Hlýir dagar framundan (rétt einu sinni)

Spár virðast sammála um að hlýindin nái undirtökunum aftur og endist jafnvel í nokkra daga. Veðurkortið hér að neðan sýnir byrjunarstöðuna ágætlega, en það er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir um hádegi á laugardag (16. febrúar 2013).

w-blogg160213

Jafnþrýstilínur eru svartar og heildregnar, litafletir sýna úrkomu síðustu 6 klukkustunda. Kvarðinn batnar sé myndin stækkuð. Strikaðar línur sýna hita í 850 hPa-fletinum. Það er mínus 5 stiga línan sem liggur við suðurströnd Íslands á myndinni. Í þumalfingursfræðum er hún tekin sem ábending um það hvar skiptir úr snjókomu yfir í rigningu.

Nú liggur þunnt lag af köldu lofti yfir landinu og tíma getur tekið að ýfa það upp og flæma brott þegar vindur vex. Fyrsta úrkoman að sunnan getur því alveg eins verið snjór - vonandi ekki frostrigning. En síðan hlýnar.

Við sjáum að kerfið er tvöfalt. Á undan fer veikt (ljósgrænt) úrkomusvæði sem er að leysast upp. Aðalkerfið er sunnar og kemur að landinu á sunnudag. Þá hlýnar verulega - fyrst um landið sunnanvert. Það verða vonbrigði ef hitinn fer ekki einhvers staðar upp í tveggja stafa tölu þegar suðaustanáttin hlýja nær sér á strik. Dægurmet í Reykjavík um miðjan febrúar eru rétt um eða við tíu stigin.

Þegar úrkomusvæði nálgast ofan í léttskýjað veður er vel þess virði að fylgjast með skýjafari og reyna að rýna í far skýjanna - hreyfistefnu þeirra. Bakki gengur upp úr suðri, en ef vel er að gáð sést að hreyfingin í blikunni er úr vestri eða í þessu tilviki sennilega suðvestri. Við jörð er vindur hins vegar úr austri - jafnvel norðaustri í byrjun en snýst síðan í suðaustur. Þegar hlýtt loft nálgast landið er snúningur með hæð einmitt svona, austur-suðaustur-suður-suðvestur, sólarsinnis með hæð.

Þótt hlýja aðstreymið hafi nær örugglega vinninginn í þetta sinn er það ekkert sjálfgefið þegar bliku slær upp. Stundum blæs á móti henni - hún stöðvast, hann gengur síðan öfugur upp í og endar í margra daga norðaustanþræsingi. Algengt er það á útmánuðum. Kannski að dæmi um það birtist síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.5.): 23
 • Sl. sólarhring: 80
 • Sl. viku: 1491
 • Frá upphafi: 2356096

Annað

 • Innlit í dag: 23
 • Innlit sl. viku: 1396
 • Gestir í dag: 23
 • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband