Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Góð hlýindi

Hungurdiskar hafa gaman af því að smjatta á hlýindaspám reiknimiðstöðvanna. Lítum á þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir mánudaginn 18. febrúar kl 18.

w-blogg180213

Svörtu heildregnu línurnar sýna þykktina í dekametrum (1 dam = 10 metrar). því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Það er 5400 metra línan sem liggur um Snæfellsnes. Þetta er um 160 metrum yfir meðallagi árstímans, jafngildir því að hiti í neðri hluta veðrahvolfs sé um 8 stigum hærri en að meðallagi.

Litafletirnir sýna hitann í 850 hPa en hann er á kortinu í um 1400 metra hæð. Frostlaust gæti verið sums staðar á háfjöllum. Hiti fór í dag (sunnudag) í 10 stig á fáeinum veðurstöðvum sunnanlands. Á veðurstöðinni í Tindfjöllum fór hiti í dag í rúm 3 stig - stöðin er í 870 metra hæð yfir sjó.

Nú er spurningin hversu lengi hlýindin endast. Þykktin verður heldur lægri á þriðjudag og áfram en síðan virðist hún eiga að ná nýjum hæðum síðar í vikunni. Við smjöttum áfram.


Munur á snjóhulu norðanlands og sunnan

Talverður munur er á snjóhulu norðanlands og sunnan. Á tímabilinu 1961 til 1990 var meðalfjöldi alhvítra daga á Akureyri 117, en 55 í Reykjavík, munar 62 dögum.

Með því að reikna meðalsnjóhulu allra veðurstöðva á Norðurlandi annars vegar en hins vegar á Suðurlandi má slá á þennan mun. Það hefur verið gert á myndinni hér fyrir neðan.

w-blogg170213

Gögnin ná aftur til 1924. Lárétti ásinn sýnir árin en sá lóðrétti fjölda daga. Meðaltalið er um 60 dagar - svipað og áðurnefndur munur á Reykjavík og Akureyri. Virðist heldur hafa farið minnkandi. Á nýhlýindaskeiðinu sýnir myndin minni mun heldur en gerðist á hlýskeiðinu stóra eftir 1930.

Mestur var munurinn árið 1977 107 dagar. Þá var nauðaþurrt allan veturinn sunnanlands en nyrðra var snjór með eðlilegum hætti. Minnstur var munurinn 1984, 26 dagar. Þá var sérlega snjóþungt syðra og hittist þannig á að snjór var þar óvenjumikill bæði fyrstu mánuði ársins sem og í desember. Næstminnstur var munurinn 1964 - þá var sérlega snjólétt bæði sunnanlands og fyrir norðan - allt aðrar aðstæður heldur en 20 árum síðar.

Það er 2010 sem stingur sér upp úr hneppi síðustu ára. Þá voru aðstæður ekki ósvipaðar og 1977, sérlega snjólétt syðra en snjór nær meðallaginu nyrðra.


Hlýir dagar framundan (rétt einu sinni)

Spár virðast sammála um að hlýindin nái undirtökunum aftur og endist jafnvel í nokkra daga. Veðurkortið hér að neðan sýnir byrjunarstöðuna ágætlega, en það er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir um hádegi á laugardag (16. febrúar 2013).

w-blogg160213

Jafnþrýstilínur eru svartar og heildregnar, litafletir sýna úrkomu síðustu 6 klukkustunda. Kvarðinn batnar sé myndin stækkuð. Strikaðar línur sýna hita í 850 hPa-fletinum. Það er mínus 5 stiga línan sem liggur við suðurströnd Íslands á myndinni. Í þumalfingursfræðum er hún tekin sem ábending um það hvar skiptir úr snjókomu yfir í rigningu.

Nú liggur þunnt lag af köldu lofti yfir landinu og tíma getur tekið að ýfa það upp og flæma brott þegar vindur vex. Fyrsta úrkoman að sunnan getur því alveg eins verið snjór - vonandi ekki frostrigning. En síðan hlýnar.

Við sjáum að kerfið er tvöfalt. Á undan fer veikt (ljósgrænt) úrkomusvæði sem er að leysast upp. Aðalkerfið er sunnar og kemur að landinu á sunnudag. Þá hlýnar verulega - fyrst um landið sunnanvert. Það verða vonbrigði ef hitinn fer ekki einhvers staðar upp í tveggja stafa tölu þegar suðaustanáttin hlýja nær sér á strik. Dægurmet í Reykjavík um miðjan febrúar eru rétt um eða við tíu stigin.

Þegar úrkomusvæði nálgast ofan í léttskýjað veður er vel þess virði að fylgjast með skýjafari og reyna að rýna í far skýjanna - hreyfistefnu þeirra. Bakki gengur upp úr suðri, en ef vel er að gáð sést að hreyfingin í blikunni er úr vestri eða í þessu tilviki sennilega suðvestri. Við jörð er vindur hins vegar úr austri - jafnvel norðaustri í byrjun en snýst síðan í suðaustur. Þegar hlýtt loft nálgast landið er snúningur með hæð einmitt svona, austur-suðaustur-suður-suðvestur, sólarsinnis með hæð.

Þótt hlýja aðstreymið hafi nær örugglega vinninginn í þetta sinn er það ekkert sjálfgefið þegar bliku slær upp. Stundum blæs á móti henni - hún stöðvast, hann gengur síðan öfugur upp í og endar í margra daga norðaustanþræsingi. Algengt er það á útmánuðum. Kannski að dæmi um það birtist síðar.


Kalt við Korpu

Á vef Veðurstofunnar má sjá hvar hiti er hæstur eða lægstur á landinu - bæði fyrir daginn í heild og síðastliðna klukkustund. Oftast er lægsti hiti landsins einhvers staðar inni í landi, uppi á hálendinu eða á fjallatindum. Í dag miðvikudaginn 14. nóvember ber hins vegar svo við að veðurstöðin á Korpu í úthverfi Reykjavíkur nær því að vera með lægsta lágmarkshita landsins. Lítum á listann klukkustund fyrir klukkustund:

STÖР MÁN  DAGUR  KLST lágmark NAFN stöðvar
1479    2       14      1       -4.6    Korpa
1479    2       14      2       -5.2    Korpa
1479    2       14      3       -5.4    Korpa
1473    2       14      4       -4.4    Straumsvík
1479    2       14      4       -4.4    Korpa
1479    2       14      5       -4.5    Korpa
6459    2       14      6       -4.9    Lónakvísl
6459    2       14      7       -5.2    Lónakvísl
6459    2       14      8       -4.7    Lónakvísl
6459    2       14      9       -4.5    Lónakvísl
6459    2       14      10      -4.5    Lónakvísl
6459    2       14      11      -4.0    Lónakvísl
1479    2       14      11      -4.0    Korpa
6459    2       14      12      -3.6    Lónakvísl
6459    2       14      13      -5.1    Lónakvísl
6459    2       14      14      -4.2    Lónakvísl
2636    2       14      15      -3.2    Þverfjall
6459    2       14      16      -3.6    Lónakvísl
2636    2       14      17      -3.6    Þverfjall
3474    2       14      17      -3.6    Vaðlaheiði
2636    2       14      18      -3.8    Þverfjall
1486    2       14      19      -4.0    Bláfjöll
1486    2       14      20      -4.6    Bláfjöll
6975    2       14      21      -4.4    Sandbúðir
6975    2       14      22      -4.5    Sandbúðir
1479    2       14      23      -4.9    Korpa
1479    2       14      24      -4.9    Korpa

Lágmarkið á Korpu kl. 3 er lægsti hiti sólarhringsins á landinu (miðað við almennar stöðvar). Dægursveifla á Korpu er allstór þannig að Lónakvísl á Tungnáröræfum [hæð 675 metrar] og nokkrar aðrar stöðvar hátt yfir sjó verða lægstar yfir daginn. Í dag var skýjað um mestallt land og víða vindur, en lygnt var á höfuðborgarsvæðinu og bjart. Við skulum líta á vegagerðarstöðvarnar líka:

STÖР MÁN  DAGUR  KLST lágmark NAFN stöðvar
31488   2       14      1       -7.1    Sandskeið
31488   2       14      2       -7.4    Sandskeið
31488   2       14      3       -6.9    Sandskeið
31488   2       14      4       -6.8    Sandskeið
31950   2       14      5       -4.0    Stórholt
31950   2       14      6       -4.1    Stórholt
31488   2       14      7       -2.8    Sandskeið
33357   2       14      8       -2.0    Öxnadalsheiði
31579   2       14      9       -2.3    Kjalarnes
31950   2       14      10      -4.0    Stórholt
31950   2       14      11      -3.9    Stórholt
31950   2       14      12      -1.7    Stórholt
34238   2       14      13      -1.5    Möðrudalsöræfi II
34326   2       14      13      -1.5    Biskupsháls
34238   2       14      14      -1.4    Möðrudalsöræfi II
34326   2       14      15      -1.3    Biskupsháls
32474   2       14      16      -1.4    Steingrímsfjarðarheiði
33357   2       14      16      -1.4    Öxnadalsheiði
33357   2       14      17      -1.6    Öxnadalsheiði
31488   2       14      18      -3.3    Sandskeið
31488   2       14      19      -3.2    Sandskeið
31488   2       14      20      -3.4    Sandskeið
31488   2       14      21      -2.2    Sandskeið
31392   2       14      22      -2.7    Hellisheiði
31488   2       14      23      -4.7    Sandskeið
31488   2       14      24      -5.4    Sandskeið

Sandskeið er í nágrenni borgarinnar og þar var enn kaldara heldur en á Korpu síðastliðna nótt. Kjalarnes náði því meira að segja að verða kaldasta vegagerðarstöðin kl. 9 Yfir miðjan daginn var lágmarkið á hefðbundnari stöðum.

Þá er spurningin hvort Korpa hafi áður átt lægsta hita á landinu frá því að sjálfvirkar athuganir hófust þar á bæ. Svarið er já, en aðeins einu sinni. Það var 29. september árið 2000. Lágmarkshitinn var þá 1,0 stig. Það er mun oftar að Sandskeið á lægsta lágmark vegagerðarstöðvanna, síðast 5. febrúar í ár.


Tvær mestu febrúarfyrirstöðurnar

Febrúar er ákaflega fjölbreyttur mánuður - í ökkla eða eyra. Við lítum hér snögglega á efri endann - mestu fyrirstöðurnar. Í titlinum eru þær tvær - í tímalengd - náðu yfir mestallan mánuðinn. Veðurfar var alveg út úr kortinu í febrúar 1932. Hlýindin þau afbrigðilegustu í nokkrum vetrarmánuði hér á landi. Í næstu sætum koma svo mars 1929, desember 1933, janúar 1847 og mars 1964. Þrír afbrigðilegustu vetrarhlýindamánuðirnir komu allir á inni á fimm ára tímabili. Nýhlýindaskeiðið sem við upplifum á enn eftir að toppa þennan árangur gamla tímans.

En fyrsta kortið sýnir hæðarvik í 500 hPa þennan ágæta mánuð með augum amerísku endurgreiningarinnar.

w-blogg140213aa

Risahlýindavik er yfir landinu. Harla mikil norðanáttarauki í Skandinavíu.

Ámóta atburður gerðist síðan aftur í febrúar 1965 - en ekki alveg eins hlýr.

w-blogg140213ab

Hér er hæðin aðeins vestar en 1932. Elsta kynslóð veðurnörda man vel þennan mánuð. Hann var mjög hlýr - með tveimur ofsaveðrum þó. Nákvæmlega þarna byrjuðu hafísárin svonefndu hér á landi - en í baksýnisspeglinum má þó sjá nokkurn aðdraganda. Í veðrinu er yfirleitt skýrari sýn í baksýnisspeglinum heldur en þangað sem leiðin liggur. Í þessu afbrigðilega mynstri náði hafísinn að breiðast út fyrir norðan land - með töluverðri nýmyndun auk stíflunnar á Grænlandssundi.

Ís kom líka vorið 1932 - en miklu minni - minna var þá fyrir af honum heldur en 1965.

Þessar fyrirstöður entust í margar vikur - en stöku sinnum birtast þær án þess að setjast að til langframa. Ef við lítum á einstaka daga finnur endurgreiningin ákaflega afbrigðilegan dag í febrúar 1890.

w-blogg140213a

Þetta kort sýnir ekki vik heldur hæð 500 hPa-flatarins þennan ákveðna dag. Miðjuhæðin er 5840 metrar. Ansi gott þykir að ná 5700 metrum og gerist ekki nema stöku sinnum hér við land að vetrarlagi eða á fimm til tíu ára fresti í febrúar.

Loftþrýstingur var mjög hár og hefur aðeins tvisvar mælst jafnhár eða meiri í febrúar hér á landi. Taflan sýnir þetta - ekki er marktækur munur á efstu gildunum:

ármándagurhámark (hPa)Staður
18922141051,8Stykkishólmur, Akureyri
19622261051,7Akureyri, Dalatangi (25.)
18902261051,6Akureyri 
18892251050,4Akureyri
20062241050,0Skjaldþingsstaðir og Dalatangi
19652211048,6Vopnafjörður
19322101047,4Seyðisfjörður
1895251047,0Akureyri
19442251046,3Akureyri
19882281046,3Bergstaðir 

Mánuðirnir tveir, 1932 og 1965 eru efstir á lista yfir þrýstihæstu febrúarmánuðina:

árfebrúarlandið (hPa)
193221027,0
196521026,9
194721025,5
198621023,6
189521021,9

Síðan kemur febrúar 1947 í þriðja sæti - en hann var einnig afskaplega afbrigðilegur. Frægur í Evrópu fyrir snjó og kulda í skorti eftirstríðsáranna - við lá að allt færi á höfuðið.


Norðurhvelsstaðan (auk klípu af nördmeti)

Fyrst lítum við á hefðbundinn hátt á stöðuna á norðurhveli á fimmtudaginn (14. febrúar) en síðan eru nokkur korn fyrir veðurnördin.

w-blogg130213

Ísland er rétt neðan við miðja mynd, N-Ameríka til vinstri en mestöll Asía til hægri. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn í veðrahvolfi miðju. Litafletir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli bláu og grænu litanna eru sett við 528 dekametra (1 dam = 10 metrar). Þau liggja einmitt yfir Ísland á myndinni - frá suðvestri til norðausturs.

Þau svæði þar sem þykktin er minni en 4920 metrar eru lituð fjólublá. Þar eru höfuðstöðvar kuldans hverju sinni. Þær eru tvískiptar eins og oftast á þessum árstíma, önnur miðjan er yfir kanadísku heimskautaeyjunum en hin yfir strönd Síberíu. Köld svæði með lítilli þykkt og lágum veðrahvörfum eru kölluð kuldapollar. Til auðkennis hafa hungurdiskar gefið þessum tveimur meginpollum nöfn - Kanadapollinn höfum við kallað Stóra-Bola - en hinn er Síberíu-Blesi. Eini tilgangur nafnanna er að auðvelda umtal og forðast rugling. Fleiri kuldapollar - veigaminni og skammlífari eru oftast á sveimi á kortinu. Hér er t.d. einn yfir Miðjarðarhafi og veldur þar leiðindaveðri allt suður til Afríkustranda - mikið ef ekki snjóar þar í fjöll.

Kuldapollarnir stóru eru frekar rólegir á kortinu. Það sjáum við af því að þykktarfletir og jafnhæðarlínur liggja nokkuð samsíða kringum þá og bratti þessara sviða er þar svipaður. Litakvarðinn sem notaður er (batnar mjög við stækkun) gerir ráð fyrir fjórum fjólubláum litatónum. Hér eru aðeins þrír notaðir - sá fjórði sést ekki nema stundum - þar er þykktin minni en 4740 metrar.

Umhverfis Ísland er vindur frekar hægur og bratti þykktarsviðsins ekki mikill. Fyrirstaðan sem verndað hefur okkur undanfarna daga hefur hörfað til austurs - en spár gefa góða von um að hún muni enn á ný endurnýja sig ekki fjarri Íslandi eins og gerst hefur hvað eftir annað í vetur. Þessi fyrirstaða hefur lengst af verið af veikari gerðinni - en það er að sumu leyti bara betra. Öflugar fyrirstöður stugga frekar við kuldapollunum og geta ýtt þeim úr bólum sínum.

Þótt Evrópumenn hafi sumir kvartað um kulda í vetur hefur sá kuldi verið af vægara taginu - í norðan- og norðaustanátt austan við veika fyrirstöðuna. Síberíu-Blesi hefur nær ekkert látið á sér kræla vestan Úralfjalla. Í vetur hafa öflugar fyrirstöður stundum birst í nágrenni Íslands í viku til tíu daga spám - en hingað til hefur ekkert orðið úr þeim. Við þurfum auðvitað stóra fyrirstöðu til að slá einhver hitamet - en það er áhættuleikur - við gætum alveg eins lent á austurhliðinni í klóm kuldans.

En lítum nú á töflu - hér kemur að nördafóðrinu.

mánmhæðmánmism    mþykkt  mánmism      h1000 mánmism  þrýstingur
jan524,3-1,1523,4-0,90,9-0,21001,1
feb526,42,1523,80,42,61,71003,3
mar527,81,4524,00,23,71,11004,7
apr537,19,3528,94,98,24,51010,3
maí546,79,6535,56,611,33,11014,1
jún552,76,0543,07,59,7-1,61012,2
júl555,93,2547,54,58,4-1,31010,5
ágú553,7-2,2546,2-1,37,5-0,91009,4
sep545,9-7,8540,5-5,75,4-2,11006,8
okt537,3-8,6533,9-6,63,4-2,01004,2
nóv530,9-6,6528,0-5,92,9-0,51003,7
des525,4-5,5524,3-3,71,1-1,81001,4

Taflan er ekki flókin en krefst samt nokkurrar yfirlegu - á varla heima í bloggmiðli. Hún sýnir árstíðasveiflu meðalhæðar 500 og 1000 hPa-flatanna og þykktarinnar yfir Íslandi miðju á tímabilinu 1951 til 2012.

Fyrsti dálkurinn sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í dekametrum. Við sjáum að í febrúar er hún 526 dam. Á kortinu að ofan er hún 529 dam, þremur dekametrum ofan meðallags. Næsti dálkur sýnir breytingu meðalhæðarinnar frá einum mánuði til þess næsta. Hæðin er í lágmarki í janúar en er hæst í júlí. Hún hækkar lítillega frá janúar og fram í mars en þá kemur stórt stökk yfir í aprílmeðaltalið og annað ámóta yfir í maí. Minna þrep er síðan milli maí og júní. Meðalhæðin fellur lítilega milli júlí og ágúst, en verulega milli ágúst og september. Mikið fall er allt haustið.

Þriðji dálkurinn sýnir meðalþykktina. Hún er svipuð allan veturinn frá desember og fram í mars. Þykktin tekur líka vorstökk - en miklu minna heldur en hæðin. Þetta stafar trúlega af tvennu. Annars vegar dregur fyrr úr sunnanátt vetrarins heldur en vestanáttinni. Þá aukast líkur á norðanátt meðan á snúningnum stendur. Nokkru síðar dregur snögglega úr vestanáttinni og þá er köldu lofti sturtað frá heimskautaslóðum til suðurs. Þetta hægir á vorhlýnuninni sem kemur fram í því að þykktin (sem er mælikvarði á hita) tregðast við að hækka. Haustið er síðan önnur saga.

Fimmti dálkurinn sýnir hæð 1000 hPa-flatarins (mismunur hæðar og þykktar). Hann er hæstur þegar misgengið er mest í maí. Þá er meðalloftþrýstingur hæstur á Íslandi - aftasti dálkur sýnir þann þrýsting sem 1000 hPa-hæðin gefur til kynna. Misgengið á haustin kemur fram í því að þrýstingur fellur lítið milli október og nóvember - en meira á milli nóvember og desember - við látum vangaveltur um ástæður þess liggja á milli hluta.


Sýndarvor

Nú eru liðnar réttar 6 vikur frá áramótum og sýndarvorið heldur áfram. Já, auðvitað er það ekkert vor - en meðalhiti það sem af er ári hefur samt verið á svipuðu róli og gerist í þriðju viku aprílmánaðar, rétt fyrir sumardaginn fyrsta. Næstu daga verða varla hlýindi en ekki heldur kuldar og spár lengra fram í tímann eru ekki kuldalegar. Standi veðurlag af þessu tagi nógu lengi verður það merkilegt. Við skulum líta á hvernig árið stendur sig (lítið líka endilega á vef nimbusar  þar sem fylgst er með stöðunni frá degi til dags).

Upplýsingar liggja fyrir um morgunhita í Stykkishólmi allt aftur til 1846. Meðalhiti kl. 9 fyrstu 42 daga ársins í ár er 1,9 stig. Aðeins fjórum sinnum hefur árið byrjað betur:

árhiti °C
19872,47
19292,28
19722,15
19641,93
20131,90
18471,82
20101,71

Við splæsum hér í tvo aukastafi í °C - þótt það sé vafasamt. Ársbyrjun 1987 er hlýjust, síðan í röð 1929, 1972 og 1964. Mikið þrek þarf til að halda í 1929 og 1964 til lengdar - þau ár voru sérlega hlý alveg fram í apríl. Fleiri ár áttu svo góða spretti í febrúar og mars að þau rífa sig upp listann fljótlega og lenda í harðri samkeppni.

Í Reykjavík og Akureyri ná upplýsingar um daglegan hita ekki alveg á lausu nema aftur til 1949, en á því tímabili hafa fyrstu 42 dagarnir aðeins fjórum sinnum orðið hlýrri en nú. Á Akureyri átta sinnum á sama tímabili.

Það er fyrst og fremst á þráanum (ef svo má að orði komast) og jöfnuði sem þessar fyrstu sex vikur hafa staðið sig svona vel. Þrátt fyrir góða byrjun á febrúar er hann samt ekki kominn nærri toppsæti enn (sjá „xls-fylgiskjal“ nimbusar). Meðalhiti í hlýjasta febrúar í Reykjavík er 5 stig - ótrúlegt en satt (1932). Sýnist helst að hiti afgang mánaðarins þyrfti að haldast í einum sjö stigum til að nútímanum takist að toppa það. Slíku er alla vega ekki spáð þessa dagana.


Sumarsvipur á þrýstisviðinu

Nú hittist svo á að lítið sést til öflugra þrýstikerfa á N-Atlantshafi - svo  lítið að helst minnir á sumarið. Kortið að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 síðdegis mánudaginn 11. febrúar.

w-blogg110213a

Hæðin fyrir norðaustan land rétt slefar í 1030 hPa og engin lægðanna á kortinu nær niður í 990 hPa. En við sjáum auðvitað að ekki er um sumarkort að ræða með því að horfa á hitann í 850 hPa-fletinum. Hann er sýndur með strikuðum jafnhitalínum. Með því að rýna í kortið (það batnar við stækkun) má sjá að yfir Íslandi er hitinn í fletinum einhvers staðar milli mínus 5 og  mínus 10. Á raunverulegu sumarkorti værum við hinu megin frostmarks, í plús 5 til plús 10. Hér munar 10 stigum en það er einmitt meðalmunur sumar- og vetrarhita við sjávarsíðuna hér á landi.

Reiknimiðstöðin er helst á því að láta þetta ástand ná yfir mestalla vikuna - þó með þeirri skammvinnu undantekningu að ívið öflugri lægð á að fara til norðausturs skammt suður- og suðaustur af landinu á miðvikudag. Þrýstingi í miðju hennar er spáð niður í um 977 hPa - það er heldur sjaldséð tala á sumrin.


Nokkuð snúið - en vonandi meinlaust

Eftir hlýindin í dag, laugardag, kólnar til morguns. Kaldara loft sækir að úr báðum áttum, austri og vestri. Tölvuspár hafa hringlað með það hvor áttin nær undirtökunum - og gera enn. Komist loftið úr vestri að snjóar sennilega vestast á landinu - en þótt loftið úr austri sé ekkert hlýrra fylgir því vindur af austri en sú vindátt er oftast þurr vestanlands. Ein spáin sem nú er í gildi segir að á aðfaranótt mánudags snjói 5 til 7 cm í Keflavík, en ekki neitt í Reykjavík. Síðan er það reglan (?) - ef nægilega mikið rignir í logni - snjóar.

Hungurdiskar verða að segja pass og bíða eftir niðurstöðunni. Á meðan getum við litið á 500 hPa hæðar- og þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 síðdegis á sunnudag (10. febrúar)

w-blogg100213a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Af þeim má ráða vindátt og vindhraða. Vindur blæs oftast nokkuð samsíða hæðarlínunum með hærri gildi til hægri við vindinn. Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn. 

Jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar, einnig merktar í dekametrum. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er í neðri hluta veðrahvolfs. Það er 528 dam jafnþykktarlínan sem snertir Suðvesturland kaldara loft er vestan hennar - en hlýrra austan við. Lína sömu þykktar liggur líka að Suðausturlandi - þar er kaldara austan línunnar. Vestari 528-línan er nánast kyrrstæð - en sú eystri hreyfist til vesturs.

Hlýja loftið sem fór yfir í dag (laugardag) er búið að byggja upp myndarlega fyrirstöðuhæð fyrir norðaustan land - eins og furðualgengt hefur verið síðustu 2 til 3 mánuði. Fyrirstaðan mun endast í nokkra daga og vernda okkur frá aðsókn meiriháttar lægðakerfa.

Lægðin við Nýfundnaland er sú sem olli laugardagssnjókomunni miklu í Bandaríkjunum. Afkomandi hennar mun komast til Íslands - en ekki fyrr en eftir verulega endurskipulagningu bylgjunnar.


Hlýindi í hámarki á laugardag

Þegar þetta er skrifað (seint á föstudagskvöldi 8. febrúar) er hlýtt víðast hvar á landinu og hvergi meira en tveggja stiga frost. Sunnanáttin hefur ekki enn hreinsað alveg út úr Siglufirði og Ólafsfirði - en það ætti að gerast á hverri stundu. Hiti vestanlands var víða á bilinu sjö til níu stig.

Kortið sýnir þykktina á miðnætti (að kvöldi föstudags) eins og evrópureiknimiðstöðin reiknar hana.

w-blogg100213a

Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og er því meiri eftir því sem hlýrra er, svörtu heildregnu línurnar sýna hana. Talnagildin eru í dekametrum (1 dam = 10 metrar) og má sjá 542 dam jafnþykktarlínuna yfir vestanverðu landinu. Meðalþykkt í febrúarmánuði hér við land er um 18 dam lægri. Gróflega má segja að hiti hækki um 1 stig við hverja tvo dekametra þannig að hitinn um 9 stigum yfir meðallagi árstímans. Það er mikið.

Litafletirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum, hann er í dag í 1200 til 1400 metra hæð. Mörkin milli gulu og blágráu svæðanna liggja við núll stig. Hér er því hláka upp í meir en þúsund metra hæð.

En hlýja svæðið stefnir beint til norðurs og á korti sem gildir um hádegi á sunnudag eru hlýindin farin að gisna.

w-blogg100213b

Hér sækir kaldara loft að bæði úr austri og vestri. Eins og oftast er kaldara vestan við land heldur en austan þess. Kaldast er vestan við Grænland, þar sést aðeins í 494 dam jafnþykktarlínuna í jaðri kuldapollsins Stóra-Bola (kortið skýrist talsvert við stækkun). Í þessu tilviki stíflar Grænland framsókn hans algjörlega. Kalda loftið vestan við Ísland er komið vestan úr Kanada fyrir sunnan Hvarf.

Furðukalt er austan við Hjaltlandseyjar - þar sést í jaðar 512 dam línunnar. Kalt loft til beggja átta leitast við að fleygast undir hlýja loftið yfir Íslandi og ekki gott að segja hvor aðsóknin hefur betur - flókið skilakerfi hlýtur að verða til úr því (?).

Fyrir utan fiðringinn sem fylgir spurningunni um það hversu hátt hitinn fer á veðurstöðvum í hlýindagusunni (varla met - en samt mætti búa til veðmál um það) er ákveðin spenna samfara ástandinu á sunnudagskvöld. Lendir einhver hluti Suðvesturlands vestan við skilin? Snjóar þá? Verður krapaelgur? Fá skíðasvæðin spillihlákuna endurgreidda?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 908
  • Sl. sólarhring: 1115
  • Sl. viku: 3298
  • Frá upphafi: 2426330

Annað

  • Innlit í dag: 808
  • Innlit sl. viku: 2964
  • Gestir í dag: 790
  • IP-tölur í dag: 727

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband