Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013
28.2.2013 | 00:56
Barmafulla lægðardragið
Í pistli gærdagsins var minnst á lægðardrag sem kemur við sögu hér á landi um helgina. Hver saga þess þá verður er ekki vitað - en við skulum samt velta okkur aðeins upp úr hugsanlegum möguleikum.
En fyrst þarf að afgreiða næstu lægð - en hún myndast á Grænlandshafi síðdegis á morgun eða annað kvöld (fimmtudag). Kortið gildir kl. 21 en þá er lægðin rétt að verða til (ef trúa má reikningum). Hér hefur dönsk útgáfa samevrópska reiknilíkansins hirlam orðið fyrir valinu.
Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur), úrkomu (litafletir) og hita í 850 hPa-fletinum (strikalínur). Hæðin við Bretlandseyjar sem hefur beint til okkar hlýindunum undanfarna daga er enn á sínum stað og við sömu iðju. Í vesturjaðri hennar liggur mjög hlýr loftstraumur sunnan úr höfum og sveigir hann til Íslands þegar kortið gildir.
Við Norðaustur-Grænland liggur kalda loftið í leyni og einnig er kalt loft vestan Grænlands að þokast til austurs. Lægðin nýmyndaða er þarna að snarast út úr hitaskilum - en flestar lægðarbylgjur tengjast kuldaskilum. Þessi myndunarmáti er sérlega varasamur fyrir það að svona lægðir geta gert nánast hvað sem er - en oftast gera þær ekki neitt.
Þegar sagt er að þær geti gert nánast hvað sem er er raunverulega átt við það. Þær geta dýpkað ógurlega, skotist fram á ofsahraða - eða hreyfst afturábak - til suðvesturs - þegar úrkomusvæði og skil virðast eiga að skila þeim í venjulega norðausturátt. Eða þá allt þar á milli.
En tölvuspárnar hafa náð mun betri tökum á þessum lægðum heldur en mögulegt var að ná á árum áður - því er hægt að taka þeim með ró.
Lægðin sem er að myndast á kortinu að ofan fer eðlilega leið - hratt til norðausturs, síðan austur og austsuðaustur. Hún dýpkar ekki að ráði fyrr en hún er komin framhjá Íslandi og veldur ekki vanda hér. Á sólarhring er dýpkunin 26 hPa - telst því sprengilægð að amerískum hætti. Ofsaveður verður vestan lægðarmiðjuna klukkan 21 á föstudagskvöld þegar kortið að neðan gildir - en langt frá Íslandi.
Á þessu korti á sérstaklega að taka eftir hæðunum tveimur. Önnur þeirra er hæðin við Bretlandseyjar, 1035 hPa í hæðarmiðju. Þetta er hlý hæð og loft streymir í stórum dráttum í kringum hana sammiðja upp í gegnum allt veðrahvolfið.
Hin hæðin er við Norður-Labrador, 1048 hPa í miðju. Hún er köld sem kallað er. Bláa örin vestan Grænlands sýnir vindstefnu í efri hluta veðrahvolfs. Þar er suðvestanátt - í öfuga stefnu við norðaustanáttina sem hæðin við sjávarmál stýrir. Ofan hæðarinnar er háloftalægð - eða öllu heldur lægðardrag suður úr kuldapollinum Stóra-Bola. Þetta lægðardrag er meir en barmafullt af köldu lofti og flæðir yfir barmana. Háloftalægðardrag sem er nákvæmlega fullt af köldu lofti sýnir sig sem marflatt þrýstisvið við sjávarmál, sé það ekki fullt birtist þar lægð.
En hér er hæð undir lægðardraginu, það er fullt af köldu lofti - nokkuð einfaldað má segja að það flæði úr því til allra átta - þar er hæð.
Gríðarlegur hitamunur er á milli hæðanna tveggja. Hann kemur vel fram á kortinu að neðan en þar má sjá ástandið í 500 hPa á sama tíma og á kortinu að ofan (klukkan 21 á föstudagskvöld 1. mars).
Hér sést gríðarlegur vindstrengur yfir Grænlandi og hneppi af jafnþykktarlínum (rauðar, strikaðar) á sama stað. Þykktin í miðju Stóra-Bola er um 4780 metrar - rétt ofan ísaldarþykktar. Yfir Íslandi suðaustanverðu má sjá 5400 metra jafnþykktarlínuna (aðeins 60 metra neðan við hefðbundna sumarþykkt hér á landi). Munurinn er 620 metrar - gróflega um 30°C. Lægðardragið suður af miðju kuldapollsins hreyfist til austurs og verpir eggi - lægðardragið teygir sig til suðurs og þar myndast ný háloftalægð.
Nú er því spáð að önnur lægð myndist á Grænlandshafi á laugardag - á svipaðan hátt og sú fyrri, með góðum vilja má setja hitaskil í úrkomusvæðið mjóa syðst á Grænlandshafi. Um þessa lægð er ekki enn samkomulag nema hvað að hún á að myndast á laugardag. Evrópureiknimiðstöðin er nú á því að hún dýpki nokkurn veginn þar sem hún myndast vestur af Íslandi. Ofsaveður verði á Grænlandssundi síðdegis á sunnudag og stormur nái inn á Vestfirði þá um kvöldið eða á mánudag. Síðan á lægðin að bakka til suðvesturs, föst í bandi háloftalægðarinnar. Þegar hún fjarlægist jafnar staðan sig og hugsanlega kemur hlýja loftið aftur.
Ameríska spáin nú í kvöld (miðvikudag) býr líka til lægð á sama stað en hún á að þokast til suðausturs. Það þýðir að vindstrengurinn nær yfir allt Ísland á mánudag en jafnast heldur, en meira af köldu lofti kemur að norðan og er þessi kvöldgerð amerísku spárinnar heldur ólíkleg - því hún gerir ráð fyrir norðanhvassviðri, éljagangi og 8 til 9 stiga frosti í Reykjavík á mánudagskvöld - heldur ólíklegt nema hvað?
27.2.2013 | 00:58
Verður það víst að heita
Útsynningur verður það víst að heita veðurlagið á miðvikudegi (26. febrúar). Ætli hann komist ekki næst raunveruleikanum uppúr hádeginu t.d. þegar kortið hér að neðan gildir.
Það sýnir hæð, hita og vind í 925 hPa-fletinum klukkan 15 síðdegis á miðvikudag. Þá er hæð flatarins yfir Reykjavík rúmir 700 metrar.
Svörtu heildregnu línurnar sýna hæð flatarins í dekametrum (1 dam = 1ö metrar). Litafletir sýna hita - kvarðinn sést mun betur sé kortið stækkað. Vindátt og vindhraði eru sýnd með hefðbundnum vindörvum. Örin við lægðarmiðjuna sýnir hreyfistefnu hennar. Bláa örin sýnir stað þar sem kalt loft sækir fram en það stendur ekki lengi - hlýrra loft sækir strax fram aftur í kjölfarið. Vindurinn í 700 metra hæð yfir Vesturlandi er nokkuð stríður, 20 til 25 m/s og dökkgræni liturinn sýnir að hiti er lægri en -2 stig. Það þýðir að frostlaust er við sjávarmál þar sem vindur stendur af hafi.
Næsta kort gildir á sama tíma. Hér má sjá sjávarmálsþrýstinginn, auk vinds og úrkomu.
Litirnir greina frá úrkomumagni. Það er ekki mikið, 1 til 3 mm á 3 klukkustundum þar sem mest er. Sé kortið stækkar má sjá tákn inni í úrkomusvæðunum. Þríhyrningur táknar skúrir eða él en x táknar snjókomu. Þeir sem stækka kortið sjá að engir krossar (engin snjókoma) er yfir sjónum en hins vegar yfir landi. Ætli það gráni ekki í rót í éljunum og ekki er þá langt í hálkuna.
En á efra kortinu má sjá helfjólubláan lit voma við Norðaustur-Grænland. Á eftir lægðinni gerir mjög skammvinna norðanátt með éljum fyrir norðan og vægu frosti - en það stendur mjög stutt.
Þegar þetta er skrifað (um miðnætti á þriðjudagskvöldi) er meðalhitinn í febrúar í Reykjavík kominn upp í 3,8 stig og hefur aðeins tvisvar svo vitað sé orðið hærri, 1965 og 1932. Báðir þessir mánuðir hittu vel í hitann eins og segja má. Allsnarpt kuldakast gerði í fyrstu viku mars 1932 - en annars var sá mánuður líka hlýr - og mars 1965 varð kaldur - markar reyndar formlegt upphaf hafísáranna illræmdu.
Fyrir utan hlýindin ætlar febrúar líka að skila óvenju mikilli úrkomu - febrúarmet verða slegin á fáeinum stöðvum. Samfara hlýindunum 1932 og 1965 var loftþrýstingur sérlega hár - en svo er ekki nú. Hann verður aðeins lítillega yfir meðallagi.
En hvert verður svo framhaldið? Til að fjalla um það er nauðsynlegt að líta á norðurhvelskort sem gildir á fimmtudaginn, 28. febrúar.
Það sýnir að vanda hæð 500 hPa flatarins og 500/1000 hPa þykktina. Hæðin með heildregnum línum, en þykktin með litaflötum. Mörkin á milli grænu og bláu litanna eru sett við 5280 metra, það er 40 til 50 metrum hærra en meðalþykkt á Íslandi í febrúar.
Við sjáum að gríðarleg hæð er vestur af Skotlandi og beinir til okkar hlýindum. Þetta er þó ólíkt stöðunni að undanförnu. Áttin er hér suðvestlæg - en hefur aðallega verið suð- og suðaustlæg. Jafnhæðarlínur eru mjög þéttar skammt fyrir norðan land - háloftavindur er þar sterkur. Auk þess er þykktarbratti mikill - stutt er í mjög kalt loft.
Nú eru spár ekki sammála um framhaldið. Ágreiningurinn stendur um lægðardrag sem merkt er með bókstafnum x á kortinu. Það er varla til í dag - þriðjudag - og rétt sést þarna á fimmtudagskortinu. Svo erfitt er að spá um frekari þróun þess að reikningar með miljarðatölvum í tveimur heimsálfum og tugir þúsunda veðurathugana duga ekki til að ná samkomulagi um ástandið eftir fimm daga.
Evrópureiknimiðstöðin gefur út nýjar spár tvisvar á sólarhring, en bandaríska veðurstofan fjórum sinnum. Aðrar - ívið afkastaminni miðstöðvar - gefa yfirleitt út spár tvisvar á sólarhring svo marga daga fram á við. Breyting verður á stöðu lægðardragsins á sunnudag í nærri því hvert einasta skipti sem ný spá er gefin út.
Framhald evrópureiknimiðstöðvarinnar er þegar þetta er skrifað þannig að lægðardragið komist inn á Grænlandshaf en hörfi síðan til suðvesturs (frekar óvænt). Ef þetta er rétt tekst að halda kuldanum í skefjum í marga daga í viðbót - en með fyrirhöfn. Bandaríska spáin lætur lægðardragið hins vegar stöðvast rétt fyrir vestan land - í mjög vondri stöðu - hríðarbyl og kulda. Sú kanadíska er núna heldur á bandi evrópureiknimiðstöðvarinnar og sú breska fer bil beggja (hvað annað).
Þótt við heyrum ekki mikinn vopnagný eiga mikil átök sér stað milli kalda og hlýja loftsins nærri Íslandi þessa dagana.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2013 | 00:30
Hlýindatoppnum er að ljúka - kuldinn samt í biðstöðu?
Óvenjuleg hlýindi gengu yfir landið í dag (mánudag) og standa þau fram eftir þriðjudegi um landið austanvert og því ekki útséð með áframhaldandi met. Því met féllu, m.a. hefur hiti aldrei áður orðið jafnhár í febrúar í Reykjavík. Kemur það met ofan í janúarmetið á sama stað. Merk tíðindi.
Nýtt dægurmet fyrir landið var einnig sett í dag (15,3°C á Seyðisfirði) - en talsvert vantaði upp á að landsmet febrúarmánaðar (18,1 stig) væri slegið. Það er líka óvenjulegt að hvergi var frost á veðurstöð á landinu í dag - ekki einu sinni á Gagnheiði eða Brúarjökli.
Á aðfaranótt miðvikudags er gert ráð fyrir kólnandi veðri. Þá gæti sést í föl í éljum. En það er eins og kuldinn sé ekki alveg tilbúinn. Ástæðan sést ef til vill á kortinu.
Kortið á við 500 hPa-flötinn, jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar, en þykktin sýnd með rauðum strikalínum, báðar línugerðir merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Þykktin núna um miðnættið (mánudagskvöld) er um 5460 metrar yfir miðju landi, en er á miðvikudag (ef trúa má spánni) komin niður í 5270 metra, það hefur kólnað um nærri tíu stig.
Þykktar- og hæðarlínur liggja mikið til samsíða á svæðinu 60° til 70°N - ekki alveg - en nærri því. Meðan svo er breytist þykktin og þar með hiti ekki mikið. Suður af Grænlandi er hins vegar mikið af mjög hlýju lofti í framrás til norðurs (rauðu örvarnar). Þegar hlýja loftið kemur norður á 60°N sveigir mest af því til austnorðausturs (þá samsíða jafnhæðarlínum) en aðstreymið er svo mikið að við Ísland hlýnar. Á föstudag (1. mars) á þykktin að vera 5370 metrar yfir miðju landi (yfir 5400 suðaustanlands). Það hlýnar því aftur - til hálfs.
Það er ekki fyrr en á sunnudag sem útlit er fyrir að kalda loftið nái raunverulegum undirtökum. Um það eru reiknimiðstöðvar reyndar sammála í dag, en það eru sex dagar fram að því og margar spár hafa brugðist á styttri tíma.
En við sjáum líka á kortinu að bæði jafnþykktar- og jafnhæðarlínur eru mjög þéttar og mega ekki mikið hnikast til. Þeir sem hafa fylgst reglulega með pistlum hungurdiska vita að háloftastrengurinn nær sér ekki niður svo lengi sem jafnþykktar- og jafnhæðarlínur standast nákvæmlega á, þegar bratti sviðanna er sá sami - alveg sama hversu mikill hann er. Þegar það jafnvægi riðlast í bröttu sviði er illt í efni.
Reynslureglur um samband hita og þykktar ofmeta oftast hitann þegar þykktarbrattinn er mikill. Kalda loftið í neðstu lögum nær þá gjarnan sunnar heldur en þykktin ofan við segir til um. Líklegt er að slíkt eigi við um næstu daga - norðurströndin getur lent inni í frostinu.
25.2.2013 | 00:47
Hversu hátt fer hitinn í þessari syrpu?
Veðurnörd fylgjast vel með hitatölum á landinu næstu tvo daga því hlýindin sem ríkt hafa að undanförnu eiga að toppa bæði á mánudag og á aðfaranótt þriðjudags. Þykktin nær þá yfir 5480 metrum yfir Austurlandi og mættishiti í 850 hPa fer yfir 20 stig - ekki langt frá febrúarmeti í báðum tilvikum.
Landsdægurmet þess 25. er 15,0 stig - vafamál hvort mánudagurinn nær því að þessu sinni. Sá 26. (þriðjudagur í ár) á hæst 13,0 stig á Seyðisfirði 1974 og liggur því heldur betur við höggi. Reykjavík á hæst 9,6 (1938) og 9,9 stig (1932) þessa daga. Á Akureyri er á sá 25. 11,6 stig (1984) og sá 26. 10,6 stig (1983).
Kuldaskil eiga að fara yfir landið síðdegis á þriðjudag og er þá mestu hlýindunum lokið í bili. En evrópureiknimiðstöðin er þó í dag (sunnudag) búin að gefa hlýindunum vinninginn umfram kuldann á fimmtudag, föstudag, laugardag og fram á sunnudagskvöld. Fyrir nokkrum dögum átti kuldaboli að eiga alla þessa daga. En mjög litlu munar, landið verður nærri brún þykktarbrekkunnar miklu á milli 5400 og 4900 metra - 500 metrar = 25°C.
Ástandið eftir miðvikudaginn er ámóta óráðið og var í gær (laugardag).
24.2.2013 | 01:23
Átakavika framundan?
Hlýindin virðast ætla að toppa á mánudaginn. Þykktinni er þá spáð nærri meti (ekki alveg þó) og mættishiti í 850 hPa yfir landinu austanverðu fer í rúm 20 stig. Undanfarna daga hafa reiknimiðstöðvar spáð miklu kuldakasti í kjölfarið - en eru í dag (laugardag) aðeins að linast á hörku þess. En víst er að barátta fer fram um Hólmann. Þegar þetta er skrifað eru þó ekki miklar líkur á mjög vondu veðri - við vonum að svo fari.
En lítum á gervihnattamynd sem tekin er kl. 23:15 á laugardagskvöldi og fengin er frá kanadísku veðurstofunni.
Ísland er rétt við efri brún myndarinnar en hún nær allt suður að 20. breiddarstigi. Kanaríeyjar eru lengst til hægri. Lægðin á miðri mynd ræður veðri fram eftir vikunni. Skýjakerfi hennar teygir sig langt til suðurs. Þar að auki er miðjan líka teygð frá norðri til suðurs. Af öllu má giska á að lægðarmiðjan sitji eftir en ný lægð slitni norður úr henni. Reiknimiðstöðvar segja að slit muni eiga sér stað á sunnudagskvöld. En það merkilega er að meginlægðarmiðjan sjálf á að fylgja eftir á miðvikudag.
Síðan er algjör óvissa, spennandi að fylgjast með því.
Á myndinni sést líka lítil lægð rétt á undan skýjakerfi stóru lægðarinnar. Sú mun valda allhvassri sunnanátt með rigningu framan af sunnudegi. Slitalægðin fylgir síðan í kjölfarið og sést hún vel rétt vestur af landinu á spákortinu hér að neðan - það gildir kl. 6 á mánudagsmorgni.
Jafnþrýstilínur eru heildregnar, litafletir sýna úrkomumagn og strikalínur hita í 850 hPa. Gríðarleg úrkoma (vonandi skammvinn) fylgir sunnanáttinni sem liggur langt sunnan úr höfum. Lægðir eins og þessi eru nokkuð algengar. Fyrir sjálfan sig (engan annan) kallar ritstjórinn þetta troðningslægðir. Ofsaveður er í norðaustanáttinni meðfram Grænlandi, norðan við lægðarmiðjuna en troðningur er líka sunnan við. Þar er gríðarmikill suðvestanstrengur í háloftunum og hefur stundum þann ósið að slá sér niður í miklum fjallabylgjum yfir Norðurlandi og jafnvel norðanverðum Austfjörðum. Hvort það gerist nú skal ósagt látið.
Meginlægðin fylgir síðan í kjölfarið og enginn hætta er á kulda fyrr en hún er komin hjá en það á ekki að gerast fyrr en á miðvikudag.
23.2.2013 | 01:39
Kalt og hvasst á Grænlandi
Fyrirsögnin lýsir ekki neinum nýjum fréttum - oft gustar um Grænland og miklu verra og meira heldur en í dag. Að þessu sinni sækir kalt loft að jöklinum mikla úr tveimur áttum, vestri og austri. Sá er reyndar munurinn að aðsóknin úr austri er mjög grunn - rétt slefar í 1000 metra, en sú úr vestri er dýpri. Lítum á sjávarmálsþrýstinginn á korti evrópureiknimiðstöðvarinnar kl. 18 í dag (föstudag).
Ísland er hægra megin á myndinni. Jafnþrýstilínur eru svartar og heildregnar, úrkoma er sýnd með litaflötum. Hún er mest í bláa litnum hann byrjar þar sem úrkoma er 10 mm eða meiri á 6 klukkustundum. Strikalínur sýna hita í 850 hPa. Rauðu baugarnir sýna vindstrengina tvo. Þeir eru báðir afleiðing af þrengslum sem hálendið veldur.
Eystri stíflan er mjög greinileg, við sjáum töluna -20 rétt utan við rauða bauginn en talan -5 er ekki langt undan. Jafnhitalínur eru sérlega þéttar. Kalda loftið húkir rétt upp við ströndina og eitthvað af því tekst að brjótast til suðvesturs fyrir hornið við Brewsterhöfða. Síðastliðna nótt (aðfaranótt föstudags) var vindur við Scoresbysung rúmlega 20 m/s og frostið -20 stig - ekki efnilegt það. Scoresbysund heitir sem kunnugt er Ittoqqortormiit á grænlensku (Eyjafjallajökull hvað?).
Í stíflunni við Ittoqqortormiit blæs vindur af norðaustri. Svigkraftur jarðar leitast við að taka þann vind til hægri þannig að hann verði samsíða jafnþrýstilínunum - en getur það ekki. Vindur blæs ekki í gegnum fjöll. Hann blæs frekar þvert á þrýstilínur - og það gerir hann. Við hornið og meðfram ströndinni er því örmjór og í þessu tilviki grunnur strengur.
Stíflan vestan Grænlands er öðru vísi og sést ekki eins vel. Kalda loftið leggst til þess að gera rólega upp að ströndinni norðan við Diskóflóa - þar eru ekki margar jafnþrýstilínur. En eitthvað lætur samt undan og loftið fer að leka suður með. Á Austur-Grænlandi leitaðist svigkrafturinn við að keyra vindinn upp á móti fjallgarðinum en hér reynir hann að snúa honum burt frá ströndinni. Þar er hins vegar ekki "nægt loft". Það má reyndar ekki orða þetta svona - en samt verður til niðurstreymi þegar vindurinn dregur loft út til hliðar úr neðsta laginu. Tæknilega heitir þetta ástand úrstreymi(divergence á alþjóðatungum).
Niðurstreymi sést best á rakakortum og ástandið við Vestur-Grænland sést mjög vel á kortinu hér að neðan. Lituðu fletirnir sýna rakastig í 850 hPa-fletinum, á gráu svæðunum er það meira en 70% en á þeim gulbrúnu er það minna en 15%.
Kortið nær yfir um það bil sama svæði og efra kortið. Hér sést að vindur við Vestur-Grænland er um 25m/s í 850 hPa og á brúna litnum sjáum við að rakastig er minna en 5% á allstóru svæði. Það er einfaldlega þannig að rakastig fer aldrei niður í 5% í 850 hPa nema í miklu niðurstreymi.
Það var ansi kalt í Nuuk í dag, Lengst af var vindurinn á bilinu 15-21 m/s og vindhviður upp í 27 til 29 m/s í fjórtán stiga frosti.
Kalt og hvasst á Grænlandi í dag.
22.2.2013 | 00:59
Þorraþrællinn
Þorri er fjórði mánuður vetrar í íslenska tímatalinu gamla. Síðasti dagur hans er nefndur þorraþræll og ber ætíð upp á laugardag. Daginn eftir hefst góa með konudegi. Á þorraþræl er liðinn fyrsti þriðjungur útmánaða en það er samheiti síðvetrarmánaðanna þriggja, þorra, góu og einmánaðar.
Margir kannast eingöngu við þorraþrælinn vegna nafns kvæðisins sem hefst á orðunum Nú er frost á Fróni - frýs í æðum blóð, Þorraþrællinn 1866. Um veðrið þann ákveðna dag má lesa í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar.
Þorraþrællinn [þrítugasti í þorra] hreyfist til frá ári til árs í okkar venjubundna dagatali. Nú, árið 2013, ber hann upp á 23. febrúar. Hann getur síðast borið upp á þann 24 en fyrst þann 17. - eins og 1866.
En lítum til gamans á hita að morgni 30. dags þorra í Stykkishólmi frá 1846 til 2012.
Lóðrétti ásinn sýnir morgunhitann, en árin eru á lárétta ásnum frá vinstri til hægri. Það vekur athygli að ekkert sést af alkunnum hlýinda- og kuldaskeiðum, - en leitnin reiknast samt um 1,0°C á öld - svipað eða litlu minna en fyrir veturinn í heild - en meira en árshitaleitnin. Kaldastur hefur þorraþrællinn á þessu tímabili orðið 1865 - árið áður en Kristján orti sitt fræga kvæði, kannski hefur hann átt það á lager handa ritstjóra Þjóðólfs.
Næstkaldastur varð þorraþrællinn langt inni á hlýskeiðinu, 21. febrúar 1931. Einstakir dagar segja lítt frá hlýskeiðum. Þeir segja líka lítt af kuldaskeiðum. Hlýjasti þorraþrællinn var 1980 og árið áður - hið illræmda kuldaár 1979 - var hitinn með hæsta móti þennan dag.
En það er nú samt þannig að mjög köldum þorraþrælsdögum hefur fækkað frá því sem var - á þeirri staðreynd byggist reiknaða leitnin.
21.2.2013 | 00:13
Tíðindalítið
Gervihnattamyndir undanfarna daga hafa verið mjög flóknar að sjá, en síðdegis í dag (miðvikudag) var eins og allt skýrðist og helstu kerfi urðu sýnilegri.
Breitt skýjabelti er á myndinni yfir Íslandi. Þetta eru býsna skörp skil og ekki er langt í kalda loftið norðurundan. Reiknimiðstöðvar gefa því samt engan möguleika á að komast hingað næstu daga - frekar að það hörfi aftur til norðurs undan hlýindunum úr suðri.
Við sjáum kalda loftið yfir Evrópu - heppilegt er að þar eru engin úrkomusvæði að ráði. Útlit skýjakerfanna suður í hafi er ólíkt því sem annars er á kortinu. Þar er loft mjög óstöðugt - á uppruna sinn úr vestri og leitar nú til austurs yfir hlýjan sjó. Óstöðugu skýin (klakkar) eru miklu minni um sig heldur en stöðugar breiður sem einkenna myndina að öðru leyti. Ansi snörp heimskautalægð er að rífa sig áfram vestur af Spáni. Enn vantar heppilegt íslenskt orð yfir fyrirbrigðið - að kenna það við heimskaut er óheppilegt - en það verður að duga þar til rétta orðið finnst. (Útrásarlægð??)
Í dag komst hámarkshiti í 9,2 stig í Reykjavík og dugar það í 23. til 27. sæti febrúarhámarka þar á bæ. Ef hámarkið færi 0,4 stigum ofar - í 9,6 stig myndi það duga í 8. til 10. sæti. - Svona er hart barist.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2013 | 01:23
Enn eitt kuldakastið í V-Evrópu
Við sitjum hér við áframhaldandi sýndarvor, en kuldi leitar vestur um Evrópu rétt einu sinni. Kuldakastið er reyndar ekki af verstu gerð - en samt slæmt sérstaklega vestarlega í álfunni, í Frakklandi og jafnvel N-Spáni og einnig á sunnanverðu Englandi síðar í vikunni. Ástæðan er eins og oftast sú að kuldapollur kemur úr norðaustri og fer vestur um álfuna. Lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á fimmtudag (21. febrúar).
Að vanda sýnir kortið jafnhæðarlínur heildregnar (í dekametrum), en þykktin er sýnd með litaflötum. Mörkin á milli bláu og grænu tónana er við 5280 metra. Við sitjum í græna litnum í vesturjaðri mikillar fyrirstöðuhæðar sem á þessu korti hefur miðju við Hjaltland - verndar þar með Skota líka frá kuldanum. Það er eftirtektarvert hversu hlýjar háloftalægðirnar eru suðvestur í hafi - enginn blár litur nærri miðjum þeirra.
Kalda loftið yfir Evrópu skýst eins og fleygur úr austri. Í dag (þriðjudag) náði það frá Danmörku suður um Þýskaland vestanvert - en á fimmtudaginn verður það komið vestar. Miðja kuldapollsins fer allt til Suður-Frakklands, leggst um helgina meira að segja suður á vestanvert Miðjarðarhaf en á síðan að fara til norðvesturs. Loftið hlýnar smám saman.
Á kortinu sjáum við líka fjólubláa kló Stóra-Bola teygja sig suður með Vestur-Grænlandi. Eitthvað var grænlenska útvarpið að tala um hugsanlegt kuldakast þar um slóðir - en á þessu korti ná hlýindi til Eystribyggðar rétt eins og til Íslands. Hiti fór í 6 stig í Nassarsuaq í dag og í Nuuk var ekki nema 2 stiga frost.
Spár virðast gera ráð fyrir svipaðri stöðu að minnsta kosti í viku enn - það kemur víst í ljós.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2013 | 01:41
Árin sautján
Á dögunum var rifjað upp m.a. í ágætri grein í Morgunblaðinu að þann 17. febrúar voru liðin 70 ár frá því að strandferðaskipið Þormóður fórst vestur af Garðskaga með áhöfn og farþegum, þrjátíu og einum alls.
Mikil illviðrasyrpa gekk yfir í febrúar 1943 og veðurfar var leiðinlegt eða jafnvel illt langt fram eftir vori. Kuldakastið framan af maímánuði er eftirminnilegt og sömuleiðis hörmulegur ágústmánuður á Norðurlandi - einn hinn versti sem vitað er um á þeim slóðum. Ekki hefur kaldari ágúst komið síðar á Akureyri. Hafís var við Hornstrandir allan júlímánuð og síðari hluta mánaðarins skreið hann inn eftir Húnaflóa og varð sums staðar landfastur.
Þegar upp var staðið varð árið það kaldasta síðan 1924 í Stykkishólmi og það fyrsta í 18 ár sem var undir meðallaginu 1961 til 1990 (um það meðaltal vissi auðvitað enginn). Menn héldu að nú væri hlýindunum miklu sem staðið höfðu frá því 1926 endanlega lokið. Hafís og illviðri undirstrikuðu það.
Nú (snemma árs 2013) hagar þannig til að síðustu 17 árin (1996 til 2012) hefur ársmeðalhiti í Stykkishólmi verið samfellt fyrir ofan þetta sama meðallag. Berum þessi tvö tímabil saman á mynd.
Lóðrétti kvarðinn sýnir ársmeðalhita en sá lárétti sýnir árin frá 1926 til 1943. Blái ferillinn sýnir vel að árið 1943 er það kaldasta á tímabilinu. Bláa lárétta línan sýnir meðalhita þessara 17 ára, 4,3 stig.
Rauði ferillinn sýnir árin 1996 til 2012 (nákvæmlega 70 árum síðar). Meðalhitinn á því tímabili var 4,5 stig. Það er ólíkt með tímabilunum tveimur að 1926 til 1942 skiptast á hlý og kaldari ár - en á síðara tímabilinu eru öll köldustu árin fyrst, þar er mikil leitni - en hún er lítil í bláa ferlinum.
Nú er spurningin hvað gerist árið 2013. Það byrjar mjög hlýlega. En þrátt fyrir það að árið 1943 væri heldur hryssingslegt boðaði það ekki enda hlýskeiðsins mikla. Næsta árið undir meðaltalinu 1961 til 1990 kom ekki fyrr en 1949, síðan 1951 og þá ekki aftur fyrr en 1966 að skipti gjörsamlega um tíðarfar.
En Þormóðsveðrið? Við lítum á tillögu bandarísku endurgreiningarinnar.
Línurnar á kortinu sýna hæð 1000 hPa-flatarins í metrum. Auðvelt er að breyta gildum í hPa, -240 eru 970 hPa, línur eru dregnar á 40 metra bili en það jafngildir 5 hPa.
Lægðin kom daginn áður að Vestur-Grænlandi, skaut anga inn á Grænlandshaf. Þá hvessti af suðri og suðaustri með snjókomu, slyddu og síðan rigningu. Þá gerðist sjaldgæfur atburður. Snjóflóð féll úr brekkunni syðst í Fjörunni á Akureyri og skemmdi íbúðarhús. Sömu nótt féll snjóflóð við Skjaldarstaði í Öxnadal og lenti á fjárhúsum og drap 25 kindur. Hlákan var mjög snörp, síðla aðfaranótt þess 16. fór frost á Akureyri í 16,5 stig, enn var frost kl.15 (1,5 stig), en 5 stiga hiti kl.18 og hiti fór í 8,6 stig kl.3 aðfaranótt 17., hafði þá stigið um 25,1 stig á sólarhring. Kl.15 þ.17. var aftur komið frost.
Eftir að skil lægðarinnar fóru yfir þann 16. gerði allhvassa suðvestanátt sem síðan bætti smátt og smátt í þegar leið á kvöldið og lenti Þormóður þá í mótbyr og sennilega brotum. Skipið fórst þá um nóttina. Vestanveðrið færðist í aukana þegar kom fram á daginn þann 17. og náði hámarki í Reykjavík um kvöldið. Þá voru talin 9 vindstig frá því milli kl. 17 og 21 og fram yfir kl. 6 morguninn eftir (þ.18.). Gekk þá á með dimmum hríðaréljum.
Lægðin hélt áfram að dýpka og fór niður undir 950 hPa langt norðaustur í hafi aðfaranótt þess 18. Djúp og kröpp lægð fór síðan yfir landið aðfaranótt þess 19. og var þá aftur stormur og mikið illviðri víða um land.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.12.): 132
- Sl. sólarhring: 182
- Sl. viku: 3189
- Frá upphafi: 2424684
Annað
- Innlit í dag: 111
- Innlit sl. viku: 2873
- Gestir í dag: 104
- IP-tölur í dag: 104
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010