Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Óvenjudjúp lægð(?)

Óvenjueitthvað dag eftir dag? Já, þannig verður það víst að vera. Það verður að teljast óvenjulegt þegar reiknimiðstöðvar spá loftþrýstingi nærri lágmarksmeti júlímánaðar. En athugum samt að lægðin er ekki komin - og varla orðin til þegar þetta er skrifað (seint á sunnudagskvöldi 30. júní). - Stundum eru lægðir líka dýpri í spám heldur en þær verða í raun og veru. 

En það er samt þannig að þrýstingur hefur ekki nema 13 sinnum mælst lægri en 980 hPa hér á landi í júlímánuði (frá 1873) - svona á 10 ára fresti að meðaltali - en fjórum sinnum á síðustu tuttugu árum. Það hefur aðeins gerst þrisvar að þrýstingur hefur mælst lægri en 975 hPa hér á landi - á  40 til 50 ára fresti að meðaltali - en aldrei undir 972,4 hPa. Það met var reyndar sett fyrir aðeins tveimur árum, 22. júlí 2012, þegar loftvogin á Stórhöfða (leiðrétt til sjávarmáls) sýndi þessa tölu. Þrýstingur í lægðarmiðjunni þeirri var lægstur áður en hún rakst á landið, evrópureiknimiðstöðin sýndi 967,8 hPa - sjá kortið hér að neðan - það batnar við stækkun þannig að hægt er að lesa haustextann.

w-blogg300614b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

[Athugið vel að kortið er frá árinu 2012 - en á ekki við næstu daga]. Þótt landið sé stórt, 100 þúsund ferkílómetrar, er það aðeins lítill hluti lægðaleikvangs Atlantshafsins. Því eru líkur á því að 970 hPa lægð hitti á landið í júlí - einmitt þegar hún er dýpst - ekki svo miklar - jafnvel þótt þær séu margar á sveimi um leikvanginn. 

Þegar þetta er skrifað spáir evrópureiknimiðstöðin lægðinni nýju niður í 971 hPa á miðvikudagskvöld - og að þá verði hún við norðausturströndina. Bandaríska veðurstofan sýnir lægst 980 hPa á svipuðum tíma - ansi munar miklu. Kanadíska veðurstofan er þarna á milli - með 977 hPa og sú breska líka, með 975 hPa. 

En það er annað. Þessar miðstöðvar spá allar óvenjulágum 500 hPa-fleti á sama tíma. Lægsti 500 hPa flötur sem við höfum frétt af yfir Keflavíkurflugvelli í júlímánuði er 5240 metrar - og í endurgreiningum má finna tölur niður í 5210 metra.

Það gæti því verið að atlagan að 500 hPa-hæðarmetinu verði harðari heldur en sú sem beint er að loftþrýstingi til sjávarmál. E.t.v. á svipað við um aðra hæðarfleti, 300 hPa met eru t.d. líka í hættu, en eldri gögn eru lítt aðgengileg og þvæla málið. 

Eins og venjulega láta hungurdiskar Veðurstofuna um veðurspár næstu daga - en halda áfram að fylgjast með því óvenjulega. 

Svo er spurningin hversu langan tíma tekur að hreinsa upp eftir þessa lægð - kippir hún meiru en fjórum til fimm dögum út úr sumrinu hlýja? Tekst henni að ná í kalt loft norðan úr höfum? 

Hafi lesendur fyrirspurnir eða athugasemdir eru þeir vinsamlega beðnir um (sé þeim það unnt) að beina þeim frekar á fjasbókarsíðu hungurdiska [https://www.facebook.com/groups/hungurdiskar/] heldur en á þetta blogg. Fjasbókarfjendur geta þó reynt bloggið - en ekki er öllum athugasemdum hleypt þar samstundis að.


Óvenjuhár sjávarhiti undan Norðurlandi

Þessa daga er sjávarhiti óvenjuhár undan Norðurlandi. Mælingar í Grímsey sýna sjávarhita meir en 2 stig yfir meðallagi þessa dagana - og fádæma vik sjást í reiknilíkani evrópureiknimiðstöðvarinnar. Júní verður sennilega sá hlýjasti sem um getur í eynni (lofthitamælingar allt aftur til 1874) og hámarkshiti mælist hærri en áður hefur mælst þar á sjálfvirku stöðvunum (í júní frá 1994) og er nánast jafnhár og hæst mældist (í júní) á mönnuðu stöðinni í þau 120 ár sem mælt var.

Við bíðum með uppgjör á lofthita mánaðarins fram yfir mánaðamótin (heldur kaldara verður síðustu tvo dagana), en lítum á sjávarhitann.

Fyrst er kort úr líkani sem heitir myocean - keyrt í tilraunaskyni af Veðurstofunni með grunngögnum frá evrópureiknimiðstöðinni. Þetta er greining um hádegi 28. júní. 

w-blogg280614

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hitinn er sýndur með litum - en straumar með örvum. Tölur ættu að sjást betur sé kortið stækkað. Yfirborð sjávar norður af Eyjafirði, Skjálfanda og Öxarfirði er meir en 12 stiga heitt. Þetta er mjög óvenjulegt. En - það er eitt en - þetta er hitinn í yfirborðinu. Sé vindur hægur getur yfirborð sjávar hitnað umtalsvert - en aðeins þunnt lag. Hlýr sjór er léttari heldur en kaldur og hlýja lagið getur verið mjög þunnt. Þess vegna má heita fullvíst að hitinn kemur til með að hrapa töluvert þegar hvessir og ívið kaldari sjór undir yfirborði og yfirborðssjórinn blandast saman. Við vitum ekki hversu mikið kólnar - það verður bara að sýna sig.

En í líkanið nær líka til sjávar undir yfirborði (einskonar sýndarsjór - nema þá sjaldan hann er mældur) og það getur líka blandað ef það fær að vita hver vindurinn er. Í sex daga spá segir líkanið að það kólni um 3 stig.  

Evrópureiknimiðstöðin á til meðaltöl til samanburðar og býr á hverjum degi til kort sem sýnir vik frá þessu meðaltali. Lítum á kort gærdagsins.

w-blogg280614b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kvarðinn sýnir vik í stigum (°C). Ef við teljum okkur inn að stærsta vikinu - rétt vestan við Melrakkasléttu kemur í ljós að það er hvorki meira né minna en 6 stig.

Svo stórt er vikið ekki í Grímsey - enda er sjávarhitamælingin ekki í yfirborði heldur neðan þess. Eftir blöndun næstu daga (ef hún á sér stað) gætu hitavik í yfirborði orðið í námunda við Grímseyjarvikið.

Við Austfirði má sjá neikvætt vik á litlu svæði. Það er trúlega fastara fyrir heldur en það stóra jákvæða. 

Júní er stundum hlýjasti mánuður ársins - en júlí og ágúst oftast þó hlýrri. Breytileiki sjávarhita er mun minni heldur en lofthita og árstíðabundin hlýnun sjávar heldur oftast áfram allan júlímánuð. Sjávarhitinn þessa dagana í Grímsey er líkur því sem hann hefur verið undanfarin ár um mánaðamótin júlí/ágúst. Sumarið í sjónum er því um mánuði á undan meðallagi að þessu sinni. Bara að kólnunin verði það ekki líka þegar haustar. 


Í heiðhvolfinu við sumarsólstöður

Við lítum nú á kort sem sýnir hæð 30 hPa flatarins og hitann í honum við sumarsólstöður. Myndin er byggð á spálíkani bandarísku veðurstofunnar (gfs) og gildir kl. 18 laugardaginn 21. júní 2014.

w-blogg220614a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Norðurskautið er rétt ofan við miðja mynd.  Risastór hæð með miðju yfir norðurskautinu þekur allt hvelið. Þetta þýðir að austanátt er ríkjandi á því öllu. Jafnhæðarlínur eru heildregnar og sýnir sú sem næst er hæðarmiðjunni 24500 metra (24,5 km). Þetta er nákvæmlega eins og það á að vera á þessum árstíma. Litafletir marka hita, dekksti brúni liturinn á við bilið -38 stig til -42 stig. 

Sé farið í smáatriði reka menn augun í það að heldur hlýrra er yfir Atlantshafi og Kyrrahafi heldur en yfir meginlöndunum á sama breiddarstigi. Þetta stafar væntanlega af því að veðrahvolfið bólgnar heldur meira yfir landi en sjó framan af sumri - meðan það misvægi stendur verður hitadreifingin trúlega á þennan veg. Uppstreymi kælir loft.

Sólin skín allan sólarhringinn norðan heimskautsbaugs og hitar heiðhvolfið. Það gerist reyndar á þann hátt að sólgeislunin býr til óson - en það nemur stuttbylgjugeisla og hitnar - annað loft hitnar svo í framhaldi af því (aðallega með sveimi). Smáatriði þeirra ferla eru ekki einföld og vel utan þægindasviðs ritstjórans.

En austanáttin heldur sér að minnsta kosti vel fram í ágúst - en alltaf dálítið spennandi að fylgjast með henni detta í sundur. Vestanátt er annars ríkjandi í meginhluta veðrahvolfs sem og í neðsta hluta heiðhvolfsins. Verði veðurfarsbreytingar verulegar í framtíðinni má búast við því að sú hæð þar sem áttaskiptin verða raskist, sérstaklega að sumarlagi. - En ekkert bólar á slíku.  


Snjór í júnílok í ár og í fyrra

Hér var fjallað um samanburð á sýndarsnjómagni í harmonie-líkaninu seint í apríl og seint í maí í ár (2014) og í fyrra (2013). Lítum á stöðuna seint í júní. Sýndarsnjór er sá kallaður sem liggur á landinu í harmonie-veðurlíkaninu. Snjór bæði fellur og bráðnar í líkaninu - rétt eins og í raunheimi. Takist vel til er samræmi milli líkans og þess sem við sjáum. 

Kortið sýnir mismun sama dag ársins, 27. júní - tölur eru kíló á fermetra.

w-blogg280614a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Brúnir og grænir litir (og neikvæðar tölur) sýna svæði þar sem sýndarsnjórinn er minni í ár heldur en í fyrra en þeir bláu sýna hið gagnstæða. 

Snjór er mun meiri heldur en í fyrra á í kringum Drangajökul á norðanverðum Vestfjörðum, líka meiri á Glámuhálendinu. Í útfjöllum á Tröllaskaga er minni snjór heldur en í fyrra, en meiri á hærri fjöllum í kringum Eyjafjörð og inni af honum, sömuleiðis kringum Fnjóskadal og vestan Bárðardals, á háfjöllum við Vopnafjörð og víða á Austfjörðum. Meiri snjór en í fyrra er á Bárðarbungu, efsta hluta Hofsjökuls og vestan megin á Öræfajökli, en annars er snjór minni á jöklum mið- og suðurhálendisins heldur en í fyrra. 

Svo sýnist sem snjór sé lítillega meiri á sýndar-Eiríksjökli líkansins heldur en í fyrra - en nokkru minni á Snæfellsjökli. 

En hvort munur sumarsins í ár og í fyrra sé raunverulega þessi vitum við ekki. Þó vitum við það að bæði í líkani og raunheimum eru snjófyrningar á háfjöllum og jöklum enn miklar þótt þær rýrni í hlýindunum þessa dagana.  

Munið fjasbókarsíðu hungurdiska - þar eru stöku sinnum (bara stöku sinnum) fréttir:

https://www.facebook.com/groups/hungurdiskar/ 


Rífandi leysing á háfjöllum

Nú (helgina 21. og 22. júní) er rífandi leysing á háfjöllum á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi. Sýndarsnjóa leysir líka í harmonie-líkaninu í hlýindunum og gefur vísbendingu um þá raunverulegu. Kortið sýnir leysingu og úrkomu tveggja sólarhringa, frá föstudagssíðdegi til sama tíma á sunnudag.

w-blogg210614a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kvarði og kort batna talsvert við stækkun. Tölur og litir sýna úrkomu og leysingu í mm. Á dökkbláu svæðunum er leysing (+ úrkoma) meiri en 75 mm - það samsvarar 75 lítrum á fermetra. Reikningsglöggir geta fundið hversu mikið það er á hektara eða ferkílómetra.  

Á Hofsjökli og Vatnajökli sést vel að leysingin er mest neðarlega á jöklunum - en minnkar upp á við. Hún t.d. lítil á Bárðarbungu. Enn er sá galli í líkaninu - að jökulís bráðnar ekki - heldur aðeins snjór sem safnast hefur saman frá því að snjómagnið var núllstillt í september. Þessi galli kemur ekki að sök ennþá - en verður trúlega áberandi síðar í sumar þegar allur sýndarsnjórinn hefur bráðnað af leysingasvæðum jöklanna.  


Versta veðrið 17. júní - í minningunni

Oftast er hið besta veður 17. júní og nokkur dæmi eru um að sólin hafi skinið linnulaust allan daginn - jafnt norðanlands sem sunnan. En líkur á alveg þurrum dagi eru þrátt fyrir allt ekki nema um 30% hér á landi - en aftur á móti innan við helmingslíkur á að eitthvað rigni svo talandi sé um - og líkur á hellirigningu eru kannski um 15%. - Sá sem þetta skrifar hefur oftast upplifað þjóðhátíðardaginn í Skallagrímsgarði í Borgarnesi - og ekki oft sem ákveðið hefur verið að flytja hátíðina inn í hús. Það gerist þó endrum og sinnum. 

En því er ekki að neita að fáeinum sinnum hefur veðrið verið með ólíkindum vont. Hér skulum við rétt rifja upp þrjár slíkar dagsetningar - úr minni ritstjórans - en ekki á strangan hátt úr gagnagrunni. Heldur óformlegt.

Nýjasta tilvikið er 17. júní 2002. Suðvestanlands slapp þó til mestallan daginn í vaxandi norðaustanátt. En austanlands var allt með versta brag - haugarigning og hvassviðri. Vikurnar áður höfðu verið óminnileg hlýindi - ein hlýjasta júnísyrpa sem vitað er um. - En svo mikið sá á gróðri víða um land að sumarið bar eiginlega aldrei sitt barr eftir þetta - alla vega var gróðurfegurð þess fyrir bý. Það var minnisstætt að aka norður Lönguhlíð í Reykjavík þann 20. Svo var að sjá að allt væri í lagi - en ef farið var í gagnstæða átt var eins og skipt hefði um árstíð - norðurgreinar trjánna voru skaddaðar og sviðnar. 

w-blogg170614c

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lægðin, sem kom beint úr suðri vestan við Írland, er sérlega djúp - fór vel niður fyrir 970 hPa þegar hún var dýpst - rétt áður en þetta kort gildir og er ein sú dýpsta sem vitað er um í júnímánuði hér við land. Úrkoman eystra og nyrðra olli skriðuföllum og skemmdum. 

Næsta illviðri sem við rifjum hér upp byrjaði 14. júní 1988 og stóð í viku. Kortið sýnir vaxandi lægð á Grænlandshafi síðdegis þann 17.

w-blogg170614b

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á eftir lægðinni gerði afarvondan útsynning þannig að stórsá á gróðri - á Suður- og Vesturlandi enn meira heldur en 2002. Næst sjónum voru lauf brún sem á hausti. Sumarið kannski ekki búið - en samt. 

Eldri norðlendingar minnast alltaf á 17. júní 1959 sem þann versta - og er það ábyggilega rétt. Kortið að neðan er úr amerísku endurgreiningunni - en hin úr fórum evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg170614a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Línurnar sýna hæð 1000 hPa-þrýstiflatarins, en auðvelt að breyta í hPa í huganum því 40 metrar samsvara 5 hPa. Línurnar eru því á 5 hPa bili, núll er við 1000 hPa. Innsta jafnhæðarlína lægðarinnar er -120 metrar eða 1000-15hPa=985hPa.

Þessi norðanátt er komin langa leið norðan úr Íshafi - og það snjóaði um allt landið norðanvert og festi nær alls staðar. Fleiri vondar norðanáttarlægðir höfðu komið áður í mánuðinum og viðbrigðin því ekki alveg jafnhastarleg og 2002.

Eitthvað hafa hungurdiskar fjallað um öll þessi veður áður.  Sum veðurnörd vildu sjálfsagt minnast líka á illviðrin 1992 - en þann 17. júní það ár sat ritstjórinn með snúinn fót í eðalblíðu við Skagen á Jótlandi - kom svo heim í hretið. 

Viðbót 18. júní 2014.

Mikið rigndi um landið suðvestanvert síðdegis og að kvöldi 17. júní 2014 og hefur úrkoma aldrei mælst meiri í Reykjavík á þjóðhátíðardaginn. Mest rigndi að vísu eftir kl. 18 og komst klukkustundarákefðin upp í 5,3 mm á sjálfvirku stöðinni við Veðurstofuna og 5,8 mm á búveðurstöðinni. Þetta er meðal mestu ákefðar sem mælst hefur í júnímánuði á þessum stöðvum.


Meira af úrkomunni

Úrkomumagn mánaðar er miklu tilviljanakenndara heldur en hitinn. Það þarf ekki nema einn dag með mikilli úrkomu til að koma mánuði upp undir topp á lista. Upplýsingar um úrkomudagafjölda bæta þó nokkru við - það tekur að minnsta kosti 20 daga að safna upp 20 úrkomudögum. 

En núlíðandi júnímánuður hefur verið ákaflega úrkomusamur í Reykjavík, og ekki bara það heldur hafa úrkomudagarnir líka verið óvenju margir. Við lítum á mynd sem á að sýna þetta - í einhverju langtímasamhengi.

w-blogg270614

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við eigum til upplýsingar um úrkomu í Reykjavík frá 1885 - ekki alveg samfellt að vísu - og úrkoma fáeinna eldri ára er líka til. Lárétti ásinn sýnir tímann, eyða byrjar árið 1908 og stendur til 1919 - en á því tímabili var lengst af mælt á Vífilsstöðum (sjást innan rammans á myndinni). Vífilsstaðamælingarnar eru vafasamari - t.d. er ekki með góðu móti hægt að telja úrkomudagafjölda.

Lóðréttu ásarnir eru tveir. Sá til vinstri sýnir heildarúrkomu í júní í millimetrum - sá til hægri aftur á móti úrkomudagafjölda í mánuðinum. Þar er miðað við að úrkoma hafi verið 1,0 mm eða meiri. Í slíkri úrkomu gerir meira en að bleyta á steini.

Gráu súlurnar sýna úrkomumagn einstakra mánaða - en þær brúnu úrkomudagafjöldann. Ef rýnt er í myndina kemur í ljós að ferlarnir fylgjast býsna vel að. Það þýðir að sé úrkoma í Reykjavík mikil er líka líklegt að úrkomudagar séu margir.

Síðustu súlurnar - lengst til hægri - eiga við núlíðandi júnímánuð, fram til þess 26. Enn geta þær því hækkað. Mest mældist úrkoman í júní 1887, 129,0 mm en er komin upp í 107,6 mm (til kvölds þann 26.) Úrkomumælingamánuðum lýkur með mælingu kl. 9 síðasta dag mánaðarins. Það sem fellur síðar sama dag telst með næsta mánuði á eftir. Spár gera ekki ráð fyrir þurrki fram til þess tíma - en ekki er ljóst hvort úrkoman verður meiri en þeir 23 mm sem vantar upp á met.

Þrátt fyrir að fjórir dagar séu eftir er úrkomudagafjöldinn (nú 17) að komast upp fyrir þá 18 sem nokkrir fyrri júnímánuðir skarta. Skýjahulan það sem af er er sú mesta síðan í hryllingsmánuðinum júní 1988 og sólskinsstundafjöldinn líka sá minnsti síðan þá - en svo lágt leggjumst við ekki að þessu sinni. 

Er lát á þessu tíðarfari? Nei, segja reiknimiðstöðvar - síður en svo. En spár eru nú stundum rangar.

Dagurinn, 27. júní, nefnist sjösofendadagur (flettið nafninu upp). Í heimasveit ritstjórans fylgdust sumir sérstaklega með veðri þann dag. Sagt var að heyskapartíð færi eftir veðri sjösofenda - rigndi yrðu óþurrkar - væri þurrt, fengist góður þurrkur. [En lítt er að marka veðurspárdaga].


Smávegis um rigningasumur

Eins og flestir muna endaði sumarið í fyrra harla ofarlega á lista mestu rigningasumra - en í hvaða sæti var það á landshlutavísu? Við lítum nú á það. 

Línuritið sýnir úrkomumælitölu sem ritstjórinn hefur soðið saman. Hún byggir annars vegar á því hversu margir úrkomudagar hafa verið í mánuðunum júní, júlí og ágúst en hins vegar á úrkomumagni í sömu mánuðum. Það sem hér er sýnt á við Vesturland - frá Faxaflóa vestur og norður um til Norðurlands vestra. Tölur frá Suðurlandi (frá Breiðdal vestur til Keflavíkurflugvallar) eru nærri því eins (þó ekki alveg).

Mánuðum (hverjum fyrir sig) er nú raðað eftir úrkomudagafjölda og úrkomumagni á þessum landsvæðum á tímabilinu 1924 til 2013 (90 ár). Sá júnímánuður þegar úrkomudagar voru flestir fær einkunnina 89, sá næsti 88 og svo koll af kolli - þar til komið er að þeim mánuði þegar úrkomudagar voru fæstir og fær sá einkunnina núll. Úrkomumagnið er afgreitt á sama hátt. 

Hver mánuður fær því tvær einkunnir og séu þær lagðar saman verður til heildareinkunn viðkomandi mánaðar. Að lokum fær sumarið (júní til ágúst) heildareinkunn - summu einkunna mánaðanna hvers fyrir sig. Hæst getur einkunn hvers mánaðar orðið 2x89=178 - en lægsta núll.

Júnímánuður 2006 er með toppeinkunn, 178 stig - þá var úrkoma bæði þrálát og mikil. Svo vildi hins vegar til það sumar að júlí og ágúst voru nokkru þurrari og komu í veg fyrir að sumarið yrði eiginlegt rigningasumar. Næstmest var úrkoman í júní 1992. Lægstu einkunnina (þurrastur) var júní 2012 síðan koma júní 1991 og 1971 - nördin kannast við þessa mánuði. 

En lítum á sumarmyndina:

w-blogg160614a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Rigningasumratoppurinn er svona:  1983 er það mesta (eða versta), síðan koma í þessari röð: 1969, 1976, 1955, 1984 og 2013. Á hinum endanum telst 1931 það þurrasta og 1928 það næstþurrasta, en síðan kemur sumarið 2012. Sveiflan milli 2012 og 2013 er því sérlega mikil. Auk þess var sumarið 2012 það fjórða í röð þurrkasumra og það sjötta í röð undir meðaltalinu. 

Engin fylgni er frá ári til árs - næstu sumur á undan segja ekkert um það sem á eftir kemur.

Suðurlandsmyndin er mjög lík, 2013 er þar reyndar í 8. sæti en ekki því sjötta. Sömu þrjú sumur eru efst: 1983, 1969 og 1976. Þurrkar tímabilsins 2007 til 2012 eru ekki alveg jafn áberandi og á myndinni hér að ofan, 1931 er þurrast, en 1958 næstþurrast. 

Norðanlands er myndin önnur og toppröðin þar kemur á óvart, sumarið 1972 telst úrkomusamast og síðan 1969 - en hvort tveggja sumarið var einnig rigningasamt syðra. Þurrast var 1925, 2012 og 1948. Síðastliðið sumar 2013 er í 34 sæti. 


Slæmt kuldakast í Norður-Noregi

Nú (mánudaginn 16. júní) gengur slæmt kuldakast yfir nyrstu fylki Noregs. Þess gætir líka í Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi. Kuldinn sést vel á kortinu hér að neðan. Það sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktina (litakvarði) á hádegi í dag (16. júní). Þykktin er mælikvarði á hita í neðri hluta veðrahvolfs.

w-blogg160614-2a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Miðja kuldapollsins er á myndinni rétt að komast inn á strönd Finnmerkur. Þar sem blái liturinn er dekkstur er þykktin minni en 5160 metrar. Þetta er minni þykkt en mælst hefur í júní yfir Keflavíkurflugvelli [5181m þann 10. júní 1973] og álíka og það minnsta sem finnst við ísland í amerísku endurgreiningunni [1. júní 1896]. 

Þessi kuldapollur hefur að undanförnu sveimað um Norðuríshafið undan ströndum Síberíu - en hæðarhryggurinn við Norður-Grænland og þar vestur af hefur stuggað við honum þannig að hann tók strikið suður á bóginn. Mjög kalt verður á þessum slóðum næstu daga þótt það versta sé hér með gengið yfir. Þetta eru sérstaklega mikil viðbrigði eftir methita á sömu slóðum að undanförnu - hiti legið milli 20 og 30 stig inni í sveitum. 


Og úrkoman líka

Úrkoma í Reykjavík það sem af er júní (fram á kvöld þann 25.) hefur mælst 102,4 mm. Það er meira en áður hefur mælst í júní öllum síðan 1887 en á sama tíma þá var úrkoman í Reykjavík samtals 113,2 mm - og endaði í 129,0 mm í mánaðarlok. Varla náum við því nú, en það er samt hugsanlegt - verði úrkoman sem nú er spáð að kvöldi mánudagsins þ. 30. meir en hálfum sólarhring fyrr á ferðinni - eða eitthvað óþekkt úrkomusvæði sýni sig. Meðalúrkoma í júní 1971 til 2000 er 45 mm í Reykjavík. 

Í fljótu bragði sýnist úrkomudagafjöldinn (sólarhringsúrkoma 0,1 mm eða meiri) í Reykjavík í júní vera kominn upp í 20 og fjöldi daga með úrkomu 1,0 mm eða meira er 16. Síðarnefndu dagarnir eru að meðaltali 11 í júní og ljóst að júní nú er langt fyrir ofan það, en flestir hafa dagarnir hins vegar verið 22 (1,0 mm eða meir) og ljóst að núlíðandi júní nær ekki þeim fjölda (það var líka 1887). Þess má geta að samkvæmt bókum mældist úrkoman í júní 1887 aldrei minni en 1 mm á dag - sem bendir til þess að athugunarmanni hafi ekki þótt taka því að geta minni úrkomu. Heildarúrkomudagafjöldinn gæti því hafa verið meiri - miðað við núverandi athugunarhætti. 

En Reykjavík er sá staður á landinu þar sem úrkoma er mest umfram meðallag að þessu sinni, en hún er komin yfir meðallag á mörgum stöðvum á Suður- og Vesturlandi. Austanlands hefur úrkoma það sem af er mánuðinum verið undir meðallagi - en ekki svo að afbrigðilegt teljist.

Í Reykjavík munar mikið um úrkomuna að kvöldi 17. júní (sjá sérstakan pistil) og sömuleiðis úrkomu síðustu tveggja daga - samtals 45 mm (nærri helmingur heildarinnar). 

En - varðandi júní 1887. Þá var meðalhitinn aðeins 8,7 stig er er yfir 11 nú. Í textahnotskurn segir: Veðrátta í júní 1887 var kalsa- og vætusöm, alhvítt varð í Reykjavík snemma morguns þann 14. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 12
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 2459
  • Frá upphafi: 2434569

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2184
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband