Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2016

Hæðin litla (en lúmska)

Fyrsta kort dagsins sýnir stöðuna á norðurhveli - veturinn auðvitað nærri hámarki. Samt er ekkert ofboðslega kalt á norðurslóðum. Kuldapollar ekki sérstaklega kaldir á sínum heimaslóðum - en útbreiðslan er drjúg. Fyrirstöðuhæð hefur nú um nokkuð langa hríð verið viðvarandi yfir Norðuríshafi. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en þykktin sýnd í lit. Kortið gildir síðdegis á sunnudag, 31. janúar. 

w-blogg300116a

Rauða örin bendir á hæðina. Ekki er hún öflug - en öflugar bylgjur að sunnan hafa hvað eftir annað náð að rétta hana af - enn ein til viðbótar er á kortinu á norðurleið yfir Alaska - og hæðin lifir áfram. Frá henni liggur hæðarhryggur í átt til Íslands - ekki heldur öflugur - en þó nægilega til þess að þvælast fyrir allri hlýindaaðsókn til landsins. - Lægðabylgjan sunnan við Grænland gengur beint í austur - kannski hlánar lítillega af hennar völdum á mánudag - en enginn bloti þó. 

Stóri, kanadíski kuldapollurinn - sem við venjulega köllum Stóra-Bola er mjög víðáttumikill, en flatur. Hann eyddi töluverðu köldu lofti í að búa til illviðrið sem er, þegar þetta er skrifað (á föstudagskvöldi), nýgengið yfir Bretland (Gertrude heitir það þar) og rífur í norðmenn (Tor heitir það þar). Lausafregnir herma að 10-mínútna vindhraði í Tor hafi náð tæpum 50 m/s og hviður 62 m/s þar sem mest var þar í landi - og jafnframt að norskt landsvindhraðamet hafi verið slegið (reyndar fuku mælar þar í nýjársdagsillviðrinu mikla 1992 - en almennt er um það veður talað sem hið versta í Noregi). Vonandi verður tjónið ekki eins mikið að þessu sinni. 

En lægðin sem hér á kortinu er suður af Grænlandi er líka illúðleg gagnvart bretum og norðmönnum - og trúlega norðursjávarströndum öllum. 

Hinn aðalkuldapollur norðurhvels - Síberíublesi er nú sem stendur öflugri en bróðirinn - en lét samt á sjá eftir frækna metútrás suður um alla Austur-Asíu á dögunum. Vestur í Ameríku er mikið og flatt kuldasvæði á leið suður um vestanverð Bandaríkin - ekki svo óskaplega kalt reyndar - en samt gæti hin suðlæga útbreiðsla valdið áhyggjum í innsveitum Kaliforníu á aðfaranótt mánudags. Stóri-Boli mun svo aftur styrkjast að afli í næstu viku og amerískir tvítarar slefa nú þegar - en við látum sem ekkert sé - í bili að minnsta kosti. 

Einnig má ekki hjá líða að benda á lítinn kuldapoll yfir Sahara - við jaðar textakassans neðst á kortinu. Skyldi gera dembur - eða er sólin enn of máttlaus? En það snjóar sjálfsagt í fjöll á þessum slóðum. 

En við verðum áfram í kalda loftinu - það sýnir þykktarvikakort evrópureiknimiðstöðvarinnar næstu tíu daga mjög greinilega. 

w-blogg300116b

Ísland er hér langkaldast að tiltölu á öllu svæðinu sem kortið sýnir. Hér er þykktin meir en -100 metra undir meðallagi. Það samsvarar -5 stiga hitaviki, ekkert ofboð í febrúarbyrjun, en alveg nóg samt. Af jafnhæðarlínunum (heildregnar) má sjá að norðanvindur er ríkjandi í miðju veðrahvolfi þessa tíu daga - en vestanröstin (þéttar jafnhæðarlínur) æðir austur um haf langt fyrir sunnan land. 

En auðvitað verða einstakir dagar þessa tímabils eitthvað - eða talsvert - öðruvísi - og spáin þar að auki e.t.v. röng. 

Óvenjumikið fjör er í heiðhvolfinu þessa dagana - meira að segja miðað við árstíma. Skammdegishringurinn mikli sveiflast til og frá í miklum gassagangi - sumar spár segja að hann muni brotna í tvennt þegar kemur fram í febrúar í kjölfar mikils niðurstreymis sem nefnt er „skyndihlýnun“ og sumar spár segja yfirvofandi strax í næstu viku. 

w-blogg300116c

Kortið sýnir stöðuna á sunnudagskvöld. Hringurinn er eins og sjá má mjög teygður - en hann hefur hingað til í vetur þolað teygjurnar - og hæðin er líka orðin býsna öflug. Kuldinn yfir Bretlandseyjum sprengir kvarðann (hvítur blettur). Hvíti bletturinn (meir en -90 stiga frost) hefur verið með allraalgengasta móti upp á síðkastið. - Og bretar hafa fengið að sjá glitský - kannski að þau haldi áfram að sjást þar um helgina?

Stundum sjást þau inni í hringnum sjálfum - þar sem vindur er hægur - en það er óalgengt (sennilega eru þau þar en bara mjög þunn) - en langoftast á jöðrunum í bylgjum þar sem vindur er samstefna í veðra- og heiðhvolfi - og helst niður undir jörð líka. Við skík skilyrði verða þau mun þykkari og efnismeiri en annars. Þótt aðeins hafi sést til glitskýja hér á landi í vetur - og oft verið nægilega kalt í háloftum til að þau geti myndast - hafa vindaskilyrði sjaldan verið fyrir hendi.

En æsingur er líka á suðurhveli jarðar - í dag í Ástralíu. Við skulum líta á háloftakort bandarísku veðurstofunnar sem sýnir stöðuna þar í dag (föstudag). Þar er auðvitað hásumar.

w-blogg300116d

Hér má sjá öflugan kuldapoll á leið austsuðaustur yfir Suður-Ástralíu. Norðanáttin á austurvæng hans (allt öfugt á suðurhveli - munum það) beinir mjög hlýju lofti til suðurs og gengur það nærri kjarna kuldapollsins og veldur gríðarlegum regndembum - sérlega kalt er hins vegar á vesturkanti pollsins. Við norðvesturströndina er hitabeltisstormur á leið inn á land og spáð er gríðardembum inni í eyðimörk Vestur-Ástralíu um helgina (ekki veit ritstjóri hungurdiska hvort slíkar spár eru trúlegar - enda reynslulaus í suðurhvels- og hitabeltistúlkun tölvuspáa - þekkir ekki veikindi þeirra - og biður forláts). 


Svo er það þetta með vindhraða síðasta árs?

Þrýsti- og hitamæliraðir teljast sæmilega öruggar langt aftur á 19. öld - þó við vildum auðvitað eiga meira af slíku. Aðrir veðurþættir eru erfiðari viðfangs. Vindhraði er viðfangsefni dagsins. Hann var lengst af metinn - en ekki mældur og þar að auki hafa til þess verið notaðir fleiri en einn kvarði - meðaltöl hafa verið reiknuð á mismunandi vegu og og og. 

Vonandi leysist úr því í framtíðinni - annað hvort með þrautseigju núeljandi nörda - en líklega þó með einhverjum nýliðum - sem vonandi leynast í grasrótinni (eins og flest það sem til bóta horfir). 

Við getum með svona sæmilegri samvisku horft aftur til ársins 1949 og þeirra sem á eftir fylgdu. Það ár voru gerðar endurbætur á skeytalyklum - sem löguðu ýmis konar ósamræmi sem áður hafði ríkt. - En við erum samt ekki viss um samfelluna. 

Myndin sýnir ársmeðaltöl vindhraða á skeytastöðvum.

Meðalvindhraði á mönnuðum skeytastöðvum 1949 til 2015

Lárétti ásinn sýnir tímann, en sá lóðrétti meðalvindhraðann í metrum á sekúndu. Æjá, árið 2015 var hið vindasamasta síðan 1993 - og er mjög ofarlega á blaði sé miðað við tímabilið í heild. - Þetta er reyndar í takt við loftþrýstinginn lága - og hina háu óróleikavísitölu sem fjallað var um í síðasta pistli. 

Það kemur á óvart á myndinni að vindhraði virðist hafa aukist á tímabilinu í heild - græni ferillinn (10-ára meðaltölin) hefur hækkað um 0,3 til 0,4 m/s (botn í botn). Hversu trúanlegt er það? Koma nú upp hinar verstu grunsemdir. 

Hér verður ekki farið út í að rekja glímu ritstjórans við vindmælingar, hún stendur enn og er bæði sár, erfið og svæsnari en þessi eina mynd gefur til kynna. Síðari mynd dagsins hefur þó aðeins létt undir í baráttunni.

w-blogg260116b

Hér er rauði ferillinn sá sami og sýndur var grænn á fyrri mynd, 10-ára keðjumeðaltal vindhraða allra skeytastöðva. Blái ferillinn sýnir hins vegar 10-ára keðjumeðaltal þrýstióróavísisins. Ferlarnir tveir eru býsna líkir - en þrýstióróavísinn eigum við sæmilega öruggan í nærri 200 ár. Við getum því athugað hver hegðan hans hefur verið aftur fyrir byrjun skeytalykilsins 1949. 

Kemur þá í ljós að hann er einmitt í sérstöku lágmarki einmitt þegar vindhraðinn er í sínu (ótrúlega) lágmarki. Eftir það eru ferlarnir líka býsna líkir. Nú á dögum er tölfræðilegur samanburður keðjumeðaltala litinn mjög illu auga - að nota þau til annars en glansauglýsinga telst svo syndsamlegt að útskúfun úr samfélagi heilagra fræðimanna liggur við (og ekki meir um það ástand).

Við reiknum því ekkert hér - en notum augun til að slá á misræmið (í auglýsingaskyni aðeins - en ekki til fræðafrægðar). Jú, það má sjá misræmi - kannski er það 0,1 til 0,2 m/s - helmingur eða rúmlega það af botn-í-botn leitninni á fyrri mynd? 

En - hvað sem öllu þessu hjali líður: Árið 2015 var vindasamt (í meira lagi). Til eru meðaltöl á landsvísu frá sjálfvirku stöðvunum aftur til 1996 og árið 2015 reiknast það vindasamasta - reyndar munar mjög litlu á því og 2011. Við skulum bara trúa þessu - annað eins er nú borið á borð heimsfrétta. 


Enn af óvenjulegri uppskeru 2015

Hvenær kemur ár sem ekki er óvenjulegt? Svar: Líklega aldrei, því þegar loks kemur að því þá hlýtur það að teljast óvenjulegt fyrir venjulegheitin ein - nema hvað? 

En árið 2015 fellur varla nærri því að vera venjulegt. Ritstjóri hungurdiska er óðaönn að taka upp úr garðinum og grefur þá eins og venjulega upp þrýstióróavísinn sem hann hefur ræktað af mestu umhyggju síðan í upphafi aldarinnar. 

Óróavísirinn (sem auðvitað hefur nokkrum sinnum komið við sögu áður á bloggi hungurdiska) mælir meðalbreytileika loftþrýstings frá degi til dags. Mögulegt er að reikna aftur til fyrri hluta 19. aldar. Uppgjör ársins 2015 sýnir að vísirinn hefur aðeins einu sinni (á ársvísu) orðið hærri en nú - það var 1854. 

Hvað segir svo þessi ágæti vísir? Að sumu leyti mælir hann umhleypinga - órói í loftþrýstingi tengist lægðagangi - og þar með fjarlægð heimskautarastarinnar. Samband er á milli vísisins og loftþrýstings þannig að þegar þrýstingur er lágur er óróavísirinn hár - og öfugt. En ekki er sambandið þó alveg einhlítt - sem veitir túlkunarglöðum rými til að láta ljós sitt skína. 

Sömuleiðis er nokkuð samband er á milli óróavísis og meðalvindhraða. Því hærri sem óróavísirinn er því meiri er meðalvindhraði. Þetta er ánægjulegt að því leyti að mikil og erfið brot eru í vindmæliröðum - og hjálpar því við að komast yfir þau (séu menn sæmilega djarfir).  

En lítum á myndina.

Þrýstióróavísir (Suðvesturland) 1808 til 2015

Lárétti ásinn sýnir tíma. Sá lóðrétti óróavísinn (í hPa). Þótt mikið suð sé á ferð - sést þó dálítil klasamyndun - óróaár fylgjast oft að - og róleg ár líka. - En við sjáum líka það sama og á þrýstimyndinni (í pistli gærdagsins) að síðustu árin er stutt öfganna á milli. Árið 2010 var eitt hið rólegasta síðan á 19. öld - en árið í ár aftur á móti í algjöru hámarki - þannig séð afturhvarf til hámarksklasans frá 1983 til 1994 - sem eldri veðurnörd muna sem sérlega skítatíð. 

En höfum í huga að þetta eru ársmeðaltöl - bakvið þau búa árstíðir og mánuðir sem kunna að hegða sér öðruvísi. Að velta sér upp úr því er þó varla áhugamál annarra en útnörda - „veðurvita eilífðarinnar“. Við sýnum öðrum vægð og fjöllum ekki um það hér.  


Langtímabreytingar á loftþrýstingi?

Taka ber spurningarmerkið í fyrirsögninni alvarlega. Til eru sæmilegar áreiðanlegar mælingar á loftþrýstingi hér á landi frá því um 1820. Áreiðanlegar að því marki að þær sýna vel breytileikann frá ári til árs - en hann er mjög mikill - óvíða meiri í heiminum. Hvort mæliröðin er nægilega góð til þess að hægt sé að draga út úr henni áreiðanleg langtímameðaltöl er ritstjórinn ekki alveg viss um. 

En lítum á órólega mynd sem sýnir meðalþrýsting hvers árs frá 1822 ástamt 10 og 30-ára keðjumeðaltölum.

Loftþrýstingur á Suðvesturlandi 1822 til 2016

Lóðrétti ásinn sýnir tímann en sá lóðrétti ársmeðaltalið. Rauði ferillinn sýnir 10-ára keðjumeðaltal, en sá græni 30-ára meðaltalið. Gríðarmikar sveiflur hafa verið í ársmeðaltölum allra síðustu árin - þar með metþrýstingurinn 2010 (eitt afbrigðilegasta veðurár síðustu 200 ára). Þrýstingurinn hefur verið mjög lágur síðustu tvö árin - sem voru þó mjög ólík hvort öðru hvað hita snertir. Ekkert einfalt samband er á milli ársmeðalhita og ársmeðalþrýstings. 

Ekki er heldur greinilegt samband á milli hita og 10-ára meðalþrýstings - en þó má sjá að þrýstingur á hinni köldu 19-öld var lengst af hærri en á þeirri 20., nema í kringum hafísárin svonefndu - en hálf öld er nú liðin síðan þau skullu á landinu af fullum þunga. Sumir segja að háþrýstingur þeirra ára (sem byrjaði reyndar 3 árum áður en hafísinn loksins kom) sé tengdur ískomunni. Ritstjóri hungurdiska er einn þeirra. 

En 30-ára meðaltalið vekur athygli - það hefur nefnilega aldrei verið jafnlágt og einmitt nú - er eitthvað á seyði? Sé horft lengi á græna ferilinn fer hann í huganum að minna dálítið á 30-ára hitakeðjuna (sem hefur verið fjallað um oftar en einu sinni á hungurdiskum) - en á hvolfi. Skyldi vera eitthvað til í því? Getum við treyst því að mælingarnar séu nægilega nákvæmar til að negla 30-ára meðaltölin svo vel niður að við getum verið viss um að samanburður yfir tímabilið allt sé raunhæfur?

Sé svo? Megum við þá fara á túlkunartúr? 


Sumar á suðurhveli

Nú er hásumar á suðurhveli jarðar. Kuldinn á Suðurskautslandinu gefur sig þó aldrei. Kortið hér að neðan sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina í greiningu bandarísku veðurstofunnar síðdegis í dag (föstudaginn 22. janúar).

w-blogg230116a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar en litir sýna þykktina. Því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Hér þarf auðvitað að gæta þess að vindur blæs í stefnu með lægri flöt á hægri veg - öfugt við það sem er hér á norðurhveli. Þess vegna er alltaf dálítið ruglandi að horfa á suðurhvelskort - jafnvel fyrir veðurkortavana. - En stefna snúningsáss (mönduls) jarðar ræður þessu og hún er auðvitað sú sama á báðum hvelum - úr geimnum séð þótt á norðurskauti heiti sú stefna upp, en niður á suðurskautinu - en er samt hin sama. 

Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli grænu litanna og þess gula (sumarmörkin) eru við 5460 metra (kvarðinn batnar sé kortið stækkað). Sjá má að mjög hlýtt er yfir meginlöndunum - helst að kuldi skjóti sér í bylgjum í átt til Eldlandsins, syðst í Suður-Amaríku, nærri hinum illræmda Hornhöfða þar sem veður eru hvað verst á siglingaleiðum heimsins. Þar verður stormur á mánudaginn - sé að marka spár. 

Örin bendir á fellibyl á suður Indlandshafi. Hann ógnar hvergi landi, en gæti verið varasamur skipum á leið á milli Suður-Afríku og Ástralíu. 


Af dægurmetauppskeru 2015 (nördapistill í meira lagi)

Í fréttum að utan er oft gert talsvert úr svonefndum dægurmetum - hæsta eða lægsta hita sem mælst hefur á einhverri veðurstöð ákveðinn dag ársins. Ein og sér segja þessi met lítið - en geta samt falið í sér skemmtileg tíðindi. Nú, hafi verið mælt mjög lengi á stöðinni verða þessi tíðindi eftirtektarverðari. Svipað má segja um mjög miklar metahrinur - daga þegar dægurmet falla um stóra hluta landsins. 

Talning leiðir í ljós að alls féllu 2459 hámarksdægurmet á almennu sjálfvirku stöðvunum hér á landi á árinu 2015 - séu þær stöðvar sem athugað hafa í 5 ár eða meira aðeins taldar með. Lágmarksmetin urðu hins vegar tvöfalt fleiri eða 5028. Þetta hlutfall hlýtur þó að segja okkur eitthvað? Rétt tæplega 60 þúsund dægurmet hvorrar tegundar eru skráð alls á tímabilinu frá 1996 til 2015. - Það sem flækir málið er að stöðvum hefur fjölgað - en við sjáum samt að lágmarksmetin eru heldur fleiri en búast hefði mátt við - ef metafallið væri alveg óháð frá stöð til stöðvar - og í tíma. Hámarksmetin aftur á móti öllu færri. 

Árið var enda það kaldasta hingað til á öldinni. 

Lítum nú á línurit sem sýnir hlutfall hámarksdægurmeta af heildinni frá ári til árs. 

Hámarksdægurmetahlutur og landsmeðalhiti 1996 til 2015

Aðeins þarf að doka við til að skilja myndina - lárétti ásinn sýnir síðustu 20 ár. Lóðrétti ásinn til hægri sýnir landsmeðalhita, það gerir rauðstrikaða línan einnig. Hlýjust eru árin 2003 og 2014, en nýliðið ár, 2015, ámóta kalt og árin fyrir 2003, 

Lóðrétti ásinn til vinstri sýnir hins vegar hlut hámarksdægurmeta af summu útgildametanna (hámarks og lágmarks). Hlutur lágmarksmetanna fæst með því að draga frá einum. 

Við sjáum að allgott samband er á milli hámarksmetahlutarins og landsmeðalhitans. Hámarkshitametin eru líklega fleiri þegar almennt er hlýtt í veðri. 

Eftir því sem árunum fjölgar verður erfiðara að slá metin 60 þúsund. Þrátt fyrir það er á þennan hátt hægt að fylgjast með veðurfarsbreytingum. Skyndileg gjörbreyting á veðurlagi á hvorn veg sem er - nú eða í átt til öfga á báða bóga kæmi fram við samanburð við hegðan metanna síðastliðin 20 ár. - En því nenna nú fáir nema útnörd - eins og ritstjóri hungurdiska - varla að slíkt eftirlit verði í forgangi hjá því opinbera (þrátt fyrir tal um veðurfarsbreytingar).   

En fleira nördalegt kemur fram í metaskránum. Hvaða daga féllu flest dægurmet? Við skulum svara því - forvitnin krefst þess. 

Flest hámarksdægurmet féllu samtímis þann 30. október árið 2009, á 97 prósentum stöðvanna. Man nokkur nokkuð frá þessum degi? Varla, en hann er sum sé allt í einu orðinn merkilegur. Þetta var fyrir tíma hungurdiskabloggsins. 

Flest féllu lágmarksmetin 30. apríl 2013, líka á 97 prósentum stöðvanna. Um það merkilega kuldakast fjölluðu hungurdiskar ítarlega - dögum saman - því kuldinn hélst í marga daga. Auðvelt er að fletta þessum fróðleik upp - hafi einhver þrek til. 


Umhleypingar - enn og aftur

Það er varla hægt að segja að storms hafi orðið vart í byggðum landsins í nærri hálfan mánuð (síðan 8.janúar). Á þessum tíma hefur vindur (að meðaltali á landsvísu) blásið stöðugt úr austri, háaustri oftast, 12. til 14. úr norðaustri þó.

Mjög þurrt hefur verið víða á landinu og á allmörgum veðurstöðvum er þetta þurrasta janúarbyrjun um langt skeið. Mjög kalt hefur verið inn til landsins og hiti þar víða -2 til -3 stig undir meðallagi síðustu tíu ára. En aftur á móti hefur verið mildara við sjávarsíðuna og þá sérstaklega á Vestfjörðum þar sem hiti er lítillega ofan meðallags sömu ára. Í Reykjavík hefur hiti verið -0,7 stigum undir 10-ára meðaltalinu, en +0,6 yfir meðalhita 1961 til 1990. 

En nú virðist breytilegri vindstefna framundan og öllu órólegra veður. Að sögn reiknimiðstöðva verða lægðir nærgöngular, vindátt þó oftar suðlæg en annað. Sú tíska hefur um nokkurt skeið fylgt sunnanáttinni að loftþrýstingur hefur verið viðloðandi lágur. Það þýðir að hún á sér vestrænan uppruna - og er þess vegna ekkert sérlega hlý - miðað við það sem okkur finnst sunnanátt eiga að vera. - En auðvitað er dagamunur töluverður. 

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar kl. 18 síðdegis á föstudag 22. janúar.

w-blogg210116a

Hér er djúp lægð á norðvesturleið yfir landinu vestanverðu. Hiti er þar ekki langt ofan frostmarks. Erfitt er að ráða í smáatriðin svona nærri lægðarmiðjunni - látum Veðurstofuna um þau. Svellkalt loft ryðst til suðurs yfir Labrador - fóður í fleiri lægðir sem reiknimiðstöðvar hafa ekki alveg höndlað ennþá. 


Snjóhula

Uppgjör fyrir snjóhulu ársins 2015 er nú langt komið. Snjóhula hvers mánaðar er reiknuð í prósentum á hverri stöð og landsmeðaltal hans fundið með því að reikna meðaltal allra stöðva. Hlutfallstölur mánaðanna eru síðan lagðar saman til að fá summu ársins.

Summa ársins 2015 reyndist vera 391 (3,9 mánuðir), 21 (6 daga) yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 78 (23 daga) yfir meðallagi síðustu tíu ára. Árið var þannig nokkuð snjóþungt miðað við það sem algengast hefur verið upp á síðkastið og það næstsnjóþungasta á öldinni sjónarmun á eftir 2008 (409). 

Lítum á mynd til sem sýnir magnið í langtímasamhengi.

Snjóhula í byggð á Íslandi 1924 til 2015 (árssummur)

Jú, árið (lengst til hægri á myndinni) sker sig nokkuð úr því sem algengast hefur verið á öldinni - en vantar nokkuð upp á snjóþyngstu árin á myndinni. Rauði ferillinn sýnir 10-ára keðjumeðaltal og sjá þeir sem vel þekkja hitafar undanfarinna áratuga að hann er ekki ósvipaður meðalhitaferlinum að lögun - en á hvolfi. Til þess að gera köld ár í kringum 1950 voru einnig snjóþung - en mjög snjólétt var í kringum og upp úr 1960 áður en kuldi hafísáranna tók völdin. Snjóléttast ára var hið ofurhlýja 2003. 

Næsta mynd sýnir samband ársmeðalhita og snjóhulu betur.

Snjóhula í byggð og hiti á Íslandi 1924 til 2015

Lóðrétti ásinn sýnir snjóhuluna, en sá lárétti hitann. Sjá má að sambandið er furðugott (sumarhiti er með). Rauða línan sýnir aðfallið og segir það að 1 stigs árshitahækkun beri með sér um þriggja vikna styttingu „snjótímabilsins“. Varasamt í mesta lagi væri þó að framlengja línuna út og suður.

Árin sem raðast fyrir ofan línuna teljast snjóþyngri heldur en hitinn einn segir til um. Þar á meðal var hlýja árið 2014 - eitthvað segir vetrarúrkoman líka. Árin neðan línunnar eru snjóléttari en hiti gefur til kynna - þá voru vetur þurrir. 


Hæðarhryggur

Hæðarhryggurinn heldur lægðunum enn í skefjum - en um og eftir miðja viku á hann að gefa heldur eftir og hleypa ósómanum nær. En það má sannarlega þakka fyrir hvern daginn sem væg veður höggva af vetrinum - ekki veitir af.

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina í spá evrópureiknimiðstöðvarinnar síðdegis á morgun (mánudag). Jafnhæðarlínur eru heildregnar, þykktin sýnd í lit en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs.

w-blogg180116a

Dökkgræni liturinn yfir Íslandi segir þykktina vera á bilinu 5280 til 5340 metra, meðalþykkt í janúar er um 5240 metrar. Hiti yfir landinu er því vel yfir meðallagi. Hans nýtur ekki sérlega við jörð vegna neikvæðs geislunarjafnvægis (sem „framleiðir“ kalt loft) og hægviðris sem sér til að kalda loftið hvorki fer né blandast hlýju lofti ofar. 

Frekar hlýtt er þó sums staðar við sjávarsíðuna - þar sem varmi sævar sér um lóðrétta blöndun (hrærir) og fjöll grípa stöku vindstrengi sem þá gera það sama og hækka þar með hita á stöðum sem fyrir verða.

Á kortinu sést nokkuð köld stroka liggja frá Norðaustur-Grænlandi suðaustur til Noregs. Aðalkuldapollar norðurhvels eru ekki sjáanlegir á þessu korti. Þeir virðast þó heldur vera að sækja í sig veðrið aftur eftir áföllin upp á síðkastið og láta sjálfsagt frá sér heyra um síðir. Það er þó eins og hver önnur spilavítisrúlletta hvar þá ber niður í lengdina. 

Hæðarhryggurinn á smám saman að þokast til austurs og vindur að snúast til suðurs - sé yfirleitt að marka reiknimiðstöðvar. 


Smánöldur vegna fellibyls

Fyrir nokkrum dögum myndaðist fellibylur suður af Asóreyjum og hlaut nafnið Alex. Þær fréttir berast út að hann sé sá fyrsti sem myndast á Atlantshafi í janúar síðan 1938 - og það var sá eini þangað til. Listinn sem vitnað er til nær aftur til 1851. Þótt bæði þessi veður (1-1938 og Alex nú) falli undir hefðbundnar skilgreiningar fellibyljamiðstöðvarinnar á fyrirbrigðinu (og hún neyðist því til þess að telja þau með í fellibyljaflokknum) er það að mati ritstjóra hungurdiska (og fleiri kverúlanta) afskaplega óheppilegt. - Þetta eru miklir talningaspillar og jafnvel ruglumræðuvaldar.

Fellibyljir eiga mismunandi uppruna - mismundandi ferli stuðla að myndun þeirra. Þegar aðvaranir takast á við hvern einstakan þeirra kann eðlisuppruninn að vera aukaatriði - á því byggja reglur og ákvörðun fellibyljamiðstöðvarinnar - hún er viðvaranastöð. Fyrir umræðu um veðurfar og veðurfarsbreytingar gegnir allt öðru máli - þar er mikilvægt að myndunarferlin séu aðskilin í tölulegum samantektum. Alls ekki er hægt að gera ráð fyrir því að hnattræn hlýnun (eða ámóta breytingar) hafi sömu áhrif á hina mismunandi myndunarhætti fellibylja. Að telja Alex með í sömu hjörð og hina hreinræktuðu fellibylji hitabeltisins getur ekki verið eðlilegt og beinlínis ruglar umræðuna.

Það er síðan óvenjuleg kokhreysti að telja öruggt að allir kynbræður Alex síðan 1851 séu þekktir - og bróðirinn sé aðeins einn. Fellibyljamiðstöðin gerir það væntanlega ekki - segir aðeins að ekki séu fleiri á skrá. En - í kjölfarið fylgir skriða frétta um einstakan atburð. - Fyrir svo utan það að hvorki vindhraði né lágur loftþrýstingur Alex eru neitt til að gera veður út af á þessu svæði - að því leyti er þetta það sem kallað er „ekkifrétt“.

Talningarkerfi fellibyljamiðstöðvarinnar er einkennabyggt (morfólógiskt) en það sem ritstjóri hungurdiska vill heldur nota er upprunabyggt (ontogenískt). Einkennabyggð kerfi henta aðvörunum - en hin upprunabyggðu veðurfarsumræðunni.

Þetta er auðvitað algjört nöldur - og ritstjórinn greinilega kominn á nölduraldursstigið á þroskabrautinni. En - reynum að halda uppi ákveðnu hreinlæti í umræðunni.

Þeir sem vilja vita eitthvað meira um þetta geta reynt að finna búta úr bók sem heitir Hurricanes of the North Atlantic: Climate and Society eftir James B. Elsner og A. Birol Kara. Þar er ítarlega fjallað um upprunabyggða flokkun og dæmi gefin um áhrif slíkrar túlkunar á fellibyljasöguna. Bókin er að hluta til opin á vefnum.

 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 12
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 2459
  • Frá upphafi: 2434569

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2184
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband