26.3.2019 | 02:02
Af árinu 1813
Árið 1813 var hagstæðara en næstu ár á undan - alla vega hvað veðurfar snerti. Verslunarkreppa kom hins vegar illa við - enda mikið hrun hjá danska ríkinu. Peningaseðlar urðu meira og minna verðlausir. Heimildamenn bera sig misvel - finnst veðrið kannski ekki sem verst, en um leið og víkur að fiskafla og höndlun snýst álit á mun verri veg.
Veðurathuganir voru gerðar af dönskum strandmælingamönnum allt árið á Akureyri. Þær gefa allgóða mynd af tíðinni nyrðra. Meðalhiti ársins þar reiknast 2,2 stig, sá hæsti þeirra sex heilu ára sem mæliröðin nær yfir. Giskað er á að ársmeðalhiti í Stykkishólmi hafi verið 2,7 stig og 3,7 í Reykjavík. Tölur einstakra mánaða má sjá í viðhenginu.
Hlákur voru allmiklar í janúar, en heldur frostharðara í febrúar og mars. Snörp kuldaköst gerði fram eftir vorinu. Frost fór t.d. í að minnsta kosti -9,4 stig á Akureyri 13.maí. Sama dag mældist frost í Reykjavík -5,6 stig. Svo heppilega vill til að slæðingur af mælingum er til úr Reykjavík frá vori og fram á haust þetta ár. Þær voru prentaðar í Annals of Philosophy, júníhefti 1818.
Hlýtt var frá því fyrir miðjan júlí og fram í miðjan ágúst, en þá kólnaði nokkuð. Snemma í september gerði mjög slæmt kuldakast með hríðarveðri - meira að segja í Reykjavík, þó við vitum ekki hvort snjó hefur fest í bænum - en gerði það í nágrenninu. Eftir að kuldakastinu lauk gerði hins vegar hlýindi, og þá mældist hæsti hiti ársins á Akureyri þann 25.september - harla óvenjulegt að hiti þar fari yfir 20 stig svo seint sumars. Þó kalt hafi verið lengst af í október virðast veður ekki hafa verið mjög slæm. Talsvert snjóaði þegar leið á nóvember og í desember og kvartað var um áfreða - enda sjáum við merki um hlákur innan um frostin.
Til gamans sjáum við hér samanburð á kvöldhita á Akureyri og Reykjavík frá því um miðjan ágúst fram til 20.nóvember. Ánægjulegt er hversu vel ber saman. Kuldakastið snemma í september er mjög eindregið á báðum stöðum og um haustið fylgjast hlákur og frostakaflar vel að á stöðunum tveimur.
Myndin sýnir þrýstimælingar frá Akureyri árið 1813. Þar vekur helst athygli heldur lágur þrýstingur í júlí og framan af ágúst og háþrýstikaflar síðari hluta september og í október.
Annáll 19.aldar lýsir tíð og veðri svo:
Vetur var víðast um land góður frá nýári fram á þorra, síðan umhleypingasamur og harður. Vorið gott fyrir utan kuldakast um hvítasunnu. Sumarið heitt og grasár hið besta. Heyjafengur víðast í betra lagi, en nýting syðra sumstaðar slæm vegna rigninga. Haust og vetur fram að nýári var tíð mjög óstöðug, skiptust þá á regnhryðjur og bleytuhríðar. Var þó harðast um Norðausturland og þar jarðleysur tíðar. Ís kom eigi þetta ár.
Fiskafli var lítill þangað til um haustið að nokkuð rættist úr í sumum veiðistöðvum, þó var aflalaust fyrir Austurlandi. Hrognkelsafengur svo mikill á Skaga að elstu menn mundu eigi slíkan.
Á föstudaginn fyrsta í einmánuði [26.mars] fór skip af Langadalsströnd út til fiskikaupa í Bolungarvík, fórst það á heimleið með 6 mönnum. 21.apríl fórust tveir bátar af Vatnsleysuströnd með fjórum mönnum, og þriðji báturinn með þremur (óvíst hvenær). Sama dag drukknaði maður af bát í Innri-Njarðvík. ... Þetta vor er sagt að hafi orðið mannskaði mikill vestra deginum fyrir uppstigningardag [sem var 27.maí] (Þjóðviljinn 1899, 54. tölublað).
Björn bóndi í Rugludal í Húnavatnssýslu varð fyrir snjóflóði, komst til húsa um nóttina að bæ nokkrum, en dó skömmu síðar. ... Skriða hljóp á Svarfhól í Sökkólfsdal, drap þrjá hesta, kú og kálf. Veður braut Setbergskirkju.
Annállinn telur fjölda annarra mannskæðra slysa, bæði á sjó og landi, m.a. urðu margir úti. Engra dagsetninga er getið við þessa atburði og er þeim því sleppt hér. Geta má þó langrar hrakningasögu (s178 og áfram) á Breiðafirði þriðja miðvikudag í góu [10.mars].
Við reynum að rekja okkur í gegnum árstíðirnar með hjálp samtímaheimilda. Tíðarvísur Þórarins í Múla og Jóns Hjaltalín eru þó aftan við. Greinilegt er að annáll 19.aldar sækir mikið í þær - og sömuleiðis Þorvaldur Thoroddsen (sem við reynum að halda utan við yfirferð hungurdiska - að mestu).
Vetur:
Brandstaðaannáll: Í janúar góð tíð, frostalítið sunnan- og vestanlands, þíður oft og stundum hvasst með rosa, en snjólítið. Í febrúar stillt, meðalfrost. Eftir kyndilmessu [2.febrúar] þriggja daga norðanhríð, þó jörð í lágsveitum. Með mars vestanéljagangur og mjög óstöðugt. Lagði miklar fannir mót austri. Með einmánuði [hófst 23.mars] jarðlítið 2 vikur, en 7 vikna skorpa til afdala og að vestanverðu.
Espólín: LVII. Kap. Harðindi voru þá mikil, nema á Suðausturlandi, lá við mannfalli hvervetna, og hófst nokkuð við sjóinn; voru þá ærin vandræði, og dýrtíðin svo mikil, að aldrei hafði slík verið. (s 65).
Þó dagbækur Jóns á Möðrufelli séu raunar skýrari þetta ár heldur en mörg önnur (betur farnar) á ritsjórinn heldur bágt með lestur þeirra - reynir þó:
Janúar dágóður yfir höfuð [sífelldar þíður og hlákur, en æði stormasamt (snjóleysur) [vikan fyrir þann 9.] ogso góð og allhagstæð. [vikan fyrir þann 16.] óstillt framan af, síðan aftur stillt, [vikan fyrir þann 23.] nokkuð stormasöm og óstillt. Febrúar yfirhöfuð rétt góður. Mars sæmilegur fyrri part en harður heldur (síðan).
Vor:
Brandstaðaannáll: Góður bati um sumarmál. Í maí meðalvortíð og kuldar 5. sumarviku.
Jón Jónsson: Apríl að telja í meðallagi yfirhöfuð í sveitinni ... harður þó til dala[?]
Sumar:
Brandstaðaannáll: Fardagaflóð [snemma í júní] og greri þá vel í byggð, en seint til fjalla. Grasafengur varð mikill. Með júlí fóru lestir suður og var um lestartímann mjög rekjusamt. Grasvöxtur varð góður á túni og harðlendi, er spratt fram í miðjan ágúst. Sláttur byrjaði 19.júlí. Gafst besta veður og nýting, nægar rekjur og þerrir eftir þörfum. Fyrir göngur mikið hret, er sumum varð að heyskaði, sem geyma hey sætt eða illa hirt úti. Samt varð allt inn látið um seinni göngur.
Espólín: LVIII. Kap. Um sumarið var grasvöxtur góður, helst á túnum, en nýting bág. (s 67). - og svo mikil nauð var, þó góður væri heyfengurinn, að margir voru að þrotum komnir, en engar nauðsynjar að fá. Knudsen kom út fyrir sunnan, og margir er utan höfðu farið; þar var grasvöxtur ákaflega mikill, og svo austur um landið, en nýting hin versta af rigningum. (Bls .68). LX. Kap. Þá var enginn fiskifengur fyrir norðan land, en lítill syðra, kom þar skip frá Færeyjum ok falaði fisk, því að þar var þröng mikil. Kýr höfðust og höfnuðust illa, og voru létt heyin. (s 69).
Reykjavík 21-8 1813 (Bjarni Thorarensen): ... veturinn alt framyfir nýár var sá besti en nokkuð harðari þegar áleið, vorið ekki hart, enginn hafís kom, en það sem verst var heldur enginn fiskur ... grasvöxtur hefir verið í betra lagi í sumar, og nýting ekki fjarska slæm. (s67)
Reykjavík 9-9 1813 (Bjarni Thorarensen): ... á allri vetrarvertíðinni fiskaðist næstum því ekkert, upp til sveita mestu harðindi manna á milli svo í Flóanum dóu í vetur 13 manneskjur af harðrétti, í sumar hafa engar matvörur hingað komið, og hart er milli fólks allareiðu við sjóinn, en gott grasár hefir verið því engin hafís kom í vor. (s3)
Geir Vídalín virðist hér greina á milli veðurfars og árferðis af mannavöldum. Veðrið fremur hagstætt - en annað kannski ekki.
Reykjavík 22-8 1813 (Geir Vídalín biskup): Frá oss er sem vant er fátt merkilegt að segja, þó sýnist sem flestir þeir hlutir, sem ekki standa í sjálfræði manna, leiki nærfellt í lyndi. Með þeim tel eg gott heilsufar, grasvöxt allsstaðar í betra og víða í besta lagi, og nýtingu allgóðar allt til þessa. Þó hefur sumarið verið heldur votsamt. (s114)
Reykjavík 6-9 1813 (Geir Vídalín biskup): Sumarið hefur verið heldur votsamt, þó sjaldan stórrigningar, en vegna þess að góður þurrkur kom nokkra daga samfellt seint á túnaslætti, náðu flestir töðum sínum lítið hröktum. Nú hefur í nokkra daga verið norðanveður, svo eg held að margir hafi náð útheyjum sínum, en óttast er að þau hafi sumstaðar fokið til skemmda. Annars held eg að flestir hafi allareiðu fengið nærfellt hey fyrir pening sinn, því grasvöxturinn var víðast ágætur ... (s120)
Ekki er dagsetning á eftirfarandi bréfi frá Bessastöðum - en vafalítið er það ritað snemma í september, í kuldakastinu mikla sem þá gerði. Guðrún hefur leitað skjóls upp í rúmi.
Bessastöðum xx-09 1813 (Guðrún Skúladóttir til Gríms Jónssonar) (s44) Veturinn var góður að því leyti að hann var sá frostaminnsti, sem ég man, en jarðbönn voru við og við af áfreðum. Margir urðu heylausir í vor, en missirinn á skepnum varð ei mjög mikill, því vorið var gott, og mikið gott grasár í sumar og gott veður, ýmist vott eða þurrt um sláttinn, þar til í gær, að kom norðan kuldi og snjóaði á (s45) öll fjöll og ofan í byggð sumstaðar, og nú er norðan stormur. Sit ég nú að klóra þetta í mínum vetrarbúning uppi í rúmi mínu. Hvernig sem fer hér eftir, hefur heyskapur gengið vel hingað til í sumar.
Mr. Park lýsir veðri í Reykjavík svo dagana 4. til 7.september (lausleg þýðing - enskur texti í viðhenginu):
4. september: Mjög þykkt og dimmt veður, harður blástur. Svo virðist sem snjór sé í fjöllum. Esjan ekki sýnileg allan daginn. Síðdegis stormur og regn, stundum lítilsháttar snjókoma.
5. Stormurinn heldur áfram. Veðrið öllu bjartara, fjöll snævi þakin að rótum. Stormurinn ofsafenginn að næturlagi.
6. Stormurinn heldur hægari. Mikil snjókoma, sem hætti kl.5 síðdegis, veðrið þá betra. Hart næturfrost.
7. Gola. Mjög gott veður, hart næturfrost.
Ritstjóri hungurdiska leitar heimildar sem hann sá sem ungur maður. Þar var þess getið að tekið hefði fyrir nautajörð á Álftanesi í kafaldi þann 6.september 1813. Líklega hefur þá líka fest snjó í Reykjavík - hið fyrsta sem vitað er um að hausti.
Jón Jónsson: Júlí allur góður, og hlýr grasvöxtur hér í besta lagi. Afli nokkuð þó stopull. Ágúst allur dágóður að veðráttu og heyskap ... hagstæður. September yfirhöfuð rétt góður.
Haust og afgangur árs:
Brandstaðaannáll: Á Mikaelsmessu [29.september] kom stórrigning, svo þurrt og stillt, en 13.október mikil hríð og fönn, er varaði 2 vikur og var lömbum þá kennt át. Eftir það blotasamt og óstöðugt. Í miðjum nóvember frostakafli vikutíma; aftur milt og meðaltíð til 16.desember, að lagði niður mikla fönn til framdala; síðan bloti á 3. í jólum, er því nær gjörði jarðlaust til dala og uppsveita, en nóg autt til lágsveita. (s66) ... Heyjanægtir voru almennt og mikið sett á af ungfénaði. (s67)
Jón Jónsson: Október ogso dágóður að veðráttu. Nóvember allur ... stilltur og jörð nóg En nú síðast er kominn æði snjór. Desember allur nokkuð stilltur að veðráttu.
Um árið í heild segir Jón síðan: Þetta ár var gott ár uppá landið. Veðrátta oftast í betra lagi.
Gytha Thorlacius: (Úr Fru Th.s Erindringer fra Iisland) Vinteren 18131814 var temmelig mild, og Tiden gik sin jeevne, rolige Gang i Sysselmand Th.s Huus. (s91)
Í lauslegri þýðingu: Veturinn 1813-1814 var tiltölulega mildur og tíminn leið á sinn jafna rólega hátt í hýbýlum sýslumanns.
Úr tíðarvísum Jóns Hjaltalín 1813:
Rauna árið reifði ýmsa trega,
snýfinn vetur haga hjörð
hýsing bauð því læst var jörð.
Vorið þurrt en var þó gott að kalla
slóðin þýddi geymsins mold
grænum skrúða klæddist fold.
Heyskap góðan höldum sumar veitti,
töðum nýting einninn á,
engja meira hröktust strá.
Haust var gott en hagar oftast nógir
allt fram undir ára mót
ól því hjarðir grana snót.
Óvenjulegir hvalrekar urðu á árinu - þessi í Ólafsvík og fleiri:
Hnísings fjöldi hljóp úr ránar maga,
Ólafsvíkur uppá grund
allt framundir tvö þúsund.
Í Borgarfirði er oft rætt um búskapartilraunina á Langavatnsdal - en hún fór svona:
Líka bóndinn Langavatns í dalnum
lífið úti lét um reit
líkt og tveir í Bæjarsveit.
Hér segir af foki Setbergskirkju - ekki hefur tekist að grafa upp dagsetningu:
Ofsa veður eitt í fyrra vetur,
sem að hristi sjó og frón
Setbergs kirkju braut í spón.
Nýtt er byggt af nýtum viðum
húsið, tíðum helgað nú,
haldist það sem steina brú.
Hér segir af skriðufalli á Svarfhóli í Dölum - annállinn nefnir Sökkólfsdal, en Svarfhóll er í Miðdölum.
Sollin skriða Svarfhól á í Dölum
vall, og deyddi bólgin þá
belju, kálf og hesta þrjá.
Rétt að minna á fallvaltleika embætta og metorða:
Allir þeir sem uppí völdin klifra
minnist þess að hefð og hrós
hverfult er sem norðurljós.
Úr tíðarvísum séra Þórarins í Múla í Suður-Þingeyjarsýslu. Þórarinn talar almennt vel um veðurfar norðanlands á árinu - en þegar kvartar mjög um dýrtíð og fiskleysi - rétt eins og Espólín (við sleppum því hér):
Næsta ár sem nú af leið
Norðurlandi og víða hvar
lét þó skár og létti neyð
leyfði kransa frjóvgunar.
Það nýrunnið þíddi fönn
þorra dægur fram á mið
flóðs að unni fleytti hrönn
flugi hægu þeyvindið.
Veltist síðan veðra hjól
vetrar hríða frekra til
uns hin blíða sumar-sól
sínum þýða kætti yl.
Langafastan læsti jörð
lögum fanna, svellum og
frón sem rastir heldur hörð
hríðviðranna skók´ umflog.
Stopult varði storma hlé,
stærði kvíða fjölmennan
skorti jarðir fáka´ og fé
frekt allvíða tíma þann.
Sumar upprann og sælu bar
sannra gæða landsins hjörð
svæfils nanna svasuðar
svella klæðum fletti jörð
Vorið öldum vonar blítt
vörmum hlíta sýndi yl
varð af köldum veðrum strítt
víðar hvítasunnu til.
...
Sumarið mest-allt síðan heitt
sýndi tryggðir högum manns
grasár besta eitthvert eitt
yfir byggðir þessa lands.
Súldrigningar síst til meins
settu trega vaskri þjóð
heynýting varð oss því eins
æskilega notagóð.
Himin-glóðin hita-jöfn
hauðurs gróður með samtök
heyja þjóðum séleg söfn
saman hlóðust undir þök.
Allvel hér oss lukkan lét
liðnar tíðir. Værð af dró
september þá sendi hret,
súld, vatnshríðir, frost og snjó.
Þetta mengi þótti strangt
þurrð á næði megn um sinn
varð ei fengist vikulangt
við bjargræði´ og heyskapinn.
Rann upp sunnan hláka hlý
hlynnti bráðum veðrafar
Hirða kunnum nú á ný
næst það áður slegið var.
Haustið mátti heita gott
þó hepti kostum annað slag
ýmist þrátt gekk þurrt eða vott
þýða´ og frost nær sama dag.
Vætu drunga skyggðu ský
skemmdu fróns og hrannar gögn
landsfjórðungum öðrum í
efni tjóns að manna sögn.
...
Síga´ á dægur sumars tók
síst með styggðum kvaddi það
veturinn hægum vagni ók
vorum byggðum síðan að.
Hann að sestur vals um veg
vatns og krapa felldi tár
fjár og hesta fjarskaleg
fóður-tapan varð nú sár.
Síðan huldi frosin fönn
foldar bláan klaka hjúp
hófur muldi´ ei hann né tönn
hún var þá og líka djúp.
...
Jólafastan jafnfram öll
jarðlaus, dimm af þoku, snjó
hríða-vasturs hörð áföll
hörkur grimmar aldrei þó.
Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um árið 1813. Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta úr árbókum Espólíns. Smávegis af tölulegum upplýsingum er í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 02:33 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.11.): 33
- Sl. sólarhring: 428
- Sl. viku: 2395
- Frá upphafi: 2410697
Annað
- Innlit í dag: 27
- Innlit sl. viku: 2110
- Gestir í dag: 27
- IP-tölur í dag: 27
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.