Óvenjuhlýtt

Hæðarhryggurinn sem var til umræðu í síðasta pistli er sannarlega hlýr. Hann skilaði dægurmeti fyrir landið 10. október en hiti mældist 20,3 stig á Kollaleiru í Reyðarfirði. Gamla metið, 19,2 stig, var sett á Teigarhorni 1937. Nokkuð gamalt sum sé.

Það má geta þess að talan frá Teigarhorni stóð sem opinbert met októbermánaðar alls í nokkur ár eða þar til 19,4 stig mældust á Húsavík 5. og 6. október 1944. Síðar kom í ljós að hiti hafði farið í 19,6 stig á Seyðisfirði á athugunartíma 6. október 1914 en þar var ekki hámarksmælir um það leyti. Hiti mældist í fyrsta skipti 20 stig á landinu þann 6. október 1959, líka á Seyðisfirði.

Síðan hefur hiti nokkrum sinnum náð 20 stigum í október, mestur mældist hann á Dalatanga þann 1. árið 1973, 23,5 stig. Þar sem talan er skráð kl. 6 um morguninn er þetta dæmi um mánaðamet sem smámunasömum þykja óþægileg. Fór hitinn í 23 stig fyrir eða eftir miðnætti, ef það gerðist fyrir miðnætti eiga 23,5 stigin heldur heima í september? En reglur eru reglur, í uppgjöri hámarks- og lágmarkshita byrjar október kl. 18 þann 30. september, allt eftir þann tíma heitir október.

En auðvitað vildum við helst fá hærri tölu örugglega inni í október - og bíðum enn. Annars fór hiti í 20 stig eða meira á að minnsta kosti 5 stöðvum 1. og 2. október 1973 sem þýðir að Dalatangatalan er vel studd.

Tuttugustigin (20,3) á Kollaleiru í dag eru þau fyrstu á landinu síðan 19. október 2007. Það dugir þó ekki í októbermet á staðnum, hiti hefur mælst hærri í október bæði á sjálfvirku stöðinni (21,1 stig 26. október 2003) og á þeirri mönnuðu (20,9 stig 15. október 1985).

En hlýindunum er ekki lokið. Ef trúa má spám eiga þau að endast að minnsta kosti fram á sunnudag. Mættishiti í 850 hPa verður yfir 20 stigum alla dagana yfir hluta landsins að minnsta kosti. Þegar þetta er skrifað (á fimmtudagskvöldi) er óljóst hvort sunnan- og vestanvert landið njóta góðs af - eða sitja áfram í ívið kaldara lofti undir öflugum hitahvörfum. Það er þó varla hægt að kvarta undan því. En dægurhámörk um þetta leyti árs í Reykjavík eru í kringum 14 til 15 stig.

Í viðhenginu er tafla sem sýnir hæstu hámörk hita í einstökum þrýstiflötum yfir Keflavík á árunum 1993 til 2012.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Morgunblaðið 2. október 1973:

"24 stig í hnúkaþey.

Til þess að finna sambærilegan hita og var í fyrrinótt á Austurlandi, verður að leita allt til sunnanverðra Bandaríkjanna, þar sem í Evrópu mældist hvergi svo mikill hiti. Eitthvað á þessa leið sagði Knútur Knudsen, veðurfræðingur, er við leituðum frétta af óvenjulegum hita hér á landi á þessum tíma árs. Á Dalatanga mældist hitinn 24 stig, en fór niður i 23 stig með morgninum.

Astæðan fyrir þessum hita er suðvestlæg átt. Þegar vindurinn kemur upp að landinu, er hann 10 til 11° heitur, en þegar upp á Iandið kemur, hitnar loftið og myndast hnúkaþeyr. Getur loftið þá náð allmiklum hita. Um allt Ísland var hlýtt veður í gær, votviðrasamt á Suðvesturlandi, en þurrt á Norðausturlandi. A landinu sjálfu var ekki óvenjulegur hiti — aðeins á austurströndinni var unnt að tala um óvenjulegan hita." (http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1446800)

Var ekki kuldaskeið á Íslandi 1973? :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 11.10.2013 kl. 10:00

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Smá truflun á kólnuninni hans Hilmars :)

En jú það var frekar kalt á Íslandi um 1973 og meðalhitinn það ár var 4.0°C í Reykjavík á meðan 2013 stefnir í að verða nálægt 5 stigum sem telst bara nokkuð gott þrátt fyrir allt.

Veðuröfgar í nokkra daga segja ekkert um hvað er að gerast til lengri tíma. Skammvinn hlýindi geta komið á köldum tímabilum og kuldar geta komið á hlýjum tímabilum. Ágætt t.d. að hafa það í huga næst þegar kalda norðanáttin hellist yfir.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.10.2013 kl. 12:43

3 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Hilmar, veður er oftast tvískipt á Íslandi, og þess vegna notast maður við meðaltal.

Trausti, hvað var meðatalshiti á Íslandi í gær þann 10. sept.? Er það óvenjulega hátt í septembermánuði?

Pálmi Freyr Óskarsson, 11.10.2013 kl. 18:12

4 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Fimm stiga ársmeðalhiti hér í höfuðborginni telst nú alls ekki gott, Emil, nema við berum saman við kuldatímabilin undir lok 19. aldar og svo aftur frá 1965-95. Við búum jú við alheimshlýnun sem hefur verið sérstaklega mikiil frá og með 1998, eða er ekki svo?!

Undanfarið hefur meðalhitinn verið um 5,5 gráður þannig að um umtalsverða kólnun er að ræða.

Svo er októbermánuður núna en ekki september (til Pálma!)!

Torfi Kristján Stefánsson, 11.10.2013 kl. 18:36

5 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Úps!!!! Hvernig gat ég klikkað á mánuðinum. Takk fyrir leiðréttinguna Torfi.

Þannig að spurningin til Trausta átti að vera svona: Trausti, hvað var meðaltalshiti á Íslandi í gær þann 10. október, eða þá í dag 11. október? Er það óvenjulega hátt í októbermánuði?

Pálmi Freyr Óskarsson, 11.10.2013 kl. 19:30

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ef 5 stiga meðalhiti þykir ekki gott er það bara til marks um hve mikið hefur hlýnað og hversu góðu menn eru vanir. Meðalhitinn á hlýindaárunum margrómuðu 1930-1960 var einmitt tæp 5 stig í Reykjavík.

En það er samt talsvert eftir af árinu og ekki hægt að segja hvoru megin við 5 stigin við verðum í ár.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.10.2013 kl. 21:29

7 Smámynd: Trausti Jónsson

Pálmi, sjá pistil 12. okt.

Trausti Jónsson, 12.10.2013 kl. 01:54

8 identicon

Þú veist þetta eflaust betur en ég, Emil enda sérfræðingurinn en ekki ég. Þó vil ég benda á að samkvæmt opinberum tölum þá er meðalhiti fyrstu níu mánaða ársins hér í Reykjavík 0,6 stigum undir meðaltali síðustu 10 ára. Árið er í 31. til 32. sæti hlýindaára (miðað við mælingar frá 1871).

Þetta tel ég nú ekkert sérstakt í ljósi kenningarinnar um alheimshlýnunina.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 12.10.2013 kl. 12:46

9 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Torfi - yfirleitt er talað um hnattræna hlýnun, ekki "alheimshlýnun". Annað er að hitastig getur sveiflast töluvert á milli ára - sérstaklega staðbundið (veður á Íslandi t.d.). Eitt í viðbót, ef þú hefur meðaltal hita t.d. á Íslandi, þá máttu búast við að fá gildi fyrir ofan og neðan meðaltalið á milli ára - það er eðlilegt. Ég er viss um að við eigum eftir að upplifa köld ár á Íslandi áfram, hvað sem líður hnattrænni hlýnun af manna völdum (sem er rækilega skjalfest) - sjá t.d. Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra - staðan 2013

Sveinn Atli Gunnarsson, 12.10.2013 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 45
  • Sl. sólarhring: 315
  • Sl. viku: 1619
  • Frá upphafi: 2350246

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 1487
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband