Bloggfærslur mánaðarins, október 2019

Októberhiti (á landsvísu)

Í þessum pistli er fjallað um októberhita - á landsvísu (og einstökum spásvæðum). Meðalhiti í byggðum landsins reiknast 4,2 stig, -0,3 stigum neðan við meðallag síðustu tíu októbermánaða. Eins og sumir muna var alveg sérlega hlýtt í október 2016 og 2017. Myndin sýnir meðalhita í október síðustu 200 árin tæp - tölur fyrir 1875 að vísu býsna óvissar (gráar súlur).

w-blogg311019a

Við sjáum að hitinn í október 2019 telst ekki til tíðinda á neinn hátt, hann er lítillega hærri en í október í fyrra, en annars svipaður því sem verið hefur á öldinni - að undanskildum þeim tveimur mánuðum sem áður var minnst á. Græna línan sýnir 10-árakeðjur - tíuárameðaltalið nú er svipað og það var hæst um miðja síðustu öld, en hefur þó ekki alveg „toppað“ það - hvað sem síðar verður. Nú eru 11 ár síðan kalt var síðast í október (2008) og nærri fjörutíu ár síðan mjög kalt hefur verið (1980 og 1981). 

Það er svo annað mál að bakvið þetta hófsama meðaltal leynast nokkuð miklar hitasveiflur, einn dagur (23.) var mjög kaldur og allmargir hlýir blíðudagar auðvelduðu lífið og styttu veturinn. Þann 24. var sett nýtt októberlágmarkshitamet í 500 hPa-fletinum yfir Keflavíkurflugvelli, -43,2 stig, gamla metið -42,4 stig var sett 11.október 1971. Met voru ekki sett í öðrum hæðum. Sú er skoðun ritstjóra hungurdiska að ástæðan sé líklega hár sjávarhiti norðan við land (aðrir kunna að vera á annarri skoðun). Sami dagur reyndist líka (nokkuð óvænt) hvassasti dagur ársins (hingað til) á landinu í heild - en stormur var þó ekki sérlega víða. Sýnir e.t.v. hvað árið hefur almennt verið illviðrasnautt.

w-blogg31019a

Hér má sjá að hiti í mánuðinum raðast í meðalþriðjung (í hlýjasta þriðjungi teljast efstu 6 sætin og þau köldustu 6 í þeim neðstu (14. til 19.)). Hlýjast að tiltölu hefur verið við Faxaflóa og Breiðafjörð, en kaldast á Austurlandi að Glettingi og á Austfjörðum. 

Árið - það sem af er - er í svipaðri stöðu.

w-blogg31019b

Að tiltölu hefur verið hlýjast við Faxaflóa, +0,4 stigum ofan við meðallag síðustu tíu ára og þar nær árið upp í hlýja þriðjunginn - er í 5. hlýjasta sæti. Árið hefur verið kaldast að tiltölu á Austurlandi að Glettingi, hiti þar -0,3 stigum neðan meðalhita síðustu tíu ára. 

Nú er að sjá hvernig síðustu tveir mánuðir ársins standa sig. Breytileiki hita í nóvember og desember er mikill frá ári til árs og munar um öfgar á hvorn veg sem er í röðun sem þessari. Harla ólíklegt er þó að árið verði methlýtt. 


Af árinu 1816

Árið 1816 er frægt á alþjóðavísu sem það sumarlausa á Nýja-Englandi og Frankensteinsumarið við Genfarvatn. Árið áður hafði orðið stórkostlegt eldgos í Tambórafjalli í Indónesíu og gera menn því skóna að það hafi valdið alls konar röskun á veðrakerfinu og eru jafnvel farnir að rökstyðja það með tölvureikningum 

 ar_1816t

Við höfum ekki mjög áreiðanlegar upplýsingar um hitafar. Séra Pétur Pétursson á Víðvöllum í Skagafirði mældi þó reglulega snemma morguns og við getum því í grófum dráttum séð helstu kuldaköst og hret, en höfum í huga að við sjáum eitthvað sem er nærri lágmarkshita sólarhringsins. Myndin hér að ofan sýnir mælingar hans. Að sumarlagi mældi hann einnig um miðjan dag, en sól hefur greinilega skinið á mælinn suma daga. Áreiðanlega var nokkuð hlýtt eftir miðjan júní - um þær mundir sem sumarleysið var hvað átakanlegast í Evrópu og Ameríku. Sumarið þótti ekki sérlega óhagstætt hér á landi. 

Veturinn var kaldur, en hláku gerði þó síðari hluta marsmánaðar. Aftur var mjög kalt um miðjan apríl. Slæmt kuldakast gerði í lok ágúst og einnig undir mánaðamót október/nóvember. Oftast var kalt líka í desember. 

Hér að neðan skautum við yfir aðrar heimildir - stafsetningu oftast hnikað til nútímahorfs.  

Annáll 19. aldar segir svo frá:

Vetur frá nýári var harður um allt land, vorið kalt og þurrt, grasvöxtur í minna lagi, þó spruttu tún nokkurn veginn vel, en engjar voru lítt sláandi, nema þar sem þær voru í sinu. Þó segir Espólín heyafla sæmilegan og mun það helst hafa verið syðra, en hretasamt telur hann í ágúst. Haustið var rigninga- og vindasamt. Gerði vetur þann, er þá fór í hönd, mjög mislægan, og þótt snjóar yrðu sumstaðar miklir, munu jarðir þó hafa haldist til jóla. Ís kom um kyndilmessu nyrðra [2.febrúar], og var þar á hrakningi langt fram á sumar. Féll þá, einkum um nálægar sveitir mikið af útigangspeningi. ... Fiskafli var lítill á báta um veturinn, nema í Vestmannaeyjum. ... 17 menn er talið að dæju úr hungri í Snæfellsnessýslu. 

Annállinn segir að vanda frá fjölda slysa og óhappa. Við nefnum aðeins þau sem fest eru á ákveðnar dagsetningar. Menn urðu úti þann 5.febrúar og 22.mars urðu tveir úti á leið milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar, villtust af leið á Norðurárdal. Þann 20.apríl fórst skip við Akranes með 7 mönnum - óljóst hvort tengdist veðri. Við getum þess að þann 4.ágúst drukknaði séra Hallgrímur Þorssteinsson faðir Jónasar Hallgrímssonar í Hraunsvatni í Öxnadal (það tengdist raunar ekki veðri). Óljósar fregnir eru af því að Skagastrandarkaupfar hafi farist (rétt einu sinni). Þann 2.nóvember drukknuðu 5 menn á kirkjuleið frá Múla á Skálmarnesi og þann 18. sama mánaðar fórust 6 menn í róðri frá Hallbjarnareyri í Eyrarsveit á Snæfellsnesi [þar var holdsveikraspítali]. Þann 23. desember varð kona úti á Skaga, á jóladag varð úti Guðbrandur frá Sauðhúsum í Dölum - var að sinna fé og á gamlársdag varð maður úti á Vatnsskarði. 

Brandstaðaannáll:

Gaddur og hagleysi viðhélst lengi. Í janúar kafaldasamt mjög til 15.; eftir það stillt og oft gott veður. Lengi brutu hross niður á hálsum og heiðum, því smáblotar náðu þar lítið um. Annars tóku flestir þau inn um nýár. Í Blönduhlíð og framsveitum var jörð, af því að þar reif í Þorláksmessuhríðinni [1815]og áttu margir þar hross í hagagöngu. Á góu mest norðanátt og frostamikið, jarðleysi yfir allt. Brutust þá fáir vermenn suður. Á góuþrælinn dreif mikla fönn niður; eftir það gott veður og blotar. Kom upp snöp til lágsveita og móti sólu, er rýmdi um til páska, 14. apríl. Á þriðja [16.] hríð og fannlag; versta skorpa til sumars 25. [apríl] Bar þá allvíða á heyleysi eftir 16 vikna skorpu. Sauðir gengu af án gjafar utan í innistöðum í Skagafjarðardölum. Þverárbú hjá Schram þraut hey og tóku ýmsir hross og fé af honum, en mjög gekk á heyfyrningar hjá allmörgum. Með sumri, 25. [apríl] kom góður bati og eftir það stöðug vorgæði, hretalaust að kalla, gróðurnægt á fráfærum. 3.júlí lögðu lestir suður og gaf þeim vel. Sláttur byrjaði í 13. viku sumars. Heyskapartíð varð hin besta, rekjur hægar alljafnt og þurrviðri, með góðum þerri stundum. Grasvöxtur í betra lagi yfir allt og almennt hirt um seinni göngur, en stórrignt á milli þeirra. Síðast í september snjór og frost. Hálfan október stillt og þurrt veður, síðan snjóakast mikið. Með vetri varð auð jörð til sveita og frosta- (s73) samt. 6. nóv. lagði á fannir miklar með köföldum og hörku, svo lömb komu á að öllu. Þá var fjárjörð lengst. Með jólaföstu blotaði og var gott eina viku; aftur hríðar og hörkur, þó gott á milli. Byrjaði þá gjafatími hjá flestum. 19.des. ofsaveður og bloti. Tók nokkuð upp, en snjógangur á eftir. Á jóladaginn brast á mikil hríð með ógnarfrosti, er varaði 3 daga og harka á eftir. Varð síðar mikið tjón af því á Barkarstöðum. Þar hrakti fé til heiðar og þó flest næðist lifandi, féll talsvert af því um vorið. Spillibloti endaði árið. (s74)         

Espólín:

LXXVIII. Kap. Þessi vetur var harla þungur af snjóum og jarðbönnum um allt land; voru blotar, er spilltu. Sjór var gagnlítill fyrir norðan, sem fyrri. (s 85). LXXXII. Kap. Þá var heyskapur sæmilegur, en hretsamt í Augusto. (s 91). LXXXIII. Kap. Gjörði vetur þann er þá fór í hönd eigi góðan, en þó mjög mislægan, voru víðast jarðir til jóla, þó snjóar yrði allmiklir, og snemma legði að. En með miðjum vetri komu hafísar ok þöktu allan sjó; voru aldrei frost mjög ákafleg, en jarðbönn hin mestu víða vestur um land, og sumstaðar í Húnavatns þingi, og til dala. (s 91).

Reykjavík 8-5 1816 (Bjarni Thorarensen):

... den afvigte Vinter har i dette Land været meget haard og den havde været ganske ödelæggende hvis ikke Höeavlen i afvigte Sommer havde været paa det bedste; men med alt det ere paa mange Stæder et betydeligt Antal Creature styrtet af Magerhed; Fiskeriet har her i Faxebugten været paa det elendigste in indeværende Foraar og endnu slettere end i forrige Aar ... (s18)

Í lauslegri þýðingu: „... nýliðinn vetur hefur verið mjög harður hér á landi og hefði haft meiri eyðileggingu í för með sér hefði heyfengur síðastliðið sumar [1815] ekki verið með besta móti, samt sem áður hefur víða orðið peningsfellir af hor. Fiskveiðar hafa verið með aumasta móti hér á Faxaflóa í vor og enn verra en síðastliðið vor“. 

Sveinn Pálsson segir snjó í Vík í Mýrdal 29.maí og frost á nóttum, einnig var næturfrost þar 3., 4. og 5.júní. Sveinn fór í leiðangur austur á Djúpavog í júní og getur í athugasemdum um hlaup í Skeiðará - sem væntanlega er þó alveg búið þegar hann fer um í báðum leiðum. En þann 24. er hann í Öræfum og segir af eldmistri yfir Skeiðarárjökli og daginn eftir þegar hann fór yfir sandinn á vesturleið nefnir hann gosmökk í norðaustri frá Lómagnúp. Nokkuð var um næturfrost í Vík í september. 

Reykjavík 7-5 1816 (Geir Vídalín biskup):

Vetur illur og arðlítill. Lagðist hann snemma að hér sunnanlands, en á Austur- og Norðurlandi ekki fyrr en með jólum. Snjóar hafa verið hér í mesta lagi, líka áfrerar og oft jarðbönn, bæði hér og um nálægar sveitir, svo tekið er að hruflast nokkuð af útigangspeningi. Þó held ég að hér um sveitir verði ekki stórkostlegur fellir, ef vorið verður bærilegt. Úr Norðurlandi er sagt mikið hart, en meira held ég samt að gjört sé úr því en það er í raun réttri, og varla býst ég við, að þar verði stórkostlegur fjármissir. Hafís var þar kominn nokkur, þegar seinast til fréttist, en hvergi eiginlega landfastur, svo líklegt er, að hann hafi hrakið í burtu í sunnanveðrum, sem hér hafa nú gengið um tíma. (s136) ... Skip fór héðan með 11 manns fyrir skömmu og ætlaði upp á Akranes, en kom upp á sker nærri lendingu og brotnaði. Týndust 9 manns, en 2 komust af. ... Víða hefur og fólk orðið úti á heiðum, sem ég hvorki man eða hirði um að telja hér upp. (s137)

Reykjavík 18-8 1816 (Geir Vídalín biskup):

Veðuráttin í vor var bæði köld og stormasöm allt fram að sólstöðum, og grasvöxtur lítill á harðlendi, betri í mýrum. Síðan sólstöður nær einlægir þurrkar, svo töður hafa nýst einka vel. (s144)

Reykjavík 13-9 1816 (Geir Vídalín biskup):

Seinni partur sumarsins sérílagi góður, svo eg hygg, að þó grasvöxtur væri lítill, hafi flestir hér í nánd fengið hey vel verkað fyrir skepnur sínar nokkurn veginn (s146) til hlítar. (s147)

Ritstjórinn reynir (með litlum árangri þó) að tína til úr dagbók Jóns á Möðrufelli - en mjög umorðað hér:

Þann 20.janúar segir hann, (vikan) ei svo óstillt að veðráttu, og um næstu viku á eftir að hún hafi verið mikið stillt og björt. Janúar allur stilltur. Febrúar var nokkuð veðráttuharður um tíma, en þó aldrei freklega, en sífellt jarðleysi, hestar sumir orðnir mjög magrir. 2.mars var nýliðin vika stillt, en jarðbönn sömu, næsta vika á eftir mikillega hörð, en síðasta vika mánaðarins var mikið góð og hagstæð. Mars harður fyrri part. Apríl stillur í upphafi og í lokin, en verri á milli. Í maí var hafíshroði að flækjast til og frá fyrir utan land og stundum inn á fjörð. Þá segir hann einnig að frá jólaföstu hafi aldrei komið hláka, þó hafi snjó tekið upp allsæmilega vegna góðviðris. Júní var allur vel stillur, en andkaldur. Fyrsta vika júlí var mikið góð og hlý, en næsta á eftir þurr og andköld, þriðja vika júlí var úrkomulítil og svöl, og sú fjórða þurrklítil, en þó ekki mjög vot. Þann 31.ágúst snjóaði ofan undir bæi um nóttina. September var býsna óþurrkasamur og frost síðast. Október mikið stilltur, veðrátta góð og dágóðar jarðir. Nóvember einnig yfirhöfuð dágóður, nægar jarðir og oftast stillt veður. Desember allsæmilegur, engin stórhríð komið.

Úr tíðavísu Jóns Hjaltalíns fyrir árið 1816:

Harðan vetur þáði þjóð,
þjóðin nú og köstin höst,
ísalögin láði háð
lengi voru föst á röst.

Allt frá jólum örðug gjörð
og að sumri víða stríð,
harkan varði hjörðum svörð
heyjum eyddi tíð óblíð.

Þurrt var vor svo þáði fjáð
þaraf lítinn gróða slóð
taða smá var tjáð um láð
telst þó nýting góð hjá þjóð.

Margir herma víða víð
væri engi þæg óslæg,
sinuhey því síðan tíð
sveitin nýtti fræga næg.

Haustið sendi hörð á jörð
hret og líka fjöllum mjöll,
fannir huldu hjörðum svörð,
hrímdu frostin gjöll og völl.

Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um árið 1816. Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta úr árbókum Espólíns. Smávegis (nærri því ekki neitt) af tölulegum upplýsingum er í viðhenginu.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sumarið 2019 (eftir gamla tímatalinu)

Ritstjóri hungurdiska óskar lesendum og landsmönnum öðrum velfarnaðar á komandi vetri - en á morgun (laugardag 26.október) er fyrsti vetrardagur. Við lítum hér á meðalhita nýliðins sumars í Reykjavík og á Akureyri. Taflan sýnir röð frá hæsta til lægsta meðalhita á hvorum stað á þessari öld, 19 sumur (ósköp er tíminn fljótur að líða).

w-blogg261019a

Tölurnar verða læsilegri sé myndin stækkuð sérstaklega. Við sjáum að sumarið var mjög hlýtt í Reykjavík, meðalhiti þess 9,8 stig, nokkuð lægri en hann var 2010 og litlu hærri en 2016. Sumarið í fyrra, 2018 er neðst, meðalhiti þess 7,8 stig, rétt neðan við 2013. 

Á Akureyri var sumarhitinn í ár í meðallagi aldarinnar, 8,4 stig - og í 9. hlýjasta sæti. Hlýjast var á Akureyri sumarið 2014, meðalhiti þá 9,5 stig. Kaldast var á Akureyri sumarið 2005, meðalhiti 7,3 stig, en næstkaldast 2015. 


Frostleysulengd í Reykjavík

Í gær (22.október) fraus í fyrsta skipti í haust á Veðurstofutúni - og í dag (þann 23.) var þar frost allan daginn. Þessa lét Sigurður Þór Guðjónsson getið á fjasbókarsíðu sinni (sem allir veðuráhugamenn fylgjast auðvitað með). Þar var einnig spurt hvort þetta sé óvenjulegt á einhvern hátt. Svarið við þeirri spurningu er nokkuð langdregið - en þeir sem nenna að lesa þennan pistil verða vonandi einhverju fróðari.

Fyrst skulum við líta á lengd frostleysunnar. Hversu langt er á milli síðasta frosts að vori og þess fyrsta að hausti í Reykjavík. Í ár stóð frostleysan í 146 daga, það er í meðallagi síðustu 100 ára, en 16 dögum styttra en að meðaltali síðustu tíu ára. Munar þar að þann 29.maí fór lágmarkshiti í Reykjavík niður í -0,2 stig, eina frostnótt eftir 12.maí - stytti sum sé frostlausa tímann um 17 daga í einu vægu höggi (sem dugði samt í smámunasömu bókhaldi).

Að meðaltali er síðasta frostnótt vorsins 10.maí (100 ára meðaltal), en 4.maí sé miðað við síðustu tíu ár. Fyrsta frostnótt haustsins er að meðaltali 4.október í Reykjavík (100 ár) en 14.október síðustu 10 árin. Fyrsta frostnótt þessa hausts er því 8 dögum síðar en meðaltal síðustu tíu ára.

Kemur þá að mynd dagsins - hún er nokkuð hlaðin - en þolinmóðir komast þó vonandi fram úr henni.

w-blogg241019b

Lárétti ásinn sýnir árin frá 1920, en sá lóðrétti dag ársins (því ofar á myndinni - því síðar á árinu). Til hagræðis er einnig merkt við fyrsta dag hvers mánaðar. Bleiklituðu súlurnar sýna fyrsta frost að hausti. Frostnótt kom í ágúst 1956 (neðsta súlan). Lengst þurfti að bíða eftir fyrsta frosti haustið 2016 - til 16.nóvember. Þykka rauða línan sýnir 10-árameðaltöl fyrsta haustfrosts - það er hærra nú en áður, en var reyndar svipað um tíma milli 1930 og 1940 - árið 1939 var fyrsta frost haustsins 10.nóvember.

Bláu súlurnar sýna hins vegar það sem við gætum kallað fyrsta „frostdag“ haustsins - dag þegar hámarkshiti dagsins er líka neðan frostmarks. Hundrað ára meðaltal er þar 11.nóvember. Við erum því nærri þrem vikum á undan meðaltali í ár - og mánuði sé miðað við síðustu tíu ár. Það er ekki algengt að þetta gerist svona snemma - hefur aðeins 10 sinnum gerst fyrr að hausti síðustu 100 árin, síðast 1987. Árið 1987 var eitt fárra hlýrra ára kuldaskeiðsins alræmda, en þá var frostdagur fyrr á ferð í Reykjavík en nokkru sinni annars á 100 ára tímabilinu öllu, 8.október. 

Tvisvar hefur þurft að bíða fram yfir áramót eftir fyrsta frostdegi „haustsins“, 1932 og 2002. Þessi haust var fyrsti frostdagur í janúar, 1932 þann 15.janúar 1933 og 2002 þann 18.janúar 2003. 

Þeir sem sjá vel - og eru smámunasamir að auki taka eftir því að í ár munar ekki nema einum degi á fyrsta haustfrosti og fyrsta frostdegi. Það er mjög óvenjulegt, en hefur þó gerst áður, 1951 munaði einnig einum degi og 1939 féllu fyrsta haustfrost og fyrsti frostdagur haustsins saman. Árið 1956 - þegar fraus í ágúst - þurfti að bíða 109 daga eftir fyrsta frostdeginum - hann kom ekki fyrr en 14.desember - biðin á milli þessara atburða hefur aldrei orðið lengri. 

Svarið við spurningunni í upphafi um hvort þetta sé óvenjulegt eða ekki hefur því verið svarað. Fyrsta frost að hausti kom seint í ár, en fyrsti frostdagur er hins vegar óvenju snemma á ferð. Lengd frostleysutímans er svo í meðallagi. Velji hver svo áhersluatriði eftir málstað sínum. 


Kólnandi

Svo virðist sem kalt verði á landinu næstu daga - og þar að auki strekkingsvindur. Mjög kalt loft sækir að úr norðri - óvenjukalt miðað við árstíma, en líkur eru á að það standi ekki lengi við. Það er ekki algengt að þykktin (sú sem mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs) fari niður fyrir 5100 metra í október. Evrópureiknimiðstöðin segir að hún fari nú niður í 5060 til 5080 metra aðfaranótt fimmtudags. Októberlágmarksmetið yfir Keflavíkurflugvelli er 5040 metrar - sett 1971.

Það er auðvitað ólíklegt að háloftaathugun á einum stað á landinu hitti einmitt í þykktarlágmark landsins. Sé leitað að vísbendingum í endurgreiningum sést að lægsta tala við landið í þessu sama hreti í október 1971 er 4980 metrar - áberandi minna en nú er spáð. Þykktin varð síðast ámóta lítil í námunda við landið og nú í október 2004 - fyrir 15 árum. 

Kalda loftið er nú mjög óstöðugt - og svo virðist sem styttra sé í kuldamet í miðju veðrahvolfi eða þar ofan við heldur en í neðri lögum. Við skulum því líta á spákort sem sýnir stöðuna í 500 hPa kl.06 að morgni fimmtudags 24.október.

w-blogg231019a

Ísland er á miðri mynd - sést ekki vel vegna þess hversu bláu litirnir eru dökkir (kaldir). Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindörvar sýna stefnu og styrk. Lægsta hitatalan á kortinu er yfir Reykjavík (eða um það bil), -44 stig. Nánari athugun á aðstæðum bendir til þess að veðrahvörfin séu óvenju neðarlega - eða rétt ofan við 500 hPa. Að staðan verði nákvæmlega þessi er óvíst. En þetta er nægilega lág tala til þess að rétt sé að fletta upp lágmarkshitameti í október í 500 hPa yfir Keflavík. Það reynist -42 stig - spáin er því nærri meti. Aðeins eru gerðar tvær mælingar á sólarhring yfir Keflavík - spurning hvort metið verður slegið. Þetta gamla met er sett á sama tíma og þykktarmetið frá 1971 sem áður var minnst á, þann 11.október.  

Séu spár réttar vantar hins vegar talsvert upp á met í neðsta hluta veðrahvolfs - og í mannheimum. Þeir sem vilja og nenna geta þess vegna haldið því fram að það sé óvenjuhár sjávarhiti sem valdi þessari mettilraun að þessu sinni. Já, það er ekki alveg út í hött góðir hálsar - en við látum röksemdafærsluna liggja á milli hluta (enda ekki alveg víst að hún haldi vatni).


Vel eða illa?

Stundum er árferði þannig að lítið verður úr öllu veðri - sama hversu illa það lítur út - illviðra og öfgaspár rætast nær aldrei. Þannig hefur það nú verið lengi. En stundum á hið gagnstæða við - illt verður úr flestu, og verður jafnvel verra en spáð er. Þannig stendur á þegar þetta er skrifað (seint á föstudagskvöldi 18.október) að reiknaðar spár virðast sammála um að í næstu viku gangi mjög snarpt kuldakast yfir landið. Spárnar hafa reyndar heldur linast á hvassviðrinu frá því að kastið kom fyrst fram - dæmigert fyrir góða árferðið, en enn hafa þær ekki linast á kuldanum. Ritstjóranum finnst samt ekki ólíklegt að þær geri það líka þegar nær dregur. 

En við lítum lauslega á stöðuna.

w-blogg191019a

Kortið er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir síðdegis á sunnudag 20.október. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar. Af þeim ráðum við vindátt og vindstyrk í rúmlega 5 km hæð, en þykktin er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. Gulu litirnir sýna að mjög hlýtt loft úr suðri leitar til norðurs á Grænlandshaf, en kalt loft kemur úr norðvestri og síðar norðri. Þessir andstæðu loftstraumar mætast í námunda við landið.

Í illu ári myndi illa fara, mikil lægðadýpkun, mikill vindur, mikil úrkoma (rigning og síðar snjór), en í góðu árferði hittir ekkert í, hlýtt loft og kalt fara á mis. Síðari möguleikinn virðist sá sem tískan fylgir nú (en við erum samt aldrei alveg viss) - en lægðin veldur samt norðanátt og ískalt heimskautaloft steypist til suðurs yfir landið seint á mánudag - og svo áfram næstu daga. 

Kuldinn á að ná hámarki á miðvikudag og fimmtudag. Kortið hér að neðan sýnir spána fyrir miðvikudagskvöld.

w-blogg191019b

Litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum, -12 til -15 stig yfir landinu. Ekki alveg met í október, en býsna kalt samt. Það er 5080 metra jafnþykktarlínan sem liggur yfir landið þvert. Það er ekki oft sem þykktin er svona lítil yfir landinu í október. Ritstjóranum sýnist í fljótu bragði að fara þurfi aftur til 1971 til að finna jafnlága októbertölu yfir Keflavíkurflugvelli. 

En svona kuldaspár hafa oft sést án þess að raunveruleikinn hafi tekið mark á þeim. Hvort svo fer nú vitum við ekki - og svo er því líka spáð að þetta gangi fljótt yfir. Spár á spár ofan - alltaf einhver skemmtan.   


Hálfur október

Hálfur október. Meðalhiti hans í Reykjavík er 7,9 stig, +2,9 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en +1,7 yfir meðallagi síðustu tíu ára. Hitinn er í fjórðaefsta sæti á öldinni, en nokkuð langt frá 3.sætinu samt. Fyrri helmingur október 2010 var sá hlýjasti á öldinni, meðalhiti 9,5 stig, kaldastir á öldinni voru sömu dagar árið 2005, meðalhiti 3,8 stig. Á langa listanum eru dagarnir 15 í 11.hlýjasta sæti (af 144), það er fyrri hluti október 1959 sem á efsta sætið með 10,2 stiga meðalhita. Kaldastir voru sömu dagar 1981, meðalhiti -0,7 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana fimmtán 5,4 stig, +2,0 ofan meðallags 1961 til 1990, en +0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára.

Dagarnir eru í fjórðahlýjasta sæti á öldinni við Faxaflóa, Breiðafjörð og á Vestfjörðum, í því 5. á Suðurlandi, 7. á Ströndum og Norðurlandi vestra, 8. á Suðausturlandi og á Miðhálendinu, en í 10 sæti á Norðausturlandi, Austurlandi og Austfjörðum.

Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á meginhluta landsins, mest er jákvæða vikið á Þingvöllum, +2,3 stig, en neikvætt vik er mest í Oddsskarði, -0,8 stig.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 52,7 mm það sem af er mánuði. Það er í ríflegu meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 57,1 mm, tvöföld meðalúrkoma sömu daga.

Sólskinsstundir hafa mælst 29,9 í Reykjavík og er það tæpum 20 stundum færri en í meðalári, en hafa oft verið færri.


Alhvítt fyrst að hausti

Sigurður Þór Guðjónsson benti réttilega á það á fjasbókarsíðu sinni á laugardaginn (12.október) að þá hefði jörð verið alhvít á Sökku í Svarfaðardal og að það væri fyrsta tilkynning um alhvíta jörð í byggðum landsins þetta haustið. Í framhaldi af því var spurt hvort þetta teldist snemmt eða seint. Hér verður reynt að svara því. 

Við eigum innan seilingar upplýsingar sem ná til landsins alls aftur til 1967. Eldri tölur eru til - alveg aftur til 1924 eða svo - en þurfa sérvinnslu. Eitthvað kann að leynast af villum í því sem hér fer á eftir - höfum það bakvið eyrað. Það er ákveðið vandamál að mönnuðum athugunum hefur farið mjög fækkandi síðustu 15 árin, en er þó varla farið að hafa mikil áhrif á þessa ákveðnu tímaröð - en að því kemurm, fari svo sem fram horfir. 

w-blogg141019a

Lárétti ásinn á myndinni sýnir ártöl, en sá lóðrétti dag ársins. Mánaðamót eru merkt sérstaklega. Súlurnar sýna hvenær fyrst hefur orðið alhvítt hvert ár, rauða línan er 10-árakeðja (dagsetninga), bláa strikalínan er reiknuð leitni. Að venju tökum við ekki mikið mark á henni - en hún segir okkur alla vega að haustmerki þessu - fyrst alhvítt í byggð á landinu - hefur seinkað um fimm vikur á hálfri öld. Líklega minna þó hefðum við 100 ár af gögnum. Helst þetta í hendur við hina miklu hlýnun sem átt hefur sér stað síðustu áratugi - og enn sér ekki lát á.

Við sjáum að dagsetningin í ár, 12.október, er í takt við það sem algengast hefur verið síðustu tíu árin, en er mánuði síðar en var að jafnaði fyrir um 30 árum. Breytileiki frá ári til árs er auðvitað mikill. Við sjáum að septemberhretin 2012 og 2013 skera sig nokkuð úr síðariáraháttum - þá varð fyrst alhvítt um svipað leyti og að meðaltali á 8. og 9. áratug 20.aldar.   


Október sem september (eða nóvember)

Árstíðasveifla hitans lætur ekki að sér hæða, frá hlýskeiði til ísaldar á hverju ári. Hún er þó minni hér á landi en víðast hvar á svipuðu breiddarstigi. Hitafallið er sérlega hratt á þessum tíma árs (í október), rétt eins og sólargangur styttist ört. Ekki er fjarri að sólargangurinn styttist um 3 klukkustundir í október og hiti felli á sama tíma um 3 stig. 

Það er því mjög á móti líkum að október sé svo hlýr að meðalhiti (einstaks mánaðar) nái langtímameðaltali septembermánaðar. Það hefur þó rétt komið fyrir. Sömuleiðis er sjaldgæft að október sé svo kaldur að hann keppi við meðalnóvember. 

Fyrir um það bil mánuði (14.september) leituðum við að septembermánuðum sem hita vegna geta talist fullgildir sumarmánuðir - í samkeppni við meðalhita mánaðanna júní til ágúst. Ekki fundust margir. Nú notum við sömu aðferðafræði til að leita sérlega uppi þá októbermánuði - sem keppa við meðalseptember í hita - og í leiðinni þá sem eru svo kaldir að þeir keppa við meðalnóvembermánuð. 

Sem fyrr flækir það málið nokkuð að veður hefur hlýnað mikið á síðust áratugum. Mat á því hvað er hlýtt og hvað kalt hefur því breyst. Við leyfum okkur því að nota meðalhita síðustu þrjátíu september- og nóvembermánaða (á hverjum tíma) til greiningarinnar. Að þessu loknu lítum við á langtímabreytingar á haustkólnun.

w-blogg131019a

Það sem við sjáum á myndinni er þetta: Lárétti ásinn vísar til síðustu 200 ára (tæpra), en sá lóðrétti er hitakvarði. Græna feita línan sýnir 30-árakeðjumeðalhita októbermánaðar, endar á meðalhitanum 1989 til 2018. Línan hefst við árabilið 1823 til 1852. Græni ferillinn hefur í heildina þokast upp á við, um +0,9°C á öld að jafnaði, en sveiflur innan tímabilsins eru þó ámóta aða meiri heldur en hlýnunin. 

Rauða þykka línan sýnir það sama - en á við september. Þessi lína hefur þokast upp á við líka - sveiflur ferlanna tveggja fylgjast nokkuð að í tíma - en þó ekki alveg (eins og sýnt verður hér að neðan). Bleika línan (sú neðsta) á svo við nóvembermánuð. Þreparitið sýnir hins vegar landsmeðalhita einstakra októbermánaða - gríðarlega breytilegur. 

Við merkjum sérstaklega þá októbermánuði þegar meðalhiti októbermánaðar er hærri en meðalhiti 30 næstu septembermánaða á undan, október í septembergervi. Það eru ekki nema 4 mánuðir sem merktir eru á þennan hátt - sá síðasti, október 2016 nær þó ekki alveg marki, því hann keppir líka við hina almennu hlýnun - hann er þrátt fyrir að vera hlýjastur allra ekki nútímaseptember. Það er október 1915 sem stendur sig best - kom óvænt sem ofurhlýr á köldu skeiði, einnig eru október 1920 og 1946 rétt ofan marka - fullgildur septemberhiti. 

Myndin sýnir líka samanburð við nóvember - hvenær október var svo kaldur að hann gæti talist meðalnóvember. Ártölin á neðri hluta myndarinnar sýna hvenær þetta hefur gerst, síðast 1981 (og nærri því líka 1980). Október 1968 kemst með - vegna þess að þá höfðu hlýir októbermánuðir verið í tísku lengi. 

Nú hafa sjálfsagt einhverjir tapað þræði, en við lítum á fleira.

w-blogg131019b

Ekki létt línurit. Lárétti ásinn sýnir tíma, sá lóðrétti til vinstri hversu mikið október er kaldari en september (þess vegna neikvæðar tölur), en sá til hægri hversu hlýrri október er heldur en nóvember (þess vegna eru tölurnar jákvæðar - kvarðanum snúið við til hagræðis). Ferlarnir eru 30-árakeðjur. Byrja báðir árabilið 1823 til 1852 og síðan koll af kolli, allt þar til það síðasta lengst til hægri, 1989 til 2018. Svarti ferillinn vísar til kólnunar frá september til október. Hún sveiflast nokkuð til, er oftast 3 til 4 stig. Svo virðist sem hún hafi minnkað frá því sem áður var - en er þó litlu minni síðustu áratugina heldur en var á elsta skeiði myndarinnar. Október hefur á langtímavísu hlýnað nokkuð meira heldur en september. 

Rauða línan sýnir mun á október og nóvemberhita. Hann hefur haldist nokkuð jafn, um 3 stig. Það er tilhneiging til þess að þegar „lítið“ kólnar milli september og október kólni því meira milli október og nóvember. Á kuldaskeiðinu fyrir 30 til 40 árum kólnaði heldur meir á milli október og nóvember (rauði ferillinn fer niður fyrir þann gráa) heldur en september og október - það er þó undantekning frá því sem algengast er. 

w-blogg131019c

Næsta mynd sýnir mismun hita (alltaf á landsvísu) í september og nóvember. Súlurnar sýna einstök ár. Munurinn er minnstur þegar september er mjög kaldur, en nóvember hlýr - þannig var t.d. 1954. Hann er hins vegar mestur þegar september er hlýr og nóvember er kaldur - eins og t.d. 1996 og 1841. Munur á hita þessara mánaða hefur heldur minnkað, nóvember hlýnað meira heldur en september. 

Leitni af þessu tagi getur auðvitað ekki haldið endalaust áfram - að því kæmi að meðalhiti (30 ár) væri sá sami í september og nóvember og að lokum færi nóvemberhitinn fram úr september. Þetta gerist ekki. En hvaða áhrif skyldi hlýnandi veðurfar hafa á árstíðasveifluna? Leitnin sem við sjáum á myndunum tveimur er býsna mikil. 

Við gætum hér farið að leika okkur með tölur. Sú hlýnun sem hefur þegar átt sér stað í október er um 1,5 stig, um hálfur mánuður. Hversu mikið af þeirri tölu skrifast á reikning hnattrænnar hlýnunar vitum við ekki. Náttúrulegur breytileiki á mun september og októberhita virðist vera um 1 stig - 1 stig er um 10 dagar nú á dögum, en var ekki nema vika fyrir 150 árum. [Nú munu enn fleiri búnir að tapa þræði - og stutt í að ritstjórinn geri það].    


Fyrsti þriðjungur októbermánaðar

Október byrjar hlýlega í ár - hefur þó ekki alveg roð í þá allrahlýjustu. Meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins er 8,3 stig í Reykjavík, +3,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en +2,3 stigum ofan meðallags sömu daga síðastliðin tíu ár og í fjórðahlýjasta sæti á öldinni. Dagarnir tíu voru hlýjastir árið 2002, meðalhiti þá 9,7 stig en kaldastir voru þeir 2009, meðalhiti aðeins 2,6 stig. Á langa listanum er hitinn í 15.hlýjasta sæti. Á honum er 1959 efst, meðalhiti dagana tíu var þá 11,0 stig, kaldast var 1981, meðalhiti +0,1 stig. Munurinn eins og á sumri og vetri.

Á Akureyri er meðalhiti nú 6,9 stig, +3,5 stigum ofan meðallags áranna 1961-1990, en +1,8 ofan meðallags síðustu tíu ára.

Að tiltölu hefur verið einna hlýjast á Vestfjörðum, dagarnir 10 þar í þriðja hlýindasæti á öldinni, en kaldast að tiltölu er á Austfjörðum, hiti þar í 8.sæti á öldinni. Hiti er ofan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, mest á Hafnarmelum, Þingvöllum og Húsafelli, vikið á þessum stöðvum er +3,0 stig. Kaldast að tiltölu hefur verið í Oddsskarði, vikið þar +0,4 stig og einnig +0,4 stig við Streiti.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 45,6 mm og er það vel yfir meðallagi, en langt frá meti. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 33,3 mm, sömuleiðis vel yfir meðallagi.

Sólskinsstundir hafa mælst 18,9 í Reykjavík, 15 stundum neðan meðallags, en þó nokkuð fjarri lágmarksmeti.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b
  • w-blogg101224a
  • w-blogg071224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 120
  • Sl. sólarhring: 144
  • Sl. viku: 955
  • Frá upphafi: 2420770

Annað

  • Innlit í dag: 111
  • Innlit sl. viku: 843
  • Gestir í dag: 106
  • IP-tölur í dag: 105

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband