Hæðarhryggur

Hæðin sem færði okkur hlýindin um helgina slaknar smám saman - sérstaklega austan við land. Við njótum þó leifanna af henni í fáeina daga til viðbótar. Kortið hér að neðan gildir kl. 18 á morgun (þriðjudag 15. október) og sýnir hæð 500 hPa-flatarins og hitann í honum á svæðinu kringum Ísland.

w-blogg151013a

Landið er hér í söðli milli tveggja hæðarmiðja - í þeim báðum er flöturinn ofan við 5600 metra. Þegar best lét fór helgarhæðin upp í rúma 5800 metra. Næstu daga dregur meira úr austurhæðinni en þeirri vestan við. Það þýðir að við lendum í norðlægari átt heldur en verið hefur.

En við skulum aðeins horfa á hitasviðið sem sýnt er með litum á myndinni (kvarðinn batnar mjög sé kortið stækkað). Talan rétt sunnan við Ísland er -19,5 stig. Uppi í horninu til hægri er hitinn hins vegar -32 stig. Það er svosem ekkert sérstaklega lágt í þessari hæð. Vindhraði og vindátt er sýnd með hefðbundnum vindörvum. Það er hvasst í jaðri kalda loftsins, 25 til 30 m/s af norðvestri, enda eru jafnhæðarlínur þéttar.

Neðri hluti kortsins sýnir einnig nokkurn vind, 20 til 25 m/s af austri og austsuðaustri. Við skulum nú taka eftir því að í norðvestanáttinni eru bæði hæðar- og hitasvið brött, en í austanáttinni er hitasviðið flatara. Hvað segir þetta okkur um vind næst jörðu?

Það sést á næstu mynd, hún sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar svartar línur), vind og sitthvað fleira. Gildir hún á sama tíma og sú að ofan. 

w-blogg151013b

Hér sést vel að þrýstisviðið undir norðvestanáttinni á efra kortinu er nánast alveg flatt. Þar jafnar hitabratti þrýstibrattann. Kuldinn fyllir beinlínis upp í háloftalægðina (svo langt sem séð verður). Sunnan við land þar sem hitabratti var mun minni er vindur við jörð litlu minni heldur en í háloftunum. Þarna er ekki nægilega mikið af köldu lofti til að jafna þrýstimuninn út.

Auðvitað er margoft búið að minnast á samspil þrýsti- og hitasviðs hér á hungurdiskum - en örugglega ekki nógu oft. Haldi ritstjórinn útgerðina út verður síðar enn og aftur leitað á sömu mið. Þar er aflinn.

En ein mynd i viðbót sýnir ástandið á miðvikudagskvöld (að áliti evrópureiknimiðstöðvarinnar).

w-blogg151013c

Hér er hæðin komin vestur yfir Grænland og hefur lækkað um að minnsta kosti 30 metra. Norðanáttin sækir á og við sjáum hana bera kaldara loft til landsins. Hvernig það svo fer er auðvitað ekki samkomulag um meðal reiknimiðstöðva.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.5.): 26
 • Sl. sólarhring: 81
 • Sl. viku: 1494
 • Frá upphafi: 2356099

Annað

 • Innlit í dag: 26
 • Innlit sl. viku: 1399
 • Gestir í dag: 26
 • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband