelig mild, og Tiden gik sin jeevne, rolige Gang i Sysselmand Th.s Huus. (s91)
Í lauslegri þýðingu: Veturinn 1813-1814 var tiltölulega mildur og tíminn leið á sinn jafna rólega hátt í hýbýlum sýslumanns.
Úr tíðarvísum Jóns Hjaltalín 1813:
Rauna árið reifði ýmsa trega,
snýfinn vetur haga hjörð
hýsing bauð því læst var jörð.
Vorið þurrt en var þó gott að kalla
slóðin þýddi geymsins mold
grænum skrúða klæddist fold.
Heyskap góðan höldum sumar veitti,
töðum nýting einninn á,
engja meira hröktust strá.
Haust var gott en hagar oftast nógir
allt fram undir ára mót
ól því hjarðir grana snót.
Óvenjulegir hvalrekar urðu á árinu - þessi í Ólafsvík og fleiri:
Hnísings fjöldi hljóp úr ránar maga,
Ólafsvíkur uppá grund
allt framundir tvö þúsund.
Í Borgarfirði er oft rætt um búskapartilraunina á Langavatnsdal - en hún fór svona:
Líka bóndinn Langavatns í dalnum
lífið úti lét um reit
líkt og tveir í Bæjarsveit.
Hér segir af foki Setbergskirkju - ekki hefur tekist að grafa upp dagsetningu:
Ofsa veður eitt í fyrra vetur,
sem að hristi sjó og frón
Setbergs kirkju braut í spón.
Nýtt er byggt af nýtum viðum
húsið, tíðum helgað nú,
haldist það sem steina brú.
Hér segir af skriðufalli á Svarfhóli í Dölum - annállinn nefnir Sökkólfsdal, en Svarfhóll er í Miðdölum.
Sollin skriða Svarfhól á í Dölum
vall, og deyddi bólgin þá
belju, kálf og hesta þrjá.
Rétt að minna á fallvaltleika embætta og metorða:
Allir þeir sem uppí völdin klifra
minnist þess að hefð og hrós
hverfult er sem norðurljós.
Úr tíðarvísum séra Þórarins í Múla í Suður-Þingeyjarsýslu. Þórarinn talar almennt vel um veðurfar norðanlands á árinu - en þegar kvartar mjög um dýrtíð og fiskleysi - rétt eins og Espólín (við sleppum því hér):
Næsta ár sem nú af leið
Norðurlandi og víða hvar
lét þó skár og létti neyð
leyfði kransa frjóvgunar.
Það nýrunnið þíddi fönn
þorra dægur fram á mið
flóðs að unni fleytti hrönn
flugi hægu þeyvindið.
Veltist síðan veðra hjól
vetrar hríða frekra til
uns hin blíða sumar-sól
sínum þýða kætti yl.
Langafastan læsti jörð
lögum fanna, svellum og
frón sem rastir heldur hörð
hríðviðranna skók´ umflog.
Stopult varði storma hlé,
stærði kvíða fjölmennan
skorti jarðir fáka´ og fé
frekt allvíða tíma þann.
Sumar upprann og sælu bar
sannra gæða landsins hjörð
svæfils nanna svasuðar
svella klæðum fletti jörð
Vorið öldum vonar blítt
vörmum hlíta sýndi yl
varð af köldum veðrum strítt
víðar hvítasunnu til.
...
Sumarið mest-allt síðan heitt
sýndi tryggðir högum manns
grasár besta eitthvert eitt
yfir byggðir þessa lands.
Súldrigningar síst til meins
settu trega vaskri þjóð
heynýting varð oss því eins
æskilega notagóð.
Himin-glóðin hita-jöfn
hauðurs gróður með samtök
heyja þjóðum séleg söfn
saman hlóðust undir þök.
Allvel hér oss lukkan lét
liðnar tíðir. Værð af dró
september þá sendi hret,
súld, vatnshríðir, frost og snjó.
Þetta mengi þótti strangt
þurrð á næði megn um sinn
varð ei fengist vikulangt
við bjargræði´ og heyskapinn.
Rann upp sunnan hláka hlý
hlynnti bráðum veðrafar
Hirða kunnum nú á ný
næst það áður slegið var.
Haustið mátti heita gott
þó hepti kostum annað slag
ýmist þrátt gekk þurrt eða vott
þýða´ og frost nær sama dag.
Vætu drunga skyggðu ský
skemmdu fróns og hrannar gögn
landsfjórðungum öðrum í
efni tjóns að manna sögn.
...
Síga´ á dægur sumars tók
síst með styggðum kvaddi það
veturinn hægum vagni ók
vorum byggðum síðan að.
Hann að sestur vals um veg
vatns og krapa felldi tár
fjár og hesta fjarskaleg
fóður-tapan varð nú sár.
Síðan huldi frosin fönn
foldar bláan klaka hjúp
hófur muldi´ ei hann né tönn
hún var þá og líka djúp.
...
Jólafastan jafnfram öll
jarðlaus, dimm af þoku, snjó
hríða-vasturs hörð áföll
hörkur grimmar aldrei þó.
Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um árið 1813. Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta úr árbókum Espólíns. Smávegis af tölulegum upplýsingum er í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2019 | 17:23
Skæð lægð
Eins og þegar mun hafa heyrst um í fréttum er lægð nú í óðavexti fyrir sunnan land. Svo virðist sem landið sleppi að vísu við versta veðrið sem henni fylgir, en samt er allur varinn góður og ýmislegt að varast. Við látum að venju Veðurstofuna um að fylgjast með þróuninni og að gefa út þær aðvaranir sem nauðsynlegar eru. Hungurdiskar gera ekki sérstakar veðurspár - munum það.
Fyrst er hér gervihnattamynd, gripin síðdegis í dag (fimmtudag 21.mars). Þetta er hitamynd, því ljósari sem liturinn er því kaldari eru ský og yfirborð. Skýjakerfið fyrir sunnan land sýnir afskaplega dæmigerðan svip ört dýpkandi lægðar. Þar er hlýja færibandið fyrir suðaustan og austan lægðarmiðjuna, þar streymir hlýtt og rakt loft bæði upp á við og til norðurs. Þurra rifan er rétt sunnan og austan lægðarmiðjunnar. Þar er mikið niðurstreymi lofts að ofan - þurrkur einkennir niðurstreymi - veðrahvörfin dragast niður og auðveldar sá niðurdráttur snúninginn í kringum lægðina. Mikil blikubreiða er norðan og vestan lægðar - breiðir þar úr sér og þrýstir veðrahvörfunum upp þegar uppstreymið rekst á þau. Ákafi uppstreymisins er svo mikill að það breiðir úr sér til allra átta - mest í hreyfistefnu háloftavinda - lauslega orðað má segja að þeir fari við það fram úr sér og loft staflast upp í norðurjaðri kerfisins upp við veðrahvörf og býr við það til skýjaband - klósiga- eða blikureipi. Slíkum þverklósigum getur fylgt umtalsverð ókyrrð í flugi - hossast þar sjálfsagt einhverjar flugvélar á leið hátt yfir Íslandi í dag.
Eins og áður sagði er lægðin í óðadýpkun - auk þess að vera á hraðferð. Á undan henni fellur loftvog því mjög ört. Kortið hér að ofan sýnir sjávarmálsþrýsting kl.9 í fyrramálið (föstudag) - heildregnar línur - gögn frá evrópureiknimiðstöðinni. Litir sýna 3 stunda þrýstibreytingu. Á hvíta svæðinu við Austurland hefur þrýstingur fallið um meir en 16 hPa frá því kl.6 (séu líkanreikningar réttir). Þeir sem rýna í kortið geta séð töluna -20,2 hPa - rétt við Dalatanga. Hvort við komum til með að sjá þessa tölu í raun í fyrramálið vitum við ekki enn, en hún er stór og ógnandi.
Mesta þrýstifall sem skráð er á bækur hér á landi er -29,5 hPa á 3 klst. Það var á Hólum í Hornafirði 13.febrúar 1959. Mesta ris á 3 tímum er skráð á Dalatanga 25.janúar 1949, 33,0 hPa.
Eins og í flestum (ekki alveg öllum) lægðum af þessu tagi er vindur mestur sunnan og austan við lægðarmiðjuna - jafnvel norðaustan við, en heldur slakari vestan við. Fari lægði þessa braut - utan við ströndina - er líklegt að við sleppum við það versta.
Þriðja myndin sýnir stöðuna kl.18 síðdegis á morgun - það er harmonie-líkan Veðurstofunnar sem reiknar. Lægðin er þá að sögn 949 hPa í miðju og fjarlægist ört. Mikið hvassviðri er sums staðar á Austfjörðum og austan til á Suðausturlandi. Sömuleiðis virðist vera mjög hvasst víða á Norðausturlandi. Töluverð úrkoma fylgir - snjór fyrst, en síðan ætti að bleyta í á láglendi á Austurlandi, óvissara með hitann þegar kemur norður á Norðurland. Rétt að reikna með illviðri - sérstaklega á fjallvegum.
Lægðir sem þessar tengjast oft eldri lægðum vestan við með eins konar úrkomubandi - eða linda. Sunnan lindans er vindur hvass, en í í honum getur verið drjúgmikil úrkoma. Líkanið spáir hér töluverðri úrkomu suðvestanlands síðdegis á morgun - og vindi líka um það bil sem hann styttir upp. Stóra spurningin er hvort þessi spá rætist. Það skiptir mjög miklu máli hvort úrkoman er blaut eða þurr. Sé hún mjög blaut gerist svosem ekki mikið á láglendi (en hríð á heiðum) - en sé hún nægilega þurr til þess að geta skafið þegar vindstrengurinn kemur inn undir lok hennar getur skapast leiðindaástand á leiðum kringum höfuðborgina - og hugsanlega um stund í bænum líka. Ekkert vitum við þó enn með vissu hvort svo fer. Það er háð fjölmörgum smáatriðum í spánni.
Hér má sjá vindaspá harmonie-líkansins sem gildir kl.16 síðdegis á morgun (föstudag). Við sjáum vindstrenginn greinilega - og hversu norðurmörk hans eru skörp. Hér er hægur vindur norðan við - en örstutt yfir í um 20 m/s. Þurr snjór þyrlast mjög mikið í 20 m/s, en mjög blautur síður. Vindstrengurinn er hér á leið til norðausturs - en linast smám saman. Vindstrengir sem þessir bönuðu mörgum sjómanninum á vertíð á árum áður, eru sérlega skæðir opnum bátum og erfitt var að sjá þá fyrir.
En mikil óvissa er um öll smáatriði í spá sem þessari - og við getum enn vonað að vel fari með og flestir landsmenn sitji í furðugóðu veðri.
Síðasta myndin sýnir þversnið sem gildir kl.17 síðdegis á morgun. Heildregnu línurnar sýna mættishita (höfum ekki áhyggjur af honum í þetta sinn), vindörvar sýna vindátt og vindstefnu á hefðbundinn hátt, en litir vindhraðann sérstaklega. Lóðrétti ásinn sýnir hæð (ritaða sem þrýsting - minnkandi upp á við), en lárétti ásinn er lína sem dregin er norður með vesturströndinni eins og sjá má á smákortinu í efra hægra horni myndarinnar. Til hægðarauka hafa vestfjarðaföll verið merkt með V á myndinni - þau stingast upp í um 900 hPa hæð og Snæfellsnes er merkt með bókstafnum S. Það sem við sjáum er að norðaustanhvassiðrið nær inn á norðanverða Vestfirði, en vestanhvassviðri stingur sér inn á sunnanverðan Faxaflóa. Við sjáum vel hversu snörp vindaskilin eru - grænn litur norðan við (innan við 8 m/s) fer yfir í rauðan (meir en 26 m/s) á örstuttu bili. Hér sjáum við líka að bæði norðaustanáttin á Vestfjörðum og vestanáttin á Reykjanesi eru grunn fyrirbrigði - ná ekki nema upp í 2000 til 2500 metra hæð yfir sjávarmáli. Þetta eru svonefndar lágrastir.
En þeir sem eitthvað eiga undir veðri fylgjast auðvitað með spám Veðurstofunnar eða annarra ábyrgra aðila - hungurdiskar eru ekki slíkur og upplýsingar hér eru ekki uppfærðar þegar nýjar spár berast.
Vísindi og fræði | Breytt 22.3.2019 kl. 01:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2019 | 01:47
Tuttugu marsdagar
Tuttugu dagar liðnir af marsmánuði. Meðalhiti þeirra í Reykjavík er +1,1 stig, +0,4 stigum ofan meðallags sömu daga árin 1961-1990, en -0,2 neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 11-12.sæti (af 19) á öldinni. Hlýjastir voru fyrstu 20 dagar mars árið 2004, meðalhiti þá var +5,2 stig, kaldastir voru þeir árið 2011, meðalhiti -1,4 stig. Á langa listanum er hitinn í 56. til 58.sæti (af 145), á þeim lista eru sömu dagar 1964 hlýjastir, meðalhiti +6,4 stig, en kaldastir voru þeir 1891, meðalhiti -5,8 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 20 daga marsmánaðar nú -0,7 stig, +0,3 ofan meðallags 1961-1990, en -0,8 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á um 20 stöðvum á landinu, mest +0,9 stig á Raufarhöfn - grunsamlega umfram aðrar stöðvar - gæti verið villa á ferð, en næstmest er jákvæða vikið á Fonti á Langanesi og í Jökulheimum, +0,4 stig. Neikvæða vikið er mest í Svartárkoti, -1,9 stig.
Úrkoma hefur mælst 51,3 mm í Reykjavík það sem af er mánuði, það er rétt innan við meðallag. Úrkoma á Akureyri hefur mælst 19,8 mm, rúmur helmingur meðallags.
Sólskinsstundir hafa mælst 79,5 í Reykjavík, rúmlega 20 fleiri en í meðalári.
Ekki er hægt að segja annað en að vel hafi farið með veður það sem af er mánuði og góðu dagarnir eru orðnir nokkuð margir.
20.3.2019 | 00:44
Útsynningurinn að ná sér á strik
Útsynningur er orð sem tekur bæði til vindáttar og veðurlags. Á Suður- og Vesturlandi stendur vindur þá af hafi (útsuðri eða þar um bil) og hann gengur á með skúrum eða éljum. Suðvestanátt með súld og regni er yfirleitt ekki kölluð útsynningur.
Útsynningur hefur ekki verið algengur í vetur og þá sjaldan hann hefur sýnt sig stund og stund hefur hann ekki valdið vandræðum af neinu tagi. Hann var hins vegar mjög ríkjandi í fyrravor og framan af sumri - og ekki vinsæll um þær mundir.
Útsynningsveðurlag er kannski aðeins annað - þá leyfum við vind af öðrum áttum með öðruvísi veðri stund og stund, en útsynningur er samt aðal. Það má líka tala um útsynning norðaustan- og austanlands (og það var gert) - en þar er oftast úrkomulítið og stundum hið besta veður. Útsynningur er stundum mjög hvass og sé snjór á jörð getur skapast vandræðaástand, jafnvel norðanlands - og eru útsynningsveður sérlega skæð á norðurleiðinni, svosem eins og á Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði - sé snjór á jörð og sérstaklega ef vindáttin er vestlæg.
En sá útsynningur sem nú gengur yfir er ekki alveg einfaldur í roðinu. Í dag (þriðjudag) mátti t.d. sjá að éljaklakkarnir voru nokkuð bældir ofantil þó þeir væru annars dæmigerðir. Ritstjórinn getur ekki hér og nú - án fyrirhafnar - greint hvað olli því - kannski var loftið sem braust yfir Grænlandsjökul ekki nógu kalt til þess að komast undir það loft sem að vestan kom - eða var það eitthvað annað?
En svo virðist sem eitthvað hreinræktaðra taki við á morgun (miðvikudag) - þó ekki lengi. Vindur virðist einkum munu plaga landið norðvestanvert - suðvesturhornið sleppur eitthvað betur (segja spár). Reikningar segja vindhraðann verða mestan á Vestfjörðum annað kvöld og fram eftir aðfaranótt fimmtudags.
Hér má sjá spá harmonie-líkansins sem gildir um miðnætti annað kvöld (miðvikudagskvöld 20.mars). Þá er mikið illviðri á Grænlandssundi og virðist það snerta Vestfirði norðanverða - og e.t.v. hluta Norðurlands líka.
Ritstjóri hungurdiska fylgist gjarnan með þessu spákorti þegar von er á útsynningi - og lítur jafnvel á það sem eins konar útsynningsmæli - (sem er þó ekki alveg réttlætanlegt). Heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting á miðnætti annað kvöld (úr líkani evrópureiknimiðstöðvarinnar), vindörvar sýna vindhraða og vindátt (rétt eins og harmonie-spáin). Litirnir sýna hins vegar það sem kallað er þykkt (eða hæð) jaðarlagsins. Mælieiningin er metrar.
Í þekktri kennslubók eftir Ronald Stull er jaðarlagið skilgreint sem svo (í lauslegri þýðingu): Jaðarlagið er sá hluti veðrahvolfsins sem er undir beinum áhrifum frá yfirborði jarðar og bregst við álagi (mótun, enska: forcing) þaðan á klukkustund eða styttri tíma.
Þar sem efra borð jaðarlagsins er ekki endilega vel skilgreint í raunveruleikanum hverju sinni fer leit að því í líkönum fram á reikningslegan hátt. Í raunveruleikanum getur verið allnokkur munur á reiknaðri jaðarlagshæð og raunverulegri.
En það sem skiptir máli er að jaðarlagið reiknast mun þykkara í útsynningnum fyrir vestan og norðvestan land heldur en annars staðar. Það er aðallega tvennt sem veldur því: Í fyrsta lagi mikill munur á lofthita og yfirborðshita sjávar (mjög kalt loft hefur komið annað hvort sunnan að kringum Hvarf á Grænlandi - eða yfir jökulinn (mun sjaldgæfara - en líklega þó í þetta sinn). Loftið er því mjög óstöðugt. Í öðru lagi mikill vindur - hann hjálpar til við blöndun - og gerir jaðarlagið enn þykkara en ella væri.
Rauði og fjólubláu litirnir birtast á jaðarlagskortinu þegar svona stendur á - algengastir eru þeir yfir hafsvæðinu sunnan við land þegar ískalt Kanadaloft streymir af ákafa til austurs yfir hlýjan sjó - en stöku sinnum líka í norðanátt - og svo auðvitað líka í útsynningi við Vesturland eins og nú. Hæsta talan á þessu korti er 3500 metrar.
Evrópureiknimiðstöðin segir að meir en 14 stiga munur verði á yfirborðshita sjávar og hita í 925 hPa-fletinum undan Vestfjörðum annað kvöld. Þá verður flöturinn í um 550 metra hæð. Góð kynding - líkönin eru ekki alveg sammála um varmaflæðið - en nefna samt hátt í 1000 Wött á fermetra.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2019 | 21:59
Af árinu 1908
Tíðarfar þótti hagstætt á árinu 1908. Meðalhiti í Reykjavík var 4,3 stig. Að tiltölu var enn hlýrra víða á landinu. Meðalhiti í Stykkishólmi var 4,1 stig og þar var árið það hlýjasta síðan 1851, á Akureyri var meðalhiti ársins 3,6 stig. Aðeins tveir mánuðir, febrúar og ágúst teljast kaldir á landsvísu - í fyrsta sinn síðan 1889 sem ár slapp með svo fáa kalda mánuði. Fimm mánuðir teljast hlýir, mars, júlí, september, október og desember. Október var sérlega hlýr, sá hlýjasti sem hafði sýnt sig á landinu frá upphafi mælinga - enn hlýrra varð síðan í október 1915 - en það er önnur saga.
Mest frost á árinu mældist á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 14.desember og í Holti í Önundarfirði á hlaupársdaginn 29.febrúar, -18,5 stig. Lágmarksmælingar í Holti þykja almennt nokkuð grunsamlegar en enn hefur ekki tekist að komast að því hvað er að (en eitthvað er það). Það er óvenjulegt að lægsti hiti ársins á landinu sé ekki lægri en þetta - höfum í huga að lágmarksmælingar féllu niður í desember á Grímsstöðum á Fjöllum - hafði það til þessa farið framhjá (vökulum?) augum ritstjóra hungurdiska - mun hann leita að lægri tölu í frumgögnum þegar færi gefst.
Hæsta tala ársins, 26,6 stig er líka grunsamleg, mældist á Gilsbakka í Hvítársíðu 4.júlí. Hins vegar gengu verulegir hitar víða um land þessa daga - alvöruhitabylgja sem vert væri að líta nánar á. Hiti fór m.a. yfir 20 stig bæði í Stykkishólmi og í Grímsey. Einnig varð óvenjuhlýtt framan af október og í apríl skaust hiti á Seyðisfirði upp í 21,4 stig þann 16.
Myndin sýnir hita í Reykjavík frá degi til dags árið 1908. Hámarks- og lágmarksmælingar féllu niður (lágmarksmælingar hafa sennilega verið gerðar en hafa glatast) þannig að við sjáum einungis hæsta og lægsta hita á athugunartímum á myndinni. Ekki er ólíklegt að hiti hafi skotist upp fyrir 20 stig einhvern af dögunum hlýju um mánaðamótin júní og júlí, t.d. þann 4. þegar hitinn varð hæstur á Gilsbakka.
Það er eftirtektarvert að hitarnir komu eftir heldur slaka sumarbyrjun suðvestanlands. Slæmt kuldakast gerði rétt um miðjan júní. Þá mældi séra Valdimar á Stóra-Núpi -4,1 stigs frost að morgni þess 16. - var þó ekki með lágmarksmæli.
Í Stykkishólmi telst aðeins 1 dagur í flokki þeirra köldu árið 1908, það var sumardagurinn fyrsti 23.apríl. Fjórir dagar teljast óvenjuhlýir í Stykkishólmi, 2. til 5.júlí. Fleiri hitatölur má finna í viðhenginu.
Óvenjuúrkomusamt var um landið sunnanvert í október, en þar var júlí hins vegar með þurrara móti.
Þrýstingur var almennt með hærra móti í apríl. Hæsti þrýstingur ársins mældist 1038,6 hPa á Akureyri, það var á hlaupársdaginn. Lægstur mældist þrýstingurinn hins vegar 956,2 hPa - líka á Akureyri, en 27.mars - þá gerði suðvestanstórhríð þar um slóðir - fremur óvenjulegt. Allmörg eftirminnileg illviðri gerði á árinu, bæði á sjó og landi. Um skaða í þeim má lesa í blaðafréttasamantektinni hér að neðan. Þær eru stundum styttar og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs.
Einar Helgason segir frá tíðarfari ársins 1908 í Búnaðarriti 1909:
(s.345) Vetur frá nýári var óvenjulega góður um land allt, mildur og snjóléttur. Lagís varð mjög sjaldan að farartálma á Breiðafirði, en það er annars títt á vetrum. Í Strandasýslu var innistaða í febrúar og framan af mars. Ekki varð vart við hafís. Norður á Sléttu, við sjóinn, var nálega aldrei gefið fullorðnu fé, og fjöldamörg lömb gengu þar af, án þess að læra át. Í Vopnafirði komu hlákur og góðviðri 5. apríl, og tók þá allan snjó úr byggð og ís af ám. Hélst þessi góða tíð til 20, apríl, bæði þar og á Fljótsdalshéraði var þá farið að gróa en þá kom kuldakast, sem hélst um nokkurn tíma. Í Skaftafellssýslum umhleypingasöm tíð á þorra, en allhörð á góu, svo að þá varð að gefa öllum fénaði vegna jarðleysis. Úr því varð einmunatíð til sumarmála. Í Árnessýslu var veturinn talinn einhver hinn besti. 21. apríl brá til norðanáttar með miklu frosti og héldust kuldar til 11. maí.
Vorið mátti heita í besta lagi um alt land. Fyrstu þrjár vikurnar af sumrinu voru að vísu kaldar, en úr því kom ágæt tíð. Óvenjumiklir hitar hér sunnanlands síðari hluta júní og fyrri hluta júlí. Á Gilsbakka komst hitinn alt upp að 50°C á móti sól, en nær 30° í skugga; eru það einhverjir þeir mestu hitar, er menn muna þar. Í Norður-Þingeyjarsýslu var nálega allstaðar hætt að hýsa fé um sumarmál. Á Austurlandi voru kýr leystar út um miðjan maí. Á Hofi í Vopnafirði byrjaði túnavinna 12. maí, og var henni víða lokið þar í firðinum um þann 20.
Sumarið. Tíðarfar mátti heita hagstætt á öllu Suðurlandi. Miklir hitar fyrri hluta júlí, en þá brá til óþurrka, er héldust um þriggja vikna tíma, síðari hluta túnasláttar, síðan þurrkar og hagstæð tíð fram undir miðjan september. Heyskapur víðast fremur góður, á valllendisengjum mjög góður. Í júlímánuði mátti heita líkt veðurlag um land allt, hitar framan af og úrkomur seinni hlutann. Í Dölum og á Vestfjörðum sunnanverðum rosasamt í ágúst, úrkomur, stormar og kalsi. Aðfaranótt 11.ágúst frost í Dölum. Seinni part mánaðarins batnaði og hélst besta tíð úr því. Heyföng í besta lagi. Í Strandasýslu byrjaði sláttur 10. júlí, og mátti heita afbragðs heyskapartíð til rétta. Kuldar talsverðir vikutíma seint í ágúst; snjóaði þá ofan í miðjar hlíðar. Tún spruttu með besta móti, úthagi í góðu meðallagi. Á Norðurlandi var sumarið eitt hið besta. Heyskapur í besta lagi sökum nýtingar, þó grasspretta væri óvíða betri en í meðallagi. Flæðiengi spruttu sérlega vel. Snemma í júlí kom næturfrost í Eyjafirði. Í Vopnafirði og á Fljótsdalshéraði var besta heyskapartíð. Sömuleiðis var það á suðurhluta Austfjarða fram í septemberbyrjun, en þá gekk til sunnan- og suðaustan áttar þar með úrfelli, óstillingum og stormum. Sama var í Skaftafellssýslunum austanverðum. Heyskapur ágætur. Í Vestur-Skaftafellssýslu var grasmaðkur mikill þetta ár, eins og oft í þurrkaárum, einkum í Fljótshverfi og sumstaðar á Síðu; stórskemmdi bæði tún og úthaga sumstaðar í þessum sveitum. Hið sama átti sér stað víða í uppsveitum Árnessýslu; var valllendi viða hvítt, sem kalið væri.
Haustið og veturinn til nýjárs var umhleypinga- og rosasamur um allan suðurkjálka landsins, austan frá Breiðdal og vestur á Snæfellsnes, en snjólítið var þó, og fé víðast lítið gefið. Um miðjan nóvember lagðist að með snjóa. Komust þá allar skepnur á gjöf í Árnes- og Rangárvallasýslum, en þíðukafla gerði á jólaföstu, er hélst fram yfir jól. Í uppsveitum Borgarfjarðar var fé víðast lítið gefið fyrir nýár. 27. nóvember gerði hér í nærsveitum Reykjavíkur snarpa snjóhríð með austanroki, hlóð þá niður snjó og fennti fé á nokkrum stöðum eða hrakti í sjó. Snjó þann tók að mestu upp um jólin. Aðfaranótt 29. desember gerði ofsaveður af austri um Suðurland. Svo mikið varð það víða, að enginn mundi neitt svipað. Í Árnessýslu ofanverðri urðu skemmdirnar mestar. Mikið tjón á húsum og heyjum, svo að mörgum þúsundum króna skipti. Í Borgarfirði, í Kjós og á Kjalarnesi urðu og víða miklar skemmdir, sömuleiðis í Rangárvallarsýslu og í Mýrdal. Fyrir Breiðdal varð meira brim og sjórót en dæmi eru til, og braut marga báta; sjávarbakkar brotnuðu og grjót barst á land upp. Í Dalasýslu og á Vestfjörðum mátti heita öndvegistíð allan þennan tíma. Í Strandasýslu nokkur ofviðri og stórrigningar, er á leið haustið, en auð jörð og ágætishagar fram í byrjun desember. Ágæt tíð um allt Norðurland fram til 20. nóvember; brá þá til austan úrfellis og setti niður snjó nokkurn, en hlánaði aftur fyrir jólin, og besta tíð, er árinu lauk. Í Norður-Þingeyjarsýslu sáust viða nýútsprungnar sóleyjar í annarri viku vetrar. Í Vopnafirði var sömuleiðis framúrskarandi unaðsleg tíð alt haustið. Kúm var þar sumstaðar beitt nærri út allan október, og unnið var þar að jarðabótum til októberloka. 1. nóv. hvítnaði jörð í fyrsta sinn. 25. og 27. sama mánaðar voru stórhríðar þar í firðinum og á Fljótsdalshéraði; gerði þá mikinn snjó, er hélst fram um miðjan desember; eftir það hláka við og við.
Í Barðastrandarsýslu allgóð uppskera, skemmdust þó garðar í ágústveðrunum. ... í Eyjafirði varð hún í lakara meðallagi og sumstaðar enn ver. Mun því hafa sumpart valdið næturfrost í júlí, því þá skemmdist kartöflugras víða til stórra muna, og sumstaðar munu ofþurrkar hafa gert tilfinnanlegan skaða í melgörðum.
Janúar: Allgóð en óstöðug tíð. Hiti í meðallagi.
Lögrétta segir frá þann 8.janúar:
Veðurblíða hefur verið hér nú um áramótin eins og um sumar væri. Á nýársdag tíndi Tryggvi bankastjóri Gunnarsson nýútsprungnar fjólur og fleiri blóm í Alþingishúsgarðinum, og sama er sagt um fleiri jurtagarða hér í bænum. 5. þ.m. kólnaði lítið eitt, og síðan er þunnt föl á jörð.
Ísafold segir frá góðri tíð þann 11.:
Veðrátta enn söm og verið hefir. Aldrei öðru hærra. Hvergi froststirðningur i dag, ekki einu sinni norður á Fjöllum. Heitara í gær á Seyðisfirði en suður i Færeyjum. Dálítil frostskerpa á miðvikudaginn fyrir norðan og austan (510 stig), en linaði óðara aftur. Græn jól tala ensk blöð um að verið hafi þar, á Englandi. Það mun vera það sem vér köllum rauð jól. En ólikt veður er i Danmörku nú þessa vikuna, eftir símfréttinni þaðan í gær.
Ingólfur segir þann 16.:
Veðrátta hefir verið hin besta um langt skeið, fram í vikuna sem leið. Það var símað frá Mývatni, að lömb hefði fyrst verið hýst þar á einum bæ þrettándakveldið.
Þjóðólfur segir þann 17.:
Veðurátta er nú tekin að spillast, allmikil snjókoma til sveita, en fremur frostvægt enn sem komið er.
Þjóðviljinn (Bessastöðum) segir þann 22. og 31.
[22.] Síðan um miðjan þ.m. hefir snjóað öðru hvoru, og ýmist verið væg frost, eða kafaldsblotar og nú síðast rigningar.
[31.] Tíðin hefir verið all vetrarleg síðustu vikuna, rosar fyrri partinn, en hægviðri nú, jörð alþakin snjó.
Febrúar: Tíð talin mjög hagstæð syðra, en öllu óhagstæðari nyrðra þar sem snjóaði talsvert. Sunnanlands og vestan var nokkur snjór síðari hlutann. Fremur kalt.
Ísafold segir stuttlega af veðri í febrúar:
[1.] Þessa viku alla [lok janúar] hefir loks verið frost um land allt, en mikið ekki þó, ... Því hefir fylgt mikil fannkoma hér syðra, af útsuðri jafnast. [8.] Enn mjög umhleypingasamt þessa viku, aðallega við útsuður þó, sem áður. [15.] Veðrátta enn eins og áður, frostleysur yfirleitt, við útsuður. Beitarhagar nógir að jafnaði. Símað i gær af Seyðisfirði: Tíðin framúrskarandi. Byrjað að aka efni i Eiðaskólahúsið frá Selfljótsós. [29.] Mikill vetrarbragur á veðráttu síðasta hálfan mánuð. Sjaldan fjúklaust daglangt, geysimikill snjór á jörðu. Stormur (10) af norðri og útnorðri í gær og i fyrradag.
Ingólfur segir af bátabroti í pistli þann 9.:
Tveir vélarbátar brotnuðu nýlega við Ísafjarðardjúp. Annan átti Bjarni kaupmaður Sigurðsson, brotnaði sá að Hjöllum; hinn átti Kristján Jóhannsson og rak þann bát upp i Vigur. Báða bátana sleit upp mannlausa. Þeir vóru vátryggðir í bátaábyrgðarfélagi ísfirðinga.
Norðri hrósar tíð í pistli þann 18.:
Sú öndvegistíð hefir verið hér norðanlands í allan vetur, að elstu menn muna naumast annan vetur jafngóðan, nema ef vera kynni veturinn 1879-80. Mun góðviðri vetrarins eins lengi verða viðbrugðið og ótíðinni síðastliðið sumar. Í útigangsveitunum hefir fullorðnu fé næstum ekkert verið gefið ennþá, sumstaðar jafnvel ekki komið í hús, og þar sem hagaganga að jafnaði er lítil á vetrum, eins og hér í Eyjafirði, hafa flest allir hestar gengið úti til þessa.
Austri segir af illviðri, fyrst í pistli þann 15.febrúar, en síðan þann 25. - þá er einnig fjallað um blíðuna:
[15.] Ofsaveður gjörði hér að kvöldi þess 7. þ.m. þó gjörði það lítinn skaða hér í firðinum, feykti aðeins nokkrum bátum og 1 eða 2 skúrum.
[25.] Stórviðri var hér síðari hluta dags 7. þ.m. Urðu þá nokkrar skemmdir á íbúðarhúsi Vilhjálms Hjálmarssonar á Brekku í Mjóafirði. Þá fauk bátur á Hólmum í Reyðarfirði og timburþak af heyhlöðu. Var þetta um 300 kr skaði fyrir séra Jóhann.
Góðviðrið heldur áfram. Á sumum bæjunum utan til í Reyðarfirði, svo sem Krossanesi, Karlskála, Vattarnesi, Þernunesi og víðar gengur allt sauðfé enn gjaflaust, sumstaðar hafa lömb verið tekin, en fullorðið fé gengur gjaflaust. Á innstu bæjum Reyðarfjarðar er allt fé hýst og oftast gefið. Einungis þar sem fjörubeit er með landbeitinni hefir sauðféð gengið gjaflaust að þessu. Yfirleitt á öllu Fljótsdalshéraði hefir sauðfé verið létt á fóðrum í vetur þó það sé þar allstaðar hýst.
Þjóðviljinn (á Bessastöðum) segir frá tíð í nokkrum pistlum:
[19.] Tíðin mjög hagstæð, og sjaldan er menn eiga jafn miklum stillviðrum að venjast á þorranum, sem undanfarna daga. Frost mjög væg, þegar ekki ganga þíðviðri, og jörð næg fyrir útigangspening manna.
[25.] Hafís er sagður fyrir Vesturlandi, allt suður að Patreksfirði. Fregnin barst með botnvörpuskipi, sem hafði lent í ísnum, en komst þó klakklaust úr honum.
Frá Dýrafirði er Þjóðviljanum ritað 5. þ.m.: Veðrátta er hér mjög rosaleg, útnorðan stórviðri, sjórót, kafald og regn a víxl.
[25.] Talsverðum snjó hefir dyngt niður síðustu viku, annars frostlítið og stormalaust.
[29.] Góa hefir tekið heldur ómjúkt á mönnum hér syðra, fyrstu dagana. Í byrjun vikunnar dyngdi niður talsverðum snjó og rigndi ofan í. Síðan skellti á útsunnanhríð og norðangaddi. Jörð haglaus að kalla.
Þjóðólfur birti þann 20.mars bréf úr Rangárvallasýslu ofanverðri, dagsett 12.febrúar. Þar segir meðal annars:
[T]íðarfar hefur yfirleitt verið óvenjugott til þessa. Haustið var reyndar stirt fram að jólaföstu, en þó ekki svo, að útifénaður væri tekinn á gjöf; en síðan og alla leið fram á þorra var tíðin ómunablíð, stirðnaði oft varla á polli um heiðríkar nætur og vanalega hiti um daga, 15°C. En síðan með þorra hefur verið umhleypingasamt. Menn hér efra voru með lakara móti heyjaðir í haust, því sumarið síðasta var í meira lagi þurrviðrasamt og kalt, og fylgdi því grasbrestur að sama skapi. Kviðu menn því vetrinum og fækkuðu flestir fénaði, einkum stórgripum, mest úr fjósum.
Og þann 27.mars birti Þjóðólfur bréf úr Öræfum, dagsett 19.febrúar:
Veturinn hefur verið góður, mildur og snjóalítill, oftast auð jörð. 6. janúar var jörð t.d. alveg klakalaus allstaðar hér í sveit, enda hlífir Öræfajökull sveitinni fyrir norðanveðrum, sem eru vanalega frostmestu veðrin. Sveitin er sunnan undir jöklinum, alveg á móti sólunni, og þykir okkur hér yndislegt og tilkomumikið í björtu og heiðskíru veðri, þegar sólin skín á jökulkrónuna um sólaruppkomu og sólsetur.
Norðurland segir þann 29.:
Ferðamaður frá Húsavík, sem hingað kom til bæjarins í vikunni, hafði sagt frá því, að Grímseyingar hefðu verið nýkomnir í land á Húsavík. Höfðu þeir farið í gegnum allmikinn hafíshroða á sundinu og litu svo til að talsvert mikill ís væri þar austurundan.
Þann 14.mars birtist í Ísafold bréf úr Mýrdal, dagsett 29.febrúar:
Héðan úr Mýrdal verður ekkert orð skrifað þennan dag, þ.e. 29.febrúar, fyrr en 1912, hver sem lifir þá. Nota ég því síðustu mínútur þessa sjaldgæfa dags til þess að skrifa Ísafold örfáar línur. Síðan um nýár hefir veturinn allt af smátt og smátt verið að ýfast og espast í lund. Síðustu 4 dagana i röð hefir verið grenjandi norðanbylur. En i dag hefir verið fagurt veður og hlýtt, og hafa Víkurmenn og Reynishverfingar róið, fyrsta sinn á vetrinum, en urðu ekki fiskvarir.
Mars: Mjög hagstæð tíð og oftast hæglát veður, þó óstöðugt við suðurströndina. Fremur hlýtt.
Norðri segir þann 3.mars:
Á miðvikudagskvöldið er var [26.febrúar] skall á norðan hríð með mjög mikilli fannkomu, en fremur frostlítið var hér í Eyjafirði. Í Svarfaðardal komust menn á nokkrum bæjum eigi til gegninga á fimmtudaginn [27.]. Hríðinni létti af á laugardaginn [28.febrúar], og hefir síðan verið hið fegursta veður. Hafíshroði hefir nýlega sést á Grímseyjarsundi og nokkra jaka rak inn á Húnaflóa í hríðinni í vikunni sem leið.
Þilskipið Alaska, sem eign Sigvalda Þorsteinssonar kaupmanns og hefir legið í Skjaldarvík í vetur, sleit upp í hríðinni og rak upp á bryggju, er Thor E. Tulinius, stórkaupmaður í Kaupmannahöfn á þar í víkinni. Skipið laskaðist mikið og telur eigandinn eigi munu svara kostnaði að gera við það. Hefir hann beðið hér stórtjón, því að skipið var eigi vátryggt. Bryggjan laskaðist einnig allmikið. Skipskrokkinn Thordenskjöld,eign fiskiveiðafélagsins Svenska Bolaget í Gautaborg, sleit einnig upp i Sandgerðisbót og rak upp á Oddeyrina norðanverða. Það er lítið laskað en erfitt mun verða að ná því út aftur.
Norðurland greinir frá því þann 7. að maður hafi orðið úti í Fnjóskadal í hríðinni í síðustu viku febrúar og sama blað segir þann 14. frá því að ýmsir hafi orðið varir við jarðskjálftakippi á Akureyri miðvikudaginn 11.
Norðurland birti þann 4.apríl bréf frá Húsavík, dagsett þann 3.mars:
Þorri var þýður og þurr, en þeysinn og óstilltur; skildi eftir auða jörð frá fjallabrúnum til fjöruborðs. Góa heilsaði á annan hátt; hún byrjaði með hríð og fannfergi; alla næstliðna viku var stanslaus fannkoma svo allar leiðir urðu ófærar til aksturs og lítt færar mönnum. Fimmtudaginn 27. [febrúar] var kyrrt veður, hríðarlaust um morguninn, en dimmur í lofti; þegar leið fram að hádegi hófst logndrífa með snjókomu ákaflegri, en þegar leið að nóni tók að hvessa af norðaustri og herti veðrið svo með kvöldinu, að aftök urðu; hríðin og veðrið var svo magnað að ekki var farandi hér húsa milli sökum dimmu og ofviðris. Þessu voðaveðri fylgdi svo mikill sjógangur að menn muna varla slíkan; þó urðu hér í þorpinu engir skaðar á bátum eða öðru, en í Héðinsvík brotnuðu þeir í spón og voru þeir þó á hvolfi í djúpum skafli fyrir ofan vanalegt sjávarmál; ein bytna brotnaði út á Tjörnesi; annað bátatjón hefir eigi frést og engir fjárskaðar, en á tveimur bæjum í Kelduhverfi náðist fé ekki í hús um kvöldið, en sakaði þó ekki að sagt er. Nú á sunnudaginn [1.mars] breyttist veður til batnaðar.
Ingólfur segir þann 5.apríl:
Aðfaranótt 5.[mars] heyrðist gnýr mikill af eldingum í Hornafirði eystra. Laust eldingu niður í hesthús í Einholti á Mýrum (í Hornafirði) hjá Benedikt bónda Kristjánssyni. Fundust þrír hestarnir dauðir í húsinu um morguninn, er að var komið, en tveir vóru lifandi, annar blindaður á öðru auga; hinn hafði hvergi sakað. Þrjú göt voru á þakinu, svo víð að smeygja mátti bandlegg um. Engir sáust áverkar á hestum þeim, er dauðir vóru.
Þann 12.apríl segir Ingólfur: Djúpavogi 10.mars: Vetur svo góður að menn muna vart annan slíkan.
Ingólfur birti þann 12.apríl bréfkafla úr Tungusveit í Skagafirði, dagsettan 10.mars:
Góð tíð í vetur til þorraloka. Með góubyrjun brá til hríða og snjókomu. Fimmtudaginn í annarri viku góu [27.febrúar] var stórhríð og bjargaðist fé með naumindum. Á einum bæ, Ölduhrygg, lá allt fé úti um nóttina og drengur 12 ára, sem gróf sig í fönn og slapp óskemmdur. Helmingur af fénu fannst dauður. Líkt óhapp kvað hafa viljað til á öðrum bæ, Brandsstöðum í Blöndudal. Nú er fönn og jarðbönn, útlit að menn komist þó af með hey vegna veðurblíðunnar framan af.
Ísafold lýsir marstíð í fáeinum stuttum pistlum:
[7.] Hægviðri og stillur þessa viku, stundum mesta blíða.
[21.] Síðasta hálfan mánuð má kalla að verið hafi einmunatíð, líkara vori en vetri.
[28.] Hér hefir verið töluverður útsynningur í gær og í dag. En þíður alla vikuna þangað til og jörð orðin alauð. Ekki munu þess mörg dæmi, að 9-10 stiga hiti sé um miðjan morgun i góulok hér á landi; en svo var nú á þriðjudag [24.] í Blönduósi og Seyðisfirði.
Þjóðviljinn (á Bessastöðum) segir af veðri í mars:
[14.] Tíðin hefir verið afbragðsgóð síðustu daga. Landnyrðingsgola með litlu frosti.
[20.] Tíðin hefir verið afbragðsgóð þessa viku, síðan á laugardaginn [14.]. Jörð marauð og frost lítið eða ekkert.
[27.] Tíðin hefir verið hálfhryssingsleg seinustu viku. Þriðjudaginn 24. þ.m. gerði stórviðri, eitt hið versta, sem verið hefir í vetur.
Austurland (Eskifirði) segir þann 12.mars:
Um mánaðamótin gekk til norðanáttar með snjókomu, 28.[febrúar] var rokstormur á Norður- og Austurlandi. Síðustu daga hefir fallið allmikil lognfönn, og mun víða jarðlítið.
Ingólfur segir frá skiptapa í frétt 22.mars: Skiptapi varð á Miðnesi í austanveðrinu á fyrra laugardag [14.]. Fórst far með átta mönnum.
Ingólfur segir af óhöppum og mannsköðum á sjó í pistli þann 29.:
Ofsaveður útsunnan með éljagangi skall á mjög snögglega á þriðjudagsmorguninn [24.]. Hélst það nokkrar klukkustundir. Menn höfðu róið til fiskjar um morguninn í flestum veiðistöðunum syðra og voru á miðum úti þegar veðrið skall á. Sættu þeir miklum hrakningum og tjóni á mönnum og skipum. Einn bátur fórst af Miðnesi með allri áhöfn. Tveim förum bjargaði botnvörpuskipið Íslendingur", með mönnum þeim er á voru, einn bátur náði til Hafnarfjarðar, einn lenti í Skildinganesi, hafði hleypt þangað á árunum einum utan úr Garðsjó, tveim bjargaði skútan Ester til Keflavíkur og einum skútan Seagull. Eitt farið komst á Akranes. Öll þessi skip munu hafa verið úr Garði. Nýr áttæringur tapaðist í Garðsjó. Enskur botnvörpungur bjargaði skipshöfninni, en bátinn sleit síðan aftan úr og hefir ekki meira til hans sést. Hann var nýsmíðaður og keyptur úr Reykjavík að Lambastöðum í Garði fyrir rúmri viku.
Fiskiskúta strandar, skipstjóri ferst. Í veðri þessu brotnaði stýri í fiskiskútunni Kjartani" á siglingu. Skipstjóra skolaði útbyrðis, en skipið rak stjórnlaust í land á Hvalsnesi og komust menn af, þeir sem eftir voru. Skipstjórinn hét Jón Jónsson, ötull myndarmaður, kvæntur. Skipið var úr Hafnarfirði, eign Brydes-verslunar. Af þessu skipi drukknaði skipstjóri og stýrimaður í fyrra vor. Áfall mikið fékk fiskiskútan Töjler" aðfaranótt þriðjudagsins út af Grindavík; gekk holskefla yfir skipið og braut greiprá og beitiás. Farmrúmsþiljur sprungu, en salt kastaðist allt upp úr kulborðskassa og niður í skip. Aldan vatt skipinu við um leið og það kom upp úr aftur, svo að farmurinn varð áveðurs. Fékk þá skipið rétt sig og komst síðan til Reykjavíkur, Harða útivist áttu tvö róðrarskip frá Þorlákshöfn á fyrra laugardag [21.] Formenn voru bræður tveir. Náðu þau ekki landi fyrr enn eftir náttmál um kveldið, annað af sjálfsdáðum, hitt dró enskur botnvörpungur inn undir land.
Frá þessu sama veðri og slysum í því er einnig sagt í frétt í Ísafold þann 28. (við styttum það nokkuð hér - og forðumst miklar endurtekningar):
Þriðjudaginn 24. þ.m. stundu fyrir hádegi skall hér á afarsnögglega eitthvert hið mesta aftakaveður af útsuðri sem hér eru dæmi til, upp úr hægum vindi af landsuðri. Það var eins og skotið væri af byssu, sagði einn elsti sjómaður hér í bæ. Aftökin linuðust eftir 2 stundir. En hvass var hann allan daginn og nóttina eftir. Mjög voru menn óttaslegnir um stórslys á sjó af þessu fárviðri, með því að allir gengu að því vísu, að almenningur hefði róið í suðurveiðistöðunum, þar sem verið hefir svo góður afli og er enn. En svo er drottni fyrir að þakka, að manntjón varð þar ekkert á opnum skipum, ... En einni fiskiskútu barst á við Miðnes og drukknaði skipstjórinn hann tók út frá stýrinu í stórsjó, sem gekk yfir skipið, en allt brotnaði ofan af þiljunum og sópaðist burtu, nema siglutrén. Stýrislykkjurnar brotnuðu og skipið fór á hliðina, lá þar á seglunum um hríð, en rétti þó við aftur. Það rak því næst inn fyrir brimgarðinn og upp í lón fyrir ofan skerið, sem brimið skall á, og komust skipverjar fyrir það óskemmdir á land, 18 saman. ... Garðmenn þeir, sem ekki var bjargað sem fyrr segir, hleyptu inn flóa, og höfðu land þeir er lengst komust í Skildinganesi og aðrir í Hafnarfirði. Það var 16 klukkustundir á leiðinni, skipið sem lenti í Skildinganesi eftir miðja aðfaranótt miðvikudags.
Norðri segir þann 31.mars:
Á föstudaginn er var [27.mars], nokkru eftir hádegi skall hér mjög snögglega á suðvestan stórhríð, með feikna fannkomu. Frostlítið var fremur, en ofsarok. Hríðinni létti af um nóttina, en þótt hún væri ekki langvinnari hefir hún þó gert allmikið tjón. Skall hún á með svo skjótri svipan að fé, er úti var, fannst ekki, enda sleit út úr höndum, manna þótt eitthvað fyndist. Á fjöldamörgum bæjum, einkum í Fnjóskadal og Bárðardal lá fé úti um nóttina og var mjög illa útleikið daginn eftir, er það fannst, svo að mörgu af því er varla hugað líf, enda hefir sumt drepist síðan. Sumt hafði fennt, sumt frosið niður; margt var sligað af fönn, og varð að bera það eða draga á sleða heim að húsum. Á Tyllingi í Kræklingahlíð fundust 4 kindur dauðar og 2 vantar, nær 20 varð að draga heim á sleða. Á Lundabrekku og Bjarnastöðum í Bárðardal er allmargt fé enn þá ófundið og sagt er að 14 kindur frá Halldórsstöðum í Bárðardal hafi hrakið í Skjálfandafljót. Fátæk ekkja á Veturliðastöðum í Fnjóskadal missti 30 fjár, er að líkindum hefir hrakið í Fnjóská; helmingur þess er ófundinn. Á tveim öðrum bæjum hafa nokkrar kindur farist. Elstu menn í Fnjóskadal segjast eigi muna jafn svarta hríð. Á einum bæ þar var allt fé í húsi, en 3 hross á beit fáa faðma frá vallargarðinum. Bóndi fann þau strax, en varð þó hvað eftir annað að yfirgefa þau aftur til þess að fullvissa sig um að hann væri á réttri leið. Eftir þriggja tíma strit tókst honum loks að koma tveim þeirra í hús, en eitt missti hann út í hríðina og lá það úti um nóttina.
Apríl: Hagstæð tíð. Fremur hlýtt.
Ingólfur segir frá þann 5.apríl:
Mannskaði hefir frést frá Loftstöðum í Árnessýslu 2/4. Skip er Jón Erlendsson var formaður fyrir hafði borist á, á sundi þar. Þrír höfðu drukknað. ... Þennan sama dag reru öll skip á Eyrarbakka og lentist þar öllum vel, sömuleiðis reru allir á Stokkseyri. Náðu 9 skip ekki lendingu sem urðu að leggja frá til Þorlákshafnar. Ófrétt enn hvernig þeim hefir lenst þar, sömuleiðis óljósar fregnir um að skipi hafi átt að berast á á Stokkseyrarsundi. Brimaði í aðfallið síðdegis.
Þann 12. segir Ingólfur frekar frá þessu og fleiri óhöppum á sjó (lítillega stytt hér):
Í síðasta blaði var sagt frá skipskaðanum frá Loftsstöðum í Árnessýslu, 2.þ.m., en þar var vanhermt, því að mennirnir voru ekki þrír, sem drukknuðu, heldur fjórir. ... Sama dag fórst róðrarbátur frá Stokkseyri þar á sundinu og drukknuðu átta menn, en einum var bjargað. ... Níu skipshafnir aðrar voru á sjó frá Stokkseyri þennan dag og sneru frá sundinu þegar þær sáu slysið. Lentu þær heilu og höldnu í Þorlákshöfn. Vélarbátur sökk í Vestmannaeyjum 1. þ.m. með sex mönnum og týndust allir. Formaðurinn hét Árni Ingimundarson. Maður drukknaði af vélarbáti í Vestmannaeyjum 24. [mars].
Tveir menn drukknuðu á Hvalfirði á sunnudaginn var [5.apríl] ... Höfðu þeir farið héðan á laugardaginn á litlum báti skemmtiferð inn í Hvalfjörð. Komu þeir seint um kveldið að Þyrli og sváfu þar í hlöðu um nóttina. Fóru þaðan snemma morguns og sigldu út eftir firði. Var veður hvasst og byljótt, en segl stórt á bátnum. Menn sem voru á kirkjuleið frá Litla-Sandi sáu bátinn á hvolfi úti á firðinum og mennina á kjöl. En enginn bátur var þar til og var þá farið eftir báti að Brekku, næsta bæ. Var að sækja gegn ofviðri fram fyrir höfða nokkurn út að hvolfa bátnum og tóku mennirnir það ráð að setja bátinn yfir höfðann til þess að stytta sér leið. Dróst því alllengi um björgun og voru báðir mennirnir drukknaðir þegar að var komið.
Vestri segir þann 2.maí frá fjársköðum mánuði fyrr:
Fé hrekur niður fyrir björg: 2. apríl síðastliðinn hrapaði niður fyrir björg 40-50 fjár, sem Einar Magnússon frá Glerárskógum bóndi í Hvammi í Dölum átti. Féð hafði verið heima á túninu í Hvammi, en veður var hvasst á útsunnan og í einni stormkviðunni, sem skali á, hrakti féð í einni svipan upp dalinn og byljirnir, sem eftir fylgdu, keyrðu það upp á fjall og alla leið fram af klettunum. 28 kindur fundust síðan steindauðar, en hinar með lífsmarki, meira og minna limlestar. Þetta var flest roskið fé.
Norðurland segir frá fréttum af Flateyjardal (ódagsettum) þann 11.apríl:
Vetur þessi hefir verið einhver hinn snjóléttasti og óvenjulega frostalítill. Snjór kom eigi til muna fyrr en á góu og var jarðlaust mestan hluta hennar. Síðan nokkur jörð af og til, en óstillt mjög.
Austri segir um apríltíðina:
[18.] Sumarblíða hefir verið á hverjum degi að heita má nú um langan tíma, svo snjór er að mestu horfinn og alautt að kalla upp fyrir miðjar fjallshlíðar.
[25.] Veðráttan hefir nú um tíma breytt skapi sínu og snúist í verri ham og hreytt úr sér snjó og kulda, og gekk sumarið í garð með töluverðri snjókomu. Nú hvílir snjóbreiða yfir öllu frá fjallatindum til fjöru, en hverfa mun hún fljótt þegar sólin og sunnanvindurinn ná til að brjótast í gegn um þoku og hríðarbólstrana.
Ísafold lýsir apríltíð í fáeinum pistlum:
[11.] Hver dagurinn öðrum blíðari þessa viku, að kalla má, líkari áliðnu vori en vetri.
[22.] Hvergi á landinu frost vikuna sem leið, alla dymbilviku. Sama blíðan síðan hér um bil. Þó ofurlitið frost i morgun allstaðar, sem síminn til nær, með því að bjartviðri er mikið og við norðurátt, frá 2 til 6 stig (Akureyri). En norðankafald i Færeyjum (Þórshöfn) í morgun með nær 5 stiga frosti.
[25.] Svo fór þó, að saman fraus vetur og sumar. Sumardagurinn fyrsti var kaldari en vetrardagarnir síðari tugum saman, hranalegur norðangarður. Við áttina þá enn, en hægur.
Þjóðviljinn lýsir apríltíðinni:
[6.] Tíðin má segja að hafi verið fremur góð, seinustu daga. Frost nokkuð á nóttu, en heiðskírt loft, og sólskin, á degi.
[13.] Frakknesk fiskiskúta fórst undan Álftaveri i Skaftafellssýslu 24.[mars] og halda menn að allir skipsmenn hafi farist. Óveður var hið versta tvo fyrstu dagana i vikunni. Síðan hafa verið stillur, með frostleysu og heiðríkju.
[23.] Tíðin hefir verið vorleg seinustu viku, oftast nær sólskin og hlýindi á dögum, en frostlaust á nóttu, nema aðfaranótt miðvikudags [22.].
[30.] Tíðin hefir verið mild seinustu daga, sólskinslítið, drungað loft, og byrjað að grænka í hlaðvörpum.
Norðri birti 19.maí bréfkafla úr Bárðardal, ritaðan um sumarmál:
Veturinn, sem nú er nýbúinn að kveðja hefir verið ágætlega góður svo að yngri menn munu ekki hafa lifað annan eins, og eldri menn fáa jafngóða. Óvíða var fé tekið á gjöf fyrr en 7.janúar og þó mjög lítið gefið fyrr en um góukomu og fram undir miðjan einmánuð; þann tíma var tíð óstillt og og ill að heita mátti, en þó varla nokkurntíma haglaust.
Þjóðólfur birti 12.júní bréf frá Eskifirði dagsett 1.maí:
Veturinn, sem nú er nýbúinn að kveðja, er eflaust einhver sá besti, sem komið hefur hér um nærsveitir í þeirra manna minnum, sem nú lifa, enda mun það hafa komið sér betur, því hey manna voru lítil í haust, og mun það ekki fjarri sanni, að víða hafi sauðfénaður verið mest settur á útigang. Snjór hefur aldrei komið mikill, og jafnan verið stutt í einu. Frost hefur orðið mest 9°R. Á einmánuðinum var veðuráttan svo mild og hlý, eins og þegar best er i júnímánuði, og var kominn hér töluverður gróður um páska. Á þriðja dag páska [21.apríl] skipti um átt, gekk þá til norðan- og norðaustanáttar, og síðan hefur verið snjókafald og hálfgerður bylur. Nú í dag er ekkert sumarlegt úti.
Maí: Tíð talin góð, einkum suðvestanlands. Úrkomusamt síðari hlutann á öllu Suður- og Vesturlandi eftir langa þurrka. Norðanhret í fyrstu vikunni dró meðalhitann niður.
Ingólfur segir frá þann 3.maí:
Sagt er að sést hafi úr Mývatnssveit og Bárðardal eldblossar og reykjarmökkur í suðri um fyrri mánaðamót. Líklegast að eldur sé uppi í Vatnajökli, þótt ekki hafi þess vart orðið sunnanlands svo að frést hafi.
Norðri segir af tíð þann 5.maí:
Veðrátta hefir verðið köld síðustu vikuna, norðaustan kuldanæðingur og fjúk. Í dag er norðanhríð, og er kominn allmikill snjór.
Austurland segir af tíð þann 6.maí:
Snjóveður hefur verið hér í fjörðum að öðru hverju síðan á sumardaginn fyrsta [23.apríl]. Gæftir hafa verið stopular og aflalítið. Minna hefir snjóað á Héraði en í fjörðum.
Ingólfur segir frá skaða á sjó - og fleira - í pistlum þann 17.:
Tvær frakkneskar fiskiskútur rákust á grunn undan Mýrum í námunda við Þormóðssker 5. þ.m. Þá var norðanveður hvasst og kafald. Menn allir komust lífs af. Bjargaði annarri skipshöfninni lóðaveiðiskip, en hin komst í skipsbátunum til Akraness eftir 10 stunda róður, allmjög þjökuð.
Skeiðará í Skaftárþingi hefir verið mjög vatnslítil um tíma og er búist við að hún hlaupi nú áður langt um líður. Öskufall hafa frakkneskir fiskimenn orðið varir við fyrir sunnan land um síðustu mánaðamót.
Ísafold segir af maíveðri:
[6.] Norðan-bálviðri 34 daga samfleytt, frostlítið þó, en næðingurinn bitur. Hafísspár út af því, en ekkert sannfrétt um neinn hafís.
[16.] Eftir 34 vikna þurrka svo mikla, að aldrei kom dropi úr lofti, rigndi mikið i fyrri nótt. Nokkuð farið nú að hlýna i veðri, en mikið ekki.
Norðri segir þann 26.:
Veðrátta hefir verið hin besta síðustu vikuna; sunnanátt og hlýindi daglega og regn við og við. Grær því óðum, og hafa menn bestu vonir um gott grasár. Er nú að mestu lokið við að setja niður í garðana hér í bænum, og reyni- og birkitré eru tekin að laufgast af mun. Sumar og sólskinsblær hvílir yfir láði og legi.
Þjóðviljinn (Bessastöðum) segir af maítíð:
[9.] Tíðin hefir verið breytileg síðustu daga, fremur köld og tvisvar snjóað um nætur, en allur snjór horfið á daginn. Virðist nú útlit fyrir góðviðri.
[16.] Óvenjublíða og hlýindi hafa verið þessa viku. Heiðríkt loft og sólskin á hverjum degi. Margir mundu óska eftir skúr úr lofti, sem fyrst, því að illt verður að vinna að ávinnslu í þessum þurrkum og jörðin jafnvel farin að skrælna og brenna. Í fyrrinótt féll þó talsverð dögg, og er vonandi að meira verði úr.
[23.] Gróðrarskúrir hafa verið, öðru hverju síðan síðasti Þjóðvilji kom út, og hafa tún grænkað að miklum mun.
[30.] Stöðugt haldast rigningar, við og við og heldur kalt í veðri. Krapslydda kom fyrir nokkrum dögum, og urðu fjöll hvít niður í miðjar hlíðar.
Þjóðólfur birti þann 3.júlí pistil úr Meðallandi, dagsettan 30.maí:
Tíðarfar hefur mátt heita gott allan síðastliðinn vetur; þó voru öðru hvoru umhleypingar síðari hluta vetrarins. En með einmánuði brá til stilltrar og blíðrar veðuráttu, er hélst til sumars, en með sumrinu breytti til stórviðra, fyrst á norðaustan með mikilli frosthæð, síðan af austri, og hefur það veður gert sveitinni tilfinnanlegan skaða með sandfoki, er sveitinni stendur beinn voði af.
Júní: Nokkuð úrkomusamt. Hiti í meðallagi. Mikil snjóalög í útsveitum nyrðra og á Hornströndum.
Norðri segir af júnítíð og fleiru:
[2.] Ómuna blíðutíð hefir verið síðustu vikuna, sólskin og hiti á hverjum degi. En sakir regnleysis er jörð orðin mjög þurr og væri því æskilegt að brigði til vætutíðar í nokkra daga, sakir grassprettu á harðvellistúnum.
[9.] Sama ágætistíðin hefir verið síðustu viku og að undanförnu. Hið eina, sem áður þótti ávanta, regnið, hefir þessa síðustu viku streymt niður í ríkulegum mæli, enda hefir grassprettu fleygt fram svo fádæmum sætir, og mun hún eigi hafa verið jafn góð á þessum tíma árs í mörg ár, hér í þessu héraði.
[16.] Veðrátta hefir verið fremur köld síðustu vikuna, norðan stormur í fimm daga samfleytt. Frostlaust hefir þó verið í byggð hér norðanlands, nema á Grímsstöðum; þar hefir verið næstum 1 gr. frost síðustu næturnar.
[23.] Veðrátta hefir verið ágæt síðustu vikuna.
[30.] Hinn 26. þ.m. var hiti mikill og hljóp vöxtur í Fnjóská og aðrar ár. Stóðst timburbrú (staurabrú) sú, sem gerð hafði verið til þess að steypa á henni steinbogann, ekki vatnsaflið, og hrundi hún öll ásamt því sem búið var að steypa af boganum. Endastólpar brúarinnar standa óhaggaðir. Giskað er á að skaðinn nemi allt að 10 þúsund krónum. Verður verkinu haldið áfram, og því væntanlega lokið í sumar, þrátt fyrir óhapp þetta.
Vestri segir þann 11.júlí frá skiptapa í Tálknafirði þann 12.júní, fjórir fórust:
Þegar þetta slys vildi til, var aftaka norðanveður, og fóru fáir á sjó þann dag og engir eins langt út. Hvernig slysið hefir að borið, veit enginn, hvort það hefir heldur orðið á siglingu eða undir lóðum.
Mun þetta hafa verið svokallað Trýnaveður og má finna frásögn [í nokkrum þjóðsagnastíl] af þessu slysi í 4.tölublaði Eimreiðarinnar 1949.
Vestri segir þann 13.:
Hvassviðri og kuldi úr norðurátt hefur nú verið hér um slóðir, seinni hluta vikunnar; og þegar menn komu á fætur í gærmorgun, sást, þegar vindurinn dró upp þoku-tjaldið við fjöllin, að nóttin hafði málað hlíðarnar snjóhvítar að ofan, og fölva sló á rindana niður við ströndina, sem vorið var þó búið að grænklæða.
Þjóðviljinn segir af júnítíð:
[16.] Kalt hefir verið síðustu viku, norðanrok alloft og stundum rigning, en þó sólskin á milli.
[23.] Tíðin umhleypingasöm síðustu viku. Stormur og rigning alltaf öðru hvoru, en einstaklega gott veður suma dagana.
Júlí: Hagstæð tíð. Þurrt fram yfir miðjan mánuð, en síðan votviðrasamt vestanlands. Hlýtt.
Ísafold segir þann 1.:
Vætusamt undanfarið um hríð, besta gróðrarveðrátta. Frá því núna á helginni miklir hitar, 1718 stig C. hér á daginn í forsælu; nú í morgun kl.7 voru rúm 18 st. á C. á Grímstöðum á Fjöllum.
Norðri segir þann 7.:
Veðrátta hefir verið hin allra besta nú að undanförnu, blíðviðri indælasta á hverjum degi, hiti og sólskin. Í gær var 26 st. hiti (Celsius) í forsælu um hádegisbilið, og er það meira en hér hefir verið um langt skeið.
Austri segir þann 9.júlí:
Öndvegistíð hefir nú verið um allt Austurland langan tíma undanfarinn, um og yfir 20 stiga hiti á R undan sólu hér í fjörðum. Hefir grassprettu því farið sérlega vel fram, svo hún mun nú í besta lagi sérstaklega þar sem votlent er, þar sem þurrkar hafa verið helst til miklir. Í Héraði munu menn nú vera almennt byrjaðir að slá á útengi og sumstaðar á túnum líka.
Þjóðólfur birti þann 31. bréf úr Dalasýslu, dagsett 25.júlí:
Tíðarfar hér er hið ákjósanlegasta. Allan fyrra helming þessa mánaðar voru sterkjuhitar og þurrkur. Hitinn marga daga yfir 20 stig. En svo hafa verið votviðri til 23. þ.m. og kom það sér á margan hátt vel, og nú er kominn þerrir aftur. Útlit með grasvöxt á engjum er gott, og tún eru sæmilega sprottin, en búa á mörgum stöðum allmikið að brunaskemmdunum frá í fyrra, og því er grasið eigi nærri svo gott, sem við mætti búast eftir þær indælu tíðir.
Þjóðviljinn lýsir tíð í júlí:
[10.] Tíðin hlý, og hagstæð grasveðrátta, í þessum mánuði.
[18.] Tíðin stöðugt hin æskilegasta, stillur og blíðviðri.
[25.] Tíðin stöðugt hin besta, venjulega hitar og þurrkar, en þó eigi skarpir. Rignt hefir þó dálítið öðru hvoru þessa viku, sérstaklega á næturnar.
[31.] Tíðin óþurrkasöm, það hefir rignt talsvert síðustu vikuna. Margir hér i grennd eiga mjög mikið hey úti mestallt eða allt, sem losað hefir verið, og er viðbúið að það skemmist, ef ekki kemur þurrkur von bráðar.
Ágúst: Stopulir þurrkar framan af en síðan öndvegistíð. Norðaustanáhlaup í síðustu vikunni. Hiti í meðallagi.
Ísafold segir þann 5.ágúst:
Hitar þeir hinir miklu, er hófust laust fyrir mánaðamót júní-júlí, héldust fullar 4 vikur, með logni og þurrviðrum lengst af, og muna menn varla hér meiri sumarblíðu. En deyfa fór nokkuð, er á leið, og hafa verið nú miklir óþurrkar fram undir hálfan mánuð, og fyrir það afleit nýting á töðum og vandræði með fiskþurrk. Mikið dregið úr hita aftur frá því er votviðrin hófust að fullu.
Þjóðviljinn lýsir ágústtíð í stuttum pistlum:
[8.] Óþurrkarnir hafa haldist alla þessa viku. Veðráttan er stöðugt afarköld, og talsverðar rigningar, en þótt hann hangi þurr stund og stund úr degi, þá er aldrei þurrkur.
[15.] Eftir síðustu helgi gerði þurrk allgóðan, er hélst tvo daga, en síðan á miðvikudag [12.] hefir alltaf rignt öðru hvoru, og veðrið oftast verið bæði hvasst og kalt.
[22.] Óþurrkarnir hafa haldist þessa viku mestalla en þó aldrei verið stór-úrfellir veðráttan er stöðugt mjög köld.
[29.] Laust fyrir síðustu helgi breyttist loks veðráttan til batnaðar, og hefir tíðin verið hin hagstæðasta fyrri hluta þessarar viku, þurrkar og blíðviðri. En á föstudaginn gekk hann upp í norður, og hefir verið stormur og kuldi síðan.
Norðri birti þann 9. grein undir fyrirsögninni Hvaða gagn gera gjósandi eldfjöll? Það er Snorri Sigfússon á Tjörn sem ritar greinina í Noregi og sendir blaðinu. Í greininni segir m.a.:
Eldgosin veita loftinu kolsýru, en af þeirri tegund inniheldur loftið hlutfallslega lítið af (ca. 3/10000) og sem að vísu ekki er notasælt fyrir oss mennina; þvert á móti mun það loft álítast illt, sem inniheldur meira en vist kolsýrumagn, eins og tildæmis andrúmsloft í lítilli stofu sem troðið er fjölda fólks í. Aftur á móti er sú kolsýra, sem menn og dýr anda frá sér, aðalfæða jurtanna, og því lífsnauðsynleg. Væri ekki kolsýra í loftinu, yxu hvorki skógar, akrar né engjar, án jurta engin dýr og án dýra, enginn maður. Hinn víðfrægi svenski eðlisfræðingur, Svanter Arrhenius, hefir nýlega sannað aðra afleiðingu, af meiru eða minnu kolsýrumagni loftsins. Eftir því sem þessi náttúrufræðingur segir, ætti orsök ísaldanna, sem komið hafa yfir jörðina, að liggja í mismunandi kolsýruinnihaldi gufuhvolsins. Af þeim lofttegundum sem gufuhvolfið stendur saman af, er það einkum kolsýrunni að þakka, að yfirborð jarðarinnar fær hin fullu not sólarhitans. Arrhenius hefir nefnilega rannsakað þetta, og fengið fulla vissu um, að kolsýran hefir sérstaka hæfileika, til að halda við hita yfirborðs jarðarinnar, og gufuhvolsins þannig, að hann fer ekki eins fljótt og hann kemur. Sé nú gengið út frá þessu, geta hin heitu loftslög sem hafa verið ríkjandi hér á jörð á löngu liðnum sögulegum tímabilum, aðeins verið afleiðing af minna kolsýru innihaldi guluhvolsins. Eftir athugunum Arrheniusar, hefir sumarhitinn að meðaltali yfir alla Evrópu frá síðustu ísöld, [h]ækkað um 21 gr. Celsius. Gangi árshitinn niður á við eftir sama mælikvarða, mun það örugg sönnun fyrir nýrri ísöld; er svo margir tugir alda mun þó vera á milli tveggja slíkra ísalda, að vart mun unnt með nokkrum tölum, að ákveða það geysilanga tímabil, enda mun það vera því lengra sem eldgosin verða fleiri á hnettinum, þ.e.s. því meiri kolsýra, er á þann hátt, verður leyst úr iðrum jarðarinnar.
September: Góð tíð, en nokkuð úrkomusöm með köflum. Fremur hlýtt.
Þjóðviljinn lýsir septembertíðinni í nokkrum pistlum:
[9.] Tíðin umhleypingasöm. Norðan- og sunnanátt berjast um völdin. Rigndi talsvert síðari hluta síðustu viku, en um helgina gekk hann upp í norður, og hefir sú átt haldist síðan.
[14.] Stillur og norðanátt. Stöðugt frost um nætur, en allheitt á daginn, meðan sól er hæst á lofti. Síðustu dagana hefir hann þó verið á landsunnan og rignt dálítið.
[17.] Vestan- og landsunnanátt með rigningu þar til í gær, þá gekk hann til austurs og birti í lofti.
Þann 10.október birti Fjallkonan bréf úr Árnessýslu, dagsett 30.september:
Slátturinn hefir gengið með besta móti. Grasvöxtur var í besta lagi yfirleitt. Eigi var raunar þurrkasamt framan af og mæddust töður nokkuð; þó varð nýting sæmileg. Nær undantekningarlaust var veðrátta hin blíðasta og helst það enn. Víða hér í uppsveitum hefir maðkur gert ærinn skaða á grasi, svo að á sumum bæjum eru bæði engjar og úthagi í auðn að kalla má. Ekki er þetta hinn venjulegi grasmaðkur, sem er dökkur með gulum röndum og flýgur út fyrir Jónsmessu. Á þessum maðki hefir mest borið síðari hluta sumars og hefir hann verið að breiðast út til þessa. Hann er gulhvítleitur og mjög líkur hinum alkunna bröndungi", eða tólffótungi", sem kallaður er. Þó halda menn að þetta sé ekki hann, því af honum er vanalega lítið og eigi muna menn eftir að hann hafi gert skaða. Þetta muni vera áður óþekkt fiðrildislirfa.
Október: Óvenju úrkomusamt. Stórrigningar syðra og eystra. Mjög hlýtt.
Austri segir af ofviðri og sköðum í því í tveimur stuttum pistlum:
[10.] Hvassviður ofsalegt af suðvestri gjörði hér í fyrrinótt og gærdag. Olli það töluverðum skemmdum hér bæði á bátum og húsþökum, þannig fuku 3040 járnplötur af þakinu á skólahúsinu nýja.
[18.] Í óveðrinu um daginn sleit mótorbát frá festum á legunni á Norðfirði og rak til hafs og sökk. 6 menn á róðrarbát komust út í bátinn áður enn hann rak út af höfninni, en vélin var í ólagi svo þeir gátu eigi komið henni á stað og urðu því að hverfa frá við svo búið og náðu naumlega heilu og höldnu á land.
Norðri segir af tíð - og kveður sumarið:
[13.] Tíðarfar hefir verið hið æskilegasta að undanförnu. Stormhrina var dálítil af suðri síðasta föstudag [9.]. Annars stillt veður og blítt eins og á vordag.
[20.] Nú er sumarið að kveðja; eitt hið besta og hagstæðasta sumar, sem elstu menn muna eftir. Vorið var gott, svo skepnuhöld urðu í betra lagi. Grasspretta mjög álitleg í júnímánuði, en eftir 26.júní þegar hinir óvanalegu vatnavextir gengu yfir Norðurland, brá til fullmikilla þurrka, sem héldust fullar 3 vikur og drógu heldur úr grasvexti á snöggum mýrum, sem urðu of þurrar og á harðvelli, þó var grassprettan í betra lagi yfirleitt, heyskapartíðin ágæt og nýting á heyjum hin besta. Þá hefir hausttíðin verið óvanalega góð. Það er sjaldgæft að svo sé farið í þrennar göngur á sama hausti að eigi verði vart við nýjan snjó eða frost í fjöllum. Bændurnir í sveitunum horfa því vongóðir til hins komanda vetrar, enda ætlar hann ekki að sýna sig fyrr en almanakið segir til.
Þjóðviljinn segir af októbertíðinni:
[13.] Tíðin hefir undanfarið verið góð, oft hitar og blíðviðri, rignt hefir, þó öðru hvoru og aðfaranótt sunnudagsins [11.] snjóaði niður undir sjó og síðan hefir verið stormur og úrkoma.
[20.] Stormar og rigningar hafa verið alla síðustu vikuna. Aldrei verulega gott veður, þótt þurr hafi hann verið stund og stund.
[27.] Votviðrasamt hefir verið nú um hríð og stormar miklir.
Norðurland kveður sumarið 24.október:
Sumarið kvaddi í gær, líklega veðurblíðasta sumarið sem nokkur núlifandi íslendingur hefir lifað hér á landi, rétt eins og frumvarpsdeilan [uppkastið] hefði þokað landinu óraveg suður á leið til Danmerkur. Það mun þó sitja kyrrt á sínum stað ennþá. Veturinn heilsar í dag með hita og blíðu, bláum himni og grænum hlíðum.
Vestri segir þann 31.október frá því að þann 22. hafi þak fokið af íbúðarhúsi séra Kjartans Kjartanssonar á Stað í Grunnavík.
Ingólfur segir frá þann 2.nóvember.
Á fyrra laugardagakveld [24.] drukknuðu 5 menn á Blönduósi. Þeir fluttu Zöllner yngra út í skipið Norröna", sem lá þar á höfninni. Veður var kyrrt, en dimmt í lofti og náttmyrkur á komið. Á leiðinni í land rakst báturinn á sandrif í ósnum og hefir hvolft. Ekkert sást til ferða bátsmanna, hvorki frá skipinu né úr landi, en köll heyrðust í land og var ljós borið niður á eyrina, en það var um seinan. Rak þrjú líkin i land þegar um kveldið og fjórða um nóttina, en eitt líkið var ekki fundið, er fréttin barst. Bátsmennirnir vóru flestir úr sveit og munu hafa verið óvanir á sjó.
Vöruskipið Norröna" strandaði við Hvammstanga á laugardaginn [31.]. Menn björguðust. Skipið laskaðist eitthvað og fer björgunarskipið Svava" norður héðan í dag til þess að gera við það ef unnt er.
Nóvember: Nokkuð hagstæð tíð. Hiti í meðallagi.
Þjóðviljinn segir þann 24. frá skipstrandi og miklum hrakningum:
Aðfaranóttina 4. nóv. þ.á. strandaði enskur botnvörpungur á Fossfjöru í Hörgslandshreppi í Vestur-Skaftafellssýslu, skammt fyrir austan svo nefndan Veiðiós. Skip þetta hét Japan", 84 smálestir að stærð, skipstjóri Charles Cook, og átti heima í borginni Hull. Hafði það lagt af stað þaðan að morgni 31. okt., og urðu skipverjar eigi varir við land, fyrr en þeir rákust á grunn, sem fyrr segir, enda var afskapaveður, og sjórót, með bleytukafaldi. Skipverjar voru tólf að tölu, og komust þeir allir lifandi úr skipinu, en fengu sandbyl er í land kom, sem fyllti nær augu, og fleiri skilningarvit þeirra, og urðu að vaða yfir breiðan ós, þar sem þeir sukku öðru hvoru í sandbleytu upp fyrir hné þeir höfðu og eigi haft tíma, til að taka mat með sér úr skipinu, svo hungur svarf brátt mjög að þeim. Vissu skipbrotsmenn og ógjörla, hvert stefna skyldi, til þess að ná til bæja, og varð um það ágreiningur, svo að þeir skiptust í tvo flokka, er sinn fór i hvora áttina, með því að sumir fylgdust með skipstjóra, en aðrir með stýrimanni. Skipstjóra, og þeim, sem með honum voru, varð það til bjargar, að þeir rákust á stiku, sem Thomsen, konsúll, hefir látið reka þar niður í sandinn hér og hvar til að vísa skipbrotsmönnum til Orrustustaða á Brunasandi, og komust þeir þangað loks við illan leik, nema einn, er lémagnaðist, og dó úr þreytu, kulda og vosbúð. Að því er á hinn bóginn snertir stýrimann, og þá, sem með honum voru, sást til ferða tveggja af þeim frá bænum Sléttabóli, og var hinna þá leitað, og tókst að bjarga þeim til bæjar, nema einum úr þeim hóp, sem látist hafði af vosbúð og þreytu.
Ísafold segir þann 11.:
Eftir einmunatíð að hlýindum í alt haust brá til norðuráttar og nokkurs kalsa um helgina sem leið. Austlægur i dag. Frostleysur að mestu enn.
Norðri segir af tíð þann 24.nóvember:
Tíðarfar er stöðugt óvenjugott. Elstu menn muna ekki aðra eins veðurblíðu á þessum tíma árs á eftir jafngóðu sumri og hausti. Það er fyrst nú í þessari viku að fölgvað hefir nokkuð.
Reykjavík segir þann 28.nóvember:
Ofsaveður kvað hafa verið á Ísafirði aðfaranótt 24. þ.m., eitthvert hið versta er menn þekkja þar. Hafði sjór gengið upp á götur kaupstaðarins og bátar brotnað. Daginn eftir var þar hríðarbylur.
Austri segir af ofsaveðri í frétt þann 28.nóvember:
Ofsaveður af norðvestri með fannkomu töluverðri gjörði hér aðfaranótt hins 24. þ.m. Veður þetta olli allmiklum skemmdum hér á bæjarsímanum: brotnuðu þrír staurar meðfram Búðareyrarveginum. Mun það vara í allmarga daga þar til búið verður að bæta þann skaða og koma símanum í samt lag aftur. Einhverjar skemmdir höfðu og orðið á bátum er slitnuðu frá festum og ráku í land.
Ingólfur segir frá þann 29.nóvember:
Ofsaveður hafa verið í vikunni sem leið víða um land. Á miðvikudagskveldið 25. þ.m. fórst enskt botnvörpuskip úti fyrir Aðalvík vestra með allri áhöfn. Þrjú lík vóru rekin á fimmtudagskveldið. Fjórtán ensk botnvörpuskip náðu höfn í Dýrafirði, sum allmjög brotin og menn stórlega meiddir. Var þá vant tveggja skipa: Paragon" og Queen Alexandra", beggja frá Hull. En talið er víst, að annaðhvort þeirra sé skip það er fórst fyrir Aðalvík, og efasamt þykir að hitt sé heldur ofansjávar. Hafði verið hið mesta felliveður vestra og fannkoma allmikil.
Veðrátta var afbragðsgóð í allt haust víða um land, einkum norðan lands. Vóru þar lengst af sólskin um daga og sunnanvindar hlýir. Sunnanlands hefir verið úrkomusamt. Nú hefir veðrafar verið svipult um hálfan mánuð og þó helst síðustu dagana. Lára" hefir legið hér á höfninni afhafnalaus dögum saman vegna ofviðris.
Vestri segir þann 5.desember frá tjóni í Arnarfirði þann 24.nóvember:
Tveir mótorbátar brotnuðu að Bakka í Arnarfirði í ofviðrinu um daginn. Annar lá þar á höfninni og rak í land, og náðist vélin úr honum óskemmd. Hinn stóð á landi, en brimið tók hann út og mölbraut bæði bát og vél.
Þjóðviljinn segir frá þann 24.desember:
Þilskip rakst á bryggju á Þingeyri í ofsaroki 24. nóvember síðastliðinn, og varð fyrir nokkrum skemmdum.
Þjóðviljinn lýsir veðri í nóvember í nokkrum pistlum:
[2.] Tíðin hefir verið mjög góð síðustu dagana. Stillur og hlýtt í veðri.
[14.] Enn helst óvenjulega góð haustveðrátta, og sást í fyrsta skipti snjór á láglendi hér syðra í þessum mánuði.
[19.] Tíðarfar votviðrasamt í meira lagi, en snjór enginn á láglendi hér syðra, fyrr en nú síðustu dagana.
[24.] Tíðarfar hagstætt, en áfreðar nokkrir á jörðu og blotar þó öðru hvoru.
[28,] Frost nokkur, síðan blað vort var siðast á ferðinni, og kafaldsfjúk í gær.
Kirkjan að Reykjum í Ölfusi fauk í ofsaveðri 27. nóv. þ.á., kvað hafa oltið um, og færst um 10 fet af grunni. Í hríðarbylnum 27. nóv. kvað Einar bóndi Gottsveinsson, í Hjarðarnesi á Kjalarnesi, hafa misst í sjóinn megnið af fé sínu.
Vestri segir þann 21. frá borgarís á Húnaflóa:
Farþegar á Lauru" sögðu, að alllangt austur af Horni hefði staðið afarstór hafísjaki, að minnsta kosti 120200 feta hár fyrir ofan sjávarmál. Sigldu þeir í kringum hann og þótti sjónin bæði stórfengleg og einkennilega fögur.
Norðurland segir þann 28.nóvember:
Lengi hafði gott gengið; fyrstu snjóar, svo teljandi væri, kom í þetta sinn mánuði fyrir jól og er næsta fátítt. Væg norðanhríð hér á mánudaginn [23.] og snjókoma töluverð í gær af austanátt.
Desember: Snjólétt og lengst af hagstæð tíð. Mikið hvassviðri milli jóla og nýárs. Fremur hlýtt.
Austri segir þann 18.: Mikinn snjó hafir sett niður undanfarna viku.
Norðri segir þann 30.: Jarðskjálftakippur allharður fannst hér að morgni annars dags jóla kl. sex.
Norðri birti þann 31. fréttir úr Þingeyjarsýslum:
Frá Norður-Þingeyingum. Árferði og tíðarfar. - Tíðarfar í sumar og haust mjög gott, og heyskapur mun yfirleitt vera í betra meðalagi, og nýting heyja hin besta, en núna með desember fór að spillast og er hér nú mjög. mikill snjór, svo að jarðlaust er út undir sjó, og hestar og lömb komið á gjöf við sjávarsiðuna, og er það óvanalega snemma.
Frá Mývetningum. 18. des. 1908. Tíðin hin ágæta, indæla, sem enginn mundi aðra eins yfir sumarið og haustið og langt fram á vetur er nú orðið breytt í skuggahríðar og skammdegisdrunga. Eigi þó snjóþungt enn hér.
Þjóðviljinn lýsir desembertíðinni:
[6.] Rigningar og stormar fyrri hluta vikunnar, en stillt veður með hægu frosti nú um helgina.
[12.] Stillt og heiðskírt veður síðustu daga, en frost nokkurt.
[24.] Tíðarfar rigninga- og stormasamt undanfarna daga.
[31.] Rigningasamt, síðan fyrir jólin, og marauð jörð i byggð.
Austri birti þann 15.janúar 1909 bréf úr Lóni í Austur-Skaftafellssýslu, dagsett 19.desember:
Ég sé á blöðum að norðan, að síðastliðið sumar er þar talið hið veðurblíðasta og hagfelldasta, sem komið hafi síðan 1880, og megum vér Heiðsynningar" framanlands taka undir það að sumu leyti. Eins miklir hitar og sólskinsblíður munu hér eigi hafa komið síðan sumarið 1880, en betri hefir grasvöxtur verið stundum (þótt góður mætti nú heita), og að vísu var nýting hin besta lengi fram eftir, en þó urðu að lyktum úti hey hjá ýmsum í rigningunum miklu, sem dundu yfir þá er hausta tók, og héldust látlaust að kalla allt fram á vetur. Frá því snemma í nóvember hafa einatt verið umhleypingar milli frosts og þíðu, snjókomur og rigningar, en sjaldan mikið frost (mest 9°R. 26.nóv.), hefir því víða orðið slæmt í högum og skepnur komist snemma á gjöf, og nú er kominn mikill snjór til fjalla og láglendi víða fönnum þakið. 11.12. nóv. var rokviðri með óvenju miklu sjávarflóði, er ollu sköðum á nokkrum bátum hér í sveit. Skaraveður var 25., og 27. nóv. blindbylur, sem endaði þó með blota. Tíðarfar hefir yfirleitt verið með óhagstæðasta móti þetta haust og það sem af er vetrinum. Meiri hluti september var mjög votviðrasamur, en í október keyrði fram úr, svo að til mestu vandræða horfði með fjallskil öll, fjárrekstra til kaupstaða, og skal þess getið til dæmis, að í eina göngu í Stafafellsfjöll (Kollamúla og Víðidal) gengu 77 dagsverk af 4 bæjum (5.18. okt.). Vatnavextir voru með langmesta móti og ár ófærar dögum saman. Fé var yfirleitt vænt eftir sumarið, en hraktist mjög og rýrnaði á leiðinni til kaupstaða, svo að sumarhöldin komu ekki að fullum notum.
Þjóðviljinn segir þann 9.janúar 1909 frá skipstrandi og manntjóni þann 22.desember:
Botnvörpuveiðagufuskipið Washington", frá Grimsby, rakst á sker í Selvogi 22. desember síðastliðinn Hvassviðri var, og afskaplegt brim, og heyrðust köll skipverja heim að bænum Nes í Selvogi, en engin tök voru á því, að komast út í skipið, sakir brimsins. Daginn eftir, á Þorláksmessu, var sama afskapa-rokið, en þó var þá brotist í því að manna út áttæring, til þess að komast fram í botnvörpunginn, en eigi lendandi við hann, sakir ósjóa. Loks tókst þó skipverjum, að varpa kaðli frá skipinu, er menn þeir, sem i áttæringnum voru, náðu í og úr kaðlinum voru skipverjar, sem á lífi voru siðast dregnir yfir í áttæringinn, einn og einn í senn. Af skipverjum höfðu fjórir látist af kulda og vosbúð, en níu var bjargað. Þeir sem létust voru: stýrimaður og þrír hásetar. Hinir, sem bjargað var, voru og mjög þrekaðir, en hresstust þó vonum bráðar.
Gríðarlegt illviðri gerði um landið sunnanvert aðfaranótt 29.desember. Hér er reynt að tína saman helstu fregnir af því.
Þjóðólfur segir 8.janúar 1909:
Aftaka-ofviðrið aðfaranóttina 29. [desember] hefur valdið almennari og stórkostlegri skemmdum til sveita hér sunnanlands, en dæmi eru til áður af samskonar orsökum. Einkum hefur tjónið orðið mikið í Rangárvallasýslu og efri hluta Árnessýslu. Veðrið var harðast frá kl.11 til kl.3 um nóttina, og stóð af austri; var þá engum manni úti stætt, heldur varð fólk að skríða á fjórum fótum. Verður hér minnst talið af skemmdum þeim, er þetta voðaveður olli, enda ekki enn komnar svo greinilegar fregnir um það. Undir Eyjafjöllum og í Landeyjum og í neðri hluta Árnessýslu hefur ekki heyrst getið um neinar stórskemmdir og hefur veðrið verið þar vægara heldur en efra.
Í Fljótshlíð urðu nokkrar skemmdir, þar á meðal fauk mikið af járni af íbúðarhúsi séra Eggerts á Breiðabólsstað og rauf þakið að nokkru. Í Hvolhreppi kvað meira að skemmdunum, sérstaklega hjá bændunum á Árgilsstöðum, Bergsteini Ólafssyni og Kristjáni Jónssyni. Þar fuku 2 heyhlöður og stofa með inngangi, fjós, eldhús og eitt útihús og 70- 100 hestar af heyi. Á Móeiðarhvoli fór þak af heyhlöðu og stóru hesthúsi. Á Stóra-Hofi á Rangárvöllum heyhlaða, hesthús og fjárhús, á Vindási í Oddahverfi um 100 hestar af heyi og á Selalæk hey og heystæði. Á Helluvaði brotnuðu allar rúður úr timburhúsinu þar, íbúðarhúsi bóndans, Jónasar Ingvarssonar, því að sandmöl þeyttist á gluggana með svo miklum krafti. Flúði alt fólkið úr húsinu og varð að fleygja sér niður og skríða út í heyhlöðu, því að óstætt var. Var mesta furða, að íbúðarhúsið skyldi standast veðrið, þá er gluggarnir brotnuðu. Skaði sá, er bóndinn varð fyrir, metinn 3400 kr. Í Lambhaga hafði dálítill malarsteinn brotið gat á glugga, svo að ekki sprakk út frá, alveg eins og byssukúlu hefði verið skotið gegnum rúðuna. Í Holtunum urðu miklar skemmdir víða, t.d. fauk vönduð heyhlaða á Brekkum og töluvert (um 6080 hestar) af heyi í Bjóluhjáleigu o.s.frv. Uppi á Landi urðu og skaðar. Fauk þar þak af bænum í Flagbjarnarholti (Flagveltu), en af heyhlöðu í Heysholti og hey fauk á báðum stöðunum.
Í Árnessýslu urðu skemmdirnar mestar á Skeiðum, í Hreppum og í Biskupstungum, enda kveður svo mikið að þeim þar, að þær kváðu vera af kunnugum mönnum metnar á borð við skemmdirnar af jarðskjálftunum 1896 í þeim sveitum, eða engu minni. Báðar sóknarkirkjur séra Valdimars Briems fuku: Stóranúpskirkja, er fleygðist fram á tún og mölvaðist þar og Hrepphólakirkja í Ytri hrepp, er þeyttist upp i brekku, 56 álnum ofar en hún stóð, og hefur tekist í fyrstu það hátt í loft upp af grunninum, því að hvergi hafði hún komið við á leiðinni. Þar í brekkunni brotnaði frá henni kórinn og þeyttist hærra upp í brekkuna, en brotin úr honum fóru yfir hæðina og vestur á Hólamýri. Kirkja þessi var aðeins 3 ára gömul, og er þetta skaði mikill fyrir fámenna sókn, er tekið hafði kirkjuna að sér. Er svo sagt í bréfi þaðan að austan, að hún hafi verið í skuld og óvist, hvort hún verði reist aftur þar í Hrepphólum, en líklega kljúfa sóknarmenn þrítugan hamarinn til þess, nema svo verði, að ein kirkja verði reist fyrir báðar sóknirnar t.d. syðst eða sunnar sunnarlega í Eystrihrepp, en vitanlega hagar fremur illa til um það.
Að því er frést hefur um skemmdirnar í Eystrihrepp, þá fuku þar heimahlöður í Ásum, Þjórsárholti, Skarði og Sandlækjarkoti. Á þessum síðastnefnda bæ fauk og skemmuhús og hálft fjósið, tvær útihlöður í Hlið og ein á Hæli. Mjög mikið heytjón varð, og á öllum þessum bæjum. Á Sandlæk fauk t.d. heilt hey algerlega. Grjótvarða er staðið hafði afarlengi á Hlíðarfjalli, skammt frá bænum í Hlíð hrundi öll og fauk. Á Reykjum á Skeiðum fauk heyhlaða og tvær hlöður og skemmuhús hjá Þorsteini bónda Jónssyni á Húsatóftum, heyhlaða á Eiríksbakka og önnur á Ósabakka. Í Ytri-hrepp urðu mjög miklar skemmdir. T.d. fuku þrjár heyhlöður í Birtingaholti, þrjár í Syðra-Langholti, tvær í Dalbæ, tvær á Sólheimum, ein í Galtafelli, ein á Sóleyjarbakka, ein i Jötu, hlaða og fjós á Þórarinsstöðum, hlaða á Hrafnkelsstöðum, sem tók 1100 hesta og fóru þar um 100 hestar af heyi. Allmikið heytjón varð og í Núpstúni, því að torf tók þar af 4 heyjum. Af baðstofunni í Unnarholtskoti rauf allt þakið og braut niður hesthús, en 5 hestar, er í því voru, voru allir óskemmdir. Í Efra-Langholti urðu nokkur lömb undir húsþaki, er á þau féll, en annars hefur ekki frést um skepnutjón í ofviðri þessu.
Um skemmdir í Biskupstungum hefur eigi frést glögglega enn, en allmikið hafði þar að þeim kveðið, heyhlöður fokið mjög víða. Suður í Flóa urðu ekki almennar skemmdir í veðri þessu, að eins á stöku bæ varð nokkurt tjón. Í Hraungerði fauk t.d. þak af sauðahúsi og hlöðu. Í Ölfusi urðu litlar sem engar skemmdir. Hér syðra urðu og allmiklar skemmdir af veðri þessu, en hvergi nærri eins miklar og austanfjalls. Það er einkum á Kjalarnesi og í Kjós, sem ofviðrið hefur gert mestan usla. Í Saurbæ á Kjalarnesi fauk þak af hlöðu og töluvert af heyi. Á Jörfa og Vallá urðu og heyskaðar og í Brautarholti fauk þak af fjárhúsi. Á Hurðarbaki í Kjós fauk hlaða og fjós og 40 hestar af heyi. Reykholtskirkja hafði eitthvað haggast til muna, en þó ekki farið alveg af grunninum eða fallið um koll. Í efri hluta Mýrasýslu: Hvítársíðu, Þverárhlíð og Norðurárdal, og enda víðar um sýsluna, urðu og allmiklar skemmdir, einkum á heyhlöðum.
Enn segir af sköðum í framhaldsfrétt í Þjóðólfi þann 15. og 29. janúar:
[15.1.1909] Skemmdirnar af ofviðrinu austanfjalls 29. des. er skýrt var frá í síðasta blaði, urðu, eins og þar er sagt, mestar i uppsveitum Árnessýslu. Í Biskupstungum fuku hlöður og hey á mörgum bæjum, t. d. Auðsholti, Iðu, Skálholti, Bergsstöðum, Drumboddsstöðum og víðar, á sumum bæjum tvær hlöður og sumstaðar þrjár. Svo sagði maður nýkominn að austan, að hjá einum bónda í Gnúpverjahreppi væri tjónið metið allt að 2000 kr., og er það afarmikið. Í Flóanum urðu fremur litlar skemmdir. Þó fauk stór og vönduð heyhlaða hjá Jóni oddvita Jónssyni i Holti í Stokkseyrarhreppi, og íbúðarhúsið þar hætt komið. Um skemmdir í Grímsnesi og Laugardal hefur ekki heyrst getið. Í síðasta blaði var talað um verulegar skemmdir á Stóra-Hofi á Rangárvöllum, en eftir síðari upplýsingum hafa þær orðið á næsta bæ, Minna-Hofi.
[29.] Árnessýslu (Biskupstungum) 19.jan. Fréttir eru engar, nema miklir skaðar af veðrinu, sem var nóttina á milli 2829. f.m. Á eftirtöldum bæjum hafa fokið hús: Eiríksbakka: heimahlaða og um 100 hestar af heyi. Í Skálholti hjá Jóni fjárhúshlaða. Á Iðu: 3 fjárhúshlöður og heimahlaða hjá Páli og fjós hjá honum líka. Í Auðsholti: hjá Bjarna heimahlaða og skúr, og fór mest af járninu í Hvítá. Um 100 hesta heytjón varð þar á bænum. Í Felli: heimahlaða og partur af eldhúsinu brotnaði inn. Á Bóli: skúr áfastur við hlöðuna, og járnplötur af henni. Á Kjaransstöðum: fjárhúshlaða og af annarri hliðinni á heimahlöðu. Á Bergstöðum: heimahlaða og fjárhúshlaða. Heytjón þar mikið. Á Drumboddsstöðum hjá Gróu Þorsteinsdóttur: heimahlaða og fjárhúshlaða, Um heytjón þar ekki vel kunnugt, en varð víst allmikið. Á Gýgjarhóli var heimahlaðan með brotnu þaki, og fauk það af henni. Í Brattholti fauk ofan af eldiviðarhúsi, eldhúsi, fjósi og af fjárhúshlöðu. Í Fellskoti kom gat í gegnum þakið á heimahlöðunni; auk þess missti bóndinn þar 30 40 hesta af heyi, sem var utanhlöðu. Á Torfastöðum fauk þakið af fjósinu, en þegar það var farið stóð vindurinn beint undir þakið á hlöðunni, en það hefur víst bjargað henni, að það hrukku úr henni báðir hlerarnir. Veðrið var af austurlandsuðri og er víst það mesta, sem menn muna. Harðast segja flestir að það hafi verið frá kl. 121 um nóttina og á þeim tíma hafa víst flest fjárhúsin farið.
Enn segir Þjóðólfur af tjóni í veðrinu og birtir 12.febrúar 1909 bréfkafla úr Meðallandi, dagsettan 28.janúar. Þar segir um veðrið:
Hið mesta aftakarok, er menn muna, varð hér hinn 29. desember, ekki varð það samt almennt stórkostlega að tjóni í þessum næstliggjandi byggðarlögum. Þak fauk af hlöðu hér í Meðallandi, á Ytri-Lyngum, og annarri í Landbroti. En svo fer það að verða meira, þegar kemur út í Mýrdal og lengra vestur.
Þjóðviljinn 31.desember:
Í ofsarokinu aðfaranóttina 29. þ.m. sökk fiskiskúta á Eiðsvík, og ýmis skipa þeirra, sem þar eru í vetrarlagi rákust á, og brotnuðu, meira eða minna. Tvö fiskiskip kvað og hafa rekið í land þar inn frá. Skipin eru i vetrarlægi vátryggð i þilskipaábyrgðarfélagi Faxaflóa, sem bíður mikinn hnekki, og eigi ósennilegt, að landssjóður verði á komanda alþingi að hlaupa undir bagga.
Þjóðviljinn birti þann 18.janúar 1909 bréf úr Árnessýslu þar segir m.a.:
Um stórviðrið, er dundi yfir sýsluna aðfaranóttina 29. f.m. hefir Þjóðólfur flutt ítarlega skýrslu, er þar litlu við að bæta. Hér um Flóann var veðurhæðin mjög mikil, en ekki byljótt vegna sléttlendisins, hefir annað eins veður ekki komið í manna minnum af þessari átt. Mestur skaði varð hjá oddvita Jóni í Holti í Stokkseyrarhreppi Þar fauk auk annars, stór og rammgjörð heyhlaða og kom fjarri niður, öll var hún mölbrotin. Skip fuku ekki vegna þess, að daginn áður höfðu menn athugun á, að ganga frá þeim, til merkis um styrkleik veðursins á aðal-stormlínunni [svo] skal þess getið, að nýbyggð trébrú, skammt frá Birtingaholti, er vóg að efni full 7000 pd. fauk (hún) í heilu lagi 78 faðma af stöplunum ofan í ós þann, er hún lá yfir. Um þyngslin vissu menn vel, vegna þess að efnið var flutt þannig, að tekið var burðargjald eftir vigt. Mesta mildi þótti, að ekkert varð að Ölfusárbrúnni í veðri þessu, sem stóð á hana flata, á 180 álna lengd. Brúin liggur hátt, er þar veðrasamt í flestum áttum. Svo hafði brúin tekið miklar sveiflur uppá við um nóttina, að pípurnar í hliðargrindverkinu höfðu færst um 45 þumlunga út frá stuðlum þeirra, sem þær leika í, mest ber á þessu um miðja brúna; hvergi hafði þó brostið stöng, eða þolinmóður, enda var nýlega búið að yfirfara þetta allt, og athuga, og hreinsa hvern skrúfnagla. Sést meðal annars á þessu, hve afar-nauðsynlegt er að halda öllu skrúfi, og þolinmóðum, hreinum og í góðu lagi á brúm þeim, sem verði að sveigja sig og beygja hvort heldur fyrir umferð, stórviðri, eða jarðskjálfta. Síðan íhlaup þetta, hefir veðrið verið gott.
Ísafold lýsir jóla- og áramótaveðri þann 2.janúar 1909:
Rauð hafa jólin verið þessi, hárauð, þangað til i fyrradag [gamlársdag], að fölva gerði lítils háttar, en nú komin hláka aftur. En stórviðrasamt mjög. Einkum voru fáminnileg aftök aðfaranótt 29. [desember].
Í Austra þann 9.janúar 1909 er yfirlit um veðurlag á Fljótsdalshéraði 1908:
Janúarmánuður byrjaði með blíðviðri og var snjóléttur og veðursæll. Þann 22. gjörði mikið hlákuveður svo ís hljóp af ám, er urðu illar yfirferðar, þær er ekki eru brúaðar. Grímsá á Völlum var ófær þann dag Er Héraðsmönnum næsta hughaldið, að á þessi væri brúuð, þar hún er einhver versti farartálmi Héraðsins og för yfir hana bundin mikilli hættu þegar hún er í vexti, enda hafa margir menn fyrr og síðar drukknað í Grímsá. Síðast fyrrverandi óðalsbóndi Sigurður Hallgrímsson á Ketilsstöðum. ...
Febrúarmánuður var nokkuð hvassviðrasamur. Jörð stóð að mestu auð til hins 21. Gjörði þá snjó nokkurn, einkum 28. þ.m. ...
Marsmánuður náði því harðasta úr vetrinum, þótt hann væri ekki mjög snjóasamur. 8.11. gjörði austan snjó mikinn einkum á Úthéraði, en jarðbönn urðu ei mikil. Hinn 19. hlánaði og gjörði jörð alauða í byggð dagana 22. til 28. Þá gjörði aftur snjó nokkurn síðustu daga [mánaðarins]. ...
Aprílmánuður var mjög veðurblíður frá 5. til hins 20. svo humall sprakk út á víði og jörð tók að gróa fyrir páska. Um páskana kólnaði nokkuð, en brátt hlýnaði veður aftur, er hélst út mánuðinn. ...
Maímánuður var fremur þurrviðrasamur og kaldur, þótt tíðarfar mætti kalla gott eftir því er stundum gjörist að vorlagi. Jörð greri því fremur seint, samt gekk búsmali allur vel undan vetri. Öll vorverk, túnvinna, jarðabætur, sáning og fleira gengu vel frá hendi. Nálægt miðjum mánuði var nautpeningur látinn út, en gefið með, enda lítið gróið þá vegna kulda og þurrka.
Júnímánuður var mikið veðurblíður. Fram yfir fardaga var góð grastíð og greri þá vel. Eftir fardaga kólnaði dálítið. Síðari hluta [mánaðarins] gjörði mikla hita og þurrka. Þó gjörði af og til daggir og skúra einkum upp til dala, svo tún urðu víðast hvar allvel sprottin, en þó bar á ofþurrki í görðum, og á háhólum og börðum sá votta fyrir bruna.
Júlímánuður var mjög þurrviðrasamur, en næturdögg og þoka af og til. Grasvöxtur varð því í meðallagi og öllu betri sumstaðar. Heyskapur byrjaði almennt dagana 6.12. Meiri hluti af töðum manna voru hirtar í þessum mánuði og var nýting á þeim hin besta.
Ágústmánuður var allur hagstæður hvað heyafla snertir, en oftast mjög þurrviðrasamur svo jörð þornaði mjög. Uppsprettur og pyttir 24 fet á dýpt þornuðu. Mýrar urðu svo þurrar, að þar sem vant var að vera kviksyndi mátti flekkja og þurrka hey. Útengi voru samt víðast hvar allvel sprottin og nýting góð á heyjum. Hitar urðu miklir í ágústmánuði, þannig var 18° á C. fyrsta dag þ.m. að kvöldi og dagana 15.19., var 2026° undan sól. En jafnframt komu í ágúst nærfellt hinir köldustu dagar á sumrinu, t.d. 27.31. voru fjöll hvít af snjó. Féll þá víða kartöflugras í görðum og tjáði ekki þótt það væri árdegis þítt í vatni, kuldarnir urðu of langgæðir.
Septembermánuður var sérstaklega hagstæður að tíðarfari. Lauk slætti að mestu um og eftir þ.20. Urðu hey manna almennt yfir bæði mikil og góð.
Októbermánuður var allur svo mildur og góðviðrasamur að lengi mun í minnum haft. Öll haustverk, ferðalög, bygginga- og jarðabótavinna gengu því mjög vel. Veturnæturnar", 20.24. voru svo veðurblíðar sem um miðsumar væri, 12 til 14° hiti á C undan sól. Nýr gróður tók að spretta. Fíflar, sóleyjar o.fl. blóm sprungu út. Þannig endaði þetta góða, og í flestu tilliti hagstæða sumar.
Nóvembermánuður. Góð vetrarveður voru í þessum mánuði til þess 21. Gjörði þá snjó nokkurn, en allgott var í högum út mánuðinn.
Desembermánuður var mjög snjóasamur með jarðbönnum nokkrum einkanlega á Úthéraði. Þó hlánaði 21. þ.m. einkum á Uppsveitum". Á jólum tók snjó upp með miklu regni og hvassviðri af suðri. Dagana 27.30. voru illveður með krapa-hríðum. Nóttina milli hins 30. og 31. hlánaði nokkuð aftur, svo síðasta dag ársins beit fé úr auðum hnjótum, er þó var jörð snjóminni upp til dala.
Lýkur hér að sinni frásögn hungurdiska af hinu hagstæða ári 1908. Að vanda eru ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt 20.3.2019 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2019 | 21:41
Órólegra
Þó fremur lágur loftþrýstingur hafi verið ríkjandi upp á síðkastið hafa kröftugar lægðir samt ekki mikið verið að angra okkur. Aðalátök veðrakerfa norðurhvels hafa átt sér stað annars staðar. Nú virðist einhver breyting verða á - í bili að minnsta kosti. Kuldapollurinn mikli, Stóri-Boli, virðist ætla að bylta sér nokkuð og hreinsa til við Atlantshaf - nær fullum vetrarstyrk á sínum heimaslóðum í Norður-Kanada, kannski í síðasta sinn í vetur.
Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum gildir um hádegi á þriðjudag, 19.mars. Þá er hreinsun í fullum gangi - vestanáttin nær um kortið þvert frá Kanada í vestri, til Skandinavíu í austri. Enn er ekki mjög kalt við Ísland, hiti ofan frostmarks á láglendi.
Aðalkuldinn er vestan Grænlands, þar er frostið í 850 hPa-fletinum meira en -35 stig, um 30 stigum kaldara en hér við land. Við sjáum að jafnþrýstilínur liggja þvert á jafnhitalínur milli Labrador og Grænlands - þar er kalt loft greinilega í sókn, en samt ekki mjög afgerandi. Norðar stíflar Grænland framrás kuldans - að mestu. Spár eru ekki alveg sammála um það hversu mikið af kalda loftinu sleppur yfir jökulinn - og í átt til Íslands. Kannski við fáum að sjá heiðarlegan útsynning þegar kemur fram undir miðja viku?
Fyrir utan þá óvissu sem felst í möguleikum kalda loftsins af Grænlandi er töluverð óvissa samfara inngjöf á hlýju lofti úr suðri - það kemur á móts við kuldann úr vestri. Við sjáum dálitla lægð við suðurjaðar kortsins. Sem stendur gera spár ráð fyrir því að hún fari hratt til norðausturs um Færeyjar og til Noregs - gæti orðið skæð þar - og létt á útsynningi hér á landi um leið og hún rennur hjá.
Síðar í vikunni er annarri lægð spáð svipaða leið. Sumar reiknirunur gera ráð fyrir mikilli dýpkun hennar - en aðrar ekki. Við sleppum því að velta okkur upp úr slíku þar til nær dregur - oftast eru spár afskaplega ótryggar þegar þær eru að fást við meir en 3 til 4 daga - ekki síst í stöðu sem þessari.
Eins og oft hefur verið rætt um hér á hungurdiskum að undanförnu hefur reyndin jafnan orðið sú í vetur að linari spár hafa frekar ræst en þær harðari - vonandi heldur sú staða áfram sem lengst.
17.3.2019 | 02:48
Árstíðasveifla hámarks- og lágmarkshita (2)
Við höldum áfram að horfa á árstíðasveiflu hámarks- og lágmarkshita. Í dag eru það ítrustu útgildi hvers almanaksdags, svonefnd landsdægurhámörk og lágmörk.
Lárétti ásinn sýnir mánuði ársins (og rúmlega það til að við þurfum ekki að skera sumar eða vetur í sundur). Lóðrétti ásinn er hitakvarði. Efsti ferill myndarinnar sýnir hæsta hita hvers almanaksdag ársins, hæstu gildin auðvitað á sumrin. Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu er 30,5 stig, sem mældist á Teigarhorni í Berufirði 22.júní 1939. Ekki vitum við hvenær það met verður slegið, en að því mun koma. Nokkuð suð er í ferlinum, við eigum mörg hámarksdægurmet í vændum, fjölmargir dagar geta greinilega gert enn betur en hingað til. Þar á meðal er 5.mars en hann á sem stendur lægsta landsdægurhámark ársins, 12,3 stig. Veðurstöðvar sem mæla hita eru nú mun fleiri en áður fyrr og líkur á að veiða met þess vegna meiri. Við getum búist við 3-5 nýjum landsdægurmetum hámarks og lágmarks á hverju ári.
Neðar á myndinni má sjá lágmarksdægurmetin, lægst er landslágmarkið -38,0 stig, sem mældist bæði á Grímsstöðum á Fjöllum og í Möðrudal 21.janúar 1918. Mikið suð er í lágmarksferlinum yfir veturinn - þar bíður einnig fjöldi dægurmeta í framtíðinni, jafnvel við hlýnandi veðurlag. Hins vegar er suðið áberandi minna í dægurlágmarksferlinum að sumarlagi, hæsta dægurlágmarksmet ársins er -1,1 stig. Það á 3.júlí, nokkuð nærri sólstöðum. Rétt er að taka fram að hér er einungis miðað við byggðir landsins, hálendis- og jöklastöðvar þurfa sérmeðhöndlun.
Græni strikaferillinn á að sýna okkur spönnina á milli hámarks- og lágmarkshitans. Hún er um 30 stig að sumarlagi, en um 45 stig yfir veturinn. Tilviljun ræður því að hún er mest lágmarksmetsdaginn, 21.janúar, 52,9 stig. Dægurhámarksmet þess dags er 14,9 stig - gæti í framíðinni farið í 19 stig, hámarksspönnin á því eftir að aukast. Hiti þann dag gæti í framtíðinni farið í 19 stig eða meira og hámarksspönnin þar með í 57 stig. Fleiri dagar gætu einnig slegið þessum við. Spönnin er nú minnst 16.júlí, 25,7 stig - og getur ekki orðið minni. Lágmarksmet þess dags er nokkuð lágt miðað við árstíma, -2,1 stig, en hámarkið er lágt líka, 23,6 stig - lægsta dægurhámarksmet júlímánaðar sem stendur - gæti fallið hvenær sem er (en fær ekki nema eitt tækifæri á ári).
Ítrasta spönn, mismunur hæsta hámarkshita og lægsta lágmarkshita landsins, er 68,5 stig. Meðaldægurhámark landsins er 19,9 stig, en meðaldægurlágmark -18,0 stig.
Hugsa má sér hvernig umhorfs væri á Íslandi ef hámarksgildaferillinn sýndi meðalhita hvers dags en ekki útgildi. Tuttugu stiga ársmeðalhiti bendir á útjaðar hitabeltisins. Það er hærri hiti en hér hefur orðið á jarðsögulegum tíma (síðan landið varð til) - en kannski varð svo hlýtt á sambærilegu breiddarstigi á ofurhlýskeiðum eósentímans. Meðalhiti kaldasta vetrarmánaðar væri þá 15 stig, en meðalhiti hlýjasta mánaðarins 27 stig. Lágmarksferillinn með sínar 18°C minnir hins vegar á ísaldarástand og er reyndar líklegt að hitafari hafi einmitt verið þannig háttað á sumum köldustu tímabilum síðasta jökulskeiðs, hiti kaldasta mánaðar um -30 stig, en sumarhiti við sjávarmál rétt undir frostmarki. Það er nokkuð merkilegt að við fáum þó að sjá þetta ástand - þó það sé aðeins stund og stund á stöku stað á margra ára fresti. Við snertum það samt.
16.3.2019 | 01:55
Hálfur mars
Hálfur mars. Meðalhiti fyrstu 15 daga mánaðarins er 0.8 stig í Reykjavík, það er +0,1 stigi ofan við meðallag áranna 1961-1990, en -0,3 neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn er því í 12.hlýjasta sæti (af 19) á öldinni. Hlýjastir voru dagarnir 2004, meðalhiti þá var +6,0 stig, en kaldastir voru þeir 2002, meðalhiti -1,1 stig. Á langa listanum (145 ár) er hitinn í 63.sæti, sömu dagar 1964 eru efstir á listanum, meðalhiti +6,6 stig (eins og á miðju vori), en kaldastir voru sömu dagar 1891, meðalhiti -7,7 stig.
Meðalhiti dagana 15 á Akureyri er -1,8 stig, -0,8 neðan meðallags áranna 1961-1990, en -1,8 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára víðast hvar á landinu, mest -2,8 stig neðan þess í Svartárkoti, en ofan á fáeinum stöðvum, mest +0,6 stig á Raufarhöfn.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 35,8 mm og er það um þrír fjórðu hlutar meðallags sömu daga. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 19,6 mm - það er nærri meðallagi.
Sólskinsstundir hafa mælst 65,8 í Reykjavík það sem af er mánuði, rúmlega 20 stundum umfram meðallag, það átjándamesta sem vitað er um sömu daga. Flestar voru sólskinsstundirnar fyrri hluta marsmánaðar 1962, 134,7, en fæstar 1929, aðeins 9,1.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 12
- Sl. sólarhring: 183
- Sl. viku: 2459
- Frá upphafi: 2434569
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 2184
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 10
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010