Litlar breytingar

Ekki er að sjá miklar breytingar í veðurlagi hér á landinu næstu dagana - heldur lokuð staða. Hún verður þó að teljast meinlaus að mestu þó hiti mætti gjarnan vera dálítið hærri. Við lítum á kort sem sýnir stöðuna á norðurhveli síðdegis á fimmtudag (mat evrópureiknimiðstöðvarinnar).

w-blogg150817a

Hér eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar að vanda og þykktin sýnd með litum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hér sést að hásumar er enn á öllu hvelinu. Blái þykktarliturinn varla til og heimskautaröstin líka í sumarlinku sinni - einna helt að að henni kveði yfir Bretlandseyjum og svæðum þar suður og austur af - og svo líka vestan Alaska.

Gríðarmikill hæðarhryggur liggur norður um Hudsonflóa og allt norður á heimskaut. Hann hefur hér stuggað við kuldapollinum í Norðuríshafi og skipt honum í tvennt. Annar helmingurinn er hér við Norðvestur-Grænland og á að liggja þar áfram án þess að plaga okkur að heitið geti. Samt rétt að gefa honum auga. 

Við sjáum að Ísland er við mörk gulu og grænu þykktarlitanna - sem þýðir að hiti er við meðallag árstímans. Háloftalægðin fyrir suðaustan land átti uppruna sinn úr heimskautakuldanum - stóri kuldapollurinn hafði sent smáskammt til suðurs fyrir vestan land um helgina og m.a. valdið næturfrostinu sem plagaði suma landshluta. Nú er sjórinn sunnan við landið búinn að vinna á þeim kulda. 

Örin bendir á leifar fellibylsins Gert - örsmátt kerfi, en ef menn nenna að telja þykktarlitina sést að þykktin er meiri en 5820 metrar á smábletti við miðju hans. Gert gengur inn í háloftalægðina við Nýfundnaland - en hún er á ákveðinni hreyfingu til austurs fyrir sunnan land. 

En eftir viku eða svo fer sumri að halla á heimskautaslóðum - og einnig í heiðhvolfinu. Heiðhvolfið er langoftast mjög læst í sólargang - haustbyrjun reyndar ekki alveg eins niðurnjörvuð og vorið, en veðrahvolfið er ívið sveigjanlegra í sínum sumarlokum - mörkin milli sumars og hausts ekki alveg jafn eindregin. 

Sé litið á mjög mörg ár saman kemur þó í ljós að hringrásin hrekkur venjulega úr sumargírnum í kringum höfuðdag (29. ágúst). Koma haustsins er þó ekki nægilega snögg til þess að ná til alls hringsins norðan heimskautarastarinnar í einu. - En í ágústlok má heita víst að haustið sé einhvers staðar komið á skrið á norðurslóðum. Tilviljanakennt er frá ári til árs hvar og hvernig haustkoman slær sér niður (ef svo má segja). Það er ekki fyrr en rúmum mánuði síðar að haustið hefur náð undirtökum allt suður að röst - og er að auki farið að víkka þann hring sem hún ræður. 

Það verða því oft breytingar á veðurlagi hér á landi eftir 20. ágúst - og sérlega oft nærri höfuðdegi - en ekki alltaf. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"haustið hefur náð undirtökum allt suður að röst"

Hvað er röst?

Magnús Óskar Ingvarsson (IP-tala skráð) 16.8.2017 kl. 16:57

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Hér er átt við heimskautaröstina, vindstreng mikinn sem hringar sig um norðurhvel í um 10 km hæð - ekki alltaf samfellt þó. Á ensku nefnist hann "jet stream" eða "polar jet stream" til aðgreiningar frá annarri meginröst, „hvarfbaugsröstinni“ ("sub-tropical jet stream") sem liggur í 11 til 14 km hæð í kringum norðurhvel, sunnar en heimskautaröstin og markar að vetrarlagi norðurjaðar hitabeltisins.  

Trausti Jónsson, 16.8.2017 kl. 17:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • w-blogg220724b
  • w-blogg220724a
  • w-blogg210724
  • Slide2
  • Slide1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 100
  • Sl. sólarhring: 249
  • Sl. viku: 2816
  • Frá upphafi: 2378392

Annað

  • Innlit í dag: 95
  • Innlit sl. viku: 2502
  • Gestir í dag: 89
  • IP-tölur í dag: 89

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband