Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2018

Hiti í desember 2017 til febrúar 2018 (alþjóðaveturinn)

Á máli alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar stendur veturinn í þrjá mánuði, desember, janúar og febrúar. Hér á landi verðum við auðvitað að bæta mars við en sá mánuður er oft kaldastur vetrarmánaðanna. 

En ritstjóri hungurdiska hefur nú reiknað meðalhita alþjóðavetrarins fyrir byggðir landsins og við lítum á línurit sem sýnir þróun hans. 

Geta má þess að landsmeðalhiti í febrúar 2018 reyndist +0,7 stig, +0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára og +1,5 stigum yfir meðallaginu 1961 til 1990, en talsvert lægri en í febrúar í fyrra. 

Landsmeðalhiti í byggð desember til febrúar

Lárétti ásinn sýnir tíma, en súlurnar meðalhita tímabilsins desember til febrúar ár hvert. Eins og sjá má var veturinn í fyrra (2016-17) sá hlýjasti síðan mælingar hófust. Heldur kaldara hefur verið nú í vetur, meðalhiti í byggð er -0,4 stig, -0,6 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára, en +0,8 ofan við meðallagið 1961 til 1990 og hlýrra en bæði 2015 og 2016. Nú hafa meir en 20 ár liðið án þess að við höfum upplifað kaldan alþjóðavetur, sá síðasti var 1994-95. 

En hlýindi undanfarinna áratuga eru að búa til ný viðmið - það sem ekki þótti sérlega kalt fyrir 30 árum þykir það víst nú.

Svo förum við að sjá hvað mars gerir.   


Hæðin siglir til vesturs

Enn er mjög hlýtt víðast hvar á landinu og verður líklega líka á morgun (miðvikudag) síðan fer kólnandi. Heldur er óljóst hvernig sá kuldi hegðar sér - við vitum ekki hvort hann fellst í tiltölulega meinlausri norðaustanátt - eða hvort hann nær að hrökkva í meiri vind og hörku. Það verður víst bara að koma í ljós. En lítum á stöðuna á meðan - eins og evrópureiknimiðstöðin vill nú hafa hana síðdegis á fimmtudag (1. mars).

w-blogg270218a

Við tökum strax eftir hæðinni miklu sem í dag er rétt austan við land - en verður þarna komin yfir Grænland. Í framhaldinu á að dofna yfir henni jafnframt því sem hún þokast enn lengra vestur. Um leið og við komumst í norðanáttina austan hæðar fer hún að draga kaldara loft úr norðri yfir landið.

Mesti kuldinn er hér kominn vestur fyrir Evrópu - er í mikilli upphitun á Atlantshafi vestan Bretlands - spurning hvað verður úr því. Leifar liggja líka eftir við Danmörk og austur um til Svartahafs - trúlega leiðindaveður þar með - en mikið hefur hlýnað í Frakklandi og við Miðjarðarhaf. 

Hæðin hrakti kuldapollinn Stóra-Bola úr bæli sínu og er honum nokkuð brugðið - miðja hans á kortinu vestur af Bankseyju. Hann verður smástund að jafna sig - en er alls enginn aumingi og til alls líklegur. Við vonum að aðalhæðin verði úr sögunni áður en hann fer að hreyfa sig til austurs - þannig að hann geti leitað aftur í sitt eðlilega sæti í stað þess að fara á flakk norðan Grænlands þar sem hann er bein ógnun fyrir okkur.

En það er ekkert hlýtt loft á leið til okkar heldur (að minnsta kosti í spánum). Það er þó aldrei að vita - spárnar sjá ekki allt - langt í frá. 

Rifjum til gamans upp gamlan sænskan veðurfarstexta - úr bókinni (var fyrirlestur reyndar): „Om climaternes rörlighet“ eftir sænskan fríherra Ehrenheim að nafni - árið er 1824 og við erum á síðu 26: 

ehrenheim_26

Þegar komið er niður á miðja síðu stendur (í mjög lauslegri þýðingu): „Því harðari sem vetur er í Þýskalandi og Miðevrópu því mildari og blíðari er hann við Íshafið. Ekkert er betur staðfest í veðurfræði - að kuldi er einskonar gefin stærð - þegar hann þrýtur á einum stað verður ofgnótt af honum á öðrum“. 

Hér er einfaldlega verið að segja að kuldinn sé takmörkuð „auðlind“ - og þrátt fyrir allt eiga kuldapollar norðurhvels sér sín takmörk - „megin“ þeirra nær ekki um allt hvelið. Herji þeir á eitt svæði verða þeir þar með að yfirgefa annað. 

Ehreinheim birtir síðan lista máli sínu til stuðnings. Vinstri dálkurinn sýnir veðurlag á Grænlandi og Íslandi, en sá til hægri veðurlag sama vetur í Þýskalandi. 

Það er þess vegna nánast dálítið hjárænulegt að halda því fram að þetta ástand sé eitthvað nýtilkomið og sérstaklega tengt hnattrænni hlýnun. Það sem er tengt hlýnuninni er það að kuldinn skuli ekki vera meiri og stríðari en hann þó er. Öðru máli gegnir um sumarhelming ársins - á honum er líklegra að svo mikið muni um hnattræna hlýnun að afleiðinga gæti gætt á hringrásina. 


Hlýtt - og svo kalt

Mjög hlýtt er á landinu þessa dagana og verða hlýindin líklega til þess að vikan í heild verður ofan meðallags árstímans. En spár gera samt ráð fyrir því að hann kólni eftir því sem á líður, einkum frá fimmtudegi og áfram. Langtímaspár evrópureiknimiðstöðvarinnar gera svo ráð fyrir því að meðalhiti verði vel undir meðallagi í næstu viku - eins og kortið hér að neðan sýnir.

w-blogg260218b

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, meðalþykkt vikunnar er sýnd með daufum strikalínum - það er 5160 metra jafnþykktarlínan sem liggur yfir landið sunnanvert. Litirnir sýna þykktarvikin - á dökkbláa svæðinu yfir landinu eru þau meiri en -90 metrar. Það þýðir að hita í neðri hluta veðrahvolfs er spáð meir en -4 stigum undir meðallagi árstímans. 

Mars byrjar því harla kuldalega - séu þessar spár réttar. Um sunnanvert landið er spáð þurrviðri lengst af - en snjókomu norðaustanlands. 

Hvort þetta reynist svo rétt er annað mál og engin afstaða tekin hér. Þökkum Bolla að vanda fyrir kortið. 

Mjög hlýtt á að vera báðar vikurnar vestan Grænlands - þar sem hefur lengst af verið mjög kalt í vetur. Hafís er með mesta móti við Vestur-Grænland og hefur danska strandgæslan þurft að aðstoða íbúa nokkurra þorpa þar sem menn hafa ekki komist á sjó. Öðru máli er að gegna um ísinn við Norðaustur-Grænland, hann er með minnsta móti og reyndar spennandi að sjá hvað verður við Framsundið og þar norðan við - á slóðum vakarinnar miklu sem minnst var á hér á hungurdiskum fyrir nokkrum dögum. 


Hlýjasta loftið fer hjá á mánudag

Nú leikur hlýr loftstraumur úr suðri um landið. Enn hlýrra er að tiltölu í háloftunum yfir landinu heldur en niðri í mannheimum. Ástæðan er sú að yfirborð sjávar og lands kælir loftið mjög - það sem snertir sjóinn verður vart hlýrra en yfirborð hans, og það sem snertir jörðu eyðir mestu af orku sinni í að bræða snjó eða láta hann gufa upp. Þar með verður það ekki mjög hlýtt. 

En mun hlýrra er strax fyrir ofan og þar eru sannarlega mikil hlýindi - eina leiðin til að ná hlýindunum niður er með aðstoð vinds og hárra fjalla. 

w-blogg250218b

Heildregnu línurnar á kortinu sýna sjávarmálsþrýsting kl.21 annað kvöld (mánudag 26. febrúar). Lægð á norðurleið er vestast á Grænlandshafi, en mjög mikil hæð yfir Skandinavíu. Á milli kerfanna er mikil sunnanátt. Litirnir sýna mættishita í 850 hPa, í rúmlega 1500 metra hæð yfir sjávarmáli. Mættishiti segir okkur hversu hlýtt loftið í fletinum yrði - væri það dregið niður að 1000 hPa þrýstingi - án blöndunar við það loft sem þar liggur. 

Eins og sjá má er mættishiti meiri en +20°C á allstóru svæði yfir landinu norðaustanverðu - en þar er sjávarmálsþrýstingur hár, í kringum 1030 hPa. Viðmiðunarflöturinn, 1000 hPa er því í um 240 metra hæð yfir sjávarmáli og væri mættishitinn miðaður við það gætum við bætt 2,4 stigum við hámarkstöluna á kortinu, 23,8 stig og fengið út 25,2 stig.

Þetta er auðvitað óvenjulegt, en þó ekki óvenjulegra en svo að í febrúar í fyrra sáum við mættishitann fara upp í 28,0 stig á þessum slóðum. Þá var líka sett nýtt hitamet febrúarmánaðar hér á landi. Ólíklegt verður að telja að slíkt gerist nú - frekar að dægurmet verði innan seilingar. Landshámarksdægurmet 26. febrúar er 15,3 stig, sett á Skjaldþingsstöðum árið 2013, en þess 27. ekki nema 12,8 stig, þriðjalægsta dægurmet ársins, sett í Skaftafelli árið 2003 - tími til kominn að fella það. Næstlægst er dægurmet 5. mars, 12,3 stig, sett á Dalatanga 2008. Lægst allra er dægurmet hlaupársdagsins, 12,0 stig - sett í Fagradal í Vopnafirði 1948, en sá dagur keppir í flokki fatlaðra sem kunnugt er og tekur ekki þátt þetta árið. 

Í neðra hægra horni kortsins sjáum við kuldann úr austri laumast yfir Bretlandseyjar, mættishiti 850 hPa-flatarins þar kominn niður fyrir frostmark - bendir til þess að enn kaldara sé þar undir. Fyrir nokkrum dögum var jafnvel talið líklegt að þykktin kæmist niður fyrir 5000 metra við Bretland einhvern næstu daga, en líkur á slíku virðast hafa minnkað. Þess var getið einhvers staðar að aðeins væri vitað um þrjú tilvik þess að þykktin við Bretland hefði farið niður fyrir 5000 metra, 12. janúar 1987, 7. febrúar 1969 og 1. febrúar 1956. Ekki selur ritstjórinn þessar upplýsingar dýrara en hann keypti - en alla vega má ljóst telja að þetta gerist sárasjaldan. Líkurnar nú munu mestar á miðvikudaginn (28. febrúar). Tilvikin 1987 og 1956 áttu sér stað í austanátt - þá var mjög hlýtt hér á landi á sama tíma - ofsaveður reyndar 1956. En 1969 kom kuldinn til Bretlands úr norðri - þá varð líka ofsakalt hér á landi - eins og stöku maður man auðvitað enn. 


Óvenjulega stór vök við norðurströnd Grænlands

Gervihnattamyndir sýna að óvenjustór vök hefur myndast í ísbreiðuna við norðurströnd Grænlands. Ritstjóri hungurdiska veit ekki hversu algengt þetta er en er líklega sjaldséð - hlýtur þó að hafa gerst áður. Ástæðan er að sérlega öflugar sunnanáttir hafa verið ríkjandi á þessu svæði undanfarna daga. Þær hafa einnig valdið miklum hlýindum á þessum slóðum. Í gær var t.d. frostlaust um stund á þeim fáu veðurstöðvum sem þarna eru. Meðal annars fór hiti á Kap Morris Jesup, nyrstu veðurstöð í heimi, upp fyrir 6 stig. Að sögn dönsku veðurstofunnar er það þó ekki febrúarmet þar um slóðir, því hiti fór í nærri því 8 stig í febrúar 2012. 

w-blogg250218a

Myndin er fengin af worldview-vef bandarísku veðurstofunnar NOAA og er hún samsett úr fjölda strimla. Fjöll og firðir á þessum slóðum sjást mjög vel - þar þar þekur föst lagnaðaríshella firðina og nær spöl út frá ströndinni. Þessi íshella hefur lítið tekið þátt í hinum grófgerðu hreyfingum þess sem utar er. 

Þá er spurning hvers eðlis þessi vök er. Hefur vindurinn aðeins hreinsað ísinn ofan af eða hefur honum líka tekist að draga upp hlýrri sjó úr djúpinu? - Þá er spurning um hvort sá sjór er tiltölulega ferskur - eða hvort uppdrátturinn nær upp saltari sjó sem upprunninn er af suðlægari slóðum. Það væri sérlega athyglisverð staða - lengur tekur að mynda nýjan ís á slíkum sjó en sé hann til þess að gera ferskur. Þessi síðari möguleiki er væntanlega ólíklegri en hinn. Þessi mikla vök gæti bent til þess að ís á þessum slóðum - og utar sé þynnri en venjulega gerist - mótstaða gegn hreyfingu hans því minni en venjulega - vakir myndast frekar en hryggir.

Nú mun annað af tvennu gerast. Ísbrúnin snýr aftur um leið og vindur gengur til norðlægra átta - eða svæðið leggur aftur á nokkrum dögum - sá ís verður þunnur, mun þynnri en sá sem fyrir var. Spáð er mjög kólnandi veðri. Sömuleiðis er spurning hvort nægilega mikið los hafi komið á ísinn til þess straumar útifyrir beri meira af þykkum ís en venjulega inn í Framsundið milli Grænlands og Svalbarða. Sá þykki ísskammtur færi þá með Austurgrænlandsstraumnum suður með Grænlandi og loks suðvestur um Grænlandssund.

En svona stórar vakir eru ábyggilega ekki algengar á þessum slóðum.


Árið 1918 - hvernig var með veðrið eftir að frostunum lauk?

Kuldakaflinn í janúar 1918 var snarpur - einhver sá snarpasti sem við þekkjum - en hann var samt ekki mjög langur. Hann hefur samt tekið alla athygli af öðru veðri þetta merka ár og annað enga athygli fengið - þó það hafi hins vegar verið fjölbreytt og sýnt á sér ýmsar hliðar. Hér verður litið á það helsta - með hjálp veðurathugana og blaðafrétta. Upprunalega stafsetningu hefur ritstjórinn allvíða fært úr lagi.

Janúar: Mjög óhagstæð tíð og fádæma köld. Fyrstu fjóra dagana var hláka. Aðalfrostakaflinn stóð til 22., en þá linaði mikið. Mjög þurrviðrasamt var lengst af. 

Um þennan mánuð hafa hungurdiskar og fleiri fjallað nokkuð ítarlega áður - við leggjum hann því til hliðar að mestu. Óvenjumikill hafís var við landið - en gamalt orðtæki segir að „sjaldan sé mein að miðvetrarís“. Alla vega hvarf hafísinn að braut að mestu snemma í febrúar. Lagnaðarís og ísleifar voru þó víða til trafala inni á fjörðum lengi vetrar og sjávarkulda og tilheyrandi krapa í fjörum getið. Sömuleiðis fóru frostin mjög illa með jörð - frost hljóp í hana og entist langt fram eftir sumri og háði viðkomu jarðargróðurs. 

Febrúar: Mikill skakviðra- og umhleypingamánuður. Fremur kalt var í veðri, einkum þó um landið norðanvert, frá Breiðafirði í vestri og austur á Hérað. Einna kaldast var þann 5. til 7. Illviðrin náðu hámarki upp úr miðjum mánuði, en þá voru mjög djúpar og kaldar lægðir við landið. Mannskaðar urðu á sjó (eins og venjulega liggur manni við að segja). 

Í lok janúar og framan af febrúar var nokkur tregða í kuldanum norðanlands eins og frétt í Tímanum 2. febrúar:

Tíðin hefir verið allgóð í Reykjavík þessa viku, frostlítið eða þíða flesta daga. Aftur á móti hafa verið hörð frost og stormar á Norður- og Vesturlandi. í fyrradag var t. d. 8 stiga frost í Borgarfirði en 5 stiga hiti í Reykjavík. Fyrst í gær var þíða um Borgarfjörð.

Vísir segir ísfréttir þann 7.: 

Fá Seyðisfirði var símað í gær, að ströndin væri íslaus frá Langanesi til Gerpis, en mikill ís á fjörðunum og þeir fullir sumir.

Svipað var víðar - nokkur ís inni á fjörðum, en minna útifyrir. 

Umhleypingarnir urðu hvað stórgerðastir um miðjan mánuð. Frétt í Vísi þann 15.:

Afskaplegt slagveður með rokstormi gerði hér í nótt, en frysti með morgninum. 

Morgunblaðið segir þann 17 frá veðri aðfaranótt þess 16.: 

Snjókoma var afskapleg í fyrrinótt meiri en dæmi eru til um margra ára skeið hér í bæ. Fannirnar víða mannháar og þar yfir.

En þessi mikli snjór stóð fékk ekki frið lengi. Tíminn segir þann 23. frá tíðinni næstliðna viku:

Versta ótíð og illviðri voru fyrri hluta vikunnar. Afspyrnurok sinn daginn hvorn af suðvestri og austri. Úrkoma mjög mikil suma daga, fyrst óvanalega mikill snjór og síðan ausandi rigning. Símabilun varð töluverð í Mosfellssveit, milli 20—30 símastaurar brotnuðu þar, milli Grafarholts og Hamrahlíðar.

Mars: Lengst af fremur hagstæð tíð, einkum suðvestanlands. Stormasamt var þó framan af og norðankast gerði síðustu vikuna. Fremur hlýtt. Enn standa tvö landsdægurmet sem sett voru í þessum mánuði fyrir 100 árum. Þann 4. mældist úrkoma á Teigarhorni 117,1 mm, og þann 17. fór hiti á Seyðisfirði í 14.6 stig - þó var enginn hámarksmælir á staðnum. Hlýir dagar koma þrátt fyrir allt stöku sinnum í köldum árum. 

Morgunblaðið með fréttir af kunnuglegu ástandi þann 2. mars:

Hálkan. Í gær var borinn sandur á flestar eða allar götur bæjarins, enda illfært um göturnar áður fyrir hálku.

Þann 3. gerði austanstorm - sem síðan snerist í útsuður. Þá fórust tveir bátar úr Vestmannaeyjum og með þeim 9 menn. Fleiri sjóslys urðu í mánuðinum. 

Þjóðólfur fjallar um tíðina í pistli þann 23.

Tíðin er indæl. Er langt síðan er komið hefir jafnhlýr marzmánuður á Suðurlandi. Þessi mánuður reynist oft kaldur og harðleikinn. Nú er á degi hverjum hlýtt veður og úrkoma öðru hverju. Er það mikil dýrtíðaruppbót, er veitt er landinu á þennan hátt.

En skjótt skipast ..., viku síðar (þ.30) birtist þessi pistill í Þjóðólfi:

Tíðin seinustu viku á sér furðu fjölbreytta sögu, þó að stutt sé. Fyrst var hún afbragð, svo að þeir, sem ekki eru vel stæltir í almanakinu, hefðu getað haldið, að komið væri fram í maí. En á þriðjudagskvöld [26.], skipaðist skyndilega veður í lofti. Kom þá frost og kuldi og þótti mönnum blása heldur kaldan á miðvikudagsmorgun og bjuggust við, að nú myndi páskahretið, er gamlir menn kveða alltaf koma yfir landið, verða hið versta. En daginn eftir var veður blíðara, kuldinn minni og lygnara. Á skírdag [28.] kom ofurlítið él síðdegis, og á langa frjádag var veður stillt, en snjór á þökum og götum. 

Meðalhiti í Reykjavík þann 28. var -8,7 stig og -10,5 í Stykkishólmi. 

Veðrið þ. 26. til 28. olli nokkru tjóni - Vísir segir frá þann 28.

Símskeyti frá Hjalteyri 27. mars. Í gærkveldi gerði hjer voðaveður af norðaustri með sjógangi og hríð. Rak þá aftur inn ísinn, sem komin var á útrek, og fyllti inn að samfrosna ísnum, sem nú er út á Hörgárgrunn. Á innleið braut ísinn bryggjur Thorsteinssons hjer utan á eyrinni alveg, sömuleiðis bryggjur Ásgeirs Péturssonar og Samuelsons innan á eyrinni og skemmdi fleiri. Kveldúlfsbryggjan er þó óskemmd. Tjónið, sem af þessu er orðið, er afamikið. Lagarfoss liggur enn á Sauðárkróki og getur ekkert aðhafst. Sterling er á Reykjarfirði. Ef veður hægir, er von um, að ísinn greiðist svo í sundur, að Sterling komist hingað.

Apríl: Allgóð tíð, en fremur umhleypingasöm. Enn var ís sums staðar á fjörðum. Norðangarð gerði í fáeina daga snemma í mánuðinum. Þá fórst bátur úr Ólafsvík, tveir frá Akranesi, flóabáturinn Svanur strandaði við Grundarfjörð (mannbjörg þó) og þrír bátar brotnuðu í vör í Reykjavík. Sumir töldu reyndar að stórhveli hefði grandað Ólafsvíkurbátnum. Fjárskaðar urðu í Húnavatnssýslum. 

Á undan norðangarðinum voru allgóðir dagar að sögn Tímans (þ.6.)

Tíðin hefir verið afbragðs góð undanfarið. Vægt kuldakast gerði um páskana og frost er enn flestar nætur, en sólbráð á daginn og logn. Undir Eyjafjöllum eru tún farin að grænka — Gæftir hafa verið góðar og er afli ágætur á báta og þilskip.

Morgunblaðið segir frá þann 11. apríl:

Lagarfoss komst ekki lengra inn á Eyjafjörð fyrir ís, en að Hjalteyri, um 28 kílómetra frá Akureyri. Kjötinu varð að aka á sleðum frá Akureyri og höfðu um 200 manns atvinnu við það, mest bændur úr nágrenni Akureyrar. 3-4 smálestir fóru á hverjum sleða, en hver sleði fór eina ferð á dag, meira ekki hægt vegna vegalengdar. [Hvaða kjöt þetta var kemur ekki fram].

Og tveimur dögum síðar (þ.13.):

Grimmdargaddur var um alt land í gær. Er í meira lagi umhleypingasamt, rigning og hlýja annan daginn en frost hinn. Borðeyri í gær: Síðastliðinn mánudag (8.) gerði skyndilega afskapaveður og blindhríð hér nyrðra. Að Klömbrum í Húnavatnssýslu var þá nýbúið að láta 120 fjár út á beit, en svo brátt skall hríðin á, að það voru engin tiltök að ná féinu í hús. Lá það því úti um nóttina, en um morguninn þegar menn fóru að leita þess, fundust 40—50 kindur helfrosnar. Fimm vantaði alveg, en nokkrar fundust að eins með lífsmarki.

En svo batnaði nokkuð og þann 27. birti Tíminn bréf sem dagsett er undir Eyjafjöllum þann 18.

Tíðin er alveg eindæma góð. Í dag er hreinasta Jónsmessuveður, lofthiti mikill, þokuhjúfur, og sér til sólar við og við. Grasið hoppar upp, orðið algrænt fram með vegum og undir og utan í veggjum. Haldist þessi tíð, verður hér kominn nauthagi um lok. Aflabrögð hafa ekki verið eins góð undanfarin ár og nú.

Gæðin héldu áfram því þann 27. birtist eftirfarandi klausa líka í Tímanum:

Tíðin hefir verið afbragðs góð þessa viku hlýindi og rigningar um allt land. Sumardagurinn fyrsti [25.] hér í Reykjavík var einn hinn fegursti sem menn muna. 

Maí: Góð tíð og fremur hlý, þó kólnaði nokkuð síðast í mánuðinum.

Vestri hrósar tíðinni í pistli þann 14. maí:

Tíðarfar hefir verið óminnilega gott síðan um sumarmál, logn og sólfar daglega; dálítið frost sumar næturnar. Sauðfé mun alstaðar sleppt hér í nærsveitunum og vallarávinnsla víðast að byrja. Er slíkt óvenju snemmt.

Fréttir segja frá 2. maí:

Öndvegistíð er á Austfjörðum og í Fljótsdalshéraði. — Farið að vinna á túnum. Árgæzka er nú um land alt. Borgfirðingar eystra hafa sleppt fé sínu, og er það sjaldgæft í þeirri snjóasveit, að það sé gert svo snemma.

Og Morgunblaðið þann 8. maí:

Tún hér í bæ og í grenndinni eru nú orðin græn og tré í görðum sumstaðar tekin að laufgast. Er það óvenju snemma, enda hefir ekki verið eins gott vor i manna minni sem nú.

Svo segir í Tímanum þann 30.:

Tíðin er ávalt hin ákjósanlegasta hér syðra. Kartöflur farnar að koma upp í görðum. Á Norður- og Vesturlandi er kvartað um hita og þurrka. 

En svo skipti mjög til verri tíðar.

Júní: Óhagstæð tíð lengst af. Fremur kalt. Einna verst varð um miðjan mánuð. Fram á Siglufirði segir frá þann 15.:

Tíðin hefir verið óviðfelldin þessa viku. Framan af gengu miklar rigningar og hálfgerðir kuldar, hríðaði mikið í fjöll, en á föstudagsnótt [14.] alsnjóaði, og hélt því áfram mest allan daginn. Í dag er norðan rigning. Gróður var orðinn hér allgóður, þó voru kalblettir á stöku stað, gerir snjór þessi jörðinni ekkert til, ef ekki verða kuldar þegar uppbirtir. Róðrar voru byrjaðir, og útlit fyrir góðan afla, en nú eru þeir tepptir bæði sökum óveðurs og beituleysis.

Nokkrum dögum áður, þann 10., birtist þessi frétt í Morgunblaðinu:

Kappleikurinn í gær fór þannig að Víkingur sigraði Val með 5:0. Veður var illt, stormur af suðaustri og úrkoma með köflum. Var knötturinn illhemjandi innan svæðisins.

Og mæðutónn var í blaðinu þann 15.: 

Sjö vikur voru af sumri i gær, en eigi var þó sumarlegt. Frost var á Grímsstöðum (0,5 stig) og kuldastormur hér og mátti sjá éljagang á Esjunni og Skarðsheiði og hvítnuðu kollar þeirra af snjó. 

Veður var þó gott 17. júní að sögn Morgunblaðsins: „varla kalt og ekki heitt“. Fréttir tóku nú að berast af kali í túnum. Tíminn segir þann 19.:

Tíðin hefir verið köld upp á síðkastið og úrkoma mikil. Útjörð mun viðast vel sprottin. En tún eru stórkostlega skemmd af kali allstaðar á landinu. í Borgarfirði t.d. lætur nærri að helmingur sumra túna sé skemmdur. Er fyrirsjáanlegur töðubrestur um land allt.

Eftir þetta skánaði veður og hlýnaði nokkuð. Þó var býsnakalt í Reykjavík undir lok mánaðarins, meðalhiti þann 29. ekki nema 6,5 stig. 

Júlí: Fremur hagstæð tíð talin á S- og V-landi, en nokkru síðri norðaustanlands. Lengst af var kalt í veðri. 

Reykvíkingar voru heppnir með helgaveðrið - sé að marka frétt Morgunblaðsins þann 8. júlí:

Bjart veður var í gær, og er þetta þriðji góðviðris-sunnudagurinn í röð. Það bregst ekki, að Reykvíkingar nota slíka daga sér til skemmtunar. 

Blaðið Fréttir greinir frá þann 9.:

Gróður er alveg óvenjulega lítill í sumar og munu vetrarkuldarnir valda miklu um það. Túnin hér austur um og í Þingvallasveitinni sýnast alls ekki ljábær enn, og eru gráir blettir innanum þar sem varla sést strá. Skemmdir hafa orðið miklar á trjágörðum bæjarins í vetur og vor. Standa margar trjágreinarnar blaðlausar og feysknar. Varla geta það verið kuldarnir einir í vetur sem valda þessu, því að reynsla í öðrum löndum sannar að frostin ein saman granda ekki trjágróðri, ef sumur eru nægilega löng og heit. Aftur er eyja og útnesjaloftslagið allskonar trjám óholt og sést það á því, að í Færeyjum geta ekki þrifist skógar á bersvæði og hafa þó tilraunir verið gerðar af kappi að rækta skóg þar í 30 ár eða meira. 

Og þann 14. í sama blaði:

Illa gengur slátturinn. Fyrir svo sem viku var byrjað að slá Landakotstúnið. En svo lélegt var það, að ekki voru teknir nema blettir hér og hvar. Annars liggja flest tún enn óslegin og má slíkt eins dæmi heita hér, er komið er fram í miðjan júlímánuð. Oftast er búið að slá hér tún fyrir júnílok.

En þrátt fyrir svalann var veður fagurt í Reykjavík - kannski menn hefðu bara verið harlaánægðir nú á dögum. Fréttir segja þann 20. júlí:

Sólarlagið hefur verið mjög fagurt nú fyrirfarandi síðan norðanáttin hófst. Reykjavík er annáluð fyrir það, hvað sólarlagið sé hér fagurt er það nær að njóta sín, en því nær það því aðeins, að það séu háloftsský og ekki dimmt yfir Snæfellsfjallgarðinum. — Svo óheppnir sem dönsku nefndarmennirnir [fullveldissamningar stóðu yfir] voru með veðurlagið fyrst er þeir komu hingað, svo hrifnir er sagt að þeir hafi verið af björtu kvöldunum, er veðrið tók að bæta. Norðan-hvassviðri var í gær og rauk svo moldin og sandurinn á götunum, að vart var úti vært. Storminn lægði undir kvöldið.

Stormsins er einnig getið í Morgunblaðinu þann 22.:

Moldryk hefir verið með mesta móti á götum bæjarins undanfarna daga, svo að varla hefir mátt heita „ratljóst“, þegar verst hefir verið; er og lítið gert til að væta göturnar. Í fyrradag var mikið mistur á austurlofti. Segja fróðir menn það komið alla leið austan af Rangárvöllum.

Frá Rangárvöllum fréttist af tjóni vegna sandfoks. „Fréttir“ segja þann 3. ágúst:

Austur á Rangárvöllum er sagt að verið hafi svo mikið sandrok nú fyrirfarandi, að jarðir hafi stórskemmst. Er einkum sagt að á Reyðarvatni hafi hlotist mikið tjón af þessum ófagnaði.

Þó ekki tilheyri veðri verður hér að birta pistil Frétta um klukkuna þann 28. júlí. Í stríðinu var svonefndur sumartími tekinn upp - klukkunni flýtt um eina stund. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki heyrt eða séð eftirfarandi tillögur um klukkutilhögun annars staðar:

Dimma tekur nóttina smám saman, enda liðnar 5 vikur frá sólstöðum. Þó verða menn þess síður varir nú en endranær, þar sem klukkan er einlægt einni stund á undan tímanum. - Óviðkunnanlegt þykir mörgum og óþægilegt að hafa þessa fljótu klukku bjartasta árstímann. En seinni part sumars og seinni part vetrar er hún góð. Hví ekki að skipta árinu í fjóra jafna parta eins og stungið hefur verið upp á og hafa það fyrir fasta reglu að flýta klukkunni um eina stund að kvöldi 5. febrúar og 5. ágúst, en seinka henni aftur að kvöldi 5. maí og 5. nóv. hvert ár?

Mánuðinum lauk með óvenjuhlýjum degi. Ritstjóri hungurdiska telur út sérstaklega daga þegar hiti í Reykjavík víkur meir en 2 staðalvik frá meðallagi árstímans (miðað við tímabilið 1931 til 2010). Mjög kaldir dagar árið 1918 teljast 23 (þar af 12 í janúar einum), en aðeins einn dagur telst mjög hlýr - það var 31. júlí. Fréttablaðið Fréttir (1. ágúst) segir að hiti í Reykjavík hafi mest farið í 23 stig - út af fyrir sig ekki ólíklegt. Hæsti hiti á athugunartíma var 21,2 stig - og meðalhiti 17,3 stig. Blaðið segir einnig að austanvindur hafi verið og moldryk mikið í lofti. 

Sé sama æfing gerð fyrir Stykkishólm eru mjög köldu dagarnir þar 28 (þar af 19 í janúar) en aðeins einn er mjög hlýr, 31. júlí, eins og í Reykjavík. Þá mældist hámarkshiti í Hólminum 21,3 stig - það er óvenjulegt að hiti fari yfir 20 stig þar um slóðir.

Þennan ágæta dag lék mjög hlý en nokkuð hvöss austanátt um landið - einnig var hlýtt nyrðra, en mælingar frá Akureyri voru rýrar einmitt um þessar mundir - hiti fór í 23,9 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 31. júlí og 28,0 stig sáust á mæli í Möðrudal 2.ágúst - en sá virðist hafa verið illa varinn fyrir sólinni - eða varmageislun frá nálægum veggjum - og varlegt að trúa. Fyrstu ágústdagarnir voru mjög hlýir inn til landsins norðaustanlands, hámarksmælingar skortir, en á Grímsstöðum á Fjöllum fór hiti í meir en 25 stig þ. 1., 2. og 3. Þar er einnig grunur um geislunarvanda í miklu sólskini. Morgunblaðið segir þann 6. ágúst: „Á Akureyri sagður ofsahiti“. 

Ágúst: Nokkuð stopulir þurrkar á S- og V-landi og í útsveitum nyrðra. Fremur kalt.

Eins og vikið hefur verið að á hungurdiskum var sumarið 1913 eitt mesta rigningasumar um landið sunnanvert - og greinilega einskonar viðmið um slæmsku um þetta leyti (slíkur samanburður er alltaf athyglisverður - þó hann sé ekki endilega raunhæfur - segir frá hugarástandi). Hér er pistill sem birtist í Fréttum þann 4. ágúst:

Kalt virðist sumarið ætla að verða líkt og sumarið 1913 var hér á þessu horni landsins, þótt nú hafi ekki verið eins sólarlaust og þá var. Hér í bænum má sjá ýms merki þess að kaldara er en í meðalári og má til dæmis taka hvað slýinu í tjörninni gengur óvenju illa að vaxa. Flugur sjást og varla i sumar, þær þrífast ekki nema heitt sé. Úr sveitinni er sagt að búpeningur manna geri mjög illa gagn vegna kuldans og má búast við að fé verði með rýrara móti í haust.

Blöðin héldu áfram að birta fréttir af grasbresti, Morgunblaðið þann 8. ágúst (hér mikið stytt): 

Alstaðar að er að frétta grasbrest. Í Suður-Þingeyjarsýsla voru horfurnar mjög slæmar; túnin kalin til stórskemmda og harðvellisengjar sömuleiðis, t. d. grundirnar i Bárðardal. Þar í sveit er mikil hjálp að grávíðilaufi. Þar eru slegnar stórar samfeldar laufbreiður hér og þar í heiðalöndunum. Bóndinn í Svartárkoti var búinn að fá 40 hesta af laufheyi í júlí og átti úti annað eins og hélt áfram að slá laufið. ...  Í Vestur-Húnavatnssýslu voru bændur að heyja brakflóa uppi á heiðum. Á Stað í Hrútafirði var verið að reiða heim útheyið i vikunni sem leið. Slegið i forarflóum, sem ekki hafa verið slegnir fyrr, vegna þess að ekki hefir verið fært um þá. En nú má fara með hesta um þessa flóa þvera og endilanga, því að ekki eru nema 9 þumlungar niður á klaka.

Þessi frétt birtist í Morgunblaðinu 18. ágúst:

Síminn til Seyðisfjarðar var bilaður í gærmorgun og olli það, að ísing hafði sezt svo mikil á símana yfir Haug (austan Grímstaða á Fjöllum) að talið er að þeir hafi orðið eins gildir og mannshandleggur og víða slitnar af þunganum. Þetta er sumarhitinn á Íslandi.

Svo kom kafli með rigningum sunnanlands - Tíminn 24. ágúst:

Óþurrkur hefir verið þessa viku á Suðurlandi. Eru margir bændur byrjaðir að gera vothey.

Blaðið Fram á Siglufirði birtir veðurfarshugleiðingu þann 24. ágúst (aðeins stytt hér - ritstjóri hungurdiska veit ekki hver FOH er):

Hin óstöðuga, vonda veðrátta sem nú hefir haldist í margar vikur, gefur tilefni til ýmislegra hugleiðinga, þar sem það er óþekkt áður að sumartíðin hafi verið svo slæm, sem hún hefir verið í sumar og í fyrrasumar. Meðal annars er menn hafa gert sér í hugarlund að sé orsök þessarar vondu veðráttu, er hin afarmikla skothríð er öðru hvoru fer fram á vígstöðvunum í vestur Evrópu, er það skoðun manna — og það ekki svo fárra — að hún orsaki miklar breytingar og röskun á loftstraumunum. Að hve miklu leyti þessi skoðun er rétt, leiði ég hjá mér að dæma um, en dæmi eru þess, að miklar sprengingar dreifa skýjunum, það er að segja undir sérstökum kringumstæðum. ... Það er því ekki alveg ómögulegt, að skothríðin í Vestur-Evrópu geti áunnið í líka átt í stærri stíl, en að áhrifin af skothríðinni nái alla leið hingað og geti orsakað hina vondu veðráttu má skoða í fyllsta máta vafasamt. Réttara mun að álíta að veðráttan sé sprottin af því, að byrjað sé og fari mjög vaxandi kuldatímabil á norðurhálfu hnattarins. Það mun því vera „bull út í bláinn“ þegar fólk kennir stríðinu um hina vondu veðráttu, og einungis sprottið af hinni almennu löngun og tilhneigingu til að kenna stríðinu — með eða án ástæða, um alt er móti blæs á hinum síðustu tímum, F. O. H.

Undir lok mánaðarins gerði leiðinlegt landsynningsveður - Fréttir segja frá þann 29.: 

Eitt versta veðrið á sumrinu var í gær, hvassviðri á sunnan með dynjandi rigningu. Nú er höfuðdagurinn í dag og hafa margir trú á því að þá breyti til um veðurlag annaðhvort til hins betra eða verra. Nú hefur verið vont fyrirfarandi og vænta menn því hins góða. — Eitthvað mun hæft í því að veðraskipti verða oft um höfuðdag, hafstraumar munu breytast um það leyti, sunnanstraumar fá yfirhöndina sem sést á því, að þótt hafís liggi sumarlangt, þá vita menn þess ekki dæmi að hann liggi fram yfir ágústlok.

Og þann 31.:

Höfuðdagurinn hafði sinar verkanir. Í gær var hann kominn úr rigningar-áttinni i norðan hvassviðri með þurrki. Á morgun er Egidíusmessa og er hún einnig sögð að hafa áhrif á veðráttufarið. 

Morgunblaðið segir þann 6. september frá tjóni í veðrinu þann 30.:

Ofsaveður er sagt að hafi verið á Blönduósi síðastliðinn föstudag. [30. ágúst] Tók þar út um 200 síldartunnur er bændur áttu og fluttar höfða verið frá Reykjarfirði. Þá rak þar og upp vélbát og brotnaði hann í spón.

September: Afspyrnukaldur mánuður og tíð víðast talin mjög óhagstæð, einkum norðanlands. Syðra var fremur þurrt. Í kasti um miðjan mánuð snjóaði einnig á Suðurlandi.

En ekki var alveg allur jarðargróði rýr ef trúa má frétt í Fréttum 2. september:

Ribsberjavöxtur er alveg óvenju mikill í sumar. Eru berjaklasarnir nú sem óðast að roðna og þroskast. Stingur þetta mjög i stúf við gróðurbrestinn á öðrum sviðum á þessu sumri. — Ef til vill mun garðræktin heppnast vonum fremur, enn ekki er það fullséð enn.

Og skemmtileg klausa er í sama blaði þann 4.:

Þurrkar hafa verið ágætir undanfarna daga. Hafa heyjabændur verið önnum kafnir við heyþurrkun og fiskverkarar við fiskþurrkun. Sunnudagurinn er leið, var þá líka óspart notaður, því að menn þorðu ekki að eiga undir því að svo gott veður héldist, enda getur oft orðið dýrt að halda hvíldardaginn heilagan hér á Suðurlandi er óþurrkar ganga. Menn þykjast hafa tekið eftir því, að í óþurrkatíð sé helst von að blási af á sunnudögum og kalla það „sunnudagaglennur“. Þykir þá sjálfsagt að „hafa dagaskipti við drottinn“ eins og komist er að orði. Símfregn frá Blönduósi segir að hvasst norðanveður hafi gert þar nyrðra um helgina, hey hafi fokið sumstaðar og vélbát rekið í strand.

Þessa fyrstu septemberdaga bárust fregnir af 30 stiga hita á Seyðisfirði - ekkert nærri því sést í veðurathugunum frá staðnum - ekki einu sinni 20 stig.

Svo gekk í leiðinlega norðanátt og verulega kulda. Ýmsar fréttir bárust af hretinu - Morgunblaðið birtir þann 15. frétt frá Seyðisfirði (dagsetta þann 14.):

Afskaplega illt veður undanfarna daga. Í nótt var hér frost og i dag snjókoma. Alhvít jörð niður að sjó. Aflalaust með öllu vegna ógæfta. Sumir eru í þann veginn að hætta heyskap vegna slægjuleysis. 

Og þann 16. birtist í sama blaði frétt frá Sauðárkróki:

Sauðárkróki i gær. Hér var 8 1/2 gráðu frost fram í sveit í nótt og grasfyllir af snjó vestan vatna. Hér á Sauðárkróki er 4 gráðu frost, hríðarfok öðru hvoru, en bráðnar i rót með sólskini. 

Líka var kuldalegt i Reykjavík (sama dag) - það er mjög óvenjulegt að Tjörnina leggi svo snemma:

Tjörnina lagði í fyrrinótt og alhvít fjöll. Haustið ætlar að byrja snemma og kuldalega í ár.

Kuldinn hélt áfram og þann 26. festi snjó í Reykjavík og ökklasnjór sagður í Mosfellssveit. Skeiðarréttum var frestað vegna tafa við smölun. Fé sagt hafa fennt. (Morgunblaðið)

Október: Meðaltíð. Hiti í meðallagi. Snjóasamt í útsveitum nyrðra þegar á leið svo hey lentu undir snjó. Bátur frá Reyðarfiðri fórst þann 4. Nóttina eftir varð maður úti á Fjarðarheiði. Talsvert illviðri gerði þann 6. og varð tjón á Siglufirði - Fram segir frá þann 12.:

Ofsaveður með miklum sjógangi gerði hér aðfaranótt sunnudags síðastt. og urðu ýmsar skemmdir. Galeas er hér lá, rak á grunn á Skútufjöru, og er tvísýnt um að hann náist út. Skipið er eign Friðriksens timburkaupmanns í Rvík. og átti að sögn að taka hér síld til Svíþjóðar. Njáll hákarlaskip hinna sam. ísl. verslana hraktist inn á leiru, og einn mótorbátur fór á sömu leið. Bryggjur brotnuðu hjá H. Söbstað. Alla vikuna hefir verið vesta veður, rok og úrfellir og ýmsar aðrar skemmdir og tjón orðið. Má þar á meðal annars nefna að platning féll niður hjá Helga Hafliðasyni, var á henni síld og salt, allt mun þó hafa náðst upp. Barkur sá, er Sören Goos stórkaupmaður lét setja niðursem bryggjuhöfuð við síldarstöð sína í Hvanneyrarkrók rótaðist allmikið, og braut utan af sér staura og binding, er sett hafði verið á hann, voru þó staurarnir reknir niður og vel frá öllu gengið. Eitthvað mun hafa tekið út af fé eins og vanalegt er hér á haustum þegar sjórót er mikið, hve margt það hefir verið er ekki kunnugt.

Hér verður ritstjóri hungurdiska að játa að hann kannast ekki við orðið „platning“ - giskar á bryggjugólf eða eitthvað þess háttar en upplýsingar væru vel þegnar. 

Þann 14. kom fram í Morgunblaðinu að víðar hafi orðið tjón vegna sjógangs í sama veðri:

Allar bryggjur í Hrísey mölbrotnuðu. Fólk varð að flýja húsin í Ólafsfirði fyrir hafrótinu.

Einkennileg frétt birtist í Morgunblaðinu þann 4.:

Sú nýlunda hefir borið við i sumar að rjúpur hafa skemmt matjurtagarða. Á Hólmavík hefir orðið að reka þær hópum saman úr görðum, hafa þær bitið kálið og eyðilagt þannig rófnatekju, þar sem þær hafa komið snemma í garðana. Í Hrútafirði er víða kvartað undan þessu. Í Bæ í Hrútafirði eyðilögðu rjúpur í sumar garð fyrir Guðmundi G. Bárðarsyni bónda þar. Átti hann þar einnig trjáplöntur ýmsar og sáu rjúpurnar alveg fyrir þeim. Ekki hefir heyrst fyrr getið um að rjúpur hafi verið svona nærgöngular á sumrum og vita menn ekki hvað veldur. En sumir segja að til fjalla sé nú mjög lítið um grænt rjúpnalauf. Líti út fyrir að það hafi dáið út i vetur.

Eldgos hófst í Kötlu eftir hádegi þann 12. Þá var veður bjart og víða sást því til gossins. 

Þann 17. olli sviptivindur manntjóni í Ólafsvík. Vísir segir frá þann 22.:

Á fimmtudaginn var vildi til einkennilegt slys i Ölafsvik. Þar voru fimm menn að setja uppskipunarbát, en veður var hvasst og byljótt og snögglega gerði hvirfilbyl svo snarpan, að báturinn tókst hátt á loft, hvolfdist í loftinu og féll svo til jarðar en þrír mennirnir urðu undir honum. Tveir mennirnir urðu fyrir svo miklum áverkum, að þeir dóu báðir, annar í fyrradag en hinn i gærmorgun. Sá þriðji slapp óskemmdur, hafði lent alveg innundir bátnum.

Nóvember: Hægviðrasöm og góð tíð, einkum eftir þ.10. Hiti í meðallagi. Ekki var þó illviðralaust með öllu, því mikið landsynningsveður gerði suðvestanlands þann 19. Ekki getið tjóns en talið óhollt inflúensusjúklingum. Höfuðborgin og fleiri staðir á landinu lömuðust í meðan spænska veikin gekk yfir. 

Nokkur snjór var í upphafi mánaðarins og tafði hann fjárrekstra í Grímsnesi. Einnig var þess getið í Morgunblaðinu þann 4. að bifreiðar hafi ekki komist hjálparlaust yfir skaflana á Hellisheiði - kannski í fyrsta sinn sem getið var um slíkt í blöðum? En ekki voru bílar öflugir á þessum tíma. 

Vísir segir frá þann 27. nóvember:

Öndvegistíð er um land alt og hefir verið síðustu dagana, eins og indælasta vortíð. Frá Hnausum í Húnavatnssýslu var sagt frá því nýlega i símtali, að þar væru sóleyjar að springa út þessa dagana. Væri mikil bót að því, ef slík tíð héldist, meðan inflúensan er að ljúka sér af.

w-blogg240218a

Desember: Góð tíð og hægviðrasöm. Hiti í meðallagi. Gott veður var á fullveldisdaginn 1. desember - en svalt. Hæðarhryggur yfir landinu. Myndin sýnir frétt Morgunblaðsins. Talsvert frost var fyrir jólin - einkum norðaustanlands. Jólin voru hvít suðvestanlands, Morgunblaðið segir frá:

Bezta veður má heita að hafi verið nú um jólin, nema 1. jóladag. Þá var hríðarbylur um morguninn, en rigning um kvöldið.

Lýkur hér umfjöllun hungurdiska um árið 1918. Í viðhenginu eru ýmsar tölulegar upplýsingar (torræðar sumar). 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hreinsar frá?

Þegar þetta er ritað er enn eitt landsynningsillviðrið um það bil í hámarki um landið vestanvert. Mjög hvasst er víða og sömuleiðis gríðarleg úrkoma - (mismikil þó eins og gengur). Lægðin sem veldur er um 940 hPa í miðju, en rúmlega 1040 hPa hæð yfir norðanverðri Skandinavíu heldur á móti. Það er forn þumalfingurregla að birtist 16 jafnþrýstilínur eða fleiri á sama norðuratlantshafskortinu sé þar einhvers staðar fárviðri. - Nú eru þær um tuttugu. 

En lægðin grynnist hratt til morguns og hörfar - hæðin styrkist að vísu og leitar til vesturs - en morgundagurinn, laugardagur 24. febrúar, virðist þó ætla að verða skárri en dagurinn í dag. Kuldaskil lægðarinnar eiga að komast alveg austur fyrir land síðdegis. 

En hæðin vill sitt - áhrifasvæði hennar er austan við skilin og eigi hún að ná völdum hér verður hún að senda þau vestur fyrir aftur - eða að minnsta kosti að skera þau í sundur. Reiknimiðstöðvar hafa verið nokkuð ósammála um smáatriði þeirrar sóknar en kortið hér að neðan sýnir tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna um hádegi á sunnudag (25. febrúar).

w-blogg230218a

Sé eitthvað að marka þetta er sunnanveðrið um það bil að ganga aftur. Líkur eru þó á að það verði talsvert linara en það var í dag og að mesta úrkoman fari vestan við land. - En það er sum sé ekki alveg búið. Svo gætu smáatriði í framhaldinu orðið skemmtileg. Reiknimiðstöðin segir þessi skilaátök nefnilega eiga að halda áfram - allt þar til á fimmtudag í næstu viku. Hádegisspárunan í dag segir skilin þá koma enn aftur - úr norðri og töluverðan kuldaþræsing í kjölfarið. Ekki er þó víst að hægt verði að halda þræði í þeirri sögu allri. 

En hæðin á að fara yfir 1050 hPa á mánudag og þriðjudag. Háloftahæðin yfir (sem stjórnar) verður þó farin að laumast vestur á bóginn - verður á sunnudag við Færeyjar, við austanvert Ísland á þriðjudag, komin til Suður-Grænlands á fimmtudag og um næstu helgi langt vestur í Ameríku. Fari svo opnast brautir norðlægra og kaldra vinda til Íslands.

En lítum til Evrópu. Mikill kuldi streymir þar til vesturs frá Síberíu.

w-blogg230218b

Kortið sýnir stöðuna síðdegis á sunnudag - einmitt í þann mund sem sunnanveðrið snýr aftur til okkar. Litirnir sýna þykktina - í svalri sumarstöðu hér á landi - kuldinn leikur hins vegar um mestalla Evrópu - og á eftir að fara vestar.

Það er þægilegt að fylgjast með hita með því að skoða breytingar á þykktarkortum því þykktin er lítt trufluð af landslagi og hinir stóru drættir sjást mjög vel. Aftur á móti verðum við ætíð að hafa í huga að þó gott samband sé á milli þykktar neðri hluta veðrahvolfs og hita í mannheimum víkur oft nokkuð frá. 

Loft sem streymir yfir snævi þakið land hlýnar lítt og þannig er því varið með Síberíuloft sem kemur til Evrópu beint úr austri eða norðaustri. Hiti neðst í veðrahvolfinu hefur tilhneigingu til að vera lægri heldur en almennar þykktarþumalfingursreglur segja til um. Hiti á kalda svæðinu á kortinu er því trúlega lægri en hann væri við sömu þykkt hér við land. 

Hér á landi er (oftast) kaldara í norðanátt heldur en í vestanátt við sömu þykktartölur. Nóg um það.

Vísindamenn gerðu sér grein fyrir sérkennum austankuldans í Evrópu þegar á 18. öld og töluðu um kaldan, mjóan ás sem geti teygt sig allt til suðvesturhluta Pýrenneaskaga - jafnvel með samtímahlýindum í Skandinavíu og óróa við Miðjarðarhafið. - Ritstjóri hungurdiska minnist þess að hafa einhvern tíma séð kuldaásinn teygja sig allt suðvestur til Kanaríeyja frá Rússlandi - en vonandi sleppa eyjarnar nú.

Aftur á móti senda reiknimiðstöðvar þykktina á Bretlandi niður undir 5000 metra - slíkt er óvenjulegt þar um slóðir (og kannski ólíklegt að af verði) - hún fer ekki svo neðarlega hér á landi á hverjum vetri. Íslandsmetið (á tíma áreiðanlegra háloftamælinga) er um 4900 metrar - svipað og sjá má í fjólubláa blettinum yfir Rússlandi á kortinu (ekki svo mjög óalgeng þykkt þar um slóðir). 


Hvernig verður með hæðina?

Spár virðast nú nokkuð sammála um að hæð úr austri muni ná undirtökum í veðrinu hér á landi (og víðar) á næstunni - reyndar fer áhrifa hennar að gæta að einhverju leyti strax um helgina. En reiknimiðstöðvar eru samt ekki sammála um hvernig verður með hana - hvort hún kemur okkur að gagni í baráttunni við ótíðina - eða hvort hún verður bara einn ótíðarvaldurinn í viðbót. 

Lítum á meðalspá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir næstu viku - mánudag 26. febrúar til sunnudags 4. mars.

w-blogg220218a

Hér er flest á haus miðað við það sem verið hefur að undanförnu. Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins alla vikuna, daufu strikalínurnar þykktina, og litirnir þykktarvikin. Þykktin mælir sem kunnugt er hita í neðri hluta veðrahvolfs. Bláu litirnir sýna hvar henni er spáð undir meðallagi - jökulkalt ætti eftir þessu að verða á meginlandi Evrópu og vestur um Bretlandseyjar - alveg óvenjukalt reyndar, en aftur á móti er spáð óvenjulegum hlýindum vestan Grænlands - þar sem verið hefur sérlega kalt upp á síðkastið - í ríki kuldapollsins Stóra-Bola (gulir, brúnir og bleikir litir). - Hann hefur hér greinilega verið hrakinn úr sæti sínu. 

Kuldaöxullinn sem liggur vestur yfir Evrópu er ekki mjög breiður - einskonar fingur vestur úr kuldapollinum Síberíu-Blesa. Spár eru ekki sammála um nákvæma legu hans. Sumar senda mesta kuldann til vesturs yfir Suður-Noreg - norðmenn þola hann betur en aðrir og kvarta minna (sumir fagna meira að segja) - aðrar leggja áherslu á Þýskaland, Bretland eða Frakkland - fáir vanir slíku í síðarnefndu löndunum tveimur og verði úr mun mikið verða kveinað. Fari kuldinn syðstu leið - suður við Alpa eða þar sunnan við verður loftið mjög óstöðugt og hlaðið raka úr hlýju Miðjarðarhafi - ávísun á vandræði af ýmsu tagi. 

Ísland er inni á hlýja svæðinu. Höfum þó rækilega í huga að hér er um meðaltal heillar viku að ræða - og ekki víst að upphaf hennar eða endir verði með sama hætti. En veðurlag undir hæð sem þessari er venjulega hagstætt - hæglátt og fremur hlýtt - kaldara þó inni í sveitum þar sem að jafnaði er svalt í bjartviðri. 

Þetta væru harla kærkomin umskipti fyrir flesta. En hvað svo? Við sjáum hér meðaltal 50 spáa - hver þeirra er með sínum hætti og sumar þeirra sýna leiðinlega galla í hæðinni - jafnvel kulda og snjókomu. Við skulum því ekki vera allt of viss.

Það væri samt æskilegt að 500 hPa-flöturinn héldist hár áfram - stæði fyrir vondum lægðum. Vel má hins vegar vera að hæðin haldi áfram til vesturs - og þá opnast fyrir norðanáttir - jú, Stóri-Boli er þarna - aðeins veiklaður að vísu en hrakinn, skipreika og í slæmu skapi. Vonandi finnur hann þá ekki laust sæti nærri okkur þegar hæðin er komin vestur af. 


Lengra gengin

Eins og fram hefur komið í fréttum er næsta illviðri væntanlegt hingað til lands á föstudag (23. febrúar). Lægðin sem veldur því verður lengra gengin heldur en sú sem plagaði okkur í dag (miðvikudag 21.). 

w-blogg210218a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á morgun (fimmtudag 22.). Eins og sjá má (með stækkun) er nýja lægðin þegar búin að taka út umtalsverðan þroska langt suðvestur í hafi, miðjuþrýstingur fallinn niður í 964 hPa. Hér á árum áður - fyrir tíma nákvæmra tölvureikninga - hefði alveg eins mátt búast við því að hún missti neðan úr sér - til austurs og suðausturs - en afgangurinn færi síðan hratt norður og styrkti um leið hæðina miklu sem fyrir austan okkur er. Þá fengjum við suðlægt hvassviðri með hæðarbeygju og til þess að gera þurrum vindi (nema rétt við fjöll) - sem getur verið mjög vont mál. 

En nú á dögum trúum við reiknimiðstöðinni eins og nýju neti. Hún segir að lægðinni muni takast að taka þessa erfiðu sveigju til norðurs (sannkallað stórsvig - meira að segja á ólympíutímum) og að hún dýpki jafnframt enn frekar - alveg niður fyrir 940 hPa um miðnætti á föstudagskvöld. Það er auðvitað ekki heldur gott - en kannski verðum við samt heppin - núverandi spár gera ráð fyrir því að við sleppum við það versta - en litlu er að treysta í þeim efnum og rétt að fylgjast með.

Eftir þetta hasaratriði (furioso) er enn gert ráð fyrir leiktjaldaskiptum þar sem hæðin að austan kemur við sögu (capriccio) - en samt er það allt saman enn í talsverðri þoku (Nacht und Nebel) - og rétt að segja sem minnst á þessu stigi - sú frásögn yrði ruglingsleg í meira lagi. 

Annars má geta afspyrnumerkilegrar háloftahæðar við suðausturströnd Bandaríkjanna.

w-blogg210218ii

Í miðju hennar er 500 hPa-flöturinn í 5950 m hæð yfir sjávarmáli. Lausafregnir herma að þetta sé nýtt norðurhvelsmet fyrir veturinn - en ekki þorir ritstjórinn að staðfesta það hér og nú. Kortið sýnir greiningu bandarísku veðurstofunnar kl.18 í dag. Kuldapollurinn Stóri-Boli spilar á móti hæðinni og saman fóðrar parið föstudagslægðina okkar - þá sem fjallað var um hér að ofan - hún er nú nærri suðurströnd Hudsonflóa - og beygjan erfiða í kringum lægðardragið sunnan Grænlands framundan - lægðin reynir að „fylla upp í“ það til að komast gegnum hana - ekki létt mál. 


Hver með sínu lagi - en ættarmót leynir sér ekki

Til gamans lítum við á gervihnattamynd sem tekin er fyrr í kvöld (þriðjudag 20. febrúar).

w-blogg200218a

Hún sýnir skýjakerfi mjög vaxandi lægðar suðvestur í hafi. Kerfið er nú rétt búið að slíta sig norður úr móðurlægðinni sem er reyndar fyrir sunnan þessa mynd. Það sem við sjáum er mikill hvítur skýjabakki - göndull nánast beint úr suðri. Þetta eru háreist ský sem leggjast upp undir veðrahvörfin - þetta fyrirbrigði er gjarnan kallað hlýtt færiband (hlf á myndinni) - flytur hlýtt og rakt loft úr suðri norður á bóginn en jafnframt upp - og svo í hæðarsveig til austurs (rauð ör). 

Vestan við hvítustu (hæstu) skýin er það sem kallað er haus lægðarinnar (kf - stendur fyrir kalt færiband). Kalda færibandið er flókið fyrirbrigði - sumir efast reyndar um tilvist þess - eða nafngiftina alla vega. En í því er málum þannig háttað að niðri við jörð er norðanátt, en áköf sunnanátt uppi, - en loftið í henni berst þó hægar til norðurs en kerfið sjálft. - Kerfinu „finnst“ þarna vera mikil norðanátt. 

Gulbrúna örin bendir á stað þar sem sjávarmálslægðarmiðjan gæti verið - ekki þó alveg gott að segja. Þar virðist líka vera að myndast það fyrirbrigði sem kallað er „þurra rifan“ - og fylgir lægðum í áköfum vexti. - Kalt loft vestan við lægðina dreifir úr sér til norðurs og suðurs og dregur þá niður veðrahvörfin - við niðurstreymi þeirra losnar úr læðingi mikill snúningur sem skrúfar þurra loftið enn neðar og að lokum inn í lægðarmiðjuna og eykur mjög á afl hennar. 

Lægðin afhjúpar þá eðli sitt og miðja hennar kemur greinilega fram á myndum. Við bestu skilyrði gerist þetta allt á fáeinum klukkustundum - í fyrramálið verður lægðin fullþroska. 

Í þessu tilviki vill til að hún missir líklega af kaldasta loftinu og verður því ekki alveg jafn skæð og hún hefði getað orðið. Það loft er við Suður-Grænland. Við þökkum bara fyrir það. Við fáum að vísu þetta loft yfir okkur síðar - aðra nótt og á fimmtudag - en hálfgert brotajárn ekki líklegt til stórræða. 

Á föstudag er síðan enn eitt illviðri væntanlegt - það er nú í bígerð yfir vötnunum miklu á landamærum Kanada og Bandaríkjanna - og á enn möguleika á að verða verra og langvinnara heldur en það sem við höfum verið að fjalla um hér.

Svo eru fregnir af miklum breytingum - heldur óljósar að vísu og rétt að segja sem minnst um þær á þessu stigi máls. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 12
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 2459
  • Frá upphafi: 2434569

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2184
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband