Bloggfærslur mánaðarins, október 2019

Sumri hallar

Því er nú reyndar farið að halla fyrir nokkru og ekki nema tvær vikur rúmar til fyrsta vetrardags. Haustið hefur þó varla látið sjá sig um meginhluta landsins nema þannig að dagarnir styttast óðfluga. Framrás þess á norðurhveli er þó með eðlilegum hætti, það kólnar jafnt og þétt á norðurslóðum, rétt eins og venjulega.

Við lítum sem snöggvast á norðurhvelskort.

w-blogg091019a

Kortið gildir síðdegis á föstudag, 11.október. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og má af legu þeirra ráða vindstefnu og styrk. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Mörkin á milli gulbrúnu og grænu litanna eru við 5460 metra, gulu litirnir sýna sumarhita. Að undanförnu hefur landið verið ýmist í gula litnum eða þeim ljósasta (hlýjasta) græna. Hér sjáum við hins vegar að það er dekksti græni liturinn sem liggur yfir landinu og ekki er langt í bláu litina. Það er þó þannig að þeir eiga samt ekki að plaga okkur svo mjög á næstunni (séu spár réttar). 

Alvörukuldapollur er við norðurskautið - nokkuð óráðið hvert hann fer eða hvort hann bara liggur áfram í bæli sínu. Það sem hefur verndað okkur er hæðarhryggur sem legið hefur fyrir norðan land. Hans gætir enn á þessu korti - merktur sem rauð strikalína norður um Grænland og svo austur til Síberíu. Nú á kuldapollur við Baffinsland að slíta hann í sundur á leið sinni til suðausturs. Það skiptir mjög miklu máli fyrir framtíðarhorfur hér hver braut þessa kuldapolls verður. Taki hann suðlæga stefnu mun hann um síðir beina til okkar hlýju lofti úr suðaustri - þó ekki eins hlýju og verið hefur ríkjandi hér að undanförnu. Gangi hann hins vegar greiðlega til austurs fyrir sunnan land mun skipta til norðlægra átta og kólna verulega.  

Sem stendur telja reiknimiðstöðvar fyrri kostinn líklegri - kannski verður þó einhver millilausn úr. 

Um helgina virðist sem mikil hlýindi gangi austur um meginland Evrópu, en snarpur kuldapollur er á sveimi um miðbik Bandaríkjanna. 


Hlýtt í veðri

Fyrsta vika októbermánaðar hefur verið hlý um nær allt land, en mörgum finnst það kannski bara orðið sjálfsagt mál að svona hlýtt sé á þessum tíma árs. Það eru reyndar ríkjandi vindáttir sem mestu ráða um hitann en almenn hlýindi síðustu ára hafa eitthvað að segja. Hér á hungurdiskum hefur áður verið fjallað um meðalhita sem fylgir eintökum vindáttum. Nú lítum við á meðalhita vindátta í októbermánuði.

Við látum meðalvigurvinda á landinu segja okkur hver höfuðáttanna átta er ríkjandi á hverjum degi. Landsmeðalhiti (í byggð) er til fyrir hvern dag aftur til 1949 og sömuleiðis hin ríkjandi vindátt. Hér eru tvö tímabil undir, kalda skeiðið 1961 til 1990 og síðan þau 18 ár sem nú eru liðin af þessari öld.

Fyrstur er landsmeðalhitinn.

w-blogg070919a

Súlurnar hverfast um meðalhita októbermánaðar 1949 til 2018 (70 ár). Suðlægu áttirnar allar senda okkur hita yfir meðallagi (kemur auðvitað ekki á óvart), austanáttin er til þess að gera hlutlaus, en aðrar áttir eru kaldari en meðallagið, hánorðanáttin köldust. Bláu súlurnar sýna meðalhita áttanna átta á kalda árabilinu, en þær brúnu meðalhita áttanna síðustu átján árin. Það vekur eftirtekt að flestar áttir hafa hlýnað, suðaustanáttin mest, en suðvestanáttin nærri því ekki neitt og vestanáttin hefur verið kaldari nú en hún var á köldu árunum. 

Mynd sem gerð er fyrir Reykjavík sýnir nokkurn veginn það sama.

w-blogg070919b

Í báðum tilvikum er það suðaustanáttin sem hefur hlýnað mest og vestanáttin virðist hafa kólnað og suðvestanáttinni er sama. 

Við höfum að sjálfsögðu í huga að myndir sem þessar sanna nákvæmlega ekki neitt.


Sumarsól á Austurlandi

Skortur á nauðsynjum leiðir stundum til óhæfuverka - eða alla vega til spuna úr rýru efni. Sólskinsstundafjöldi var mældur á Hallormsstað á Héraði frá 1953 til 1989, en því miður lögðust þær mælingar þá algjörlega af. Ekkert hefur frést af sólskinsstundum austanlands síðan þá. Það sem gerir þetta mál enn snúnara er að lítið er um skýjahuluathuganir af svæðinu líka á síðari árum. Að vísu er skýjahula athuguð (að nokkru) á Egilsstaðaflugvelli, en talsverð vinna er að athuga hvers eðlis þær athuganir eru. Það er t.d. svo að háský (sem geta byrgt fyrir sól) koma ekki alltaf fram í flugvallarathugunum, enda skipta þau ekki máli við flugtak og lendingu. 

Hugsanlega muna einhverjir lesendur hungurdiska eftir pistlum sem hér birtust um furðugott samband mánaðarmeðaltala skýjahulu og sólskinsstundafjölda bæði í Reykjavík og á Akureyri. Nú skal gerð tilraun til að nota samband sólskinsmælinga á Hallormsstað og skýjahulu í Vopnafirði til að fylla í eyður sólskinsathugana bæði fyrir 1953 og eftir 1989. Lesendur ættu þó að hafa í huga að hér er um neyðaraðgerðir að ræða - og nákvæmnisvísindum kastað fyrir róða. En við látum slíkt ekkert hindra okkur þegar sulturinn sverfur að - fóður verðum við að fá til að lifa af, bragðið skiptir engu. 

En lítum fyrst á mynd sem á að sýna að þetta er ekki algjörlega glórulaust. 

sol-eystra-juli-a

Hér má sjá samband skýjahulu í Vopnafirði og sólskinsstundafjölda á Hallormsstað í júlí 1953 til 1989. Satt best að segja kemur þægilega á óvart hversu gott það er. Sjaldan munar meir en 50 stundum á milli ágiskaðra og réttra gilda og oftast er munurinn talsvert minni. Nú er svona samband reiknað fyrir alla mánuði ársins hvern fyrir sig (sólargangur er svo misjafn að þess er þörf). 

Og þá getum við búið til línurit sem sýnir sólskinsstundafjölda á Hallormsstað í mánuðunum júní til ágúst árin 1925 til 2019.

w-blogg021019-sol-eystra

Höfum í huga að tölur áranna 1953 til 1989 eru raunverulegar - aðrar eru ágiskaðar. Það er 1971 sem er mesta sólarsumarið, síðan koma 2012, 2004 og 1957 - síðan 1947. Sólarrýrast er sumarið 1993 (eiginlega langsólarrýrast), en síðan koma 1952, 1938, 1954, 1998 og svo 2019 og 2015. Þetta hljómar allt fremur sennilega - en nær öruggt þó að raunveruleg röð er væntanlega eitthvað önnur. Við sjáum að mikið var um sólskinssumur á áttunda áratugnum (raunverulega mælt) og svo virðist sem árin í kringum 1930 hafi verið sólrík líka. Þar verður þó að hafa í huga að hringl var í veðurlyklum framan af og hefur ritstjóri hungurdiska ekki kannað hvaða afleiðingar það kann að hafa á niðurstöðurnar. 

Nú má spyrja hvernig þetta rímar við tilfinningu manna eystra? Nokkuð auðvelt væri að blanda hita í málið til að reikna sumarvísitölu, en úrkoman aðeins flóknari vegna hringlanda í mælingum á henni. Kannski ritstjórinn haldi áfram á glæpabrautinni (hann er orðinn svo bersyndugur hvort eð er)? 


Fleiri septemberfréttir

Við lítum nú á tvö kort. Hið fyrra sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í mánuðinum og vik hennar frá meðallagi, en hið síðara sjávarhitavik í norðurhöfum í mánuðinum.

w-blogg021019ia

Við munum auðvitað enn hversu skiptur mánuðurinn var, og einhvern veginn fór það svo að hiti varð rétt ofan meðallags á meginhluta landsins. Heildregnu línurnar á kortinu sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins. Hún var rétt yfir meðallagi á mjóu belti norðan úr höfum og suður yfir landið, en vikin eru þannig að háloftavindáttir lenda í meðallagi þegar litið er á mánuðinn i heild. Vikamynstrið segir okkur einnig að norðlægar áttir hafa verið nokkuð tíðari en að meðallagi fyrir austan land og suður um norðanverðan Norðursjó, en sunnanátt aftur á móti tíðari en að meðallagi við Grænland austanvert. Ekki eru þetta þó stór vik.

w-blogg021019ib

Hér má sjá sjávarhitavik mánaðarins í norðurhöfum. Gríðarlega afbrigðilegt ástand og hiti víðast langt yfir meðallagi. Þær fréttir bárust t.d. í gær að september hefði verið sá hlýjasti í sögunni við norðurströnd Alaska og þar bíða menn vetrar með óþreyju og óska þess að hann komi sem fyrst. Í fljótu bragði skilur maður slíkar óskir ekki vel - en nánari hugsun vekur þann skilning. Sé hafís lítill er mun brimasamara við ströndina heldur en venjulega og hún er miklu fjær jafnvægi (óvön tíðum brimum) heldur en er þó hér á landi. Landrof í hauststormum er því mjög ískyggilegt í þeim fáu strandbyggðum sem þarna eru. Híbýli og viðurværi allt í voða. 

Kortið segir þó ekkert til um hversu langt niður þessi hlýindi ná, né heldur hvernig lagskiptingu sjávar er háttað, en selta kemur þar einnig við sögu. Við getum því hvorki getið okkur til um afleiðingar hlýindanna fyrir ísmyndun í haust né ísbúskapinn í vetur. Við getum staðfest að þetta er óvenjulegt - en verðum að spara okkur yfirlýsingar um framhaldið. 

Að vanda þökkum við Bolla Pálmasyni fyrir kortagerðina. 


Sólskinsárið mikla 2019?

Árið 2019 hefur verið óvenjusólríkt um landið suðvestanvert. Sólskinsstundafjöldi fyrstu níu mánuði ársins er sá næstmesti frá upphafi mælinga, 1427,9 stundir. Þær voru ívið fleiri sömu mánuði árið 1924, 1533,5 og svotil jafnmargar 1927, 1426,7. 

w-blogg011019a

Myndin sýnir samanburð. Árin 1912 til 1914 voru heldur sólarrýr, kannski hafa mæliaðstæður á Vífilsstöðum eitthvað haft með það að gera, en þó ljóst að sumarið 1913 var frægt rigningasumar og sömuleiðis var margfrægt sólarleysi vor og fram eftir sumri 1914. Á síðari tímum (sem margir muna enn) eru mestu sólarleysisárin auðvitað 1983 og 1984. Við sjáum að árið í fyrra 2018 - sem mörgum fannst sólarrýrt var bara nokkuð sólríkt miðað við það sem verst hefur verið.

Mikil umskipti urðu hins vegar milli ársins í ár og þess í fyrra. Árið í ár er mjög svipað og árin sólríku frá 2004 til 2012, níu sólarár í röð. 

En árinu er ekki lokið. Þrír mánuðir eru eftir. Lítið samband er á milli sólskinsstundafjölda þeirra og fyrstu níu mánaða ársins. Þó stóðu sólskinsárin 2010 og 2006 sig mjög vel. Flestar hafa sólskinsstundir síðustu þriggja mánaða ársins verið 211,0. Það var 1960 - mikið austanáttahaust minnir ritstjórann (en ætti kannski að fletta því upp). Næst kom svo 2010 með 209,5 stundir. Slíkur árangur nú myndi ekki duga í metsólskinsár - forskot ársins 1924 er svo mikið að við þurfum nýtt haustmet líka til að ná því. Fæstar urðu sólskinsstundir síðustu þriggja mánaða ársins hlýindahaustið mikla 1945, aðeins 44,4. Ef slík yrði raunin nú endaði árið í 1472,3 stundum og í 14 sólskinssárasætinu, sem er nú bara harla gott. Meðallag síðustu 10 ára myndi hins vegar duga í þriðja sæti, á eftir 1924 og 2012. 

Þegar þetta er skrifað er ekki búið að telja sólskinsstundir septembermánaðar á Akureyri, þær voru í ágústlok orðnar 905 - rétt yfir meðallagi síðustu tíu ára. 


Veðurstofusumrinu lokið

Nú er veðurstofusumrinu lokið, en það nær sem kunnugt er til mánaðanna júní til september. Nokkuð var gæðum þess misskipt eftir landshlutum. Hér syðra er það í hópi þeirra hlýjustu og sólríkustu en norðanlands og austan var hiti lægri en í meðalsumri síðustu tíu ára og þungbúið lengst af. Keppni í sumarhlýindum er orðin töluvert harðari heldur en var á árum áður. Í Reykjavík er sumarið það fimmtahlýjasta frá upphafi mælinga, aftur á móti er vitað um fleiri en 30 sumur hlýrri á Akureyri. Á landsvísu lendir hiti sumarsins í 25. til 26.sæti af 146 sem reiknuð hafa verið. 

w-blogg300919

Myndin sýnir meðalhita sumars í byggðum landsins. Meðaltöl fyrir 1874 eru mjög óviss og rétt að sleppa þeim í keppni. Á landsvísu eru sumrin 1933 og 1939 enn þau hlýjustu þrátt fyrir að hlý sumur hafi verið fleiri á síðari árum en var þegar hlýjast var fyrir 80 árum og tíu ára meðalhiti sumars hærri nú en var þá. 

Taflan hér að neðan sýnir hvernig sumarhitinn raðast eftir spásvæðum og meðal annarra sumra aldarinnar. Rétt er að hafa í huga að ýmis álitamál eru í reikningunum. Til dæmis reynist ómarktækur munur á 3. og 7. Faxaflóasætinu, það eru aðeins sumrin 2010 og 2003 sem eru ótvírætt hlýrri heldur en það nýliðna - rétt eins og er í Reykjavík. Taflan er einungis sett upp til gamans.

w-300919a

Sé miðað við þá reglu að þriðjungur sumra teljist hlý, og þriðjungur köld, var nýliðið sumar hlýtt við Faxaflóa og á Suðurlandi, en kalt á Ströndum og Norðurlandi vestra og á Austurlandi að Glettingi. Á öðrum spásvæðum telst það í meðallagi á öldinni. Sé miðað við lengri tíma, t.d. 140 ár er sumarið talið hlýtt á öllum spásvæðum. 

Þetta var mikið sólskinsumar á Suðurlandi, líklega það þriðjasólríkasta sem við þekkjum í Reykjavík, svo litlu munar þó á sætum að við getum ekki staðfest það endanlega fyrr en farið hefur verið yfir mælingarnar frá degi til dags. Sólskinsstundir hafa verið mældar samfellt frá 1923 og þar að auki eigum við heillegar eldri mælingar aftur til 1912. 

Lengi vel leit ekki vel út með hita í september, en glæsilegur endasprettur síðasta þriðjunginn kom honum upp í 4. hlýindasæti á öldinni við Faxaflóa og nánast upp í meðallag síðustu tíu ára um landið norðan- og austanvert. Um þessi óvenjulegu hlýindi hefur áður verið fjallað hér á hungurdiskum.

Hiti ársins það sem af er er hár, á landsvísu þó ekki meðal þeirra tíu hæstu, en í Reykjavík hafa fyrstu 9 mánuðir ársins aðeins þrisvar verið hlýrri en nú (2003, 2010 og 2014) og þrisvar jafnhlýir (1939, 1964 og 2004). Meðalhiti nú er 6,8 stig, var 7,1 í sömu mánuðum 2003. Við vitum auðvitað ekkert um hitann það sem lifir árs - ekki á vísan að róa í þeim efnum. Við munum t.d. hin gríðarlegu hlýindi síðustu þriggja mánaða ársins 2016 þegar hitinn í Reykjavík skaust úr 15.sæti fyrstu 9 mánaðanna upp í annað sæti í árslok - nú eða 1880. Í septemberlok var það ár í 11.hlýjasta sæti á Reykjavíkurlista sem nær til okkar tíma - en árið endaði í því 82. Annað eins hrap hefur aldrei sést (ótrúlegt - en satt). 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband