Óvenjulega stór vök við norðurströnd Grænlands

Gervihnattamyndir sýna að óvenjustór vök hefur myndast í ísbreiðuna við norðurströnd Grænlands. Ritstjóri hungurdiska veit ekki hversu algengt þetta er en er líklega sjaldséð - hlýtur þó að hafa gerst áður. Ástæðan er að sérlega öflugar sunnanáttir hafa verið ríkjandi á þessu svæði undanfarna daga. Þær hafa einnig valdið miklum hlýindum á þessum slóðum. Í gær var t.d. frostlaust um stund á þeim fáu veðurstöðvum sem þarna eru. Meðal annars fór hiti á Kap Morris Jesup, nyrstu veðurstöð í heimi, upp fyrir 6 stig. Að sögn dönsku veðurstofunnar er það þó ekki febrúarmet þar um slóðir, því hiti fór í nærri því 8 stig í febrúar 2012. 

w-blogg250218a

Myndin er fengin af worldview-vef bandarísku veðurstofunnar NOAA og er hún samsett úr fjölda strimla. Fjöll og firðir á þessum slóðum sjást mjög vel - þar þar þekur föst lagnaðaríshella firðina og nær spöl út frá ströndinni. Þessi íshella hefur lítið tekið þátt í hinum grófgerðu hreyfingum þess sem utar er. 

Þá er spurning hvers eðlis þessi vök er. Hefur vindurinn aðeins hreinsað ísinn ofan af eða hefur honum líka tekist að draga upp hlýrri sjó úr djúpinu? - Þá er spurning um hvort sá sjór er tiltölulega ferskur - eða hvort uppdrátturinn nær upp saltari sjó sem upprunninn er af suðlægari slóðum. Það væri sérlega athyglisverð staða - lengur tekur að mynda nýjan ís á slíkum sjó en sé hann til þess að gera ferskur. Þessi síðari möguleiki er væntanlega ólíklegri en hinn. Þessi mikla vök gæti bent til þess að ís á þessum slóðum - og utar sé þynnri en venjulega gerist - mótstaða gegn hreyfingu hans því minni en venjulega - vakir myndast frekar en hryggir.

Nú mun annað af tvennu gerast. Ísbrúnin snýr aftur um leið og vindur gengur til norðlægra átta - eða svæðið leggur aftur á nokkrum dögum - sá ís verður þunnur, mun þynnri en sá sem fyrir var. Spáð er mjög kólnandi veðri. Sömuleiðis er spurning hvort nægilega mikið los hafi komið á ísinn til þess straumar útifyrir beri meira af þykkum ís en venjulega inn í Framsundið milli Grænlands og Svalbarða. Sá þykki ísskammtur færi þá með Austurgrænlandsstraumnum suður með Grænlandi og loks suðvestur um Grænlandssund.

En svona stórar vakir eru ábyggilega ekki algengar á þessum slóðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Og þú minnist ekkert á aumingja hvítabirnina sem nú eru umkomulausir og hljóta að eiga bágt vegna rifunnar í ísbreiðunni eða :)

En án gríns þá hlýtur svona stór opnun þar sem kalt loft kemst óhindrað að stórum haffletti að auka á hafísmagnið sem aftur þýðir að lofthiti hækkar. Eða hár hiti við jörð er þá að einhverju marki afleiðing af rifunni en ekki orsök.

Guðmundur Jónsson, 26.2.2018 kl. 15:09

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Ísbirnir þurfa vakir - þar er selurinn sem heldur honum á lífi. Þessi stóra vök er í grunninn „aflfræðileg“ - orðin til við óvenjuhvassa suðaustanátt á svæðinu en ekki hlýindi. Eins og fjallað er um í pistlinum snýr ísinn aftur að ströndinni um leið og vindur gengur niður - leggi yfirborð hennar ekki áður. Slatti er af „föstum“ vökum á heimskautasvæðunum. Þar leitar sjór úr djúpinu stöðugt upp, á yfirborði þessara vaka myndast krapi sem hleðst svo utan á jaðra vakanna - á vökunum myndast þannig töluverður ís - sem ekki hefði myndast væru þær ekki til staðar. - Hitinn sem þarna hefur verið að undanförnu er ekki úr sjónum heldur er hann kominn að ofan - vindur úr suðri rýfur hitahvörf og blandar hlýindum niður á við.

Trausti Jónsson, 26.2.2018 kl. 16:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 312
  • Sl. sólarhring: 336
  • Sl. viku: 1886
  • Frá upphafi: 2350513

Annað

  • Innlit í dag: 234
  • Innlit sl. viku: 1683
  • Gestir í dag: 220
  • IP-tölur í dag: 220

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband