Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Af suðurhveli snemma í október

Við skulum nú líta á veðurkort sem sýnir ástandið á suðurhveli jarðar um þessar mundir - á sama spátíma og norðurhvelskortið sem við litum á í síðasta pistli, mánudaginn 7. október kl.18. Spáin er úr bandaríska gfs-líkaninu.

Byrjun október á suðurhveli samsvarar nokkurn veginn aprílbyrjun hér á norðurslóðum. Vetur er enn í fullum gangi en úr þessu fer að vora.

w-blogg071013a

Lítið s er sett við suðurskautið. Syðstu angar meginlanda eru merktir á kortið. Lengdarbaugurinn 20°V er einnig merktur - sé þar haldið beint til norðurs lendum við um síðir á Íslandi. Hvíta stjarnan (sést betur sé kortið stækkað) er sett á 20. lengdarbauginn nærri 65°S (Ísland er á 65°N - hrikalega norðarlega).

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins, jafnhæðarlínur eru heildregnar og þykktin er táknuð með litum, rétt eins og á norðurhvelskortunum sem við höfum oft fjallað um. Heimskautaröstin syðri ólmast í kringum kalda svæðið og ber lægðir og skilakerfi í endalausri röð til austurs. Bláa svæðið (5280 metra þykkt) nær hvergi til meginlandanna. Fjólubláa svæðið er í þessu tilviki einskorðað við hálendi Suðurskautslandsins og gæti tilvera þess verið sérvisku gfs-líkansins að kenna (ritstjórinn er þó ekki viss).

Við norðanmenn eigum erfitt með suðurhvelskort. Það stafar aðallega af því að á þeim er lægri þrýstingur til hægri við vindstefnu en ekki til vinstri við hana eins og á norðurhveli. Svigkraftur jarðar leitast við að snúa hreyfingu til vinstri syðra - en til hægri á okkar slóðum. Þetta gerir öll veðurkort heldur framandi í okkar augum.

Þetta stafar af því að vestanáttin - bæði á suður- og norðurhveli er í stefnu snúnings jarðar. - Ef við gætum horft á suðurhvelskortið frá sama stað og við venjulega horfum á norðurhvelið - en „niður“ í gegnum jörðina kæmi í ljós að vindur snýst í kringum lægðir suðurhvels rétt eins og hjá okkur - með lægri þrýsting á vinstri hlið.

En að horfa á suðurhvelið innanfrá gerir auðvitað enginn - við horfum „niður“ á suðurskautið á kortinu að ofan. Flest veðurkort af suðurhveli sýna bara hluta hringsins. Til að ná áttum verðum við fyrst að snúa þeim á haus (þannig að stefna til miðbaugs verði niður) og síðan standa með þau fyrir framan spegil til að rétta vestur og austur aftur af. Þá fellur allt í kunnuglegan farveg - lægðir og skilakerfi taka á sig norrænan svip.

En til þess að njóta korts eins og þess að ofan til fulls þarf að horfa á mörg - og á öllum árstímum. Lesendur þurfa ekki að óttast það að ferðir til suðurhvels reglubundin á þessum vettvangi. - En hollt er að horfa á eitt þeirra.


Af norðurhveli snemma í október

Kuldi er ekki enn farinn að ná sér á strik á norðurslóðum enda varla við því að búast. Það var ekki heldur um þetta leyti í fyrra. Enn er haust en ekki vetur.

w-blogg061013

Kortið sýnir að vanda hæð 500 hPa-flatarins með heildregnum línum. Því þéttari sem þær eru því hvassari er vindurinn. Litafletir sýna þykktina en hún segir til um hita í neðri hluta veðrahvolfs - einingin er dekametrar (1 dam = 10 metrar). Kortið batnar mjög við stækkun. Spáin gildir kl. 18 á mánudag.

Það er þó ekkert mjög langt í kalda loftið frá okkur séð. Einn af stærri kuldapollunum er við Vestur-Grænland. Frostlaust eða frostlítið var í dag (laugardag) í flestum byggðum Grænlands - þar kólnar því til mánudags. Lægðardragið á vestanverðu Grænlandshafi fer til austurs og hér á landi kólnar með því.

Nú er gert ráð fyrir því að þykktin fari niður í um 5200 metra á þriðjudag en hún verður fljót upp aftur þegar lægðardragið er komið hjá. Smálægð fylgir háloftalægðardraginu ef þessi spá rætist og væntanlega einhverjir éljabakkar.

Hæðarhryggurinn sem á kortinu er við Labrador fer líka austur og nær til okkar á miðvikudag og ku hlýrra loft að fylgja í kjölfarið.


Þrjú hlý tímabil

Enn er rætt um landsmeðaltal hita og vaðið á súðum. Á löngum tíma er mikill órói í veðurstöðvakerfinu. Þegar hiti til langs tíma er reiknaður er léttara að fást við meðaltöl sömu stöðva á sem lengstu tímabili frekar en þær allar. Það sem hér fer að neðan byggir á meðaltali 26 stöðva um land allt. Munur á því og þeim meðaltölum sem hungurdiskar hafa fjallað um að undanförnu er reyndar lítill - en það er ekki viðfangsefni dagsins.

Hér verður hitafar þriggja hlýrra tímabila borið saman, þau hlýjustu sem við þekkjum úr mælisögunni. Fyrst er að telja það hlýskeið sem enn stendur yfir, 1998 til 2013. Í öðru lagi er fyrsti toppur tuttugustualdarhlýskeiðsins mikla, við veljum árin 1928 til 1943 til að vera með jafnlangan tíma í takinu. Árið 1943 kom tímabundið hik á hlýindin. Mjög hlýtt var einnig um miðjan fimmta áratuginn en síðan kom talsvert bakslag árið 1949 og stóð til 1952. Þá náðu hlýindin sér aftur á strik (nema á sumrin) þar til hafísárin svokölluðu gengu í garð 1965.

w-blogg051013

Við hugsum ekkert um leitni, hún ræðst algjörlega af vali gluggans. Það sem skiptir máli eru yfirburðir hlýindaskotsins 2002 til 2004 og sömuleiðis hinn litli breytileiki eftir 2005. Á hinum hlýskeiðunum báðum teygja hæstu tindar sig upp í um 5 stig hvað eftir annað en detta þess á milli sífellt niður fyrir 3,5 stig. Núverandi hlýindi eru ákaflega sérstök hvað þetta varðar.

Nú er spurningin hvort flatneskjan endar í dýfu eða nýju hlýskoti upp úr flatneskjunni. Sagan segir okkur að annað hvort er óumflýjanlegt.

Þáttur hnattrænnar hlýnunar er undirliggjandi en sést ekki á þessari mynd og ekki nema mun lengra tímabil sé lagt undir. Hérlendis gæti verið um 0,7 stig á öld að ræða. Sá er t.d. munurinn á brokkgengu hlýskeiði 19. aldar og 20. aldarhlýskeiðinu og jafnframt munur á 19. aldarkuldaskeiðinu langa og síðtuttugustualdarkuldaskeiðinu sem fjölmargir muna. Munurinn á hæstu tölunni (1941) og toppinum 2003 er 0,26 stig - það samsvarar 0,4 stigum á öld. Munurinn á lægstu tölu dældarinnar 1940 og lægstu tölunni 2005 er 0,24 stig - líka um 0,4 stig á öld. En - einstakir toppar eru einskær tilviljun.


Af tveimur stöðvakerfum

Nú fer mönnuðum veðurstöðvum ört fækkandi. Þetta er þróun sem á sér stað um allan heim. Sjálfvirkar athuganir taka við. Ástæður þessara breytinga eru bæði faglegar og fjárhagslegar. Sjálfvirkar stöðvar eru talsvert ódýrari í rekstri heldur en þær mönnuðu. 

Sjálfvirk stöð tekur ekkert meira fyrir athuganir á nóttu heldur en á dagvinnutíma. Sömuleiðis munar litlu hvort gerð er ein athugun á dag eða 144 eins og nú er algengast. Sumt mæla sjálfvirku stöðvarnar betur en þær mönnuðu, t.d. eru vindmælingar betri, loftþrýstimælingar eru líka betri. Miklu meiri upplýsingar en áður fást út úr hitamælingum.

Úrkomumælingar eru að sumu leyti betri - þær eru alla vega mun ítarlegri. Hins vegar munar talsverðu á sjónrænum athugunum - en skyggnis- og skýjamælingar sjálfvirkra stöðva eru batnandi og einnig gengur þeim betur og betur að greina úrkomutegund. Tækin til að mæla þessa veðurþætti eru þó enn mjög dýr og blönk þjóð hefur víst að öðru að hyggja. Snjóhulu- og snjódýptarathuganir eru mögulegar sjálfvirkt - en talsvert vantar upp á að hægt sé að reiða sig á þær eingöngu.

En breytingarnar eru samt ekki auðveldar, sérstaklega þegar fjárhagsleg sjónarmið ráða miklu. Að skeyta saman mæliraðir stöðva beggja gerða á sama stað er aldrei hægt að gera umhugsunarlaust. Æskilegt er að samanburður fari fram. Sömuleiðis verður að hafa gát þegar meðaltöl/mælingar kerfanna tveggja eru borin saman.

Samanburðarmælingar hafa verið í gangi í um 15 ár og samtenging bæði landshita- og loftþrýstiraða nú möguleg. Vindathuganir beggja kerfa er sömuleiðis hægt að tengja saman á áreiðanlegri hátt heldur en hægt er að meta samfellu gamalla vindathugana við þær yngri. Einstakar stöðvar eru hins vegar erfiðari varðandi vindinn.

Við skulum til gamans bera eitt atriði hitamælinga kerfanna saman. Taka verður fram að myndin segir ekkert um veðurfarsbreytingar. Eins og í tveimur fyrri pistlum eru gögnin sett fram sem 365 daga meðaltöl. Það er einungis gert fyrir sérvisku ritstjórans en ekki er um einhverja bókhaldsreglu að ræða.

Athugað var hver lægsti og hæsti hiti landsins var á hverjum degi. Byrjað var 1. janúar 1995 en endað 30. júní í sumar (2013). Síðan var reiknað 365 daga meðaltal landsútgildanna hvors um sig og munur raðanna tveggja reiknaður og mynd teiknuð. Mönnuðum og sjálfvirkum stöðvum var haldið aðskildum og því eru tveir ferlar á myndinni. Rétt er að taka fram að aðeins er miðað við stöðvar í byggð.

w-blogg041013

Lárétti ásinn sýnir tíma. Fyrstu gildi eiga við 31. desember 1995 en það síðasta nær til 1. júlí 2012 til 30. júní 2013. Lóðrétti ásinn sýnir mun á hæsta hámarki og lægsta lágmarki í þeim sérstaka skilningi sem greint var frá að ofan. Við köllum þetta hitaspönn til hægðarauka.

Blái ferillinn á við sjálfvirku stöðvarnar en sá rauði við þær mönnuðu. Hitaspönnin er lengst af á milli 15 og 18 stig (ársmeðaltal).

Það sem vekur athygli er að spönnin á sjálfvirku stöðvunum hefur sífellt aukist en minnkað á þeim mönnuðu. Skýringin á þessari mismunandi hegðan liggur í stöðvakerfunum. Fyrstu tvö árin voru sjálfvirku stöðvarnar mun færri heldur en þær mönnuðu. Meðan á því stóð var líklegast að bæði hámarks- og lágmarkshiti dagsins væri mældur á mannaðri stöð.

Síðan fjölgar sjálfvirku stöðvunum mjög og árið 1998 er svo komið að landsspönnin er mjög svipuð í hvoru kerfi fyrir sig. Það ástand helst út árið 2003 - en þá byrjar mönnuðu stöðvunum að fækka svo um munar og hefur fækkunin haldið áfram síðan. Sjálfvirku stöðvunum fjölgaði fram til 2007 en þá dró mjög úr fjölgun.

Frá 2004 er líklegast að hæsti og lægsti hiti landsins mælist á sjálfvirkri stöð. Auðvitað kemur fyrir að mönnuðu stöðvarnar ná hærri eða lægri tölu - en þeim tilvikum fækkar sífellt.

Næsta öruggt má telja að spannarleitni á mönnuðum stöðvum stafi nánast öll af grisjun kerfisins. Hins vegar er ástæða vaxtar spannar sjálfvirku stöðvanna frá og með 2007 meira álitamál. Þeir sem vilja geta séð raunverulega aukningu - en aðrir sjá aðeins sveiflur í kringum gildið 17,5 stig.

En er einhver leitni í hámarks- og lágmarksröðunum fjórum, hverri fyrir sig? Við látum þá ormagryfju eiga sig að sinni.


Heldur kólnandi

Lægðardragið sem hefur verið yfir landinu undanfarna daga þokast nú austur af. Norðanáttin sem ætti að vera rétt vestan við það er þó ekki alveg tilbúin að taka við af alvöru. Fyrst þarf hún að bíða eftir því að háloftalægð úr vestri fari yfir landið.

w-blogg031013a

Kortið (evrópureiknimiðstöðin) gildir kl. 18 á fimmtudag (3. október) Jafnþrýstilínur eru heildregnar. Úrkoma er sýnd með grænum lit og einnig má sjá vindörvar og strikalínur segja frá hita í 850 hPa fletinum. Rauð ör sýnir hlýja sunnanáttina fyrir austan þrýstiflatneskjuna yfir Íslandi. Það er einna helst við Suðausturland að má finna lægðarmiðju - þær eru trúlega fleiri.

En úti af Vestfjörðum liggur norðaustanstrengur, nægilega kaldur til þess að líkanið telur úrkomuna vera snjó (krossar í litaflötum). Í strengnum er vindur á bilinu 15 til 20 m/s. Aðalveðurkerfi svæðisins sést þó ekki á þessu korti. Þetta er myndarleg háloftalægð og ræður öllu kortinu hér að neðan. En það gildir á sama tíma og kortið að ofan.

w-blogg031013b

Hér eru jafnhæðarlínur 500 hPa flatarins heildregnar en hiti sýndur með lit. Stækka má þetta kort sem hið fyrra og það verður mun skýrara. Háloftalægðarinnar gætir lítt sem ekki við jörð vegna þess að kalda loftið fyllir nokkurn veginn nákvæmlega upp í hana. Lægðin blæs sunnanvindi á móti norðaustanáttinni neðan við og tefur framrás kuldans. Það breytist um leið og lægðin fer yfir landið.

Þá gerist líka það að nýju lífi slær í lægðaraumingjann við Suðausturströndina, sú lægð fer þá til norðurs og á að dýpka töluvert fyrir norðaustan land. Stormur af norðri og norðvestri verður þá úti fyrir Norður- og Norðausturlandi - en vonandi nær hann ekki svo mjög inn á landi.

Áhöld eru um það hvort snjóa muni á láglendi í norðanáttinni, það fer m.a. eftir úrkomumagninu. Við látum Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila fylgjast með því - lesendum til einhvers bjargræðis. 


Keðjumeðaltalið - taka 2: Mannaðar og sjálfvirkar saman

Þótt áhugi hins almenna lesanda á þessu viðfangsefni virðist heldur takmarkaður skal haldið áfram. Aðeins eitt skref er tekið í dag. Við lítum á 365 daga meðaltal mönnuðu stöðvanna og berum það saman við þær sjálfvirku. Í báðum tilvikum eru teknar með allar stöðvar í byggð - alla daga.

w-blogg021013

Blái ferillinn sýnir meðaltal sjálfvirku stöðvanna (sá sami og á mynd gærdagsins), en sá rauði er meðaltal mönnuðu stöðvanna. Sjálfvirku stöðvarnar voru fáar til að byrja með, voru að meðaltali 30 árið 1997 en fóru yfir 100 stöðva markið seint á árinu 2006. Þeim hefur ekki fjölgað mikið síðan.

Mönnuðu stöðvarnar voru um 70 í upphafi tímabilsins, fækkaði síðan hægt fram til 2004, en þá datt fjöldinn niður fyrir 50. Eftir það hélt fækkun áfram og þær eru núna um 20.

Eins og sjá má eru ferlarnir nærri því eins - en ekki þó alveg. Þetta býr til ákveðið vandamál varðandi samfellu mælinganna. Við þekkjum hana - en í hvora áttina á að „leiðrétta“?

Landsmeðalhiti hefur verið reiknaður allt aftur á 19. öld - hugsanlegt er að hnika röðinni allan þann tíma. Hinn kosturinn er að hnika til meðaltali sjálfvirku stöðvanna næstu árin til samræmis við „gömlu“ röðina.

Eins og sjá má af myndinni er mannaða röðin lengst af lítillega kaldari heldur en sú sjálfvirka - að meðaltali munar hér 0,25 stigum. Lengi framan af er munurinn um 0,15 stig, við fækkunina 2004 jókst hann í um 0,3 stig, en svo vill til að framan af þessu ári eru raðirnar jafnar að kalla.

Þessi sýndarmunur veldur því að leitni mannaða hitans er örlítið meiri heldur en þess sjálfvirka, m.a. verður til lítilsháttar leitni til hlýnunar í mönnuðu röðinni eftir 2005.

Toppurinn mikli 2002 til 2004 er jafnógurlegur, munar um 2 stigum á grunni hans og tindinum. Við tókum út aldarhnatthlýnun á 2 árum - og hrukkum langleiðina til baka. Þetta ætti að sýna vel hversu varlega verður að taka skyndilegum hitabreytingum - ekki má kenna þær við eitt eða neitt. Hvað gerðist þarna var reyndar umfjöllunarefni margra gamalla pistla hungurdiska - þótt nær allir hafi gleymt því. Feitastur í þessu samhengi er sá sem birtist 27. október 2011 en þeir eru fleiri.


Hiti - 365 daga keðjumeðaltal

Við reiknum fyrst daglegan meðalhita allra sjálfvirkra stöðva í byggð og búum síðan til 365-daga keðjumeðaltal. Reikningarnir ná yfir tímabilið janúar 1995 til júlímánaðar 2013.

w-blogg011013-sj-medalhiti365

Lóðrétti ásinn sýnir hita - í þessu tilviki meðaltal 365 daga. Lengst til vinstri er 31. desember 1995. Ártölin eru alltaf sett í enda ársins - þegar allir dagar hafa gefið upp sinn meðalhita. Þetta á þó ekki við ártalið 2013 - því ári er ekki alveg lokið. Síðasta tala línuritsins á við 19. júlí 2012 til 18. júlí 2013. Stöðvasafnið var frekar gisið fyrstu 2 árin og rétt að hafa það í huga. 

Græna línan sýnir leitni tímabilsins. Hún segir okkur að hiti hafi hækkað um 0,9 stig á tímabilinu öllu. Nú mun hver líta sínum augum á línuritið. Fáir munu þó komast hjá því að sjá hversu afbrigðilegur hitinn virðist hafa verið 2002 til 2004, hann skellur snögglega á sem einskonar holskefla miðað við aðrar sveiflur - og hjaðnar líka hratt. Síðan kemur óvenjuleg flatneskja. Í langtímasamhengi er hún mjög óvenjuleg - venjulega ganga allstórir öldufaldar og öldudalir yfir með 2 til 5 ára millibili - meira að segja á fyrri hlýskeiðum 20. aldar.

Við munum síðar líta á fleiri myndir af þessu tagi.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 24
  • Sl. sólarhring: 60
  • Sl. viku: 515
  • Frá upphafi: 2343277

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 467
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband