Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Hlýindaspá

Nú stefnir mjög hlýtt loft í átt til landsins - miðað við árstíma. Tveggja stafa tölur eru ekki algengar í febrúar. Landsmetið er þó býsna hátt, 18,1 stig sem mældust á Dalatanga þann 17. árið 1997. Flest landsdagamet á þessum tíma árs eru á bilinu 14 til 16 stig. Þrátt fyrir að hlýtt verði næstu daga er frekar ólíklegt að þessi met hreyfist - en aldrei að vita.

Hiti hefur ekki nema þrisvar náð 10 stigum í Reykjavík í febrúar, mest 10,1 stig þann 8. árið 1935, en þá gekk mikið ofsaveður yfir landið og ofbeldi samfara því hefur náð hlýju lofti úr hæðum niður til Reykjavíkur. Sami hiti mældist í Reykjavík þann 16. árið 1942 og 10,0 stig daginn áður. Hiti komst einu sinni í 12 stig í febrúar meðan Jón Þorsteinsson landlæknir athugaði á árunum 1820 til 1854, það var þann 9. árið 1830.

En lítum aðeins á stöðu dagsins. Fyrst á gervihnattarhitamynd sem tekin er á miðnætti á fimmudagskvöldi 7. febrúar.

w-blogg080213a

Útlínur landa eru merktar með grænum lit og má sjá Ísland ofan við miðju. Við sjáum mikinn boga af háskýjum (þau eru köld og hvít á myndinni). Til hægðarauka hefur hvítri strikalínu með ör á endanum verið komið fyrir í sveipnum og á að sýna hreyfingu loftsins, fyrst úr suðri en síðan í stórum boga til austurs, suðausturs og að lokum í enn meiri sveig. Öll er hreyfingin í hæðarbeygju.

Auk þessarar hringhreyfingar er hringrásin öll á hreyfingu til norðurs og norðausturs og breiðir þar að auki úr sér. Heildarhreyfingin er þannig samsett úr færslu - hringsnúningi og útþenslu. Hringsnúningurinn getur verið í hvora áttina sem er (sólarsinnis eða andsólarsinnis) og þrenging er möguleg í stað útþenslu. Loft sem lyftist og hreyfist til norðurs leitar í hæðarbeygju í efri hluta veðrahvolfs.

Þetta bogaform kemur í dag fram á flestum gerðum veðurkorta. Sést t.d. mjög vel á veðrahvarfakortum eins og þeim sem stundum hafa lent á borði hungurdiska, einnig á vinda- og þykktarkortum. Til a sjá hversu hlýtt þetta loft er skulum við líta á mættishitann í 850 hPa fletinum á sama tíma og myndin var gerð.

w-blogg080213b

Mættishita mætti einnig kalla þrýstileiðréttan hita. Reiknað er út hversu hlýtt loft sem er í ákveðinni hæð yrði ef það væri flutt niður að sjávarmáli (1000 hPa-flötinn). Dökkrauða svæðið á myndinni fylgir boganum á gervihnattamyndinni nokkuð vel - enda gildir spáin á sama tíma og myndin.

Þarna eru sannkölluð eðalhlýindi á ferð, mættishitinn er 19,7 stig þar sem hann er hæstur. Munur væri að ná honum niður til okkar. Til þess þarf þó sérstök skilyrði - getur gerst í hreinu niðurstreymi við há fjöll. Slíkt niðurstreymi er þó sjaldnast eins konar foss að ofan heldur blandast það kaldara loftið á leiðinni niður og hitinn lækkar. Mættishitanum er spáð í 17 til 18 stig á aðfaranótt laugardags. Þá eru tveggjastafa hita tölur líklegastar í kringum háfjöll Norðurlands.

Síðdegis á laugardag snýst vindur um tíma til suðausturs - þá gætu sjaldgæfar tveggjastafatölur sést á Vesturlandi. Þar spillir úrkoma talsvert möguleikum. Ef mikið fellur af henni fer orka frekar í það að láta rigninguna gufa upp eða snjóinn að ofan bráðna heldur en að hækka hita þann sem mælist á hitamælum.


Dugar samt

Þó nýja árið hafi ekki verið illviðralaust hér á landi hefur tíðarfarið verið gott þegar á heildina er litið - og hér suðvestanlands hefur veður suma daga minnt frekar á snemmvor heldur en janúar. Lega háloftavinda hefur reynst okkur hagstæð. Myndin hér að neðan er til vitnis um það. Hún er fengin af setri bandarísku veðurstofunnar og sýnir hæðarvik í 500 hPa-fletinum yfir norðanverðu Atlantshafi á tímabilinu 1. janúar til 4. febrúar 2013.

w-blogg070213

Miðað er við tímabilið 1981 til 2010. Skammt fyrir norðaustan land er vikhámark. Það er ekki sérlega mikið  en dugar samt. Svartar heildregnar línur sýna vik í metrum. Það er 40 metra viklínan sem liggur yfir landið úr suðaustri til norðvesturs. Vikið er mest rétt rúmir 100 metrar (= 10 dekametrar). Á 500 hPa kortunum sem við lítum oftast á eru línur dregnar á 6 dekametra (60 m) bili.

Neikvæð vik eru suður af Grænlandi og yfir Evrópu. Vikamynstrið sýnir að hér á Íslandi hafa suðaustlægar áttir verið algengari heldur en að meðallagi. „Skýrir“ það hlýindin í janúar. Myndin sýnir þar að auki að landið hefur ekki verið í lægðabraut - flestar lægðir hörfað undan.

Frekar kalt hefur verið í Evrópu - í meðallagi þó í Noregi. Austanvindar hafa samkvæmt þessu korti verið algengari en í meðalári. Þó kalt hafi verið hefur meginlandið samt sloppið við ógnarkulda úr austri - kuldapollurinn Síberíu-Blesi hefur varla komist vestur fyrir Úralfjöll.

Þótt vindi og úrkomu sé spáð hér á landi næstu vikuna virðist svo vera að staðan haldi sér í aðalatriðum. Veik fyrirstaða verður viðloðandi fyrir norðaustan land eins og verið hefur lengst af í vetur. Ef þær spár rætast verða umhleypingarnir ekki mjög beittir - miðað við árstíma. En munum að spár halda ekki alltaf.


Skýjauppsláttur

Því var tíst að ritstjóranum einhvern daginn að hann mætti gjarnan rifja upp hvernig skýjafar fylgir á undan skilasvæðum. Það skal nú gert - en rétt að hafa í huga að staðhættir nær og fjær móta mjög skýjafar - og því meira eftir því sem skýin liggja lægra.

Í dag (sem er miðvikudagur 6. febrúar hjá flestum lesendum) nálgast einmitt skýjasvæði úr vestri og suðvestri. Fyrsta myndin sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar kl. 6 á miðvikudagsmorgni.

w-blogg060213a

Umrædd skil eru í úrkomusvæðinu á Grænlandshafi. Þar má ef vel er skoðað sjá skilabrot (skarpt horn) í þrýstisviðinu. Sömuleiðis má ráða af vindörvum að vindur snúist þegar skilin fara yfir, úr suðaustlægri átt yfir í vestur og þar á eftir í suðvestur. Fjólubláa strikalínan sýnir hvar hiti í 850 hPa-fletinum er -5 stig. Við þá tölu er gjarnan miðað þegar áætla á hvort um snjókomu eða rigningu sé að ræða. Við sjáum að megnið af úrkomusvæðinu er hlýja megin við þessa línu - allt stefnir því í rigningu. - En miklu styttra er í fjólubláu línuna handan skilanna heldur en framan við þau.

Lítum næst á skýjaspá reiknimiðstöðvarinnar fyrir sama tíma.

w-blogg060213c

Myndin sýnir heldur stærra svæði en sú fyrri. Þrýstilínur eru dregnar þéttari en þrýstisviðið er samt það sama. Til auðkenningar hafa skilin verið sett inn sem hvít punktalína. Litafletir sýna ský í mismunandi hæð. Greint er á milli þriggja hæðarbila, háský eru blágræn, miðský rauðbrún og lágský eru blá. Hér flækir málið að hærri ský geta skyggt á lægri. En ef vel er að gáð má átta sig á því.

Fyrir vestan Ísland er fyrst mikil háskýjabreiða - hún nær alla leið til skilanna. Dekkra svæði er skammt vestur af landinu. Þar er mikil miðskýjabreiða á ferð. Inni í henni eru enn dekkri blettir - þar eru bæði miðský og lágský undir háskýjabreiðunni. Allar samsetningarnar koma inn yfir landið í röð og skilin líka - sé að marka spána.

En lítum nú á staðalskilin - myndin er úr hinni ágætu - en höfundalausu - bók „Elementary Meteorology“ sem eyðublaðastofa hennar hátignar bretadrottningar gaf út fyrir um 50 árum. Gagnast hún veðurnördum betur en aðrar byrjendabækur jafnvel enn þann dag í dag.

w-blogg060213b

Ekki alveg einföld mynd við fyrstu sýn - en samt sú besta í boði. Lóðrétti ás myndarinnar sýnir hæð yfir sjávarmáli - nokkurn veginn upp í 10 km hæð. Sá lárétti sýnir fjarlægð, núll er sett þar sem skilin eru við jörð. Stórgerð ör sýnir hreyfistefnu skilanna. Bleiklitaði borðinn sýnir hvernig skilaflöturinn hækkar fram á við (hlýrra loft liggur ofan á kaldara). Af samanburði ásanna sést að halli skilaflatarins er gríðarlega ýktur. Á nútíma vegagerðarmáli er hann aðeins um 1 prósent.

Veðrahvörfin liggja ofan á öllu eins og þak mörkuð sem rauð lína á myndinni. Sjá má að í kringum skilin er bratti þeirra á litlu svæði mun meiri en annars - þar er loft að ryðja sér leið í þröngri stöðu fram á við. Þótt uppstreymið sé býsna öflugt ræður það engan veginn við þann múr sem veðrahvörfin eru.

Frostmark er markað með blárri strikalínu. Að vetrarlagi er það lengstum við jörð í kalda loftinu hægra megin á myndinni en hækkar smám saman og að mun í skilunum. - Þetta eru hitaskil, gætu líka verið svokölluð hlý samskil (æ). Skilin á kortunum að ofan eru merkt sem slík á hefðbundnum veðurkortum.

En þá er komið að skýjategundasyrpunni. Tegundir eru merktar með alþjóðlegum skammstöfunum meginskýjaætta- en þær eru tíu. Af þessum tíu eru átta nefndar á myndinni. Þær tvær sem afgangs eru gætu líka verið þar (klakkaský (cb) og netjuský (ac)). Gúggla má erlendu heitin og birtast þá tenglar á ótal myndir.  

Lengst til vinstri er cu (cumulus = bólstrar). Sá bólstri sem lengst er til hægri gæti verið klakkur (cb) - því efri endi hans nær vel upp fyrir frostmarkið.

Síðan bælast bólstrarnir niður í flákaský (sc = stratocumulus). Þau eru að jafnaði mun flatari heldur en bólstraskýin. Hærra á lofti eru klósigar (ci = cirrus). Þeir eru fyrstu merki þess að nú nálgist úrkomusvæði athugunarstað. Klósigar eru erfiður skýjaflokkur - mismunandi merkingar - en hér merkingin nokkuð skýr því skammt á eftir fylgir blika (cs = cirrostratus). Hún er eins og klósigarnir úr ískristöllum - þunn og hvít að sjá. Sól og tungl sjást í gegnum hana og oft fylgja aukasólir og rosabaugar.

Þánæst kemur gráblikan (as = altostratus), gráleit eins og nafnið bendir til. Hún er úr vatnsdropum og sér móta fyrir sól í gegnum hana (engir rosabaugar). Um leið og úrkoma byrjar skiptir gráblikan um nafn og svo lengi sem rignir eða snjóar heitir hún regnþykkni (ns = nimbostratus). Mjög algengt er að undir regnþykkninu séu skýjahrafnar á ferð (st fra = stratus fractus), tætt ský sem berast hratt um himininn í vaxandi vindi.

Hvað er bakvið skilin er misjafnt. Sé um hitaskil að ræða eins og á teikningunni eru þar oft þokuský (st = stratus) eða flákaský (sc). Hátt á lofti má stundum sjá blikuhnoðra (cc = cirrocumulus) af ýmsum gerðum.

En sérhver skil sem nálgast hlíta engum stöðlum - sérstaklega þar sem vindur mótast af fjöllum.

„Bólgin“ hitaskil - í andstöðu við „bæld“. Í sumum hitaskilum eru nefnilega engin háský og jafnvel ekki miðský heldur. Sumir veðurfræðingar fussa við þessari skiptingu - en einhvern veginn hefur reynst erfitt að drepa hana með öllu. Á erlendum málum heita bólgnu skilin anafront, en hin bælda katafront (reynið að gúggla þau og sjá hvað birtist). Íslensku nöfnin eru bráðabirgðaleppar og detta út um leið og betri birtast. Við höfum samt auga með bældum skilum og sýni sig nægilega gott dæmi má eyða nokkrum örðum í þetta fyrirbrigði.


Lægðin hörfar

Nú (seint á mánudagskvöldi) er vindur að snúast til norðurs á landinu því lægðin hörfar til austurs. Hæðarhryggurinn sem fjallað var um í pistlinum í gær leitar á. Við lítum á tvær hitamyndir af svæðinu. Sú fyrri er frá því kl. 1 síðastliðna nótt og sýnir hvernig óstöðugt kalt loft hefur breiðst út yfir Atlantshaf allt frá Kanada í vestri og alla leið til Bretlandseyja.

w-blogg050213a

Útlínur landa eru markaðar með grænum línum. Ísland er ofan við miðja mynd. Þarna er lægðarmiðjan rétt suður eða suðaustur af landinu. Kringum hana hringast skýjabaugur sem er hér farinn að tætast nokkuð. Skemmtilegasta atriði myndarinnar er að hún sýnir vel hvernig lagður flákaskýja myndast í vestanáttinni við strönd Labrador, verður smám saman ljósari og gisnari eftir því sem austar dregur og myndar bólstra og síðan éljaklakka. Mikið uppstreymi er í skýjunum, en niðurstreymi í eyðunum á milli þeirra. Ef grannt er skoðað má sjá hvítan strók rísa upp við Pennínafjöll á Englandi. Þar minna aðstæður oft á Snæfellsnes - þegar gríðarleg vestanátt er á hákambi fjallanna og steypist niður í byggðir austanmegin.

Á mynd frá kl. 22 hefur staðan breyst nokkuð.

w-blogg050213b

Nýtt kerfi úr vestri hefur rutt sér leið inn á svæðið. Aðeins lítill hluti klakkasvæðisins er enn virkur (merktur með B). Élin á heiðum Skotlands og N-Englands hljóta að vera slæm. Lægðin er orðin mun tættari en þó má taka eftir skýjatrossunni sem merkt er C. D bendir á bilið milli kerfanna og A sýnir skarpan jaðar þess.

Næst koma tvö kort - ætluð nördunum - aðrir geta látið þau vera. Þau hafa sést áður á hungurdiskum, en við skulum ekki hafa áhyggjur af merkingunni í smáatriðum - en taka því betur eftir formunum.

w-blogg050213c

Kortin sýna stærra svæði en gervihnattamyndirnar. Bókstafirnir eru settir nokkurn veginn á sömu staði og á myndinni að ofan. Litirnir sýna mættishita í veðrahvörfum í Kelvinstigum (sjá kvarðann til hægri - hann batnar við stækkun). Bláir litir sýna lágan mættishita (lág veðrahvörf) á gulu og brúnu svæðunum eru veðrahvörfin há. Loft er að jafnaði óstöðugt á bláum svæðum, en stöðugt á gulum.

Flest hin merkari atriði myndarinnar sjást á þessu korti. Éljasvæðið (B) er blátt, skýjatrossan (C) við lægðina kemur fram sem grænn litur. Hærri heldur en bláu litirnir í lægðarmiðjunni sjálfri. Hlýja loftið úr nýja kerfinu við A-sem á efri mynd sýndi jaðar skýjakerfisins kemur fram hér sem skörp brún og er að ryðja lægri veðrahvörfum (D) upp.

Við lítum á þessa brún á síðustu myndinni. Hún sýnir vind í 300 hPa-hæð (um 8,5 til 9,5 km) sem venjulegar vindörvar. Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar. Litafletirnir sýna breytingu á vindi næstu þrjár klukkustundir í spásyrpunni.

w-blogg050213d

Hér sést kerfisbrúnin sérlega vel, hún er að ryðjast til austurs, mest er vindhraðaaukningin á fjólubláa svæðinu, meiri en 35 m/s. Loftið streymir ekki aðeins með vindi meðfram jafnhæðarlínunum heldur gengur kerfið allt jafnframt til austurs. Þarna er heimskautaröstin að skransa í krappri beygju og spænir upp veðrahvörfunum á vinstri hönd. Flug reynir að forðast svæði af þessu tagi eins og hægt er. Sé rýnt í smáatriði veðrahvarfakortsins að ofan má sjá lítill brúnan blett rétt innan við meginjaðar beygjunnar. Þar má sjá töluna 355 K - mun hærri heldur en litirnir umhverfis sýna. Hér gæti verið um bylgjubrot að ræða - en líkani og raunveruleika ber alls ekki endilega saman hvað smáatriði sem þetta varðar.


Aðeins tvö

Síðasta stóra bylgja vestanvindakerfisins bar aðeins með sér tvö lægðakerfi til landsins. Það fyrra fór yfir á laugardag og það síðara er í líki krapprar lægðar við Suðurströndina þegar þetta er skrifað (seint á sunnudagskvöld 3. febrúar).

Næsta bylgja rís hátt - eins og þær flestar hafa gert nú um alllanga hríð. Lítum á hana á norðurhvelskorti.

w-blogg040213

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) eins og evrópureiknimiðstöðin sýnir á þriðjudagshádegi (5. febrúar). Ísland sést rétt neðan við miðju kortsins - sem batnar að mun við stækkun. Vindur fylgja jafnhæðarlínum og er því meiri eftir því sem þær eru þéttari. Mikil norðvestanhryðja er þarna að ganga til suðausturs yfir Bretlandseyjar. Lægðakerfið yfir Skandinavíu situr á afgangi sunnudagslægðar okkar.

Litafletir sýna þykktina (í dekametrum) - loftið er því hlýrra eftir því sem hún er meiri. Mörk á milli grænu og bláu flatanna er sett við 528 dam (= 5280 metrar). Meðalþykkt janúarmánaðar yfir miðju Íslandi var 5296 metrar og nægði það til að koma mánuðinum í hóp þeirra hlýjustu.

Kuldapollurinn mikli yfir Kanada (Stóri-Boli) skefur upp hverja bylgjuna á fætur annarri. Þótt hann sé illilegur eru fjólubláu litatónarnir ekki nema þrír að þessu sinni - kuldinn nær ekki niður í það sem ritstjórinn hefur oft nefnt ísaldarþykkt - neðan við 4740 metra.  

Bylgjan sem stefnir til okkar er auðkennd með rauðri punktalínu og fer hér yfir á aðfaranótt miðvikudags. Þá fylgir fyrsta úrkomukerfi nýju lægðarbylgjunnar á eftir - á miðvikudagskvöld eða á fimmtudag.

Vestanáttin á enn erfitt. Austanáttin þráláta hefur þó verið að snúa sér. Hún var af norðaustri í október og nóvember, háaustri í desember og austsuðaustri í janúar. Í háloftunum var meðalvindátt í janúar nærri því úr hásuðri. Þegar vindur snýst úr austri í suður með hæð er aðstreymið hlýtt - enda var janúar mjög hlýr eins og áður sagði.


Fer fyrir sunnan land

Kröpp lægð kemur að landinu síðdegis á sunnudag (3. febrúar). Tölvuspár virðast hafa neglt niður braut hennar rétt fyrir sunnan land. Er það vel. Við sleppum þar með við versta veðrið -vestanfárviðrið sunnan við lægðarmiðjuna. Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um vindhraða og vindátt í 100 metra hæð yfir jörð kl. 18 síðdegis á sunnudag.

w-blogg030213

Litafletirnir sýna vindhraðann en örvar stefnu hans. Jafnhraðalínur áætlaðra vindhviða eru dregnar með hvítu og eiga tölurnar í hvítu kössunum við þær. Talan í gula kassanum sýnir hámarksvindhviðu. Myndin batnar talsvert við stækkun.  

Lægðarmiðjan er merkt með bókstafnum L. Hún er þarna  um 955 hPa djúp á hraðri leið til austurs rétt undan Suðurlandi, en meginvindstrengurinn er nokkru sunnar. Brúni liturinn byrjar við 36 m/s (10-mínútna meðaltal) og í honum miðjum má sá bleikfjólubláan blett þar sem vindhraðinn er 44 m/s eða meir. Það væri ekkert grín að fá streng af þessu tagi upp að strönd.

Guli kassinn litli sýnir að reiknuð hámarkshviða er 51 m/s - en enginn veit hvort líkön reikna slíkar hviður rétt.

En þrátt fyrir að braut lægðarinnar verði sennilega eins og spáin sýnir er talsverð óvissa varðandi úrkomuna sem fylgir um allt landið sunnanvert - og þar með veðrið. Reiknimiðstöðvar greinir á um úrkomutegund og magn. Að sjálfsögðu snjóar á fjöllum - þar gerir blindbyl um tíma en það gæti líka snjóað á láglendi, bæði á Suðvestur- og Suðausturlandi. Leiðindaveður sem rétt er að forðast. Sömuleiðis er enn óvissa um hvort úrkoma verður enn viðloðandi þegar vindur snýst um stund til norðvesturs á Suðvesturlandi eftir að lægðarmiðjan er komin hjá. Síðan snýst vindur til norðurs og snjóar þá væntanlega nyrðra.

En ferðamenn og -liðar ættu að fylgjast með alvöruveðurspám.


Vestanátt í sólarhring - eða tæplega það?

Að morgni laugardags (2. febrúar) fer úrkomusvæði til austurs yfir landið. Aðallægðin er hins vegar vestan Grænlands, harla djúp í dag, föstudag, rétt rúmlega 940 hPa samkvæmt greiningum tölvusetra. Úrkomusvæðinu fylgir hvöss sunnanátt með slyddu og rigningu en á eftir því er suðvestan- og vestanátt sem lítið hefur sést af hérlendis í vetur til þessa. Veðurkortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 18 síðdegis á laugardag.

w-blogg020213

Veðurkortavanir lesendur sjá strax að hér er úrkomusvæðið komið langleiðina austur af landinu og einnig að þrýstilínur eru fáar og gisnar á eftir því. Vestanáttin er sum sé býsna lin. Illileg og dýpkandi lægð austur af Nýfundnalandi þrýstir á dálítinn hæðarhrygg á undan sér. Þegar hann nálgast þéttast þrýstilínur vestanáttarinnar og vind herðir. Við sjáum líka að það er -5 stiga jafnhitalína 850 hPa-flatarins sem er við vesturströnd Íslands á leið austur. Hún er í þumalputtafræðum talin segja til um skil á milli rigningar og snjókomu. Élin eru því alla vega ekki langt vestur undan - kannski komin þegar staða kortsins er uppi. En vestanáttin fær alla vega eina nótt í þetta sinn.  

Nóttin er varla liðin þegar áhrifa lægðarinnar við Nýfundnaland fer að gæta. Hún á að fara alla leiðina sem rauða örin sýnir á einum sólarhring - fram til kl.18 á sunnudag. Allar spár gera ráð fyrir því að hún fari rétt sunnan við land - og því skilar vestanátt hennar sér varla til Íslands - en norðanátt fylgir í kjölfarið.

Lægðin er býsna grimm - fárviðri er spáð af vestri sunnan við lægðarmiðjuna þegar hún fer framhjá Íslandi. Úrkomuhaus hennar fer hins vegar yfir landið og á þessu stigi málsins er harla óljóst hvort um snjókomu eða rigningu verður að ræða á láglendi, þá í austlægri átt. Til fjalla snjóar örugglega. Ferðalangar fylgist með spám um veðrið síðdegis á sunnudag og áfram.  

Lægðum af þessu tagi fylgir stundum úrkomubakki sem gengur til vestnorðvesturs eða norðvesturs frá lægðarmiðjunni - oftast dreginn sem samskil (æ) á kort. Sunnan svona bakka er vestanáttin oft furðustríð og hríðargjörn. Fyrsta vonin nú er að hann myndist ekki - en til vara - ef hann myndast, að hann haldi sig alfarið fyrir sunnan land.

Svarta örin á myndinni bendir á umfjöllunarefni gærdagsins (fjallastíflur). Þar má sjá afarþéttar þrýstilínur við Alpafjöll sem stífla að mestu rás kaldara lofts að norðan suður til Ítalíu. Þessi staða er svo algeng að maður tekur ekki nema stundum eftir henni.


Fjallgarðar eru fyrirstaða - líka í dag

Fjallgarðar hafa mikil áhrif á veðurfar bæði staðbundið og á heimsvísu. Mest áhrif hafa þeir sem liggja frá norðri til suðurs þvert á vestanvindabeltið. Loft í neðri lögum lofthjúpsins fer trauðla eða alls ekki framhjá hindruninni og það sem ofar liggur truflast verulega í framrás sinni - því meira eftir því sem lóðréttur stöðugleiki loftsins er meiri.

Hér á landi hefur Grænland mest áhrif allra fjallgarða eins og iðulega hefur verið fjallað um á hungurdiskum. Áhrif fjarlægari fjalla eru einnig mikil sérstaklega hefur garðurinn mikli sem liggur um Norður-Ameríku vestanverða og við köllum oftast Klettafjöll mikil áhrif hér á landi. Þau stífla framrás sjávarlofts frá Kyrrahafi til austurs um álfuna auk þess að styrkja að mun mikið háloftalægðardrag sem liggur meirihluta ársins til suðurs um meginlandið austanvert. Háloftavestanáttin sem verður til við hitamun heimskautasvæða og jaðars hitabeltisins aflagast þannig að mun við að fara yfir fjallgarðinn.

Lægðardrag þetta veldur því að sunnanátt yfir Atlantshafi er mun meiri en ella væri. Bæði Evrópa og Ísland njóta góðs af.

Í dag (fimmtudaginn 31. janúar) sáust stífluáhrif Klettafjallanna í neðri lögum mjög vel á korti frá evrópureiknimiðstöðinni.

w-blogg010213a

Kortinu hefur verið snúið miðað við það sem venjulegt er hér á hungurdiskum. Norður-Ameríka er á miðri mynd. Örvar benda á Suður-Grænland og Flórídaskaga til auðkennis en ef vel er að gáð má sjá útlínur meginlands N-Ameríku og nágrennis á myndinni. Hún batnar ekki mjög við stækkun.

Jafnþrýstilínur (við sjávarmál) eru heildregnar - 20. hver lína er þykkdregin. Litakvarðinn sýnir hita í 850 hpa. Fjólublái liturinn sýnir þau svæði þar sem frostið er meira en -25 stig. Dekksti brúni liturinn við vesturströnd Mexíkó sýnir svæði þar sem hiti í 850 hPa er meiri en +20 stig - ekki mikill vetur þar þessa dagana.

Vel sést hvernig Klettafjöllin skilja að hlýtt Kyrrahafsloftið og ískalt meginlandsloft undir kuldapollinum Stóra-Bola. Stíflan sést alveg sunnan frá Mexíkó og norður til Alaska. Kalda loftið er á suðurleið, jafnþrýstilínur (sem sýna vindátt og vindstefnu) liggja nokkuð þvert á jafnhitalínurnar. Mikil lægð er yfir Nýfundnalandi, stefnir til norðurs vestan Grænlands og sendir okkur afurðir strax á föstudagskvöld (1. febrúar). Þessi lægð bjó til grimma skýstrokka í Georgíufylki og víðar á leið sinni. - Enn ein sprengilægðin - og þær verða fleiri.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.1.): 265
  • Sl. sólarhring: 273
  • Sl. viku: 2982
  • Frá upphafi: 2427312

Annað

  • Innlit í dag: 241
  • Innlit sl. viku: 2678
  • Gestir í dag: 221
  • IP-tölur í dag: 218

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband