Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Smávegis um rigninguna 17. júní

Eins og fram hefur komið hefur aldrei rignt jafnmikið í Reykjavík á þjóðhátíðardaginn og nú. Heildar úrkoma var 22 mm. 

Tölvuspár náðu góðu taki á rigningunni með að minnsta kosti 4 daga fyrirvara. Við lítum á nokkur spákort. Það fyrsta er úr runu evrópureiknimiðstöðvarinnar frá hádegi 15. júní - 57 klst áður en rigningin náði hámarki. 

w-blogg190614a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér má sjá úkomuákefð (litir), sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) og vindátt og vindstyrk (hefðbundnar vindörvar). Blái liturinn sem liggur inn yfir landið suðvestanvert segir að rignt hafi 5 til 10 mm á þremur klst áður en spátíminn rennur upp, eða 1,7 til 3,3 mm að jafnaði á klukkustund. Ólíklegt er að sú úrkoma falli jafn á klukkustundirnar þrjár og líklegt að mesta klukkustundarákefðin á tímabilinu sé jafnvel meiri. Rétt „svar“ fyrir Reykjavík var 9,9 mm frá kl. 18 til 21.

Ekki var farið að rigna um hádegi þann 17. en næsta kort sýnir sama tímabil og kortið að ofan - en að þessu sinni úr spárununni sem byrjaði kl. 12 (kom reyndar ekki í hús fyrr en eftir kl. 18).

w-blogg190614b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta kort er mjög svipað því fyrra. Enn er 3 klst. úrkoma sögð 5 til 10 mm á 3 klst milli kl. 18 og 21. Engin tíðindi hér umfram fyrri spá.

Síðasta kortið sýnir spá harmonie-líkansins um úrkomu milli kl. 19 og 20 þetta sama kvöld. Takið eftir því að hér er ákefðin miðuð við klukkustundina.

w-blogg190614c

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér sýnir grænblái liturinn 5 til 10 mm á klukkustund. Reykjavík er ekki langt frá mörkum 3 til 5 mm/klst og 5 til 10 mm/klst. Þessa klukkustund mældist úrkoman í raun og veru 3,0 mm.

Mest varð ákefðin í Reykjavík 5,3 mm (og 5,8 mm á búveðurstöðinni nokkra metra í burtu) milli kl. 21 og 22. Þetta eru háar tölur í Reykjavík og með mestu klukkustundarákefð sem vitað er um á stöðvunum tveimur í júnímánuði. 

Á harmonie-kortinu kemur vel fram að úrkoma var einnig mikil inn til landsins á Vesturlandi sem og víða á í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum þar sem úrkoman mældist á bilinu 20 til 30 mm. Það telst mikið. Úrkoma hefur verið mæld á Stafni í Svartárdal í Húnavatnssýslu í 16 ár og hefur aðeins einu sinni með vissu mælst meiri sólarhringsúrkoma heldur en nú. Það eru 39,1 mm sem mældust 24. október í haust. Nú mældust 32,7 mm. 

Nú mældust 22,0 mm á Litlu-Hlíð í Skagafirði. Það er meira á sólarhring en áður hefur mælst þar í júní, en athuganir eru samfelldar frá 1991.  

Lægðin var grunn - en þó býsna regluleg, rétt eins og stærri náskyldar systur hennar. Það sést vel á þrýstiritinu hér að neðan. Það sýnir loftþrýsting á klukkustundarfresti í Reykjavík 16. til 18. júní.

w-blogg190614d

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lægðin fór skammt fyrir austan Reykjavík og var þar 10 hPa „djúp“. Vindur var ekki mikill víðast hvar - en náði þó stormstyrk á Stórhöfða (21,1 m/s og 26,4 m/s í hviðu). Býsna fallegt allt saman (þótt margir hafi væntanlega blotnað). 


Hár lágmarkshiti

Hlýjar nætur hafa að undanförnu (skrifað 14. júní) vakið athygli veðurnörda. Hér lítum við lauslega á það mál. Við eigum reiknaðan meðallágmarkshita í byggðum landsins á lager aftur til 1949 - en sjálfvirku byggðarstöðvarnar aftur til 1995. Nú hefur mönnuðum stöðvum fækkað svo mjög að erfitt er að gera könnun á stöðu þeirra nú og í fortíðinni án þess að athuga fyrst hvort fækkunin hafi haft einhver áhrif. Það verður ekki gert hér. Þess vegna látum við okkur nægja að líta á sjálfvirku stöðvarnar.

Myndin að neðan er ekki alveg einföld - en ætti samt að vera lesanleg.

w-blogg150614

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lárétti ásinn sýnir daga frá 1. maí. Þegar þetta er skrifað er 14. júní að kvöldi kominn - en kvarðinn nær út júnímánuð. Lóðrétti kvarðinn sýnir hita í °C. 

Blástrikaða línan (ferillinn um það bil í miðjunni) sýnir meðallágmarkshita hvers dags maí- og júnímánaðar í byggð í 19 ár (frá 1995 til 2013). Hann er rétt ofan frostmarks í byrjun maí - en er kominn yfir 6 stig í lok júní. Grænstrikaða línan sýnir lægsta meðallágmark hvers dags á sama tímabili. Sá ferill byrjar neðan við -6 stiga frost en endar nærri 4 stigum. Rauðstrikaða línan sýnir hæsta meðallágmark hvers dags (á sama tíma). Hún byrjar nærri 4 stigum en endar í tæpum tíu.

Svarta línan sýnir ástandið nú í vor og það sem af er júnímánuði. Þessi lína hefur verið ofan meðallags allt frá allmiklu kuldakasti í kringum 20. maí.

Ef við nú berum hana saman við meðaltalið (blástrikuðu línuna) sjáum við að lágmarkshitinn hefur lengst af verið 3 til 4 vikum á undan meðaltalinu, náði t.d. 6. stigum 24. maí en nær ekki 6 stigum fyrr en um 25. júní í meðalári. Meðaltöl einstakra daga hafa sleikt hámarkslínuna og í dag (laugardaginn 14. júní) fór hann upp fyrir það hæsta sem mælst hefur áður síðustu 19 árin. Við skulum þó ekki endilega tala um „met“ í því sambandi - óvissa reikninganna er talsverð. 

Gróður dafnar vel - og er það sennilega ekki síst hlýjum nóttum að þakka.

En nú er að sjá hvað verður áfram. Kalda loftið er ekkert óskaplega langt undan - það væri með nokkrum ólíkindum ef júní sleppur kuldakastslaus.   

Viðbót 26. júní 2014: Ekki er lát á háum lágmarkshita. Þann 25. var meðallágmarkshiti sjálfvirkra stöðva í byggð 10,32 stig sem er hærra en áður hefur mælst í júní (á sjálfvirku stöðvunum). Röðin nær aftur til 1997. Þetta er þó ekki alveg endanlegt uppgjör.


Rýfur meðaljúníhitinn á Akureyri 12 stiga múrinn?

Farið er að gæla við þann möguleika að meðalhiti júnímánaðar á Akureyri nái 12 stigum. Þegar þetta er skrifað - um miðnætti aðfaranótt þess 25. liggur meðaltalið í 11,78 stigum. Meðalhiti í júní hefur aðeins einu sinni komist yfir 12 stig á Akureyri, það var 1933 þegar meðaltalið telst vera 12,28 stig (tveimur aukastöfum haldið af metingsástæðum einum).

Það er hins vegar dálítið óþægilegt að einmitt þetta sumar, 1933, var hitasíriti staðarins í ólagi og þetta meðaltal er því öðruvísi reiknað heldur en næstu sumur á undan og eftir. Það verður e.t.v. að fara í saumana á því. 

Júní í fyrra, 2013 var sérlega hlýr á Akureyri, sá hlýjasti síðan 1953. Einmitt núna er júní í ár kominn upp fyrir bæði 1953 og júní í fyrra. Þá er bara spurning um úthaldið. 

En listi yfir hlýjustu júnímánuði á Akureyri til þessa er svona:

Akjúnímeðalh
1193312,28
2190911,84
3195311,70
4192511,58
5189411,49
6201311,44

Mánuðurinn í ár er alveg við toppinn.  

Við Mývatn hefur líka verið sérlega hlýtt - sennilega methlýtt. Þar flækist málið af því að sjálfvirka stöðin er ekki á sama stað og sú mannaða var. Nýja stöðin (Neslandatangi) er kerfisbundið um 0,5 stigum kaldari í júní heldur en mannaða stöðin í Reykjahlíð var. Meðalhiti það sem af er þessum mánuði er 11,33 stig á Neslandatanga - gæti því verið um 11,8 í Reykjahlíð. 

Reykjahlíðarlistinn nær með réttu aðeins aftur til 1936. Júní 1953 er efstur á þeim lista með 11,40 stig. Ekki var athugað við Mývatn sumarið 1933. Þá var hins vegar athugað á Grímsstöðum á Fjöllum. Þar var byrjað 1907. Ef giskað er á hita við Mývatn í júní 1933 eftir hitamun við Grímsstaði gæti hann hafa verið um 11,6 stig. 

Þar er topplistinn svona:

Grímstjúnímeðalh
1195310,80
2190910,72
3193310,54
4193410,54
5194110,30

Við fáum meðaltal júnímánaðar í ár ekki fyrr en eftir mánaðamótin, en hitinn á sjálfvirku stöðinni þar er 10,69 stig. Mælt var bæði á sjálfvirku- og mönnuðu stöðinni í fyrra (2013) og þá munaði nær engu á mánaðameðaltali stöðvanna tveggja.  

Hér er staðan núna ofan við mánaðarmeðaltalið 1933 - rétt undir 1909 og vantar aðeins 0,1 stig upp á það hlýjasta sem vitað er um. Við sjáum að júní 1909 hefur verið drjúghlýr - mælingar á Grímsstöðum og Akureyri eru alveg óháðar. Júlí og ágúst 1909 voru hins vegar ekki sérlega spennandi. 

Mönnuð stöð var á Húsavík frá 1925 til 1994 og þar hefur verið sjálfvirk stöð frá 2003. Ekki hefur verið gerð tilraun til þess að tengja stöðvaraðirnar saman. En meðalhitinn á Húsavík er nú 11,32 stig. Það er hærra heldur hæsta eldra meðaltal sjálfvirku stöðvarinnar - en lægra en hæstu tvö júnímeðaltöl mönnuðu stöðvarinnar (1933 og 1953 - en síðarnefndi júnímánuðurinn er sá hlýjasti á Húsavík - grunsamlega hlýr). 

Miðað við meðaltal síðustu tíu ára eru vikin nú (að kvöldi 24. júní) stærst við Mývatn og í Svartárkoti, +2,89 stig á báðum stöðvum - og +3,13 stig á vegagerðarstöðinni á Mývatnsöræfum. Þarna er hjarta hlýindanna nú. 

Nú - Reykjavík á enn möguleika á meti og fleiri stöðvar þar sem athugað hefur verið í hundrað ár eða meir. Við reynum að fylgjast með því. 


Af háloftahringrásinni 25. júní

Við lítum á ástandið í háloftunum um þessar mundir. Myndin sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á miðvikudag, 25. júní - ekki þann 24. eins og hefur misritast í texta myndarinnar.

w-blogg250614a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Ítalía ekki fjarri neðra hægra horni og norðurhluti Bandaríkjanna lengst til vinstri. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam=10 metrar). Því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn sem blæs samsíða jafnhæðarlínunum. Þykktin er sýnd í lit. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin milli grænu og gulu litanna eru við 5460 metra, en síðan er skipt um lit á 60 metra bilum. 

Þar sem liturinn er blár er þykktin minni en 5280 metrar - við viljum ekki sjá neitt þannig á þessum tíma árs. Blái liturinn er nú fyrirferðarminni heldur en yfirleitt er um jónsmessuna - en hann getur aukið útbreiðslu sína aftur. 

Ísland er nú í mjög hagstæðum hæðarhrygg - ekkert kalt loft er nærri. Aftur á móti verður ekkert sérlega létt að hreinsa skýin burt - vindur er úr suðri og verður það víst áfram. Þaðan kemur oftast nægur raki - helst að sólin láti sjá sig fyrir norðan og austan.

Við sjáum að frekar kalt er víðast hvar í Evrópu, hún er hulin grænum lit suður undir miðju. Á þessum árstíma fylgja miklar skúrir gjarnan svölu lofti á þeim slóðum (og öðrum). Aðalhlýindin eru austur í Síberíu og sömuleiðis er mjög hlýtt í norðvestanverðu Kanada.

Aðalkuldapollarnir eru yfir kanadísku heimskautaeyjunum. Sá við Baffinsland er skæður - í sumum spám fáum við afleggjara hingað til lands eftir helgina. Við getum þó enn vonað að við sleppum við það.

Þótt loftið yfir landinu teljist hlýtt virðist engin meiriháttar hitabylgja vera í uppsiglingu.  


Sýndarsnjórinn horfinn úr Esjunni og Skarðsheiði

Snjór bæði fellur og bráðnar í harmonie-líkaninu - það er reyndar afkimi í því sem kallast surfex sem sér um snjóinn. Við köllum þetta sýndarsnjó - til aðgreiningar frá þeim raunverulega. Nú er allur sýndarsnjór vetrarins horfinn úr Esju og Skarðsheiði og nærri því farinn úr Botnssúlum. Þetta er rúmum hálfum mánuði fyrr en í fyrrasumar. 

Raunverulega liggur snjórinn hins vegar í fönnum, stórum og smáum. Þær hafa svo vitað sé aldrei horfið alveg í Skarðsheiðinni norðanverðri og alltaf er spennandi síðsumars hvort suðurhlíð Esjunnar nær að hreinsa sig. 


Fjöldi tuttugustigadaga

Í síðustu færslu litum við á þær dagsetningar vor (eða sumar) þar sem hámarkshiti á landinu náði fyrst 20 stigum á árinu. Nú teljum við fjölda tuttugustigadaga á hverju ári. Munum að tuttugu stiga hiti hefur mælst í öllum mánuðum ársins nema desember, janúar og febrúar. En langflestir eru þeir í júlí.

Í síðustu færslu var minnst á fjölgun sjálfvirkra stöðva og fækkun þeirra mönnuðu. Þetta hefur reyndar oft borið á góma á hungurdiskum áður. Nú er það um það bil að gerast að mannaðar hitamælingar fara að leggjast af - vonandi þó enn um sinn hægt og bítandi frekar en allt í einu. Nú er svo komið að mannaða stöðvakerfið getur ekki eitt séð um að halda tuttugustigatalningunni úti. Það sjáum við á mynd.

w-blogg070614

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér má sjá fjölda tuttugustigadaga á hverju ári frá 1949 að telja. Reyndar eru ekki allar stöðvar með fyrr en 1961 þannig að við tökum ekki mikið mark á fyrstu 12 árunum. Vonandi verður hægt að bæta þeim við á heiðarlegan hátt síðar (á hungurdiskum eða afkomendum þeirra). Stöðvum fjölgaði hægt fram á miðjan áttunda áratuginn - en breyttist síðan lítið þar til rétt upp úr aldamótum. Árið 2004 fækkaði stöðvunum snögglega og síðan hefur fækkunin haldið áfram - en sjálfvirkar stöðvar hafa meir en bætt það upp.

Af einhverjum ástæðum verður breyting á línuritinu frá og með 1984 - eftir það fjölgar árum með fleiri en þrjátíu tuggugustiga daga talsvert - en lélegu árin eru áfram til staðar.

Svo koma sjálfvirku stöðvarnar hér inn 1996 - og eru nánast alveg sammála mönnuðu stöðvunum um fjöldann fyrstu árin - en síðan fer tuttugustigadögum á mönnuðum stöðvum fækkandi - miðað við það sem sjálfvirku stöðvarnar eru að mæla. 

Trúlega hefur tuttugustigadögum fjölgað í raun og veru (ekki bara í stöðvakerfinu) - eitthvað í takt við hlýnunina miklu um og upp úr aldamótum. En við skulum ekki velta okkur upp úr því í bili. 


Óvenjulega hlýr júnímánuður - hingað til

Júnímánuður það sem af er  má heita hitabylgjulaus - en samt er hann meðal allra hlýjustu mánaða sem við þekkjum. Við eigum á lager daglegan meðalhita á nokkrum veðurstöðvum aftur til 1949 og því auðvelt að fylgjast með stöðunni frá degi til dags miðað við síðustu 65 árin.

Meðalhiti í Reykjavík fram til kl. 18, 23. júní í ár er 11,14 stig. Fyrstu 22 dagar júnímánaðar hafa aðeins einu sinni á þessu tímabili verið hlýrri í Reykjavík. Það var 2002 en þá var meðalhitinn 11,24 stig. Tvisvar að auki hefur hiti þessa hluta mánaðarins verið hærri en 11 stig. Það var 2003 og 2010. 

Topp-tíu listi 22 fyrstu júnídagana er nær alveg einokaður af árum á þessari öld, aðeins einn eldri júníhluti er á þeim lista, 1954.

Samræmdur mánaðarmeðalhiti er til í Reykjavík samfellt aftur til 1871. Á því tímabili eru fjórir júnímánuðir (allt til þess mánaðarloka) með meðalhita yfir 11 stigum, júní 2010 hlýjastur (11,43°C), 1871 (11,30°C), 2003 (11,26°C) og 1941 (11,08°C). 

Hægt er að slá á meðalhita sólarhringsins með því að reikna meðaltal hámarks- og lágmarkshita, útkoman er þó sjaldnast nákvæmlega sú sama og fæst sé meðaltalið reiknað á hefðbundinn hátt. Hámarks- og lágmarksmælingar hafa ekki verið samfelldar í Reykjavík allt mælitímabilið, en við getum samt notað meðaltöl reiknuð á þennan hátt til að búa til metingslista.

Meðaltal sólarhringshámarks- og lágmarkshita 1. til 23. júní 2014 er 11,32 stig. Á samanburðartímabilinu 1920 til 2013 reiknast fjórir eldri júnímánaðarhlutar hlýrri en þetta. Það eru [1. til 23.] júní 2010 (11,82°C), 2002 (11,58°C], 2003 (11,51°C) og 1941 (11,45°C]. 

Sé farið enn frekar í saumana á stöðunni kemur í ljós að árangur núlíðandi júnímánaðar er frekar hlýjum nóttum að þakka heldur en hlýjum dögum. Við lítum nánar á það þegar mánuðurinn er liðinn.

Á Akureyri er staðan í dag miðað við síðustu 65 ár þannig að aðeins einu sinni hefur verið hlýrra - það var í fyrra, 2013. Þar fyrir neðan er sami tími í júní 1988. Á Dalatanga er júní nú sem stendur í 5. sæti og því 4. eða 5. á Egilsstöðum. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum er það sem af er júní það hlýjasta í að minnsta kosti 65 ár. 

Hiti er nú ofan meðallags síðustu 10 ára (tímabils sérlegra hlýrra júnímánaða) á öllum veðurstöðvum landsins nema einni. Eyjabakkar þrjóskast enn við - hvor það stafar af bilun í stöðinni - eða sérstökum aðstæðum, t.d. óvenjulegri snjóþekju - vitum við ekki að svo stöddu.  

Þetta er allt harla óvenjulegt - en mánuðurinn er ekki búinn, athugum það. 


Af tuttugustigakomu snemmsumars

Fyrir 4 árum (tíminn líður hratt og allt það) var gerð grein fyrir því í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar hvenær hiti á vorin - eða snemmsumars næði 20 stigum í fyrsta sinn á árinu. Hér er reynt að uppfæra þær upplýsingar.  

Það þvælist nokkuð fyrir að stöðvum hefur fjölgað mikið á landinu og líkur á að hitta á snemmbæra tuttugustigabletti hafa því aukist að mun. Ekki hefur fjölgunin þó verið jafnhröð síðustu 10 árin og áratuginn næstan á undan því mönnuðum stöðvum hefur fækkað á móts við fjölgun þeirra sjálfvirku.

En við skulum búa til meðaltöl fyrir báðar stöðvargerðir og bera þær þar með saman. Lítum þá á árin frá 1997 til 2014. Á því tímabili náði hitinn einu sinni 20 stigum í mars á sjálfvirkri stöð, það var í Kvískerjum þann 29. árið 2012.  Á sama tímabili (1997 til 2013) náði hitinn fyrst 20 stigum á mannaðri stöð þann 9. apríl 2011. 

Lengst var biðin á sjálfvirku stöðvunum 2009 - þá þurfti að bíða til 26. júní - þetta er miklu lengri bið en annars hefur verið á tímabilinu. Eins var á mönnuðu stöðvunum - formlega stóð biðin 2009 þó einum degi lengur - til 27. júní, því hámarkshiti þess 26. var hæstur eftir mælinguna kl. 18 og kom ekki fram á hámarksmæli fyrr en kl. 9 daginn eftir. Á mönnuðu stöðvunum er lesið er af hámarks- og lágmarksmælum tvisvar á dag, kl. 9 og 18.

Meðaldagsetning fyrstu 20. stiga á sjálfvirku stöðvanna á þessu tímabili er 14. maí, en 24. maí á þeim mönnuðu. Hér munar töluverðu - tíu dögum. Í pistlinum frá 2010 sem vitað var til í upphafi pistilsins voru þessi meðaltöl 23. maí (sjálfvirkar) og 29. maí (mannaðar). Hin sérlega snemmbæru tuttugu stig 2011 og 2012 röskuðu meðaltalinu. Þetta bendir til þess að tímabilið 1997 til 2014 sé of stutt til þess að einhvers stöðugleika sé von. 

En nú höfum við sambærilegar upplýsingar frá mönnuðum stöðvum allt aftur til 1961. Meðaltal tímabilsins alls (1961 til 2013) er 1. júní. Við vitum ekki hvert meðaltal sjálfvirku stöðvanna hefði orðið hefðu þær jafnmargar athugað allan tímann. 

Við skulum líka minnast á hitt meðaltalið - svonefndan miðgildisdag. Það er sá dagur þegar þegar 50 prósent áranna hefur náð tuttugu stigum - en hinn helmingurinn ekki.

Á sjálfvirku stöðvunum 1997 til 2014 er það 17. maí, en 28. maí á þeim mönnuðu á sama tímabili. Frá 1961 til 2013 er það 3. júní. 

Einu sinni á tímabilinu 1961 til 2013 þurfti að bíða eftir 20 stigum á landinu fram til 21. júlí. Það var árið kalda 1979. Tuttugustigadagarnir urðu ekki nema tveir það árið. Flestir voru þeir 1984, 51.  


Veltimættiskort

Við lítum á eitt veltimættisspákort frá evrópureiknimiðstöðinni. Það gildir um hádegi miðvikudaginn 4. júní 2014. Um það leyti hófst talsvert þrumuveður um landið sunnanvert. Þetta er dæmi - fyrir þá sem eru sérlega áhugasamir. Aðrir geta sleppt því að lesa.

w-blogg040614c

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Litafletirnir sýna staðbundið (uppsafnað) veltimætti (J/kg). Jafnhitalínan -5°C í 850 hPa er fjólublá strikalína (aðeins þessi eina jafnhitalína er dregin), en rauðu strikalínurnar sýna 500/1000 hPa þykktina. Jafnrþýstilínur eru gráar, heildregnar. 

Hámarksmættið við suðausturströndina er hér 519 J/kg og stefnir vestur.

Veltimætti (CAPE – convective available potential energy) er sú staðorka sem loftböggull öðlast við að vera lyft innrænt frá þéttingarhæð og upp í hæð þar sem flotjafnvægi ríkir. Veltimættið er mest þar sem þurrt loft liggur yfir mjög röku hlýju lofti. 

Erlendir viðmiðunarflokkar (CAPE-gildi í fyrsta dálki): 

0: Stöðugt

0-1000: Viðóstöðugt 

1000-2500: Hóflega óstöðugt 

2500-3500: Mjög óstöðugt 

3500 +: Aftakaóstöðugt 

Hér á landi teljast öll gildi yfir 500 vera mikið (gildið á kortinu er því hátt) – en ekki hefur verið gerð könnun á tengslum veltimættis og þrumuveðra hérlendis. Gildi á bilinu 5000 til 8000 eru þekkt erlendis. 

Athugið að þótt CAPE sé hátt þýðir það ekki endilega að velta eigi sér stað, það þarf að hrinda veltiferlinu fram af brúninni. CAPE-hámörk geta runnið hjá án tíðinda. Stefni CAPE-hámark á land utan af sjó er líklegt að velta fari af stað, sérstaklega ef loftið er þvingað yfir heiðar og hálendi - eða að loftið kemur inn yfir land sem hitnað hefur í sólskini.

Skilgreining ecmwf á CAPE:

Amount of potential energy an air parcels acquires when lifted adiabatically from its lifting condensation level to the level of neutral bouyancy. 

Kortið gerði Bolli Pálmason kortagerðarmeistari á Veðurstofunni.  

Þeim sem vilja koma að athugasemdum við blogg hungurdiska er enn bent á fjasbókarhóp með sama nafni. Leitið og finnið. Vilji menn verða fullvirkir þar þurfa þeir að ganga í hópinn 


Þrumuveður á Suðurlandi

Síðdegis í dag (miðvikudaginn 4. júní) gerði allmikið þrumuveður sunnanlands. Í tilefni af því lítum við á tvö þversnið úr harmonie-líkaninu. Þversniðin eru alltaf erfið fyrir óvön augu og örugglega ekki fyrir alla. Meira að segja vilja sum veðurnörd helst forðast þau (og er þá mikið sagt). 

En við skulum reyna að fara rólega yfir myndirnar. Sú fyrri sýnir vind og mættishita. Sjá má staðsetningu sniðsins á örlitlu Íslandskorti í efra hægra horni myndarinnar. Það nær frá Faxaflóa í vestri, beint í austur yfir Suðurland og gengur út af landinu nærri Hornafirði. Lóðrétti ásinn sýnir loftþrýsting, hann minnkar upp á við og nær myndin frá jörð og upp í 250 hPa (um 10 km hæð). Myndin verður heldur skýrari við stækkun (tvo músarsmelli). 

w-blogg040614a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vindhraði er sýndur með litum. Á grænu svæðunum er hann minni en 10 m/s en á milli 10 og 20 m/s á þeim bláu. Við sjáum líka í mikinn háloftavindstreng efst og austast á myndinni. Vindhraðinn er líka sýndur með hefðbundnum vindörvum. Stefna þeirra er líka hefðbundin - og er mikilvægt að átta sig á því. Þær sýna EKKI upp eða niðurstreymi. Vindur er þannig af austri á mestöllu græna svæðinu en af suðaustri á meirihluta þess bláa.

Heildregnu línurnar sýna mættishita í Kelvinstigum. Mættishiti segir til um hita lofts sem fært er til 1000 hPa þrýstings. Mættishiti vex (nær) alltaf upp á við og sýnir bratti hans stöðugleika loftsins. Því örar sem mættishitinn hækkar með hæð því stöðugra er loftið. Tala hefur verið sett við 284K jafnmættishitalínuna (= 11°C). Síðan eru dregnar línur á 2K bili upp á við. Rétt ofan við 300K þéttast línurnar að mun - þar sjást veðrahvörfin og síðan heiðhvolfið - þar er liggur ódæma stöðugt loft eins og þak yfir veðrahvolfinu. 

Þótt línurnar liggi ekkert tiltakanlega þétt í veðrahvolfinu á þessari mynd munar samt um 16 stigum á lofti við yfirborð Suðurlands og því sem liggur upp undir veðrahvörf. Samgangur er því ekki greiður. Sólin - ein og sér gæti e.t.v. hitað loft sem neðarlega liggur um 10 til 12 stig (en varla hér, því komið er að hádegi). Ef það blandaðist ekki því meira myndi það lyftast upp frá 284K til 294K eða 296K - í mesta lagi. 

En þegar loft lyftist kólnar það (mættishitinn breytist samt ekki við lyftingu eina) og sé það rakt kemur að því að rakinn byrjar að þéttast. - Dulvarmi losnar og þá hækkar mættishitinn. Rakt loft í uppstreymi er því mun líklegra til að ná hátt heldur en þurrt - sem aldrei fer hærra heldur en upphaflegur mættishiti þess var. 

En í dag (miðvikudaginn 4. júní) var einmitt rakt loft yfir Suðurlandi. Það sjáum við á hinu þversniðinu. Það sýnir raka og jafngildismættishita á sama tíma og stöðum og efri myndin. Jafngildismættishiti er sá mættishiti sem loft fengi eftir að allur raki þess hefur verið þéttur.

w-blogg040614b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér sýna litir rakastig (í prósentum, sjá kvarðann). Blátt er rakt, en grænt yfir í gult og brúnt sýnir þurrt. Jafngildismættishitalínur eru svartar og merktar í Kelvinstigum. Hvítar punktalínur sýna rakamagn í lofti (eðlisraka) í grömmum vatnsgufu í kílói lofts. Við sleppum því að ræða þær - ekki hefur enn komið í ljós á hungurdiskum hvort 3 g/kg er mikið eða lítið. [Kannski mætti fjalla um það síðar]. 

En við sjáum strax að jafngildismættishiti er 300K niður undir jörð og greið leið er á milli jarðar og veðrahvarfa - losni dulvarminn. Til þess þarf hins vegar loftið að lyftast og hvers vegna skyldi það gera það þegar vindur stendur af austri? Jú, það munar um lyftingu yfir Bláfjöll, Hengil og Ingólfsfjall, en það er varla nóg.

Austar - yfir landinu - er hins vegar mun þurrara loft þar sem jafngildismættishitinn er ekki nema 295K til 296K. Þetta loft stefnir með vindi til vesturs. Þegar það kemur yfir svæðið þar sem 300K-loftið er verður minnsta lyfting til þess að það rýkur upp í gegnum þurra loftið á örskotsstund og meira og minna allt veðrahvolfið yfir landinu sunnanverðu fer í veltu. Það eru góð skilyrði fyrir þrumuveður.

Á framhaldsmyndum líkansins síðar um daginn má sjá þetta gerast í furðumiklum smáatriðum (það eru enn erfiðari myndir).

Staðan í dag (miðvikudaginn 4. júní) er í flokki sígildra þrumusviðsmynda á Íslandi. Rakt loft kemur úr suðaustri inn undir þurrara loft sem kemur úr austri eða norðaustri. Við þessar aðstæður verður loft mjög óstöðugt. Sól hátt á lofti auðveldar gangsetningu og hægur vindur á fjöll auðveldar hana sömuleiðis.  

Til eru staðlaðar aðferðir við að reikna út veltimætti loftsins - áður en atburðarásin fer af stað. Erlendis, í hlýrra loftslagi, er eðlisraki oft mun meiri en hugsanlegt er hér á landi. „Samsláttur“ lofts með mjög mismunandi jafngildismættishita er þá miklu stórgerðari (og alvarlegri) en hér. Spámenn í þeim löndum fylgjast náið með veltimættinu frá klukkustund til klukkustundar - og hafa miklar áhyggjur af.

Í næsta pistli verður sýnt veltimættisspákort fyrir daginn í dag (miðvikudaginn 4. júní) - því fylgir mjög þurr skýringartexti.  

Þetta var dálítið erfitt - þversniðin eru það. En einhverjir hafa vonandi komist í gegn.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 38
  • Sl. sólarhring: 145
  • Sl. viku: 1959
  • Frá upphafi: 2412623

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 1712
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband