Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Lægðardrög úr norðvestri

Eftir helgina stefna hingað tvö lægðardrög úr norðvestri - þess fyrra fer að gæta á sunnudagskvöld. Styrkur og stefna þessara lægðardraga skipta miklu fyrir veður hér á landi í vikunni. Það hringlar dálítið í reiknimiðstöðvum frá einni spárunu til annarrar. Við lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á sunnudagskvöld (20. október) - fyrst 500 hPa hæðar og hitaspá.

w-blogg191013a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar, hiti er sýndur í litum og sömuleiðis má sjá hefðbundnar vindörvar - öll smáatriði sjást mun betur við stækkun. Suðvestanátt lægðardragsins ríkir yfir mestöllu Íslandi og Grænlandssundi. Lægðardragið er fullt af köldu lofti og þess vegna gætir suðvestanáttarinnar lítið sem ekki við sjávarmál heldur er norðaustanstrekkingur milli Vestfjarða og Grænlands. Við skulum ekki alveg gleyma söðulpunktinum fyrir sunnan land. Austan við hann er hæg sunnan- og suðaustanátt sem ber rakt og hlýtt loft til norðurs - en hikandi þó.

Lægðardragið teygir sig beint til suðurs á mánudag og þá birtist annað yfir Grænlandi og tekur það síðan völdin.

Kortið að neðan sýnir þrýsting, vind og úrkomu við sjávarmál og hita í 850 hPa-fletinum (strikalínur).

w-blogg191013b

Hér má sjá talsverða úrkomuklessu við Suðausturland á leið vestur. Úrkomusvæðið fyrir norðan land tengist hins vegar háloftalægðardraginu og dregst með því til suðurs - með vindi í neðstu lögum en á móti háloftavindi. Við segjum - til mikilla þæginda - að úrkomusvæði hreyfist en ættum strangt tekið að tala um hreyfingu góðra skilyrða til úrkomumyndunar. - Heldur óþjált það.

Þetta fyrra lægðardrag er ekki sérlega kalt - en þó er meir en -10 stiga frost að þvælast í kringum miðlínu í Grænlandssundi. Það snjóar líka á hálendi suðaustanlands. Spurning hversu hátt yfir sjávarmáli. Hvað síðara lægðardragið gerir verður að líka að koma í ljós - því fylgir kaldara loft.


Hauststillur á heimskautaslóðum

Það er ekki aðeins hér á landi sem veður eru hæg um þessar mundir. Víðast hvar á norðurslóðum gegnir sama máli. Það er helst að órói sé á N-Kyrrahafi. Rólyndið sést vel á kortinu hér að neðan en það er úr garði evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir um hádegi á laugardag (19. október).

w-blogg181013a

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting, jafnþrýstilínur heildregnar en litafletir greina frá hita í 850 hPa-fletinum - um 1500 metra yfir sjávarmáli. Þrýstilínurnar eru hvergi mjög þéttar nema helst við jaðar hlýja loftsins suður af Íslandi (neðri örin bendir á landið) og við lægðina sem er við Kólaskaga. Sú hefur valdið töluverðri snjókomu í Norður-Noregi undanfarna daga, snjódýpt mældist 15 cm við veðurstofuna í Tromsö í morgun.

Við Ísland er enn hlýr blettur á laugardag (gula svæðið). Óvenjuleg hlýindi eru í Alaska og til þess er tekið að frostlaust hefur verið dag og nótt t.d. í Fairbanks - legið hefur við metum. En það endist að sjálfsögðu ekki til frambúðar. Efri örin bendir á norðurskautið. Dekksti blái liturinn sýnir svæði þar sem hiti er á bilinu -16 til -20 stig.

Einnig er rólegt í háloftum norðurslóða. Það sýnir kortið hér að neðan sem líka gildir um hádegi á laugardag. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar en þykktin er sýnd í litum. Kvarðinn batnar mjög við stækkun.

w-blogg181013b

Ísland er enn í hæðarhrygg sem liggur frá Skotlandi vestur um Grænland til Labrador. Furðuhlýtt er enn yfir Kanadíska heimskautaeyjaklasanum en kuldapollur við norðurskautið er að sækja í sig veðrið. Í grunninn myndast norrænir kuldapollar þannig að loft kólnar við útgeislun og dregst þar með saman og þykktin minnkar og hæð háloftaflata lækkar. Smám saman bætast fleiri og lægri jafnhæðarlínur við þær sem fyrir eru. Við það vex vindur í háloftum og bylgjur fara að myndast.

Á þessu korti sjáum við nokkrar smábylgjur við norðurjaðar hæðarhryggjarins yfir Grænlandi. Spár gera helst ráð fyrir því að ein eða tvær þeirra vaxi svo að þær nái suður til Íslands og valdi hér bæði vaxandi vindi og kólnandi veðri eftir helgina. En heldur er þetta samt óráðið ennþá.


Tæplega óvenjulegt

Fyrri hluti október er búinn að vera þurr víðast hvar á landinu og sérstaklega þó á Vesturlandi. Úrkoman í Stykkishólmi er innan við 10% af því sem er að meðaltali fyrri hluta mánaðarins og innan við þriðjungur í Reykjavík. Það fer að verða athyglisvert að fylgjast með framhaldinu - hvert úthaldið verður. Úrkoman er þó ólík hitanum að því leyti að einn úrkomudagur getur rétt mánaðarsummuna af - en meðalhiti mánaðar getur aldrei ráðist af einum degi.

Hitinn er það sem af er lítillega ofan við meðaltalið 1961 til 1990 en ívið undir meðallagi síðustu 10 ára. Á Vestfjörðum hefur hins vegar verið hlýrra en að meðaltali síðustu árin.

Loftþrýstingur hefur verið hár, í Reykjavík nærri 10 hPa yfir meðallagi síðustu 10 ára. Talsvert vantar hins vegar upp á metin þar. Loftþrýstingur í næstu viku verður að sögn reiknimiðstöðva heldur lægri en í þeirri sem er að líða þannig að litlar líkur eru á háþrýstimetum.

Fyrir sunnan land er ákveðin austanátt í norðurjaðri mikils lægðasvæðis. Það virðist ekki breytast mikið næstu daga. Fyrir norðvestan land skiptast á hæg norðaustanátt og hálfgerð áttleysa. Á morgun (fimmtudag) hefur norðaustanáttin þó vinninginn. Kortið að neðan gildir kl. 18 og sýnir þrýsting, úrkomu, vind og líka hita í 850 hPa (strikalínur).

w-blogg171013a

Þessi staða er mjög algeng, loft kemur úr austri meðfram Norðurlandi og líka meðfram suðurströndinni - en skjól er vestan við land. Þar geta þá myndast lítil úrkomusvæði - í flóknu samstreymi. Vindar hærra uppi ráða miklu um þróun þessara úrkomusvæða og geta þau orðið mjög öflug ýti háloftavindarnir undir þróun þeirra.

Á kortinu sýnir evrópureiknimiðstöðin lítið úrkomusvæði við Snæfellsnes - spurning hvort það sýnir sig í raunheimum.

Harmonie-líkanið sýnir úrkomuna líka - og gildir kortið hér að neðan líka kl.18.

w-blogg171013b

Hér er sunnanátt úti af Faxaflóa en áttleysa á Breiðafirði og norður með Vestfjörðum vestanverðum. Enn minna úrkomusvæði er úti af Mýrdal.


Á tvímánuði - fimmta sumarmánuði íslenska tímatalsins

Tvímánuður er fimmti í röð sumarmánaða gamla íslenska tímatalsins, byrjaði í ár 27. ágúst en endaði 25. september. Þá tók haustmánuður við og stendur enn. Eins og í fyrri pistlum sem tileinkaðir eru þeim bræðrum íslensku mánuðunum lítum við á hitafarið. Fulltrúi þess er sem fyrr morgunhitinn í Stykkishólmi, en hann eigum við á lager allt frá því 1. nóvember 1846 (að undanskildum síðustu 5 mánuðum ársins 1919).

w-blogg161013a

Á heildina litið virðist síðari hluti 19. aldar hafa verið tiltölulega flatur en hlýindaskeiðið á 20. öld sést vel. Það stóð í þessum mánuði fram til 1962 en þá fara mjög kaldir mánuðir að detta aftur inn. Einn slíkan má þó sjá á hlýindaskeiðinu miðju, 1940, á milli hinna ofurhlýju tvímánaða 1939 og 1941. Tvímánuður 1979 er sá kaldasti á öllu tímabilinu, en 1996 næsthlýjstur. Á þessari öld hefur tvímánuður verið hlýr og þótt mánuðurinn hafi tvö síðustu árin (2012 og 2013) talist kaldur í þeirri sveit eru kuldinn samt ekki svo skæðir miðað við það sem algengt var fyrir 20 árum.

Þegar komið er fram í september fara skýjaðir mánuðir að verða hlýrri en sólríkir um landið sunnanvert. Þetta má sjá á síðari mynd dagsins.

w-blogg161013b

Sólarminnsti tvímánuður sem vitað er um í Reykjavík var sá hlýi 1996 og 1939 er einnig neðarlega á blaði hvað sólskinsstundir varðar (ekki merktur sérstaklega). Við sjáum að sólríkast er á svipuðum tíma og kaldast var. Sólskinsstundir voru flestar á tvímánuði 2011 - ætti að vera enn í minningunni.


Hæðarhryggur

Hæðin sem færði okkur hlýindin um helgina slaknar smám saman - sérstaklega austan við land. Við njótum þó leifanna af henni í fáeina daga til viðbótar. Kortið hér að neðan gildir kl. 18 á morgun (þriðjudag 15. október) og sýnir hæð 500 hPa-flatarins og hitann í honum á svæðinu kringum Ísland.

w-blogg151013a

Landið er hér í söðli milli tveggja hæðarmiðja - í þeim báðum er flöturinn ofan við 5600 metra. Þegar best lét fór helgarhæðin upp í rúma 5800 metra. Næstu daga dregur meira úr austurhæðinni en þeirri vestan við. Það þýðir að við lendum í norðlægari átt heldur en verið hefur.

En við skulum aðeins horfa á hitasviðið sem sýnt er með litum á myndinni (kvarðinn batnar mjög sé kortið stækkað). Talan rétt sunnan við Ísland er -19,5 stig. Uppi í horninu til hægri er hitinn hins vegar -32 stig. Það er svosem ekkert sérstaklega lágt í þessari hæð. Vindhraði og vindátt er sýnd með hefðbundnum vindörvum. Það er hvasst í jaðri kalda loftsins, 25 til 30 m/s af norðvestri, enda eru jafnhæðarlínur þéttar.

Neðri hluti kortsins sýnir einnig nokkurn vind, 20 til 25 m/s af austri og austsuðaustri. Við skulum nú taka eftir því að í norðvestanáttinni eru bæði hæðar- og hitasvið brött, en í austanáttinni er hitasviðið flatara. Hvað segir þetta okkur um vind næst jörðu?

Það sést á næstu mynd, hún sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar svartar línur), vind og sitthvað fleira. Gildir hún á sama tíma og sú að ofan. 

w-blogg151013b

Hér sést vel að þrýstisviðið undir norðvestanáttinni á efra kortinu er nánast alveg flatt. Þar jafnar hitabratti þrýstibrattann. Kuldinn fyllir beinlínis upp í háloftalægðina (svo langt sem séð verður). Sunnan við land þar sem hitabratti var mun minni er vindur við jörð litlu minni heldur en í háloftunum. Þarna er ekki nægilega mikið af köldu lofti til að jafna þrýstimuninn út.

Auðvitað er margoft búið að minnast á samspil þrýsti- og hitasviðs hér á hungurdiskum - en örugglega ekki nógu oft. Haldi ritstjórinn útgerðina út verður síðar enn og aftur leitað á sömu mið. Þar er aflinn.

En ein mynd i viðbót sýnir ástandið á miðvikudagskvöld (að áliti evrópureiknimiðstöðvarinnar).

w-blogg151013c

Hér er hæðin komin vestur yfir Grænland og hefur lækkað um að minnsta kosti 30 metra. Norðanáttin sækir á og við sjáum hana bera kaldara loft til landsins. Hvernig það svo fer er auðvitað ekki samkomulag um meðal reiknimiðstöðva.


Hæðin heldur í nokkra daga - en kólnar

Hæðin mikla fyrir austan land hefur nú misst tengsl við hlýtt aðstreymi úr suðri og verður nú að lifa á því sem hún hefur þegar fengið. En hún er samt myndarleg á morgun (sunnudag) eins og sjá má á kortinu hér að neðan.

w-blogg131013a

Þetta er 500 hPa hæðar- og þykktarkort. Jafnhæðarlínur eru heildregnar en þykktin er sýnd með litum Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið Litakvarðann vantar á myndina, en mörkin á milli grænu og gulu svæðanna eru við 5460 metra og mörkin milli blárra og grænna við 5280 metra

Þykktin í hæðarmiðjunni er enn vel yfir 5520 metrum - það þykja góð sumarhlýindi hér á landi, en þegar sól lækkar á lofti njótum við mikillar þykktar síður - nema að vindur blási og blandi lofti að ofan niður undir sjávarmál. Næstu daga á hæðin að gefa sig frekar - henni er helst spáð reki til vesturs.

Við sjáum að kalda loftið er við Norður-Grænland. Lægðin þar á að fara til N-Noregs og veldur þar kulda þegar að því kemur. Þegar hæðin er komin vestur fyrir Ísland gæti kaldara loft komið hingað úr norðri. Eins og spár eru þegar þetta er skrifað virðist þó sem tiltölulega hlýr hæðarhryggur haldist í námunda við landið og haldi aftur af kalda loftinu. En á kortinu er þykktin yfir landinu í kringum 5500 metra - en lækkar niður undir 5300 metra þegar líður á vikuna.

Allt er þetta nokkuð hagstætt - svo lengi sem það endist.


Annar mjög hlýr dagur

Hámarkshiti dagsins á landinu (11. október) mældist 19,9 stig - nærri því það sama og í gær (20,3 stig). Í þetta sinn var það Neskaupstaður sem átti hæsta hitann - en Kollaleira í gær.

Kollaleiruhámarkið í gær var dægurmet fyrir 10. október en hámarkið í dag náði ekki að slá gamla dægurmet þess 11. - en munur er ómarktækur. Metið sem enn stendur er 20,0 stig sem mældust á Seyðisfirði árið 1975. Dægurmet þess 12. er 18,5 stig sett á þeim ólíklega stað Kjörvogi í Árneshreppi 1946 en met þess 13. er hins vegar nýlegt, 18,7 stig sem mældust á Dalatanga fyrir tveimur árum, 2011.

Það er ákveðin skemmtun í því þegar landsdægurmet falla - en er samt oftast ekki mikil tíðindi því væri hitafar alveg stöðugt mættum við búast við 4 til 6 nýjum slíkum hámörkum á ári hverju. Mánaðametin eru óhjákvæmilega merkilegri - þær tölur sem við höfum séð undanfarna daga hafa ekki ógnað októberhitametunum.

Landsmeðalhiti láglendisstöðva í dag (föstudaginn 11.) var 10,1 stig. Það er mjög gott fyrir október og nægir til þess að koma deginum í 36. sæti það sem af er ári. Meðalhitinn hefur ekki verið svona hár alveg síðan 24. ágúst, meðalhámarkið hefur ekki verið svona hátt síðan 10. september. Þetta er um það bil 2 stigum undir því sem mældist þá hlýjustu októberdaga sem við þekkjum frá fyrri árum. Þannig að við skulum ekki gera of mikið úr hitanum nú - hvað sem svo verður.

Í viðhenginu má sjá meðalhita allra daga ársins það sem af er - bæði fyrir láglendisstöðvar sem og allar stöðvar landsins. Yfir stutt tímabil - svosem eins og eitt ár getum við leyft okkur að bera saman meðaltal allra stöðva og láglendisstöðvanna án þess að hafa teljandi áhyggjur af breytingum á hlutfallslegum fjölda mælinga á hálendi og láglendi. Athugið þó að tölurnar eru óyfirfarnar og gætu útgildi því breyst - sérstaklega í september og október.

Áhugasamir geta límt töfluna inn í töflureikni og raðað á ýmsa vegu. Í ljós kemur að lengst af munar 0,8 til 1,3 stigum á meðaltali allra stöðva og láglendisstöðvanna en fáeinir dagar í júlí skera sig úr. Þetta er auðvitað hálendishitabylgjan mikla í sumar þegar hiti mældist þar hærri en vitað er um áður. Sjávarloft kældi þá ströndina - en ekki á sama stað frá degi til dags. Sjávarloftið nægði þó til að koma láglendismeðaltalinu niður fyrir meðaltal allra stöðva

En áfram er spáð hlýindum. Skorið verður á uppsprettu hlýindanna á sunnudag og næstu dagana þar á eftir verða þau að lifa á birgðum. Það þýðir að smám saman mun kólna - jafnvel þótt ekki sé gert ráð fyrir kuldainnrás fyrr en síðar


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óvenjuhlýtt

Hæðarhryggurinn sem var til umræðu í síðasta pistli er sannarlega hlýr. Hann skilaði dægurmeti fyrir landið 10. október en hiti mældist 20,3 stig á Kollaleiru í Reyðarfirði. Gamla metið, 19,2 stig, var sett á Teigarhorni 1937. Nokkuð gamalt sum sé.

Það má geta þess að talan frá Teigarhorni stóð sem opinbert met októbermánaðar alls í nokkur ár eða þar til 19,4 stig mældust á Húsavík 5. og 6. október 1944. Síðar kom í ljós að hiti hafði farið í 19,6 stig á Seyðisfirði á athugunartíma 6. október 1914 en þar var ekki hámarksmælir um það leyti. Hiti mældist í fyrsta skipti 20 stig á landinu þann 6. október 1959, líka á Seyðisfirði.

Síðan hefur hiti nokkrum sinnum náð 20 stigum í október, mestur mældist hann á Dalatanga þann 1. árið 1973, 23,5 stig. Þar sem talan er skráð kl. 6 um morguninn er þetta dæmi um mánaðamet sem smámunasömum þykja óþægileg. Fór hitinn í 23 stig fyrir eða eftir miðnætti, ef það gerðist fyrir miðnætti eiga 23,5 stigin heldur heima í september? En reglur eru reglur, í uppgjöri hámarks- og lágmarkshita byrjar október kl. 18 þann 30. september, allt eftir þann tíma heitir október.

En auðvitað vildum við helst fá hærri tölu örugglega inni í október - og bíðum enn. Annars fór hiti í 20 stig eða meira á að minnsta kosti 5 stöðvum 1. og 2. október 1973 sem þýðir að Dalatangatalan er vel studd.

Tuttugustigin (20,3) á Kollaleiru í dag eru þau fyrstu á landinu síðan 19. október 2007. Það dugir þó ekki í októbermet á staðnum, hiti hefur mælst hærri í október bæði á sjálfvirku stöðinni (21,1 stig 26. október 2003) og á þeirri mönnuðu (20,9 stig 15. október 1985).

En hlýindunum er ekki lokið. Ef trúa má spám eiga þau að endast að minnsta kosti fram á sunnudag. Mættishiti í 850 hPa verður yfir 20 stigum alla dagana yfir hluta landsins að minnsta kosti. Þegar þetta er skrifað (á fimmtudagskvöldi) er óljóst hvort sunnan- og vestanvert landið njóta góðs af - eða sitja áfram í ívið kaldara lofti undir öflugum hitahvörfum. Það er þó varla hægt að kvarta undan því. En dægurhámörk um þetta leyti árs í Reykjavík eru í kringum 14 til 15 stig.

Í viðhenginu er tafla sem sýnir hæstu hámörk hita í einstökum þrýstiflötum yfir Keflavík á árunum 1993 til 2012.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

og óvenjuhlýr hæðarhryggur tekur við

Kalsalægðardragið er nú (á þriðjudagskvöldi) um það bil komið austur af. Snjókoman hér á höfuðborgarsvæðinu var óvenjumikil miðað við það sem gerist snemma í október. Þó má rifja það upp að í október 2008 og 2009 snjóaði hér mjög snemma í mánuðinum - en hitti þá ekki eins vel í mælitímann eins og nú. En hvað um það - kalsinn er að fara hjá og hlýrra tekur við.

Hlýja loftið á ekki eins auðvelt með að stugga því kalda á brott og það kalda að stugga við hlýju. Best gengur það í hvössum vindi - annars vill hlýja loftið bara renna yfir það kalda. Þannig verður það að mestu á morgun (miðvikudag). Kalda loftið ræður langt fram eftir degi - og sólin er farin að lækka svo á lofti að hún hjálpar lítið til. En mjög hlýr hæðarhryggur nálgast samt úr suðvestri.

Við lítum á tvö kort sem gilda kl. 18 síðdegis á fimmtudag. Það fyrra er þykktarkort frá evrópureiknimiðstöðinni.

w-blogg091013a

Hér nær breið hlý tunga um mestallt kortið. Jafnþykktarlínur eru heildregnar. Yfir Austurlandi er hámarksþykktin meiri en 5560 metrar en það þykir bara nokkuð gott að sumarlagi. Litafletirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Ef vel er skoðað má sjá 12 stig norðan Vatnajökuls - það er í 1500 metra hæð. Enda er mættishitinn þar 27 stig. Við bíðum með að trúa því að þetta sé rétt - enda um smáatriði í líkaninu að ræða.

Októbermet í þykkt yfir Keflavíkurflugvelli er rúmlega 5580 metrar - á kortinu er hún um 5530 metrar þar um slóðir þannig að nokkuð er í met. Mesti hiti sem frést hefur af í 850 hPa yfir Keflavík í október er 10,8 stig. Svo hátt fer hann varla nú.

Framhaldið ræðst svo á föstudag/laugardag. Þá kemur í ljós hvort hryggurinn heldur og verður að nokkurra daga fyrirstöðu. Það hefur ekki verið mikið um slíkt upp á síðkastið.

En síðari myndin sýnir hæð 500 hPa-flatarins og hita í honum á sama tíma og kortið að ofan gildir, kl. 18 á fimmtudag. Er þetta kort fyrst og fremst sett hér til samanburðar við kalsakortið sem fylgdi pistli gærdagsins.

w-blogg091013b

Hæsti hiti í námunda við landið er -13 stig. Októberhitametið yfir Keflavíkurflugvelli er -11 stig.


Kalt lægðardrag fer mjög hratt hjá

Þriðjudagurinn fer í það að koma köldu lægðardragi úr vestri suðaustur yfir landið. Því fylgja él eða snjókoma eða slydda á Suður- og Vesturlandi. Allt frekar flókið með smálægð undan suðurströndinni en lægðardragi við landið vestanvert. Þetta er frekar hráslagalegt - en samt venjulegt.

w-blogg081013a

Við getum talað um hitann með því að tala um þykktina. Kortið gildir kl. 18 á þriðjudag. Jafnþykktarlínur eru heildregnar en hiti í 850 hPa er sýndur í litum. Þykktin segir til um meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs, frá rúmum 5 kílómetrum og niður. Því minni sem hún er því kaldara er loftið. Það er 5220 metra jafnþykktarlínan sem liggur rétt suður af Reykjanesi.

Það er nægilega kalt til þess að gera verður ráð fyrir snjókomu - en í vindi sem stendur af hafi líður snjókomu ekki vel sé þykktin meiri en 5200 metrar, nema að úrkoma sé áköf (alltaf þetta „nema“).  Hér er kalt í 850 hPa-fletinum og frostið þar á bilinu 6 til 8 stig yfir öllu landinu vestanverðu. Þegar 850 hPa hitinn er undir -5 stigum er talið líklegt að úrkoma falli sem snjór (segir ágæt þumalfingursregla).

Sé rigning áköf og vindur hægur aukast líkur á að hún breytist um síðir í snjókomu. En - bleyta breytist líka í ís í björtu veðri - t.d. á aðfaranótt miðvikudags. Við ættum að hafa hálkuna í huga - reyndar eigum við alltaf að hafa hana í huga.

Lægðardragið sést mjög vel á 500 hPa-kortinu hér að neðan. Það gildir á sama tíma og þykktarkortið. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - en hiti er sýndur með litum. Hefðbundnar vindörvar sýna vindátt og styrk.

w-blogg081013b

Hér er lægðardragið yfir landinu vestanverðu - en mikill norðvestanstrengur er vestan við það. Það er þumalsfingurregla að sé styrkur vindstrengsins mestur í bakið á mestu lægðarbeygju í lægðardrögum vill lægðardragið grafast til suðurs eða suðausturs og mynda þar lokaða lægð. Þannig er háttað nú. Dragið myndar háloftalægð sem smám saman dýpkar og rennur suðaustur til Bretlandseyja. Allt verður þar til leiðinda næstu daga.

Lægðardrög þar sem beygjan fylgir í bakið á vindhámarkinu vilja hins vegar lyftast (sem kallað er) - taka á skrið, grynnast og reyna að elta vindstrenginn. Allt er þetta þó þumalsfingursboðskapur sem við þurfum svosem lítið á að halda nú á dögum - en var raunverulegt hey í tölvuleysisharðindum fyrri tíðar. Lesendur þurfa því ekki að íþyngja sér með fleiri þumalfingrum. En ritstjórinn er samt sífellt að minnast á þetta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1031
  • Sl. sólarhring: 1116
  • Sl. viku: 3421
  • Frá upphafi: 2426453

Annað

  • Innlit í dag: 919
  • Innlit sl. viku: 3075
  • Gestir í dag: 892
  • IP-tölur í dag: 826

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband